Framboðstilkynning

Kæru Píratar

Hér kemur smá langloka, en svona stór ákvörðun ætti ekki að vera tekin með fáum orðum.

Það er kominn aftur tími framboðstilkynninga og það kemur eflaust fáum á óvart að ég mun bjóða mig fram í komandi prófkjöri fyrir eitt af Reykjavíkurkjördæmunum og mun ég sækjast eftir því að leiða lista flokksins. Ég er ekki að bjóða mig fram gegn neinum og það eru þegar slatti af mjög frambærilegum frambjóðendum búnir að stíga fram og tilkynna framboð. En það ætti að vera eðlilegur hluti af lýðræðinu að hafa marga möguleika og býð ég mig því fram til að vera einn af vonandi mörgum.

Ég gekk til liðs við Pírata fljótlega eftir stofnun, mér finnst voða súrealískt að horfa aftur til fyrsta fundsins sem ég mætti á hjá Pírötum en þar voru innan við 10 manns og flokkurinn var ekki einu sinni farinn að mælast í skoðannakönnunum. Ég var strax heillaður af fólkinu sem var á þessum fundi og eftir þennan örlagaríka fund var ekki aftur snúið. Síðan þá hef ég horft á Pírata vaxa og stækka hraðar en ég gat nokkurntíman búist við. Þetta er nánast eins og að fylgjast með barni sínu vaxa og þroskast og mér er alveg askaplega vænt um það.

Ég hef tekið að mér hin ýmsu hlutverk á tíma mínum í Pírötum, ég sat 2 ár í framkvæmdaráði, var stofnmeðlimur Ungra Pírata og Pírata í Reykjavík og tók einning að mér að vera formaður Young Pirates of Europe. Ég hef einnig boðið mig fram fyrir hönd flokksins tvisvar, í Alþingisskosningunum 2013 var ég í 5. sæti í Reykjavíkurkjördæmi Suður og í borgarstjórnarkosningunum var ég í 4. sæti. Eftir borgarstjórnarkosningarnar tók ég að mér að vera áheyrnarfulltrúi Pírata í Skóla-og frístundaráði og hef kynnst því nokkuð vel hvernig það er að vinna sem Pírati í meirihlutasamstarfi sem ég held að gæti nýst Pírötum vel ef til þess kæmi að við fengjum umboð fyrir slíku á þingi.

Mér er mjög annt um Grunnstefnu Pírata og að henni sé fylgt vel eftir. Ég gæti blaðrað lengi um stjórnarskránna og atkvæðagreiðslu um ESB en það ætti að vera sjálfgefin stefnumál hjá hvaða Pírata sem er og ætla ég því ekki að eyða mikilli orku í þau mál hér og nú. Karnamál Pírata eru mér af sjálfsögðu ótrúlega mikilvæg þá eru nokkur önnur mál sem ég hef verið að skoða nokkuð mikið á undanförnum árum. Ég hef líka brennandi áhuga á menntamálum og utanríkissmálum og þá sérstaklega mannréttindum. Starf mitt í skóla- og frístundaráði er búið að gefa mér mikla innsýn í menntakerfið og hvað það er sem þarf að laga þar. Vandamál menntakerfisins eru hins vegar það djúpstæð að það er takmarkað sem ég get gert á sveitarstjórnarstiginu. Ég tel það nauðsynlegt að taka menntakerfið til heildrænar endurskoðunnar þar sem við horfum í burtu frá gömlum og úreltum aðferðum og förum í það að nýta það almennilega og horfa á það sem fjárfestingu í framtíðinni en ekki kostnað sem á í sífellt meira mæli að setja á herðar nemenda og foreldra.

Ég er sjálfur að vinna í því að ljúka við BA nám í félagsfræði og hef fundið fyrir því alla mína æfi hvernig það er að berjast við það að halda áfram í námi þrátt fyrir mikla erfiðleika, lesblindu, athyglisbrest, geðröskunum og skilningsleysi kennara. Mér tókst samt sem áður að skila inn BA ritgerðinni minni núna í vor, eitthvað sem ég hélt um tíma að ég myndi aldrei ná að gera. Félagsfræðin er fyrir mér að mörgu leiti fræðileg nálgun á hugmyndafræði Pírata. Í grunninum spyrja Píratar og félagsfræðingar sömu spurningarnar “hvernig búum við til betra samfélag?”

Hjá Young Pirates of Europe hef ég unnið að því að efla tengsl ungliðahreyfinga Pírata víða um Evrópu. Ég fékk þann heiður að fá að taka við formannstitlinum eftir að Julia Reda, evrópuþingmaður Pírata í Þýskalandi þurfti að víkja út af starfi hennar. Ég hef farið og hitt Pírata erlendis með reglulegu millibili og mikið er hægt að læra af því sem þeir hafa gert vel úti en einnig af mistökunum. Núna horfa Píratar um allann heim til okkar hér heima. Við eigum möguleika á margfalt meiri árangri en nokkrum örðum Pírataflokki hefur tekist að ná. Því fylgir bæði mikill heiður fyrir okkur en einnig ákveðin ábyrgð. Nú þurfum við nefnilega ekki bara að sýna Íslandi að Píratar geta svo sannarlega komið á nauðsynlegum breytingum heldur einnig þurfum við að sýna að Píratar hvar sem er í heiminum gætu gert hið sama.

Stjórnmál víða um heiminn standa frammi fyrir djúpstæðri krísu. Ég tel að Píratar og hugmyndir okkar um beint lýðræði, upplýstar ákvarðanir, opin umræða og tjáningafrelsi sé hluti af svarinu við þeiri krísu. Hefðbundin stjórnmál hafa brugðist fólki víða um heim og núna er kominn tími til að ný stjórnmál taki við. Það er mín einlæga von að Píratar nái að beyta sér þannig á alþjóðavettvangi að Ísland verði raunverulega að þeirri mannréttindamiðstöð sem við monntum okkur svo mikið af en er að mörgu leiti innantómt kall. Eftir nokkur ár vil ég geta sagt við vini mína í Pírötum erlendis “svona komum við almennilega fram við innflytjendur og flóttamenn” “svona komum við fram við fíkla” “svona komum við fram við þá verst settu í samfélaginu”.