Gleðilegt árið 2015!

Gleðilegt árið!

Þá er að gera upp hið gamla.

Það langbesta við árið 2014 var tvíþætt, að vakna flesta daga við hliðina á ljósinu í lífu mínu, Ingu Auðbjörgu, sem í þokkabót virðist alveg jafn mikið til í að hanga með mér og við upphaf árs. Hún er og verður það besta í mínu lífi.

Í pólitíkinni gerðist allavega eitt skemmtilegt, að stefna Pírata í vímuefnamálum komst á kortið. Fyrstu stóru skrefin tekin í þeim efnum sem mun vonandi leiða af sér mikla réttarbót fyrir vímuefnaneytendur (hvort sem þeir eru fíklar eða ekki), ekki einungis gagnvart yfirvöldum heldur einnig undirheimunum. Flest er enn óunnið í þeirri vegferð og þótt ferðin verði löng, þá er hún hafin.

Annað sem ég verð að fagna við árið 2014 eru að hafa séð almenning láta í sér heyra með beinum stjórnmálalegum afleiðingum. Þótt það þyki ekki við hæfi að stjórnmálamenn hvetji til mótmæla, þá verð ég samt að segja að það gleður mig að sjá þvílíkan fjölda fólks láta sig apaganginn á Alþingi varða og sýna í verki að hann láti ekki bjóða sér hvað sem er. Sérstaklega var gleðilegt að sjá fólk sjá að brotið væri á sér þegar afgreiða átti ESB-umsóknina endanlega án þjóðaratkvæðagreiðslu. Jafnvel enn gleðilegra var að þessi andspyrna hafði afgerandi áhrif. Því vil ég bara upplýsa fólk sem tók þátt í mótmælunum að þau voru lykilatriði í því að minnihlutanum tókst að stöðva málið. Okkur hefði aldrei tekist þetta án afgerandi stuðnings mótmælenda á Austurvelli.

Þá vil ég leggja til að þótt fagna beri slíkri þátttöku almennings í stjórnmálum, þá ætti ekki að þurfa alla þessa reiði og þessi læti til þess eins að almenningur hafi eitthvað um málin að segja. Almenningur átti að hafa formlegan rétt til þess að leggja tillöguna fyrir þjóðaratkvæði með engu nema sannanlegum vilja nógu margra kjósenda.

Því stendur eftir erfiðasti bardagi Pírata og annarra lýðræðissinna; baráttan fyrir auknu og betra lýðræði. Sú er heilt safn af verkefnum sem meðal annars samanstendur af rétti borgaranna til að knýja fram bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur, aukin kosningaþátttaka og síðast en ekki síst; víðtækari, skilvirkari og ítarlegri upplýsingamiðlun til almennings.

Þótt ýmislegt slæmt hafi gerst 2014 vil ég að lokum segja þetta.

Heimsendir hefur margsinnis komið til. Hvort sem maður les heimildir um atburði 20. aldar eða þær elstu sem þekkjast, þá er ljóst að mannkyn hefur meira en nægan styrk til að komast í gegnum hörmungar verri en þær sem flest nútímafólk getur gert sér í hugarlund. Bregðumst við brestum með von, lítum aftur í tímann til að læra og horfumst í augu við örlögin með þá vitneskju að þrátt fyrir allt sem við höfum lært, þekkjum við þau ekki. Aldrei hætta að læra.

Aldrei gefast upp.

Posted in Uncategorized

Af byssum og tölvuleikjum

Þótt ég hafi helst verið að gantast með að þekkja MP5 úr tölvuleikjum, þá finnst mér eitt fyndið og annað sorglegt við það hvernig til dæmis Morgunblaðið bregst við, þegar menn láta eins og ég hafi sagst vera einhver sérfræðingur af tölvuleikjaspilun. Það er einfaldlega ekki það sem ég sagði. Ég sagðist vita nákvæmlega hvaða vopn þetta sé og ég veit nákvæmlega hvaða vopn þetta er eins og allir sem hafa spilað nokkra vel valda tölvuleiki. Sumum finnst það greinilega fullkomlega ótrúlegt að nokkurn hlut megi læra af tölvuleikjum, en gott og vel, það er þeirra eigin missir. Þetta finnst mér meira fyndið en sorglegt.

En það sem mér finnst hinsvegar sorglegt við viðbrögðin er að menn væru í alvörunni betur færir í þessa umræðu ef þeir þekktu nokkur einföld atriði við byssur, hluti sem eru svo einfaldir að maður getur í alvörunni lært um þá í tölvuleikjum vegna þess að þeir eru í alvörunni það einfaldir. Tölvuleikir ofureinfalda augljóslega hlutina, en það er himinn og haf milli engrar þekkingar og smávægilegrar.

Áður en ég held áfram ætla ég að útskýra muninn á automatic og semi-automatic, mun sem er augljós hverjum sem spilar (almennilega) byssuleiki. “Automatic” þýðir að byssan er á fullu þegar maður heldur inni gikknum, eins og maður sér jafnan í hasarmyndum. “Semi-automatic” þýðir að eitt skot kemur í hvert sinn sem maður tekur í gikkinn, eins og skammbyssur virka jafnan í kvikmyndum. Síðan eru til byssur sem eru með “burst”, þar sem þær skjóta t.d. 3 skotum í hvert sinn sem maður tekur í gikkinn en eftir því sem ég best veit eru sennilega flestar MP5 byssur bara með automatic og semi-automatic, þótt það séu reyndar ábyggilega til útgáfur með “burst” eiginleikum án þess að ég viti af þeim.

Allavega, háttvirtur þingmaður Vilhjálmur Árnason bendir réttilega á það í pontu í þrumuræðu sinni þar sem hann kvartaði sáran undan því að almenningur vildi þekkja fyrirkomulag löggæslunnar of vel, að það er hægt að stilla MP5 byssur á semi-automatic. En það sem er kannski ekki áheyrendum augljóst (nema þeir hafi spilað nóg af byssuleikjum) er að það sama gildir um svo gott sem alla hríðskotabyssur. Það gerir þær ekki að minni hríðskotabyssum. Það er alveg hægt að stilla M4 carbine á semi-automatic líka.

Ef þessar byssur væru fastar á semi-auto, þá væri mjög erfitt að trúa því að þær væru frá norska hernum. Ennfremur hefðu menn eins og Vilhjálmur Árnason einfaldlega svarað því þannig að þetta væru ekki hríðskotabyssur og þá hefði nú heldur betur dregið úr rostanum í stjórnarandstöðunni… eins og hún er kölluð (*hint*, *hint*).

En óbreytt MP5 byssa getur skotið hundruðum skota á mínútu og er reyndar með afbrigðum fljót. Þótt hvert skot sé lítið miðað við eitthvað sem kemur út úr M4 carbine vélbyssu eða sambærilegu tæki, þá hefur MP5 helst þann eiginlega að vera mjög hraðvirk.

Sumsé, þetta eru vissulega hríðskotabyssur. Það þýðir ekkert að draga úr því með að benda á að það sé semi-automatic stilling á þeim. (Fyrirgefið en ég kemst ekki hjá því að benda á að þetta er augljóst öllum sem spila byssutölvuleiki.)

Nú er eitt sem af einhverjum ástæðum virðist ekki vera á hreinu en það er að enginn er að æsa sig yfir því að sérsveit ríkislögreglustjóra, Víkingasveitin eða Landhelgisgæslan hafi svona vopn. Reyndar sagði ég í fyrstu ræðu minni á Alþingi um málið að ef menn vilja efla sérsveitina vegna skamms viðbragðstíma og manneklu, þá styð ég það heilshugar að efla hana mjög verulega, enda studdi ég og styð ennþá aukningu fjárs til þjálfunar og búnaðar bæði almennu lögreglunnar og sérsveita.

En að setja þessar byssur í bíla almennra lögreglumanna er einfaldlega ekki það sama! Sérstaklega vegna þess að ekkert hefur gerst hér á landi sem kallar á nauðsyn þess og þótt sú nauðsyn gæti fræðilega einn daginn orðið til, þá er hún ekki til staðar eins og er og það er fullkomin vitfirra að ætla að vopna sig upp fyrir ógn sem kemur kannski einhvern tíma í framtíðinni. Við gætum alveg eins bara breytt þessu í alvöru lögregluríki, bara til öryggis. Nú vona ég auðvitað að ekkert gerist sem kalli á þessa vopnvæðingu og ég viðurkenni að sama skapi að það gæti alveg gerst, en það hefur einfaldlega ekki gerst.

Ef þetta væri raunverulega ástæðan, þ.e. sú að núna standi þjóðin frammi fyrir löggæsluógnum sem kalla á þessa vopnvæðingu, þá hefði hún væntanlega verið hluti af þessari margumtöluðu 500 milljón króna aukafjárveitingu sem undirritaður studdi og styður heilshugar. – En hún er ekki hluti af því vegna þess að þörfin á þessari vopnvæðingu hefur hvergi komið fram, hvorki í samfélaginu né í neinum skýrslum.

En það allra versta við málflutning verjenda þessarar þróunar er að þeim virðist finnast það bara algerlega sjálfsagt að lögreglan ákveði bara sjálf hvaða vopn hún hafi aðgang að!

Lögreglunni hefur hingað til verið treyst til þess að gæta hófs í þessum málum enda hefur hún jafnan gert það. En viðbrögð stuðningsmanna vopnvæðingarinnar hræða mig í reynd mest, vegna þess að þau undirstrika að æðstu mönnum lögreglunnar er ekki treystandi til að taka tillit til ótta almennings við vopnvæðingu lögreglunnar.

Það er lexía þessarar sögu; sú hugmynd æðstu ráðamanna lögreglunnar að þeir séu einfaldlega góði kallinn og að þeim sé einfaldlega treystandi fyrir hvaða vopnum sem er og að þeir geti bara vopnað sig að vild, og að meira vald þeim til handa samsvari sjálfkrafa meira öryggi borgaranna. – Það er skilningsleysi þeirra á því nauðsynlega valdajafnvægi sem á að ríkja milli almennings og yfirvalda, sem hræðir mest. Í lýðræðisríki eru yfirvöld hrædd við almenning en ekki öfugt.

Að lokum má ítreka það í milljónasta skiptið að enginn hefur gagnrýnt vopnaeign sérsveitar ríkislögreglustjóra, Víkingasveitarinnar eða Landhelgisgæslunnar. – Sá málatilbúnaður er fyrirsláttur. Þetta snýst ekki um sérsveit ríkislögreglustjóra, Víkingasveitina eða Landhelgisgæsluna. Þetta snýst ekki um skammbyssur í eigu almennu lögreglunnar heldur, læstar í skápum á lögreglustöð eða jafnvel í bílum á svæðum þar sem vegalengdir eru langar. Það hefur enginn býsnast yfir þessum atriðum og það vita allir að svona hafi þetta verið áratugum saman.

Hríðskotabyssur í höndum almennu lögreglunnar er hinsvegar ekki ákvörðun sem á heima hjá hverjum lögreglustjóra fyrir sig. Lögreglan hefur ekkert vald nema í gegnum lýðræðislegt umboð og það lýðræðislega umboð er ekki til staðar í þessu tilfelli. Úr því þarf að bæta.

Posted in Uncategorized

Svona kemstu inn á vefsvæði Ríkis Islams

Nú er eitt sem má alveg taka fram varðandi afskráningu khilafah.is – Ríki Islams valdi greinilega “.is” í von um það að fólk myndi halda að “.is” tilheyrði Ríki Islams eða eins og það er á ensku, Islamic State. Það er mjög villandi og í rauninni gert til þess að taka yfir þýðingu lénsins. Mér hefði þótt málefnaleg ástæða að hafna skráningu lénsins eða afskrá það á þeim forsendum ef reglurnar byðu upp á það. – Þá mæli ég með því að reglurnar verði gerðar þannig.

En að afskrá lénið í þeim tilgangi að fjarlægja aðgengi að efninu sem er að finna á síðu Ríkis Islams er hinsvegar fullkomlega óábyrg nálgun. Almenningur verður að hafa rétt og færi á því að rannsaka og ræða opinskátt ljótustu hugmyndirnar sem finnast í mannlegu samfélagi, sérstaklega þegar um er að ræða hrylling á borð við Ríki Islams. Ég veit að þessi ákvörðun var byggð á landslögum, enda er ég einmitt að benda á að þau landslög eru óábyrg, hættuleg og röng, sama hversu vel meint þau séu.

Fólk sem vill læra eitthvað um nasisma þarf að hafa aðgang að Mein Kampf og ræðum Hitlers. Fólk sem vill læra eitthvað um Ríki Islams þarf sömuleiðis að hafa aðgang að málgagni þess. Ekki þrátt fyrir að Ríki Islams sé fullkomin skelfing heldur einmitt vegna þess að það er fullkomin skelfing. Ég get fullyrt að þessi samtök séu fullkomin skelfing vegna þess að ég hef lesið nógu mikið frá þeim til að geta fullyrt það með fullkominni vissu. Enginn annar ákvað það fyrir mig, heldur dróg ég þá ályktun sjálfur eftir að hafa sjálfur lesið þeirra eigin orð og þeirra eigin tilvitnanir í sín eigin helgirit.

Rannsóknarvald á alvarlegum fyrirbærum eins og Ríki Islams má ekki liggja í höndum einhverra örfárra útvalinna “sérfræðinga”, hvort sem það eru fréttamenn eða yfirvöld, heldur verður hver sem er að geta komist að hinu sanna í málinu á sínum eigin forsendum, með hliðsjón af því sem meðlimir Ríkis Islams fullyrða sjálfir.

Það er hinsvegar ekki hægt að andmæla málflutningi sem maður fær ekki að heyra.

Allt tal um að þessari síðu verði að loka vegna þess að hún breiði út hatur er í grundvallaratriðum byggt á þeirri skelfilegu hugmynd að hluti verksviðs yfirvalda sé að hafa hemil á því hvað almenningur hugsi og hvað honum finnist. Almenningur verður að hafa traust til að móta eigin skoðanir. Grundvallarforsenda þess er hin akreinin á vegi tjáningarfrelsisins, þ.e. rétturinn til heyra í öðrum.

En vel á minnst. Gleymum rétti meðlima Ríkis Islams til að tjá sig á Íslandi. Þetta snýst um rétt þinn, lesandi góður, til að vera upplýstur um hvað það er sem Ríki Islams segir, trúir og vill. Þú, lesandi góður, þarft að geta staðfest það sem þér er sagt af yfirvöldum og fjölmiðlum. Þú getur það hinsvegar ekki ef “óæskilegar upplýsingar” eru fjarlægðar til þess að þú sjáir þær ekki. Einnig, lesandi góður, ættirðu ekki bara að vera móðgaður þegar einhver stingur upp á því að þér sé ekki treystandi til að heyra það sem Ríki Islams hefur fram að færa, heldur ættirðu að vera hræddur.

Fólk ætti að óttast yfirvöld sem treysta ekki borgurum sínum til að heyra, sjá og hugsa.

Af þessum ástæðum deili ég hér með ykkur aðferð til þess að komast inn á vefsíðu Ríkis Islams.

=== Mac OS, Linux, önnur Unix-lík stýrikerfi ===

Fyrst skal öllum eintökum vafrans lokað.

Síðan skal eftirfarandi lína keyrð í skipanaham (terminal):

sudo sh -c “echo ’95.215.45.25 khilafah.is\n95.215.45.25 www.khilafah.is’ >> /etc/hosts”

Eftir það skal vafrinn opnaður aftur og farið á http://www.khilafah.is

=== Windows ===

Fyrst skal öllum eintökum vafrans lokað.

Síðan skal smella á Ctrl-R (halda niðri “Ctrl” takkanum og smella á bókstafinn “R”).

Þá opnast lítill gluggi sem heitir “Run…” og í hann skal skrifað:

C:\Windows\System32\

Og ýtt á “Run”. Þá ætti Notepad að opnast sem er mjög mínímalískt skrifforrit.

Farið í “File” og “Open file” og velijð eftirfarandi skrá:

Síðan skal opna Notepad (C:\Windows\System32\Notepad.exe) með því að hægrismella á það, velja “Run as administrator…” og með þessu forriti skal opna eftirfarandi skrá: “C:\Windows\System32\drivers\etc\hosts”

Bætið eftirfarandi tveimur línum við skrána:

95.215.45.25 khilafah.is
95.215.45.25 www.khilafah.is

Síðan skal vista skrána og opna vafra á nýjan leik. Nú er hægt að fara inn á http://www.khilafah.is og sjá síðu Ríkis Islams.

———-

Að lokum ítreka ég að mér hefði þótt málefnalegt að hafna skráningu lénsins á þeirri forsendu að “.is” standi fyrir Ísland en ekki “Islamic State” – en sú forsenda á þá að gilda óháð innihaldi vefsetra.

Posted in Uncategorized

Lög um mannanöfn snúast ekki um barnavernd

Varðandi frétt: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/03/21/eldflaug_hafnad_en_skroggur_i_lagi/

Ég sé fyrir mér samskipti ungra barna; “Vá, heitirðu Eldflaug? Kúl!” -og síðan áframhaldandi skemmtilegt samtal.

Ég sé hinsvegar ekki fyrir mér sama samtal verða svona: “Hahaha, þú heitir nafni sem tilheyrir merkingarflokki sem fá eiginnöfn og engin samsett eiginnöfn hafa tilheyrt hingað til! En hvað þú ert asnaleg!” -og síðan stríðni og hvað þá einelti.

Ekki er þó betur að sjá af fréttaflutningi Mbl.is en að þetta sé forsenda þess að nafninu “Eldflaug” hafi verið hafnað.

Það er verulega algengur misskilningur að mannanafnanefnd sé til staðar til þess að vernda börn gegn hræðilegum nöfnum sem foreldrar gætu hugsanlega gefið þeim.

Tilfellið er hinsvegar það að lög um mannanafnanöfn og mannanafnanefnd koma barnavernd ekkert við. Hlutverk laganna og nefndarinnar er að vernda íslenskar hefðir og málvenjur, ekki börn.

Það næsta sem kemst því að vernda börn er 3. mgr. 5. gr. laga 45/1996, sem er svohljóðandi: “Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.”

Athugið að þarna er ekkert minnst á börn, eða að foreldri megi ekki gefa barni sínu slíkt nafn, sem þýðir að lögin gilda um allt fólk, jafnt fullorðið sem nýfætt. Það undirstrikar þá staðreynd að þessi lög eru ekki sett til þess að vernda börn, heldur út frá frekar augljósri og merkilega blygðunarlausri forræðishyggju. Ríkið skal ákveða að fullorðnir einstaklingar fari sér nú ekki að voða með því að velja eigið nafn.

Sömuleiðis er þetta það eina í lögum um mannanöfn sem gæti hugsanlega varðað börn á nokkurn hátt – í öllum lögunum. Aftur er ástæðan fyrir þessu sú að lögin voru ekki sett til að vernda börn og hlutverk mannanafnanefndar er ekki og hefur aldrei verið nokkuð slíkt heldur er markmið laganna og hlutverk nefndarinnar að vernda íslenska málhefð og íslenskar venjur.

Það er alveg þess virði að benda á það hvernig nefndin er samansett til að undirstrika punktinn enn betur (úr VIII kafla sömu laga, 45/1996):

“Skal einn nefndarmaður skipaður að fenginni tillögu heimspekideildar Háskóla Íslands, einn að fenginni tillögu lagadeildar Háskóla Íslands og einn að fenginni tillögu Íslenskrar málnefndar.” – Þetta eru sumsé heimspekingar, lögfræðingar og málfræðingar, ekki barnasálfræðingar, uppeldisfræðingar og leikskólakennarar sem maður hefði haldið að væru hæfari til að taka afstöðu til þess hvort nafn barns yrði því til ama í félagslífinu eða ekki.

Ástæðan fyrir því er… jújú, enn og aftur sú, að markmið laganna og hlutverk nefndarinnar eru ekki að vernda börn, heldur að vernda venjur og hefðir.

Það er sjálfsagt að barnaverndaryfirvöld fari yfir nýskráð nöfn og geti þá gripið inn í ef barn er nefnt “Kúkur”, “Drulla” eða eitthvað álíka. Það væri eðlilegt ferli. Sömuleiðis er eðlilegt að það séu ákveðnar tæknilegar takmarkanir, t.d. um hámarkslengd og leyfileg ritmál, til þess að bæði stjórnsýslan og almenningur geti sýslað með nöfn með góðu móti.

En hefðir og venjur eru ekki lögmætar ástæður fyrir því að svipta alla landsmenn þeim sjálfsagða rétti að ákveða sjálfir hvað þeir heita.

Posted in Uncategorized

Af réttindum og dópi

Varðandi frétt:
Lögreglan gagnrýnd fyrir líkamsleit – „Leitir lögreglu eru byggðar á grun“

Það gleður mig að leitir lögreglunnar á blásaklausu fólki fái almennilega fréttaumfjöllun. Þessi mál eru ekki í lagi á Íslandi.

Ef ég skildi Stefán Eiríksson rétt á opnum fundi okkar á sínum tíma, þá eru leitirnar samt ekki beinlínis byggðar á grun heldur virkar þetta svona:

* Lögregla má einungis leita á manneskju með samþykki þess sem hún ætlar að leita á, eða dómsúrskurði. Hljómar vel! Rosa siðmenntað og frjálslynt, lýðræðislegt og gott.

* Lögregla má hinsvegar hefja rannsókn, þ.á.m. með handtöku með því einu að hafa svokallaðan “grun”, en það er líklega með veikari hugtökum þeirrar lögfræði sem þetta varðar. Athugið að það þarf ekki að vera “rökstuddur grunur”, sem er annað fyrirbæri, heldur eingöngu “grunur”, án rökstuðnings. Lögreglan þarf ekki að geta útskýrt með orðum hvers vegna hana grunar eitthvað. Lögreglumanni þarf einvörðungu að detta það í hug að maður hafi brotið eitthvað af sér til að “hefja rannsókn”, sem í þessum tilfellum hefst með handtöku. Þannig að ef einstaklingur þekkir réttindi sín og neitar leit, þá einfaldlega grunar lögreglan hann um að hafa eitthvað að fela, og handtekur. Þá er væntanlega farið niður á stöð og fenginn dómsúrskurður og krakkaskrattanum kennt að vera ekki með “einhverja vitleysu” eins og viðlíka stjórnarskrárvarin mannréttindi eru jafnan kölluð ef þau ganga svo langt að þvælast fyrir yfirvöldum, sem er reyndar einmitt tilgangur þeirra, ef út í það er farið.

Ef fólk er öðru fólki ógn, þá er rökrétt að lögreglan hafi heimild til að handtaka það, en í fyrsta lagi er það ekki það sem hér er gagnrýnt og í öðru lagi eru slíkar heimildir óháðar því hvort fólk sé með vímuefni á sér eða ekki. Stjórnarskráin heimilar sérstaklega takmörkun á friðhelgi einkalífsins “ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra”. Líkamsleitir lögreglunnar byggja hinsvegar ekki á réttindum annarra, heldur á þeim grátlega galla í framkvæmd laganna, að ef einstaklingur nýtir stjórnarskrárvarin réttindi sín, þá er það eitt og sér nóg til þess að heimila handtöku vegna þess að þá hlýtur hann nú aldeilis að hafa eitthvað að fela.

Samhengi aðstæðnanna er einnig mikilvægt. Þegar löggan ætlar að leita á einhverjum á svona tónleikum, jafnvel ef það er bara af handahófi, eða vegna þess að viðkomandi tilheyrir hópi sem löggan telur líklegri en aðra til að vera með ólögleg vímu- eða fíkniefni, þá er val fórnarlambsins þetta: eyðileggja tónleikana sem er búið að borga fyrir og jafnvel hlakka heilmikið til, eða heimila leit lögreglunnar án raunverulegs samþykkis og án dómsúrskurðar. Þetta atriði á síðan alveg jafn mikið við á öðrum vettvangi; fólk er almennt með aðra og merkilegri hluti á dagskránni en að hangsa á lögreglustöð án þess að hafa hugmynd um hvenær það fái að fara í friði.

Af þessu leiðir að þótt að samkvæmt kenningunni megi lögreglan alls, alls ekki leita á fólki af handahófi eftir geðþótta (af því að það væri svo fasískt, athugið), þá er reyndin sú að hún má það bara víst og gerir nákvæmlega það.

Og það er bara fjandakornið alls ekkert í lagi!

Posted in Uncategorized

Að láta það, sem skiptir ekki máli, eiga sig.

Nú hef ég engan áhuga á því að vanvirða íslenska fánann. Mér finnst hann fallegur og ég fyllist þessari sömu frumstæðu þjóðernistilfinningu og hver annar þegar ég sé hann stríða við regnið með vindinn að vopni. Mitt innra nörd hefur meira að segja lúmskt gaman af öllum þessum kjánalegu reglum í kringum hann, eins og hvernig eigi að brjóta hann saman, að maður verði að gera eitt og megi alls ekki gera annað.

En ég get ekki að því gert að finnast slíkar hefðir kjánalegar í landslögum. Ef þessi eða hin meðhöndlun fánans er svona ægilega mikilvæg, þá finnur fólk sig væntanlega sjálft knúið til þess að meðhöndla hann svona eða hinsegin. Að öðrum kosti hljótum við að komast að þeirri niðurstöðu að þessar hefðir hreinlega skipti ekki jafn miklu máli og menn vilja meina.

Ég skil alveg stolt, sko. Því miður er ég sjálfur þjáður af þeim mikla kvilla enda jafn breiskur og restin af liðinu sem byggir þetta land. En ég skil ekki hvaðan fólk fær þessa hjátrúarfullu flugu í höfuðið að stoltið sé tilfinning sem beri að vernda með landslögum. Af stolti höfum við meir en góðu hófi gegnir. Kannski hafa Íslendingar bara gott af því að stoltið sé sært af og til, og hvað særir frumstætt stoltið betur en að setja táknmyndir eins og þjóðfánann í samhengi við raunveruleikann, svosem með því að nýta hann í nærbrækur, nú, eða tusku?

Ekkert mál, ég skil að þetta móðgi.

Það sem ég skil hinsvegar ekki, er hvernig mönnum getur raunverulega, í alvörunni, fundist það “alvarlegt”. Kannski þarf bara einhver að benda á nakta keisarann í þessum efnum, en sannleikurinn er sá, sætur eða sár, að það skiptir nákvæmlega engu máli þótt fáninn sé vanvirtur. Það dregur okkur hvorki nær Danakonungi né fjær íslenskri tungu. Það hefur engin áhrif á nokkurn skapaðan hlut, fyrir utan það fólk sem hefur fyrirfram ákveðið að verði fáninn vanvirtur, þá verði það móðgað. Jæja, þá má fólk bara fjandakornið vera móðgað. Það má grenja sér stórfljót ef það endilega vill, en þannig hegðun breytir ekki tittlingaskít í eitthvað sem skiptir máli.

Þjóðfáninn er ekki “heilagur”. Það er ekki “alvarlegt” að hann sé vanvirtur og ekki “mikilvægt” að til staðar séu lög sem segja til um hvar og hvenær megi nota hann. Næstum því allt sem nokkur manneskja gerir í sínu lífi er mikilvægara og merkilegra en það hvernig fólk fer með íslenska fánann. Keisarinn er nakinn. Þetta er hjátrú. Þetta skiptir ekki máli.

(Þessi viðurstyggilega skoðun var í boði 73. gr. laga nr. 33/1944.)

Posted in Uncategorized

Morðhótanir tilheyra ekki tjáningarfrelsi

Varðandi frétt: Salman Tamimi kærir hatursfull ummæli

Tjáningarfrelsið er sérstaklega hugsað til þess að vernda skoðanir sem þjóðfélagið er á móti og telur viðbjóðslegar, svosem trúleysi í kristnu samfélagi, Islam í trúlausu samfélagi og kristni i í islömsku samfélagi. Fólk hefur EKKI rétt á því að vera ekki móðgað eða tilfinningalega sært. Það hefur engan rétt til að hafa “skoðanir sínar í friði” fyrir öðrum skoðunum og engan rétt til þess að þagga niður í þeim skoðunum sem þeir eru ósáttir við, sama hversu heimskulegar og ljótar þær eru.

Það er vegna þess að við höfum ekki réttinn til að vera ekki móðguð eða særð.

En við höfum rétt til friðhelgi einkalífs. Við höfum einnig rétt á sanngjörnum réttarhöldum og við höfum rétt til öryggis.

Þess vegna hef ég t.d. ekki viljað lögleiða dreifingu á persónugögnum um aðra. Né hef ég viljað afnema heimild dómstóla til að krefjast lögbanns til þess að vernda rannsóknarhagsmuni. Né hef ég viljað lögleiða morðhótanir.

Þetta sem Salmann Tamimi gengur í gegnum núna er ekki bara móðgun. Að móðga spámann hans er gott og blessað. Að kalla hann, mig og alla aðra fífl og fávita er líka hið besta mál sem og að hæðast að honum, og mér, fyrir okkar trúarskoðanir og lífsviðhorf.

En hér tölum við um líf mannsins. Salmann Tamimi situr undir morðhótunum. Það er gróft brot á rétti hans til persónulegs öryggis. Þetta er ekki sambærilegt við bann gegn guðlasti eða öðrum heimskulegum bönnum gegn því að særa tilfinningar fólks. Þetta er ekki sambærilegt við að kalla homma kynvillinga, múslima villimenn eða trúleysingja sið- og samviskulausa. Þetta eru morðhótanir.

Mér finnst mikilvægt að við talsmenn tjáningarfrelsis sínum afdráttarlausan skilning á þessu.

Posted in Uncategorized

Siðprýði kemur pólska laginu ekkert við

Varðandi: http://www.visir.is/sidprudir-domarar-urdu-polverjunum-ad-falli/article/2014140519827

Mér er persónulega alveg sama hvort þetta sé siðprútt atriði eða ekki. Sömuleiðis er mér alveg sama þótt það sé kynferðislegt og meira að segja sama þótt boðskapurinn sé yfirborðskenndur og gerður í þeim eina tilgangi að vekja athygli á kynþokka flutningsmanna.

Það sem mér er hinsvegar ekki jafn sama um, er sá boðskapur að það sé beinlínis það sem skilgreini slavneskar stelpur, sé kynþokki. Kynþokki er fínn, allt í lagi líka að vera með svæsið, kynferðislegt atriði sem sjokkerar púrítanistana og allt það. Það er bara hollt. En ef kynþokki er ekkert minna en það sem skilgreinir slavneskar konur, þá er augljóslega gert lítið úr öllu öðru sem þær geta og gera. Það finnst mér ekki kúl.

Sem dæmi; segjum sem svo að Sóley Tómasdóttir spyrji mig hvað að því hvað sé það besta sem ég viti um Brynjar Níelsson, og ég svara því að hann sé myndarlegur.

Væri ég bara að segja að hann sé myndarlegur? Nei, ég væri líka að segja að allir hinir mannkostir hans séu síðri en sá. Með því væri ekki sagt að það sé neitt athugunarvert við þá staðreynd að hann sé vissulega fjallmyndarlegur. En ég væri óneitanlega að gera lítið úr honum. Það er punkturinn.

Það er bara mjög fínt framtak að vera djarfur á sviði og fara hæfilega í taugarnar á púrítanistunum. Þetta snýst ekki um siðprýði. Siðprýði er hundleiðinleg. En þetta er meira; þetta eru skilaboð sem gera lítið úr öðrum hæfileikum slavneskra kvenna en þeim eina að vera geðveikt sexí.

En síðan er auðvitað annar vinkill á þessu, sem gæti jafnvel verið stærri og merkilegri þótt fólk geti sjálfsagt rifist um það, en það er að leggja svo ríka áherslu á eitt, tiltekið einkenni heils þjóðflokks til að byrja með. – Óháð því hvort það sé jákvætt eða neikvætt einkenni. – Setjum okkur í spor slavneskrar konu sem er bara ekkert sérstaklega sexí og veit það. Er hún ekki lengur nógu góð fyrir slavneska menningu? – Jafnvel ef hún er hæfileikarík eða bara góðhjörtuð? – Samkvæmt þessu lagi, nei, þá er hún það eiginlega ekki. Þau skilaboð eru mjög alvarlega ókúl. Anti-kúl, jafnvel.

Svo er hitt að þetta er bara frekar lélegt lag! – Nema klassíski kafllinn, hann er bara nokkuð góður.

Ef þetta atriði móðgaði einhverja púrítanista, þá er það allavega bót í máli, en það sem ég hef að athuga við þetta lag eru skilaboðin, ekki svæsnin.

En að lokum þessum lestri vil ég bara aftur fagna því að Evrópa hafi ekki látið útlit og meint, yfirvofandi menningarhrun Evrópu aftra sér í því að kjósa Conchitu Wurst.

Posted in Uncategorized

Opið svar til Bubba Morthens

Eftirfarandi er svar við pistli Bubba Morthens á Vísi.

Sæll, háttvirtur Bubbi Morthens. Ég er einn af þessum þingmönnum sem þú nefnir, en mig langar til þess að útskýra aðeins betur.

Ég er sjálfur tónlistarmaður og forritari þótt ég hafi reyndar alltaf verið aðeins of feiminn til að gefa út tónlistina mína. En ég hef ekki haft lifibrauð af neinu öðru en forritun og kerfisstjórnun seinustu 14 ár. Ég kann ekkert nema iðngreinar sem varða höfundarrétt. Faðir minn er hljóðmaður sem þú kannast reyndar eflaust við og reyndar höfum við hist, ég og þú, fyrir mörgum árum niðri í Stúdíói Sýrlandi þegar ég var þó nokkuð mikið yngri, ætli það hafi ekki verið í kringum 13-14 ára aldurinn.

Treystu því, herra minn, að ég ber fulla virðingu fyrir vinnunni, tilkostnaðinum og listinni sem það er að búa til tónlist. Treystu því líka að ég vil hafa lifibrauð af forritun áfram þegar ég lýk þingsetu.

Ég skil vel gremju þína en langar að útskýra aðeins betur hvað málstaður okkar Pírata snýst um. Þú skrifar: “Nú er fólk komið á þing sem telur þetta eðlilegt og vill einfaldlega að ég aðlagi mig og komi til móts við þjófana.”

Þetta er kannski ekki endilega eðlilegt (því hvað er eðlilegt?) en það er hinsvegar óhjákvæmilegt. Vandamálið er eftirfarandi. Internetið býður ekki upp á sömu takmarkanir og raunheimar gerðu þegar kassettu-, plötu- og diskasala var burðarás iðnaðarins.

Það er ekki siðferðislegt álitamál heldur tæknilegur, óumflýjanlegur raunveruleiki. Það er eins með höfundarrétt og margar ágætar, klassískar hugmyndir, að hann var útfærður án tillits til þeirrar tækniframþróunar sem hefur átt sér stað síðasta einn og hálfa áratuginn eða svo.

Þegar vatnsleiðslur komu til sögunnar, þá misstu allir vatnsberar vinnuna. Það er ekki endilega sanngjarnt, eða þá endilega “eðlilegt”, en það var óhjákvæmilegt. En ekki hafa þeir horfið eða soltið í hel, nei, þeir hafa fundið sér aðra hluti að bera eða þá nýtt tæknina til þess að aðlagast nýjum tímum, þá annaðhvort með því að bera eða keyra aðrar vörur, eða tileinka sér pípusmíði… verða 20. aldar vatnsberar. Þannig breytist eðli iðnaða með tækniframförum en það sem gerir internetið kannski óþægilegra en aðrar byltingar er að hún hefur átt sér stað á gríðarlega skömmum tíma. Allt of skömmum tíma til að stjórnvöld og markaður nái að halda í við. Þá fara öll gömlu viðskiptamódelin í klessu vegna þess að þau eru bara ekki samhæf við frjálst og opið internet. – Ég get komið með hugmyndir að því hvernig þú getur eflt tekjurnar, en fyrst þurfum við að vera á sömu blaðsíðu þegar kemur að því að breytinga er þörf.

Nú, aðeins um frjálst og opið internet, því ég tel mig vita hvað þér detti í hug; að það mætti allavega loka t.d. Deildu.net og ThePirateBay.se eða álíka. Ég skal hlífa þér við þeim fjölmörgu alvarlegu vandamálum við tæknilega útfærslu og halda mig utan tæknimáls. Þá spyr ég, hvað með öll hin þúsundin af slíkum vefsetrum, fyrir utan þau sem munu koma í stað Deildu.net og ThePirateBay.se? – Nú, væntanlega þarf að loka þeim líka.

Og hvernig á að fylgjast með þessu? Jú, með því að gera ýmist netþjónustur eða hýsingaraðila eða (í versta falli) ríkið, ábyrga fyrir því að fylgjast með höfundaréttarbrotum. En nú langar mig að biðja þig um sérstaka athygli, því hér komum við að ástæðunni fyrir því að slíkt fyrirkomulag er ósamhæft við frjálst, opið og lýðræðislegt internet.

Það kostar peninga og vinnu að fylgjast með efni sem fólk setur inn. Facebook, YouTube, Google og Microsoft hafa burði til þess að standa undir slíkum kostnaði, en ekki til dæmis Diaspora eða Wikipedia eða þá ég sjálfur. Frjáls framtök, þar sem kannski örfáir aðilar standa að vefsíðu sem hundruðir milljóna manns hafa aðgang að, hafa enga burði til þess að framfylgja höfundarrétti. Fari fólk að demba inn höfundarréttarvörðu efni inn á síðuna mína, SMÁÍS verður brjálað og heimtar að ég loki hinum og þessum undirsíðum eða aðgöngum, þá hreinlega get ég ekki staðfest lögmæti hverrar lokunar. Við erum ekki bara að tala um Deildu.net og ThePirateBay.se heldur hundruði milljóna manns á hundruðum milljóna vefsíðna. Vonandi fer að skýrast hversu róttækar aðferðir þarf til þess að hefðbundin höfundarréttarvernd geti gengið meðfram þessu fyrirbæri, internetinu.

Athugaðu að þetta er fyrir utan tæknilegu vandamálin við netsíun, sem eru óyfirstíganleg NEMA með því að yfirvöld hreinlega taki yfir internetið, en það hefur sömu samfélagslegu afleiðingar og að yfirvöld taki yfir öll mannleg samskipti.

Þar stendur hnífurinn í kúnni, Bubbi minn. Internetið er ekkert nema samskipti með nútímatækni. Það verður ekki komið böndum á internetið nema með því að koma böndum á mannleg samskipti og það er þróun sem er í algerri andstæðu við meira eða minna öll lýðræðisleg og borgaraleg gildi.

Og ef valið stendur milli fjárhagslegra hagsmuna ákveðins iðnaðar eða frjálsra samskipta, þá veljum við Píratar frjáls samskipti. Það er meira í húfi hér en “rétturinn til að stela”.

Þetta er síðan fyrir utan reiðikastið sem ég gæti tekið gagnvart hefðbundnum dreifingaraðilum, en listamenn virðast vera orðnir svo vanir því að láta taka sig ósmurt í afturendann af nú úreldum og gagnslausum milliliðum að listamenn eru farnir að verja sömu hagsmuni og hafa alltaf tekið bróðurpartinn af vinnu þeirra. En það er önnur umræða.

Að lokum langar mig að þakka þér, Bubbi, fyrir að höfða fyrst og fremst til samvisku fólks. Ég sá þig hvergi minnast á lokanir á netinu sem gleður mig, því við Píratar erum ekki á móti höfundarrétti, við erum bara svo miklu, miklu hlynntari frjálsu, opnu og lýðræðislegu interneti.

Gangi þér vel, félagi.

Posted in Uncategorized

Ljóðin á 101

Nú varð ég sko aldeilis hlessa.

Vér 101 rotturnar könnumst sjálfsagt flestar við herramann sem stendur iðulega við gatnamót Austurstrætis og Pósthússtrætis með ljóðabækur og smásögur til sölu.

Nú gekk ég framhjá honum, enn og aftur, á leið minni á skrifstofuna, varpaði til hans kveðju eins og venjulega og hann spurði, eins og vanalega, hvort ég vildi kaupa ljóð eða smásögur. Kannski eru það áhrifin af því að glugga í ljóðabók frá Mazen Maarouf að ég hugsaði með mér; jú fjandakornið, ég splæsi á mig einni. Maður er nú ekki alvöru 101 rotta ef maður hefur aldrei keypt ljóðabók af manni á víðavangi.

Nema hvað, ég versla mér þessa líka ágætu ljóðabók sem heitir “TÍMARÁKIR” og er árituð af sjálfum meistaranum, Bjarna Bernharði. Ég opna bókina og sé “copyleft” merkið, en það ku vera “copyright” merkið á hvolfi og fyrir neðan stendur:

“Hugtakið Copyleft á rætur sínar að rekja til forritunar á opnum kóða, þar sem hver sá sem notfærir sér kóða eftir annan skuldbindur sig til að gefa út sína eigin útfærslu (endurgjaldslaust) sem opinn kóða, þ.e.a.s. gerir nýja kóðann aðgengilegan fyrir aðra (á netinu).

Hafir þú eignast þessa bók með löglegum hætti er þér frjálst að vitna í texta bókarinnar rafrænt, dreifa á netinu eða prenta til eigin nota, svo lengi sem tilvitnanirnar notist ekki í ábataskyni. Ef þú prentar, þá taka samningar Fjölís um endurgjald fyrir ljósritun tafarlaust gildi. Vitnir þú í bókina, og beitir sköpun, þá skuldbindur þú þig til þess að gefa út eigin verk frjáls til tilvitnunar, samkvæmt skilmálum Copyleft.”

Eftir það kemur síðan dæmi um texta sem maður gæti notað við birtingu eigin efnis.

Það er mér því sérstök ánægja að endurbirta hér (rafrænt) eitt af ljóðum þessa áhugaverða manns og vil ég hvetja fólk til að gefa honum gaum, næst þegar gengið er hjá.

Bjarni Berðharður tekur við.

= Ástin =

Ástin
sem býr í helli sínum
æðrast ekki

þótt skammdegismyrkrið
hellist yfir

tendrar ljósastiku hjartans
og bíður vorsins.

Posted in Uncategorized