Af byssum og tölvuleikjum

Þótt ég hafi helst verið að gantast með að þekkja MP5 úr tölvuleikjum, þá finnst mér eitt fyndið og annað sorglegt við það hvernig til dæmis Morgunblaðið bregst við, þegar menn láta eins og ég hafi sagst vera einhver sérfræðingur af tölvuleikjaspilun. Það er einfaldlega ekki það sem ég sagði. Ég sagðist vita nákvæmlega hvaða vopn þetta sé og ég veit nákvæmlega hvaða vopn þetta er eins og allir sem hafa spilað nokkra vel valda tölvuleiki. Sumum finnst það greinilega fullkomlega ótrúlegt að nokkurn hlut megi læra af tölvuleikjum, en gott og vel, það er þeirra eigin missir. Þetta finnst mér meira fyndið en sorglegt.

En það sem mér finnst hinsvegar sorglegt við viðbrögðin er að menn væru í alvörunni betur færir í þessa umræðu ef þeir þekktu nokkur einföld atriði við byssur, hluti sem eru svo einfaldir að maður getur í alvörunni lært um þá í tölvuleikjum vegna þess að þeir eru í alvörunni það einfaldir. Tölvuleikir ofureinfalda augljóslega hlutina, en það er himinn og haf milli engrar þekkingar og smávægilegrar.

Áður en ég held áfram ætla ég að útskýra muninn á automatic og semi-automatic, mun sem er augljós hverjum sem spilar (almennilega) byssuleiki. “Automatic” þýðir að byssan er á fullu þegar maður heldur inni gikknum, eins og maður sér jafnan í hasarmyndum. “Semi-automatic” þýðir að eitt skot kemur í hvert sinn sem maður tekur í gikkinn, eins og skammbyssur virka jafnan í kvikmyndum. Síðan eru til byssur sem eru með “burst”, þar sem þær skjóta t.d. 3 skotum í hvert sinn sem maður tekur í gikkinn en eftir því sem ég best veit eru sennilega flestar MP5 byssur bara með automatic og semi-automatic, þótt það séu reyndar ábyggilega til útgáfur með “burst” eiginleikum án þess að ég viti af þeim.

Allavega, háttvirtur þingmaður Vilhjálmur Árnason bendir réttilega á það í pontu í þrumuræðu sinni þar sem hann kvartaði sáran undan því að almenningur vildi þekkja fyrirkomulag löggæslunnar of vel, að það er hægt að stilla MP5 byssur á semi-automatic. En það sem er kannski ekki áheyrendum augljóst (nema þeir hafi spilað nóg af byssuleikjum) er að það sama gildir um svo gott sem alla hríðskotabyssur. Það gerir þær ekki að minni hríðskotabyssum. Það er alveg hægt að stilla M4 carbine á semi-automatic líka.

Ef þessar byssur væru fastar á semi-auto, þá væri mjög erfitt að trúa því að þær væru frá norska hernum. Ennfremur hefðu menn eins og Vilhjálmur Árnason einfaldlega svarað því þannig að þetta væru ekki hríðskotabyssur og þá hefði nú heldur betur dregið úr rostanum í stjórnarandstöðunni… eins og hún er kölluð (*hint*, *hint*).

En óbreytt MP5 byssa getur skotið hundruðum skota á mínútu og er reyndar með afbrigðum fljót. Þótt hvert skot sé lítið miðað við eitthvað sem kemur út úr M4 carbine vélbyssu eða sambærilegu tæki, þá hefur MP5 helst þann eiginlega að vera mjög hraðvirk.

Sumsé, þetta eru vissulega hríðskotabyssur. Það þýðir ekkert að draga úr því með að benda á að það sé semi-automatic stilling á þeim. (Fyrirgefið en ég kemst ekki hjá því að benda á að þetta er augljóst öllum sem spila byssutölvuleiki.)

Nú er eitt sem af einhverjum ástæðum virðist ekki vera á hreinu en það er að enginn er að æsa sig yfir því að sérsveit ríkislögreglustjóra, Víkingasveitin eða Landhelgisgæslan hafi svona vopn. Reyndar sagði ég í fyrstu ræðu minni á Alþingi um málið að ef menn vilja efla sérsveitina vegna skamms viðbragðstíma og manneklu, þá styð ég það heilshugar að efla hana mjög verulega, enda studdi ég og styð ennþá aukningu fjárs til þjálfunar og búnaðar bæði almennu lögreglunnar og sérsveita.

En að setja þessar byssur í bíla almennra lögreglumanna er einfaldlega ekki það sama! Sérstaklega vegna þess að ekkert hefur gerst hér á landi sem kallar á nauðsyn þess og þótt sú nauðsyn gæti fræðilega einn daginn orðið til, þá er hún ekki til staðar eins og er og það er fullkomin vitfirra að ætla að vopna sig upp fyrir ógn sem kemur kannski einhvern tíma í framtíðinni. Við gætum alveg eins bara breytt þessu í alvöru lögregluríki, bara til öryggis. Nú vona ég auðvitað að ekkert gerist sem kalli á þessa vopnvæðingu og ég viðurkenni að sama skapi að það gæti alveg gerst, en það hefur einfaldlega ekki gerst.

Ef þetta væri raunverulega ástæðan, þ.e. sú að núna standi þjóðin frammi fyrir löggæsluógnum sem kalla á þessa vopnvæðingu, þá hefði hún væntanlega verið hluti af þessari margumtöluðu 500 milljón króna aukafjárveitingu sem undirritaður studdi og styður heilshugar. – En hún er ekki hluti af því vegna þess að þörfin á þessari vopnvæðingu hefur hvergi komið fram, hvorki í samfélaginu né í neinum skýrslum.

En það allra versta við málflutning verjenda þessarar þróunar er að þeim virðist finnast það bara algerlega sjálfsagt að lögreglan ákveði bara sjálf hvaða vopn hún hafi aðgang að!

Lögreglunni hefur hingað til verið treyst til þess að gæta hófs í þessum málum enda hefur hún jafnan gert það. En viðbrögð stuðningsmanna vopnvæðingarinnar hræða mig í reynd mest, vegna þess að þau undirstrika að æðstu mönnum lögreglunnar er ekki treystandi til að taka tillit til ótta almennings við vopnvæðingu lögreglunnar.

Það er lexía þessarar sögu; sú hugmynd æðstu ráðamanna lögreglunnar að þeir séu einfaldlega góði kallinn og að þeim sé einfaldlega treystandi fyrir hvaða vopnum sem er og að þeir geti bara vopnað sig að vild, og að meira vald þeim til handa samsvari sjálfkrafa meira öryggi borgaranna. – Það er skilningsleysi þeirra á því nauðsynlega valdajafnvægi sem á að ríkja milli almennings og yfirvalda, sem hræðir mest. Í lýðræðisríki eru yfirvöld hrædd við almenning en ekki öfugt.

Að lokum má ítreka það í milljónasta skiptið að enginn hefur gagnrýnt vopnaeign sérsveitar ríkislögreglustjóra, Víkingasveitarinnar eða Landhelgisgæslunnar. – Sá málatilbúnaður er fyrirsláttur. Þetta snýst ekki um sérsveit ríkislögreglustjóra, Víkingasveitina eða Landhelgisgæsluna. Þetta snýst ekki um skammbyssur í eigu almennu lögreglunnar heldur, læstar í skápum á lögreglustöð eða jafnvel í bílum á svæðum þar sem vegalengdir eru langar. Það hefur enginn býsnast yfir þessum atriðum og það vita allir að svona hafi þetta verið áratugum saman.

Hríðskotabyssur í höndum almennu lögreglunnar er hinsvegar ekki ákvörðun sem á heima hjá hverjum lögreglustjóra fyrir sig. Lögreglan hefur ekkert vald nema í gegnum lýðræðislegt umboð og það lýðræðislega umboð er ekki til staðar í þessu tilfelli. Úr því þarf að bæta.

Posted in Uncategorized

Svona kemstu inn á vefsvæði Ríkis Islams

Nú er eitt sem má alveg taka fram varðandi afskráningu khilafah.is – Ríki Islams valdi greinilega “.is” í von um það að fólk myndi halda að “.is” tilheyrði Ríki Islams eða eins og það er á ensku, Islamic State. Það er mjög villandi og í rauninni gert til þess að taka yfir þýðingu lénsins. Mér hefði þótt málefnaleg ástæða að hafna skráningu lénsins eða afskrá það á þeim forsendum ef reglurnar byðu upp á það. – Þá mæli ég með því að reglurnar verði gerðar þannig.

En að afskrá lénið í þeim tilgangi að fjarlægja aðgengi að efninu sem er að finna á síðu Ríkis Islams er hinsvegar fullkomlega óábyrg nálgun. Almenningur verður að hafa rétt og færi á því að rannsaka og ræða opinskátt ljótustu hugmyndirnar sem finnast í mannlegu samfélagi, sérstaklega þegar um er að ræða hrylling á borð við Ríki Islams. Ég veit að þessi ákvörðun var byggð á landslögum, enda er ég einmitt að benda á að þau landslög eru óábyrg, hættuleg og röng, sama hversu vel meint þau séu.

Fólk sem vill læra eitthvað um nasisma þarf að hafa aðgang að Mein Kampf og ræðum Hitlers. Fólk sem vill læra eitthvað um Ríki Islams þarf sömuleiðis að hafa aðgang að málgagni þess. Ekki þrátt fyrir að Ríki Islams sé fullkomin skelfing heldur einmitt vegna þess að það er fullkomin skelfing. Ég get fullyrt að þessi samtök séu fullkomin skelfing vegna þess að ég hef lesið nógu mikið frá þeim til að geta fullyrt það með fullkominni vissu. Enginn annar ákvað það fyrir mig, heldur dróg ég þá ályktun sjálfur eftir að hafa sjálfur lesið þeirra eigin orð og þeirra eigin tilvitnanir í sín eigin helgirit.

Rannsóknarvald á alvarlegum fyrirbærum eins og Ríki Islams má ekki liggja í höndum einhverra örfárra útvalinna “sérfræðinga”, hvort sem það eru fréttamenn eða yfirvöld, heldur verður hver sem er að geta komist að hinu sanna í málinu á sínum eigin forsendum, með hliðsjón af því sem meðlimir Ríkis Islams fullyrða sjálfir.

Það er hinsvegar ekki hægt að andmæla málflutningi sem maður fær ekki að heyra.

Allt tal um að þessari síðu verði að loka vegna þess að hún breiði út hatur er í grundvallaratriðum byggt á þeirri skelfilegu hugmynd að hluti verksviðs yfirvalda sé að hafa hemil á því hvað almenningur hugsi og hvað honum finnist. Almenningur verður að hafa traust til að móta eigin skoðanir. Grundvallarforsenda þess er hin akreinin á vegi tjáningarfrelsisins, þ.e. rétturinn til heyra í öðrum.

En vel á minnst. Gleymum rétti meðlima Ríkis Islams til að tjá sig á Íslandi. Þetta snýst um rétt þinn, lesandi góður, til að vera upplýstur um hvað það er sem Ríki Islams segir, trúir og vill. Þú, lesandi góður, þarft að geta staðfest það sem þér er sagt af yfirvöldum og fjölmiðlum. Þú getur það hinsvegar ekki ef “óæskilegar upplýsingar” eru fjarlægðar til þess að þú sjáir þær ekki. Einnig, lesandi góður, ættirðu ekki bara að vera móðgaður þegar einhver stingur upp á því að þér sé ekki treystandi til að heyra það sem Ríki Islams hefur fram að færa, heldur ættirðu að vera hræddur.

Fólk ætti að óttast yfirvöld sem treysta ekki borgurum sínum til að heyra, sjá og hugsa.

Af þessum ástæðum deili ég hér með ykkur aðferð til þess að komast inn á vefsíðu Ríkis Islams.

=== Mac OS, Linux, önnur Unix-lík stýrikerfi ===

Fyrst skal öllum eintökum vafrans lokað.

Síðan skal eftirfarandi lína keyrð í skipanaham (terminal):

sudo sh -c “echo ’95.215.45.25 khilafah.is\n95.215.45.25 www.khilafah.is’ >> /etc/hosts”

Eftir það skal vafrinn opnaður aftur og farið á http://www.khilafah.is

=== Windows ===

Fyrst skal öllum eintökum vafrans lokað.

Síðan skal smella á Ctrl-R (halda niðri “Ctrl” takkanum og smella á bókstafinn “R”).

Þá opnast lítill gluggi sem heitir “Run…” og í hann skal skrifað:

C:\Windows\System32\

Og ýtt á “Run”. Þá ætti Notepad að opnast sem er mjög mínímalískt skrifforrit.

Farið í “File” og “Open file” og velijð eftirfarandi skrá:

Síðan skal opna Notepad (C:\Windows\System32\Notepad.exe) með því að hægrismella á það, velja “Run as administrator…” og með þessu forriti skal opna eftirfarandi skrá: “C:\Windows\System32\drivers\etc\hosts”

Bætið eftirfarandi tveimur línum við skrána:

95.215.45.25 khilafah.is
95.215.45.25 www.khilafah.is

Síðan skal vista skrána og opna vafra á nýjan leik. Nú er hægt að fara inn á http://www.khilafah.is og sjá síðu Ríkis Islams.

———-

Að lokum ítreka ég að mér hefði þótt málefnalegt að hafna skráningu lénsins á þeirri forsendu að “.is” standi fyrir Ísland en ekki “Islamic State” – en sú forsenda á þá að gilda óháð innihaldi vefsetra.

Posted in Uncategorized

Hvernig tökum við ákvarðanir?

Ég og þú tökum ákvarðanir út frá persónulegum aðstæðum og ástæðum. Miðað við hvað ég hef um að velja þá get ég kannski haft eitthvað um það að segja hvar ég bý, við hvað ég vinn, hvernig ég eyði frítíma mínum, hvernig fjölskyldumynstur hentar mér, hvaða áhugamál ég stunda og hvort ég ‘snooza’ aldrei eða fimm sinnum.

Samfélagslegar ákvarðanir eru ekki teknar út frá persónulegum aðstæðum eða ástæðum. Ef svo er, þá þarf alvarlega að endurskoða hver tekur þær ákvarðanir og af hverju viðkomandi fær að gera það. Nýlega hefur verið bent á ýmsar undarlegar stjórnsýslulegar ákvarðanir varðandi MS, afskipti fyrri ráðherra, tengsl fyrirtækja inn í ráðuneyti og ný sem gömul samkeppnisbrot. Við megum spyrja okkur sérstaklega vel hvort allar þær ákvarðanir sem hafa verið teknar af stjórnsýslunni hafi verið neytendum og samfélaginu í heild sinni í hag?

Í þessari spurningu felst áhugavert orð, “hagur”. Hvernig mæli ég hvort eitthvað sé samfélaginu í hag eða óhag? Flestum dettur kannski í hug tengingar við hagkerfi og ýmsar mælieiningar sem fylgja því apparati. Verðbólga, neysluvísitala, hagvöxtur, … Einhverjum öðrum dettur kannski í hug: Lífsmatsstigi (well being index), væntingavísitala, sjálfbærni. Hver sem mælikvarðinn er þá fellur stikan ekki endilega alltaf í vel sniðnar skorður. Reglustika dugar illa til þess að mæla ummál hrings án þess að vita miðju hringsins (sem er skemmtileg æfing annars). Annað vandamál er að einhver ákvörðun er ekki endilega mælanleg á öllum mælitækjunum, afleiðingarnar geta meira að segja verið villandi vegna ýmissa ástæðna.

Ónákvæm mælitæki eru ekki einu sinni eina vandamálið í stjórnsýsluákvörðunum. Svo vill til, eins og MS dæmið bendir til, að það er að lokum einhver hópur fólks sem tekur ákvörðunina. Sjónarmið þeirra geta verið mjög skekkt, þau gögn sem tekið er tillit til og þær mælistikur sem eru teknar marktækar vegna hugmyndafræðilegra ástæðna geta verið verri en ef önnur gögn og aðrar mælistikur hefðu verið notaðar. Enn fremur er hægt að mistúlka niðurstöður út af hugmyndafræðilegri þröngsýni. Jaðaráhrif geta skekkt niðurstöðurnar verulega ef ekki er gætt að.

Hvernig eigum við þá að taka ákvarðanir? Áhugaverð grein frá OECD lýsir notkun hamingjugagna til þess að stýra stjórnsýslulegum ákvörðunum. Í greiningu þeirra á nokkrum samfélagsþáttum sést að Ísland er ágætlega fyrir neðan meðaltal í nokkrum flokkum, húsnæði, tekjum, lýðræðislegri þátttöku og jafnvægi lífs og vinnu. Þar eru nágrannar okkar Kórea fyrir neðan okkur og Slóvenía fyrir ofan okkur. Þegar tekið er tillit til þeirra þátta þar sem Ísland kemur best út (heilbrigðis, samfélags, umhverfi, öryggi og lífsánægju) þá erum við í efstu sætunum, fyrir ofan Sviss og neðan Kanada. Alls ekki leiðinlegir flokkar að standa sig vel í!

Auðvitað getum við klórað okkur pínulítið í hausnum varðandi heilbrigðisþáttinn miðað við landflótta lækna, nær stöðugra frétta um fjárhagsörðugleika heilbrigðiskerfisins og svoleiðis en kannski erum við bara samt best. Það eru svo auðvitað ekki allir sem eiga í húsnæðisvandræðum eða glíma við áhyggjur um að eiga fyrir mat um hver mánaðarmót. Við hljótum líka að vera svona ánægð af því að við eigum allar auðlindirnar okkar saman og nýtum þær okkur öllum í hag? Góðar tölur geta nefnilega falið slæmar tölur. Fáir einstaklingar með rosalega háar tekjur draga upp meðaltal, þegar talað er um kaupmáttaraukningu almennt en ekki útskýrt hvaða hópar fá hversu mikla kaupmáttaraukningu – þá er verið að fela eitthvað, það er eitthvað að.

Það má aldrei gleyma að skoða dreifinguna! Það má heldur aldrei gleyma því að spyrja fólkið, sem samfélagið samanstendur af, við hverju það býst við. Ef mælingin stemmir ekki við því sem fólk er að búast við að sjá, þá er líka eitthvað að.

Hvernig eigum við að taka ákvarðanir? Við þurfum að líta til mjög margra þátta en sérstaklega til þeirra sem við teljum sameiginlega að séu mikilvægir. Við verðum líka að heimta að framsetning gagna sé ekki blekkjandi. Það er lýðræðislegt, það er sanngjarnt.

Til hvers alþingi?

Jón Magnússon spyr vegna þess að Birgitta sagði að það væri tímasóun að eyða tíma í lagabreytingatillögur, þær væru hvort eð er ekki samþykktar.

Enn fremur segir Jón:

… það á hvorki við um Bjarta Framtíð eða Pírata. Ef til vill er það vegna þess að hvorugur þessara flokka hefur mótaða þjóðfélagssýn.

Ég svaraði þessari staðhæfingu á blogginu hans Jóns en þetta er nægilega alvarleg athugasemd hjá honum til þess að skrifa um það sérstaka grein hérna.

Til að byrja með þá er þetta rangt. Auðvitað eru Píratar með mótaða þjóðfélagssýn. Í öðru lagi þá skil ég vel að fólk haldi að svo sé ekki. Í síðustu alþingiskosningum og nýliðnum sveitastjórnarkosningum vorum við ekki með sérstaka stefnu í húsnæðismálum. Hvers vegna ekki? Einfaldlega vegna þess að það er bara mjög flókinn málaflokkur og við teljum að það þurfi að safna miklu fleiri upplýsingum um málið til þess að það sé hægt að leggja fram einhverjar góðar lausnir. Í kosningakerfi Pírata liggur samt fyrir ályktun um leigumál:

  • Styrkja skuli leigjendasamtök sem eru að aðstoða leigjendur við komast að réttarstöðu sinni og veita upplýsingar til almennings um samningagerð, lög og réttindi leigusala og leigjenda, hvaða áhrif verðtrygging hefur á leigusamninga, tímalengd samninga og önnur álíka atriði.

Þessu máli hefur Jón Þór mælt fyrir á alþingi, tíðarandans vegna þá hefur hann einbeitt sér að því að nauðungarsölum sé frestað. Ályktunin er í fleiri liðum en mikið af henni er framkvæmdarlegs eðlis sem er erfitt að koma að á alþingi, nema í þingsályktunartillögu. Þrír þingmenn, eins rosalega dugleg og þau eru, duga skammt – og hafa þurft að forgangsraða verkefnum sem þau telja líklegt að nái árangri í núverandi aðstæðum á þingi. Það sem skiptir máli er að ná árangri og ég held að það þurfi að leita langt til þess að finna þrjá aðra þingmenn sem hafa skilað störfum sínum betur af sér en þingmenn Pírata.

En aftur af þjóðfélagsýn Jóns Magnússonar.

Svarið mitt á blogginu hans var:

Þó að þú skiljir ekki þá þjóðfélagssýn sem Píratar hafa þá þýðir það ekki að hún sé til. Heyrðu, kannski hefur þú bara aldrei heyrt hugmyndir Pírata um þessa þjóðfélagsmynd. Grípum þá tækifærið og fræðumst smá.

Markmið Pírata er beint lýðræði, friðhelgi einkalífs, gagnsæi og ábyrgð í stjórnmálum og frelsi upplýsinga (þar sem það skarast ekki á við friðhelgi einkalífs).

Þessi markmið hafa ákveðnar afleiðingar hvað varðar þjóðfélagið. Almennt séð þá þýðir það að hver sú sem vill taka þátt í ákvörðunum sem hana varðar, getur það. Upplýsingarnar liggja fyrir og ferlið er augljóst og aðgengilegt. Þetta þýðir að hlutverk löggjafa og framkvæmda er þjónustuhlutverk, ekki valdahlutverk. Ákvarðanirnar eru teknar af kjósendum, þingmenn semja lög miðað við þær ákvarðanir og framkvæmdin sinnir sínu. Öfugt við núna þar sem flest lög koma frá ráðuneytum, þingmenn eru á launum við að ýta á bjöllu og kjósendur fá ekki einu sinni að kjósa þó að þeir æpi sig hása.

Semsagt, lýðræðislegt þjóðfélag. Alla daga ársins, alltaf, ekki bara á fjögurra ára fresti.

Aftur, ég skil það alveg að fólk hafi ekki haft tækifæri til þess að kynnast Pírötum betur. Það er bara okkur að kenna og þetta er ein tilraun til að bæta úr því. Píratar hafa ekki fullmótaða stefnu út um allt af því að samfélagið í heild sinni á að fá að koma að þeirri ákvarðanatöku. Ekki bara félagar og kjósendur Pírata, ekki bara flokkar og fylgismenn … allir. Allir sem vilja láta sig málið varða. Þannig virkar lýðræðislegt ferli. Atkvæðagreiðslan er ekki aðalatriðið, ferlið er aðalatriðið. Mjög margir misskilja lýðræði og halda að ef það er almenn atkvæðagreiðsla, þá er lýðræði. Kosningarnar á Krímskaga og mörgum einræðislöndum sýna annað. Þar eru ‘plat’ kosningar þar sem í raun er ekkert annað val og engin raunveruleg umræða um hvað valkostirnir þýða.

Á Íslandi kjósum við á þing á fjögurra ára fresti, án þess að vita í rauninni hvað valkostirnir þýða – eins og alþingiskosningarnar síðast hafa sýnt. Þjóðfélagssýn Pírata snýst einmitt um nákvæmlega þetta, að það sé eins skýrt og mögulegt er hvað valkostirnir þýða og að ferlið sem leiðir að þeim valkostum sé eins opið og aðgengilegt og hægt er. Áhrifin sem það getur haft á þjóðfélagið eru rosaleg.

Við viljum breyta því hvernig við stundum lýðræði, opna stjórnsýsluna, krefjast ábyrgð af þeim sem sinna löggjafa- og framkvæmdaþjónustu og standa vörð um borgaraleg réttindi og friðhelgi einkalífsins – þær breytingar koma til með að vera uppskriftin að því hvernig við leysum öll vandamál þjóðfélagsins. Mér finnst það bara vera ágætis þjóðfélagssýn.