Hin undarlega áhersla á meirihlutastjórn

Það er ekkert vandamál að finna út úr myndun ríkisstjórnar við þær annars mjög svo áhugaverðu aðstæður sem hafa myndast núna eftir Alþingiskosningarnar 2016. Það sem þvælist fyrir þeirri einföldu spurningu er eingöngu sú hjátrú Íslendinga að stjórnir séu ekki mögulegar nema þær hafi meirihluta þings, eða með öðrum orðum, að ríkisstjórnin þurfi að vera yfirmaður þingsins því annars gangi ekki neitt og allt fari strax í hnút.

Þetta er einungis satt ef fyrirfram er útilokað að stjórnmálamenn geti gert málamiðlanir, fundið sameiginlega fleti á málum fyrirfram, síað út það sem verður óhjákvæmilega einungis til trafala en hefur ekki raunhæfa möguleika á að ná í gegn og verið í samskiptum við hvora aðra áður en allt er komið í bál og brand vegna samskiptaleysis og derrings.

Minnihlutastjórnir eru neyddar til að haga sér betur, einmitt vegna þess að þær eru í minnihluta. Alþingi er löggjafarvaldið samkvæmt stjórnarskrá, samkvæmt þrískiptingu valdsins og samkvæmt almennri orðræðu í stjórnmálum. Það er því vandamál, sem fólk ætti að taka alvarlega, að hefðirnar fyrirskipi að einungis með því að framselja í reynd löggjafarvaldið til framkvæmdavaldsins sé hægt að hafa framkvæmdavald sem treysti sér til starfsins. Sú staðreynd að menn telji minnihlutastjórnir ómögulegar er sjálf áfellisdómur yfir stjórnmálamenningunni.

Það er sjálfsagt að flokkar treysti sér ekki í minnihlutasamstarf með flokkum sem þeir einfaldlega ná ekki saman við, en þeir flokkar sem hafna setu í minnihlutastjórn af þeirri einu ástæðu að þeir geti þá ekki valtað yfir þingið, opinberar einvörðungu virðingarleysi þess flokks fyrir Alþingi og þrískiptingu valdsins sem grunnskipulagi lýðræðis á Íslandi.

Posted in Uncategorized

Pössum okkur að bregðast ekki framtíðinni

Skólakerfið okkar þarf á róttækri breytingu að halda. Vissulega gengur ákveðnum hópi af fólki þokkalega í núverandi kerfi en ég ætla ekki að leggja áherslu á þann hóp í þessum pistli. Ég ætla fyrst og fremst að leggja áherslu á fólkið sem gengur ekki nógu vel. Það þekkja eflaust allir einhvern sem aldrei náði fótfestu í skóla, hvort sem það er einhver úr fjölskyldunni eða vinur, með nóg af hæfileikum til staðar en þeir skiluðu sér aldrei í góðum einkunnum. Það er nefnilega til nóg af ótrúlega hæfileikaríku fólki sem mun aldrei fá að sýna almennilega hvað það hefur upp á að bjóða eins og staðan er í dag.

Það er sem betur fer komin vilji til breytinga í menntakerfið, til að auka áhuga nemenda á því sem þeir vilja helst gera. Þessar breytingar gerast þó ótrúlega hægt og eru að mestu leyti bundnar við fyrstu tvö skólastigin. Brottfall drengja úr framhaldsskólum er ennþá óásættanlega hátt. Það sárvantar pólitískan og efnahagslegan vilja til þess að byggja upp menntakerfið sem við þurfum á að halda til að tryggja betri framtíð. Núverandi ríkisstjórn hefur talað um að skapa hér gott menntakerfi en hefur hún fylgt þessu eftir? Hefur hún brugðist vel við þeirri krísu sem menntakerfið stendur frammi fyrir?

Læsisátak menntamálaráðherra er í verulegum vandræðum. Ef nemandi flosnar upp úr námi getur hann svo gott sem sagt bless við hugmyndir um að fara aftur í nám ef hann er kominn yfir 25 ára aldur. Þá borgar sig varla lengur fyrir nemandann að sækja sér menntun t.a.m. í kennslufræðum, því verði hugmyndir núverandi ríkisstjórnar að veruleika leiðir afnám tekjutengingar til þess að afborganir af námslánum hækka svo um munar. Aðgerðir núverandi ríkisstjórnar virðast byggðar á nítjándu aldar hugmyndafræði um menntun og það ætti að vera hverjum manni ljóst að slíkir starfshættir munu ekki ganga upp til frambúðar ef við viljum að fólk geti starfað hér við annað en í álveri, fiskvinnslu eða ferðamennsku. Allt eru þetta starfsgreinar sem gætu auðveldlega orðið verðlausar með breyttum markaðsaðstæðum.

Við þurfum að skapa hér fjölbreytt atvinnulíf og við gerum það einungis með því að fjárfesta í grunnstoðum samfélagsins, en ein mikilvægasta stoðin er menntakerfið okkar. Það var einu sinni norræn þjóð sem fór í gegnum efnahagslega erfiðleika en tókst að rífa sig upp með miklu þjóðarátaki. Ég er að sjálfsögðu að tala um Finnland sem tók sig til og fjárfesti vel í menntun þegar illa gekk hjá þjóðarbúinu. Þar eru menn algjörlega óhræddir við að prófa róttækar hugmyndir í menntakerfinu, afnema heimanám í grunnskóla, breyta fyrirkomulaginu á frímínútum til að sporna gegn einelti auk þess sem kennarastéttin er bæði hálaunuð og fagleg. Á Íslandi stöndum við hinsvegar frammi fyrir ákveðnum tímamótum í menntamálum þar sem aðsókn í kennaranám fer sífellt minnkandi. Hvað gerum við eiginlega þegar ekki einn einasti nemandi vill verða kennari? Við gætum verið að bregðast okkar eigin framtíð.

Posted in Uncategorized

Segjum skilið við hefðbundin stjórnmál og endurræsum Ísland

Kosningabaráttan er hægt og rólega að fara í gang. Kappræður byrjaðar á RÚV, kosningavitar að birtast hjá helstu fjölmiðlum og kosningaskrifstofur að opna. Baráttan verður eflaust áhugaverð, en það er líka gott að muna hvers vegna við göngum til kosninga núna. Þjóðin lýsti yfir algjöru vantrausti gagnvart núverandi ríkisstjórn með einum stærstu mótmælum Íslandssögunnar. Panamaskjölin sýndu mjög greinilega að það er eitthvað verulega að því hvernig stjórnmálamennirnir okkar hegða sér. Stjórnmálamenn eru samt alls ekki vont fólk, það virðist einfaldlega vanta hjá okkur þá stjórnmálamenningu sem flest vestræn lýðræðisríki eru búin að temja sér.

Víðast hvar þar sem heilbrigt lýðræði blómstrar bera menn mikla virðingu fyrir embættum kjörinna fulltrúa. Hvort sem það er borgarfulltrúi, þingmaður eða forsætisráðherra, þá er embættið mun mikilvægara en nokkur einstaklingur. Maður les gjarnan fréttir af stjórnmálamönnum víða um Evrópu sem segja af sér vegna smávægilegra hneyksilismála af því það er talið mikilvægt að embættin tengist þeim ekki.

Þetta er hefð sem virðist ekki hafa skilað sér til Íslands af einhverjum ástæðum. Eftir allt sem kom fram í Panamaskjölunum er aðeins einn stjórnmálamaður sem hefur borið jafn mikla virðingu fyrir embætti sínu og nágrannar okkar, en það er Júlíus Vífill Ingvarsson fyrrverandi borgarfulltrúi. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fyrrverandi forsætisráðherra heldur því fram að Panamaskjölin séu eitt stórt samsæri gegn sér (það er margoft búið að sýna fram á hvað hann er lítill og ómerkilegur hluti af þessum skjölum þegar þau eru skoðuð í alþjóðlegu samhengi) og bæði Bjarni Benediktsson og Ólöf Nordal líta á skjölin eins og þau hafi ekkert komið þeim við. Þau eru öll að bjóða sig fram til Alþingis í komandi kosningum.

Traust til Alþingis var mjög lítið fyrir Panamalekann og það jókst svo sannarlega ekki í kjölfar hans. Embættin eru löskuð því að einstaklingarnir sem gegna þeim bera ekki nægilega mikla virðingu fyrir starfinu. Menn töluðu um uppgjör og breytingar eftir hrunið sem hafa í besta falli reynst hálfkláraðar ef eitthvað hefur verið gert yfir höfuð. Það er með öðrum orðum greinilega enn eitthvað verulega bogið við stjórnmál á Íslandi.

Það er kominn tími til þess að segja skilið við hefðbundin stjórnmál. Viljum við virkilega halda áfram að kjósa yfir okkur stjórnmálamenn sem telja það fullkomnlega eðlilegt að hafa þjóðina að fífli? Panamalekinn er aðeins brot af löngum lista af málum þar sem þessi ríkisstjórn hefur logið blákalt að þjóðinni. Það þarf að taka á spillingunni í íslenskum stjórnmálum og það þarf að taka á því hvernig stjórnmálamenn vinna. Þessar breytingar verða eitt stærsta forgangsmál Pírata á næsta kjörtímabili, enda er þetta ein helsta ástæða þess að Píratar urðu til. Það er kominn tími til þess að endurræsa Ísland.

Posted in Uncategorized