Að vera „alvöru“ Pírati

Þegar maður hefur verið í Pírötum jafn lengi og ég hef verið þá hefur maður eflaust heyrt ákveðna setningu þó nokkrum sinnum. „Þessi er ekki alvöru Pírati“. Því fylgir yfirleitt einhver rökstuðningur, yfirleitt að viðkomandi sé ekki fylgjandi einhverri tiltekinni stefnu flokksins. Það má jafnvel vera að ég hafi sjálfur sagt þetta á einhverjum tímapunkti, kannski oftar en einu sinni, en ég held að það sé alveg kominn tími á að við sem Píratar hættum að útiloka fólk á þennan hátt, því það var ekki alltaf þannig.

Það þarf stundum að minna fólk á hvernig Píratar voru sem flokkur þegar svo gott sem enginn hafði áhuga á að fylgjast með okkur, áður en við urðum lituð af vinsældum og rosalegum tölum í skoðanakönnunum. Ég man satt að segja ekki hvenær ég heyrði fyrst: „þessi er ekki alvöru Pírati,“ en það var ekki á þessum fyrstu mánuðum sem ég var í Pírötum. Þá voru allir velkomnir, sama hversu skrítnir þeir voru eða hvaða skoðanir þeir höfðu á tilteknum málefnum. Hjá Pírötum skipti það nefnilega ekki máli hvað maður hugsaði heldur hvernig maður hugsaði. Það var æðislegt fyrir mig að koma inn sem nýliða, ég var hjartanlega velkominn, skoðanir mínar skiptu fólki máli og Píratar voru með allt öðruvísi verklag en nokkuð annað stjórnmálafólk sem ég hafði kynnst.

En Píratar hafa vaxið mun meira og mun hraðar en nokkur gat búist við og ég er ótrúlega þakklátur fyrir að hafa getað tekið þátt í svona skemmtilegu starfi með fullt af frábæru fólki. En þó að okkur gangi vel í skoðanakönnunum og ef okkur gengur vel í næstu kosningum þá þurfum við samt að muna hvaðan við komum. Strax á mínum fyrsta fundi lærði ég um grunnstefnu Pírata. Ef maður styður grunnstefnuna og er sammála upprunalegu áherslumálum Pírata um opið internet, endurskoðun á höfundarrétti o.s.frv. þá er maður alvöru Pírati. Maður þarf ekki að gleypa hvert einasta stefnumál eins og þau leggja sig enda eru þau í sífelldri endurskoðun sem hver sem getur tekið þátt í að gera betri og svo eru þau orðin nokkuð mörg.

Þessi tilhneiging til að skipta Pírötum niður í „alvöru“ Pírata og „ekki alvöru“ Pírata hefur nefnilega sést áður. Ég hef farið margar í margar ferðir erlendis til að kynnast öðrum Pírötum og nýti ég þá yfirleitt tækifærið til að spjalla sérstaklega við Pírata frá Þýskalandi. Sá flokkur er í raun orðinn að tveim mismunandi flokkum og er svo gott sem ókjósanlegur í augum margra Þjóðverja. Þetta má ekki verða að örlögum Pírata á Íslandi.

Styrkur Pírata er meðal annars að við erum orðin stór hópur af fólki með ólíkar skoðanir og það virkar án þess að við þurfum að skilgreina okkur til hægri eða vinstri, því það er sama hvaðan góðar tillögur koma ef þær eru góðar tillögur. Við þurfum líka að muna að við höfum í nógu að snúast að búa til nýja tegund stjórnmála og takast á við gamaldags stjórnmál, án þess að rífast og skammast í fólki sem raunverulega styður okkur, jafnvel þó við kunnum að vera ósammála í einstaka atriðum. Við náum ekkert að takast á við þann gríðarlega fjölda erfiðra verkefna sem bíða okkar ef við erum að metast um hver er alvöru Pírati. Alvöru Pírati á nefnilega að geta rökrætt hlutina á málefnalegum nótum án þess að ráðast á persónu fólks.