Mál er ekki að linni

Þingmenn Pírata

Hanna Birna Kristjánsdóttir hefur loksins beðist lausnar sem ráðherra innanríkismála. Yfirlýsing ráðherrans til fjölmiðla í dag veldur þingmönnum Pírata hins vegar vonbrigðum.

Forherðing Hönnu Birnu er slík að hún krefst þess að “nú sé mál að linni” og reynir að ala á tortryggni gagnvart þeim aðilum sem hafa sýnt henni nauðsynlegt aðhald. Enn hefur hún hvorki sýnt iðrun né viðurkenningu á framferði sínu gagnvart Alþingi, lögreglu og síðast en ekki síst fórnarlömbum lekans sjálfs. Þingflokkur Pírata lítur svo á að það sé fjarri lagi að nú sé mál að linni, þar sem eftirmálar þess eru rétt að koma fram í dagsljósið. Skýrslu Umboðsmanns Alþingis er að vænta í næstu viku, þar sem fjallað er um möguleg afbrot ráðherrans í starfi og þá mun fráfarandi ráðherra þurfa að sitja fyrir svörum hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, eins og boðað hefur verið af formanni nefndarinnar. Frá því fær Hanna Birna Kristjánsdóttir ekki frí, þótt hún hyggist leggjast í hýði fram yfir áramót.

Þingflokkur Pírata hefur beðið með að leggja fram tillögu til vantrausts á ráðherrann frá því í sumar og sú bið hefur verið löng. Eftir að Umboðsmaður hóf athugun sína á afskiptum ráðherrans af störfum lögreglunnar ákvað þingflokkurinn að hinkra með vantrauststillöguna þar til niðurstaða umboðsmanns lægi fyrir.

Jafnvel þótt vantraust verði ekki rætt í þinginu úr þessu, er ljóst að málinu er ekki lokið af hálfu Alþingis, enda geta möguleg afbrot ráðherrans fráfarandi varðað ráðherraábyrgð lögum samkvæmt, þrátt fyrir að hún hafi nú sagt af sér.