Grátur og gnístran tanna í Reykjavík

Heimili: Reykjavík. Velferð: ?

Okkur skortir rannsóknir en vitum þó að margir borgarbúar eru hjálparþurfi.  Aldraðir, veikir, fatlaðir, efnalitlar fjölskyldur, námsmenn, fíklar, heimilislausir, útlendingar, atvinnuleitendur, fangar, skuldarar, börn og unglingar sem búa við erfiðar heimilisaðstæður eða kljást við vanlíðan af öðrum sökum … listinn er langur.

Borgin stendur sig ekki vel í að rétta hjálparhönd. Ástæður eru m.a.;

• peningaskortur,

• kerfisbákn og regluveldi sem þarf að taka til í,

• þekkingarskortur á aðstæðum borgarbúa,

• hugsunarleysi,

• vond lög og reglugerðir,

• forréttindi sem fast er haldið í,

• lélegt upplýsingakerfi og skertur aðgangur fólks að vitneskju um málefni sem það varðar.

• hræðsla við breytingar.

 

Kerfi ver alltaf sjálft sig, rétt eins og valdamiklir völdin sín og auðmenn peningana sína. Þess vegna þurfum við „counterstrike“; öflugt aðhald og sterka mannréttindagátt sem verkar eins og gagnárás ef stjórnkerfi borgarinnar fer að ganga á réttindi borgaranna og borgin hættir að rækja skyldur sínar.

Í Reykjavík er grátur og gnístran tanna daglegt brauð á mörgum heimilum. Þar með töldum elliheimilum, fangelsum, sjúkrahúsum, hjúkrunarheimilum, sambýlum o.fl. þar sem fólk heldur heimili, nauðugt eða sjálfviljugt. Fjöldi fólks glímir ekki bara við fjárhags,- skulda- og húsnæðisvandamál heldur líka áhyggjur af börnunum sínum, einmanaleika, næringarskort, áhrifaleysi og lamandi þreytu, uppgjöf og úrræðaleysi þess sem stendur andspænis ofurvaldi gamalgróins kerfis.

Því sem næst öll orka margra fer í að sækja rétt sinn til borgarinnar og/eða verjast ofurkröfum banka og lögfræðinga, í stað þess að byggja sig upp, gefa af sér, ná heilsu, vinna, mennta sig og vera með fjölskyldu sinni og fleira fólki.

Þið ykkar sem eruð í góðum málum, lokið augunum skamma stund og ímyndið ykkur hvernig það er að horfa í augun á svöngu barni og segja „því miður“ eða streituna sem fylgir öllum erfiðleikunum sem taldir eru upp hér að framan. Þeir eru raunveruleg viðfangsefni margra Reykvíkinga. Hvað er til ráða? Hér eru nokkrar tillögur. Borgin getur:

 1. Greitt öllum Reykvíkingum grunnframfærslu.
 2. Ljáð þeim húsrúm sem vantar samastað. Borgin á yfir 300 fasteignir og getur samið um að fá fleiri, t.d. frá Íbúðalánasjóði.
 3. Boðið borgurum upp á hollan morgunverð.
 4.  Gert leikskólann gjaldfrjálsan.
 5. Spurt borgarana sjálfa hverju þarf að breyta.
 6. Innleitt áætlun undirritaðrar um nýjar leiðir fyrir þá sem skulda Reykjavíkurborg. Sjá „Ég skil! Skuldaskil“ á blog.piratar.is/kristin
 7. Haldið alþjóðlega samkeppni í formi fjársjóðsleitar: „Leitin að nýjum tekjulindum fyrir Reykjavík“.
 8. Einfaldað stjórnun borgarinnar, aukið aðgengi að upplýsingum og skilgreint alla aðstoð við borgarbúa upp á nýtt með einfaldleika og gagnsæi í forgrunni.
 9. Komið því skýrt á framfæri hverjar skyldur borgarinnar og réttindi borgarbúa eru.
 10. Komið á alvöru þátttökulýðræði.
 11. Nýtt borgarbyggingar betur undir samveru borgarbúa, tómstundir, fræðslu, samhjálp og vinnuskipti. Húsnæði er vannýtt í t.d. kirkjum og félagsmiðstöðvar hafa breyst í „eitthvað sem er til úti á landi“ að miklu leyti.
 12.  Hér má hlaða inn öllu þessu góða sem við getum farið að hugsa um þegar við höfum þak yfir höfuðið, mat á borðið og erum ekki að sligast af áhyggjum út af skuldum og velferð barnanna okkar.

Það er léleg klisja að við getum engu breytt. Það hefur þvert á móti aldrei neitt breyst nema einmitt vegna þess að einstaklingar tóku sig saman og breyttu því, svo vitnað sé til orða mannfræðingsins Margaret Mead.

Við getum breytt borginni í betri samastað.

Kristín Elfa Guðnadóttir

Höfundur er Pírati.

 

Posted in Uncategorized

Ég skil! Skuldaskil.

Ég hitti Jón Gnarr og Unni Margréti Arnardóttur í ráðhúsinu í september sl. og sagði þeim í punktastuttu máli frá nokkrum hugmyndum sem ég hef um aukinn stuðning borgarinnar við skuldara.

Hér að neðan eru punktarnir sem ég hripaði niður fyrir borgarstjórann og verkefnisstjórann. Það er vont að vera skuldari – og enn verra þegar líka stendur yfir glíma við sjúkdóma og/eða aðra erfiðleika sem þvælast fyrir skuldaskilum.

Hugmyndir um sérstakan stuðning við skuldara sem eru:

► með skerta ákvarðanagetu, minni, athygli, framkvæmdagetu, hreyfigetu eða einfaldlega skítblankir

 

Til dæmis vegna þess að þeir eru:

• heimilislausir

• fíklar

• fatlaðir

• útlenskir

• með athyglisbrest

• geðsjúkdóma

• á einhverfurófi

•aldraðir

• fátækir

• atvinnulausir

• með þungt heimili

• eina fyrirvinnan

• með dyslexíu

• með síþreytu/vefjagigt, aðra sjúkdóma eða raskanir sem valda þreytu, heilaþoku, frestunaráráttu og/eða hreyfierfiðleikum

• kokteill af þessu

 

Skuldasvið borgarinnar: Starfsmenn sem taka hlýlega á móti fólki og fara yfir kringumstæður ef þurfa þykir (sum smærri mál hægt að leysa í símtölum, sms, email, facebook …)

 og bjóða lausnir, til dæmis:

 

• mentor (skipulagstæki og tól, og/eða áframhaldandi mannlegan stuðning, svo sem markþjálfun)

• niðurfellingu dráttarvaxta og/eða lögfræðikostnaðar

• niðurfellingu skulda

• lengri tíma til að borga skuldir

• að skuldari borgi með samfélagsþjónustu

• námskeið í skuldaskilum

 

 

Skuldari leggur sitt af mörkum eins og honum framast er unnt svo sem að standa við nýtt samkomulag, mæta í endurhæfingu, vera jákvæð/ur gagnvart tillögum …

 

Fyrirbyggjandi:

1.      Jákvæðar, styðjandi áminningar: gsm/facebook/heimasími/tölvupóstur/bréf/heimsókn

2.      Lengri greiðslufrestur áður en álögur koma til, og fleiri áminningar.

—-

Jón og Unnur tóku ágætlega í þetta og mér heyrðist Jón ekki síst spenntur fyrir hugmyndinni um að greiða niður skuldir með samfélagsþjónustu. Ég er auðvitað hrifin af henni líka og myndi óska fyrir eigin hönd að ég fengi markþjálfa með loftpressu inn á heimilið til að bora inn í mig skuldaskipulag. Þrátt fyrir góðan ásetning og mikinn greiðsluvilja (orð sem var rifjað upp á fundi nýverið við mikla en blendna kátínu) á ég enn í vandræðum með að borga skuldirnar mínar á réttum tíma. Þótt það sé oft vegna “slæmrar lausafjárstöðu” þá er athyglisbrestur líka algengur sökudólgur. Á endanum sit ég svo uppi með himinháar bílastæðasektir og annað skuldakyns í leikhúsi fáránleikans. Það kemur loks að því að þetta reddast reddast ekki lengur og þá eru góð ráð (allt of) dýr. Ég vona innilega að hugmyndirnar mínar rati lengra. Yfir til þín, Jón.

Posted in Uncategorized

Tyrfum yfir bílastæðin í Reykjavík, bílar til útláns við borgarmörkin í sunnudagsbíltúrana

Við þurfum enga bíla í Reykjavík nema farþegaflutningabíla, vöru- og búslóðaflutningabíla og öryggisbíla. Þ.e. almenningsvagna (strætó eða sporvagna), lögreglu,- sjúkra- og slökkvibíla, flutningabíla og bíla fyrir fatlaða. Þetta myndi nánast þurrka út þörfina fyrir bílastæði. Í fljótu bragði sýnist mér að stefna okkar í bílastæðamálum sé ívið nær stefnu Bandaríkjanna en Evrópu, en ég hef þó ekkert haldbært fyrir mér í þessu annað en þessa heimild (sem sýnir ástandið í BNA) og að hafa búið í Evrópu.

Ef við tyrfum yfir megnið af bílastæðum borgarinnar breytist margt til betri vegar. Byggð þéttist, mengun minnkar, það dregur úr streitu og slysum, kostnaður heimila við samgöngur dregst verulega saman, viðhaldskostnaður vega snarminnkar, að ekki sé minnst á kostnað við bílastæðamannvirki sem nánast hverfur. Þess í stað verður hægt að stórbæta almenningssamgöngur og styrkja hjólreiðasamgöngur, samgöngur gangandi fólks og jafnvel líka hestasamgöngur, en hestamenn hafa lengi kallað eftir auknum stuðningi til gerðar hestavega.

Heimspekikennarinn hann mágur minn fékk frábæra hugmynd um daginn. Hún er svona: Tyrfum yfir bílastæðin og komum á einkabílum í almenningseigu sem eru staðsettir við borgarmörkin. Fólk kaupir sér bílakort, sambærilegt við sundkort, menningarkort og bókasafnskort. Þegar það ætlar út á land og rúturnar henta ekki fer það á einn af nokkrum stöðum í borgarjaðrinum þar sem bilar bíða eftir þeim sem vilja skreppa út á land. Þetta fyrirkomulag skapar þó nokkuð mörg störf um stjórnun, eftirlit, viðhald, bílainnkaup og þjónustu.

Enginn verður auðvitað píndur í að nota þessa þjónustu og leggja einkabílnum, að öðru leyti hugsanlega en því að fleiri götum yrði lokað fyrir umferð einkabíla en nú er, til dæmis öllum miðbænum. En þegar stæðin vantar og hin þjónustan stendur til boða er það öflug hvatning til að að nýta sér hana. Svo myndi þetta fyrirkomulag vera vel kynnt og lagt í atkvæðagreiðslu borgarbúa. Aðrir byggðakjarnar fengju þá tækifæri til að kynna sér þetta fyrirkomulag og sjá hvort það hentaði í þeirra byggðalagi, en til þess fengjust ríkisstyrkir.

Í lokin: Við verðum líka að hugsa um framtíðina. Það er gott og nauðsynlegt að geta lifað í núinu með tilliti til þess að njóta lífsins og hafa ekki áhyggjur af eigin komandi þrengingum og andláti. En með tilliti til þess að skapa góðan heim er afspyrnu vitlaust að lifa í núinu. Dóttir mín byrjaði að tala og vinna gegn einkabílisma þegar hún var átta ára ánss að hafa fengið neina hvatningu til þess á heimilinu, þar sem einkabíllinn var í hávegum hafður. Ætlum við virkilega að sitja og gera ekki neitt á meðan krakkarnir skjóta okkur ref fyrir (síbreikkandi) rass? .

Posted in Uncategorized

Skipasinfónía í annað sinn á ævinni

Ég er svo heppin. Árið 1993 hlustaði ég á skipasinfóníu í höfninni í Amsterdam. Nú stendur til sams konar viðburður í Reykjavík og ég hvet fólk sem er statt í borginni eða nágrenni hennar að fara niður á miðbakka og hlusta (og horfa) klukkan 17:45 í dag. Ef það tekst eitthvað í líkingu við jafnvel og í Amsturdammi í denn þá verður þetta nokkuð sem gleymist ekki svo glatt, sérstaklega í svona fallegu veðri – og ef fjöldi fólks kemur saman glatt í sinni.

Posted in Uncategorized

Hvolpar og kettlingar

Við kjósendur högum okkur svolítið eins og kisulórur og hvolpakrútt. Elskum að láta strjúka á okkur kviðinn og klóra okkur á bak við eyrun. Þetta höfum við enda verið vanin á. En nú er kominn tími til að bretta upp ermar.

Mér þykir leitt að vera boðberi slæmra frétta en við erum of lítið að tala um þau mál sem skipta heimsbyggðina og okkur sjálf mestu máli. Ekki bara sjálfbærni heldur sjálfsbjörg (hvernig á að komast af í heimi þar sem sífellt mun þrengja að þeim lífskjörum sem Íslendingar eiga að venjast), ekki bara samræða heldur samvinna.

Lífsstíllinn okkar er löngu hættur að ganga upp. Við þurfum að gerbylta samgöngum, neysluvenjum og reyndar hagkerfinu okkar í heild. Til þess höfum við nokkur tæki en það er ljóst að stjórnmálamenn í atkvæðaleit hvorki bjóða þau né beita þeim. Það þurfum við sjálf að gera, þótt það sé ekki auðvelt. Það gerum við með beinu lýðræði.

Posted in Uncategorized

Hvernig eigum við að geta skilið heiminn?

Við verðum að skilja heiminn til að breyta honum, sagði Marx. En hvernig eigum við að geta skilið hann ef upplýsingum er markvisst haldið frá okkur? Ef við fáum ekki aðgang að upplýsingum um það sem fer fram í þinginu, nefndunum, bönkunum og öllum hinum stofnununum?

Það hefur alltaf verið erfitt að nálgast þessar upplýsingar því það er hagur valdhafa að verja þær.

Breytum þessu.Það er gríðarlega mikilvægt og þetta er eitt af grunngildum Pírata – að almenningur hafi aðgang að upplýsingum.

Posted in Uncategorized

Mad Pride

Mig langar að tileinka einn dag á íslenska dagatalinu þeim sem eru geðveikir á ýmsan hátt, svo sem með geðklofa, mikinn kvíða, þunglyndi og svo framvegis.

Mad Pride ryður sér til rúms í æ fleiri löndum, en eitt af verkefnum þess átaks er að geðveikir eignist sjálfir þessi hugtök sem notuð eru um þá og noti þau að vild. Hugtök á borð við brjáluð, geðveik og klikkuð.

En svo má líka spyrja: Hverjir eru geðveikir? Í hópi þeirra sem reyna að breyta heiminum til góðs er víða, kannski víðast, hátt hlutfall geðveikra og þeirra sem eru með “raskanir”.

Á meðan ráða þau óklikkuðu, þeirra á meðal handfylli af siðblindingjum, málum heimsins þannig að ef við ætlum að viðhalda sama lífsstíl og hingað til þurfum við eina og hálfa jörð innan tíðar. Og þá erum við ekki að taka með í dæmið hina öru útbreiðslu vestrænna lífshátta.

Margt fólk sem sér skóginn fyrir trjánum og hefur ekki tapað sjálfum sér í óstöðvandi peningagræðgi áttar sig á því að þetta gengur ekki. Klukkum klikkaða fólkið. Ef það fær að ver’ann verður heimurinn áfram til.

Posted in Uncategorized

Mannfræðingar, leikskólakennarar og Píratar

Mannfræðingar fara út á meðal fólks, tala við það og kynna sér skoðanir þess og skynjun, staðbundna menningu og gagnkvæm tengsl við aðra menningarheima. Í heimi fræðanna eru mannfræðingar einir sterkustu málsvarar þeirra sem beittir eru ranglæti og ofbeldi. Ég lærði mannfræði og það var því eðlilegt skref að verða Pírati. Þar slær hjartað líka með þeim sem eru valdalitlir og valdalausir, beygðir undir valdhroka annarra og ekki hlustað á þá.

Leikskólakennarar eru um margt líkir bæði mannfræðingum og Pírötum. Þeir berjast fyrir því að hlustað sé á rödd barnsins og að nálgun þess á lífið, leikurinn, njóti ekki bara stuðnings heldur sé virtur sem líkan að lífinu. Ég lærði til leikskólakennarans og þess vegna var það augljóst næsta skref hjá mér að verða Pírati.

Hleypum lýðræðinu að. Ákveðum sjálf og saman hvernig samfélagið okkar á að líta út og höfum gaman á meðan.

Posted in Uncategorized

Nýju fötin Píratans

Við komum til starfa eins og strákurinn sem sá að keisarinn var ekki í fötum og hafði orð á því. Við erum óhrædd við að spyrja og benda á það sem betur má fara.

“Hei! Alþingi er fullt af fólkið sem þykist vita allt af því það heldur að annars missi það völdin!”

“Og hvað? Það er GOTT að missa völdin.”

Við píratar stöndum við með öðrum að því að byggja gott samfélag þar sem upplýstar og sameiginlegar ákvarðanir ráða ferðinni. Okkur er sama hvaðan gott kemur. Við erum þjónar en ekki valdhafar. Aðrir mega nota hugmyndirnar okkar og fólkið ræður.

Valdefling hvers og eins eru orð sem okkur þykir vænt um. Þegar fólk fær góðar og vandaðar upplýsingar, samræðu og aðgang að ákvörðunum verður það áhugasamt og tekur meiri þátt.

Langar þig ekki að vita hvað peningar eru og hvernig þeir virka? Hvað fólk er í raun og veru að gera í stórfyrirtækjum, í bönkum, á alþingi, hjá íbúðalánasjóði, í vogunarsjóðum, í stjórnum ASÍ og Samtaka atvinnulífsins og svo framvegis? Hvað er á bak við tjöldin? Misnotkun eða í besta falli möguleikar á misnotkun valds.

Við viljum vita og við viljum að allir viti sem vilja það. Það er upphafið af því að breyta samfélaginu til betri vegar. Fyrir fjöldamörgum árum sótt fræðimaður Ísland heim og varð gagntekinn af möguleikum okkar til lýðræðisumbóta. Við getum búið til súpersterkt lýðræði í stöðugri framför hér á Íslandi. Sem netvænt og sterkt lýðræði getum við líka enn frekar látið að okkur kveða í heiminum, hvort sem rætt er um loftslagsbreytingar, jöfnuð, menntun, frið eða hvaðeina.

Píratar vilja ekki komast til valda. Þeir vilja að ÞÚ komist til valda. Og rétt eins og keisarinn varð frjáls með því að hulunni var svipt af nekt hans, verður Alþingi frjálst og fer að geta einbeitt sér að því að vinna með öllum að sterku og góðu samfélagi þegar leynimakkið er fyrir bí og enginn nennir lengur að hlusta á sama gamla pólitíska bjakkið.

Posted in Uncategorized

Núðlusúpa eða spagettí? Upprætum fátækt.

Réttlæti ræður ekki ríkjum á Íslandi. Ekki heldur jöfnuður. Sumir Íslendingar eru svo fátækir að þeir verða oftast nær að skilja mjólkurlítrann eftir í búðinni af því að peningarnir duga ekki til. Síðustu tíu daga mánaðarins eru borðaðar núðlusúpur og spagettí með tómatsósu. Fjöldi fólks vinnur hörðum höndum alla ævi án þess að eiga fyrir salti í grautinn. Á meðan taka vel stæðir landar þeirra þátt í keppni á Facebook um að vinna iPod eða utanlandsferð.

Skoðum þrjár stoðir í stefnu Pírata sem geta aukið jöfnuð og bætt kjör almennings.

►BEINT LÝÐRÆÐI

Beint lýðræði færir öllum, ekki bara sumum, aðgang að því að móta stefnu í stóru málunum. Það er eina leiðin til að tryggja að fátækir ráði einhverju um efnahags-, velferðar-, heilbrigðis- og menntamál. Ég varð Pírati út af því að áhersla á lárétt lýðræði (en ekki lóðrétt) er eina pólitíkin sem getur skilað okkur verulega góðu samfélagi. Píratar hafa m.a.s. samið kosningakerfi á internetinu til að prófreyna ákvarðanatöku með þessum hætti. Lárétt lýðræði leggur ábyrgð á okkar herðar en færir okkur líka réttinn til ákvarðanatöku í samfélagsmálum.

Væri það ekki dásamlegt að geta sagt: „Ég tók þátt í að móta þessa stefnu“ í staðinn fyrir að segja „þeir eru allir jafn vitlausir þessir stjórnmálamenn“. Mér finnst það.

►INTERNETIÐ

Netið er jöfnunartæki svo fremi okkur tekst að verja það fyrir árásum þeirra sem vilja koma böndum á það. Það er annað heimili ört vaxandi fjölda fólks og þangað er til að mynda hægt að sækja sér margvíslega menntun á eigin forsendum og án þess að taka námslán. Píratar beita sér fyrir opinni, fjölbreyttri og vandaðri menntun og námsgögnum, á internetinu og annars staðar.

Netið er líka gríðarlega mikilvægur þáttur fyrir efnahaginn. Við erum svo fá að við gætum sem þjóð þegið stóran hluta af tekjum okkar af internetinu og með því að vera netvænt land. Við gætum upprætt fátækt með skynsamlegri ráðstöfun þessara tekna.

Loks er internetið besti hugsanlegur vettvangur til að verjast hvers kyns kúgun og öðru ofbeldi, og til að bæta heiminn. Þess vegna er okkur Pírötum svona annt um friðhelgi einkalífsins á internetinu.

►AÐGANGUR AÐ UPPLÝSINGUM

Ég ólst upp í fátækri fjölskyldu. Ég er fyrir löngu búin að átta mig á því að vitneskja er vald og að án hennar er ekki hægt að brjóta fjötrana sem viðhalda þessum óboðna gesti. Afkoma fjölda Íslendinga er fáránlega rýr. Sjálfbær endurnýjun stéttskiptingar er í fullum blóma og fátækt er hætt að vera fréttnæm svo neinu nemi. Ætlum við bara að sætta okkur við hana? Píratar berjast fyrir því að allir viti hvað er að gerast á Alþingi, stofnunum, bönkum og fyrirtækjum sem geta með ákvörðunum sínum þurrkað út heil byggðarlög.

Við upprætum fátækt þegar við fáum upplýsingar, aðgang að ákvörðunum og aðrir hætta að geta möndlað með okkar mál eins og þeim sýnist í leynd bak við luktar dyr.

Posted in Uncategorized