Af hverju geta Píratar ekki sveigt tíma og rúm?

Miklar væntingar eru gerðar til okkar Pírata þessa dagana.

Samkvæmt fjölmiðlum virðast Píratar njóta stuðnings milli 20% og 30% þjóðarinnar en velgengni í skoðanakannanaheimi hefur ekki fært okkur fleiri þingmenn, þeir eru enn þrír; Jón Þór, Birgitta og Helgi Hrafn.
Saman skipta þau með sér þeim störfum og ásamt aðstoðarkonunni sjá þau þrjú um að eiga að setja sig inn í það sama og 19 manna þingflokkar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar, 9 menn Samfylkingar, 7 manns VG og 6 þingmenn Bjartrar Framtíðar.

Píratar eiga eins og aðrir flokkar sæti í fastanefndum Alþingis og fá úthlutað sætum eftir þingstyrk. Fundir fastanefnda eru almennt lokaðir og alloft eru fundir í nefndum haldnir á sama tíma þar sem augljóslega er ekki hægt að halda nefndarfundi á sama tíma og þingmenn eiga að vera í þingsal.

Helgi Hrafn hefur nú í tvö ár frá því hann tók sæti á þingi endað hverja einustu ræðu sína á því að fara fram á að fundir fastanefnda Alþingis séu alla jafna opnir, enda séu þar upplýsingar sem varði almenning, en ekki síður vegna þess að Píratar mega hvorki senda varaþingmenn eða aðra Pírata á fundi, heldur eiga þingmennirnir sjálfir allstaðar að geta mætt í eigin persónu, sem er einungis gerlegt þeim sem geta sveigt tíma og rúm.

Það að Alþingi skuli ekki gera lýðræðislega kjörnum fulltrúum eins og varaþingmönnum kleift að mæta í stað aðalmanna á nefndarfundi er í hæsta máti ólýðræðislegt. Hér hefur flokkur fengið lýðræðislega kosningu sem á að tryggja aðkomu að ákvörðunum og vinnu sem er tekin á lýðræðislegum vettvangi (í þingnefndum).

Annað hvort þarf að breyta fundartímum þannig að fólk geti mætt eða hitt, sem væri enn betri lausn, að flokkar fengju að senda sína fulltrúa OG að fundir séu alla jafna opnir nema sérstaklega þurfi að loka þeim vegna viðkvæmra upplýsinga.

Á meðan Alþingi hefur ekki fundið lausn á því hvernig þingmenn eiga að geta setið tvo og jafnvel þrjá nefndarfundi í einu hefur Mogginn ákveðið að notfæra sér viðverukladdann og slær því upp í fyrirsögn að Píratar mæti verst á þingi.

Þessi fréttaflutningur af lélegri mætingu er vægast sagt undarlegur þegar fundarsköp en ekki leti eða náttúrulögmál eru vandamálið. Píratar eiga ekki að vera á fleiri stað en einum í einu og hafa áhuga á að mæta þar sem þeir eiga sæti. Til dæmis hafa fulltrúar Pírata í Reykjavík nær fullkomna mætingu á vettvangi borgarinnar, en þar eru borgarfulltrúi, varaborgarfulltrúi og næstu menn á lista í fjölmörgum nefndum og ráðum þar sem flokkurinn hefur rétt á lýðræðislegri aðkomu. Fyrir vikið komum við mun meira í verk, fleiri Píratar kynnast lýðræðislegu ferli og með því að skipta með okkur verkum næst betri niðurstaða heldur en ef einum og hálfum borgarfulltrúa væri ætlað að sjá um þetta alltsaman.

Píratar þakka Mogganum fyrir það tækifæri að svara þessum “fréttaflutningi” og gera það hér: Hvernig verja þingmenn Pírata tíma sínum?

“Þingmenn Pírata skipta á milli sín setu í átta fastanefndum auk forsætisnefndar, Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins, þingskapanefndar og fleiri nefnda. Á fundatímum fastanefnda eru þingmenn Pírata yfirleitt á einhverjum þeirra funda sem á dagskrá eru. Það er hins vegar allur gangur á því í hvaða fastanefnd þeir sitja í hverju sinni. Þannig þarf Jón Þór helst á vera á þremur fundum á sama tíma á mánudags- og miðvikudagsmorgnum; efnahags- og viðskiptanefnd, fjárlaganefnd, og umhverfis- og samgöngunefnd. Birgitta þarf að vera á tveimur stöðum í einu á þriðjudögum og fimmtudögum; stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og utanríkismálanefnd. Helgi Hrafn er sá eini sem getur mætt í sínar nefndir án árekstra vegna þess hve heppilega fundartímarnir raðast, vegna þessa er Helgi Hrafn eflaust með bestu mætinguna af þingmönnunum þremur.

Þingmennirnir fara vandlega yfir allar dagskrár nefndafunda og forgangsraða tíma sínum og hvaða fundi skuli mætt á eftir því hvað er á dagskrá funda hverju sinni. Hvað er líklegast til að gera grunnstefnu Pírata að veruleika ræður forgangsröðuninni. Þingmennirnir reyna þannig ávallt að að vera þar sem dagskrárliðir hafa snertiflöt við grunnstefnu Pírata hvort heldur er til góðs eða ills.”

Það er óbjóðandi að Pírötum sé ekki gert kleift að senda fulltrúa á þá fundi sem þeir eiga rétt á í umboði sinna kjósenda.
Það er líka óbjóðandi að flytja villandi fréttir um mætingu sem eiga rót í því hvernig innanhússkipulag Alþingis refsar smáum flokkum, og gera svo þingmennina sjálfa ábyrga fyrir að geta ekki beygt tíma og rúm til að vera á fleiri en einum stað í einu.

Það er lágmarkskrafa að varaþingmenn fái að sinna þessum störfum, ef ekki aðrir lýðræðislegir fulltrúar flokksins, en þar sem mál nefndanna eiga erindi við alla tek ég enn og aftur undir með Helga og legg til að fundir fastanefnda Alþingis séu alla jafna opnir.

Birtist einnig á dv.is )

Hér til hliðar má sjá yfirlitsmynd sem sýnir raunverulega mætingu allra þingmanna
mætingánefndarfundi

Uppátækjasamir borgarar

hér er gott dæmi um það hverju einstaklingsframtakið áorkar en Styrmir Barkarson íbúi í Reykjanesbæ einfaldlega lagði fram fyrirspurn og fékk svör frá bæjarfélaginu sínu.

Óskaði eftir upplýsingum um laun æðstu stjórnenda hjá Reykjanesbæ

Ég ætla ekki að fullyrða að Styrmir sé Pírati, en þegar ég las þessa frétt hugsaði ég “örugglega Pírati” 😉

Lýðræðisþynning

3884922343_990dd907f0_oMeirihlutinn ræður sagði Bjarni og miðað við lýðræðissamfélag þá er það alveg rétt. Hvað þýðir annars “meirihluti” í íslensku stjórnkerfi? Jú, við erum með fulltrúalýðræði sem þýðir að kjósendur afsala sér atkvæði sínu til lista af fulltrúum með því að merkja x við ákveðinn listabókstaf í kosningum á fjögurra ára fresti. Möguleikar kjósenda á að hafa áhrif á uppröðun fulltrúa á þessum listum í sjálfum kosningunum er mjög lítill.

Á bak við hvern listabókstaf eru ýmis loforð og samþykktar stefnur félaga þeirra flokka sem merkja sig með viðkomandi bókstaf. Eftir að niðurstöður kosninga eru birtar fær einhver flokkur stjórnarmyndunarumboð og í kjölfarið er búinn til stjórnarsáttmáli sem inniheldur einhvers konar útgáfu af þeim loforðum og samþykktum sem birtust fyrir kosningar.

Lýsingin hér að ofan er skilgreiningin á “lýðræðisþynningu”: Hversu langt er kjósandi frá því að hafa áhrif með atkvæði sínu á ákvarðanatöku. Á Íslandi breytist atkvæði kjósanda í fulltrúa sem kjósandi hefur litla aðkomu að því að velja yfir í stjórnarsáttmála sem inniheldur mögulega ekki loforð og stefnur sem leiddu til þess að kjósandi merkti x við ákveðinn flokk.

Það eru fleiri atriði sem stuðla að lýðræðisþynningu á Íslandi, mismikið vægi atkvæða, fulltrúar sem vinna ekki að almannahag, flokkar sem svara kalli annarra en almennings, 5% þröskuldur (“108. gr. Þau stjórnmálasamtök koma ein til álita við úthlutun jöfnunarsæta sem hlotið hafa a.m.k. fimm af hundraði af gildum atkvæðum á landinu öllu.”), … og svo mætti lengi telja.

En eins og Bjarni sagði, þá ræður [lýðræðislega útþynntur] meirihlutinn. En! Málið er ekki svona einfalt. Í alþingiskosningunum 2013 voru greidd 193.792 atkvæði*. Af þeim atkvæðum fengu núverandi stjórnarflokkar 96.627 atkvæði. Það eru 49,861191380449141347424042272127% atkvæða … 49,86% er ekki meirihluti atkvæða. Ég verð því að spyrja, hvernig getur núverandi stjórn látið sér detta það í hug að láta út úr sér orðin “meirihlutinn ræður”?

Vandamálið er nefnilega þetta; lýðræðisþynningin þar sem atkvæði teljast á flokka, mismikið vægi atkvæða, lýðræðisþröskuldar og meirihlutamyndun óháð atkvæðahlutfalli leiðir til þess að flokkar sem fá 49,86% greiddra atkvæða fá 60,3% þingsæta.

Bilað? Ekki satt?

En bíðið! Það er ekki allt búið. Kerfið er klikkaðra en þetta. Út af 5% lýðræðisþröskuldinum þá mættu 27.097 manns og greiddu atkvæði en fengu engan fulltrúa á alþingi. Þetta voru kjósendur sem kusu Dögun, Flokk heimilanna, Lýðræðisvaktina, Hægri græna, Regnbogann, Landsbyggðarflokkinn, Sturlu Jónsson, Húmanistaflokkinn og Alþýðufylkinguna – ásamt því að skila auðu eða ógildu. 27.097 manns væru stærra kjördæmi en NV-kjördæmi, pínulítið minna en NA-kjördæmi. Misskipting atkvæða, sem er nægilega mikið vandamál, er því smámál miðað við hversu margir kjósendur fengu ekki fulltrúa á alþingi þrátt fyrir að hafa tekið þátt í kosningunum.

Meirihlutinn ræður. Það er alveg hárrétt. Málið er hins vegar ekki svo einfalt – það er nefnilega ýmislegt sem gerist á milli þess sem kjósandi greinir frá skoðun sinni þangað til að ákvörðun er tekin. Eina leiðin til þess að laga það er að gera leiðina frá kjósanda að ákvörðun styttri; atkvæði leiðir til ákvörðunnar. Einungis þá er hægt að segja með réttu: “meirihlutinn ræður”.

* Inniheldur auð og ógild atkvæði. Þeir sem greiddu þau atkvæði höfðu fyrir því að mæta á kjörstað og greiða EKKI stjórnarflokkum atkvæði sitt. Tæknilega séð eru þau því í stjórnarandstöðuhóp sem situr alltaf hjá í öllumatkvæðagreiðslum. Atkvæði þeirra skipta máli, þetta voru 4.802 atkvæði.

Tímabært að skoða kosti og galla Borgaralauna

1. maí er dagur til að fagna framlagi verkalýðshreyfingarinnar, baráttu hennar og afrekum í gegnum árin. Stéttarfélög hafa eflt verkalýðinn til muna og gefið okkur 40 tíma vinnuviku og 8 klst vinnudag, en í dag hafa hnattvæðing og tækniframfarir heft getu stéttarfélaga til að knýja fram betri kjör.

Samkvæmt skýrslu frá Oxfordháskóla 2013 og nefnist „Framtíð atvinnumála: Hversu viðkvæm eru störf gagnvart tæknivæðingunni?” eru miklar líkur á að helmingur allra starfa í Bandaríkjunum hverfi vegna tækniframfara. Samkvæmt höfundum eru störfin sem eru í mestri hættu láglaunastörf sem krefjast lítillar þekkingar. Allt bendir til að fjölgun nýrra starfa mun ekki halda í við þau sem tölvur og vélmenni taka yfir. Mikill þrýstingur á bótakerfi hins opinbera mun kalla á skilvirkari velferðarkerfi.

Ljóst er að hægt er að líta á þessa þróun sem mikla ógn við núverandi samfélagsuppbyggingu og ríkjandi hugmyndafræði. Spurningin er hvernig við ætlum að bregðast við þessari þróun. Munum við nota mikilvægan tíma okkar og orku í að spyrna við óhjákvæmilegri þróun til þess eins að viðhalda úreltri hugmyndafræði eða munum við líta á þessa þróun sem tækifæri til að byggja öðruvísi framtíð?

Nú þegar að sjálfvirkni starfa fer ört vaxandi er tímabært að skoða nýjar lausnir en ein sú hugsanlega er skilyrðislaus grunnframfærsla eða einfaldlega, borgaralaun.

Borgaralaun er hugmynd að kerfi sem ætlað er að leysa almannatryggingakerfið af hólmi eða í það minnsta einfalda það verulega og gera það skilvirkara með því að minnka skriffinsku og eftirlit. Þetta er framkvæmt með því að greiða hverjum og einum borgara fjárhæð frá ríkinu óháð atvinnu eða öðrum tekjum. Þessi upphæð er hugsuð sem grunnframfærsla til að tryggja efnahagslegu og félagslegu réttindi borgara landsins.

Thomas Paine hélt því fram að „jörðin, í sínum náttúrulega ham er, og verður alltaf, sameiginleg eign allra jarðarbúa.“ Paine vildi meina að allir, hvort sem þeir væru ríkir eða fátækir, ættu að fá greiddan arð af sameiginlegum auðlindum landsins. Þessi arður eða laun væru eðlilegur og meðfæddur réttur allra borgara. Paine sagði “Það er ekki góðgerðarstarfsemi, heldur réttindi, ekki ölmusa heldur réttlæti, sem ég tala fyrir.”

Borgaralaun gætu jafmframt, með útrýmingu fátæktar minnkað glæpi, eflt heilbrigði, menntun, lýðræðisþátttöku, sjálfstæði og nýsköpun og myndi hafa þau áhrif að valdefla verkalýðinn á einstaklingsgrundvelli. Getan til að segja „nei“ við vinnuveitenda hefði t.d. óneitanleg áhrif á hlutdeild verkalýðsins í hagnaði fyrirtækja með betri launum, starfsskilyrðum, hlunnindum o.fl. En tilraunir með borgaralaun víðsvegar um Norður-Ameríku sýna jafnframt að atvinnuþátttaka, og því mannauður atvinnulífsins, eykst eins og kemur fram í þingsályktunartillögu Pírata um að kostir og gallar þessa möguleika skuli skoða á Íslandi.

Það er orðið tímabært að rannsaka hvort að yfirvofandi atvinnuleysi sé yfir höfuð eitthvað til að óttast.