Leiðin upp lýðræðishallann

Nokkurs misskilnings hefur gætt í umræðunni undanfarin misseri á því hvernig Evrópusambandið virkar og margir standa í þeirri trú að vegna smæðar okkar munum við engin áhrif hafa þar inni. Jafnvel hafa heyrst raddir sem fullyrða að þar megi sjá lýðræðishalla. Mig langar þess vegna aðeins til að stikla á stóru varðandi það hvernig Evrópusambandið starfar og hvaða breytingar urðu á því með nýjustu lögunum um þau sem undirrituð voru í Lissabon árið 2009.

Lögin sem ESB starfar eftir kallast „Lissabon-sáttmálinn“, en hann er afrakstur gagngerrar endurskoðunar á Stjórnarskrársáttmálanum eftir að honum var hafnað í Frakklandi og Hollandi en hann inniheldur samt að miklu leyti það sama. Hann gekk í gildi 1. desember árið 2009. Þó eru ekki öll ákvæði sáttmálans gengin í gildi því sumt bíður þess að kjörtímabili stofnana ljúki, þann 1. nóvember í ár, og annað bíður enn lengur. Grunnástæða þess að Lissabon-sáttmálinn var gerður var að betrumbæta og nútímavæða ESB, ekki síst vegna þess hve mikið og hratt það hefur stækkað á undanförnum árum. Fram að þessu hefur það unnið samkvæmt reglum sem voru gerðar fyrir 15 ríki en ekki 28. Auk þess hefur ýmislegt breyst í heiminum á þessum tíma og ESB þarf að vinna meira að málum sem koma okkur öllum við, s.s. loftslagsbreytingum, orkuöryggi og aukinni alþjóðlegri hryðjuverkahættu.

En áður en ég kem að hlutverki æðstu stofnana ESB og hvernig þær starfa vil ég benda á tvennt sem Lissabon-sáttmálinn breytti til betri og lýðræðislegri vegar.

Þátttaka þjóðþinga
Þjóðþing aðildarríkja fá með Lissabon-sáttmálanum meiri möguleika á að eiga aðild að vinnu sambandsins. Þau geta nú skoðað drög að lagagerðum áður en Evrópuþingið og ráðið fjalla nánar um þau og hafa til þess 8 vikur. Ef þriðjungur þeirra er á móti lagagerð verður framkvæmdastjórnin að endurskoða hana. Ef meira en helmingur allra þjóðþinga er á móti lögum þurfa bæði Evrópuþingið og ráðið að ákveða hvort löggjafarferlinu verður haldið áfram. Þjóðþing geta líka farið með mál fyrir Evrópudómstól ef þau telja að lagagerð stríði gegn dreifræðisreglunni.

Borgaralegt frumkvæði
Lissabon-sáttmálinn kemur einnig á borgaralegu frumkvæði. Samkvæmt því getur ein milljón borgara frá tilskildum fjölda aðildarríkja haft frumkvæði að því að framkvæmdastjórnin taki fyrir tillögu um hvaða málefni sem er. Setning laga um tilskilda málsmeðferð og skilyrði er í höndum Evrópuþingsins og ráðsins.

Æðstu stofnanir ESB eru fjórar: Framkvæmdastjórnin, Evrópuþingið, leiðtogaráðið og ráðið. Athugið að Evrópuráðið er ekki hluti af ESB.

Framkvæmdastjórnin (European Commission)
Hlutverk framkvæmdastjórnar ESB er skilgreint í Lissabon-sáttmálanum. Hún er samkvæmt honum handhafi framkvæmdavalds, verndari sáttmála ESB, fulltrúi ESB gagnvart ríkjum utan þess og hún hefur frumkvæðisrétt við samningu löggjafar, sem þýðir að einungis má samþykkja lagagerðir að tillögu framkvæmdastjórnarinnar, nema kveðið sé á um annað í sáttmálunum. Hún er skipuð til fimm ára í senn og samkvæmt Lissabon-sáttmálanum á þar að sitja einn ríkisborgari frá hverju aðildarríki.

Evrópuþingið (European Parliament)
Evrópuþing fer með löggjafar- og fjárveitingarvald. Það sinnir pólitísku eftirliti og ráðgjöf og kýs forseta framkvæmdastjórnar. Það kýs sér líka forseta og forsætisnefnd úr hópi þingmanna. Fjöldi þingmanna hefur alltaf farið að einhverju leyti eftir fjölda íbúa í hverju ríki. Með Lissabon-sáttmálanum er ekki lengur kveðið á um fjölda þingmanna frá hverju landi heldur er farið eftir tillögu frá þinginu sjálfu sem leiðtogaráðið þarf að samþykkja einróma. Þó er kveðið á um hámarks- og lágmarksfjölda. Þessar breytingar ganga í gildi 1. nóvember næstkomandi, eða við lok yfirstandandi kjörtímabils.

Þingmönnum hefur fjölgað jafnt og þétt frá upphafi, nema milli áranna 2007 og 2009 þegar þeim fækkaði um nærri 50. Þingmenn eru nú 766 en 18 af þeim eru einungis áheyrnarfulltrúar. Þýskaland hefur flesta þingmenn, eða 99, en Malta fæsta, eða 5. Hámarksfjöldi þingmanna verður samkvæmt Lissabon 750 auk forseta þingsins og hvert aðildarríki getur haft að hámarki 96 þingmenn (Þýskaland) og að lágmarki 6 (Eistland, Kýpur, Lúxemborg og Malta). Þannig munu áhrif Þýskalands minnka en áhrif annarra ýmist standa í stað eða aukast.

Vægi þingsins í ákvarðanatöku almennt eykst til muna með Lissabon-sáttmálanum því það tekur sameiginlegar ákvarðanir með ráðinu á fleiri sviðum en áður og þetta samákvörðunartökukerfi er gert að almennri reglu. Þetta á við bæði um löggjafar- og fjárveitingarvaldið.

Á Evrópuþinginu vinnur fólk saman eftir stjórnmálaskoðunum, ekki löndum. Nú eru sjö stjórnmálaflokkar á þinginu og þarf 25 fulltrúa frá minnst fjórðungi aðildarríkja til að mynda flokk. Sumir þingmenn eru þó óháðir og tilheyra engum flokki. Tveir Píratar tilheyra Græningjum.

Leiðtogaráðið (European Council)
Leiðtogaráðið hefur ekki löggjafarvald en tekur ákvarðanir í mikilvægustu pólitísku málunum og málum þar sem samstaða hefur ekki náðst í ráðinu. Það er skipað leiðtogum ríkisstjórna eða þjóðhöfðingjum aðildarríkjanna. Með gildistöku Lissabon-sáttmálans var tveimur nýjum embættum komið á: Forseta leiðtogaráðsins og æðsta talsmanni stefnu ESB í utanríkis- og öryggismálum og skal sá síðarnefndi vera einn af varaforsetum framkvæmdastjórnarinnar.

Leiðtogaráðið skal taka ákvarðanir einróma nema sáttmálarnir segi til um annað. Með Lissabon-sáttmálanum var auk þess gert heimilt að breyta samningum ESB án þess að kalla til ríkjaráðstefnu. Þá getur leiðtogaráðið heimilað ráðinu, með einróma samþykki, að taka framvegis ákvörðun með auknum meirihluta þó að samningarnir kveði á um einróma samþykki. Þetta á þó ekki við um ákvarðanir sem tengjast hernaði eða varnarmálum.

Ráðið – áður ráðherraráðið (Council of the European Union)
Ráð Evrópusambandsins, sem hét áður ráðherraráðið, fer með löggjafar- og fjárveitingarvald ásamt Evrópuþinginu og samræmir stefnu og aðgerðir aðildarríkjanna í mörgum málaflokkum. Það er skipað einum ráðherra frá hverju ríki, óháð íbúafjölda, og fundar í ólíkum samsetningum, eins og það er kallað, sem fara eftir viðfangsefnum og skilgreindar eru í Lissabon-sáttmálanum.

Þó að hvert ríki hafi einn fulltrúa í ráðinu er vægi atkvæða fulltrúanna misjafnt og víkur töluvert frá beinu samhengi við íbúafjöldann. Þannig hafa fjögur stærstu ríkin 29 atkvæði á hvern fulltrúa en Malta 3. Það þýðir að Malta hefur mun færri íbúa á bak við hvert atkvæði en stærstu ríkin. Með Lissabon-sáttmálanum breytist þetta sem þýðir reyndar að bilið breikkar á milli Þýskalands og Möltu, því eins og staðan er nú eru 29 atkvæði 8,4% af heildinni en 3 atkvæði eru 0,9%. Eftir breytinguna á atkvæðavægi, sem tekur gildi 1. nóvember, endurspeglar það betur fólksfjöldann þannig að Þýskaland fær 16,41% atkvæða en Malta aðeins 0,08%. Fjöldi íbúa í hverju ríki fyrir sig verður reiknaður út árlega og fjöldi atkvæða út frá því.

Miklar breytingar verða á ákvörðunartöku í ráðinu með Lissabon-sáttmálanum. Með þessum breytingum er verið að reyna að gera hana lýðræðislegri og skilvirkari með því að innleiða aukinn meirihluta í stað einróma samþykkis. Með því að gera aukinn meirihluta að meginreglu er verið að auka skilvirkni við ákvarðanatöku. Núverandi kerfi er þannig að ákvarðanir eru teknar eftir þremur leiðum: Einföldum meirihluta, auknum meirihluta eða einróma samþykki, allt eftir því hvaða mál eru til umræðu. Ef hins vegar tillaga var upprunnin hjá framkvæmdastjórninni þurfti 67% atkvæða, eða 18 ríki, til að samþykkja hana. Í upphafi þurfti einróma ákvarðanir í nær öllum málum, enda voru aðildarríkin þá aðeins sex.

Í Lissabon-sáttmálanum er kveðið á um að alltaf skuli taka ákvarðanir með auknum meirihluta nema kveðið sé á um annað í sáttmálunum. Auk þess var þessi aukni meirihluti endurskilgreindur sem tvöfaldur aukinn meirihluti með að minnsta kosti 55% atkvæða, eða 15 ríkja, sem hafa hið minnsta 65% íbúafjölda sambandsins, frá og með 1. nóvember. Til þess að fella tillögu þarf þar af leiðandi atkvæði 13 ríkja í stað 14 áður, sem hafa á bak við sig minnst 35% íbúa. Samkvæmt sérákvæði næst aukinn meirihluti samt ekki ef minnihluti sem getur stöðvað framgang mála (blocking minority) samanstendur af að minnsta kosti 4 ríkjum sem hafa á bak við sig 65% íbúa. Áður gátu 3 ríki stöðvað mál en því var breytt vegna þess að 3 stærstu ríkin höfðu á bak við sig um 65% íbúa.

Annað sérákvæði kveður á um að frá því að þessi nýja skilgreining öðlast gildi og fram til 31. mars 2017 getur minnihluti krafist þess að mál sé tekið til umfjöllunar og fundin á því viðunandi lausn. Þessi minnihluti er þá skilgreindur sem þrír fjórðu af þeim 35% íbúa sem geta stöðvað mál (26,4%) eða þrír fjórðu af fjölda fulltrúa sem þarf til að stöðva mál, þ.e. 3 ríki, eins og áður. Það verður þó að hafa í huga að sterk hefð er fyrir því að ná samkomulagi í sem flestum málum svo reglur um atkvæðavægi eru fyrst og fremst einskonar öryggisnet.

Það lítur því út fyrir að Evrópusambandið hafi með Lissabon-sáttmálanum þokast upp lýðræðishallann.

Orðskýringar

Dreifræðisreglan (principle of subsidiarity)
Regla sem gildir um beitingu valdheimilda og er ætlað að draga úr miðstýringu. Sjá nánar hér.

Einfaldur meirihluti
51% atkvæða

Aukinn meirihluti
73,9% atkvæða

Einróma samþykki
100% atkvæða

Posted in Uncategorized

Prófkjörspistill nr. 3 – Samgöngumálin

Árið 1931 stofnuðu bræðurnir Ólafur og Pétur Þorgrímssynir hlutafélagið Strætisvagna Reykjavíkur. Tilkoma vagnanna breytti högum fólks í úthverfunum verulega til batnaðar, þó að kostnaðurinn við fargjöldin hafi reynst þeim verst settu ofviða. Það endaði með því að fargjöld skólabarna voru lækkuð, enda engin sanngirni í öðru. Í kjölfarið fylgdi svo krafa kennara um að fá ókeypis í vagnana, því þeir voru orðnir þreyttir á að ganga eða hjóla daglega alla þessa leið. Þess má geta að „úthverfin“ voru í þá daga hverfi á borð við Sogamýri og Laugarnes.

Árið 1944 tók Reykjavíkurkaupstaður síðan við rekstrinum og um tveimur áratugum síðar var tekin sú örlagaríka ákvörðun að miða skipulag bæjarins við þarfir einkabílsins. Það má segja að síðan þá hafi mun meiri áhersla verið lögð á að breikka vegi, byggja brýr og malbika bílastæði en að byggja upp einhvers konar samgöngukerfi í þágu almennings. Afleiðing þeirrar stefnu í borgum almennt er sú að þær þenjast út, sem er einmitt það sem hefur gerst í Reykjavík og nú er verið að berjast við að þétta þar byggðina á ný. Forsendan fyrir þéttingu byggðar hlýtur að vera minni notkun einkabíla og meiri notkun annarra samgöngumáta.

Töluverð framför hefur orðið hvað varðar aðbúnað hjólreiðafólks í borginni undanfarin ár, sem er virðingarvert því hjólreiðar verða sífellt vinsælli ferðamáti. Viðhorfið til hjólreiðamanna hefur vissulega breyst hjá borgaryfirvöldum og nú er meiri áhersla en áður lögð á að leggja hjólreiðastíga sem miðast við að hjólreiðar séu samgöngumáti, á sama hátt og einkabíllinn, en ekki aðeins tómstundaiðkun, eins og viðhorfið var fyrir nokkrum árum. En betur má ef duga skal og nú væri til dæmis gott að fá hjólreiðastíga meðfram stórum umferðargötum eins og Miklubrautinni, svo menn þurfi ekki að leggja sig í lífshættu á leið til og frá vinnu.

En ekki geta allir hugsað sér að hjóla allra sinna ferða allt árið og margir geta það einfaldlega ekki af líkamlegum ástæðum eða treysta sér ekki til að hjóla í snjó og hálku. Því þarf að hlúa vel að almenningssamgöngukerfinu sem þarf að þjóna öllu höfuðborgarsvæðinu, sama hvort notendur þess búa í miðbænum eða útjaðri ysta úthverfisins. Nú eru að verða miklar breytingar á leiðarkerfinu, ekki síst vegna þess að búið er að kaupa BSÍ og ekkert að vanbúnaði að flytja þangað aðalskiptistöð bæjarins. Það verður vissulega mikil bót að því að hafa eina alhliða samgöngumiðstöð nálægt miðbænum, þar sem ekki verða eingöngu strætisvagnar heldur líka leigubílar og bíla- og hjólaleigur og endastöð fyrir samgöngur við Leifsstöð og aðra hluta landsins verður þar áfram.

Það sem ég hef örlitlar áhyggjur af er leiðakerfið sjálft. Mun það þjóna öllum íbúum höfuðborgarsvæðisins eða verða áfram gloppur í netinu þar sem sumir þurfa að ganga langar leiðir til að komast í hentugan vagn? Verða sumar leiðirnar innan hverfa áfram svo langar að það er fljótlegra að ganga? Verður tíðni allra leiða aukin? Verða fargjöldin lækkuð, a.m.k. fyrir skólabörn og aðra sem hafa ekki mikið á milli handanna? Fyrir nokkrum árum fengu námsmenn frítt í strætó, síðan kostaði lítið að kaupa fyrir heila önn eða heilan vetur, en nú er svo komið að eina tilboðið fyrir námsmenn er tólf mánaða kort fyrir 42.500 krónur. Það er ekki á allra færi að punga út með slíka fjárhæð á einu bretti, sérstaklega ekki þegar fólk er nýbúið að borga 75.000 krónur í innritunargjöld.

Það er alveg ljóst að það er ódýrara að nota strætó en að eiga bíl en farþegarnir þurfa samt alltaf að hafa á tilfinningunni að strætó sé þægilegasti og ódýrasti kosturinn. Þegar stakt fargjald er dýrara en bensínkostnaðurinn á sömu leið finna menn ekki fyrir þeirri tilfinningu.

Það verða kosingar í vor, eins og allir vita, og von á nýjum meirihluta. Það verður að fylgja strætómálinu eftir svo að það verði örugglega leitt til lykta en dagi ekki uppi vegna áhugaleysis yfirvalda. Svo verðum við að fá að vita bráðlega hvenær von er á að breytingarnar verði innleiddar. Ég er að minnsta kosti orðin langeyg eftir bættum almenningssamgöngum.

Posted in Uncategorized

Prófkjörspistill nr. 2 – Velferðarmálin

„Hverjum manni er skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára.“

Svo hljóðar 2. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Sá sem ekki getur uppfyllt þessa skyldu þarf augljóslega aðstoð við það og sá aðili sem best er til þess fallinn er hið opinbera. Enda segir í 1. gr. sömu reglna: „Skylt er að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar…“ Því miður uppfyllir hið opinbera ekki alltaf þá skyldu, sem sést best á nauðsyn þess að ýmis góðgerðarsamtök séu starfandi, eins og Rauði krossinn, Hjálparstofnun kirkjunnar, Mæðrastyrksnefnd og Fjölskylduhjálp Íslands, svo eitthvað sé nefnt. Þessi samtök, og fleiri, starfa við að gefa mat, föt og þess háttar þeim sem á því þurfa að halda hér á landi. Og full þörf er á þeirri þjónustu, þrátt fyrir að við séum í hópi ríkustu þjóða heims.

En hvað kemur í veg fyrir að Reykjavíkurborg sjái um þegna sína eins og henni er skylt samkvæmt lögum? Erfitt er að fullyrða nokkuð um það án þess að skoða öll lög og reglur nákvæmlega og sjálfsagt er hvert mál sérstakt og ólíkar ástæður að baki. En svo virðist sem skilyrðin sem sett eru fyrir fjárhagsaðstoð séu oft á tíðum íþyngjandi fyrir borgarana og stundum er eina leiðin að fá framfærslulán í banka. Það getur því verið ansi flókið að krefjast réttar síns.

Tökum dæmi. Námsmaður í lánshæfu námi veikist alvarlega á miðri haustönn. Vegna veikindanna tekst honum ekki að ljúka tilskildum einingafjölda á önninni og fær því ekki námslánið sem hann treysti á, sér til framfærslu. Hann nær sér þó fyrir jólin og ákveður að halda áfram námi. En þá eru góð ráð dýr. Þar sem hann fékk ekki námslán fyrir haustönnina er hann í skuld við bankann sinn, sem hann getur augljóslega ekki borgað. Og þar sem hann ákveður að halda áfram lánshæfu námi fær hann ekki framfærslustyrk frá sveitarfélaginu. Hann á heldur ekki rétt á vaxtalausu láni sem sveitarfélagið býður upp á vegna óteljandi skilyrða, m.a. þess að „umsækjandi hafi fengið fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglum þessum undanfarna sex mánuði eða lengur“ (24. gr.). Hann verður með öðrum orðum að hafa fengið fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu í a.m.k. sex mánuði á undan til að eiga rétt á láni. Eina leiðin fyrir hann til að halda áfram námi er að fá meira lán á okurvöxtum frá bankanum (12,1-12,8% hjá Landsbankanum). Nú ef hann ákveður að hann hafi ekki efni á áframhaldandi námi getur vel verið að hann fái einhverja aðstoð. Nema auðvitað ef hann á tvær íbúðir eða tvo bíla því hann má bara eiga eitt af hvoru. Eins og alþjóð veit getur það tekið marga mánuði að selja íbúð og á hverju á hann að lifa á meðan?

Þetta er bara eitt dæmi um hve flókið það getur verið að fá fjárhagsaðstoð, þrátt fyrir að sveitarfélaginu sé skylt að veita hana þeim sem þurfa á henni að halda. Það virðist vera spurning um að borgarinn þurfi alltaf að sanna, svo ekki verði um villst, að hann þurfi sannarlega á henni að halda. Og það er ekki nóg að sanna að maður geti ekki séð sér farborða, heldur er viðtekin venja í velferðarkerfinu almennt að skoða fjárhagsstöðu fólks í fortíðinni líka, allt upp í tvö ár aftur í tímann. Sem segir auðvitað ekki endilega neitt um fjárhagsstöðu fólks í nútíðinni.

Undanfarið hefur verið nokkur umræða um svindl á kerfinu. Er einhver hissa á því að fólk skuli láta sér detta það í hug þegar svo erfitt er að uppfylla öll skilyrði? Ég er ekki að mæla því bót, mér finnst bara eðlilegt að fólk skuli reyna að bjarga sér þegar það á erfitt með að láta enda ná saman án aðstoðar frá hinu opinbera.

Posted in Uncategorized

Prófkjörspistill nr. 1 – Menntamálin

Á þessari stundu eru kennarar að berjast fyrir því að fá mannsæmandi laun fyrir starf sitt. Samt eru það þeir sem bera hvað mesta ábyrgð í samfélaginu, ekki bankastjórar eða forstjórar einhverra stórfyrirtækja. Það er jú mikið ábyrgðarhlutverk að mennta æskuna, ég held að við getum öll verið sammála um það, og að margra mati mun mikilvægara en að passa peninga. Auk þess er kennarastarfið flókið og álagið mikið, hvað sem öllum sögusögnum um langt sumarfrí líður. Fyrsta skrefið í átt að því að lagfæra menntakerfið, sem er fyrir löngu orðið úrelt, er að leiðrétta laun kennara, þannig að þeir fái sömu laun og aðrir háskólamenntaðir starfsmenn hins opinbera, og minnka álagið. Það er ekki nema sanngjarnt.

Þegar það er í höfn getum við farið að lagfæra kerfið sjálft. Skoðum aðeins hvað er að menntakerfinu okkar. Það er reyndar einfalt: Það er gamaldags og úrelt að setja börnin niður við borð fyrir framan kennarann og segja þeim að sitja kyrr og hlusta, gera síðan verkefni sem fæstum þeirra þykir áhugavert og sitja kyrr og þegja að mestu á meðan. Kerfið sem flestir skólar fylgja enn þann dag í dag er byggt á aldagömlu fyrirkomulagi, sem hefur sjálfsagt virkað ágætlega þegar kennarinn var sá eini sem bjó yfir upplýsingum. Nú til dags verðum að sætta okkur við að við búum í gjörbreyttu samfélagi þar sem upplýsingar eru aðgengilegri en nokkru sinni fyrr. Börnin notfæra sér það heima, af hverju notfærir skólinn sér það ekki? Af því að tölvur eru dýrar, kann einhver að segja. Því er ekki að neita að það er dýrt að endurnýja tölvukostinn reglulega. En stundum þarf maður að setja upp framtíðargleraugun og hugsa lengra en næsta kjörtímabil. Má ekki líta á góðan tölvukost í skólum sem viturlega fjárfestingu til framtíðar? Svo ég vitni í blogg kennarans Ingva Hrannars Ómarssonar: „Það að flytja heilan bekk í skólastofu með úreltum tölvunum, sem taka oft 15 mínútur að ræsa sig, einu sinni í viku til þess að vinna verkefni í ritvinnslu og flytja svo börnin í röð aftur inn í skólastofu 40 mínútum seinna er úrelt. Upplýsingatækni á ekki að vera sér námsgrein heldur eiga tölvur og tækni að vera eðlilegur hluti af námi og kennslu rétt eins og blýanturinn.“ Sjá hér.

Þegar ég var barn naut ég þeirra forréttinda að fá að prófa ýmsa skóla. Í sex ára bekk, sem þá var forskóli, var ég í Æfingadeild Kennaraháskólans. Þá voru fimm, sex og sjö ára börn saman í tveimur skólastofum og ég man ekki eftir að hafa nokkurn tímann þurft að sitja kyrr og góna á kennarann eða að hann læsi yfir okkur. Þetta var dásamlegur tími. Strax í fyrsta bekk flutti ég í annað sveitarfélag og skipti um skóla. Það var afskaplega hefðbundinn skóli. Ég man sérstaklega eftir því hvað mér leiddist. Ég var fluglæs og látin læra stafina aftur. Þarna var ég í tvö ár en þá fluttum við aftur til Reykjavíkur og ég fór í Vesturbæjarskóla. Á þeim tíma var hann mjög óhefðbundinn og auk þessara venjulegu greina lærðum við sjálfstæði og ábyrgð á eigin námi. Mér skilst að þessi skóli sé orðinn hefðbundinn aftur, og sama má segja um fyrrum Æfingaskólann.

Hvers vegna skyldu allar þessar frábæru tilraunir í skólastarfi hafa liðið undir lok og skólarnir runnið aftur í sama, gamla farveginn? Þrátt fyrir að upplýsingatæknin sé mikilvægur þáttur af lífi okkar í nútímanum er ljóst að hún er ekki forsenda fyrir óhefðbundu skólastarfi. Vissulega væri fullkomið að nýta tölvur og tækni við alla kennslu en það þarf auðvitað meira til. Það að láta börn sitja lengi kyrr á sama stað er óeðlilegt. Það að segja börnum að þegja og hlusta og einbeita sér eftir kröfum hinna fullorðnu er óeðlilegt. Hver er undirrót tregðunnar til að stokka upp kerfið og laga það að þörfum nemenda, í stað þess að laga ætíð nemendur að þörfum kerfisins?

Byrjum á því að gefa kennurum mannsæmandi laun og minnka álagið á þá. Þá fyrst geta þeir kannski farið að huga að því að breyta kennsluháttum. Skólastjórnendur þurfa síðan að hlusta á hugmyndir kennaranna og móta stefnu í kennsluháttum fyrir sinn skóla. Stefnan þarf ekki að vera sú sama í öllum skólum, því börn hafa ólíkar þarfir og ættu að geta valið sér skóla ef hverfisskólinn hentar þeim ekki. Þannig tryggjum við upplýsinga- og tjáningarfrelsi barnanna og réttinn til gagnrýnnar hugsunar og vel upplýstra ákvarðana, því þau hafa rétt á því líka.

Posted in Uncategorized

Femínismi vs. jafnrétti

Ég er femínisti. Það þýðir samt ekki að ég hati karlmenn. Það þýðir heldur ekki að ég hugsi ekki um jafnrétti á víðari grundvelli.

Orðið “femínismi” vísar til kvenkyns vegna þess að það er kynið sem á hallar. Áður fyrr var talað um “kvenréttindi”. Vissulega eru til svið þar sem hallar á karlmenn og það er ranglæti sem nauðsynlegt er að berjast gegn. En það vísar ekki til þess að konur vilji meiri réttindi en karlar, eins og sumir virðast halda fram. Femínisti er manneskja, karl eða kona, sem gerir sér grein fyrir því að jafnrétti kynjanna er ekki náð og vill að eitthvað sé gert í því. Svo einfalt er það.

Dálítið hefur borið á því að femínistar séu gagnrýndir fyrir að berjast sérstaklega fyrir jafnrétti kynjanna í stað þess að berjast fyrir jafnrétti allra. Það er óréttmæt gagnrýni af eftirtöldum ástæðum:

1. Það að berjast fyrir rétti ákveðins hóps samfélagsins útilokar ekki áhuga á rétti annars hóps samfélagsins. Sá eða sú sem berst fyrir réttindum fatlaðra er ekki sjálfkrafa á móti samkynhneigðum eða baráttu þeirra, svo dæmi sé tekið.

2. Að ná fram jafnrétti kynjanna er mjög mikilvægur þáttur í almennri jafnréttisbaráttu vegna þess að allir sem tilheyra minnihlutahópi eru af einhverju kyni. Um það bil helmingur mannkyns er kvenkyns og á meðal þeirra eru fatlaðar, samkynhneigðar og geðveikar konur af öllum kynþáttum, stéttum og trúarbrögðum. Þær hafa líka þörf fyrir femínisma.

Fjölmargar vísbendingar eru um að jafnrétti kynjanna sé ekki náð á Íslandi: Kynbundið ofbeldi er enn til. Óútskýrður launamunur kynjanna er enn til. Konur eru enn í miklum minnihluta í stjórnum fyrirtækja og stofnana. Ný ríkisstjórn skipaði mun færri konur en karla í nefndir og setti nánast eingöngu karla í fjárlaganefnd en konur í velferðarnefnd. Þetta síðasta styrkir staðalmyndir kynjanna, sem alls ekki allir finna sig í og eiga þá jafnvel erfitt með að fóta sig í lífinu.

Það er nefnilega meiri munur milli einstaklinga en kynjanna. Ég persónulega hef til dæmis ekki umönnunargenið sem konum er eignað. Ekki hef ég tilfinningu fyrir skreytingum og léti ekki sjá mig grátandi á almannafæri þótt mér væri borgað fyrir það. Ég þekki líka marga karlmenn sem eru opnari um tilfinningar sínar en ég. Er ég þá ekki alvöru kona?

Kynjahlutverk eru úrelt. Kyn á ekki að skipta máli. En á meðan það gerir það verðum við að berjast fyrir jafnrétti kynja allra hópa samfélagsins.

Posted in Uncategorized

Brotinn pottur

Barn er tekið af móður sinni nokkrum klukkustundum eftir fæðingu. Móðirin hafði áður verið svipt barni en eftir það sneri hún við blaðinu og kom lífi sínu í lag. Þrátt fyrir það er engin vægð sýnd. Ekkert annað tækifæri gefið.

Fimm lögreglumenn koma að heimili að ná í sjö ára barn til að koma því í hendur forsjárlauss föður. Telpan vill ekki fara. Lögreglan vill ekki taka hana. Þrátt fyrir það er engin vægð sýnd. Eftir heimsóknina til föður síns þarf telpan á læknishjálp að halda.

Tveir lögreglumenn koma að heimili þriggja barna til að fara með þau til föður síns. Þau vilja ekki fara. Sýslumaður metur stöðuna þannig að tvö elstu börnin þurfi ekki að fara vegna þess að þau séu nógu gömul til að segja skoðun sína en yngsta barnið þarf að fara. Það gengur erfiðlega að koma barninu út úr húsi og þrír lögreglumenn í viðbót eru kallaðir út. Engin vægð.

Móðir flýr til Íslands með börn sín til að bjarga þeim frá ofbeldisfullum föður. Þeim er dæmd sameiginleg forsjá með börnunum. Það eru til skýrslur lækna og sálfræðinga og vitnisburðir kennara og fleiri sem styðja það að faðirinn beiti þau ofbeldi. Þrátt fyrir það er engin vægð sýnd, börnin skulu búa hjá föður sínum erlendis. Lögreglan er send á staðinn.

Foreldrar reyna að bjarga fimmtán ára dóttur sinni frá dópneyslu. Barnaverndarnefnd tjáir þeim að hún sé ekki nógu langt leidd til að hægt sé að gera eitthvað fyrir hana. Stúlkan fer úr áfengisneyslu í kannabisneyslu í harða dópneyslu. Engin langtímaúrræði eru í boði. Barnaverndarnefnd aðhefst ekkert þrátt fyrir að foreldrarnir hafi margoft sinnt tilkynningarskyldu sinni.

Á ég að halda áfram?

Þetta eru bara nokkrar dæmisögur um það hvernig kerfið virkar ekki þegar kemur að verndun barna. Ég er viss um að í langflestum tilvikum virkar kerfið ágætlega, en þetta eru samt of mörg dæmi um hið gagnstæða. En það eru ekki bara barnaverndaryfirvöld sem hafa brugðist í fjölmörgum málum, réttarkerfið hefur líka brugðist. Samkvæmt rannsókn um áhrif heimilisofbeldis á ákvarðanir í umgengnis- og forsjármálum sem gerð var árið 2009, hefur heimilisofbeldi mjög takmörkuð áhrif á mat á forsjárhæfni foreldris og, svo ég vitni beint í útdrátt rannsóknarinnar: „virðist mikið þurfa að koma til svo að umgengnisréttur sé skertur á grundvelli slíks ofbeldis, jafnvel þótt sýnt sé fram á að samneyti við foreldri geti beinlínis verið barninu skaðlegt” (http://skemman.is/handle/1946/2474).

Þetta er náttúrlega ekki í lagi. Barnalögin segja: „Forsjá barns felur í sér skyldu foreldra til að vernda barn sitt gegn andlegu og líkamlegu ofbeldi og annarri vanvirðandi háttsemi.“ (2. mgr. 28. gr.). Foreldrunum í dæmunum hér að ofan var, vægast sagt, gert erfitt fyrir að sinna þessari skyldu. Og þeir sem sinntu tilkynningarskyldu sinni fengu enga hjálp. Til hvers eru lögin ef ekki er farið eftir þeim?

Á sama tíma er brotið á rétti sumra forsjárlausra feðra. Ég veit um dæmi þess að móðir gat ekki sinnt uppeldi barns síns tímabundið og var því þá komið fyrir hjá móðursystur sinni en ekki einu sinni talað við föðurinn. Og hvar er réttlætið í því að þegar foreldrar fara með sameiginlega forsjá fær einungis annað þeirra barnabætur en hitt þarf að borga meðlag, þrátt fyrir að barnið búi jafnt á báðum stöðum?

Einhvers staðar er pottur brotinn í kerfinu. Það þarf að stokka upp bæði í lögunum og framkvæmd þeirra. Hvar er eftirlitið með barnaverndarnefndum og Barnaverndarstofu? Hver á að hafa eftirlit með eftirlitsaðilunum?

Posted in Uncategorized

Hvers vegna internetið?

Píratar hafa stundum verið gagnrýndir fyrir að leggja ofuráherslu á mál sem varða internetið og netnotkun. Píratar vilja frjálst internet og berjast fyrir friðhelgi einkalífsins, bæði á netinu og utan þess, það er rétt. Píratar berjast gegn allsherjar, rískisreknum netsíum, það er rétt. Píratar vilja tækla atvinnumálin að miklu leyti með internetinu, það er rétt. Píratar vilja að börnin fái að læra á tölvur og netið og að forrita í skólanum, það er rétt. Píratar vilja nýta tölvutæknina til að koma á beinu lýðræði, það er alveg rétt. Það eru langt í frá einu baráttumál okkar, en engu að síður eru þetta mikilvæg mál.

Tökum dæmi.

Nú er ég í 7. sæti listans í Reykjavíkurkjördæmi suður. Þegar ég var beðin um að taka þátt í starfi Pírata var ég stödd hinum megin á hnettinum. Þegar ég var kosin í þetta sæti var ég stödd hér í Kosta Ríka í Mið-Ameríku. Ég hafði aldrei hitt samflokksmenn mína í eigin persónu og aldrei átt samtöl við þá. Hvernig gat fólk kosið manneskju sem það hafði aldrei séð, hitt eða talað við?

Jú, það er allt internetinu að þakka. Og ég er svo heppin að í íbúðinni minni á Manuel Antonio í Kosta Ríka er ég með þráðlaust internet. Það er stundum flöktandi og styrkur þess er yfirleitt innan við 50%, sem við myndum líklega ekki sætta okkur við á Íslandi, en það dugar mér. Það dugar mér til að vinna í ritgerðinni minni, lesa blöðin, horfa á fréttir og sjónvarpsþætti, eiga samskipti við fólk, senda þeim myndir og myndbönd, læra stepp, vera með í umræðum Pírata um hin ýmsu málefni, jafnvel fara á fund í beinni útsendingu, og blogga. Ef nettengingin dettur út í lengri tíma er ég öll á nálum og veit ekkert hvað ég á af mér að gera, svo mikilvæg er hún mér. Án hennar væri ég ekki Pírati.

Internetið skapar svo marga möguleika í lífinu. Internetið gerir mörgum kleift að láta drauma sína rætast án þess að segja upp vinnunni. Internetið hefur hrint af stað byltingum. Internetið er veruleiki nútímasamfélagsins. Færum hugsunarháttinn inn í 21. öldina.

Posted in Uncategorized