Traust og fjölmiðlar

Fjölmiðill verður að njóta trausts til að mark sé takandi á honum. Þeir sem skrifa á fjölmiðli nærast bæði á trausti hans, og efla traustið sem aðrir bera til hans.

Ég sendi bréf til fjölmiðlafrelsisfulltrúa öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu í síðustu viku, þar sem ég lýsti áhyggjum mínum yfir ástandinu á Íslandi, vegna hinnar fjandsamlegu yfirtöku á DV og ákvarðanna nýrra eigenda, og vegna þeirra sviptinga sem hafa átt sér stað á ritstjórnum Fréttablaðsins og Stöðvar 2. Þetta geri ég ekki að gamni mínu: ég veit vel að Dunja Mijatović hefur nóg betra við tímann sinn að gera en að sinna einhverjum smáprumpmálum.

Þetta er ekki smáprumpmál. Þessar undarlega samstilltu breytingar á ritstjórnum stærstu fjölmiðla landsins í átt að betri samþættingu við fréttir úr Hádegismóum er beinlínis aðför að íslensku lýðræði. Án frjálsrar fjölmiðlunar er ekkert lýðræði.

Það er nánast ómögulegt, í ljósi þess sem hefur gerst, að fullyrða að þessir fjölmiðlar séu enn frjálsir.

Ég hef treyst DV ágætlega undanfarin ár. Þrátt fyrir að eiga fullmörg tabloid-móment og vera stundum fulldramatískur, þá hefur DV skarað framúr í rannsóknarblaðamennsku og oft þorað að taka á málum sem aðrir snerta ekki. Því er að þakka góðri ritstjórn og mörgum prýðilegum blaðamönnum.

Bloggið á DV hefur því verið góður staður til að tjá sig í gegnum tíðina. En núna, vegna þeirra breytinga sem hafa orðið á eignarhaldi og rekstri DV undanfarnar vikur, er ekkert traust eftir. Ég vil alls ekki leggja nafn mitt við þennan fjölmiðil eins og staðan er í dag.

Kannski það skáni, með tíð og tíma, en þangað til er hægt að finna mína pistla (bæði á íslensku og ensku) á vefsíðunni minni.

Bæ.

Posted in Uncategorized

Gluggað í ríkisfjármálin

Ég asnaðist til að skoða ríkisfjármálin. Vitiði hvað kom í ljós? 

Ríkisstjórnin sem boðaði aðhald í ríkisfjármálum hefur eytt umtalsvert meira en vonda fjárglæfrastjórnin sem sat áður. 

Ríkisstjórnin sem boðaði lægri skatta hefur innheimt töluvert meira skattfé en vonda skattpíningarstjórnin sem sat áður.

Athugið að þetta er þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi afþakkað milljarðatugi í auðlindagjald frá handhöfum einokunarréttar á fiski.

Reyndar eru 25 milljarðar af tekjuaukningunni í formi sölu á hlutabréfum í eigu ríkisins.

Ég miða hér við árið 2013. Á fyrri hluta ársins 2013 var gamla ríkisstjórnin við lýði, fyrstu 5-6 mánuðina. Þetta er ekki sundurliðað eftir mánuðum, því miður. Því varð maður að bera þetta saman við nokkur fyrri ár til samanburðar, en ég á erfitt með að sjá annað en að það hafi mestmegnis verið nýja ríkisstjórnin sem breytti stefnunni.

Ríkisstjórnin kostaði 33.4% meira árið 2013 en árið 2012. Nákvæmlega tveir yfirflokkar kostuðu minna 2013 en 2012: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, og fjármagnskostnaður. 

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið lækkaði sig um 1%, að því er virðist aðallega með því að leggja niður fóðursjóð, húsbyggingasjóð, og minnka verulega framlög til byggðaáætlunar og iðju og iðnaðar (sem felur í sér átak til atvinnusköðunar og ýmis nýsköpunar- og markaðsmál).

Fjármagnskostnaður er peningur sem notaður er til að borga vexti (aðallega) af skuldum ríkisins, og lækkar helst ef vel gekk að borga af skuldum eða endurskipuleggja skuldirnar á árinu á undan.

Allt annað hækkaði. 

Forsætisráðuneytið um 26.3%. Þar mátti helst nefna hækkun á fjárframlögum til aðalskrifstofu ráðuneytisins, töluverða hækkun á framlögum til óbyggðanefndar, þjóðminjasafnsins, og Þingvallaþjóðgarðs.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hækkaði um 19.7%. Þar mátti helst sjá 17 milljarða króna aukningu á afskriftum af skattakröfum, þar sem farið er um 11 milljarða umfram fjárheimild. Einnig er liður í því ráðuneyti sem ber titilinn “(óþekkt)”, þar sem tæplega 2 milljarðar hafa horfið. 

Sumt eða allt af þessu kann að eiga sér ástæður, en erfitt er að sjá hvernig þetta telst vera aðhald í ríkisfjármálum.

Ég verð að viðurkenna að ég skil þetta illa. Það væri forvitnilegt að vita hvað formaður fjárlaganefndar hefur um þetta fyrirkomulag að segja, enda virðist ríkisstjórnin þrátt fyrir allt að vera að starfa vel innan fjárlaga á árinu 2013. Þetta voru auðvitað fjárlög sem voru sett 2012, þegar Björn Valur Gíslason var formaður fjárlaganefndar, en þetta er samt skrýtið og úr takti við árin á undan.

Það verður gaman að sjá hvernig þetta kemur út fyrir árið 2014 – en merkilegt nokk, þá hafa tölur fyrir árið ekki verið birtar, en það er ekki nein tæknileg ástæða fyrir því að það ætti ekki að vera hægt að birta útgjöld ríkisins jafnóðum.

Ríkisfjármál eru flókið mál. Hér er ég ekki að skammast í neinum, en mér finnst full ástæða til að draga athygli að þessu og spyrja spurninga.

Posted in Uncategorized

Baul bullukollanna

Það er ekki algengt í íslenskri stjórnmálaumræðu að hlutir séu sagðir með skýrum og afgerandi hætti svo ekki verði um villst. Því verður að teljast óþolandi þegar fullorðið fólk leikur sér að því að snúa út úr, þegar það er gert. Vandinn er að erfitt er að sanna að menn eins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Björn Bjarnason séu að snúa út úr, en séu ekki bara svona heimskir. Ýmislegt styður hvora tilgátuna.

Svo þetta sé gert alveg skýrt, enn og aftur:

Friðhelgi einkalífsins snýst um vernd hinna valdaminni frá misbeitingu hinna valdameiri.

Gagnsæi snýst um að opna hina valdameiri gagnvart eftirliti hinna valdaminni.

Upplýsingafrelsi snýst ekki um að allar upplýsingar séu opnar öllum alltaf, heldur að flestar upplýsingar séu opnar flestum alltaf, en sumar upplýsingar séu verndaðar, alltaf. Línan er dregin á skýrum stað: ef upplýsingar eiga erindi við almenning og það þjónar almannahagsmunum að þær séu opinberar, þá skulu þær vera opinberar. Ef upplýsingar eru persónulegar og koma engum við, þá skulu þær vera friðhelgar.

Það er ekki flókið að skilja þetta. Að forsætisráðherra landsins skuli eiga erfitt með að skilja einföld grunnatriði er grafalvarlegt. Neyðist maður til að spyrja sig hvaða önnur grunnatriði hann eigi í vandræðum með. Sem betur fer er Björn Bjarnason hættur að geta valdið skaða í íslensku samfélagi, nema með bauli sínu.

Posted in Uncategorized

Maya og óttinn

Í gær dó Maya Angelou, 86 ára gömul. Hún var kona sem barðist alla ævi sinni gegn mismunun. Vegna ótta annarra á hinu óþekkta fæddist hún, sem blökkukona í suðurríkjum Bandaríkjanna, inn í samfélag þar sem sumir máttu en aðrir ekki. Þessi aðgreining, sem var til komin vegna mannvonsku og fáfræði, ýtti undir fátækt, sem svo leiddi af sér glæpi.

Þegar hún var sjö ára gömul var henni nauðgað af kærasta móður sinnar. Hún sagði frá ódæðinu, sem varð til þess að æstur skríll drap nauðgarann. Hún öðlaðist við þetta sinn eiginn ótta – ótta við að orð hennar gætu haft alvarleg áhrif – og þagði hún því í sex ár þar á eftir.

Það er til fólk í öllum samfélögum sem nærist á ótta, eigin ótta eða ótta annarra. Þessi ótti er lamandi, hann tætir burt alla skynsemi og hamlar framförum.

Þessi ótti hefur ahrif á hegðun fólks. Hann veldur þröngsýni og fátækt í hugsun. Hann lætur fólk hverfa ofan í þjóðerni sitt, litarhaft eða trú. Lætur fólk reiðast þeim sem eru sér ólíkir, og spyrna gegn þeim. Í einhverjum tilfellum veldur það flóttahneigð: fólk skapar sér ímyndaðan heim þar sem það verður ekki vart við taugaveiklun sína gagnvart hinu óþekkta. Það var einmitt vegna þannig ótta sem Martin Heidegger kallaði eftir “rótfestu í hefðum sem tengjast stað og umhverfi sem eina öryggið sem býðst í pólitískum eða félagslegum aðgerðum í hættulegum heimi.”[1]

Aðgreining leyfir fáfræði um mismunandi félagslegar aðstæður og menningar að dafna, sem ýtir undir gróusögur, sögusagnir, og kolrangar staðalímyndir.

Popúlismi getur af sér popúlisma

Þegar fólk nærist á ótta annarra og hagnast á fordómum þess, þá kallast það popúlismi. Popúlistinn reynir að finna veikan blett, einhverja bólu í hugarfari náungans, og þrýsta á hann. Stundum kemur eitthvað slímugt út.

Popúlistinn er oft ekki að því vísvitandi: þeir eru sjaldan svo snjallir. Þeir athafna sig eftir sínum eigin ótta. Stundum er þessi ótti við fólk eins og Mayu Angelou, sem er öðruvísi á litinn en hinir hræddu. Stundum er þessi ótti við fólk eins og Harvey Milk, sem hefur aðra kynhneigð en hinir hræddu. Stundum er óttinn við fólk sem trúir á aðra guði, eða jafnvel sama guð undir öðru nafni. Eða fólk sem bara klæðir sig öðruvísi, eða talar annað tungumál.

En popúlistinn veit að hann getur ekki hagnast á sömu fordómum endalaust. Því þarf popúlistinn alltaf að víkka út. Bæði með því að víkka út eigin fordóma, en líka með því að skapa meiri ótta. Gera samfélagið beinlínis verra.

Þetta er gert með hólfun og skipulagningu. Allt á að vera á sínum stað, allt á að hegða sér rétt. Allt á að lúta stjórn. Eins og Vidler komst að orði eru nútímaborgir orðnar að “ímynd Taylorískrar framleiðslu”[2]. Edward T Relph sagði þessa hugmynd hafa leitt af sér samfélag sem var “afturhaldssamt, ljótt, sterílt, andfélagslegt, og almennt illa séð.”[3]

Popúlistinn hræðist það sem hann skilur ekki. Því gefur hann sér það hvernig allt virkar, og reynir að umraða heiminum í það líkan. Allt sem ekki passar er ýmist þröngvað inn í það, eða því er tortímt.

Einn daginn eru múslimar slæmir, og næsta dag eru það allir sem ekki eru kristnir. Næsta þar á eftir eru það einhverjir aðrir.

Frægt er ljóð Martins Niemöller: “first they came for the Socialists, but I did not speak out – because I was not a Socialist.”[4] Muniði hvernig það endar?

Popúlistinn byrjar alltaf á einhverju einföldu, einhverju – eða einhverjum – sem öllum er sama um.

Það var enginn eftir til að tala fyrir þig

Það krefst hugrekkis að sigrast á ótta. Það krefst enn meiri hugrekkis að hafna popúlisma. Maya Angelou gerði hvort tveggja, og á langri ævi sinni sá hún heiminn breytast á ýmsa vegu, stundum til hins betra, stundum til hins verra.

Á þeirri tæpu öld sem hún lifði tók óttinn á sig margar birtingarmyndir. Maya Angelou byrjaði að tala á ný meðan seinni heimstyrjöld geisaði, á tíma þar sem milljónir létust vegna ótta. Stríðið kom til ekki síst vegna þess að fólk sem nærðist á ótta annarra náði yfirhöndinni yfir rökhyggju. Þetta er auðvitað einföldun, en skrefin voru þrjú:

  1.  Hrun í fjármálakerfinu sem hafði alvarlegar afleiðingar fyrir afkomuöryggi fólks
  2. Vaxandi þjóðernishyggja, einangrunnarhyggja og annarskyns óttadrifin pólitík
  3. Heimsstyrjöld þegar það sauð upp úr milli nágrannaþjóða og þjóðarbrota

Við erum einu skrefi frá því að þurfa að horfa upp á annað blóðbað. Á vissan hátt er það þegar hafið: í Sýrlandi, í Úkraínu, í Tælandi. Eins í kosningunum í Evrópu um síðustu helgi, og kosningunum sem eru framundan á Íslandi, þá var óttadrifni popúlisminn aðal umræðuefnið. Það kemst ekkert að, nákvæmlega ekki neitt, nema hræðsluáróður, fordómar og viðbjóður.

Það kvarnast fljótt úr hugrekkinu þegar óttinn er allstaðar. En það er óskynsamt að óttast hið óþekkta, þegar hið þekkta er miklu verra: ef þessi óttadrifna alda popúlismans fær að halda áfram með sama hætti, þá er raunveruleg hætta á því að næsti umgangur verði ofbeldisfullur. Að samfélög sem höfðu öll heimsins tækifæri til að læra hvor af öðru og bæta sig taki sig í staðinn til og heyji stríð.

Það þarf ekki að gerast. Francis Fukuyama hafði rangt fyrir sér: sagan er ekki búin. Maya Angelou sigraðist á sínum ótta og varð ásamt Martin Luther King, Malcolm X og Nelson Mandela einn af risum mannréttindabaráttunnar. Þannig getur sagan okkar orðið. Hugrekkið getur tórað enn.

 

 

 [1]: Vitnað: Harvey, The Postmodern Condition, bls. 35.

 [2]: Anthony Vidler, The Third Typology.

 [3]: Edward T. Relph, The Modern Urban Landscape

 [4]: http://veni.com/articles/firsttheycameforme.html

Posted in Uncategorized

Samningasjá ríkisins

Það var viðtal við Steingrím J. Sigfússon í síðustu viku sem náði athygli minni. Það er sennilega ekki fŕettnæmt, nema hvað minnst var á vonda langtímasamninga sem gerðir voru í stjórnartíð Halldórs Ásgrímssonar, sem forsvarsmenn heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins lýstu sem “myllustein um háls stofnananna”.

Fyrsta sem ég hugsaði var, “nú væri gaman að geta séð þessa samninga.” Nema hvað þeir eru hvergi aðgengilegir. Þegar ný upplýsingalög voru samin þá reyndi ég að ýta eftir því við þá sem vildu á það hlusta að það væri mikilvægt að ríkisstofnanir hefðu jákvæða upplýsingaskyldu, en ekki bara skyldu til að svara upplýsingabeiðnum. Það er að segja, að stofnanirnar ættu að birta skjöl í þeirra vörslu af fyrra bragði. Þetta var inní frumvarpinu á einhverjum tímapunkti, en var svo veikt áður en að þetta var gert að lögum. 

Nú stendur furðuleg og jafnvel bjánaleg 13. grein, sem vantar allar tennur í og virðist fyrst og fremst vera einhverskonar “æji værirðu til í að” apparat. Þar segir þó meðal annars: “Stjórnvöld skulu vinna markvisst að því að gera skrár yfir mál, lista yfir málsgögn og gögnin sjálf jafnóðum aðgengileg með rafrænum hætti. Hið sama á við um gagnagrunna og skrár.”

Ég hugsaði aðeins meira um þetta, og komst að þeirri niðurstöðu að eitt af því markvissa sem stjórnvöld gætu gert væri að útbúa “samingasjá ríkisins”. 

Þetta væri vefsíða þar sem allir samningar sem ríkið eða þess stofnanir hafa gert eru listaðir upp í tímalínu sem sýnir hvenær samningurinn var gerður, hvenær hann lýkur, hversu mikið hann kostar eða hvað kemur inn í tekjur vegna samningsins, og svo útlistun á helstu áhrifum. Svo auðvitað ætti að vera hægt að sjá samninginn sjálfan. Slík síða gæti leyft flokkun og síun eftir ýmsum þáttum, m.a. hver undirritaði, hvaða ráðuneyti, stofnun eða fjárlagakafla hann tilheyrir, og hverjir aðrir eru samningsaðilar.

Þetta ætti að vera tiltölulega auðvelt bæði í hönnun og smíðum. Það er tvennt sem væri flókið við þetta. 

Annars vegar það að margir samningar ríkisins eru eingöngu til á pappírsformi. Það er erfitt að gera sér grein fyrir umfanginu, en það kæmi mér ekki á óvart ef aðeins um 30% samninganna væri til á tölvutæku formi. Það er samt þannig að nýrri samningar eru líklegri til að vera til á tölvutæku formi, og mætti byrja á því að setja þá samninga upp. Svo mætti nota sumarstarfsmenn (til dæmis eldri framhaldsskólanema) til að taka saman lýsigögn um aðra eldri samninga inn í gagnagrunninn, þannig að það sæist, og svo skanna inn frumskjölin. Þetta tæki svolítinn tíma, en ef byrjað er næst nútímanum og farið smám saman aftur í tímann er eflaust hægt að færa inn og skanna 5-10 ár aftur í tímann á hverju sumri, og meira eftir því sem lengra aftur er komið, enda færri og færri samningar.

Margir samninganna hafa eflaust bara sögulegt gildi. Það gæti verið gagnlegt einhverjum, en í þágu gagnsæis væri aðalatriðið að ná inn öllum gildandi samningum. Hinsvegar væri mögulega vandasamt að aðgreina gildandi frá útrunnum í fyrstu umferð, og því mögulega alveg eins gott að skanna bara allan pakkann.

Hitt sem væri erfitt er stofnanaleg tregða. 13. grein upplýsingalaga segir að stjórnvöld skuli vinna markvisst að því að gera gögn aðgengileg með rafrænum hætti. En á þeim tæpu tveimur árum sem liðin eru frá gildistöku upplýsingalaga hefur eftir því sem ég best veit akkúrat ekkert gerst. Umfangsmesta gagnabirtingin hingað til var þegar fjármálaráðuneytið undir stjórn Katrínar Júlíusdóttur birti sjóðsstreymisgögn árið 2012 – áður en nýju lögin tóku gildi! Það var gott skref, en betur má ef duga skal.

Gagnsemi samningasjár

Einhverjir myndu spyrja til hvers þetta væri? Hvaða erindi ætti almenningur með að hnýsast í samninga sem stjórnvöld hafa gert við einkaaðila?

Fyrst og fremst er þetta spurning um vald. Þegar Halldór Ásgrímsson, eða hver sem er annar sem er í stöðu til að hafa áhrif á það með hvaða hætti ríkið starfar, beitir sér í trúnaðarstöðu gagnvart almenningi á hátt sem gengur gegn hagsmunum almennings, þá verður almenningur að geta orðið var við trúnaðarbrestinn. Annars er vald þess aðila of mikið, og vald almennings skert verulega. Af þessu leiðir að það er nauðsynleg og ófrávíkjanleg krafa að samningar sem ríkið gerir séu gagnsæir og opinberir, og hluti af samningsstöðu ríkisins. Einkaaðilar sem eru ekki reiðubúnir til að sætta sig við það þurfa að sætta sig við að fá þá ekki samninga við ríkið.

Gagnsemin felst þá í því að almenningur gæti veitt ríkinu aðhald og gert athugasemdir við samningagerð sem væri á einhvern hátt óeðlileg.

Að vísu fylgir þessu ákveðið lærdómstímabil. Flestir hafa, því miður, takmarkaða þekkingu á því hvað ríkið gerir. Sumir halda að þetta sé bara runa af kokkteilboðum og sjónvarpsviðtölum, en horfa algjörlega framhjá öllu umfanginu. Þegar þau heyra að eitthvað hafi kostað eitthvað margar milljónir þá er fussað og sveiað, vegna þess að flestir hafa aldrei haft svo margar milljónir og finnst þetta vera óttalegt bruðl.

Helsta ástæðan fyrir því að fólk áttar sig ekki á þessu umfangi er að umfangið er falið. Það er ógagnsætt að hluta til vegna ótta stjórnvalda við viðbrögð fólks þegar það sér hvernig öllu er háttað. Hluti af þeim ótta er eðlilegur – vegna þess að arfaslakir og beinlínis heimskulegir samningar eru gerðir í þágu einhverra skyldmenna eða vina – en hluti af þeim ótta er til kominn af því að fólk hefur oft takmarkaðan skilning. Hæna, egg.

Þetta lagast ekki nema með því að taka fyrsta skrefið. Opnun á samningagerð hjá ríkinu er skref í áttina að því að skapa meiri meðvitund hjá almenningi, sem að lokum ýtir líka undir getu almennings til að geta tekið upplýstar ákvarðanir um hverskyns hluti.

Gagnsemin elur því af sér meiri gagnsemi eftir því sem á líður. Svokallað “positive feedback loop”.

Að yfirvinna stofnannalega tregðu

Til að þetta gerist þarf vilja hjá ríkisstjórninni. Ég hef ekki séð nein ummerki um vilja til að auka á gagnsæi í ríkisrekstri hjá núverandi ríkisstjórn, en það er ekki þar með sagt að hún sé ofær um að breyta því.

Ég skora því á Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra að taka þetta mál upp. Og hér er mitt boð: ef fjármálaráðherra tekur af skarið með þetta mál þá býðst ég til að búa til kerfislýsingu og þarfagreina verkefnið án endurgjalds.

Posted in Uncategorized

Óhentugleiki réttinda

Mér finnst ógeðslegt hversu margir virðast til í að segja að stjórnarskrárvarin réttindi fólks megi bara fjúka um veður og vind því það stafa af þeim réttindum einhver óþægindi um hríð.

Það er einmitt ekki þegar allt leikur í lyndi sem það þarf að standa vörð um réttindi fólks, heldur þegar komið er í hart.

Réttur til réttlátrar málsmeðferðar skiptir fólk engu máli fyrr en þau eru komin í málaferli. Tjáningarfrelsi skiptir ekki máli fyrr en einhver reynir að hefta tjáningu. Friðhelgi einkalífsins er ekki mikilvægur fyrr en einhver hnýsist. Almennt: réttindi skipta ekki máli fyrr en þeim er beitt, eða reynt er að brjóta gegn þeim. Fram að því eru réttindi einungis greinar í stjórnarskrá sem maður vonar að maður þurfi aldrei að nota.

Þess vegna verðum við að verja þessi réttindi alltaf. Alltaf. Þótt þau séu stundum óhentug. Þótt þau valdi stundum vandræðum.

Að setja lög á verkföll er brot gegn mikilvægum rétti: rétti fólks sem er efnahagslega háð því að vinna fyrir annað fólk, til að gera kröfur um laun, aðstöðu og lífsgæði. Væri enginn efnahagslega háður því að gefa fjármagnseigendum hluta af vinnu sinni væri engin þörf á verkfallsrétti.

En þar sem fólk er háð því að vinna fyrir fjármagnseigendur og fyrirtæki eru almennt ekki lýðræðisleg – lýðræðið hættir um leið og maður mætir í vinnu á morgnanna – þá verður verkfallsrétturinn að vera til, og þingið ætti að sjá sóma sinn í að verja þann rétt.

Auðvitað þarf að grípa inn í þegar fólk fer í verkfall. En það inngrip á ekki að vera inngrip í þágu fjármagnseigendanna til að halda status quo, heldur á það að vera inngrip í þágu samfélagsins til að reyna að hámarka réttlætið. Þess vegna erum við jú með ríkissáttasemjara. Hann kemur fyrir hönd samfélagsins í heild til að miðla málum og reyna að sætta deilur fjármagnseigenda og starfsfólks.

Ef meirihluti Alþingis telur að verkfallsréttur sé réttur sem skiptir ekki máli, þá væri ágætt að þau myndu leggja fram frumvarp til breytinga á Stjórnarskrá, sem fellir brott 75. gr., eða jafnvel breytir henni þannig:

  75. gr. Allir skulu vinna þá vinnu sem þeim er sagt að vinna, nema þeir séu ríkir. Þá mega þeir gera það sem þeim sýnist. Ef fólk leggur niður störf án leyfis má refsa þeim samkvæmt heimild í lögum.

Kannski þetta falli betur að því réttindafyrirkomulagi sem íslenskum stjórnvöldum hugnast.

Posted in Uncategorized

Furðufræði Ragnars Árnasonar

[Þessi grein birtist upphaflega á vefsíðu minni, hér]

Mér finnst alltaf pínlegt þegar fólk er á launum hjá ríkinu við að tala gegn tilvist þess hluta ríkisins sem hentar sér ekki. Ragnar Árnason, hagfræðingur, er einn þessara. Hann starfar hjá Háskóla Íslands, en jafnframt sem efnahagsráðgjafi fjármálaráðherra. Þannig mætti segja að ríkið greiði fyrir tilvist hans, að svo stöddu. En nóg um hræsnina. Skoðum heldur þær reiknikúnstir sem hann byggir sína ómanneskjulega afstöðu á.

Í grein sinni í Hjálmari gefur Ragnar sér að framboðið á heilbrigðisþjónustu sé afskaplega tregbreytileg (inelastic), en að eftirspurnin eftir heilbrigðisþjónustu sé mjög breytileg og háð verði. Leggur hann þá til að allratapið (deadweight loss) sé mikið vegna þessa. Allratap er það þegar bæði seljendur og kaupendur tapa vegna þess að einhver eiginlegur óefnahagur (specific diseconomy, svo maður noti hugtak frá Illich) er til staðar – algengasta dæmið er þegar einhver er með einokunarstöðu, eins og rétt er að ríkið hefur á Íslandi gagnvart heilbrigðisþjónustu (en einnig áfengis- og tóbakssölu, lagasetningu og fleira…). Einokunarstaðan veldur því að söluaðilinn getur verið ósveigjanlegur með verð svo framarlega sem það er einhver tregbreytileiki. Þetta veldur því að færri hafa getu til að kaupa en vilja.

Afgangurinn af röksemdafærslu hans gengur út frá því annars vegar að allratapið sé svo mikið að það sé verulegur skaði af fyrir samfélagið, og hins vegar að hægt sé að komast hjá þessu allratapi ef farið verður út í algjöra einkavæðingu heilbrigðiskerfisins.

Brjótum þetta niður ögn betur svo það fari ekki á milli mála hvað er verið að tala um. Hann fullyrðir að:

  • Framboð á heilbrigðisþjónustu (á Íslandi) sé tregbreytileg
  • Eftirspurnin eftir heilbrigðisþjónustu sé mjög breytileg

Og ályktar að:

  • Allratapið sé mikið, það er, að þetta er svo óhagkvæmt kerfi að allir tapi á tilvist þess
  • Einkavæðing myndi leiða af sér minna allratap

Þessar forsendur og ályktanir verða að teljast afskaplega hæpnar. Hér er Austurríska hagfræðin ráðandi, peningahyggjan. En svona nú til að hafa þetta sanngjarnt ætla ég ekki að benda of mikið á það að tilgangur heilbrigðistryggingakerfis sé ekki að vera hagfræðilega skilvirkt, heldur sé það að tryggja öllum einstaklingum aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Þessi trygging er álitin gagnleg samfélaginu sem og einstaklingunum sem þar búa, vegna þess að þannig hámörkum við bæði vinnufærni einstaklinga og lífsgæði þeirra, sem skilar sér svo margfalt til baka á öllum sviðum samfélagsins. En það væri afskaplega illa gert að núa peningahyggjumanni sem Ragnari um nasir með slíkar staðreyndir. Einblínum frekar á pínlegu mistökin sem hann gerir út frá peningahyggjuforsendum!

Hæpnar forsendur

Með því að gera framboðsfallið að “láréttri bugðu” er Ragnar að halda því fram að framboðið sé fasti vegna þess að það er alltaf til meira framboð – þ.e., að framboðið sé algjörlega óbreytileg, eða að minnsta kosti mjög tregbreytileg. En raunin er önnur. Framboðið er fall af fjölda starfsmanna heilbrigðiskerfisins, þeirra leguplássa sem eru til staðar þar, og þeirra tækja sem eru í boði. Þannig er raunar ýmislegt til í því að segja að það sé allratap af rekstri heilbrigðiskerfisins, enda erfitt að reka slíkt kerfi á sem allra hagkvæmastan hátt — ef einblínt er á peninga. Ef allir læknar vinna hjá ríkinu, ríkið er ekki tilbúið til að borga nema ákveðnar lágar upphæðir, þá verða margir læknar síður en svo sáttir og flytja til Svíþjóðar. Úr verður skortur á læknum. Þeir sem eftir verða þurfa að vinna meiri yfirvinnu, sem er dýrari. Þeir verða líka þreyttari, enda ofhlaðnir vinnu. Það dregur svo úr hagkvæmni starfseminnar. Þarna eru því margir þættir sem spila saman. Þannig að framboðsfallið gengur tiltölulega hægt upp á við, upp að ákveðnum punkti, þar sem það rýkur svo tiltölulega hratt út í hið óendanlega. Uppgangshraði fallsins stýrist af því hversu auðvelt er að lokka fólk aftur heim frá Svíþjóð.

Gerir Ragnar svo ráð fyrir því að punkturinn x* sé vinstra megin við x á grafi sínu (sjá fyrir neðan). Ef þessi fullyrðing stenst þá er allratapið eitthvað, en það er ekki víst að fullyrðingin standist. Það er einhversstaðar hámark á því hversu mikila heilbrigðisþjónustu samfélag af ákveðinni stærð getur þarfnast undir eðlilegum kringumstæðum. Það eru til að mynda ekki nema krabbameinssjúkir sem eru í krabbameinsmeðferð, og sömuleiðis undirgangast afskaplega fáir skurðaðgerðir sem ekki hafa tilefni til. Þannig verður eftirspurnarfallið ekki endilega bein lína, heldur bein að einhverjum punkti, og svo snarpt niðurávið þar eftir. Sniðugur hönnuður heilbrigðiskerfis myndi einmitt reyna að hagræða því með það fyrir augum að láta x = x*, með því að tryggja að framboðið skeri eftirspurnarfallið á sem heppilegustum punkti. Það er hægt að mæla hvort það hafi tekist, en við komum að því á eftir.

Stóra vandamálið við grein Ragnars er að hann snýr dæminu á hvolf. Þetta er algengt vandamál hjá hagfræðingum, enda verður að segjast að af öllum þeim greinum sem kenndar eru við HÍ á hagfræðin mest skylt við guðfræði hvað varðar vísindalegan grundvöll. Það verður nefnilega að taka með í reikninginn að ólíkt almennri einokun, þar sem einokunin fer fram á söluhliðinni, þá er heilbrigðistryggingakerfi einokun á kauphliðinni. Það er að segja að allir í samfélaginu taka sig saman um að vera sem einn kaupandi. Þetta breytir reglunum svolítið, því þetta setur seljendum þjónustunnar – þ.e. læknum og öðru heilbrigðisstarfsfólki – svolítið þrengri skorður. Þetta veldur því að rekstraraðili heilbrigðiskerfisins – þ.e. ríkið – ákveður hversu mikið læknar, hjúkrunarfræðingar og annað starfsfólk heilbrigðiskerfisins fá borgað, og ráða þau því hvernig framboðsfallið lítur út, upp að því marki þar sem starfsfólkið flýr til Svíþjóðar.

Skilvirknismæling

Nú er mæling á skilvirkni heilbrigðiskerfa ekki algjörlega óþekkt fyrirbæri. Ísland er aðili að OECD, sem gerir reglulegar úttektir á þessum efnum, og sömuleiðis hefur Eurostat ágætis tölfræði. OECD tölfræðin er þó gagnlegri, því innan OECD eru bæði lönd með opinberar heilbrigðistryggingar í ríkisreknu heilbrigðiskerfi (t.a.m. Ísland, Danmörk og Bretland) og lönd sem eru með takmarkaðar opinberar heilbrigðistryggingar og einkavætt heilbrigðiskerfi (Bandaríkin). Sé litið á kostnað hinna ýmsu heilbrigðiskerfa sést að það er verulegur munur á því hver sé meðalkostnaður á einstakling (PPP-jafnað). Tyrkland er lægst innan OECD með um $800, en Bandaríkin hæst með tæplega tífallt meira. En þetta segir okkur ekkert um skilvirknina. Til að meta skilvirknina þarf einhverskonar mælikvarða á árangur. Við getum ekki horft á hagkerfið og reiknað hvort það sé Pareto-skilvirkt, því miður. Þannig að við notum einhvern annan mælikvarða. Það sem OECD notar í skýrslu hagfræðideildar stofnunarinnar, “Health Care Systems: Getting More Value For Money”, er samhengið milli lífslíkna við fæðingu og reiknaðs meðalkostnaðar á einstakling á ári. Skemmst er frá því að segja að lönd með sterk opinber heilbrigðistryggingarkerfi koma áberandi best út.

Einhverjir myndu segja að þetta sé ekki endilega skilvirkni, og kannski er það rétt. Auðvitað eru ansi margir þættir sem spila inn í. En það sem skiptir máli er að hrein fræðileg úttekt út frá hæpnum forsendum hlýtur að þurfa að sæta endurskoðun sé henni beinlínis hnekkt á grundvelli raunveruleikans. Hagfræðinni er ekki alltaf mikið gefið fyrir raunveruleikann, en ef verið er að tala á hvaða hátt sem er um framtíð heilbrigðistrygginga á Íslandi – eins og ætla má að sé verið að gera – þá er algjör forsenda að raunveruleikinn sé tekinn með í reikninginn.

Skilvirkt samfélag?

Í stuttu máli er þessi grein Ragnars er óttalegt sorp. Hún er ekki háskólaprófessor sæmandi, hvað þá efnahagsráðgjafa ríkisstjórnarinnar. Það er líka áhugavert að hann vísar til velferðarsetningar Arrow og Hahn, en lætur sig að engu skipta afganginn af félagslegu valkenningu Arrows, sem snýr að því hvernig fólk í samfélagi metur möguleikanna sem það stendur frammi fyrir. Það er nefnilega svo að auðvelt er að gera sér í hugarlund velferðarfall sem er Pareto-skilvirkt hvað varðar félagslegt val, en er ekki skilvirkt út frá peningalegum gildum. Það er að segja: að fólk kjósi sér stundum hreinlega að eyða aðeins meiri peningum, þótt þau viti að það sé ekki endilega hagkvæmasta lausnin, ef það veldur því að önnur gildi sem eru metin hærri séu betur dekkuð. Mér finnst gott að geta farið til læknis þegar ég er veikur. Mér finnst mjög gott að þurfa ekki að hafa áhyggjur af því hvort ég hafi efni á því áður en ég fer. Þetta eru félagsleg gildi sem skipta máli.

Það er kannski réttast að ég taki fram að sem mutualískur anarkisti er ég ekki hrifinn af ríkisrekstri, en kapitalískur gróðahyggjurekstur er mér enn síður að skapi. Það eru til önnur og betri samvinnulíkön sem væri hægt að nota, en þau eru ekki til umræðu hér. Ég nefni þetta aðallega til að benda á að mér finnst það góð venja að taka staðreyndir með í reikninginn, óháð pólitískri afstöðu. Auðvitað ættu fræðimenn að temja sér sambærileg vinnubrögð.

Posted in Uncategorized

Áburður á stjórnarflokkanna

Undanfarnar tvær vikur hef ég setið í gamalli áburðarverksmiðju á Indlandi og fylgst með þróun atburða í íslenskri pólitík. Þetta er stór bygging, alls tíu hæðir, hátt til lofts, enda þurfti mikið pláss í byggingunni fyrir hinar ýmsu vélar og allt starfsfólk verksmiðjunnar, en þessi bygging hefur í um fjörtíu ár staðið sem mikilvægur hluti af hagkerfi þessarar borgar.

Sitjandi hér í þessari gömlu áburðarverksmiðju vakna margar spurningar um það sem er að gerast á Íslandi. Í stjórnarflokkunum á Íslandi er fólk sem vill líta á sig sem frjálslynt, sjálfstætt, opið og framsækið. Á tyllidögum talar það um alþjóðamarkaði og uppbyggingu atvinnulífsins, það talar þjálglega um mikilvægi vel launaðra starfa og menntaðs vinnuafls.

Því skýtur það skökku við að efst á baugi hjá stjórnarflokkunum er að draga Ísland út úr umræðum um útvíkkun á því alþjóðasamstarfi sem efnahagur Íslands reiðir sig á, og bjóða þess í stað áburðarverksmiðju. Talað er af miklum krafti um nauðsyn þess að slíta samningaviðræðum við Evrópusambandið, en þegar spurt er “nú hvað þá?” er eina tillagan frá stjórnarflokkunum gervisaur.

Mörglega er búið að kaffæra þjóðina í svo mikilli mykju undanfarnar vikur að skítalyktin sé farin að angra þau. Það gæti verið að þeim hugnist að skipta úr skít í niturdrullu og amínósýruslor, en einhver myndi heldur hætta að moka.

Á Indlandi er mikil fátækt, ríkisstjórnin hefur oft verið síður en svo farsæl, enda fjöldinn allur af ólíkum menningum, tungumálum, trúarbrögðum og öðru sem þarf að samþætta í öllu. En þó hefur verið hér gríðarlegur uppgangur undanfarin ár, með um 6% hagvöxt árlega. Sá árangur hefur náðst með því að minnka spillingu og frændhygli í stjórnkerfinu, auka alþjóðasamstarf, opna sig gagnvart erlendum mörkuðum og vera framsækin í menntun og atvinnuuppbyggingu. Sem sagt, allt það sem ríkisstjórn Íslands er að forðast.

Gamla áburðarverksmiðjan sem ég sit í er ekki áburðarverksmiðja lengur. Í þessari byggingu starfa nú 2000 manns í tæknigeiranum: hér er hugbúnaður þróaður fyrir mörg af stærstu fyrirtækjum heims. Verðmætin sem vella út úr þessari gömlu áburðarverksmiðju eru sennilega einhver prósenta af þeim 158 milljörðum bandaríkjadollara sem heimsmarkaðurinn fyrir áburð nemur.

Íslensk pólitík er óttaleg drulla. Það er furðulegt hvernig, í hvert skipti sem óeining ríkiri um eitthvað mál, þá fara valdhafar strax í að finna leiðir til að þröngva fram sinni uppáhaldsniðurstöðu. Það einhvernvegin kemur aldrei til tals að leita ráða hjá almenningi. Það er ekki forgangsatriði að minnka spillingu, að draga úr frændhygli. Alþjóðasamstarf er álitið prump, erlendir markaðir eitthvað ofan á brauð, og eina framsóknin er sú Framsókn sem heldur aftur af þjóðinni.

Ef það er eitthvað sem Íslandi vantaði ekki, þá var það önnur ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Á þau þarf engan áburð, þau bera á sig alla sök sjálf.

Horfandi á ástandið á Íslandi hugsa ég óhjákvæmilega til þess þegar ég var í þessum heimshluta í upphafi árs 2009. Þá sat ég ekki í gamalli áburðarverksmiðju, heldur í gömlu gistihúsi í Afganistan, og horfði á ríkisstjórn Íslands falla. Ég vildi gjarnan óska þess að ég væri að horfa upp á það sama núna.

Posted in Uncategorized

Fjölmiðlar og Ríkisstjórnin

Maímánuð 2010 var ég í Ungverjalandi. Þar vann ég með fulltrúum Sameinuðu þjóðanna, Evrópusambandsins, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, háskólum, fjölmiðlum, frjálsum félagasamtökum og öðrum stofnunum að því að þrýsta á ungversk stjórnvöld að falla frá hugmyndum sínum um nýja fjölmiðlalöggjöf. Löggjöfin myndi gefa hinni nýju ríkisstjórn Viktors Orbán gríðarlegt vald til að beita fjölmiðla sektum og krefja þá um ákveðnar tegundir umfjöllunar, sem við óttuðumst að myndu verða notaðar til ritskoðunar og takmörkunar á tjáningarfrelsi almennt. Eftir marga langa fundi og endalausar viðræður var það auðséð að ríkisstjórnin ætlaði ekki að falla frá þessum fyrirætlunum.

Nú fjórum árum síðar – á kosningaári þar í landi – er orðið ljóst hversu alvarlegur ósigur okkar var. Fjölmiðlafrelsi í Ungverjalandi hefur minnkað allverulega. Samkvæmt Freedom House var Ungverjaland í 40. sæti (“free”) yfir þau lönd heims sem höfðu mest fjölmiðlafrelsi árið 2010, en árið 2013 var það komið niður í 74. sæti (“partly free”). Á kaffihúsi í Brussel stuttu síðar heyrðist hlakka í nokkuð þekktum pólskum íhaldsmanni, sem sá fyrir sér “Orbáníseringu Evrópu”. Með því átti hann væntanlega við takmarkanir á fjölmiðlafrelsi, hagræðingar á stjórnskipan, og innmúrun sinna áhrifa.

Á Íslandi myndi aldrei neitt slíkt gerast, er það?

Það lá fyrir nánast frá fyrsta degi að núverandi ríkisstjórn Íslands yrði ríkisstjórn eiginhagsmuna, hagsmuna vina sinna, og engum öðrum yrði greiði gerður. Ég á enn eftir að sjá nokkra einustu ákvörðun tekna sem gagnast almenningi, að nokkurt einasta loforð hafi staðist, að nokkur einasta fullyrðing væri annað en lauf í vindi. Ég hef eingöngu séð hegðun siðlausra lygara og valdníðinga.

Undir stjórn þessa fólks hefur Ísland byrjað að undirgangast “Orbáníseringu”. Endurskipan í stjórn RÚV í gær var ekki fyrsta merki þess, en það var sterkasta merkið hingað til: ríkisfjölmiðillinn skyldi vera undir ægiafli stjórnvalda. RÚV verður þar með hallt undir þá fjölmiðlun sem ríkisstjórninni þóknast. En RÚV er ekki eini fjölmiðill Íslands. Einnig er til Morgunblaðið, sem sjálfritskoðaði sig á dögunum eftir að hafa birt “fyrir mistök” grein sem hentaði ríkisstjórninni illa, og Vísir/Fréttablaðið, sem breyttu fyrirsögn í sannleikshagræðingarskyni. Það dylst engum sem skoðar hegðun Árvakurs og 365 Miðla hvar þeirra hollusta liggur.

Hvað er þá eftir? Það er einna helst “slúðursnepillinn” DV, sem þrátt fyrir arfaslakan orðstír hefur verið eini fjölmiðillinn á Íslandi í nokkur ár sem stundar rannsóknarblaðamennsku af einhverju viti – ef RÚV er stöku sinnum frátalið. Nýtt á vígvellinum er Kjarninn, sem er að gera nokkuð góða hluti með nýstarlegum hætti. Grapevine er yfirleitt nokkuð beitt, en útgefið á ensku, með litla dreifingu utan 101 og dulbúið sem túristatímarit, nær það lítið að hafa áhrif á umræðuna á landsvísu. Svo eru ýmsir aðrir smámiðlar sem tekur varla að telja til.

En þessum fjölmiðlum er öllum ákveðin hætta búin. Þegar ný fjölmiðlalög voru að ganga í gegn á Íslandi 2011, varaði ég við því að ýmislegt í lögunum gæti hugsanlega verið hættulegt ef fasistastjórn kæmist til valda á Íslandi. Lítið var gefið fyrir slíkar dómsdagsspár, enda Ísland gjörólíkt Ungverjalandi. Er það ekki?

Til að lýðræði virki þarf almenningur að hafa tvennt: Greiðan aðgang að réttum og nákvæmum upplýsingum, og getu til að hafa áhrif á ákvarðatöku. Ríkisstjórn Íslands er langt komin með að koma í veg fyrir lýðræði.

Posted in Uncategorized

Jólamatur

Á vef Viðskiptablaðsins í gær var nafnlaus bloggfærsla sem sagði að “Pírötum er þröngur stakkur sniðinn í vali á jólamat,” með tilvísan til könnunar MMR sem sýndi að stuðningsmenn Pírata eru öðrum líklegari til að vera frumlegir í matarvali sínu um hátiðarnar. Hélt bloggfærslan áfram og fullyrti að úrvalið á jólamat takmarkaðist “örugglega við það sem hægt er að panta á netinu,” því Píratar séu svo rafrænir, og að það þurfi þá að vera “Fair Trade” vottað og hægt að greiða með Bitcoin.

Verandi frekar húmorslaus þá skildi ég ekki alveg hvað var átt við með greininni. Ég fór því á stúfana í leit að hamborgarhryggjum á netinu. Þeir sem þekkja mig vel vita að það er fátt sem mér finnst jafn gott og hamborgarhryggur, en ég veit einmitt um frábæran stað í Hamborg til að fá slíkan hrygg ódýran og góðan.

Í fljótheitum fann ég fín tilboð frá Miðskersbúinu á 1760 kr/kg, og vistvænt svínakjöt frá Bjarteyjarsandi á 2400 kr/kg. Einnig rakst ég á þessa grein í Mogganum sem segir að það hafi aldrei verið jafn mikil eftirspurn í vörur beint frá býli. Það er gleðiefni! Stytting boðleiða milli framleiðenda og neytenda þýðir betri gæði, betra verð, og að framleiðandinn fær meiri tekjur. Milligöngumennirnir þurfa að vísu kannski að herða beltið.

Hvað “Fair Trade” varðar veit ég frekar lítið. En til að reyna að finna eitthvað sem uppfyllir þær kröfur skoðaði ég vefsíðuna nattura.is þar sem ég fann tvö bú sem eru með svinakjöt í heimaslátrun, Miðskersbúið og Holtselsbuið. Það eru örugglega einhverjar aðrar kröfur til “Fair Trade” svínakjöts, en ég veit ekki hverjar þær eru. Snýst “Fair Trade” ekki annars bara um sanngjörn viðskipti þar sem bændurnir fá vel borgað fyrir sína vöru?

Verandi sjálfur í Serbíu núna um jólin þá lá ljóst fyrir, áður en ég lagði í þennan leiðangur um hið skrýtna Internet sem Viðskiptablaðsmenn virðast svo hræddir við, að ég yrði að sætta mig við eitthvað annað en hamborgarhrygg, þannig að ég mun fá mér pečenica ásamt brúnuðum kartöflum, sósu og með því í kvöld með nokkrum vinum. Pečenica er einmitt reyktur hryggur af svíni sem er svo soðinn… svakalega útlenskt og framandi eitthvað!

Pečenica

Ég sá ekki neitt býli sem tók við Bitcoins, en það er fínt, þar sem ég er að spara, enda fjölmargir barir og veitingarstaðir í Berlín, þar sem ég verð um áramótin, sem taka við greiðslum í Bitcoins. Hver veit nema maður fái sér einn áramótaöl á Room 77 (ætti að kosta c.a. 0.004 Bitcoin á núgengi!).

Það eru margar fjölskyldur á Íslandi sem kjósa kannski að borða eitthvað annað en það hefðbundna á jólunum, eða fara í villibráðina svo sem gæsir, rjúpur, endur eða hreindýr. En það eru líka aðrar fjölskyldur sem hreinlega hafa ekki efni á því að leggja út fyrir hamborgarhrygg – sé fjölskyldan stór getur kjötið eitt og sér farið upp fyrir fimm þúsund krónur áður en farið er að kaupa meðlæti eða nokkuð annað. Hvort stuðningsmenn Pírata séu í meiri fjárhagserfiðleikum en aðrir veit ég ekki, enda lá meira á hjá MMR að gera könnun um jólamat en efnahagsaðstæður fólks. Vonandi er stakkurinn ekki allt of þröngt sniðinn hjá fólki!

Fólk með jafn mikinn skilning á viðskiptum og Viðskiptablaðsmenn ætti að vita að fólk velur hvað það kaupir út frá þeim forsendum sem það hefur, og það er fátt jafn slæmt og einsleitur markaður. Fátækt er alvarlegt vandamál á Íslandi og víðar í heiminum, og það verður varla upprætt með því að beita fólki félagslegum þrýstingi til að borða tiltekna tegund matar á tilteknum degi ársins – né neinum öðrum af þeim aðgerðum sem virðast falla í kramið hjá Framsóknarmönnum.

En að öllu gríni slepptu, þá vona ég að allir fái gott að borða núna á jólunum, sem og alla aðra daga! Gleðileg jól!

Posted in Uncategorized