Af hverju ég tel mig vita að bóluefni séu ekki skaðleg þrátt fyrir að hafa aldrei lesið rannsókn um það

Undanfarið hefur geisað upp umræða sem þrátt fyrir að vera orðin kominn til ára sinna hefur aldrei verið háværari, allavega ef internet bubblan mín er eitthver mælikvarði. Þessi umræða hefur komið upp öðru hverju og alltaf er fólk ósammála, en þó er yfirgnæfandi meirihlutinn samt sem áður alltaf hlyntur bólusetningum og handviss um ágæti þeirra.

Ég hef horft upp á samræður þar sem fólk er kastar hlekkjum af frétta- og rannsóknar-greinum að hvort öðru í von um að sannfæra hvort annað. Ég viðurkenni hérmeð að ég hef aldrei lesið rannsóknargreinar um þessi mál. Ég skammast mín ekki einu sinni fyrir það. Ef ég ætti að lesa allt það sem fólk er að ota að mér að lesa væri lítill tími fyrir nokkuð annað í lífinu hjá mér. Ég er ekki að segja að fáfræðin í þessu máli geri mig að eitthverjum sem getur sagt öðrum hvernig þeir eiga að hugsa í þessu máli en mér finnst ég samt geta tekið afstöðu í þessu máli og það jafnframt frekar markvisst.

Þessi umræða er orðin nógu gömul og fólk búið að deila nógu lengi og hatramlega um þessi mál og umræðan hefur farið nógu víða um að ef það væru eitthverjar ástæður fyrir áhyggjum þá væru þær ástæður komnar fram. Vísindasamfélagið er of stórt og í of mörgum heimsálfum til þess að það geti tekið afstöðu til þess að taka ekki mark á rannsóknum sem sýna fram á skaða eða reyna að koma í veg fyrir slíkar rannsóknir. Ef að um væri að ræða yfirhylmingu eða þöggun á hluta lyfjaiðnaðarins eða vísindasamfélagsins þá væri það einfaldlega komið fram á þessu stigi málsins. Það er ekki bara vísindasamfélagið sem að spannar allan heiminn heldur fréttasamfélagið líka og vísindasamfélagið þyrfti að fá fréttaheiminn með sér í lið til að halda umræðunni þannig að þeir sem trúa á skaðsemi bólusetninga séu með skoðanir bygðar á rangfærslum. Þó að ég lesi ekki þessar rannsóknir en ég veit að það eru nógu marga sem nenna því til þess að það væri meiriháttar ósennilegt að halda eitthverjum sannleika um skaðsemi bóluefna í skefjum.

Fram hafa komið hræðilegar aðferðir og iðjur stundaðar innan læknastéttarinnar í gegn um tíðina, ég nefni thalidomide notkun hjá gangandi mæðrum, radium stangir stungið í nefhol hjá börnum og framheila skurðlækningar á geðsjúklingum. Allar þessar iðjur hættu skömmu eftir að fólk fór að gagnrýna þær og fóru að kafa ofan í skaðsemi þeirra. Miðað við að Dr. Wakefield fór að róta upp efasemdum um bólusetningar árið 1998 og enn er ekkert haldbært komið í umræðuna sem að fær fólk til að sammælast um skaðsemi bólusetninga þá tel ég að mér geti verið rótt með afstöðu mína.

Þó svo að það sé til fólk sem virðist algerlega sannfært um hið gagnstæða þýðir ekki að það sé einnhvað haldbært á bak við áhyggjur þeirra. Ég veit um nógu marga sem, ekki bara trúa á Jesús, heldur eru fyrirmunað að skilja af hverju aðrir sjá endurreisn hanns sem ósennilega. Þetta fólk fær mig til þess að skilja að sumir eru hreinlega orðnir of fjárfestir í eigin raunveruleika til þess að ég eða nokkur annar sé að fara að snúa þeim til betri vegar. Aftur á móti sé ég litla þörf að fara að kasta fúkyrðum eða dónaskap til þerra sem ekki deila minni heimsmynd. Annað með umræðuna er að jafnvel þó að sumir snúast aldrei þá eru ennþá til þeir sem að enn hafa ekki tekið afstöðu og ég myndi segja að umræðan sé fyrst og fremst að þjóna þeim. Þá beri oftast hæst að vera kurteis, málefnalegur og vera með hlekki sem fólk eins og ég nennir ekki að lesa.

Posted in Uncategorized