Pyntingar og bandamenn

Við Íslendingar erum í þeirri erfiðri stöðu að geta ekki séð um varnir okkar á eigin spýtum. Við erum of fá og það kostar of mikið. Eini raunverulegi valkosturinn okkar er að taka þátt í varnarbandalagi með stærri og sterkari þjóðum til að tryggja öryggi okkar. Eftir seinni heimstyrjöldina lá frammi fyrir okkur sá kostur að ganga í NATO og sá kostur var hreint ekki sá versti. Ný yfirstaðinn heimstyrjöld var búin að sýna okkur að ekki er hægt að treysta á að vera látin í friði á þeim forsendum að láta aðra í friði. Bandaríkin, ásamt öðrum vesturlöndum, höfðu sigrað stríðið gegn gríðarlegri ógn sem að valltaði yfir margar þjóðir. Sá ógnvaldur fór fram með miskunarleysi og virðingarleysi fyrir manneskjum sem að ofbauð fólki innst inn í hjartarætur. Þegar við völdum að ganga í NATO gengum við til liðs við bandamenn sem að höfðu barist gegn því virðingaleysi og miskunarleysi. Einginn þjóð er saklaus í stríði, stríð er hræðilegt ástand sem að skilur eftir sig eyðileggingu og rústir og raskar lífum fólks á hræðilegan hátt, en fólk var sammála um að stríðsástand afsakaði ekki suma hluti. Þær þjóðir sem stóðu með sigur úr bítum komu sér saman um að skilgreina þá verstu sem stríðsglæpi. Við fundum í NATO bandalag sem að vildi verja mannréttindi og beita ekki stríðsglæpum, jafnvel undir hræðilegustu kringumstæðum.

Eftir seinni heimstyrjöldina fékk Ísland á næstu áratugum heilmikið fjármagn í formi marshal aðstoðar. Þessi aðstoð var að hluta grundvöllur fyrir þeirri uppbyggingu sem að hefur orðið á þessu landi síða þá. Við eigum því þessari aðstoð mikið að þakka og það er ekki skrítið að við höfum haldið okkar okkar enda í þessu bandalagi þegar komist hefur til kastana í gegn um tíðina. Í raun hefur krafan aldrei verið neitt ofboðslega há á okkur. Samstöðu yfirlýsing hér og þar þegar að bandamenn okkar komast í kast við önnur lönd, friðagæsluliðar hér og þar þegar við getum, smá sjóðir í þjálfun og uppbyggingu á átaksvæðum. Ekkert sem að var okkur ofaukið og í raun var tryggingin á frið og sú hugarró fem honum fylgir miklu verðmætari heldur en það fjármagn og pólitískur kostnaður sem okkur hefur orðið af sökum þessa bandalags.

Nú stöndum við á krossgötum. Þetta bandalag sem að hefur verið okkur í tíðina afar gott og kostnaðarlítið er orðið meingað. Margir myndu segja að það hafi orðið það fyrir löngu og að allar hugmyndir um annað stafast af því að neita að horfast í augu við raunveruleikann. Það má vera, það er ekki hagur okkar að þetta bandalag væri eitrað og í raun skiljanlegt að reynda að grafa hausinn í sandinn. Nú er hins vegar einginn sandur eftir og raunveruleikinn starir okkur í augun. Við erum í bandalagi með þjóð, sem stundar pyntingar. Hræðileg mannréttindabrot og stríðsglæpur á borð við pyntingar er ekki eitthvað sem við getum tekið þátt í. Það er erfitt að trúa því að okkar bandalagsbróðir, sem að er svo oft bendlaður við frelsi og borgararéttindi, landið sem að lengi vel var frummynd réttarríkisins, sé kominn á þennan stað. En þannig er það nú samt. Margt hefur gengið á seinustu áratugi og kannski ekkert skríðið að fólk sé orðið dálítið dasað. Fregnir og vísbendingar um að ástandið væri orðið óásættanlegt komu í bylgjum. Árásir á lönd á sem svo reyndust vera byggðar á fölskum forsendum. Allt hefur þetta styrkt okkur í því að horfa undan og magnað upp meðvirknina. Við höfum neitað að trúa að vinur okkar væri fársjúkur og að við værum með þögn okkar og opinberum stuðningi að taka þátt í veikinni með honum. Manni verður hugsað til sögunar um froskinn sem að hoppar ekki úr pottinum sem að er settur á suðu hægt og rólega því að hitinn rís svo rólega að froskurinn skynjar ekki hættuna fyrr en um of seint.

Nýleg skýrsla um pyntingar Bandaríkjanna ætti bara að gefa okkur einn kost í stöðunni. Við lestur hennar ætti öllum að vera ljóst að ekkert annað er eftir í stöðunni en að snúa baki við þeim sem telja sig meiga koma svona fram við manneskjur. Þetta er svo langt frá því að vera í lagi. Ég hvet alla til að tjá sig um þetta mál og fordæma þessar aðgerðir. Ég hvet alla til að hafa samband við sína þingmenn, sama hverja maður kaus, og byðja þá um að taka aftöðu gegn þessu grófu mannréttindarbrotum. Pyntingar eru stríðsglæpur og Ísland á ekki að vera meðsekt í þeim. Annað er firra og uppgjöf gegn illsku.

Posted in Uncategorized