Standa kosningaloforð í vegi fyrir góðum lausnum?

“Forsendubrestur” var mikið notað orð í síðustu alþingiskosningum. Það voru ýmsar hugmyndir í gangi hvernig átti að glíma við þennan brest og það vandamál sem hann skapaði. Einn stjórnmálaflokkur gekk hvað lengst í að bjóða lausn á vandamálinu (xB) og það verður að viðurkenna að ef útfærslan þeirra hefði tekist þá væri hún algjör snilld.

Það getur vel verið að það sem ég kem til með að segja komi fólki á óvart að einhverju leiti – en ég ætla að hrósa útfærslunni dálítið. Hins vegar er það dálítið stórt ‘en’. Þannig er mál með vexti að í aðalatriðum þá uppfyllir xB kosningaloforðið mjög vel. Það eru ýmis smáatriði sem voru auðvitað ekki útskýrð í kosningabaráttunni, 4,8% verðbólguviðmiðið (sem varð að 4%), upphæðin sem leiðréttingin myndi kosta – þar læddist upphæðin 300 milljarðar inn í umræðuna á einhvern hátt sem frambjóðendum xB tókst nokkurn vegin alltaf að ‘skauta’ fram hjá að væri þeirra loforð með því að svara ekki beinni spurningu um þá upphæð. Þegar upp er staðið þá stendur upphæðin í 100 milljörðum, 80 í leiðréttingu og 20 í tapaðar skatttekjur (miðað við 30% skatthlutfall). Eftir standa að vísu 50 milljarðar sem fólk verður að taka sjálft að úthluta úr viðbótarlífeyrissparnaði.

Viðbótarlífeyrissparnaðurinn nýtist að vísu fleiri en þeim sem urðu fyrir forsendubresti. Þar er samt enginn sparnaður í raun nema út af skattaafslættinum, annars er bara verið að kaupa steypu fyrir lífeyri – ekkert rosalega áhættusöm fjárfesting í sjálfu sér þó það fari mjög mikið eftir aðstæðum (og staðsetningu).

Í heildina á litið þá er kosningaloforðið uppfyllt, forsendubresturinn (áranna 2008 og 2009) hefur verið leiðréttur. Rétt skal vera rétt.

En nú að hinu stóra ‘en’ … EN, það er pínulítið vandamál. Loforðið var vissulega um að leiðrétta stökkbreytt húsnæðislán, og það var uppfyllt. Eftir standa allir þeir sem urðu fyrir tjóni af sömu ástæðu og stökkbreytti húsnæðislánunum, möguleikinn að lausnin verði ekki samkvæmt loforði og aðrar (betri) lausnir. Skoðum það aðeins betur.

Allir urðu fyrir tjóni af verðbólguskotinu sem hefur verið kallaður forsendubrestur. Verðbólga jókst og kaupmáttur rýrnaði greinilega – mjög mikið meira að segja. Síðan þá hefur ýmislegt gerst, margir eru komnir aftur í plús (þó það megi auðvitað rökræða að þeir væru mögulega í meiri plús ef ekki hefði orðið hrun, við því er þó hægt að segja á móti að án bólumyndunarinnar þá væru þeir líklega á sama stað og núna)! Fullt af fólki varð fyrir miklu meira tjóni, lánið fór úr öllum böndum, það missti húsnæðið og allt það slæma sem fylgir því. Hvernig kemur leiðréttingin út fyrir það fólk? Leiðréttingin byrjar á því að greiða niður vanskilin, eftir stendur fólk mögulega enn með vanskil og án lækkunar höfuðstóls. Lán sem, án forsendubrestsins hefði líklega haldist í skilum. Forsendubresturinn hefur samt verið leiðréttur, en hvað með afleiðingar brestsins? Nei, leiðréttingin skiptist mjög misjafnlega og ójafnt til fólks sem varð fyrir þessu tjóni vegna þess sem hefur gerst síðan.

Fólk varð semsagt fyrir mismiklu tjóni _eftir_ forsendubrestinn, sem hefur gríðarlega mikil áhrif á hvað leiðréttingin gerir fyrir viðkomandi. SDG segir að það sé ekki hægt að mismuna fólki, það sé ekki hægt að ákveða að ‘þú færð leiðréttingu en ekki þú’. Það er alveg hárrétt, Tryggvi Þór skellir því hins vegar á samvisku fólks að þiggja ekki leiðréttinguna ef fólk þarf ekki á henni að halda. Í staðinn fyrir góða og sanngjarna lausn þá biður hann um að fólk sýni ríkinu þá sanngirni sem það getur ekki sýnt á móti. Eins og SDG segir, þá snýst þetta ekkert um hvort fólk ‘þurfi á peningunum að halda eða ekki’ – er ekki verið að taka þennan pening frá ‘hrægömmunum’ en ekki ríkinu? Er ekki verið að skila peningum sem þessir ‘hrægammar’ tóku frá fólki? Hvers vegna í ósköpunum ætti fólk að segja ‘nei takk, ég þarf ekki á þessu að halda’? Fólk var rænt! Ef ég ætti fullt af pening og einhver myndi keyra á bílinn minn þá myndi ég ekki bara segja: “Hey, ég borga!”

Ég var varamaður á þingi um daginn og varð þar vitni að samtali tveggja einstaklinga úr sitt hvorum flokki og sem sitja sitt hvoru megin við stjórnarlínuna. Hvor um sig veit mjög mikið um þetta mál og hafa glímt við það í langan tíma – og það var magnað að heyra, þeir voru sammála um hvernig ‘hefði’ átt að leysa þennan forsendubrest. Vandamálið var kannski, eins og ég benti þeim á að það var eitthvað ‘kosningaloforð’ að þvælast fyrir þessari ‘bestu lausn’ þeirra. Virkar lýðræðið í raun og veru svona? Er ekki hægt að segja svona eftir á, “nei, vitið þið … þetta var ágætis hugmynd en við erum með betri núna”? Erum við að líða fyrir að það _verður_ að uppfylla kosningaloforð þrátt fyrir að það sé til betri lausn? (Fyrir áhugasama þá snérist þetta útfærsluatriði um jöfnun forsendubrestsins með ‘ágóða’ af húsnæði umfram verðbólgu árin á undan brestinum – semsagt, reikna öfugan forsendubrest fyrri ára sem inneign inn í mínusinn fyrir árin 2008 og 2009).

Alvarlegra vandamál – allir hinir sem urðu fyrir tjóni en fá enga leiðréttingu. Námsmenn, leigjendur, búsetar, ríkissjóður  og allir sem urðu fyrir kjaraskerðingu. Nú spyr ég, það er fordæmi fyrir því að einn hópur fái leiðréttingu – hvers vegna ekki að hækka þennan bankaskatt af þrotabúunum (‘hrægömmunum’) og leiðrétta allt hitt líka? Ég meina, þetta er bara skattur – miðað við SDG. Af hverju ekki 15% eða eitthvað í staðinn fyrir þessi tæpu 3% til þess að borga fyrri allt hitt … 100%? Hver væri munurinn – lagalega séð? Ef skattlagningin er á annað borð lögleg og réttlát – samkvæmt xB, af hverju ekki að fara alla leið og leiðrétta forsendubrestinn fyrir alla hina? Vegna þess sko, það má ekki segja “þú færð leiðréttingu en ekki þú” – ha? Ef eitthvað er, þá ætti að vera miklu einfaldara að reikna og leiðrétta til dæmis námslánin. Hvað myndi kosta mikið að leiðrétta þau eftir sömu útreikningum og húsnæðislánin?

Sigmundur Davíð – af hverju má leiðrétta húsnæðislán en ekki námslán eða ríkissjóðslán eða leigu eða … ? Einfalda svarið er einfaldlega af því að því var lofað, ekki hinu. Svarið sem enginn vill gefa er af því að það gaf flest atkvæði.

Standa kosningaloforð í vegi fyrir góðum lausnum? Já. Af hverju? Af því að lýðræðið okkar er lélegt. Við fáum bara að kjósa um mál á fjögurra ára fresti. Af því að eitt kosningaloforð eða umræðuefni verður til þess að atkvæði dreifast óeðlilega á milli flokka en ekki málefna. Í krafti eins kosningaloforðs fær nú einn flokkur ákvörðunarvald í öllum málefnum – ekki bara þeim sem var kosið um. Afleiðingarnar af því koma niður á okkar arði af sameiginlegum auðlindum, rotnun grunnstoða samfélagsins svo sem heilbrigðiskerfisins, breytinga með rökunum “hér voru kosningar og við ráðum”.

Ég segi einn flokkur, en auðvitað eru tveir í stjórn. Hinn flokkurinn situr hins vegar og þegir þunnu hljóði um aðgerð sem fer eins gegn þeirra grunnstefnu og hægt er að hugsa sér – nauðsyn þeirra að sitja að völdum er mikilvægari en að standa með sínum gildum. Allt út af einu kosningaloforði sem er mikilvægara að uppfylla en að gera rétt og gera vel.

Í stuttu máli – kosningaloforðið um leiðréttinguna var uppfyllt á eins þröngan hátt og hægt var – í stað þess að velja betri lausnir. Vel gert (lesist með miklum kaldhæðnistón). Nú þegar kosningaloforðið er uppfyllt, er umboð flokksins ekki bara búið? Ég meina, man einhver eftir öðrum kosningaloforðum?