Segjum skilið við hefðbundin stjórnmál og endurræsum Ísland

Kosningabaráttan er hægt og rólega að fara í gang. Kappræður byrjaðar á RÚV, kosningavitar að birtast hjá helstu fjölmiðlum og kosningaskrifstofur að opna. Baráttan verður eflaust áhugaverð, en það er líka gott að muna hvers vegna við göngum til kosninga núna. Þjóðin lýsti yfir algjöru vantrausti gagnvart núverandi ríkisstjórn með einum stærstu mótmælum Íslandssögunnar. Panamaskjölin sýndu mjög greinilega að það er eitthvað verulega að því hvernig stjórnmálamennirnir okkar hegða sér. Stjórnmálamenn eru samt alls ekki vont fólk, það virðist einfaldlega vanta hjá okkur þá stjórnmálamenningu sem flest vestræn lýðræðisríki eru búin að temja sér.

Víðast hvar þar sem heilbrigt lýðræði blómstrar bera menn mikla virðingu fyrir embættum kjörinna fulltrúa. Hvort sem það er borgarfulltrúi, þingmaður eða forsætisráðherra, þá er embættið mun mikilvægara en nokkur einstaklingur. Maður les gjarnan fréttir af stjórnmálamönnum víða um Evrópu sem segja af sér vegna smávægilegra hneyksilismála af því það er talið mikilvægt að embættin tengist þeim ekki.

Þetta er hefð sem virðist ekki hafa skilað sér til Íslands af einhverjum ástæðum. Eftir allt sem kom fram í Panamaskjölunum er aðeins einn stjórnmálamaður sem hefur borið jafn mikla virðingu fyrir embætti sínu og nágrannar okkar, en það er Júlíus Vífill Ingvarsson fyrrverandi borgarfulltrúi. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fyrrverandi forsætisráðherra heldur því fram að Panamaskjölin séu eitt stórt samsæri gegn sér (það er margoft búið að sýna fram á hvað hann er lítill og ómerkilegur hluti af þessum skjölum þegar þau eru skoðuð í alþjóðlegu samhengi) og bæði Bjarni Benediktsson og Ólöf Nordal líta á skjölin eins og þau hafi ekkert komið þeim við. Þau eru öll að bjóða sig fram til Alþingis í komandi kosningum.

Traust til Alþingis var mjög lítið fyrir Panamalekann og það jókst svo sannarlega ekki í kjölfar hans. Embættin eru löskuð því að einstaklingarnir sem gegna þeim bera ekki nægilega mikla virðingu fyrir starfinu. Menn töluðu um uppgjör og breytingar eftir hrunið sem hafa í besta falli reynst hálfkláraðar ef eitthvað hefur verið gert yfir höfuð. Það er með öðrum orðum greinilega enn eitthvað verulega bogið við stjórnmál á Íslandi.

Það er kominn tími til þess að segja skilið við hefðbundin stjórnmál. Viljum við virkilega halda áfram að kjósa yfir okkur stjórnmálamenn sem telja það fullkomnlega eðlilegt að hafa þjóðina að fífli? Panamalekinn er aðeins brot af löngum lista af málum þar sem þessi ríkisstjórn hefur logið blákalt að þjóðinni. Það þarf að taka á spillingunni í íslenskum stjórnmálum og það þarf að taka á því hvernig stjórnmálamenn vinna. Þessar breytingar verða eitt stærsta forgangsmál Pírata á næsta kjörtímabili, enda er þetta ein helsta ástæða þess að Píratar urðu til. Það er kominn tími til þess að endurræsa Ísland.