Erum við tilbúin?

Eftir hrunið 2008 var alloft sagt, reyndar svo oft að kjánahrollur fór um mann stundum, að enginn hefði fyrirséð hrunið.

Þetta er í fyrsta lagi rangt. Það voru viðvörunarljós út um allt og þau voru hunsuð. Engar nýjar kenningar brugðust og ekkert skrýtið eða óvenjulegt gerðist sem olli hruninu. Þetta var einfaldlega “bull market” sem gekk af göflunum þegar nógu margir græddu á að flýta sér meira en að hugsa. Þetta gerist í öllum hagkerfum þar sem þensla er yfirhöfuð möguleg, þótt fjármálatæknilegu undirstöðurnar séu misjafnar og vissulega stærðargráðan.

Þegar þetta er skrifað er hagkerfið í blússandi uppsveiflu. Verðbólga er lág, atvinnuleysi næstum því ekkert og uppbygging mikil.

Það eru allnokkrir þekktir þættir sem hafa áhrif á stöðuna. Við höfum öðlast nýjan burðarstólp í íslensku hagkerfi, nefnilega ferðaþjónustuna. Olíuverð er lágt og nýlega hafa skattar verið lækkaðir og tollar afnumdir. Krónan hefur styrkst verulega og flestir eru sammála um að hún sé of sterk eins og er. Þetta eru allt þættir sem hafa jákvæð áhrif á hagkerfið, allavega til skemmri tíma, en eingöngu á meðan áhrifa þessarra þátta gætir.

Þegar (já, þegar) olíuverð hækkar aftur, eða þegar (já, þegar) krónan hættir að styrkjast eða þegar (já, þegar) ferðamönnum hættir að fjölga, þá mun það sömuleiðis hafa áhrif á efnahaginn allan. Þá er það ekki bara stærðargráða breytinganna sem skiptir máli heldur líka hraði þeirra. Íslenskt hagkerfi er hinsvegar afskaplega lítið, sem þýðir að hér gerist allt hratt, hvort sem það er jákvætt eða neikvætt.

Nú, það er engin dómsdagsspá. Breytingar hafa alltaf átt sér stað í heiminum og munu halda áfram að eiga sér stað. Spurningin sem ég vil varpa fram er: erum við reiðubúin fyrir snöggar efnahagslegar breytingar? Ef ekki, hvernig búum við okkur undir þær? Við vitum að þær muni eiga sér stað og við vitum að þær verða mjög líklega snöggar.

Ég velti þessu fyrir mér vegna þess að núna, rétt eftir kosningar og í miðjum stjórnarmyndunarviðræðum, sýnist mér karpið um skatta og hagstjórnarmál fyrst og fremst snúast um viðhorf fólks til tiltekinna stjórnmálamanna eða stjórnmálaflokka. Enn og aftur snýst hin almenna umræða mest um hversu miklir skattafíklar vinstrimenn séu og eiginhagsmunaseggir hægrumenn séu. Það er gott og blessað að rökræða skattastefnu, en mér finnst þessi umræða missa gjörsamlega marks miðað við áskorun dagsins í dag, því að sú áskorun er undirbúningur fyrir skyndilegar efnahagslegar breytingar. Hún skilur eftir þennan yfirþyrmandi efnahagsþátt sem einkennir íslenska hagkerfið alveg sama hvort maður er til hægri eða vinstri og ætti að sameina okkur öll: erum við tilbúin? Hvað gerum við þegar (já, þegar) olíuverð hækkar og ferðamönnum fækkar?

Það er mikilvægt að beina þessari spurningu ekki bara til stjórnvalda. Andstætt því sem almenningur og þau sjálf halda, þá stjórna yfirvöld ekki hagkerfinu frá ári til árs. Vissulega hafa þau rík áhrif, en það hafa einnig ákvarðanir fyrirtækja, lánastofnana, erlendra markaða og erlendra stjórnvalda, en síðast en ekki síst, íslenskur almenningur. Hagkerfið er ekki eitthvað tölvuforrit sem er látið í hendurnar á stjórnvöldum við kosningar, heldur samansafn af efnahagslegum samskiptum bókstaflega allra sem í hagkerfinu búa og reyndar líka þeirra sem utan þess búa.

Við búum í pínulitlu hagkerfi sem er mjög viðkvæmt fyrir breytingum hvort sem eru ytri eða innri, við erum í bullandi uppsveiflu og við vitum fyrir víst að þetta breytast og vel hugsanlega í náinni framtíð. Ég hef ekki orðið var við neina umræðu um þetta, heldur einungis karp um hvernig vinstrimenn séu svona og hægrimenn hinsegin.

Kannski virkar pólitíkin bara þannig að fólk hafi ekki áhuga á hlutum sem ekki er hægt að hatast yfir. Kannski missum við alltaf af svona staðreyndum einmitt vegna þess að þær eru engum að kenna.

Posted in Uncategorized

Hin undarlega áhersla á meirihlutastjórn

Það er ekkert vandamál að finna út úr myndun ríkisstjórnar við þær annars mjög svo áhugaverðu aðstæður sem hafa myndast núna eftir Alþingiskosningarnar 2016. Það sem þvælist fyrir þeirri einföldu spurningu er eingöngu sú hjátrú Íslendinga að stjórnir séu ekki mögulegar nema þær hafi meirihluta þings, eða með öðrum orðum, að ríkisstjórnin þurfi að vera yfirmaður þingsins því annars gangi ekki neitt og allt fari strax í hnút.

Þetta er einungis satt ef fyrirfram er útilokað að stjórnmálamenn geti gert málamiðlanir, fundið sameiginlega fleti á málum fyrirfram, síað út það sem verður óhjákvæmilega einungis til trafala en hefur ekki raunhæfa möguleika á að ná í gegn og verið í samskiptum við hvora aðra áður en allt er komið í bál og brand vegna samskiptaleysis og derrings.

Minnihlutastjórnir eru neyddar til að haga sér betur, einmitt vegna þess að þær eru í minnihluta. Alþingi er löggjafarvaldið samkvæmt stjórnarskrá, samkvæmt þrískiptingu valdsins og samkvæmt almennri orðræðu í stjórnmálum. Það er því vandamál, sem fólk ætti að taka alvarlega, að hefðirnar fyrirskipi að einungis með því að framselja í reynd löggjafarvaldið til framkvæmdavaldsins sé hægt að hafa framkvæmdavald sem treysti sér til starfsins. Sú staðreynd að menn telji minnihlutastjórnir ómögulegar er sjálf áfellisdómur yfir stjórnmálamenningunni.

Það er sjálfsagt að flokkar treysti sér ekki í minnihlutasamstarf með flokkum sem þeir einfaldlega ná ekki saman við, en þeir flokkar sem hafna setu í minnihlutastjórn af þeirri einu ástæðu að þeir geti þá ekki valtað yfir þingið, opinberar einvörðungu virðingarleysi þess flokks fyrir Alþingi og þrískiptingu valdsins sem grunnskipulagi lýðræðis á Íslandi.

Posted in Uncategorized

Pössum okkur að bregðast ekki framtíðinni

Skólakerfið okkar þarf á róttækri breytingu að halda. Vissulega gengur ákveðnum hópi af fólki þokkalega í núverandi kerfi en ég ætla ekki að leggja áherslu á þann hóp í þessum pistli. Ég ætla fyrst og fremst að leggja áherslu á fólkið sem gengur ekki nógu vel. Það þekkja eflaust allir einhvern sem aldrei náði fótfestu í skóla, hvort sem það er einhver úr fjölskyldunni eða vinur, með nóg af hæfileikum til staðar en þeir skiluðu sér aldrei í góðum einkunnum. Það er nefnilega til nóg af ótrúlega hæfileikaríku fólki sem mun aldrei fá að sýna almennilega hvað það hefur upp á að bjóða eins og staðan er í dag.

Það er sem betur fer komin vilji til breytinga í menntakerfið, til að auka áhuga nemenda á því sem þeir vilja helst gera. Þessar breytingar gerast þó ótrúlega hægt og eru að mestu leyti bundnar við fyrstu tvö skólastigin. Brottfall drengja úr framhaldsskólum er ennþá óásættanlega hátt. Það sárvantar pólitískan og efnahagslegan vilja til þess að byggja upp menntakerfið sem við þurfum á að halda til að tryggja betri framtíð. Núverandi ríkisstjórn hefur talað um að skapa hér gott menntakerfi en hefur hún fylgt þessu eftir? Hefur hún brugðist vel við þeirri krísu sem menntakerfið stendur frammi fyrir?

Læsisátak menntamálaráðherra er í verulegum vandræðum. Ef nemandi flosnar upp úr námi getur hann svo gott sem sagt bless við hugmyndir um að fara aftur í nám ef hann er kominn yfir 25 ára aldur. Þá borgar sig varla lengur fyrir nemandann að sækja sér menntun t.a.m. í kennslufræðum, því verði hugmyndir núverandi ríkisstjórnar að veruleika leiðir afnám tekjutengingar til þess að afborganir af námslánum hækka svo um munar. Aðgerðir núverandi ríkisstjórnar virðast byggðar á nítjándu aldar hugmyndafræði um menntun og það ætti að vera hverjum manni ljóst að slíkir starfshættir munu ekki ganga upp til frambúðar ef við viljum að fólk geti starfað hér við annað en í álveri, fiskvinnslu eða ferðamennsku. Allt eru þetta starfsgreinar sem gætu auðveldlega orðið verðlausar með breyttum markaðsaðstæðum.

Við þurfum að skapa hér fjölbreytt atvinnulíf og við gerum það einungis með því að fjárfesta í grunnstoðum samfélagsins, en ein mikilvægasta stoðin er menntakerfið okkar. Það var einu sinni norræn þjóð sem fór í gegnum efnahagslega erfiðleika en tókst að rífa sig upp með miklu þjóðarátaki. Ég er að sjálfsögðu að tala um Finnland sem tók sig til og fjárfesti vel í menntun þegar illa gekk hjá þjóðarbúinu. Þar eru menn algjörlega óhræddir við að prófa róttækar hugmyndir í menntakerfinu, afnema heimanám í grunnskóla, breyta fyrirkomulaginu á frímínútum til að sporna gegn einelti auk þess sem kennarastéttin er bæði hálaunuð og fagleg. Á Íslandi stöndum við hinsvegar frammi fyrir ákveðnum tímamótum í menntamálum þar sem aðsókn í kennaranám fer sífellt minnkandi. Hvað gerum við eiginlega þegar ekki einn einasti nemandi vill verða kennari? Við gætum verið að bregðast okkar eigin framtíð.

Posted in Uncategorized

Segjum skilið við hefðbundin stjórnmál og endurræsum Ísland

Kosningabaráttan er hægt og rólega að fara í gang. Kappræður byrjaðar á RÚV, kosningavitar að birtast hjá helstu fjölmiðlum og kosningaskrifstofur að opna. Baráttan verður eflaust áhugaverð, en það er líka gott að muna hvers vegna við göngum til kosninga núna. Þjóðin lýsti yfir algjöru vantrausti gagnvart núverandi ríkisstjórn með einum stærstu mótmælum Íslandssögunnar. Panamaskjölin sýndu mjög greinilega að það er eitthvað verulega að því hvernig stjórnmálamennirnir okkar hegða sér. Stjórnmálamenn eru samt alls ekki vont fólk, það virðist einfaldlega vanta hjá okkur þá stjórnmálamenningu sem flest vestræn lýðræðisríki eru búin að temja sér.

Víðast hvar þar sem heilbrigt lýðræði blómstrar bera menn mikla virðingu fyrir embættum kjörinna fulltrúa. Hvort sem það er borgarfulltrúi, þingmaður eða forsætisráðherra, þá er embættið mun mikilvægara en nokkur einstaklingur. Maður les gjarnan fréttir af stjórnmálamönnum víða um Evrópu sem segja af sér vegna smávægilegra hneyksilismála af því það er talið mikilvægt að embættin tengist þeim ekki.

Þetta er hefð sem virðist ekki hafa skilað sér til Íslands af einhverjum ástæðum. Eftir allt sem kom fram í Panamaskjölunum er aðeins einn stjórnmálamaður sem hefur borið jafn mikla virðingu fyrir embætti sínu og nágrannar okkar, en það er Júlíus Vífill Ingvarsson fyrrverandi borgarfulltrúi. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fyrrverandi forsætisráðherra heldur því fram að Panamaskjölin séu eitt stórt samsæri gegn sér (það er margoft búið að sýna fram á hvað hann er lítill og ómerkilegur hluti af þessum skjölum þegar þau eru skoðuð í alþjóðlegu samhengi) og bæði Bjarni Benediktsson og Ólöf Nordal líta á skjölin eins og þau hafi ekkert komið þeim við. Þau eru öll að bjóða sig fram til Alþingis í komandi kosningum.

Traust til Alþingis var mjög lítið fyrir Panamalekann og það jókst svo sannarlega ekki í kjölfar hans. Embættin eru löskuð því að einstaklingarnir sem gegna þeim bera ekki nægilega mikla virðingu fyrir starfinu. Menn töluðu um uppgjör og breytingar eftir hrunið sem hafa í besta falli reynst hálfkláraðar ef eitthvað hefur verið gert yfir höfuð. Það er með öðrum orðum greinilega enn eitthvað verulega bogið við stjórnmál á Íslandi.

Það er kominn tími til þess að segja skilið við hefðbundin stjórnmál. Viljum við virkilega halda áfram að kjósa yfir okkur stjórnmálamenn sem telja það fullkomnlega eðlilegt að hafa þjóðina að fífli? Panamalekinn er aðeins brot af löngum lista af málum þar sem þessi ríkisstjórn hefur logið blákalt að þjóðinni. Það þarf að taka á spillingunni í íslenskum stjórnmálum og það þarf að taka á því hvernig stjórnmálamenn vinna. Þessar breytingar verða eitt stærsta forgangsmál Pírata á næsta kjörtímabili, enda er þetta ein helsta ástæða þess að Píratar urðu til. Það er kominn tími til þess að endurræsa Ísland.

Posted in Uncategorized

Að vera „alvöru“ Pírati

Þegar maður hefur verið í Pírötum jafn lengi og ég hef verið þá hefur maður eflaust heyrt ákveðna setningu þó nokkrum sinnum. „Þessi er ekki alvöru Pírati“. Því fylgir yfirleitt einhver rökstuðningur, yfirleitt að viðkomandi sé ekki fylgjandi einhverri tiltekinni stefnu flokksins. Það má jafnvel vera að ég hafi sjálfur sagt þetta á einhverjum tímapunkti, kannski oftar en einu sinni, en ég held að það sé alveg kominn tími á að við sem Píratar hættum að útiloka fólk á þennan hátt, því það var ekki alltaf þannig.

Það þarf stundum að minna fólk á hvernig Píratar voru sem flokkur þegar svo gott sem enginn hafði áhuga á að fylgjast með okkur, áður en við urðum lituð af vinsældum og rosalegum tölum í skoðanakönnunum. Ég man satt að segja ekki hvenær ég heyrði fyrst: „þessi er ekki alvöru Pírati,“ en það var ekki á þessum fyrstu mánuðum sem ég var í Pírötum. Þá voru allir velkomnir, sama hversu skrítnir þeir voru eða hvaða skoðanir þeir höfðu á tilteknum málefnum. Hjá Pírötum skipti það nefnilega ekki máli hvað maður hugsaði heldur hvernig maður hugsaði. Það var æðislegt fyrir mig að koma inn sem nýliða, ég var hjartanlega velkominn, skoðanir mínar skiptu fólki máli og Píratar voru með allt öðruvísi verklag en nokkuð annað stjórnmálafólk sem ég hafði kynnst.

En Píratar hafa vaxið mun meira og mun hraðar en nokkur gat búist við og ég er ótrúlega þakklátur fyrir að hafa getað tekið þátt í svona skemmtilegu starfi með fullt af frábæru fólki. En þó að okkur gangi vel í skoðanakönnunum og ef okkur gengur vel í næstu kosningum þá þurfum við samt að muna hvaðan við komum. Strax á mínum fyrsta fundi lærði ég um grunnstefnu Pírata. Ef maður styður grunnstefnuna og er sammála upprunalegu áherslumálum Pírata um opið internet, endurskoðun á höfundarrétti o.s.frv. þá er maður alvöru Pírati. Maður þarf ekki að gleypa hvert einasta stefnumál eins og þau leggja sig enda eru þau í sífelldri endurskoðun sem hver sem getur tekið þátt í að gera betri og svo eru þau orðin nokkuð mörg.

Þessi tilhneiging til að skipta Pírötum niður í „alvöru“ Pírata og „ekki alvöru“ Pírata hefur nefnilega sést áður. Ég hef farið margar í margar ferðir erlendis til að kynnast öðrum Pírötum og nýti ég þá yfirleitt tækifærið til að spjalla sérstaklega við Pírata frá Þýskalandi. Sá flokkur er í raun orðinn að tveim mismunandi flokkum og er svo gott sem ókjósanlegur í augum margra Þjóðverja. Þetta má ekki verða að örlögum Pírata á Íslandi.

Styrkur Pírata er meðal annars að við erum orðin stór hópur af fólki með ólíkar skoðanir og það virkar án þess að við þurfum að skilgreina okkur til hægri eða vinstri, því það er sama hvaðan góðar tillögur koma ef þær eru góðar tillögur. Við þurfum líka að muna að við höfum í nógu að snúast að búa til nýja tegund stjórnmála og takast á við gamaldags stjórnmál, án þess að rífast og skammast í fólki sem raunverulega styður okkur, jafnvel þó við kunnum að vera ósammála í einstaka atriðum. Við náum ekkert að takast á við þann gríðarlega fjölda erfiðra verkefna sem bíða okkar ef við erum að metast um hver er alvöru Pírati. Alvöru Pírati á nefnilega að geta rökrætt hlutina á málefnalegum nótum án þess að ráðast á persónu fólks.

Posted in Uncategorized

Framboðstilkynning

Kæru Píratar

Hér kemur smá langloka, en svona stór ákvörðun ætti ekki að vera tekin með fáum orðum.

Það er kominn aftur tími framboðstilkynninga og það kemur eflaust fáum á óvart að ég mun bjóða mig fram í komandi prófkjöri fyrir eitt af Reykjavíkurkjördæmunum og mun ég sækjast eftir því að leiða lista flokksins. Ég er ekki að bjóða mig fram gegn neinum og það eru þegar slatti af mjög frambærilegum frambjóðendum búnir að stíga fram og tilkynna framboð. En það ætti að vera eðlilegur hluti af lýðræðinu að hafa marga möguleika og býð ég mig því fram til að vera einn af vonandi mörgum.

Ég gekk til liðs við Pírata fljótlega eftir stofnun, mér finnst voða súrealískt að horfa aftur til fyrsta fundsins sem ég mætti á hjá Pírötum en þar voru innan við 10 manns og flokkurinn var ekki einu sinni farinn að mælast í skoðannakönnunum. Ég var strax heillaður af fólkinu sem var á þessum fundi og eftir þennan örlagaríka fund var ekki aftur snúið. Síðan þá hef ég horft á Pírata vaxa og stækka hraðar en ég gat nokkurntíman búist við. Þetta er nánast eins og að fylgjast með barni sínu vaxa og þroskast og mér er alveg askaplega vænt um það.

Ég hef tekið að mér hin ýmsu hlutverk á tíma mínum í Pírötum, ég sat 2 ár í framkvæmdaráði, var stofnmeðlimur Ungra Pírata og Pírata í Reykjavík og tók einning að mér að vera formaður Young Pirates of Europe. Ég hef einnig boðið mig fram fyrir hönd flokksins tvisvar, í Alþingisskosningunum 2013 var ég í 5. sæti í Reykjavíkurkjördæmi Suður og í borgarstjórnarkosningunum var ég í 4. sæti. Eftir borgarstjórnarkosningarnar tók ég að mér að vera áheyrnarfulltrúi Pírata í Skóla-og frístundaráði og hef kynnst því nokkuð vel hvernig það er að vinna sem Pírati í meirihlutasamstarfi sem ég held að gæti nýst Pírötum vel ef til þess kæmi að við fengjum umboð fyrir slíku á þingi.

Mér er mjög annt um Grunnstefnu Pírata og að henni sé fylgt vel eftir. Ég gæti blaðrað lengi um stjórnarskránna og atkvæðagreiðslu um ESB en það ætti að vera sjálfgefin stefnumál hjá hvaða Pírata sem er og ætla ég því ekki að eyða mikilli orku í þau mál hér og nú. Karnamál Pírata eru mér af sjálfsögðu ótrúlega mikilvæg þá eru nokkur önnur mál sem ég hef verið að skoða nokkuð mikið á undanförnum árum. Ég hef líka brennandi áhuga á menntamálum og utanríkissmálum og þá sérstaklega mannréttindum. Starf mitt í skóla- og frístundaráði er búið að gefa mér mikla innsýn í menntakerfið og hvað það er sem þarf að laga þar. Vandamál menntakerfisins eru hins vegar það djúpstæð að það er takmarkað sem ég get gert á sveitarstjórnarstiginu. Ég tel það nauðsynlegt að taka menntakerfið til heildrænar endurskoðunnar þar sem við horfum í burtu frá gömlum og úreltum aðferðum og förum í það að nýta það almennilega og horfa á það sem fjárfestingu í framtíðinni en ekki kostnað sem á í sífellt meira mæli að setja á herðar nemenda og foreldra.

Ég er sjálfur að vinna í því að ljúka við BA nám í félagsfræði og hef fundið fyrir því alla mína æfi hvernig það er að berjast við það að halda áfram í námi þrátt fyrir mikla erfiðleika, lesblindu, athyglisbrest, geðröskunum og skilningsleysi kennara. Mér tókst samt sem áður að skila inn BA ritgerðinni minni núna í vor, eitthvað sem ég hélt um tíma að ég myndi aldrei ná að gera. Félagsfræðin er fyrir mér að mörgu leiti fræðileg nálgun á hugmyndafræði Pírata. Í grunninum spyrja Píratar og félagsfræðingar sömu spurningarnar “hvernig búum við til betra samfélag?”

Hjá Young Pirates of Europe hef ég unnið að því að efla tengsl ungliðahreyfinga Pírata víða um Evrópu. Ég fékk þann heiður að fá að taka við formannstitlinum eftir að Julia Reda, evrópuþingmaður Pírata í Þýskalandi þurfti að víkja út af starfi hennar. Ég hef farið og hitt Pírata erlendis með reglulegu millibili og mikið er hægt að læra af því sem þeir hafa gert vel úti en einnig af mistökunum. Núna horfa Píratar um allann heim til okkar hér heima. Við eigum möguleika á margfalt meiri árangri en nokkrum örðum Pírataflokki hefur tekist að ná. Því fylgir bæði mikill heiður fyrir okkur en einnig ákveðin ábyrgð. Nú þurfum við nefnilega ekki bara að sýna Íslandi að Píratar geta svo sannarlega komið á nauðsynlegum breytingum heldur einnig þurfum við að sýna að Píratar hvar sem er í heiminum gætu gert hið sama.

Stjórnmál víða um heiminn standa frammi fyrir djúpstæðri krísu. Ég tel að Píratar og hugmyndir okkar um beint lýðræði, upplýstar ákvarðanir, opin umræða og tjáningafrelsi sé hluti af svarinu við þeiri krísu. Hefðbundin stjórnmál hafa brugðist fólki víða um heim og núna er kominn tími til að ný stjórnmál taki við. Það er mín einlæga von að Píratar nái að beyta sér þannig á alþjóðavettvangi að Ísland verði raunverulega að þeirri mannréttindamiðstöð sem við monntum okkur svo mikið af en er að mörgu leiti innantómt kall. Eftir nokkur ár vil ég geta sagt við vini mína í Pírötum erlendis “svona komum við almennilega fram við innflytjendur og flóttamenn” “svona komum við fram við fíkla” “svona komum við fram við þá verst settu í samfélaginu”.

Posted in Uncategorized

Tjáningarfrelsi til verndar lýðræði í samfélaginu

Í tilefni pistils: “Takmörkun tjáningar til verndar lýðræði í samfélaginu” (http://www.visir.is/takmorkun-tjaningar-til-verndar-lydraedi-i-samfelaginu/article/2016160629601)

Það eru til réttmætar tálmanir á tjáningarfrelsi.

En tjáningarfrelsið er samt ekki einhver þægileg forréttindi sem við eigum “almennt” að njóta, heldur réttur sem aldrei má skerða nema til verndar tilteknum réttindum annarra og einungis af nauðsyn.

En það er eitt sem virðist ekki alveg hafa komist á hreint í íslensku samfélagi og þó víðar væri leitað: Það er ekki réttur eins eða neins að allir aðrir tjái einungis æskilegar og meinlausar skoðanir.

Tjáningarfrelsið getur ennfremur ekki verið bundið því að umræðan sé geðsleg eða jafnvel málefnaleg, vegna þess að samfélagið þarf að hafa þess kost að útkljá ágreining um ógeðsleg mál einnig.

Yfirvöld geta ekki ákveðið hver sá ágreiningur skuli vera, heldur kemur hann einfaldlega upp í samfélaginu án sérstakra leyfisveitinga eða heimildar. Þá er mikilvægast af öllu að í stað þess að reyna að móta umræðuna í samræmi við eigin þægindastuðul, þá standi yfirvöld vörð um tjáningarfrelsið til þess að samfélagið sjálft, en ekki ríkið, geti útkljáð sinn ágreining í opinni, heiðarlegri umræðu. Eins og fólk sem pælir í pólitík hlýtur að vita, þá er heiðarleiki ekki það sama og kurteisi.

Um leið og sett eru þau lagalegu skilyrði fyrir tjáningu að hún megi ekki vera taumlaus, taktlaus, ókurteis, óþægileg, virðingarsnauð, heimskuleg, hneykslanleg, ónærgætin, óæskileg eða hreint út sagt viðbjóðsleg, þá er tjáningarfrelsið orðið tilgangslaust. Tjáningarfrelsið verður að fela í sér réttinn til orðræðu sem inniheldur allt hið fyrrgreinda. Tjáningarfrelsið er verkfærið sem siðmenntuð samfélög nota til að moka hinn málefnalega flór.

(Til að bregðast strax við fyrirsjáanlegum viðbrögðum: Þetta felur ekki í sér að hömlurnar séu engar. Áður en einhver tekur sig til og finnur dæmi um viðbjóð sem er líka brot á réttindum annarra, þá vek ég athygli á því að í fyrrgreindri upptalningu er ekki að finna brot á réttindum annarra, vegna þess að tjáningarfrelsið veitir ekki réttinn til að brjóta á réttindum annarra. Vonandi er þetta skýrt. Höldum áfram.)

Lýðræðislegt hlutverk tjáningarfrelsisins er fyrst og fremst sá að tryggja að vondar skoðanir sé hægt að ræða opinskátt, þar á meðal af þeim sem vita betur. Sú umræða á sér ekki stað með þöggun, og þá skiptir engu máli hvort þöggunina megi réttlæta lagatæknilega eða ekki: sú nauðsynlega umræða á sér samt ekki stað með þöggun, en hún þarf samt að eiga sér stað. Engin lagarök breyta þeirri staðreynd. Löglegt er ekki það sama og skynsamlegt.

Hótun um lögsókn er hótun.

Jafnvel ef hótun um lögsókn er rökrétt og lögmæt, þá er hún samt hótun, en hótanir sannfæra engan raunverulega heldur eru í reynd tegund af valdbeitingu. Hótanir um beitingu lögreglu- og dómsvalds eru því ekki málefnaleg sókn, heldur málefnaleg uppgjöf. Stundum getur það verið nauðsynlegt að hóta lögsókn, til dæmis ef einstaklingur beitir annan hótunum, eða brýtur á friðhelgi einkalífs einhvers, eða getur spillt rétti annarra til réttlátrar málsmeðferðar; en þá eru það hótanir byggðar á nauðsyn, ekki rökum.

Þá er einnig grundvallaratriði að hótunin sé byggð á raunverulegri nauðsyn til verndar réttinda annarra, en sé ekki bara lagatæknileg afsökun fyrir því að losna við ógeðslega orðræðu. Alveg eins og að þótt lögreglan þurfi að geta beitt líkamlegu valdi við ákveðnar aðstæður, þá á hún einungis að beita því þegar nauðsyn krefur, ekki til að spara sér ómak, sem dæmi.

Hótun um lögsókn er alvarlegt inngrip í tjáningarfrelsið og jafnvel þótt hún geti verið nauðsynleg, þá er hún samt sem áður alltaf alvarlegt inngrip.

Hótanir eru ekki rök.

Í engum málefnalegum umræðum eru hótanir málefnaleg rök. Þegar gripið er til hótana er hótandinn í raun búinn að segja þeim sem hótað er, að þá sé umræðum lokið og málin verði ekki útkljáð út frá því hvað sé satt og rétt, né út frá staðreyndum sem beri að hafa í huga, heldur út frá valdbeitingu. Bann við fordómafullum skoðunum sendir þau einu skilaboð til hinna fordómafullu, að talsmenn umburðarlyndis séu orðnir svo rökþrota og hafi svo vonlausan málstað að verja, að þeir verði að grípa til lögsókna. Þess vegna sannfærir ekkert fordómafullt fólk meira, um að fordómar þess séu réttmætir, heldur en þegar talsmenn umburðarlyndis beita hótunum um lögsóknir frekar en rökum máli sínu til stuðnings.

Það sorglegasta er að þetta er alger óþarfi vegna þess að… í alvöru, lýðræði, mannréttindi, umburðarlyndi og frelsi eru ekki svo vonlausir málstaðir að við talsmenn þeirra eigum í neinum vandræðum með að rökræða þá. Því miður er það hinsvegar þannig að fólk sem ýmist nennir ekki í þá umræðu, telur sig of fínt fyrir hana eða hreinlega treystir sér ekki til að rökstyðja mál sitt, vill frekar fara einhvers konar þöggunarleið.

Tjáningarfrelsi gegn hatursáróðri.

Mikilvægi tjáningarfrelsisins er engin réttlæting fyrir hatursáróðri heldur mikilvægt vopn í baráttunni gegn honum. Það sem skortir á er að það vopn sé raunverulega nýtt af talsmönnum umburðarlyndis og frelsis frekar en ákall um að móta umræðuna beinlínis með lagavaldi.

Ég tek sjálfur virkan þátt í því að vinna gegn fordómum með því að ræða (misdónalega) við fordómafullt fólk, sennilega oftar en er manni hollt. En þessar hugmyndir um að takmarka tjáningu málefnalegra andstæðinga minna hjálpar mér ekki heldur þvert á móti þvælist fyrir og gefur þeim byr undir báða vængi. Þeir fá lítinn frið fyrir mér nema þegar ég þarf að snúa mér í lið með þeim sjálfum til að verja rétt þeirra til að tjá sínar oft á tíðum nautheimskulegu, óþolandi og ógeðslegu skoðanir. Reyndar lendi ég sennilega síðan í því að talsmenn umburðarlyndis saka mig um að verja fordóma, meðan fordómafulla liðið sakar mig um að vera svokölluð “múslimasleikja” fyrir að vera á móti mismunun á grundvelli trúarskoðana, en það ku vera fúkyrði þeirra á meðal ef ég skil rétt.

Markmiðið.

Þegar allt kemur alls snýst þessi umræða um að verja lýðræðið, mannréttindi, umburðarlyndi og frelsi fyrir ágangi afla sem eiga erfitt með að ná sínu fram þegar þessi gildi fá að ráða. En þessi gildi krefjast ekki þöggunar til að bera sigur af hólmi heldur einmitt þvert á móti. Þau stóla fyrst og fremst á opna og heiðarlega umræðu þar sem fólk getur tjáð sig án ótta við hótanir, hvort sem þær eru í formi líkamlegra hótana eða hótana um lögsókn.

Hótum því sem varlegast og sem allra, allra sjaldnast.

Posted in Uncategorized

Glópagullskerfi Menntamálaráðherra: LÍN frumvarpið

Nýútkomið frumvarp menntamálaráðherra um breytingar á Lánasjóði íslenskra námsmanna virðist vera glópagull. Það er mín niðurstaða eftir að hafa skoðað þetta í dag með opnum hug og von um að það gæti eitthvað gott komið frá þessu ráðuneyti. Þó það sé boðið upp á 65.000 kr í styrk óháð því hvort viðkomandi taki sér framfærslulán eður ei, þá er margt annað sem þarf að athuga.

Það er komið hámark á því hversu mikið einstaklingur getur fengið í lán. 15 milljónir. Ofan á það leggst 65.000 kr styrkur í allt að 40 mánuði. Þetta 15 milljóna króna hámark er ákveðið án þess að taka tillit til fjölskylduaðstæðna, þ.e. fjölda barna á framfærslu námsmanns eða dýr skólagjöld. 

Til að setja þetta í samhengi þá eru skólagjöldin í Cambridge til þess að fara í efnaverkfræði eða tölvunarfræði £24,069 sem eru 4,4 milljónir íslenskra króna. Það þarf engan sérstaka hæfileika í stærðfræði til þess að sjá að íslenskir stúdentar muni eiga eftir að eiga erfitt með að fjármagna skólagjöld að fullu fyrir mikilsvirta skóla á borð við Harvard og Cambridge frá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Hvað kemur í staðinn? Einkareknir námslánasjóðir? Bankalán?

Verðtrygging og vextir

Lánin verða verðtryggð. Þar að auki  eru 2,5% vextir og 0,5% vaxtaálag. Eins og staðan er núna er 1% vextir á námslánum og skuldabréfið lokast þegar stúdentinn er búinn með nám. Með breytingunum þá mun verða til eitt skuldabréf á hverja útborgun, sem þýðir að við lok 180ECTS BA gráðu verður stúdent með 6 skuldabréf. Við lokun skuldabréfs þá byrjar það að safna vöxtum. Þannig, eftir fyrstu önnina í háskóla þá byrjar klukkan strax að tifa og fyrsta útborgunin upp á kannski hálfa milljón safnar vöxtum þangað til að stúdent hefur lokið námi og byrjar að borga af námslánunum sínum. Það eru þrjú og hálft ár á fyrsta skuldabréfið, þrjú ár á annað skuldabréfið og svo koll af kolli. 

Á fyrsta skuldabréfinu, gefum því þægilega tölu upp á hálfa milljón og vextir samtals upp á 3% þá er mánaðarleg vaxtasöfnun 1.250 kr.. Það þarf ekki að byrja að borga á fyrsta skuldabréfinu fyrr en eftir 42 mánuði og á þeim tíma safnast vextir ofan á höfuðstólinn, upp á samtals 52.500 kr. Næsta skuldabréf safnar vöxtum í 36 mánuði, eða 45.000 kr. og svo koll af kolli. Samkvæmt mínum frumstæðu útreikningum þá hefur bæst við höfuðstólana 202.500 kr í ógreidda vexti miðað við að á sex mánaða fresti í þrjú ár fái námsmaður 500.000 kr. í námslán og byrji að borga af láninu ári eftir útskrift. borgað er af skuldabréfunum samhliða, ekki þannig að það sé byrjað að borga af einu í einu heldur er einn reikningur sendur út þar sem þetta er allt saman: 6 lán upp á 500 þúsund sem bera 3% vexti, samtals upp á 3 milljónir og samtals uppsafnaðir vextir upp á 200 þúsund. Og svo er byrjað að borga af því. 

Afborgarnirnar eiga að vera jafngreiðslur. Það kemur ekki skýrt fram í frumvarpinu hversu háar afborganirnar eiga að vera — en reikni maður dæmið þá er hugsanlega verið að ræða um 30-40 þúsund krónur á mánuði fyrir fimm ára háskólanám. Fimm ára háskólanám er núna skilyrði fyrir ýmis störf í samfélaginu sem borga ekki hálfa milljón á mánuði eftir skatt í laun. Það er því há greiðslubyrði fyrir fólk sem er með útborgað 200-250 þúsund á mánuði eftir skatt eftir fimm ára háskólapróf að greiða 30 þúsund á mánuði eða um 15% af heildarútgjöldum. Verði þetta að veruleika þarf að semja um sérstakar hækkanir á launamarkaði sem tekur til greina það að stúdentar sem útskrifast með 3-5 ára háskólapróf og eru ekki með tekjutengdar afborganir á lánum sínum hafi meiri og dýrari greiðslubyrði heldur en áður. 

Það vekur að auki athygli að viðmiðun útreikninga á blaðsíðu 32 er reiknað með því að viðkomandi hafi hálfa milljón á mánuði ári eftir að hafa útskrifast með master í einhverju. Er það raunveruleikinn á Íslandi í dag?

Glópagull eða styrkur?

Styrkurinn virðist því vera glópagull. Það kemur út á sléttu þar sem vaxtagreiðslurnar hækka úr 1% upp í 3%, lánið byrjar að safna vöxtum um leið og lánið er greitt út og safnar vöxtum allan lánstímann og allan afborgunartímann. Fyrir fólk sem ætlar í langt nám þá er þetta allt að tíu ár af uppsöfnuðum vöxtum. Fimm ár fyrir þá sem ætla að taka bachelor og master. 

 Það sem þetta glópagull mun hugsanlega gera er að vera meiri hvati fyrir ungt fólk á höfuðborgarsvæðinu til þess að búa lengur hjá foreldrum sínum. Þessi styrkur mun því helst gagnast fólki á höfuðborgarsvæðinu sem býr við öruggar heimilisaðstæður. Þannig mun þetta mismuna fólki út frá því hvar þar býr og hvernig fjölskyldu hagir þeirra eru. Þeir sem munu njóta mest góða af þessum styrkjum eru nefnilega stúdentar sem eiga gott bakland – efri og millistéttarfjölskyldur og á höfuðborgarsvæðinu eða Akureyri, finni stúdent þar nám við hæfi. Þessi styrkur verður góður vasapeningur fyrir þá sem þurfa ekki að taka lán til þess að sjá fyrir framfærslu.

Hinir, sem þurfa að sækja skólann um langan veg og/eða geta ekki búið í foreldrahúsum. Þeir sem þurfa að fullorðnast hratt, eru fullorðnir og eru sjálfstæðir munu þurfa að taka námslán – hinir ekki og þar af leiðandi munu ekki þurfa að fara út í lífið með námslánabyrðina. Ég hygg þetta muni koma verulega illa fyrir nýstúdenta sem koma utan að landi.

Leysir ekki helstu vandamál stúdenta

Stærsta vandamál stúdenta til þess að standa sjálfstæðum fótum í núrverandi kerfi er að námslánin eru greidd út eftir á. Á hinum Norðurlöndunum þá er styrkurinn eða lánið greitt út í hvejrum mánuði. Á bls. 28 í frumvarpinu er rakið hversu mikið ‘óhagræði’ það hafi verið af því að greiða út námslánin fyrirfram vegna þess að það var of erfitt að endurheimta ofgoldin námslán, hinsvegar þá hafa hin norðurlöndin tekist að gera það án þess að það hafi verið eitthvað þvílíkt vesen.

Eins og staðan er í dag þá eru nemendur að sækja í námsmannayfirdrætti með tilhlítandi kostnaði og lenda svo í útistöðum við bankann ef þeir falla í kúrs eða fá ekki námslánin eins og vera ber. Frumvarp þetta gerir hinsvegar ráð fyrir að “námenn [fái] greiddan vaxtastyrk vegna þessa óhagræðis sem það hefur í för með sér”. Það sem þetta er að búa til er tilgangslaus peningamyndum í formi útgáfu skuldabréfa hjá bönkunum. Það er alveg hægt að greiða þetta út jafnt og þétt – ég hugsa að það hefði jákvæð áhrif á námsframvindu hjá stúdentum þar sem það eykur fjármagnsöryggi stúdenta yfir námstímann. Ef tilgangurinn með námslánum er að gefa bönkum eitthvað rúm til þess að græða á þeim, þá er uppi einhver misskilningur með tilgang lánasjóð íslenskra námsmanna hjá ráðamönnum vor.

Einkavæðing námslánakerfisins?

Þetta frumvarp menntamálaráðherra er á heildina litið mjög slæmt. Þarna er verið að auka vaxtabyrði námsmanna, þarna er verið að gera frekari takmörk á hversu hátt lán námsmenn geti fengið yfir námstímann og þannig takmarka barnafjölskyldur eða einstæða foreldra með börn á framfærslu að stunda nám. Þarna er verið að takmarka möguleikana á því að geta farið í góða háskóla sem eru oftar en ekki dýrir. Þarna er verið að búa til glópagulls styrkjakerfi sem lántakandinn sjálfur borgar fyrir með vaxtafyrirkomulaginu.

Posted in Uncategorized

Um afsagnir og traust

Heiðarlegur og algengur misskilningur kemur fram í máli stjórnarþingmanns í viðtali sem ég heyrði rétt í þessu.

Þingmaðurinn sagði að með því að segja af sér, hafi Sigmundur Davíð Gunnlaugsson að einhverju leyti viðurkennt mistök. Þessi ranghugmynd um afsagnir stjórnmálamanna er sennilega með stærstu ástæðum þess að menn segja svo sjaldan af sér hérlendis og þá ekki fyrr en allt er komið í kaldakol. Afsögn er nefnilega ekki það sama og viðurkenning á mistökum. Stundum segja menn af sér vegna mistaka en það er þó ekki það sama.

Afsögn getur þýtt það eitt að maður telji betra fyrir embættið sjálft eða umbjóðendur þess, að fjarlægja eigin persónu úr því af einhverjum ástæðum. Sem dæmi vék Illugi Gunnarsson af þingi þegar Sjóður 9 var til rannsóknar og með því var hann ekki að viðurkenna nein mistök, heldur þvert á móti að forðast mistök, ásakanir um mistök eða grun um misferli. Það var betra fyrir stöðuna, fyrir hann sjálfan og fyrir Alþingi.

Eitt lærdómsríkasta dæmið er afsögn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, sem vissulega gerði mörg, mjög veigamikil mistök, en ef hún hefði sagt af sér sem ráðherra um leið og lögreglurannsókn hafði hafist á innanríkisráðuneytinu, þá hefði það þvert á móti gefið henni trúverðugleika sem hún glataði gjörsamlega með þrásetu sinni.

Það vantar sárlega hugarfarsbreytingu í garð pólitískrar ábyrgðar á Íslandi. Menn eiga ekki bara að segja af sér eða stíga til hliðar þegar allt er komið í kaldakol og búið er að sanna upp á fólk einhverja stórfellda glæpi, afglöp eða blekkingar. Stjórnmálamenn eiga að stíga til hliðar, ýmist tímabundið eða fram að endurnýjun umboðs, til þess að öðlast virðingu og traust en ekki öfugt. Lykilatriði, til þess að svo geti verið, er að gera það áður en þrásetan gerir að engu þann trúverðugleika sem afsögn getur veitt þeim tækifæri til að öðlast.

Posted in Uncategorized

Ætla þingmenn stjórnarmeirihlutans að verja þetta?

Í ljósi umfjöllunar Kastljóss um tengsl ráðamanna við aflandsfélög:

Í þingmannahópi meirihlutans á Alþingi, í Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki, er margt gott fólk með hjartað á réttum stað og höfuðið rétt skrúfað á, sem raunverulega fór í pólitík af góðum hug og með það að markmiði að gera Ísland betra samkvæmt sínum skilningi. Eðlilega er maður oft ósammála þeim, ýmist um aðferðafræði, sjónarmið eða jafnvel grunngildi, enda eðlilegt í pólitík.

En núna virkilega liggur á því að þingmenn stjórnarmeirihlutans velti fyrir sér hvers vegna þeir fóru í pólitík. Fóru þeir í pólitík til að verja þetta? Eru þeir reiðubúnir til þess að leggja nafn sitt gegn vantrauststillögu eftir það sem nú hefur verið opinberað?

Sjálfur hef ég orðið vitni að hreint út sagt ótrúlegum hlutum í pólitík, til dæmis það að yfirhöfuð komast inn á þing í kosningunum 2013. Eftir það, sögulegt stökk flokksins okkar í skoðanakönnunum sem ekkert lát virðist vera á, þrátt fyrir ýmsa erfiðleika. Við búum í heimi þar sem fáránlega ólíklegir atburðir eiga sér stað á hverjum einasta degi og það hættir í sjálfu sér að koma manni á óvart að eitthvað stórkostlega ólíklegt hafi átt sér stað.

En ég neita að trúa því og ætla ekki að trúa því að meirihluti þingsins muni greiða atkvæði gegn tillögu um vantraust eftir þetta.

Posted in Uncategorized