Hégómi fimmta valdsins

Ef ekki hefði verið fyrir inngrip Birgittu Jónsdóttur inn í gerð kvikmyndarinnar The Fifth Estate, þá hefði myndin fjallað að hluta um íranskan kjarneðlisfræðing sem væri í hættu staddur vegna uppljóstrana Wikileaks á því að hann hefði séð bandaríkjastjórn fyrir upplýsingum um kjarnorkuvopn Írana. Í myndinni hefði verið sena þar sem aðalsögupersónur sætu í heitum potti á Íslandi og ræddu kæruleysislega um það sem átti eftir að verða stærsta sönnun á stórfelldum stríðsglæpum síðan í lok seinni heimstyrjaldar.

Þegar handritið að þessari kvikmynd lak út hafði Birgitta samband við Josh Singer, handritshöfund, og lýsti gremju sinni yfir þeirri þvælu sem var í myndinni. Í kjölfarið fékk hún nýja útgáfu af handritinu, og við sátum á kaffihúsi langan eftirmiðdag og lásum í gegnum vitleysuna – undirstikuðum helsta ruglið og svo voru leiðréttingar sendar. Þetta leiddi til þess að úr varð mynd sem varpaði ekki á nokkurn hátt neikvæðu ljósi á Wikileaks samtökin, né nokkurn þar innan.

Það var aldrei nokkur leið til að stöðva framleiðslu myndarinnar. Það hefði hugsanlega verið best, en það var ekki hægt. Þeim teningum var kastað. Það eina sem var hægt að gera var að reyna að færa söguna nær raunveruleikanum – þótt hún væri þar fjarri – og rétta hlut þeirra sem voru persónugerðar.

Mér var boðið á forsýningu breska dagblaðsins The Guardian á myndinni í London. Ég átti von á því versta. Þrátt fyrir allt, þegar upp er staðið, þá er það leikstjórinn og leikararnir sem ráða því með hvaða hætti spilast úr svona myndum. Niðurstaðan kom mér á óvart: atburðir myndarinnar voru í kolrangri tímaröð, margt fólk sem var á staðnum í raunveruleikanum var ekki á staðnum í myndinni, og sömuleiðis var margt fólk á staðnum í myndinni sem var ekki á staðnum í raunveruleikanum. Ýmsir atburðir myndarinnar voru hreinn uppspuni. En mér fannst myndin þrátt fyrir allt góð. Hún náði að fanga bæði hugsjónirnar og andann sem ríkti, sýndi allar persónur í mjög sanngjörnu ljósi. Benedict Cumberbatch lék sitt hlutverk mjög vel – eina sem ég hafði út á að setja var síðasta setning myndarinnar, sem var frekar klén.

B-plottið, með íranska kjarneðlisfræðinginn, var fjarlægt. Í stað þess var öllu raunverulegri frásögn af manni sem þurfti að komast burt úr Líbíu. Sú saga var líka uppspuni, en hafði einkum tvennt fram yfir upprunalega B-plottið. Annars vegar voru mjög margir sem þurftu að flýja hin ýmsu lönd í tengslum við arabíska vorið – ég þekki suma þeirra sjálfur – þannig að þessi saga er ekki alskostar ótrúverðug. Hinsvegar gaf þessi frásögn hvergi í skyn að Íran hefði kjarnorkuvopn, sem er sú tegund af hættulegum uppspuna sem getur sveigt almenningsálit, sem nú þegar er ekki jákvætt gagnvart Íran, og orðið til þess að auka líkurnar á innrás Bandaríkjanna inn í Íran.

Ef Julian Assange og Kristinn Hrafnsson myndu losa um hégómann og reiðina í smá stund og hugsa málið myndu þeir sennilega fatta það að þeir eiga að vera að þakka Birgittu fyrir, en ekki gagnrýna hana. Það er nákvæmlega ekkert gagnlegt við þessar árásir. Þær bæta varla hina löskuðu ímynd Wikileaks, sem myndin nær þó að fegra þó nokkuð.

Kristinn Hrafnsson gerði nokkuð sérkennilega athugasemd varðandi þá hugmynd að Pírati væri að aðstoða Hollywood kvikmyndaver, þar sem við Píratar værum á móti höfundarrétti. Þetta sýnir algjöran vanskilning á stefnu okkar: við erum ekki á móti höfundarrétti, við erum á móti úreldum, ónýtum, heimskulegum höfundarrétti sem samræmist ekki nútímanum. Það að aðstoða kvikmyndaver með nokkrum símtölum og tölvupóstum er því engu meiri hræsni en að gefa út bók eða skrifa bloggfærslu.

Það er löngu kominn tími til að þetta væl í Wikileaks mönnum hætti. Þessi samtök voru eitt sinn merkileg, og gerðu stórkostlega hluti. Þau breyttu heiminum til hins betra. Ég er stoltur af minni þátttöku í þeim samtökum, þrátt fyrir að viðskilin hafi ekki verið með besta móti. Hugmyndafræðilegur ágreiningur – með mjög raunverulegar afleiðingar – gerði mér og ýmsum öðrum ókleift að halda áfram að starfa með þeim. Það er ástæðulaust að telja það til sérstaklega, enda löngu liðið og ekki gagnlegt neinum nema þeim sem vilja takmarka getu fimmta valdsins til að starfa.

Það sem skiptir máli er að það er mikil þörf á samtök á borð við Wikileaks í dag, heiðvirðum og stöðugum samtökum sem allir geta treyst. En samtökin munu aldrei ná slíkum hæðum á ný fyrr en þessi biturð verður lögð til hvíldar.

Posted in Uncategorized

Samsláttur Hönnu Birnu

Það er algengt í stjórnmálum að tvennu sé slegið saman – einu góðu, og einu slæmu – í þeim tilgangi að rugla alla umræðu, afvegaleiða skynsama hugsun, og flækja mál. Stundum, en þó ekki alltaf, kemur slíkur samsláttur til af því að þeir sem að samslættinum stóðu gerðu sér ekki grein fyrir því að um tvennt aðskilið væri að ræða. Ég veit ekki hvort um vísvitandi verk eða slys hafi verið að ræða í tilfelli margrædda frumvarpsins hennar Hönnu Birnu, en mér var kennt að ég ætti aldrei að gruna fólk um illsku þegar heimska er fullnægjandi skýring.

Frumvarpið sem um ræðir inniheldur ekki nema þrjár greinar. Sú þriðja er formsatriði varðandi gildistöku, og eru því greinarnar í raun tvær sem skipta máli. Það sem frumvarpið gerir er líka tvennt – en þó ekki þannig að það sé hægt að segja að önnur greinin geri eitt og hin greinin annað. Sjáið til:

Fyrsta greinin bætir eingöngu einu orði við upptalningu: orðið “kynvitund” er skeytt inn í 180. grein almennu hegningarlaganna á eftir orðinu “kynhneigð”. Þetta er gert vegna þess að þrátt fyrir að allir eigi að njóta verndar í öllu samkvæmt lögum, þá virðast lögskýrendur hafa einstakt lag á því að túlka “allir” og “allt” á hátt sem nær ekki yfir allt, og því hefur myndast hefð í kringum það að telja til þau atriði sem við viljum alls ekki að þau undanskilji þegar mikið liggur við. Það er bæði sjálfsagt og gott að bæta kynvitund þar inní – þó fyrr hefði verið.

[Athugasemd bætt við korteri seinna: Már Örlygsson benti mér réttilega á að stóra breytingin sem 2. greinin leggur til felst í málfarsmuninum á “hæðist að” og “ræðst að með háði”. Það er rétt hjá honum – ég er greinilega farinn að ryðga í íslenskunni á því að vera svona lengi í útlandinu. Þessi málfarsmunur er einn og sér nægur til að réttlæta allar breytingarnar sem ég legg til fyrir neðan…]

Þá er það önnur greinin. Annars vegar skeytir hún sama orðinu, “kynvitund” inn í 233. gr. a., í lögunum – sem er stórfínt með nákvæmlega sömu rökum: það að lögskýrendum er ekki treystandi til að skilja hugtakið “allir”. Gott og vel. Hinsvegar, sem er verra, skiptir greinin út orðunum:

 • “Hver sem með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt ræðst opinberlega á mann eða hóp manna vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar sæti sektum eða fangelsi allt að 2 árum.”

fyrir orðin:

 • “Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.”

Þar sem enginn ágreiningur ríkir um upptalninguna ætla ég að taka upptalninguna út í hvoru tilvikinu fyrir sig:

 • “Hver sem með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt ræðst opinberlega á mann eða hóp manna vegna [UPPTALNING] sæti sektum eða fangelsi allt að 2 árum.” 
 • “Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna [UPPTALNING], eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.”

Skoðum nú hver munurinn er með því að feitletra og undirstrika öll mikilvægu orðin í nýju útgáfu greinarinnar sem koma ekki fram í núverandi grein:

 • “Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum (1) eða annars konar tjáningu (2), svo sem með myndum eða táknum (3), vegna [UPPTALNING], eða breiðir slíkt út (4), skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.”

Fyrir utan þessi fjögur atriði, sem eru ný, stendur allt sem var í upprunalegu greininni eftir með hér um bil sömu merkingu, þó röðin sé aðeins önnur. Athugið að öll greinin á við um öll atriðin í upptalningunni, ekki bara kynvitundinni. Það er að segja, þetta snýst ekki um kynvitund lengur – enda hefur nákvæmlega enginn lýst andstöðu við því að bæta kynvitund við í upptalningunni.

Veltum nú fyrir okkur hvað felst í þessum fjórum atriðum.

“Ummæli” eru orð sem eru sögð eða skrifuð. Ummæli eru vernduð sem hluti af tjáningarfrelsi, enda hafa vestræn samfélög orðið að læra mjög erfiðar lexíur um hvað gerist þegar ákveðin ummæli eru bönnuð. Ef þið munið, fyrir svona tíu árum, þegar það komst í tísku um tíma að tala um að hlutir væru “gay”, eins og það væri á einhvern hátt slæmt, þá vitið þið að a) oft myndast málhefðir í samfélaginu sem eru ekki byggðar á upplýstri afstöðu fólks, og b) oft notar fólk orð á hátt sem gæti hugsanlega verið móðgandi eða háðugt án þess að það sé ætlunin. Það sem meira er: samfélagið okkar hefur þróast frá notkun orða á þennan hátt ekki með boðum og bönnum, heldur einmitt með upplýstri umræðu og gagnrýni. Ef ákveðnar tegundir ummæla eru bannaðar þá er hætt því því að gagnrýni á það sem er slæmt í samfélaginu verði óvart útrýmt í leiðinni.

“Annars konar tjáning” er gríðarlega víðfemt, og getur falið í sér allt frá leiklist, kvikmyndum og skáldsagnarskrifum að ljósmyndum, gagnagrunnum, myndskreytingum, og svo framvegis. Þetta myndi þýða að bækur á borð við Tinni í Kongó eftir Georges “Herge” Remi, Narníubækurnar eftir C.S. Lewis, og bókin Enders Games eftir Orson Scott Card, sem nú hefur verið gerð kvikmynd eftir, ættu allar að teljast ólöglegar. Í rauninni nær þetta lengra en bækur: ef einhver gæti hugsanlega móðgast á grundvelli upptalningarinnar yfir hvaða menningarverki sem er, þá myndi það teljast lögbrot samkvæmt þessari nýju grein.

“Að breiða slíkt út” tek ég fyrir á undan táknunum, því hér kemur fjölmiðlun við sögu. Oft er það gert með vondum hug að breiða út háð og róg, en í mörgum tilfellum er það breitt út með það að markmiði að draga athygli að kjánaskap þeirra sem bjuggu róginn til eða hófu háðið. Þótt heiðvirður dómsstóll myndi nú aldrei taka sér það fyrir hendi að túlka svona lög á hátt sem kæmu illa niður á fjölmiðlum, þá hafa dómar í meiðyrðamálum undanfarin ár sýnt að ef til vill eru heiðvirðir dómsstólar ekki jafn algengir og við vildum.

“Myndir eða tákn” eru enn ein útvíkkunin á þessu. Tákn eru notuð mjög víða í samfélaginu, og hafa djúpan sess í huga okkar allra – hvort sem það eru (haka)krossar utan á byggingum, gulir þríhyrningar með rauðum ramma á götuhornum, eða blá doppa á krana, þá eru merkingar af öllum toga allsstaðar í kringum okkur, og þær upplýsa okkur á ótal vegu um hvað megi þar finna. Sum tákn merkja góða hluti í okkar huga, sum tákn merkja vonda hluti. En mjög mörg tákn eru merkingarbær. Þá er spurningin: Segjum sem svo að stofnaður yrði félagsskapur fólks á Íslandi sem héldi því fram að íslenska væri eina rétta tungumálið og að öll önnur tungumál væru óæðri, sem og fólkið sem þau mál tala. Hér væri greinilega um að ræða þjóðrembingslega hreintungustefnu sem ætti undir niðri ýmislegt skylt við nasisma, enda væri þjóðerni flestra einmitt ástæða smánunar hér. En gott og vel. Segjum nú sem svo að þessi félagsskapur býr sér til merki: fálki við bláan himinn, svona voðalega íslenskt eitthvað. Þetta merki er notað í fréttum um þennan hóp (úbbs – útbreiðsla! Þá er vont að starfa hjá fjölmiðli!) og fólk fer að tengja fálkann góða við smánun á til að mynda Bretum, sem tala að öllu jöfnu ekki íslensku, og eru því augljóslega óæðri kynstofn. Þá allt í einu skapast það vandamál að fálkatáknið á bláa grunninum verður ólöglegt. Hvað gerir Sjálfstæðisflokkurinn þá?!

Vandamálin við 2. grein þessa frumvarps eru ótrúlega mörg, og þau koma öll til af því að verið er að reyna að setja upp girðingar í kringum það hvernig fólk talar – og þar með, hvernig fólk hugsar. Reynslan hefur þó sýnt að besta leiðin til að skapa réttlátt samfélag, laust við róg, háð, smánun eða ógnir, er ekki að reyna að banna og refsa, heldur að upplýsa. Það er vissulega erfiðara að upplýsa fólk en að slengja því bara í steininn, en sem betur fer höfum við undanfarið ekki miklað það of mikið fyrir okkur að útskýra fyrir náunganum að það sé frekar fáranlegt að hafa skoðanir sem byggjast á ótta og fávísi.

Góðu fréttirnar eru að það er rosalega auðvelt að laga 2. gr. frumvarpsins þannig að enginn muni finna neitt athugavert við það. Skoðum 1. gr. aðeins aftur:

 • 1. gr. Í stað orðanna „trúarbragða eða kynhneigðar“ í 1. mgr. 180. gr. laganna kemur: trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar.

Tillaga mín að því hvernig mætti breyta 2. grein þannig að hún gerði góðar og uppbyggilegar breytingar á 233. gr. a. væri:

 • 2. gr. Í stað orðanna „trúarbragða eða kynhneigðar“ í 233. gr. a laganna kemur: trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar.

Einfalt, ekki satt?

Það er mjög mikilvægt að við gerum skýran greinarmun á því sem er gott og því sem er slæmt í svona frumvörpum. Ég vona að þeir taki það til sín sem hafa orðið fyrir því óláni að bíta samslátturinn í sig eins og um eitt hreint og ósmættanlegt mál væri að ræða.

Eitt að lokum:

Það er algjör tímaskekkja að hægt sé að fangelsa fólk fyrir skoðanir sínar. Sektir, kannski, hugsanlega. Bætur þá helst til þeirra sem hafa þurft að þola ósanngjörn ummæli, en samt ekki refsikenndar bætur, enda er slíkt barbaraháttur. Það merkilega við þetta frumvarp er að Hanna Birna bjó það ekki til – ráðherrar semja sjaldnast frumvörpin sín sjálf, þau panta bara frumvörpin frá starfsfólki sínu eða nefndum, og samþykkja svo að flytja þau ef þau eru nægilega góð. Hanna Birna er greinilega á því að það sé fínt að hefta tjáningarfrelsi fólks, en það er eitthvað skrýtið við það að nefndin sem bjó til þetta frumvarp hefur haft til umræðu að flytja meiðyrðalöggjöfina – sem þetta fellur jú undir – úr refsirétti, að tillögu Evrópuráðs m.a., yfir í skaðabótarétt. Hvers vegna er þá verið að gera þetta núna?

Kannski væri ágætis byrjun í því verki að bæta við nýrri 3. gr. við frumvarpið hennar Hönnu Birnu, sem orðast þá einhvernvegin svona:

 • 3. gr.
  a) orðin “eða fangelsi allt að 2 árum” í 233. gr., 233. gr a, 233. gr. b og 2. mgr. 236. gr. falla niður.
  b) orðin “eða fangelsi allt að 1 ári” í 234. gr. og 235. gr. falla niður.
  c) í stað orðanna “fangelsi allt að 2 árum” í 1. mgr. 236. gr. komur orðið “sektum.”

Þá erum við sko farin að tala um gott frumvarp!

Posted in Uncategorized

Trúarhávaði

Eitt af því mörgu sem andstæðingar moskubygginga bera stundum fyrir sig er sú truflun sem hlýst af bænaturnum, enda heyrist úr þeim hávært garg fimm sinnum á dag. Þetta garg, eða öllu heldur þessi söngur, er misjafnlega fluttur. Sumir hafa bara ekki mjög góða rödd fyrir þennan sið, sem kallaður er Adhan. Aðrir leggja sig ekki mikið fram, en Muezzininn – sá sem er ábyrgur fyrir bænakallinu – er yfirleitt valinn í hlutverkið vegna stundvísis og sönghæfileika. Það sem er sungið er misjafnt milli trúarafbrigða, en byrjar yfirleitt á einhverju á borð við: “Guð er bestur. Ég ber þess vitni að enginn annar en Guð er verðugur tilbeiðslu,” og svo framvegis – eitthvað sem Kristið fólk ætti alveg að geta sætt sig við (þótt það sem komi næst á eftir falli þeim hugsanlega minna í geð).

Þegar þetta er skrifað heyi ég kirkjuklukkur óma fyrir utan gluggann minn. Nokkrar kirkjur eru að sammælast um það að nú sé klukkan níu um morgun, og því beri mér að hlusta hamaganginn í þeim. Vandinn er sá að klukkan er ekki níu um morguninn lengur, heldur átján mínútur yfir, og hávaðinn hefur staðið yfir í tæpan hálftíma. Flestar kirkjurnar í hverfinu þar sem ég er í augnablikinu eru með margar litlar og hĺjómfagrar bjöllur sem taka sig saman um að framkalla einhverskonar ljúft en óskiljanlegt lag. Kirkjan sem er næst rúminu sem ég var að reyna að sofa í er hinsvegar bara með tvær stórar hvellar bjöllur sem eru slegnar á rétt tæplega sekúndufresti, nú í rúmlega tíu mínútur.

Misjafn er trúarhávaðinn. Á ýmsum stöðum á Balkanskaganum hleypa kirkjur af háværum flugeldum í byrjun hvers dags – það er meira pirrandi en bjöllurnar, ekki síst þegar maður hefur ekki kynnst þeim sið áður og fer að spyrja sig hvurn andskotann er í gangi. Í Kostaríka var gjarnan hleypt af einu fallbyssuskoti klukkan sjö hvern morgun, nægilega nálægt staðnum þar sem ég gisti til að ég vaknaði með fælum þegar byggingin tók að hristast og ég taldi mig vera fórnarlamb hryðjuverka. Ekki bætti úr skák að Barack Obama var í öðru hóteli aðeins ofar í götunni fyrsta sinn sem ég vaknaði við þetta, og hélt ég í dágóða stund að nú yrðu ferðaplönin mín eitthvað flóknari.

Sumsstaðar virðast bjöllurnar og það allt hafa þann tilgang að gera fólk meðvitað um gang tímans eða láta vita af því að trúarsamkoma er að fara að hefjast, en annarsstaðar virðast þær eingöngu ætla að tryggja að enginn geti sofið út.

Hafandi vaknað við trúarhávaða ansi víða ætla ég að fá að fullyrða aðeins: Það er enginn trúarhávaði sem ég hef kynnst skárri en vel sunginn Adhan. Þegar ég vann í Afganistan var moska handan götunnar frá dvalarstað mínum, og ég vaknaði klukkan fimm hvern morgunn við söng – hann byrjaði rólega og tónaði sig upp, “Allah-hu akhbar!” Svo byrjaði hann aftur lágt og tónaði dásamlega: “Ash-hadu an-la ilaha illa llah”. Sunni múslimar eru þó ekki alveg lausir við húmorinn, því eitt af því sem er sungið í fyrsta bænakalli dagsins er “bænir eru betri en svefn”. Ég hlustaði alltaf á þessi spekingslegu orð, flutt á Arabísku af manni sem kunni orðin utanbókar en hafði jafn lítinn skilning á þeim og ég, og snéri mér svo á hina hliðina og sofnaði aftur. Það er brjálæðislega þægilegt að vakna við bænaköll.

Trúarhávaði er fylgifiskur margra trúarbragða. Sem trúlaus maður hef ég enga sérstaka löngun til að heyra hindurvitnin boðuð með bjöllum, fallbyssum, sprengingum og gargi, en sem íbúi í samfélagi þar sem fólk er misjafnt og fjölbreytt finnst mér mikilvægt að allir fái að boða þau hindurvitni sem þeim langar til. Og sem gaur sem finnst gott að sofa út á morgnanna – þó það sé ekki lengur en til níu – þá vil ég miklu frekar mínaretur og fallega syngjandi Muezzina en klingjandi klukkur.

Nú er klukkan orðin tíu hér. Bjöllurnar eru ekki enn hættar. Ég fæ víst ekkert að sofa út í dag.

Posted in Uncategorized

Hagsmunafrat og heigulsháttur

(Þessi grein birtist upprunalega sem kjallaragrein í DV föstudaginn 19. júlí 2013)

Fyrir nokkrum vikum lagði einn maður líf sitt að veði til að upplýsa þig, lesandi góður, um að þú sért í hópi um tveggja milljarða manna sem ríkisstjórn Bandaríkjanna fylgist með. Í kjölfarið hefur komið í ljós að fjölmörg önnur ríki, þar á meðal Bretland, hafa stundað sömu iðju. Þetta stórfellda eftirlit með almenningi, fólki eins og þér sem hefur enga glæpi framið, er rökstutt með því að verið sé að verja lýðræðið fyrir hryðjuverkamönnum.

Á þessum vikum hefur umræðan í fjölmiðlum farið að snúast um allt annað en þessi alvarlegu mannréttindabrot. Það þykir til dæmis miklu áhugaverðara að segja daglegar fréttir af því að Edward Snowden sé enn fastur á flugvelli í Moskvu. Það að kærastan hans dansi súludans er orðið almennari vitneskja en að NSA sé með dragnót á persónuupplýsingum okkar.

Tiltölulega lítið er fjallað um í fjölmiðlum vestanhafs sem og í Evrópu, að flugvél Bólivíuforseta hafi verið neydd til að lenda í Vínarborg og sæta leit, í trassi við Vínarsáttmálann, vegna gruns um að Snowden væri þar um borð. Lítið er talað um að hann sé fastur á flugvellinum að hluta til vegna þess að hann fær ekki ferðafrelsis síns notið – hann er svo gott sem í stofufangelsi, meðan Evrópulönd taka þátt í farsanum.

Evrópa já! Evrópuþingið kom sér saman um að gera heimtingar á rannsókn á eftirliti Bandaríkjamanna á stofnunum Evrópusambandsins, og að setja tímabundið stopp á að bandarísk fyrirtæki versli frjálslega með persónuupplýsingar Evrópubúa meðan rannsókn á eðli og umfangi eftirlitsins stæði. En nei, ríkisstjórnir Svíþjóðar og Bretlands beittu neitunarvaldi sínu til að koma í veg fyrir að rannsókn væri gerð.

Það verður að teljast svolítið sérstakt þegar tvær ríkisstjórnir – sem vitað er til að deili mikið af hernaðarupplýsingum með Bandaríjunum – ganga að því er virðist gegn eigin hagsmunum. Þetta, og það að Frakkland, Ítalía, Portúgal og Austurríki hafi tekið höndum saman um að brjóta Vínarsáttmálann, ætti að vera forsíðufréttin á öllum fjölmiðlum alla daga þar til að Edward Snowden er kominn í var. Já, þetta er flókið. Já, þetta er minna krassandi en hvað Sigmundur Davíð át í morgunmat. En persónufriðhelgi þriðjungs mannkynsins er að veði!

Ráðamenn allsstaðar eiga að vera þráspurðir: Hvers vegna brutuð þið Vínarsáttmálann? Hvers vegna komuð þið í veg fyrir rannsókn? Hvers vegna hafa Bandaríkin ekki verið beitt viðskiptaþvingunum? Hvers vegna hefur ekki verið kallaður saman neyðarfundur NATÓ þingsins? Hvað um Sameinuðu Þjóðirnar, með sína aðalritarastrengjabrúðu? Hvers vegna neituðuð þið að leyfa umræður um ríkisborgararétt fyrir Snowden á Alþingi? Hvers vegna eruð þið svona miklir andskotans aumingjar?

Það er eins og stjórnvöld í Evópu – þar með talið á Íslandi – hafi fyrst og fremst hagsmuni af því að ganga erinda Bandaríkjastjórnar. Þessi heigulsháttur kemur niður á okkur almennu borgurunum.

Hann er frekar rosalegur, kjánahrollurinn sem gengur um mann þegar maður les fréttir af viðbrögðum ráðamanna í þessu máli öllu. En nú er það þitt, lesandi góður, að gera það sem fjölmiðlar út um allan heim hafa svikist undan. Það er nefnilega þannig að í lok dags er ekki hægt að kvarta bara yfir heigulhætti stjórnvalda og sinnuleysi fjölmiðla. Valdið liggur hjá almenningi, og það er almenningur sem verður að taka það á sig að fylla pósthólf stjórnarráðsins af fyrirspurnum, láta skiptiborð framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins bráðna undan álagi, láta faxtækið í bandaríska sendiráðinu tísta og garga, og neyða með einum eða öðrum hætti allar forsetaflugvélar til að nauðlenda í Vínarborg til að sæta leit.

Það er okkar, almennings, að sjá til þess að jafnvel hinir mestu heiglar viti fyrir hverja þeir eru að vinna, og að við munum ekki líða það að verið sé að ganga gegn hagsmunum okkar í þágu stórveldis.

Posted in Uncategorized

Rökvillublæti Brynjars

Ég hef undanfarið leitast við að sinna þeirri hlið vinnu minnar sem á sér stað utan landsteinanna, og fyrir vikið verið lítið virkur í íslenskri pólitískri umræðu. Hluti af ástæðunni fyrir því er að mig langaði til að fá smá tilfinningu fyrir því hvernig nýtt þing myndi líta út og hvernig nýja ríkisstjórnin myndi hegða sér, áður en ég færi að gera einhverskonar veður.

Veðrið sem ég finn mig knúinn til að gera núna snýr að Brynjari Nielssyni, sem hefur unnið sér það til frægðar fram yfir öllum öðrum þingmönnum þessa þings að vera algjörlega ófær um að fullyrða nokkuð án þess að það felist í því rökvilla.

Ef við tökum til að mynda nýjustu grein hans á Pressunni, “Af hverju ekki allan hagnaðinn?”, þá leggur hann upp með það afbrigði ad hominem rökfærslu að eigna Jóni Steinnsyni þann smættunareiginleika að vera ungur – þetta er lúmsk leið Brynjars til að gefa til kynna að ekki sé mark takandi á Jóni, sem er greinilega of ungur til að vita nokkuð þrátt fyrir að vera dósent við Columbíuháskóla. Minnst er á Ameríku í einhverskonar níðtilgangi, án þess að undirritaður skilji hvernig það á að virka.

Hafandi svo veikt andstæðing sinn gengur hann fram með þá einfaldlega röngu fullyrðingu að veiðigjaldið gangi út á að taka “næstum allan” hagnað útgerðarinnar inn í ríkissjóð. Þetta er ekki rökvilla, heldur vitfirring: Brynjar slengir fram svona fullyrðingum án tilvísana í neinar staðreyndir, að hluta til vegna þess að staðreyndirnar vinna gegn honum. Aðrir hafa gert því góð skil með hvaða hætti veiðigjaldið tekur af hreinum hagnaði útgerðanna, en þó ekki “næstum allan” hagnaðinn. Spyrja mætti hvað orðið “næstum” merkir í þessu samhengi.

Því næst byrjar Brynjar á skemmtilegu rökvillunum. Hann reynir að búa til rökfærslu sem kölluð er reductio ad absurdum, en mistekst herfilega – enda er sú rökfærslutækni einkar vandmeðfarin. Í stað þess að sannfæra lesandann um að það að taka “næstum allan” hagnaðinn sé jafngilt því að taka “allan” hagnaðinn, nær hann helst að sannfæra lesandann um að hann sé öfgafullur vitleysingur sem telur svart og hvítt einu möguleikana. Þá tekur hann hálu brekkuna fyrir af kostgæfni, og leggur til að allur hagnaður annarra fyrirtækja sé tekinn upp líka. Svo hristir hann hausinn yfir þessu öllu saman og slengir fram þeirri skemmtilegu rökvillu að halda að þar sem hann skilur ekki rök andstæðingsins þá séu rökin ekki til staðar.

Þarna hefur Brynjar á þremur stuttum efnisgreinum náð að gera svo margar rökvillur að það mætti leggja greiningu greinarinnar fyrir sem heimaverkefni í rökfræðinámskeiði á framhaldsskólastigi. 

Vandamálið hér er ekki að Brynjar sé órökvís, því ætla má að hann sé það ekki. Reynsla hans og árangur af störfum í sem lögmaður í hæstarétti eru sterk vísbending um að hann geti betur, því ef hann komst í gegnum langt starf sem hæstaréttarlögmaður með svona rökfærslutækni er það áfellisdómur yfir Hæstarétti.

Ég ætla að gefa mér það að hann hljóti að geta betur, hreinlega því mér finnst hinn möguleikinn of hrikalegur til að leggja hugsun við í augnablikinu. Þá neyðist maður til að spyrja, hvers vegna í ósköpunum er hann þá að þessu? 

Ef álpappírskollhúfum væri dreift um salinn gæti einhver mögulega lagt það til að Brynjar sé í raun útsendari Katrínar Jakobsdóttur, og hafi þann tilgang að draga úr trúverðugleika hægrimanna, en þeim möguleika ætla ég að hafna.

Þá stendur eftir tvennt: annað hvort heldur hann að fólk trúi þessari vitleysu, eða hann er að reyna að gera sitt besta til að verja óverjandi málstað.

Ég get ekki í fljótu bragði útilokað þann möguleika að Brynjar Nielsson sé slíkur hrokagikkur að hann haldi almenning vera svo fávísan að lepja upp rökleysurnar sínar af einskærri trúgirni, en seinni valkosturinn hljómar líklegari. 

Það er nefnilega oft þannig með fólk sem er vant því að sigra á röksemdum að þegar það kemst í aðstæður þar sem það getur ýmist stutt sig við röksemdir eða sigrað, en ekki hvort tveggja, þá kýs það frekar sigurinn. Flokkshollusta, hugmyndafræði, og hreinir hagsmunir spila sennilega sinn þátt líka.

Bak við rökleysuna má þó sjá glitta í það sem Brynjar er að reyna að halda fram. Hann er, eins og margir íhaldsmenn þessa daganna, búinn að kynna sér svokallaða Laffer kúrvu, sem sýnir að það er einhver punktur þar sem skattar eru orðnir það háir að þeir letja fólk frá þátttöku í hagkerfinu. Tilvist þessarar kúrvu er ekki mjög umdeild, en lögun hennar og hátindur eru bæði umdeild og óþekkt. Það er líka algengt að fólk haldi lögunina vera óháða öllu öðru, en flest bendir til þess að ýmsir aðrir eiginleikar hagkerfisins, samfélagsins, og stjórnkerfisins hafi heilmargt með lögunina að gera – það er ekki bara til ein Laffer kúrva, heldur ógrynni af kúrvum sem falla að kenningu Laffers, sem hver um sig getur komið upp eftir því sem aðstæður breytast.

Það sem Brynjar virðist ekki átta sig á er að röksemdafærslan hans – jafnvel að öllum augljósum rökvillum slepptum – er röng. Hann er að leggja það til að eigendur útgerðanna muni hreinlega hætta að nenna þessu ef þeir geta ekki fengið margra milljarða króna hagnað á hverju ári út úr nýtingu auðlindanna úr hafinu umhverfis Ísland, því enginn vilji starfa án hagnaðar. Þetta er rangt því það er ekki verið að tala um að uppræta hagnað, heldur að uppræta rentur: það er ákveðinn hluti hagnaðarins sem er ekki talinn til “hreins hagnaðar” fyrirtækisins sem deilist niður á starfsmennina í útgerðinni – þú veist, þessa sem vinna raunverulegu vinnuna. Það er ekki verið að tala um að taka af þeim hagnaði. Sá hagnaður sem er verið að tala um að taka af er það sem fer umfram það. Sá hagnaður verður til að hluta til vegna skorts á auðlindinni, og að hluta til vegna þeirrar einokunarstöðu sem eigendur kvóta hafa á markaðnum. Það er hreinlega ekki hægt að kaupa fisk úti í búð eða á fiskmarkaði öðruvísi en að fá hann frá handhafa kvóta. Það eru einmitt þeir sem ráða verðlagi fisksins. Þeir geta pumpað verðið upp töluvert mikið – en rétt eins og með Laffer kúrvuna kemur vissulega punktur þar sem verðið er orðið svo hátt að fólk hættir að vilja kaupa.

Í raunveruleikanum, þessum sem við búum í, munu aðstæður vissulega breytast eftir því sem hinar ýmsu Laffer kúrvur breytast í lögun sinni. Hvort sem það er okurkúrva útgerðarinnar eða skattkúrva stjórnvalda þá er það þannig að meðan ofurgróði er til staðar mun einhver hirða hann. Brynjar vill að útgerðarmennirnir fái tugir milljarða á ári í verðlaun fyrir það eitt að eiga kvóta, og færir þau rök að án tugmilljarða krónu verðlaun muni útgerðarmenn ekki sjá sér neinn hag í rekstrinum. Þeir sem eru hlynntir veiðigjaldinu vilja að útgerðarmenn fái ágætis hagnað, en að meginþorri þeirrar upphæðar sem ávinnst hreinlega vegna einokunarstöðu útgerðanna sé greiddur til samfélagsins sem ákvað að leyfa útgerðarmönnunum að fá þessa einokunarstöðu til að byrja með.

Orðað öðruvísi: þetta snýst ekki um skatt eða ekki skatt, heldur bara hvort útgerðirnar einar fái að njóta góðs af því að útgerðirnar skattleggi neytendur.

Þetta er einmitt ekki þannig að ríkið er að heimta eitthvað fyrir ekkert. Ef einokunarrétturinn sem felst í kvótanum væri einskis virði værum við ekki að eiga þetta samtal.

Mögulega þjáist Brynjar Nielsson af hreinu rökvillublæti, en ég held að það sé af þessu öllu hægt að draga þá ályktun að hann sé ekki svo rosalega vitlaus. Hann vill bara ekki horfast í augu við raunveruleikann.

Posted in Uncategorized

Uppgjör

Ja hérna hér. 

Þetta var ótrúlega skemmtilegt. Ég hefði aldrei átt von á því að það gæti verið gaman að vera í framboði, en það var ótrúlega skemmtilegt að eiga allskonar samtöl við fólk með allskonar skoðanir og allskonar drauma og væntingar. Það var ótrúlega skemmtilegt að taka þátt í samtölum á opinberum vettvangi með forystufólki hinna framboðanna, og ég vona að þeim gangi öllum mjög vel í framhaldinu. En umfram allt var gaman að vera hluti af nýju alþjóðlegu stjórnmálaafli sem kom inn í umræðuna sem, að margra mati, hálfgerður brandari, og sanna að við værum miklu meira en það.

Píratar náðu fínum árangri í þessum kosningum. Þrjú þingsæti kunna að virðast lítið, en þegar litið er á það hvað annað við gerðum í þessum kosningum er margt áhugavert. 

Fyrst: hvað fór úrskeiðis? Við vorum með 6.3% nokkuð áreiðanlega í öllum skoðanakönnunum síðstu vikuna, og risum alveg upp í 9% á tímabili. Það sem klikkaði var helst tvennt, held ég. Í fyrsta lagi voru nákvæmlega tveir í okkar flokki sem höfðu reynslu af stjórnmálum, og ákveðnar náttúrulegar takmarkanir á því hversu mikið þau gátu ausið úr sínum viskubrunnum. Við þurftum því að gera nokkur byrjendamistök hér og þar, því við erum alveg óttalega mannleg. Í öðru lagi urðum við kosningahegðun að bráð: ungt fólk myndaði kjarnann okkar, og þótt margir hafi mætt og kosið þá virðist kjörsókn ungra hafa verið minni en æskilegt hefði verið. Þá er það líka þannig að fólk hefur tilhneygingu til að verða íhaldssamara þegar það kemur í kjörklefann, og velja þá frekar það sem þau völdu síðast. Allt af þessu var fyrirsjáanlegt, og ekkert af þessu er neitt til að skammast sín fyrir. Svona gerist þetta.

Þetta tvennt var þó nauðaómerkilegt í samanburði kosningakerfið. Þessar kosningar voru sem skólabókardæmi á alla helstu galla kosningakerfisins: 5% mörkin, engin forgangskosning heldur bara einföld X eins og við værum á 14. öld, engir möguleikar á persónukjöri, og svo framvegis. Svo var svo margt í ólagi með framkvæmd kosningana að það mætti skrifa um það stutta bók. Það verður reyndar gert – Píratar eru að útbúa samantekt núna.

En það er merkilegt að við keyrðum kosningabaráttu nær algjörlega án auglýsinga í hefðbundnum fjölmiðlum – aðeins nokkrar, þá aðallega í héraðsfjölmiðlum á lokametrunum. Fyrir mestan part nýttum við okkur bara víðtækt net stuðningsmanna til að magna upp náttúrulega umræðu. Þetta geta ekki allir flokkar gert. Eins og Doc Searls og David Weinberger bentu á eru markaðir samtöl, og fólk tekur ekki þátt í samtölum ef því finnst vera talað niður til sín. Hefðbundin stjórnmál þurfa að læra að tala eins og mannverur. Sumir, til dæmis Katrín Jakobsdóttir, sem er klárlega einn af mínum uppáhalds íslenskum stjórnmálamönnum, kunna það – en mér finnst agalegt hvað það eru mörg vélmenni í sumum flokkum. Í kosningabaráttunni þegar fulltrúar framboðanna hittust voru langsamlega flestir mjög vinalegir og skemmtilegir, en það voru fyrst og fremst tveir menn sem voru kaldir á manninn og óvinalegir. Þeir hafa sennilega ekki einusinni áttað sig á því sjálfir. Við eigum eftir að taka saman heildarkostnað við kosningabaráttuna, en mér skilst að hún skagi rétt upp fyrir þrjár milljónir, með starfsmannakostnaði.

Við erum líka fyrsti flokkur Pírata til að ná fólki inn á þjóðþing. Undanfarna tvo daga hafa rignt yfir okkur hamingjuóskir að utan, og það hefur verið fjallað mjög mikið um þennan sigur Pírata í alþjóðlegum fjölmiðlum. Þetta þýðir að nú eru Píratar með kjörna fulltrúa í 7 löndum, og stefna hraðbyr á fleiri sigra um alla Evrópu og víðar á komandi árum.

Píratar náðu auk þess að breyta umræðunni verulega. Á tímabili gat helst enginn opnað á sér munninn í umræðunni án þess að minnast á einhvern hátt á málefnin sem Píratar lögðu áherslu á: gagnsæi, þátttökulýðræði, og sveigjanlega smáiðju. Alveg sama hvað gerist í framhaldinu verða þessi umræðuefni inní þjóðmálaumræðunni – að minnsta kosti meðan Píratar eru á Alþingi.

Ég læt það ógert að lýsa minni skoðun á niðurstöðum kosninganna að öðru leyti þar til búið er að mynda ríkisstjórn, nema hvað ég skal segja þetta: Þetta valdi fólk, þetta var lýðræðisleg niðurstaða, óháð kostum og göllum kosningakerfisins. Ef einhver verður á einhverjum tímapunkti á komandi kjörtímabili ósátt við niðurstöðu kosninganna er nákvæmlega tvennt í boði: að kvarta og kveina eins og vanalega yfir því hvað stjórnvöld eru hrikaleg og láta eins og þetta sé eitthvað sem kom fyrir án þess að þau hafi haft neitt um það að segja, eða að taka þetta til sín og hugsa sinn gang.

 

Nú smá persónulegt:

Á undanförnum dögum hafa rosalega margir, úr öllum flokkum, sagt við mig að þeir vildu gjarnan að ég hefði komist inn á þing, og margir hafa spurt mig hvað ég mun gera næst. 

Meðan ég þakka það traust sem mér er sýnt, þá er ég alveg sáttur við niðurstöðuna fyrir mitt leyti. Ég hef ekki mikla þörf fyrir að fara á Alþingi persónulega, og var framboð mitt ekkert annað en tilraun til að láta gott af mér leiða á þessum innlenda vettvangi. Það að vera ekki fastur á Alþingi næstu fjögur ár þýðir bara að ég hef meiri sveigjanleika og frelsi til að halda áfram að gera áhugaverða hluti á alþjóðlegum vettvangi – þar sem ég uni mér best.

Ég er með fulla dagskrá næstu vikur. Strax á morgun fer ég til London og verð með erindi í Royal Society um framtíð tækniþróunar og valds. Næsta dag fer ég til Kostaríka á World Press Freedom Day hátíðarhöldin sem UNESCO standa fyrir, en þar mun ég kenna rannsóknarblaðamönnum að verja öryggi sitt. Því næst til Ungverjalands, þar sem ég mun vera með fyrirlestra um þátttökulýðræði og reyna að hjálpa aðeins til varðandi þeirra ógurlega lýðræðishalla. Þegar því öllu er lokið verður væntanlega komin mynd á hvernig hlutirnir verða heima á Íslandi og ég get tekið frekari ákvarðanir um framhaldið.

Ljóst er að stofnunin sem ég hef rekið undanfarin ár – IMMI – er farin að sakna þess að hafa framkvæmdarstjórann sinn í vinnu. Nú eru vonandi nýjir styrkir að koma þar inn og mikil uppbyggingarvinna framundan. IMMI hefur veitt ýmsum ríkisstjórnum aðhald, haft áhrif á þróun mála á Íslandi og í Evrópusambandinu, og verið virkur þátttakandi í ýmsum mikilvægum umræðum sem hafa verið að eiga sér stað á heimsvísu. Okkur vantar nú að tryggja stofnuninni aukið fjármagn, fjölga starfsfólki, og spýta í lófana, því upplýsinga- og tjáningarfrelsi á undir högg að sækja sem aldrei fyrr. En IMMI er ekki pólitískt háð stofnun, og ég þarf að gera ýmislegt til að tryggja að þátttaka mín í Pírötum hafi ekki neikvæð áhrif á stofnunina.

Ég hef líka áhuga á að sinna skrifum betur á næstunni: nú er ég kominn í ráðgjafarráð tímaritsins Arc, sem ég hef verið að skrifa fyrir, en þar er ég í hópi með helstu vísindaskáldsögurithöfundum okkar tíma – bókstaflega fólkið sem mótaði mína hugsun á uppvaxtarárunum. Það verður gaman að skrifa meira þar, og líka fyrir önnur tímarit. Það er líka ágætis slatti af fræðigreinum sem mig langar að klára á næstu mánuðum, meðal annars um öryggisskilyrði fyrir rafrænt lýðræði, um þróun fjarskiptalöggjafar, og um valddreifingu. Þetta verður helskemmtilegt!

Þátttaka mín í Pírötum mun samt halda áfram, en hugsanlega með aðeins breyttu sniði. Það eru flokkar Pírata um allan heim sem eru að skipuleggja sig og reyna að koma sér á framfæri. Samhliða því að vinna í innra starfi íslenskra Pírata og aðstoða þingflokk Pírata eins mikið og ég get hér á Íslandi gæti verið að ég leggi svolitla vinnu í að styðja og styrkja flokka Pírata víðsvegar í Evrópu, sem ætla sér í sameiginlegt framboð til Evrópuþings á næsta ári. Ekkert er svosem ákveðið í þessu ennþá, en það eru ýmsir möguleikar í boði.

Hvað annað gerist veit ég ekki. Það er af nógu að taka. Mér leiðist aldrei.

Posted in Uncategorized

Enginn er kjáni í einrúmi

Edward R. Murrow sagði í sinni frægu RTNDA ræðu 1958 að “sú staðreynd að rödd þín sé mögnuð að því marki að hún nái frá einum enda landsins yfir á hinn veitir þér ekki neina meiri visku eða skilning en þú hafðir þegar rödd þín náði aðeins frá einum enda á barnum yfir á hinn.”

Í gær sagði einhver við mig að þessi kosningabarátta væri “fyrsta Facebook kosningabaráttan.” Hún er spiluð á allt annan hátt en hingað til hefur verið gert, af öllum aðilum. Hefðbundnar auglýsingar í hefðbundnum miðlum hafa nánast engin áhrif á fylgi flokka, sem sveiflast til eins og strá í stormi. Hinsvegar eru til flokkar – kannski ekki síst minn flokkur, Píratar – sem hafa náð feiknarlegum árangri með því að tala hreint og beint við fólk og halda uppi málefnalegri umræðu á samfélagsmiðlum.

En samfélagsmiðlarnir gegna líka öðru og dimmara hlutverki. Eitt sinn var það þannig að þegar fólk tjáði sig við vini sína var tjáningin hverful. Minningin stóð ef til vill eftir meðal vinanna en enginn utan hópsins gat nálgast þá umræðu. Sú tíð er liðin. Nú er sístækkandi hluti mannlegrar tjáningar skrásett í gagnagrunna og kortlögð af leitarvélum til frambúðar, og öll sú vernd sem hið hverfula veitti er horfin. Í dag, þegar einhver segir eitthvað kjánalegt, þá verður þess minnst í áraraðir. Þegar einhver talar í bræði er það skrásett. Æ fleiri tjáningar, góðar, slæmar, heimskulegar, djúpstæðar, asnalegar og stórkostlegar, verða eftir í samfélagslega minni okkar – Internetinu – um ókomna tíð.

Samfélagið okkar hefur ekki enn lært að lifa við þannig raunveruleika. Við höfum ekki aðlagast þeirri hugmynd að friðhelgi einkalífsins nær ekki lengur til skoðanna okkar. Á suman hátt er þetta gott: kjánaskapur ef til vill upprætist hraðar, heimskuleg ummæli verða fordæmd harðar, og vitund samfélagsins þroskast betur. En á margan hátt er þetta slæmt. Þegar engar skoðanir eru leyndar er skoðanakúgun mun auðveldari.

Ég ætla ekki að segja að það sé mannréttindi að sýna á sér fávitaskap, eða að það sé í lagi að tala um ofbeldi eins og það sé ekkert tiltökumál, eða að fólk eigi að passa sig á því að viðra sumar skoðanir bara í einrúmi. Ég ætla að segja svolítið annað:

Nú er að fullorðnast heil kynslóð fólks sem hefur lifað allt sitt líf á opinberum vettvangi. Rödd þess hefur náð frá einum enda heimsins yfir á hinn frá því að það fór að hafa getu til að tjá sig. Í því felst að allur mannlegur breiskleiki, hvort sem hann er gamall eða nýr, hefur fangast. Í þessum nýja heimi, þar sem fjórtán ára krakkar smella myndum af sér á samfélagsmiðla þar sem þeir eru í sínum fyrsta sleik, eða fullorðið fólk ákveður að láta í ljós pirring sinn í óvönduðu máli eftir einum of marga bjóra, er ekki til neitt sem heitir hrein forsaga.

Nú er gamla kynslóð stjórnmálanna umsetin af ungu fólki með skuggalega fortíð sína málaða upp um allt net. Þessi gamla kynslóð tilheyrir enn þeim heimi þar sem enginn sagði neitt opinberlega nema eftir rétt námskeið og réttan framgang í gegnum flokkakerfið. Þau tilheyra þeim heimi þar sem litlu ljótu leyndarmálin eru falin, og ógeðslegustu skoðanirnar heyrast ekki nema þegar menn tala af sér.

Þegar unga fólkið stillir sér upp með Pírötum og kallar eftir nýrri stjórnmálahegðun, meira gagnsæi, færri tjáningarhöftum og betri aðgang að ákvörðunartökuferlinu, eru þau ekki að því vegna þess að þau langar til að geta sagt hvað sem er án ábyrgðar. Þau eru að því vegna þess að sá heimur sem þau búa í ætlast til þess að þau séu ofurmannleg, geri aldrei mistök, og sætti sig við það að til sé ósnertanlegt fólk sem þrátt fyrir sinn mikla hroka og sína mörgu vankanta telja sig hæf til að draga línur, skapa reglur, og njörva niður samfélagið allt.

Það getur enginn gengist við því að vera ofurmannlegur.

Nei! Ég er mannlegur. Ég geri mistök. Ég vil bæta mig. Ég vil bæta samfélagið mitt. Ég er Pírati.

Þetta er stríðsópið, sjáiði til. Við búum ekki yfir endalausri visku, við vitum ekki alltaf rétta svarið. Við vitum að það er margt sem mætti betur fara, en við vitum að við getum látið það fara betur ef við vinnum saman. Þrátt fyrir alla okkar ágalla og kannski einmitt vegna þeirra er tími til kominn að ágallar hins gamla upplýsist, og að hinar hliðar samfélagsins verða jafn opnar fyrir kortlagningu leitarvélanna og líf okkar hefur verið.

Við gerum einfalda heimtingu: Gagnsæi, lýðræði, sjálfsákvörðunarréttur. Allt annað þurfum við að ræða, jafnvel þótt fólk æsi sig stundum.

Posted in Uncategorized

Fimmti vígvöllurinn

“Stofnum ekki til allsherjarstríðs á aðfangadegi alheimsfriðar” – Ókannaða Landið

 

Fram til byrjun árs 1913 voru tvennskonar vígvellir í heiminum. Landhernaður hefur fylgt mönnum frá því að samfélög komu fyrst fram. Sjóhernaður varð til um það leyti sem samfélög fóru að keppast um siglingaleiðir eða rekast á önnur samfélög á gagnstæðum ströndum.

Það stríðir kannski gegn söguvitund flestra að það hafi verið Búlgaría sem bjó til þriðja vígvöllinn þegar þeir hófu að henda sprengjum niður úr Bleriot XI flugvélum á borgina Adrianople í Ottóman heimsveldinu. Með þeim gjörningi var himininn orðinn að vígvelli, og síðan þá hefur þróunin verið mikil – orustuflugvélar og sprengjuflugvélar; njósnavélar, hljóðfráar þotur og nú nýlega mannlausar fjarstýrðar flugvélar og flugvélar með gervigreind.

Löngu áður en flughernaður varð til áttaði fólk sig á hættunni. Frá árinu 1863 voru reglur um framkvæmd flughernaðar í alþjóðasáttmálum, og tóku þær stakkaskiptum 1899 og svo aftur 1907. Árið 1923 lögðu bandaríkin til verulegar takmarkanir á flughernaði, en þær náðu aldrei fram að ganga. Í sögulegu samhengi virðist það skoplegt að bandaríkin hafi verið fremstir í því að kalla eftir takmörkunum á flughernaði, enda hafa þeir öðrum fremur náð himininn á sitt vald og hafa beitt flughernaði hve harðast.

Eftir seinni heimstyrjöld var ljóst að þriðji vígvöllurinn var kominn til að vera, en stuttu síðar varð til sá fjórði.

Þegar Sóvétríkin sendu Spútnik á loft opnuðu þeir dyrnar fyrir vopnakapphlaup milli kaldastríðsveldanna sem ætti sér stað ofan Kárman-línunnar (í tæpri 100km hæð yfir jörðu). Geimkapphlaupið átti sér að hluta til stað í nafni vísindanna, en eftir því sem lengra líður frá lokum kaldastríðs sjáum við betur og betur hversu mikill hernaður fór raunverulega fram. Sem dæmi “fann” bandaríski flugherinn tvo risavaxna stjörnusjónauka í stíl við Hubble í geymslu nýverið og gaf þá til NASA, sem hefur sjálft varla haft efni á því að viðhalda einu stykki. Svo virðist sem herinn hafi haft nægilegt fjármagn til geimrannsókna til að smíða sjónauka sem hver um sig var betri en Hubble, og svo gleyma tilvist þeirra í nokkra áratugi.

Strax og stjörnustríðsáætlunin kom fram fóru Sameinuðu Þjóðirnar að krefjast þess að mjög strangar reglur yrðu settar á geimhernað. Geimsamningarnir þrír sem nú eru í gildi virðast á yfirborðinu hafa komið í veg fyrir að sporbraut jarðar – og tunglið – séu gerð að vopnabúrum jarðríkja. Hvað leynist undir yfirborðinu er óvitað: svo mörg gervitungl eru á sporbraut núna, og svo mörg þeirra notuð í leynilegum tilgangi, að það er engin leið að segja með vissu hvað fer þar fram. Þótt ólíklegt sé að þetta sé jafn ýkt og í kvikmyndinni Iron Sky, þar sem öll aðildarríki Sameinuðu Þjóðanna (nema Finnar!) reyndust vera með vopnakerfi á sporbraut þegar á hólminn var komið, þá er nokkuð ljóst að einhver vopnakerfi gætu leynst inn á milli veðurtunglanna og fjarskiptahnattanna.

Hitt er annað mál að geimsáttmálarnir virðast vera að virka. Þó svo að hugsanlega séu vopn í geimnum er bersýnilega ekki verið að nota þau, og þá er markmiðinu náð. Það að engin þjóð vilji sýna að þeir eigi vopnabúr á sporbraut tryggir ákveðinn frið á fjórða vígvellinum.

Síðan Ísland gekk í NATO hafa tveir nýjir vígvellir orðið til í hugum herja. Geimurinn hefur í raun verið til frá upphafi alheimsins, en fimmti vígvöllurinn varð til sem aukaverkun af rannsóknarverkefni í fjarskiptum sem bandaríska varnarmálaráðuneytið framkvæmdi í upp úr 1963.

Internetið hefur öðlast hernaðarlegt mikilvægi langt umfram mikilvægi geimsins. Þetta þétt samofna net tölva, síma og annarra raftækja er bakbein heimsviðskipta, samskipta innan og á milli ríkja, og undirstaða fjölmiðlunar og almennra fjarskipta fyrir sístækkandi hluta jarðarbúa. Áætlað er að í gegnum netið séu stunduð 11 trilljón dollara viðskipti á ári, og þá er ekki talið með viðskipti í gegnum rafrænar kauphallir.

Sjá má dæmi um nethernað, eða rafrænan hernað, alveg aftur til upphafsára tölvunnar. Fólk sá fljótt tækifæri til að láta tölvukerfi hegða sér öðruvísi en þeim var ætlað, og hugtök eins og “vírus” og “trojuhestur” voru tekin upp til að lýsa hegðun ákveðinna forrita. Á svipuðum tíma voru rafrænar símstöðvar að ná fótfestu, og ungir símaáhugamenn áttuðu sig á því að hægt væri að ná stjórn á símstöðvum eða ná fram undarlegum áhrifum á símkerfinu með því einu að senda tiltekna tóna í gegnum símtólið. Eftir því sem tölvur og nettengingar urðu algengari kom betur og betur í ljós að hönnuðir netsins höfðu gleymt einu frekar mikilvægu atriði.

Netið var ætlað sem dreift kerfi sem myndi tryggja áframhald ríkisins ef til kjarnorkustyrjaldar kæmi. Áreiðanleiki netsins átti að sjá til þess að þótt einstakir partar netsins skemmdust væri enn hægt að koma skilaboðum til skila: netið getur leitt framhjá skemmdum. En áreiðanleiki kerfisins fólst alfarið í lögun þess – að tengipunktar voru tengdir hver öðrum á marga vegu. Ekkert hafði verið gert til að tryggja að óvinveittir aðilar gætu ekki komið fölskum skilaboðum fyrir, komið í veg fyrir að skilaboð bærust, eða jú bara lesið skilaboðin án þess að nokkur tæki eftir því. Dulkóðun var eftiráhugsun sem átti að smyrja ofan á eftir þörfum.

Þegar svo netið fór að verða algengara meðal almennings vöknuðu upp spurningar hjá fólki á borð við Tim May og Philip Zimmerman, hvort dulkóðun væri ekki bæði eðlilegur fylgifiskur netsins og nauðsynlegt tól til að tryggja tjáningarfrelsi. En sterk dulkóðun byggð á eiginleikum prímtalna var lagalegum takmörkunum háð. Bandarísk yfirvöld höfðu áttað sig á hernaðarlegu mikilvægi sterkrar dulkóðunar og ákváðu að útflutningur á dulmálskerfum skyldi vera sömu takmörkunum háð og útflutningur á kjarnorkuvopnum.

Það var ekki fyrr en 1998 sem þessu útflutningsbanni var lyft, að loknum mörgum stórum dómsmálum. Aflétting bannsins gerði netið tilbúið fyrir raunveruleg viðskipti, og með því sama raunverulegan hernað.

— 

Í Haag-sáttmálanum frá 1907 var kveðið á um að ekki skyldi gera árásir úr lofti á bæi, þorp eða aðrar mannabyggðir. Þetta skilyrði hljómaði skynsamlega en gerði ekkert nema tryggja að samningurinn héldi ekki. Það er mikil óskhyggja fólgin í reglum sem segja að einungis herir og vopn þeirra séu gjaldgeng hernaðarleg skotmörk. Alla tíð hafa borgir og markaðir verið stór hluti af hernaðaráætlunum. Sagt hefur verið að aðferð Mongóla til að tryggja að enginn gæti gert árás aftan á her þeirra meðan hann sveipaði yfir Asíu var að skilja hreinlega engan eftir lifandi fyrir aftan sig. Landvinningar Babýlóníumanna, Fönikkumanna, Egypta, Grikkja og Rómverja voru öll byggð á því að eyðileggja markaði sem þeir komu til, uppræta gjaldmiðla og viðskiptasambönd sem voru til staðar, og skapa ný í þeirra stað.

Ástæðan fyrir því að geimurinn hefur ekki orðið að raunverulegum vígvelli er að hann er ekki nógu verðmætur fyrir neinn – enn sem komið er. Ríki njóta nægilega jafns aðgangs að geiminum, þótt þau séu misvel búin til að nýta aðganginn. Þau þurfa ekki að keppa við hvert annað þar.

Á sömu forsendum sést að netið er óskavígvöllur allra hershöfðingja. Fimmti vígvöllurinn er ofinn úr hrárri þekkingu. Þegar markaður er skemmdur í gegnum netið eru skemmdirnar djúpstæðar og langvarandi. Þegar innviðir eru eyðilagðir gegnum netið er allt að því ómögulegt að auðkenna gerandan. Á netinu er ekki hægt að gera efnislegan greinarmun á hryðjuverkamönnum og ríkisstjórnum, á barnaníðingum og bönkum. Hið hernaðarlega og hið menningarlega falla saman svo þétt að eingöngu upplýsingar ná að smeygja sér á milli þeirra.

Undanfarin ár hafa stjórnvöld víða í heiminum farið að leggja metnað í gerð netvopna af ýmsum toga. Það er misjafnt eftir löndum að hverjum vopnunum er beint. Í sumum löndum virðast óvinir ríkisins vera þegnar þess. Í þýskalandi hefur ríkisstjórnin kostað gerð trojuhests sem hefur verið sett inn á tölvur fólks sem á leið um flugvelli og þegar þau hafa verið stöðvuð af lögreglu. Trojuhesturinn aflar upplýsinga um notkun tölvunar og sendir til eftirlitsaðila.

Þessi trojuhestur, sem kallaður hefur verið “bundestrojan,” er varla einstakur. Þótt ýmis önnur lönd hafi farið þá leið að njósna bara um nettengingar borgara sinna eru margir sem stunda löggæslu sem vilja nánari rýni til að sniðganga dulkóðaðar tengingar, alveg óháð öllum mannréttindum.

En mikilvægari flokkur netvopna hefur verið að koma fram: sérsniðnar veirur á borð við Flame, Stuxnet, og Gauss. Flame var hannaður til að kortleggja innri netkerfi Írans, brjóta sér leið í gegnum hinar ýmsu öryggisráðstafanir og finna veikleika. Stuxnet var þróaður til að nýta marga áður óþekkta veikleika í mörgum mismunandi tegundum kerfa, ásamt upplýsingunum sem Flame safnaði, til að komast inn í Natanz kjarnorkuverið og eyðileggja þar skilvindur sem ætlaðar voru til að hreinsa úran. Ólíkt fyrri tveimur var Gauss var ekki beint gegn Íran, né heldur hefur komið í ljós hver smíðaði veiruna eða hvers vegna. Hún gekk berserksgang í bankakerfi Lebanons og njósnaði um bankareikninga og viðskiptavini þar, að öllum líkindum í þeim tilgangi að reyna að kortleggja peningaflæði Hezbollah.

Þetta sýnir breidd og eðli netvopna ágætlega: njósnaforrit, forrit sem eyðileggur áþreifanlega innviði, og forrit sem eyðileggur óáþreifanleg grunnkerfi.

Í ráðleggingum mínum til breska varnarmálaráðuneytisins um hvað eigi að gera varðandi “netvopn” benti ég þeim á að “netvopn” eiga meira sameiginlegt með njósnurum og skemmdarverkamönnum en með árásarherjum. Það er mjög undarlegt og hugsanlega hreinlega hættulegt hversu margir vilja líta svo á að hér séu herir að mætast. Þetta gerir það að verkum að ríki heimsins eru að einbeita sér að því að túlka hvar línan er dregin þar sem árásir falla undir Law of Armed Conflict. 

— 

Á þingfundi NATO í Búkarest í október 2011 var lögð fram skýrsla um netvarnir þar sem lagt var til að undir ákveðnum kringumstæðum væri heimilt að hefja “kínetíska” árás með hefðbundnum vopnum sem andsvar við netárás. Hver skilyrðin eru fyrir slíku andsvari hefur ekki verið gefið út. Samkvæmt kenningunni er það í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að einhver gangi nálægt mörkunum og valdi skaða, en uppfylli vísvitandi ekki öll skilyrðin fyrir gagnárás.

Þetta er eitt af mörgum dæmum um alþjóðlegar og yfirþjóðlegar stofnanir og þjóðríki að vígbúa fimmta vígvöllinn. Bandaríkin hafa sitt US Cyber Command, kínverska ríkisstjórnin er að stunda netárásir á bandarísk tæknifyrirtæki á borð við Adobe og Google. NATO stofnaði Cooperative Cyber Defence Center of Excellence í Tallin eftir að Eistland varð fyrir mjög stórtækri netárás, að því er talið er frá Rússlandi. Bæði Indland og Pakistan hafa stofnað “net her”. Hervæðing Internetsins er hafin.

Afleiðingarnar eru alvarlegar. Veikleikar netsins eru nú þegar verulegir, og stafa af óöruggum kerfum og misnotkun á því óöryggi. Kreditkort eru í eðli sínu óöruggt greiðsluform og því verður ekki breytt, og fyrir vikið eru kreditkortasvik staðlaður hluti af glæpastarfsemi á netinu. En skipulagðir glæpir eru hluti af hagkerfinu sem þeir misnota – eins og blóðsugur gerir það þeim ógagn að drepa hýsilinn. Ef hagkerfi netsins myndi hrynja stæðu skipulagðir glæpahópar uppi án tekjustofns. Herir hafa á hinn boginn enga slíka hagsmuni: þeim er sama um afdrif hagkerfisins sem þeir starfa innan, svo fremi sem hernaðarlegum markmiðum er náð og möguleikinn á sköpun nýrra hagkerfa er til staðar.

Það er einfeldingslegt að líta bara á netið sem hagkerfi, en það er á margan hátt auðveldasta greiningin. Sú samþætting við alla þætti daglegs lífs sem netið hefur náð á undanförnum árum gerir það í senn að mikilvægasta vígvellinum til framtíðar litið, en um leið þann brothættasta. Það er ekki hægt að undirstrika nógu oft mikilvægi þess að tryggja að hervæðing netsins eigi sér ekki stað. Enn sem komið er hefur enginn lagt til að netsáttmáli verði gerður á svipaðan hátt og geimsáttmálarnir, en jafnvel þá er ekki víst að það myndi hafa nein áhrif. Meðan Bandaríkin og Ísrael telja sig stafa ógn af Íran og Kína, og Indland og Pakistan steyta hnefum hvor við annan, er vígbúnaður netsins nokkuð tryggður, sama hverjar aukaverkanirnar verða.

— 

En það eru til möguleikar í stöðunni. Vígbúnaður háloftanna gat af sér flugiðnaðinn, sem nú ber tugir milljóna farþega um heiminn í hverjum mánuði. Mikið af þeirri heimsvæðingu á menningu sem hefur orðið í heiminum, og sá aukni skilningur og það bræðralag sem heimsvæðingin ber með sér, eru bein afleiðing af aðgengi almennings að ódýrum flugferðum. Aðgengi að netinu virðist vera jafn byltingarkennd leið, ef ekki byltingarkenndari, til að slá saman mannkynið í sameiginlegan menningararf til að deila friði. Það eitt og sér er nægjanlg ástæða til að leyfa ekki hervæðingu netsins. Við megum ekki við því að stofna til allsherjarstríðs á aðfangadegi þess alheimsfriðar sem netið býður. Við verðum að leyfa netinu að þróast án afskipta frá hernaði, og veita því gott heimili allsstaðar þar sem það sprettur upp.

Íslendingar ættu því að beita sér fyrir netsáttmála í Sameinuðu Þjóðunum sem tekur mið af þessum ógnum og þeim möguleikum sem netið býður. Við ættum að hvetja þjóðir heims til að vígbúast ekki en taka bara upp varnir, og að alvarleg viðurlög verði við netárásum milli landa. Íslendingar hafa ríka hagsmuni af því að tryggja frið á netinu, og hver veit nema þar skapist grundvöllur til að ræða frið á hinum vígvöllunum fjórum – og öllum þeim framtíðarvígvöllum sem kunna að finnast.

Posted in Uncategorized

Merkingarbærni

Þegar kosningar fara fram eru tveir valkostir í boði: að taka þátt, eða að taka ekki þátt. Þátttaka felst í því að mæta á kjörstað og gefa upp afstöðu sína, en þátttökuleysi felur í sér að sitja heima eða að mæta á kjörstað og skila auðu. Nú eru stjórnarflokkarnir og andstæðingar nýrrar stjórnarskrár að ræða um að svipta almenningi rétt til þátttökuleysis í þjóðaratkvæðagreiðslum um stjórnarskrárbreytingar.

Þetta er gert með því að láta það að taka ekki þátt öðlast sömu merkingu og að hafa tekið þátt og sagt nei. Afleiðingin af því er að ógreidd atkvæði munu standa gegn greiddum já-atkvæðum með sama mætti og önnur nei-atkvæði.

Það verður nánast ómögulegt að ná fram breytingum undir þessu fyrirkomulagi. Það er það sem sumir vilja, þrátt fyrir skýra afstöðu þeirra 70% kosningabærra manna sem nýttu sér sinn þátttökurétt í þjóðaratkvæðagreiðslunni núna í haust.

Svona fyrirkomulag er ekkert annað en árás á lýðræðið. Þetta eru frekar stór orð, en það hlýtur hver að sjá að það er ekkert lýðræðislegt við það að það sé mun erfiðara að segja “já” en “nei”.

Ímyndum okkur að þetta væru forsetakosningar með tveimur frambjóðendum, og búið væri að setja lög um það að það þyrfti 40% kosningabærra manna að styðja annan þeirra til að hann gæti orðið forseti, en annars myndi hinn vinna. Það væri nóg fyrir nei-gaurinn að skapa aðstæður þannig að fólk viti ekki almennt af því að það sé kjördagur (t.d. með því að minnka fjölmiðlaathygli á málinu) eða sannfæra fólk um að vera heima út af einhverju öðru (kannski heimsmeistaramót í einhverri íþrótt?) til að hinn gæti ekki unnið.

Þótt við séu ekki að tala um val milli fólks erum við að tala um val milli valkosta. Það að gera mismunandi kröfur fyrir samþykki mismunandi valkosta er ekki lýðræðislegt.

En þetta vilja formennirnir á Alþingi núna. Svei.

Posted in Uncategorized

Pólitísk snilligáfa

Ég hef nokkrum sinnum heyrt fólk kvarta yfir því að stefna Pírata sé of flókin fyrir almenning. Við notum víst of stór orð, eins og “gegnsæi” og “sjálfsákvörðunarréttur”. Mér finnst ekkert að því að hafa smá trú á leshæfileika almennings. Hinsvegar lenti ég sjálfur í smá lesörðugleikum í gær.

Þegar ég hafði lesið grein Heiðu Kristínar Helgadóttur í Fréttablaðinu á föstudaginn, sem bar yfirskriftina “Má bjóða þér Bjarta framtíð?” lagði ég frá mér blaðið í smá stund og reyndi að átta mig á skilaboðunum. Svo las ég hana aftur.

Svo í þriðja skiptið, og það fjórða, áður en ég komst að þeirri niðurstöðu að annaðhvort hlyti mér að hafa áskotnast bráðalesblinda á alvarlegu stigi, eða þá að þessi 665 orð hafi verið að mestu leyti merkingarlaus. Jújú, það var svo sem eitt og annað í þessu: smá æskuminning, smá sjálfshól fyrir að hafa náð að stofna tvo stjórnmálaflokka, og einhverskonar þjóðrembingsleg sjálfhverfa í lokin… en það getur varla verið að þetta hafi verið allt og sumt, er það? Greinar sem birtast í dagblöðum fjalla að jafnaði um eitthvað.

En þegar ég hugsa málið betur er þetta álíka merkingarbær grein og allt annað sem ég hef séð frá Bjartri framtíð. Heiða, sem hefur lýst sér sem “pólitísku undrabarni” virðist hafa áttað sig á því að það sé hægt að ná góðri kosningu án þess að leggja fram neinar staðfastar hugmyndir, svo lengi sem orðræðan er nægilega vel aðlöguð að sínum þörfum.

Orðræðuverkfræði er í mikilli uppsveiflu þessa dagana. Til dæmis hefur það farið í taugarnar á mér að talað er um Guðmund Steingrímsson og Róbert Marshall í flestum fjölmiðlum sem “þingmenn Bjartrar framtíðar”. Þetta er hreinlega ekki satt. Það er rétt að þeir eru báðir þingmenn, og það er rétt að þeir eru báðir meðlimir í Bjartri framtíð, en það gerir þá ekki að þingmönnum Bjartrar framtíðar neitt frekar en að það að vera meðlimur í Kiwanisklúbbi geri þingmann að þingmanni Kiwanis.

Á Alþingi eru þingflokkar sem eru búnir til samkvæmt þingskaparlögum og þingmenn sem tilheyra þingflokki eru þingmenn þess þingflokks. Guðmundur og Róbert eru þingmenn utan flokka þar til þessu kjörtímabili lýkur, nema þeir gangi til liðs við annan þingflokk eða stofni nýjan.

En þetta virkar. Þrátt fyrir að liðsmenn þessa ágæta flokks hafi ekki lagt fram neinar áþreifanlegar hugmyndir um hvernig eigi að gera hlutina eða hvað megi betur fara hafa þeir fengið til sín gríðarlegt fylgi. Stefnuskrá þeirra er álíka innantóm og grein Heiðu, þó svo að það sé mikil yfirborðsfegurð og góð stílfæring í gangi. Fjölmiðlarnir éta þetta upp gagnrýnislaust og endurvarpa eins og þeir fái borgað fyrir það – sem ég vona að sé ekki tilfellið.

Þetta er ekki bara Björt framtíð og alls ekki ætlun mín að gera bara árás á þann flokk – hann kom bara þessari hugsun af stað hjá mér. Allir flokkar hafa gerst sekir um það að reyna að smætta alla umræðu niður í einfeldingsleg slagorð og óljósar lausnir. Þetta er gert vegna þess að ráðamenn landsins hafa áratugum saman gengið út frá því að almenningur sé illa upplýstur og hegði sér helst eftir óupplýstu hjarðeðli og að það eigi barasta að vera þannig áfram.

Er þetta allt sem þarf til að ná kjöri á Íslandi? Leyfum við mælskum stjórnmálamönnum enn að slá ryki í augun á okkur með ofureinfaldaðri fortuggðri orðræðu? Er ekki kominn tími til að við kynnum okkur málið, lesum á milli línanna og afskrifum þá sem hafa ekkert fram að færa? Til að bæta samfélagið þurfum við djúpa samfélagsumræðu og fólk sem ætlar sér að gera eitthvað annað en líta vel út og segja snyrtilega hluti í pontu á Alþingi.

Við þurfum raunveruleika á mannamáli ekki pólítíska drauma um töfralausnir. Því miður er ekki hægt að koma slíkum raunveruleika að án þess að nota flóknu orðin líka.

Posted in Uncategorized