Vanhæf þjóð?

gaFyrir örfáum árum vorum við með Búsáhaldabyltingu þar sem íslensk þjóð, sem seinþreytt er til vandræða, barði potta og pönnur af því að henni fannst nóg komið. Aðalslagorð þeirrar byltingar var “Vanhæf ríkisstjórn!” Hrökklaðist sú stjórn frá þegar ekki var lengur vært í þinghúsinu og stólarnir orðnir óþægilega heitir.

Í kjölfar þessa fengum við aðra fjórflokksstjórn, sú hneygðist til vinstri sem þótti ávísun á að nú yrði hugsað um almenning í landinu og hann settur í forgang. Ekki varð landanum að þeirri ósk sinni þar og skjaldborgin sem boðuð var um heimilin lét á sér standa. Á meðan missti almenningur eignir sínar í hendur bankanna og gerðist í stórum stíl í kjölfarið efnahagslegir flóttamenn í Skandinavíu.

Endurreisnin svokallaða gekk heldur hægt og þar sem Íslendingar eru ekki með þolinmóðari þjóðum var megn óánægja með þessa stjórn líka. Endaði vinstristjórnin á að verða síst hæfari í augum almennings en sú sem hann hafði losað sig við áður. Til að bíta höfuðið af skömminni guggnaði hún svo á að koma nýrri stjórnarskrá í gegn. En hafði hún verið unnin með aðkomu hins almenna borgara í bland við sérfræðinga, og var þjóðin þar með svikin um langþráðar lýðræðisumbætur.

Víkur þá sögunni að síðustu kosningum. Fram á sjónarsviðið steig Framsóknarflokkurinn með nýjan formann í fararbroddi. Sá sagðist skilja vanda almennings og hafði þungar áhyggjur af þeim byrðum sem honum hefði verið gert að axla. Boðaði formaðurinn að nú skyldi haldið í víking á hendur vondum útlendingum sem kallaðir væru hrægammar. Með því að láta þeim blæða skyldi gert myndarlega við heimilin með svokallaðri skuldaleiðréttingu. Einnig myndu finnast peningar til að endurreisa heilbrigðiskerfið og annað sem hafði verið látið dánkast.

Almenningur að sjálfsögðu tók þessu fagnandi og taldi að þarna væri fram kominn leiðtoginn mikli sem væri treystandi fyrir hag sínum. Einnig hafði Sjálfstæðisflokkurinn fundið sér Engeyjing til að halda um stjórnvölinn þar á bæ, og voru loforð þeirra síst minna heillandi.

Einhverjir voru samt svo óskammfeilnir að kokgleypa þetta ekki og spruttu nú upp allskonar flokkar ósáttra kjósenda. Einn slíkur flokkur nefndist Píratar og höfðu “húsmæður í Vesturbænum” fyrir satt að þeir vildu helst stela menningarefni af internetinu á meðan þeir reyktu hass.

Ekki voru þó allir sammála þessu og þó að Framsókn og Sjálfstæðisflokkur ynnu sætan sigur. Aðallega sökum þess að aðþrengdur almenningur var orðin langeygur eftir betri tíð, þá voru nokkrir sem greiddu Pírötum atkvæði sitt. Fengu þeir þrjá þingmenn kjörna, sem hafa verið hinu vanheilaga bandalagi helmingaskiptaflokkanna til óþurftar alla tíð síðan.

Eftir að hafa gætt sér á ýmsu góðmeti uppi í sveit gengu helmingaskiptaflokkarnir enn eina ferðina í eina sæng og mynduðu stjórn. Eitthvað stóð nú á efndum loforðanna, enda pizzupantanir meira mál en formaður Framsóknarflokksins hafði haldið, og leiðréttingin mikla varð heldur aum í flestum tilfellum – fyrir utan að ekki er séð fyrir endann á því hver borgar fyrir hana. Endurreisn heilbrigðiskerfisins gengur nú svona og svona, en kostnaðarvitund almennings er allavega í lagi þar sem hann borgar nútildags himinháar upphæðir fyrir að greinast með alvarlega sjúkdóma, og er því steinhættur að leika sér að slíku á kostnað ríkisins.

Nú erum við komin í seinni hálfleik kjörtímabilsins – og hér gerast undur og stórmerki!
Kári Stefánsson sem er áhugamaður um heilsufar almennings, hafði þungar áhyggjur af því að þrátt fyrir allan fagurgalann væri heilbrigðiskerfið samt sem áður ekki alveg að gera sig. Blés hann því til undirskriftasöfnunar til að fá úr því bætt og virðist hinn almenni borgari vera á sama máli og Kári, eða rétt um 85 þúsund þeirra.Telst það saga til næsta bæjar að svo margir Íslendingar séu sammála um nokkurn hlut!

Víkur nú sögunni til suðurhafa og þá sér í lagi eyjunnar Tortóla – ku sú eyja vera algjör paradís – en ótrúlegt en satt þá er það ekki sökum góðviðris né landgæða heldur skattalaga.

Alræmd kona nokkur, kölluð Gróa á Leiti hafði verið þar í heimsókn og rekist á svokallað aflandsfélag, sem við nánari eftirgrennslan reyndist tilheyra Framsóknarformanninum og hans ektakvinnu, sem þegar hér er komið sögu eru orðin bændur austur á landi í hjáverkum.
Formaðurinn varðist vasklega og benti á að hér væri allt í sómanum og engin undanbrögð á ferðinni, en kjósendur fóru að hugsa sinn gang. Sumir jafnvel gengu svo langt að vilja hrekja formanninn frá völdum og hafa nú yfir tæplega 14.000 manns lýst sig sammála því.

Gróa á nokkrar frænkur jafn forvitnar og þegar þetta spurðist út fóru þær á stjá og fundu slík félög út um allar koppagrundir bæði í Evrópu og í Indlandshafi. Þessi félög eru sögð í eigu ráðherra og annarra fyrirmanna sem að eigin sögn kannast bara ekki við neitt. Sannast hér hið fornkveðna að hægri hendin veit ekki hvað sú vinstri gerir. Milljónirnar virðast bara hafa tekið sig upp og lagst í útrás upp á sitt eindæmi án vitneskju eigendanna. Það er í það minnsta alveg greinilegt að þessu fé vantar hirði, það er allavega ekki á færi ráðherra sem sýsla með fjármál og dómsmál fyrir hönd almennings að hafa yfirlit yfir svona.

Þó að Jóhannes “útskýrari” hafir verið í yfirvinnu við að leiðrétta misskiling amennings á orðum formannsins, þá hefur sami almenningur farið að líta í kringum sig. Hafa sjónir hans í æ ríkari mæli beinst að Pírötunum þremur á þingi og félögum þeirra. Píratar hafa lagst í standhögg og herjað á hylli almennra kjósenda með góðum árangri. Þeir hafa líka reynst hafa stefnur í ýmsum málum öðrum en hassreykingum þegar vel var að gáð.

Nú er svo komið að hið virðulega Alþingi kemur aftur saman 4. Apríl, eftir að hafa eytt páskafríinu í súkkulaðiát og annað sukk. Þá fer að reyna á blessaða þjóðina enn og aftur. Boðað hefur verið til mótmæla og standa vonir til að almenningur sé búin að fá nóg af siðleysi og hreinum lygum. Til dæmis því að þrátt fyrir að vegsama krónuna við hvert tækifæri, hefur ráðherrum og öðrum fyrirmennum þó ekki fundist hún þess verð að standa á bak við heimilisfjármálin og því flýtt sér að koma mjólkurpeningunum fyrir í suðrænum sjóðum.

Þó að það sé náttúrulega hressandi að láta ljúga að sér, svíkja sig og láta svindla á sér reglulega, þá segi ég fyrir mína parta að ef Íslendingar gera ekki eitthvaða róttækt núna, þá erum við kannski ekki eingöngu með vanhæfa stjórnmálamenn heldur ættum við að gangast við því að vera vanhæf þjóð.

Posted in Uncategorized

Venjulega fólkið í Pírötum

gaUm daginn héldum við Píratar á Norðausturlandi aðalfund. Það er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi, heldur það að þarna komu saman yfir 40 manns úr 5 sveitarfélögum. Þetta var bara ósköp venjulegt fólk á öllum aldri, frá menntaskólafólki upp í eldri borgara. Það sem gerir þetta venjulega fólk óvenjulegt er að það var tilbúið til að koma saman og lýsa stuðningi við stjórnmálaafl sem í upphafi var frekar hlegið að heldur en tekið alvarlega.

Þetta er fólk sem þú sérð hvar sem er; kennarar, iðnaðarmenn, verkamenn, sjómenn, námsmenn, listamenn, öryrkjar, sem sagt bara fólk eins og þú og ég. Þetta er fólkið sem þarf að forgangsraða tekjunum, spáir í hvað maturinn kostar, hvað bensínið er dýrt og húsnæðið kostnaðarsamt.

Það sem þetta fólk á hins vegar sameiginlegt er að vera komið með nóg af spillingu, sviknum loforðum og siðleysi í samfélaginu og setur traust sitt á Pírata til að gera eitthvað í málunum.

Þrátt fyrir að vera ungur flokkur eru Píratar vel mannaðir. Við eru með hugsjónafólk og allskonar fagfólk og fólk sem er fullt af eldmóði til að breyta samfélaginu.

Okkur skortir sem betur fer svokallaða auðmenn og sjálfskipaðar Séð & Heyrt-stjörnur og ég vona að það breytist ekki. Við erum búin að sjá hvað gerist þegar svoleiðis fólk er við stjórnvölinn.

Posted in Uncategorized

Vandinn er stærri en vanhæfi

Í ljósi Wintris-málsins (einnig þekkt sem “Jómfrúarmálið”) hefur Jón Þór Ólafsson fyrrverandi þingmaður Pírata bent á eitt athyglisvert.

Sumarið 2015 samþykkti Alþingi frumvarp Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra um stjórnarráðið. Þar var að finna heldur viðamikla breytingu á fyrirkomulagi um siðareglur.

Í þágildandi lögum var ákvæði um samhæfingarnefnd um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna og var verkefni hennar, skv. 3. og 4. mgr. 25. gr. laga 115/2011 (eins og lögin voru um vorið 2015):

“Helstu verkefni samhæfingarnefndarinnar eru:
a. að stuðla að því að siðferðileg viðmið séu í hávegum höfð í opinberum störfum og veita stjórnvöldum ráðleggingar um ráðstafanir til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra og spillingu,
b. að veita umsögn um drög að siðareglum á grundvelli laga þessara og laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og gefa stjórnvöldum ráð um túlkun þeirra,
c. að beita sér fyrir upplýsingaöflun og fræðirannsóknum á málefnasviði nefndarinnar,
d. að stuðla að því að brugðist sé með samhæfðum hætti við ábendingum eftirlitsembætta Alþingis og öðrum tiltækum upplýsingum um brot á siðareglum eða hættu á spillingu hjá ríkinu,
e. að taka þátt í samstarfi við félagasamtök, stofnanir og embætti hér á landi og erlendis sem vinna gegn spillingu í opinbera geiranum,
f. að gefa forsætisráðherra árlega skýrslu um starf sitt þar sem komi fram ef ástæða þykir til tillögur til stjórnvalda um frekari aðgerðir til að efla traust á stjórnsýslu ríkisins, draga úr hættu á spillingu og vanda betur til verka í stjórnsýslunni. Skýrslan skal lögð fyrir Alþingi. Til þess að tryggja samræmi við störf umboðsmanns Alþingis og Ríkisendurskoðunar skal samhæfingarnefndin hafa reglulegt samráð við þau embætti.”

En í lok árs 2014 lagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra fram frumvarp þar sem þessu var breytt. Í stað þess sem stendur að ofan, ásamt fleiru, kom þetta:

“Forsætisráðuneytið gefur stjórnvöldum ráð um túlkun siðareglna þegar eftir því er leitað, stendur fyrir fræðslu um þær innan Stjórnarráðsins og fylgist með að þær nái tilgangi sínum. Til þess að tryggja samræmi við störf umboðsmanns Alþingis og Ríkisendurskoðunar skal ráðuneytið hafa reglulegt samráð við þau embætti.”

Í stuttu máli; út með samhæfingarnefndina, inn með vald forsætisráðherra yfir því hvernig túlka beri siðareglurnar.

Margir þingmenn, þ.á.m. þingmenn Pírata gagnrýndu þessa breytingu á sínum tíma en það vakti ekki mikla athygli. Allir viðstaddir þingmenn stjórnarandstöðunnar (þ.á.m. allir þingmenn Pírata) greiddu atkvæði gegn frumvarpinu.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson greiddi hinsvegar atkvæði með því og allir viðstaddir þingmenn meirihlutans.

Ég er ekki að fjalla um þetta til að vera leiðinlegur við neinn, hvorki forsætisráðherra né neinn annan. Það er lexía í þessu sem okkur ber að taka alvarlega: Við eigum að tortryggja valdeflingu yfirvalda. Við eigum að taka eftir því þegar forsætisráðherra leggur fram frumvarp sem eykur valdsvið og hlutverk hans og Alþingi samþykkir það af þeirri einu ástæðu að sömu flokkar mynda meirihluta Alþingis og ríkisstjórn.

Hafið þið áttað ykkur á því að undir núverandi fyrirkomulagi, þeim reglum sem stjórnkerfi Íslands byggir á og þeim hefðum sem hafa skapast, eru í sjálfu sér engar líkur á því að vantrauststillaga á hendur forsætisráðherra yrði samþykkt, þrátt fyrir það sem er komið fram? – Ég er ekki að mæla gegn vantrauststillögu, þvert á móti finnst mér hún þurfa að koma fram ef ekki kemur til afsagnar fyrir þann tíma (Alþingi kemur ekki aftur saman fyrr en 4. apríl, meðan ég man), en hafið þið virkilega áttað ykkur á því að líkurnar á því að hún verði samþykkt, jafnvel eftir þetta, og jafnvel með því ofangreinda, séu í sjálfu sér engar? – Það er ekki vegna þess að einhver ráðherra eða flokkur sé svo vondur, heldur vegna þess að við búum við fyrirkomulag sem virkar bölvanlega til lýðræðislegs aðhalds milli kosninga.

Það er auðvelt að dæma forsætisráðherra harkalega í þessari stöðu, en við megum ekki missa sjónar af undirliggjandi vandamálinu, því að þótt þetta sé óþolandi, þá er vandamálið samt sem áður hvorki persóna né kröfuhafi, heldur rótgróinn galli í kerfinu sem vald ráðamanna byggir á, í lýðræðisfyrirkomulaginu sjálfu.

Nánar til tekið, í stjórnarskrá.

Posted in Uncategorized

Af veiku fólki og veiku kerfi

gaSuma daga fallast mér nánast hendur. Það er ekki hægt að opna netið, blað eða annan miðil án þess að lesa um hörmungar fólks sem á við veikindi að stríða. Það kaldhæðnislegasta er að það eru ekki veikindin sem eru að buga þetta fólk, heldurheilbrigðiskerfið og kostnaðurinn við veikindin.

Við eigum frábært heilbrigðis starfsfólk. Það vinnur hins vegar bæði undir alltof miklu álagi og oft við heilsuspillandi aðstæður samanber mygluna á LHS. Aðstaðan á LHS er líka ekki til fyrirmyndar fyrir neinn, sjúklingar liggja í geymslum, salernum og á göngum sem er náttúrulega ekki boðlegt. Síst af öllu fyrir veikt fólk.

Það er líka sérstakt að þessa dagana eru alltaf í gangi safnanir fyrir fólk sem er veikt eða er með veik börn, þetta er bara birtingarmynd þess hvernig ástandið er. Veikt fólk eða fólk með veik börn á ekki að þurfa að treysta á aðstoð fólks út í bæ til að standa undir kostnaði. Ég er nokkuð viss um að við erum flest sammála um það.

En þetta er ekki allt og sumt. Hvað með þá sem búa úti á landi? Þeir þurfa ekki bara að eiga við erfið veikindi heldur einnig mikinn kostnað vegna ferða og uppihalds fjarri heimabyggð. Sjúkratryggingar Íslands greiða eingöngu 2 ferðir á 12 mánuðum til sérfræðings sem ekki er í heimbyggð, nema um alvarlega króníska sjúkdóma sé að ræða.

Ef við skoðum þetta nánar þá er þetta ansi galið. Hvað með þá sem þurfa að fara til fleiri en eins læknis til dæmis? Það þarf nú ekki að vera neitt alvarlegt að svo sem, en flestir þurfa að leita lækninga utan heilsugæslunnar eftir því sem fólk eldist eða börn veikjast. Á fólk að þurfa að leggja fyrir til að geta farið til hjartalæknis, augnlæknis eða giktarlæknis eða á það að velja í hvað það vill eyða þessum ferðastyrk og láta hitt mæta afgangi? Að mínu mati ætti rökstuðningur heimilslæknis að vera næg forsenda fyrir endurgreiðslu ferðakostnar og ekki takmarkaður við ákveðið margar ferðir á ári. Það er líka hægt að ræða þetta útfrá réttindum sjúklinga til að velja sér lækni en það er önnur umræða.

Fólk á heldur ekki að þurfa að rífa sig upp með fjölskylduna til að vera nær læknishjálp af því að það er búið að hola að innan heilbrigðisþjónustuna á landsbyggðinni. Það er ekki þannig sem við höldum landinu í byggð.

Gott dæmi um þá heilbrigðisþjónustu sem hefur verið færð á færri hendur eru fæðingar. Hér á árum áður gátu konur fætt á mörgum stöðum á landinu, þar voru ljósmæður til staðar og öll aðstaða. Í dag er þetta ekki hægt og þess vegna þurfa fæðandi konur og makar þeirra að leggja í ferðalög á öllum árstímum til að sækja þessa sjálfsögðu þjónustu.

Enduruppbygging heilbrigðiskerfisins er forgangsatriði, í þeirri uppbyggingu þarf að huga sérstaklega að landsbyggðinni og tryggja aðgengi að heilbrigðisþjónustu sem næst heimabyggð.

Sumt er ekki mælt í peningum eins og stuðningur fjölskyldu og vina í gegnum erfið veikindi. Ein forsenda þess að geta nýtt þennan stuðning er að vera sem næst fólkinu sínu og það ættu að vera sjálfsögð mannréttindi sjúklinga. Það á ekki að flytja gamlar konur frá Patreksfirði til Ísafjarðar án þess að spyrja kóng eða prest svo við tökum nýlegt dæmi. Hvað þá að vísa fólki sem kemur á bráðadeild til rúms í bílageymslum.

Kerfið á vinna með okkur en ekki á móti!

Posted in Uncategorized

Öfgar

Öfgar eru alltaf slæmar. Ekki bara þegar maður aðhyllist rangan málstað heldur líka þegar maður aðhyllist réttan. Allir öfgamenn réttlæta öfgar sínar á þeim forsendum að þeir hafi svo hrikalega rétt fyrir sér. Það má vel vera að þeir hafi rétt fyrir sér en það réttlætir ekki öfgar, ekki í neinum málaflokki.

Það er líka mikill en algengur ósiður að gera öðrum sjálfkrafa upp öfgar fyrir tiltekna merkimiða. Tvö dæmin sem koma helst til hugar eru “femínisti” og “frjálshyggjumaður”. Það að einhver sé femínisti og telji ennþá halla á konur í samfélaginu, þýðir ekki að viðkomandi ætli að höggva útlim af hverjum sem mótmælir kynjakvóta. Það þýðir ekki einu sinni að viðkomandi sé endilega hlynntur kynjakvóta. Það að einhver sé frjálshyggjumaður þýðir ekki heldur að hann ætli að lækka skatta bara á ríkt fólk og gefa skít í alla aðra. Ef þér líður eins og að þegar manneskja kalli sig femínista eða frjálshyggjumann, þá sé viðkomandi sjálfkrafa orðinn öfgamaður eða einfaldlega illa innrætt manneskja, þá eru það þínir eigin fordómar að verkum en ekki öfgar manneskjunnar sem þú dæmir. Jafnvel ef svo vill til að manneskjan sé líka fyrir heppilega tilviljun óttalegur vitleysingur.

Það getur verið erfitt að átta sig á því nákvæmlega hvað séu öfgar og hvað ekki, helst þá vegna þess að hugtakið gerir ráð fyrir því að það sé til eitthvert norm, sem er ekki endilega tilfellið. Sömuleiðis getur verið þörf á harðri baráttu, róttækum aðgerðum eða staðfestu sem jaðrar við þrjósku, sem einfaldar ekki spurninguna heldur.

En ég hef heyrt af tveimur áhugaverðum skilgreiningum á öfgum í gegnum tíðina sem mig langar að deila með lesendum, aðallega til umhugsunar frekar en sem nákvæm úttekt á þýðingu orðsins.

Ein er sú að með öfgum hafi málstaður tilhneigingu til að snúast upp í andhverfu sína. Nærtækt dæmi þurfti ég að eiga við sjálfan mig frekar nýlega, sem var afnám við banni á guðlasti. Frá táningsaldri hef ég kvartað undan því að tjáningarfrelsið sé í molum á Íslandi. Hin algera sönnun þess, var þar til nýlega bann við guðlasti (125. gr. laga 19/1940, hæstaréttarmál 16/1983). Pírötum tókst að afnema þetta fáránlega bann sumarið 2015 og núna má loksins löglega gera létt grín að trúarbrögðum á Íslandi.

En vegna þess að bann við guðlasti hefur alltaf verið skýrasta röksemdafærslan fyrir því að hér ríki ekki raunverulegt tjáningarfrelsi, þá gat verið freistandi að leyfa banninu að standa, til að létta ekki á þrýstingnum á umbætur í tjáningarfrelsismálum: Að það myndi minnka þrýstinginn á meiri umbætur að samþykkja smávægilegar umbætur sem ekki næðu langtíma markmiðinu. Að skref í rétta átt myndi fyrirbyggja fleiri.

En þá hefði baráttan snúist upp í andhverfu sína, og Píratar hefðu orðið ein stærsta hindrunin til umbóta í tjáningarfrelsismálum. Ef við hefðum harðneitað að afnema bann við guðlasti ef ekki væri gengið alla leið og gjörvallur málaflokkurinn lagaður á einu bretti, þá hefðum við beinlínis staðið í vegi fyrir auknu tjáningarfrelsi. Í því felst mótsögn öfganna: Að frekar skuli taka versta kostinn en þann næstskásta, af ótta við að aðrir sjái ekki lengur tilganginn með baráttunni. Sá ótti er ekki bara órökréttur, heldur beinlínis skaðlegur baráttunni sjálfri.

Hin skilgreiningin á öfgum er einnig áhugaverð en kannski erfiðari að nota sem viðmið. Hún er sú að skoðun eða barátta sé komin út í öfgar þegar það er orðið erfitt að rægja hana með ýkjum. Það er stundum hægt að gera grín að hugmyndum með því að ýkja þær stórlega og felst grínið þá í absúrdismanum sem fylgir. En þegar grínið sést ekki vegna þess að absúrdisminn passar einfaldlega of vel við það sem gert er grín að, þá má gera ráð fyrir því að um öfgar sé að ræða. Þarna er þó engin skýr lína.

Jafnvel með svona skilgreiningar að vopni er erfitt að tilgreina með einhverjum hlutlausum hætti hvað séu öfgar og hvað ekki. En ég hygg að það sé best að maður leiti að þeim í sjálfum sér fyrst, áður en maður leitar að þeim í öðrum. Náttúran hefur nefnilega gefið okkur aðdáunarvert úthald til að dæma aðra, en hinsvegar litla sem enga hæfileika til sjálfsskoðunar. Þannig að dómur manns verður sjálfsagt fljótt öfgakenndur ef maður fjarlægir ekki bjálkann úr eigin auga fyrst. Og stundum þarf ekki nema flís til að hann sjáist ekki.

Posted in Uncategorized

Þjóðaratkvæðagreiðslur ráðamanna

Vegna fréttar: Sigmundur Davíð reiðubúinn í þjóðaratkvæðagreiðslu um verðtrygginguna

Krafan um beint lýðræði í formi þjóðaratkvæðagreiðslna er krafa um að efla aðhald almennings að ráðamönnum. Þjóðaratkvæðagreiðslur sem eru einungis haldnar að frumkvæði ráðamanna geta hinsvegar aldrei orðið að slíku aðhaldi, heldur fyrst og fremst að pólitísku vopni ráðamanna sjálfra til þess að búa til pólitískan þrýsting sjálfum sér til stuðnings.

Það er ekki aukaatriði, heldur lykilatriði, að frumkvæði að þjóðaratkvæðagreiðslum um mál á Alþingi komi frá þjóðinni en ekki ráðamönnum sjálfum. Ekki einn einasti einræðisherra er á móti þjóðaratkvæðagreiðslum svo lengi sem hann getur sjálfur ákveðið hvað fari í þjóðaratkvæðagreiðslu og hvenær.

Það er því ekki stigsmunur heldur eðlismunur á þjóðaratkvæðagreiðslum að frumkvæði þjóðar annarsvegar og að frumkvæði ráðamanna hinsvegar. Hið fyrra eru lýðræðisumbætur, hið síðara pólitískt vopn handa ráðamönnum. Lýðræðislegir ferlar eru ekki til þess að ráðamenn geti notað þá til að afla sér vinsælda heldur til þess að þjóðin sjálf geti ýmist tekið fyrir hendurnar á Alþingi eða knúið það til að fjalla um tiltekin mál.

Það er ennfremur mikilvægt að lýðræðislegir ferlar séu skýrir, formlegir, lögfestir og fyrirsjáanlegir. Þjóðin á að geta vitað fyrirfram hvaða leiðir hún hefur til að hafa áhrif á það hvaða mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það eru ekki lýðræðisumbætur að þjóðin fái góðfúslega að tjá skoðanir sínar formlega í opinberri skoðanakönnun þegar það hentar ráðamönnum um einstaka fullyrðingar eða spurningar sem stjórnmálamenn þurfa síðan að leggja pólitískt mat á eftirá. Það sem þarf er að lýðræðisferlarnir sjálfir, sem eru í grunninn tilgreindir í stjórnarskrá, setji ákvörðunina um þjóðaratkvæðagreiðslur í hendur fólksins sjálfs og að slíkar ákvarðanir séu ekki bara raunhæfar, heldur niðurstaðan einnig bindandi.

En þjóðaratkvæðagreiðslur eru ekki markmið í sjálfu sér, heldur tæki til að valdefla þjóðina gegn valdhöfum. Það eru ekki lýðræðisumbætur að ráðamenn leggi fram spurningar að eigin vali og að eigin frumkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu vegna þess að það valdeflir fyrst og fremst ráðamenn sjálfa. Það er til dæmis nákvæmlega ekki neitt sem kallar á hugmynd forsætisráðherra um þjóðaratkvæðagreiðslu um verðtrygginguna; nærri lagi væri að leggja tillöguna fram yfirhöfuð og svo gæti þjóðin kosið um hana ef hún sjálf kærði sig um það – en það á þá að vera að kröfu þjóðarinnar, ekki forsætisráðherra. (Svo er hitt að forsætisráðherra hefur forðast umræðu um verðtrygginguna á Alþingi eins og heitan eldinn og skiljanlega, en það er önnur saga.)

Það er ágætt að forsætisráðherra segist hlynntur því að þjóðin hafi meiri rétt til að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslum, en það verður líka að segjast eins og er, að sá málflutningur minnir óneitanlega á málflutning hans í sambandi við Evrópusambands-viðræðurnar fyrir kosningar. Ég hef nefnilega aldrei heyrt stjórnmálamann segjast vera á móti þjóðaratkvæðagreiðslum, svo lengi sem þær annaðhvort eigi sér ekki stað eða skipti ekki máli.

Posted in Uncategorized

Óheppileg viðhorf opinberra starfsmanna

Nú spyrja sumir hvernig háttvirtur lögreglumaður, Biggi lögga​, dirfist að hafa skoðun á sakamáli sem fallinn er dómur um, en eins og frægt er orðið tjáði hann sig opinberlega um mál þar sem 5 ungir karlmenn voru bornir sökum um að hópnauðga stelpu. Mennirnir voru sýknaðir en Biggi segir samfélagið samt sem áður dæma þá fyrir verknaðinn jafnvel ef hann var ekki talinn nauðgun fyrir rétti.

Svo við spyrjum; hvernig dirfist Biggi?

Svarið er í rauninni einfalt. Biggi lögga er manneskja og borgari þessa lands. Þannig dirfist hann til þess að tjá skoðanir sínar opinberlega. Í sjálfu sér er svarið það einfalt.

En við þetta hafa margir að athuga og kannski eðlilega. Biggi lögga er jú opinber starfsmaður, meira að segja lögga. Þetta hefur verið harðlega gagnrýnt af ýmsum, þar á meðal Sveini Andra Sveinssyni lögfræðingi sem samkvæmt fréttum krefst þess að Biggi verði hreinlega rekinn fyrir orð sín.

Reynum fyrst að skilja kröfuna. Biggi lögga er opinber starfsmaður sem í þokkabót fer með vald í nafni hins opinbera, en sakborningarnir í því máli sem Biggi tjáði skoðun sína á verða að geta búist við faglegum vinnubrögðum af hálfu lögreglunnar, þ.á.m. Bigga löggu, sem er kannski erfitt ef þeir vita fyrirfram að Biggi hafi tiltekin viðhorf og skoðanir á þeim. Ímyndum okkur að Biggi viti hverjir sakborningarnir séu og stoppi þá einn góðan veðurdag við umferðareftirlit. Hvernig á þeim að líða? Við hvers kyns vinnubrögðum eiga þeir að búast af hálfu Bigga? Geta þeir treyst því að vinnubrögð hans séu fagleg?

Það má alveg bera virðingu fyrir þessu sjónarmiði þótt krafan um að Biggi verði hreinlega rekinn hljóti að þykja heldur grimm.

En spyrjum þá ennfremur að því hvernig sama dæmi liti út hinsegin; hvað ef Biggi hefði sleppt því að tjá sig? Hefði hann ekki samt sem áður sömu viðhorf og skoðanir? Myndu sýknaðir sakborningar ekki jafn líklega verða fyrir barðinu á ófaglegum vinnubrögðum vegna viðhorfa og skoðana Bigga?

Tjah, jú. Reyndar mætti færa rök fyrir því að það væri meira að segja líklegra, vegna þess að ef Biggi lögga tjáði ekki sín viðhorf væri mun ólíklegra að hann upplifði nokkurn tíma ólík viðhorf en sín eigin. Það er jú viðhorfið sjálft sem menn óttast væntanlega að hafi þessi neikvæðu áhrif á faglegu vinnubrögðin en ekki sú staðreynd að þau hafi verið tjáð, jafnvel ef opinberlega.

Fólk virðist stundum hafa mjög óholla mynd af hinum opinbera starfsmanni. Eins og ef opinberir starfsmenn hreinlega njóti ekki mannréttinda á borð við tjáningarfrelsi eða friðhelgi einkalífs. Sú hugmynd er líklega tengd öðrum alvarlegum misskilningi; að við eigum að geta búist við einhvers konar yfirnáttúrulegum eiginleikum sem útiloka sjálfsagða mannlega bresti, t.d. þann að hafa takmarkaða sýn af heiminum og sennilega alls kyns bölvanleg viðhorf. Lögreglumenn, kennarar og aðrir opinberir starfsmenn eru hinsvegar ekki yfir mannlega bresti hafnir og við gerum engum greiða með því að hunsa þá staðreynd. Þvert á móti verðum við að gera ráð fyrir því ef vel á að fara.

Fagleg vinnubrögð lögreglu og kennara verða nefnilega ekki tryggð með skoðanakúgun, heldur með faglegum ferlum sem búið er undir með aðhaldi og mótvægi af einhverri sort. Í tilfelli lögreglunnar getum við tryggt það með sjálfstæðu eftirliti með störfum og starfsháttum lögreglu, sem dæmi. En ef við ætlum að tryggja fagleg vinnubrögð lögreglumanna og kennara með því að meina þeim að hafa óheppileg viðhorf, þá skulum við bíða þar til vélmenni hafa tekið við löggæslu og kennslu, því að krafan um hinn heilaga opinbera starfsmann sem ekki hefur óheppileg viðhorf er einnig krafa um hinn opinbera starfsmann sem ekki er mennskur.

Posted in Uncategorized

Umræðan um meðferðarúrræði

Þá er annasöm vika að baki í vetrarfríi og pólitík og ekki nema rétt að ég komi með blogg uppfærslu eftir þá síðustu sem ýmist var “spot-on” og “talað eins og úr mínu hjarta” eða málaði “starfsmenn SÁÁ [sem] ófreskjur” eftir því hvort viðkomandi las pistilinn, hver las pistilinn og hverjum fólki fannst ég vera að lesa pistilinn.

Mig langar að þakka öllum þeim sem hafa sýnt mér, málefninu og umræðunni stuðning. Viðtökurnar voru ótrúlegar; fjölmiðlar birtu vel valdar setningar, fjölmargt fólk hafði samband og lýsti reynslu sinni, fagaðilar vísuðu á fræðsluefni, margir urðu sjóðbrjálaðir bæði með og á móti en umfram allt þá var nauðsynleg umræða tekin um málefni sem snertir fáa mikið.

Það sem kom mér líklega mest á óvart var hvað það höfðu margir samband við mig sem sjálfir höfðu reynt að koma fram með gagnrýni eða ný sjónarhorn á meðferðarmál en treystu sér ekki til að tala undir nafni af ótta við viðbrögð félaga sinna og ‘hagsmunagæsluaðila’.
Kurteisara, menntaðra og reyndara fólk en ég hefur gagnrýnt fyrirkomulag fíknmeðferðar á Íslandi og mætt þrálátri mótstöðu við að kynna hugmyndir sínar. Sjá t.d. hér “vilja kynskipta áfengismeðferð” og viðbrögð SÁÁ vegna fræðslustarfs Rótarinnar.

Stór hluti af tregðunni við að taka umræðuna opinberlega er ótti við að umræðan um neikvæðu þættina eyðileggði það jákvæða starf sem búið er að vinna í málaflokknum, en enn aðrir álitu gagnrýnina vera skaðlega árás sem þyrfti að þagga niður með því að höfða til flokksaga eða meirihlutaaga og biðla til Halldórs eða einstakra fulltrúa borgarmeirihlutans að hafa stjórn á mér. (Sem er auðvitað vitavonlaust verkefni eins og mamma veit.)
Í Pírötum talar hver fyrir sig út frá stefnu flokksins og frekar hefð fyrir ‘and-taumhaldi’ / sjálfsábyrgð og aaaafskaplega litlar líkur á að borgarmeirihlutinn falli yfir gagnrýni mín eða annarra Pírata á takmörkuð meðferðarúrræði og galla þeirra fáu lausna sem nú þegar eru í boði.

Ég tek mark á þeirri gagnrýni á pistilinn minn að ég hafði ekki í huga þegar ég ritaði hann, og vildi vekja aðra pólitíkusa sem bera ábyrgð á málinu og ná eyrum þeirra sem vilja úrbætur í meðferðarmálum, að mögulega væru einhverjir í hópi lesenda sem þyrftu á hjálp að halda sem þeir myndu nú ekki sækja vegna minna orða. Það myndi ég aldrei vilja gera en ég get ekki samþykkt að umræðan um meðferðarúrræði hræði frekar en fræði og því sé betra að þegja til öryggis. Sjá hér hvernig konur fara í meðferð.

Vantraustið hjá þeim verst stöddu er staðreynd og varð ekki vegna til vegna minna orða heldur þeirra eigin reynslu – skortur á trausti gerir það að verkum að veikt fólk sem þarf hjálp fær hana ekki og skortur á gagnrýninni umræðu verður til þess að lítið sem ekkert gerist í úrbótum. Á þessum möguleika tek ég mark og átta mig á ábyrgðinni en þeir sem vilja upplýsingar um meðferðarúrræði fyrir konur eru hvattir til að leita sér upplýsinga m.a. hjá Rótinni félagi um málefni kvenna með áfengis- og fíkniefnavanda eða hér kvennameðferð SÁÁ.

Væri ég atvinnupólitíkus í öðrum flokki hefði ég mögulega skrifað varfærin pistil með ítrekuðum fyrirvörum þar sem ég gætti þess að hlaða núverandi meðferðaraðila lofi fyrir allt sitt óeigingjarna starf og haft vit á að styggja ekki samheldinn hagsmunaaðila eða mögulega kjósendur með því að setja óvægið fram þær óþægilegu fréttir sem berast frá fagaðilum, fjölskyldum og sjúklingum um það hvernig fíknum líður.

Gamall vinur með áratugareynslu í SÁÁ og AA sem á þeim margt að þakka sagðist hafa upplifað gagnrýnina eins og á barnið sitt eða náinn fjölskyldumeðlim sem hefði klúðrað einhverju. Hann vissi alveg að viðkomandi ætti skilið að heyra það en viðbrögðin hefðu óvænt verið tilfinningaleg, líklega vegna þessara traustu banda sem myndast milli fólks í ferlinu og félagsstarfinu. Þetta samband var nokkuð sem mjög margir töluðu um sem höfðu fleiri en eina meðferð að baki og er partur af því sem ég sýni meiri skilning í dag, en tengslin eru að sama skapi hluti af vandamálinu og því hvernig er tekið á endurteknum skýrslum og vitnisburðum sem staðfesta vandamál með samgang unglinga og fullorðinna innan sömu meðferðarstofnunarinnar, en allir aðilar virðast sammála um að miklar úrbætur þurfi í meðferðarúrræðum fyrir unglinga.

Sumir hafa mótmælt gagnrýninni og vitnisburðum vegna þess að þeir sjálfir (og hlutfallslega margir) hafi fengið lausn á sínum vanda í gegnum hefðbundið meðferðarúrræði SÁÁ og ekki upplifað vandamál í kringum það. En ákveðnir hópar halda áfram að lenda utangarðs í kerfinu þó frásagnirnar séu dregnar í efa og menn takist á um hvort og hvernig eigi að taka á málinusjá td öryggi kvenna í meðferð.
Hverjum á að trúa? -þeim sem úrræðin virka ekki fyrir og fólkinu sem aðstoðar þann hóp, eða þeim sem þó hjálpa mörgum í nútíð og ná góðum árangri á eigin og alþjóðlega mælikvarða.*með fyrirvara um takmarkað úrval birtra rannsókna.

Ég var spurð af hverju ég hefði ekki farið fyrirfram í heimsókn á Vog til að kynna mér ástandið og þakka fyrir að ég gerði það ekki heldur talaði frá hjartanu, því annars hefði ég líklega komið til baka pollróleg yfir að við værum nú bara í ótrúlega góðum málum – svona á alþjóðavísu og pottþétt samkvæmt höfðatölureglunni.

Á miðvikudaginn þegar bloggið birtist fékk Halldór borgarfulltrúi okkar Pírata boð um heimsókn upp á Vog til að fá kynningu á starfseminni og á fimmtudaginn var mér boðið með, sem ég að sjálfsögðu þáði enda bæði ljúft og skylt að kynna mér málið frá öllum hliðum og gefa þeim tækifæri að leiðrétta ef ég hef fengið rangar upplýsingar eða farið með rangt mál (dæmin um 13 ára börn á Vogi eru sem betur fer fá).

Heimsóknin var áhugaverð og vel tekið á móti okkur af Arnþóri, Valgerði, Þóru og fleira góðu fólki sem sýndi okkur húsnæðið og átti við okkur gott samtal þar sem nær allir fókusuðu á að uppfræða okkur og eiga heiðarlegt samtal frekar en að reyna að reka ofan í mig ‘rangfærslurnar’ sem voru fyrst og fremst það að ástandið sé orðið mun betra núna en það var, kvennameðferð sé i boði og ástandið ekki svona slæmt þrátt fyrir biðlista og skort á peningum. SÁÁ býður upp á ákveðna kvennameðferð frá 1995, en hún fer fram í blönduðu umhverfi og þyrfti að mínu mati að vera enn sérhæfðari því við SÁÁ leggjum líklega ekki sama skilning í hvað sérsniðin meðferðarúrræði fyrir konur þýði.

Skoðandi tölfræðina er nánast að maður komist að þeirri niðurstöðu að ekkert vandamál sé til staðar; 50% sjúklinga fara í eina meðferð og koma ekki aftur á meðan einungis 3% hafa farið í 10 meðferðir eða fleiri. Er það ekki bara gott mál? Svona miðað við hvað ríkið leggur í málaflokkinn og veitir t.d. innan við 10% af tekjum áfengisgjaldsins í meðferðarúrræði en eyðir svo enn hærri upphæðum í aðrar afleiðingar áfengis- og vímuefnaneyslu sbr. áætlanir um tugi milljarða í samfélagslegan kostnað.
Velgengni skal lofa og SÁÁ má vel fagna þeim árangri sem hefur náðst, en ég veit ekki hvort það er vanþakklæti af mér að búast við enn betri frammistöðu miðað við að Ísland trónir á topp 10 nær allra velmegunarmælikvarða.

Vogur er stærsta afvötnunarsjúkrahús landsins og þar dvelja menn að meðaltali í 10 daga í afeitrun áður en þeir fara í eftirmeðferð (á Staðarfell eða Vík) eða í meðferð á göngudeild. Nær allir fara í gegnum afvötnun sem hluta af meðferðinni (þó einhverstaðar sýni tölur að um fjórðungur er allsgáður við komu) en á staðnum eru einmennings og tveggja manna herbergi og sérstakar álmur fyrir karlmenn, konur og unglinga.

Allir deila mötuneyti, smók og almannarými saman milli þess sem fólk sækir tíma í viðeigandi meðferðarprógrammi en það er partur af sýn meðferðaraðilans til fíknarinnar – að allir séu jafnir frammi fyrir vandamálinu fíkn og í grunninn að takast á við vandamál með sama eðli sem sé hægt að nálgast á sama hátt.

Þessi nálgun að sjúkdómurinn fari ekki í manngreinarálit vegur þungt í samheldni og samhjálp þeirra sem eru saman í meðferðarhópum á Vogi. Milli dagskrárliða í meðferðinni og á matmálstímum þá umgengst fólk (eðlilega) hvert annað óháð því hvort það deilir meðferðarlínu, en ég hef heyrt mikið talað um þessa nánd sem tvíeggja sverð með stóra kosti og galla sem dreifist mismunandi á þátttakendur. Í samskiptum þeirra sem séu samankomnir til að hefja vímulaust líf sé fólk misvel í stakk búið fyrir þessa nánd og því miður einhverjir sem misnota traustið. Til marks um þetta eru endurteknir vitnisburðir kvenna og karla sem hafa byrjað sambönd við þessar aðstæður þegar viðkomandi vissi vel að honum sjálfum væri fyrir bestu að einbeita sér að eigin bata og vilja meina að þeim hefði verið fyrir bestu að geta valið meðferð eingöngu með fólki af sama kyni.
Grein Harkaðu af þér – fyrri hluti

Menn líta þetta vandamál mjög mismunandi augum því svarið við þessum ábendingum var að það væri jú vissulega erfitt að ætla að hafa áhrif á það hvort fólk sé að kynnast í blönduðum rýmum og enn síður hvað gerist síðar eftir að báðir eru komnir út af stofnuninni. Fjölmargir hafa gagnrýnt að þessi blöndun í “kvennameðferð” þjóni alls ekki öllum og gangi gegn þeirri stefnu að skapa skjól fyrir þá sem eru að vinna sig út úr ofbeldi og áföllum.

Sumar konur og sumir karlmenn eiga einfaldlega ekki heima í blönduðu umhverfi í þessu viðkvæma ferli en lausnin hefur vikið fyrir hagkvæmnissjónarmiðum – það er ekki til peningur í aðskilda meðferð – en málið er ekki síður spurning um áherslur og sýn á sjúkdóminn sem arfgengan líffræðilegan sjúkdóm eða afleiðingu af áföllum, ofbeldi, misnotkun eða annarra þátta.

Munurinn á sókn kynjanna í meðferðarúrræði er óskýrður en 4,4% kvenna og rúm 10% karlmanna hafa leitað í fíknmeðferð. Mögulega má finna skýringar í því að konur neyta meira af geðlyfjum og fá meira útskrifað hjá læknum, en miðað við þær upplýsingar sem berast frá fagaðilum er vandamálið líka dulið og veikar ungar konur veigra sér frekar við að leita sér aðstoðar hvort sem er um að ræða skaðaminnkandi úrræði eða meðferðir við fíkn.

Varðandi þá fullyrðingu mína og annarra að ungar stúlkur og konur kynnist ofbeldismönnum í meðferð þá var það staðfest fyrstu hendi í viðtalinu í Íslandi í dag á fimmtudaginn en ég fékk líka skilaboð á netinu frá konum með sömu sögu. Einn viðmælandinn sagðist hafa kynnst tveimur mönnum í meðferð á Vogi sem síðar áttu eftir að beita hana ofbeldi en viðkomandi talaði um að viðkomandi hefði misnotað það traust og nánd sem hafði myndast í meðferðinni.

Við spurðum í heimsókninni m.a. að því hvernig væri tekið á því ef fólk kvartaði yfir áreiti frá öðrum sjúlingum og var sagt að slíkt væri gerðist sjaldan en þá nyti sá sem kvartaði vafans. Ég spurði hvernig væri tekið á ef það kæmu upp slagsmál eða nauðganir og var tjáð að slíkt mál hefði aldrei(!) komið upp frá því Vogur tók til starfa sem verður að teljast einstakt afrek á heimsvísu.

Í eftirmeðferð fyrir konur deila konur húsnæði að Vík með rosknum karlmönnum, en aðstaða á Staðarfelli hentar ekki fyrir þá sem eru komnir af léttasta skeiði en á næstu misserum er fyrirhugað að byggja sérstakt húsnæði sem á að hýsa meðferðarheimili fyrir konur eingöngu en meðferðin mun byggja á núverandi kvennameðferð SÁÁ og ekki ráðgert að setja upp meðferð með kynjaðan vinkil sem tekur sérstaklega á úrvinnslu áfalla líkt og sérfræðingar erlendis hafa mælt með.

Ég skil vel hættuna á hræðslu við blandaða fyrirkomulagið þar sem kynin finna sig misvel, en flestir sjúklingar eru bara “venjulegt fólk” sem og brýn þörf sé á peningum í byggingu sérstaks meðferðarhúsnæðis sem gerir kynskipta (og aldursskipta) meðferð mögulega og fleiri fagaðilum sem komi að meðferðarmálum sem bjóði upp á heildstæða meðferð fyrir fólk sem þarfnast sérstakrar úrvinnslu á áföllum samhliða því sem er tekið á fíkninni og öðrum þáttum sem spila sálrænt og félagslega inní þegar vímuefnaneysla fer úr böndunum.

Kjarninn í gagnrýni minni (og margra annarra) er þessi:
– meðferðarúrræði á Íslandi eru of fá og einsleit. Hið opinbera þarf að leiða stefnumótun í málaflokknum í samstarfi við fagaðila.
– unglingar með vímuefnavanda þurfa sérúrræði þar sem er líka tekið á félagslegum vandamálum og fjölskylduaðstæðum. Unglingar í afvötnun ættu ekki að umgangast fullorðna í sömu stöðu.
– Yfirvöld vinni með meðferðaraðilum í að skoða ábendingar um úrbætur, sér í lagi með tilliti til sérstakra og aðskilinna meðferðarúrræða fyrir unglinga, konur, þolendur ofbeldis og kynferðisbrota.
– Yfirvöld vinni að leiðum með meðferðar- og heilbrigðisaðilum til að veita þeim sem þurfa endurteknar meðferðir úrræði sem byggja á skaðaminnkandi nálgunum og velferðarsjónarmiðum.
– Ríkinu ber skylda til að setja pening í málaflokkinn og auka markvisst úrval meðferðarleiða t.d. mætti leita til fleiri innlendra og erlendra sérfræðinga í málaflokknum.
– Einkaaðilinn SÁÁ er núna lykilaðili í allri fíknmeðferð landsins og hefur yfir að ráða einstæðu gagnasafni sem, að öllum persónuverndarsjónarmiðum uppfylltum, gæti gefið fræðimönnum (meta) gögn til dýrmætra rannsókna. Mér þykir eðlilegt að þjónustusamningur ríkisins tryggi að háskólasamfélagið, bæði félagslegir, sálfræðilegir og læknisfræðilegir sérfræðingar starfi með meðferðaraðilum að framþróun og gæðaeftirliti í meðferðarmálum.

Við Píratar höfum boðið fulltrúum SÁÁ að kynna og ræða starfsemi sína á fundi um meðferðarmál nú í nóvember sem þau hafa þegið – en meira um það þegar fundartími hefur verið negldur.

Blauta meðferðartuskan

Ég er fulltrúi Pírata í Mannréttindaráði Reykjavíkurborgar, að vísu áheyrnarfulltrúi þar sem við fengum ekki nema 5,9% atkvæða, en þar sem við erum fullir þátttakendur í meirihlutanum hafa áheyrnarfulltrúar Pírata (og VG) jafnan rétt til að móta meirihlutaákvarðanir og þannig tryggja áheyrnarfulltrúarnir okkar að Pírataáherslurnar skili sér inn í ráð borgarinnar.

RáðhúspontanVið sem skipuðum 5 efstu sætin á lista Pírata skiptum setu í ráðum á milli okkar; borgarfulltrúinn Halldór er jafnframt formaður Stjórnkerfis- og lýðræðisráðs, tómstundafræðingurinn Þórgnýr er formaður Íþrótta- og tómstundaráðs, og svo við áheyrnarfulltrúarnir, ég í Mannréttindaráði, Arnaldur í Skóla- og frístundaráði, Kristín Elfa í Velferðarráði og Sigurborg í skipulaginu, fyrir utan fulla (en allsgáða) fulltrúa okkar í hverfisráðum Miðbæjar og Breiðholts.

Fundir ráðanna eru mjög mismunandi eftir verksviði en öll eigum við það sameiginlegt að fá reglulega kynningar inn á fundi þar sem við, fulltrúar flokkanna, fáum nánari upplýsingar um þau mál sem okkur og ráðið varðar.

Síðustu tvo fundi Mannréttindaráðs höfum við fengið aðila í heimsókn sem hafa fært óvanalega sláandi fréttir og í gær bókstaflega leið mér eins og við hefðum fengið blauta upplýsingatusku í andlitið.

Fyrri heimsóknin var frá fulltrúum “Frú Ragnheiðar” sem fengu mannréttindaverðlaunin Reykjavíkur í ár en við Píratar tilnefndum verkefnið (nafnlaust) sem svo var valið og viljum styðja það með ráði og dáð, enda skaðaminnkunarnálgunin grunnatriði í okkar nálgun til félagslegra vandamála.
Frú Ragnheiður er unnin af sjálfboðaliðum undir merkjum Rauða krossis en á heimasíðu þeirra segir “Frú Ragnheiður er verkefni sem byggir á skaðaminnkun og hefur þann tilgang að ná til jaðarhópa samfélagsins, t.d. útigangsfólks, heimilislausra og fíkla, og bjóða þeim skaðaminnkandi þjónustu og almenna heilsuvernd, án fordóma eða kvaða, í þeirra nærumhverfi.”

Í kynningu þeirra kom meðal annars fram hversu erfitt þjónustuþegarnir eiga með að treysta kerfinu og meðferðaraðilum almennt. Gagnrýni um skort á úrræðum er að finna víða og hún beinist að stórum hluta að SÁÁ (og AA) sem hefur setið undir ytri og innri gagnrýni meðal annars frá eigin kvenfélagi sem sagði sig úr samtökunum ekki síst vegna andstöðu SÁÁ við sérstök meðferðarúrræði fyrir konur. Á Vogi gerist það ítrekað að konur sem eru þolendur heimilisofbeldis eða kynferðisofbeldis lendi í meðferð með mönnum sem hafa beitt þær ofbeldi og þurfa jafnvel að verja sig þar fyrir áreiti og ágangi manna þegar þær þurfa öryggi og skjól. Á Vogi byrja líka of mörg ofbeldissambönd þegar orka sjúklinganna ætti að fara í eigin bata.

Sérstaklega var nefnt að ungar stúlkur sem eru heimilislausar og í fíkn leita sér síður aðstoðar og leggja ekki í að leita til meðferðaraðila, meðal annars vegna þess að meðferðarúrræðin gera jafnvel illt verra, ferlið niðurlægjandi og blandaðir hópar koma þeim í kynni við enn verri félagskap og skaðleg ástarsambönd.

Á fundi mannréttindaráðs í dag komu fulltrúar frá Rótinni, félagi kvenna með áfengis og vímuefnavanda og fluttu á ný sláandi fréttir um nákvæmlega sama vandamál og kynntu fyrir okkur nýútgefinn bækling fyrir þolendur ofbeldis “ef fjölmiðlar hafa samband“.

Í kjölfarið lagðist ég í rannsóknarvinnu til að leita að gögnum um margt af því sem þar kom fram en ástandið er þannig að ákveðnir menn virðast sitja um unglinga og berskjaldað fólk á þessum viðkvæma tíma, þegar þær eru að leita sér hjálpar, en í fyrra dó ung kona eftir að hafa verið táldregin af eldri manni sem vissi mætavel um aðstæður hennar en hélt engu að síður að henni áfengi í ’tilhugalífinu’.
Nokkrum mánuðum fyrr hafði birtist fréttin “Siðblindir menn sem sitja um berskjaldaðar konur” en við erum ekki bara að tala um konur sem er verið að táldraga heldur BÖRN. (já, blessuð BÖRNIN!)
13 ára stúlkubörn eru sett í áfengis og vímuefnameðferð á “jafningjagrundvelli” með fullorðnum sem þýðir að þarna sitja börn í veiku ástandi og deila sorgum sínum með dæmdum ofbeldismönnum (sumir fá að ljúka afplánun í meðferð), og þær eiga jafnvel að deila af sér og ræða erfið mál við slíka “sálusorgara”. Olnbogabörn, samtök aðstandenda ungmenna með áhættuhegðun hafa margsinnis bent á þetta ástand sem og skort á meðferðarúrræðum.
Þess má geta að Rótin var stofnuð eftir að SÁÁ “slátraði” sínu eigin kvenfélagi, sú saga er listuð annarstaðar á internetinu en þessar fréttir hafa borist lengi m.a. hér frá 2014 “Ofbeldismenn hafa aðgang að veikum konum í meðferð” og hér í skýrslu frá Dómsmálaráðuneytinu 2001 þar sem segir að vændissalar/dólgar útvegi sér vændiskonur í meðferð á Vogi. (skýrslan í heild, sjá bls. 42)

Nú hef ég talað við vini mína sem hafa farið í gegnum meðferðir og þeir segja allir sömu söguna. Hjá SÁÁ virðist lítill skilningur fyrir því að þetta ‘grooming’ sé vandamál og því að ungar stúlkur þurfi GRIÐARSTAÐ í fíknmeðferðinni í stað þess að vera bornar fram sem meðlæti í hópmeðferð fólks með allrahanda bakgrunn, vandamál og þarfir.
Sjá hér lokaverkefni um meðferðarúrræði og upplifun ungs fólks af þeim. þar sem krakkarnir segja meðal annars “Ég kom inn sem sprautufíkill og var í meðferð með tölvufíkli, það meikar ekki sens, hann á ekki að þurfa að kynnast því sem ég var í” og annar segir “það var geðveikt að heyra sögurnar af harðari efnum, ég kom út með það markmið að prófa öll efnin sem hafði verið að tala um.”

Meðferðarúrræðin miðast nær öll við miðaldra fólk/karlmenn og hvorki Innanríkisráðuneytið né SÁÁ hefur tekið ofbeldis- og áfallaúrvinnslu inn í meðferðarúrræðin sem er afleitt. Rannsóknir sýna aftur og aftur að það eru gríðarlega sterk tengsl á milli fíknar og þess að vera þolandi (og gerandi) ofbeldis.
Fíknin verður ekki tekin úr sambandi við manneskjuna sjálfa og aðstæður hennar, en samt nota menn enn sama gamla 12 spora kerfið og ætlast til þess að fólk leggi sálarheill sína í hendur æðri máttarvalda og það sé lausnin fyrir alla; krabbameinssjúklinga í niðurtröppun af verkjalyfjum, heimilislausar stelpur í dópsamböndum, unglingsstráka í kanabisþunglyndi, útigangsfólk og menn að ljúka afplánun.

Innanríkisráðuneytið hefur ekki viljað taka tillit til áfalla og ofbeldis í þeim meðferðarúrræðum sem ríkið býður uppá þrátt fyrir að 80% kvenna sem fara í meðferð hafi verið beittar ofbeldi. Það á semsagt að taka á fíkninni án þess að taka á sálarheill manneskjunnar sjálfrar – svona fyrst það er ekki hægt að láta bara einkasamtök og sértrúarsöfnuði um að sinna þessari samfélagsþjónustu eftir eigin aðferðum.
Umboðsmaður barna hefur ítrekað og árangurslaust sent Innanríkisráðuneytinu erindi og kvartað yfir skorti á úrræðum fyrir börn með andleg vandamál, ástand sem hann kallar mannréttindabrot gegn börnum. (sjá svar ráðuneytisins á síðunni – hah!)

Í ár var skorin niður aðstoð við gerendur kynferðisofbeldis á Litla-Hrauni og utan fangelsa fá kynferðisbrotamenn og barnaníðingar ekki lengur sérstaka meðferð. Þess má geta að íslenskir fangar eru “Evrópumeistarar í endurkomum í fangelsin með yfir 50% endurkomutíðni á meðan önnur Norðurlönd eru með um 16% endurkomutíðni”. Núverandi fyrirkomulag þessara mála er farið að smita út frá sér og búa til vítahring sem kostar mannslíf. Sjá hér samantekt á “þjónustu” fyrir áfengis og fíkniefnaneytendur, skýrsla frá 2005.

Það vantar sárlega betur menntað fólk og eru miklar vonir bundnar við nýtt diplomanám við HÍ sem byrjaði nú í haust, en flestir núverandi meðferðarfulltrúar hafa að baki einungis 300 kennslustundir í ‘meðferðarfræðum’ og er oft á tíðum fólk sem hefur sjálft náð að sigrast á fíkninni en hefur litla sem enga skólagöngu að baki eða faglega þekkingu á sálgæslu og ráðgjöf. Eins og gefur að skilja þurfa unglingar sérstaka nálgun og sérmenntað fólk, þó velviljaðir ‘sponsorar’ hjálpi mörgum og séu allir af vilja gerðir þá geta þeir aldrei komið í staðinn fyrir hjálp sem er sniðin að þörfum mismunandi hópa í stað nálgunarinnar “allir á sömu snúruna”.

Eftir að hafa kynnt mér ummæli framkvæmdastjóra SÁÁ um baráttu kvenna innan samtakanna til að fá sérstök meðferðarúrræði fyrir konur er ég farin að efast um heilindi samtakanna til að taka á vandamálinu. Afneitunin minnir meira á hagsmunagæslu en vanþekkingu.

Ástandið í þessum málaflokki er óboðlegt með öllu, en viðbjóðslegt* sinnuleysi ráðuneytis og SÁÁ gagnvart þessu manngerða vandamáli er farið að líkjast kerfisbundinni misnotkun. Ummæli formanns SÁÁ um úrbætur á aðstöðu kvenna á Vogi hafa sýnt furðulega harkaleg viðbrögð við réttmætum ábendingum og óskiljanlega mótstöðu við að taka á vandamálinu.

Sem Íslendingur hallast ég yfirleitt fyrst að því að ástæðan fyrir því að ekkert gerist sé vanhæfi en viðbrögð SÁÁ við umkvörtunum er farið að minna á viðbrögð SÞ við því að friðargæslan stundaði mansal (sem hún gerði) eða viðbrögð Kaþólsku kirkjunnar við orðrómi um óeðlileg sambönd presta og kórdrengja (sem var til staðar). Það er eitthvað stórkostlegt að þegar vandamál af þessari stærðargráðu fær ekki bara að líðast óáreitt heldur er varið með kjafti og klóm.

Mér líður eins og ég hafi verið slegin með blautri tusku, orðin drullufúl fyrir hönd krakkanna og farin að teikna upp aðgerðir til að nota pólitíkina til að gera eitthvað í málinu meira en veita þeim verðlaun og styrki -sem þó er gott fyrsta skref.

– svo við getum stutt ykkur sem vinnið að mannréttindamálum langar mig að hvetja ykkur að fylgjast með og sækja um styrki frá mannréttindaráði þegar þeir eru auglýstir, en þeir eru veittir tvisvar á ári og er tekið á móti umsóknum í Mars og September.

Markmiðið með styrkjum mannréttindaráðs er að styðja við hvers kyns sjálfsprottið starf, starfsemi frjálsra félagasamtaka og framtak einstaklinga á sviði mannréttinda sem stuðlar að farsælli þróun borgarsamfélagsins, jafnræði borgarbúa og fjölbreytilegu mannlífi. Að sama skapi að styðja við hvers konar starf sem vekur athygli á eða stendur vörð um grundvallarréttindi borgarbúa.
Reglur um styrki mannréttindaráðs

*já, mér finnst þetta viðbjóðslegt sinnuleysi
** ég biðst velvirðingar á því að setja AA og SÁÁ frjálslega undir sama hatt, annað er 12 spora kerfið og hitt afeitrunarmeðferð/meðferðarstofnun en náin tengsl eru á milli þessara aðila og því erfitt fyrir utanaðkomandi að átta sig á mörkunum þar sem AA fundir eru m.a. haldnir á Vogi.
Hér er viðtal við  í Stephanie S. Covington meðferðarsérfræðing sem segir faglega nákvæmlega það sama og ég segi dónalega hér að ofan.

Stefna Pírata í vímuefnamálum:
– Velferðar og forvarnarmál
– Mannúðleg fíkniefnastefna
– Fíkni- og vímuefnastefna í innra kosningakerfi flokksmanna (allir flokksmenn koma að stefnumótun og kjósa um stefnuna)

Gripið til skilgreininga: Ríkiskirkjan

Biskup Íslands sagði nýlega um aðskilnað ríkis og kirkju: “Ég tel og margir innan kirkjunnar að þessi aðskilnaður hafi þegar farið fram með því samkomulagi og í lögum sem fylgdu í kjölfarið sem gerð voru árið 1997. Hvað þýðir aðskilnaður, ég vil fyrst skilgreina það.”

Ég finn lykt af vitleysu þegar fólk fer að flækja jafnvel einföldustu hugtök og orðasambönd með spurningum um skilgreiningar á orðum og hugtökum sem öllum ættu að vera ljós. Aðskilnaður ríkis og kirkju þýðir, mjög augljóslega, að stofnunin sem nú heitir Þjóðkirkjan sé ekki lengur sérstaklega tilgreind í stjórnarskrá og landslögum, heldur sé í sömu stöðu, njóti sömu réttinda og beri sömu skyldur og öll önnur trú- og lífsskoðunarfélög. Það þýðir ennfremur, aftur mjög augljóslega, afnám 62. gr. stjórnarskrárinnar eða í það minnsta breytingar á henni í þá átt að ekkert trúfélag njóti lagalegrar sérstöðu eða forréttinda umfram önnur.

Þetta ætti að vera öllum mjög augljóst. Ákall eftir einhverjum skilgreiningum um jafn einföld atriði er ákall um að þvæla málið og flækja langt umfram nokkra nauðsyn.

Svo er hitt að biskupinn getur verið mótfallinn aðskilnaði ríkis og kirkju, sem hann hefur fullan rétt til, en þá er alger óþarfi að kalla eftir einhverjum nýjum skilgreiningum til að tjá þá annars afleitu afstöðu.

Hvað varðar jarðasamkomulagið, þá er það flókið og ömurlegt mál, en vondir (og vonandi ólöglegir) samningar koma ekki í veg fyrir það að sérstaða kirkjunnar í íslenskri stjórnarskrá og íslenskum lögum verði afnumin. Ríkið getur gert samninga við trúfélög án þess að þau njóti sérstakrar verndar og stuðnings í stjórnarskrá, en ef jarðasamkomulagið grundvallast beinlínis á þeim forréttindum, þá er það bara enn ein röksemdin fyrir afnámi þeirra.

(Um frétt: http://ruv.is/frett/riki-og-kirkja-thegar-adskilin)