Um verðtryggingardóminn

Sjá dóminn

“Verðtryggingin virðist þó ekki vera ófrávíkjanleg, í þeim skilningi að skylt sé að verðtryggja fasteignalán”

“Enn fremur getur lánveitanda verið skylt að láta neytanda í té tilteknar upplýsingar um þá samningsskilmála sem teljast bindand”

1. spurning: “… hvort tilskipunin leggi almennt bann við notkun samningsskilmála um verðtryggingu veðlána í samningum lánveitenda og neytenda.”
Svar: Nei, slíkir skilmálar geta verið löglegir en beitt á óréttmætan hátt – ef svo, þá eru þeir ólöglegir. Landsdómstóll kveður á um slíkt með tilliti til aðstæðna.

2. spurning: takmarkar tilskipunin “hvaða þættir geti valdið breytingum á fyrirfram ákveðinni vísitölu, á borð við vísitölu neysluverðs, og eftir hvaða aðferðum þær breytingar skuli mældar.”
Svar: Nei, ríki er frjálst að skilgreina hvaða reiknireglur eru notaðar til þess að ákvarða, til dæmis, vísitölu neysluverðs. Verðtryggingin er þannig ekki ólögleg hvað varðar tilskipunina vegna þess hvernig vísitalan er reiknuð.

3. spurning: Er samningsskilmáli sérstaklega umsaminn þegar; (a) verðtrygging er tilgreind og við hvaða vísitölu skuli miða, (b) áætlaðar greiðslur sýndar með athugasemd um að breytingar geti orðið miðað við verðbólgu, (c) báðir samningsaðilar undirrita greiðsluyfirlitið samtímis.
Svar: “ekkert í beiðni landsdómstólsins sem bendir til þess að sérstaklega
hafi verið samið um efni skuldabréfsins sem málið sem þar er rekið snýst um. Ef stefndi heldur öðru fram er það hans að færa sönnur á að svo sé”

Í færri orðum, ef ekki er sérstaklega samið um ákvæði samningsins þá er hann ekki löglegur. EFTA dómstóllinn sér engin gögn um að svo sé og nú verður stefndi (lánveitandinn) að sanna að sérstaklega hafi verið samið um verðtryggingarákvæðið. Það er ekki nóg að annar (óverðtryggður) möguleiki hafi verið til staðar til þess að sérstaklega hafi verið samið um verðtryggingarákvæðið.

Landsdómstóll verður að taka afstöðu um hvort það sé nóg að undirrita greiðsluyfirlit (sem er í raun ekki hægt að semja um því það er bara mat á stöðunni).

4. spurning: Var aðferðinni við útreikning verðbreytinga nægilega vel útskýrð fyrir neytenda?
Svar: Landsdómstóls að ákveða – miðað við svar við spurningu 3.

5. spurning: Ef samningsskilmáli telst óréttmætur, hvaða skyldur leiðast af því?
“slíkur skilmáli sé óskuldbindandi fyrir neytandann að því gefnu að samningurinn geti haldið gildi sínu að öðru leyti án hins óréttmæta skilmála að því marki sem reglur landsréttar leyfa”
Semsagt, óréttmætur skilmáli fellur niður, afgangurinn af samningnum heldur.

————————

Matið um hvað telst umsaminn skilmáli er áhugaverður. Nú þegar maður veit að lán eru ekki endilega ‘vörur’ sem maður bara kaupir eða ekki – heldur er hver og einn hluti samningsins umsemjanlegur, þá kemur maður til með að bera sig öðruvísi að í slíkum aðstæðum.

Ég myndi allavega telja, að ef annar samningsaðilinn telur sig ekki geta breytt ákvæðum samnings, bara skrifað undir eða hafnað – þá séu samningsatriði ekki sérstaklega umsamin.

Gluggað í ríkisfjármálin

Ég asnaðist til að skoða ríkisfjármálin. Vitiði hvað kom í ljós? 

Ríkisstjórnin sem boðaði aðhald í ríkisfjármálum hefur eytt umtalsvert meira en vonda fjárglæfrastjórnin sem sat áður. 

Ríkisstjórnin sem boðaði lægri skatta hefur innheimt töluvert meira skattfé en vonda skattpíningarstjórnin sem sat áður.

Athugið að þetta er þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi afþakkað milljarðatugi í auðlindagjald frá handhöfum einokunarréttar á fiski.

Reyndar eru 25 milljarðar af tekjuaukningunni í formi sölu á hlutabréfum í eigu ríkisins.

Ég miða hér við árið 2013. Á fyrri hluta ársins 2013 var gamla ríkisstjórnin við lýði, fyrstu 5-6 mánuðina. Þetta er ekki sundurliðað eftir mánuðum, því miður. Því varð maður að bera þetta saman við nokkur fyrri ár til samanburðar, en ég á erfitt með að sjá annað en að það hafi mestmegnis verið nýja ríkisstjórnin sem breytti stefnunni.

Ríkisstjórnin kostaði 33.4% meira árið 2013 en árið 2012. Nákvæmlega tveir yfirflokkar kostuðu minna 2013 en 2012: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, og fjármagnskostnaður. 

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið lækkaði sig um 1%, að því er virðist aðallega með því að leggja niður fóðursjóð, húsbyggingasjóð, og minnka verulega framlög til byggðaáætlunar og iðju og iðnaðar (sem felur í sér átak til atvinnusköðunar og ýmis nýsköpunar- og markaðsmál).

Fjármagnskostnaður er peningur sem notaður er til að borga vexti (aðallega) af skuldum ríkisins, og lækkar helst ef vel gekk að borga af skuldum eða endurskipuleggja skuldirnar á árinu á undan.

Allt annað hækkaði. 

Forsætisráðuneytið um 26.3%. Þar mátti helst nefna hækkun á fjárframlögum til aðalskrifstofu ráðuneytisins, töluverða hækkun á framlögum til óbyggðanefndar, þjóðminjasafnsins, og Þingvallaþjóðgarðs.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hækkaði um 19.7%. Þar mátti helst sjá 17 milljarða króna aukningu á afskriftum af skattakröfum, þar sem farið er um 11 milljarða umfram fjárheimild. Einnig er liður í því ráðuneyti sem ber titilinn “(óþekkt)”, þar sem tæplega 2 milljarðar hafa horfið. 

Sumt eða allt af þessu kann að eiga sér ástæður, en erfitt er að sjá hvernig þetta telst vera aðhald í ríkisfjármálum.

Ég verð að viðurkenna að ég skil þetta illa. Það væri forvitnilegt að vita hvað formaður fjárlaganefndar hefur um þetta fyrirkomulag að segja, enda virðist ríkisstjórnin þrátt fyrir allt að vera að starfa vel innan fjárlaga á árinu 2013. Þetta voru auðvitað fjárlög sem voru sett 2012, þegar Björn Valur Gíslason var formaður fjárlaganefndar, en þetta er samt skrýtið og úr takti við árin á undan.

Það verður gaman að sjá hvernig þetta kemur út fyrir árið 2014 – en merkilegt nokk, þá hafa tölur fyrir árið ekki verið birtar, en það er ekki nein tæknileg ástæða fyrir því að það ætti ekki að vera hægt að birta útgjöld ríkisins jafnóðum.

Ríkisfjármál eru flókið mál. Hér er ég ekki að skammast í neinum, en mér finnst full ástæða til að draga athygli að þessu og spyrja spurninga.

Posted in Uncategorized

Lygarnar í lekanum

Á vef DV er mjög góð síða sem útskýrir röð atburða mjög vel. Þegar maður les greinarnar með svona stuttu millibili í réttri röð kemur ýmislegt áhugavert í ljós:

19. nóvember

 • 16:00 – 17:00 skjalið sent á HBK, aðstoðarmenn hennar og ráðuneytisstjóra rétt eftir að hefðbundnum vinnutíma lýkur.
 • 18:40: Gísli talar við starfsmann Vísis.

20. nóvember

 • 09:46: Gísli talar við starfmann mbl.

21. nóvember

 • Einhverjir óbreyttir starfsmenn gætu hafa lekið skjalinu samkvæmt Gísla, þau ummæli eru svo dregin til baka

22. nóvember

 • Innanríkisráðuneytið segir ekkert benda til þess að gögnunum hafi verið lekið úr ráðuneytinu

3. desember

 • HBK endurtekur yfirlýsingu innanríkisráðuneytis í pontu á alþingi og skammast út í fyrirspurn á sama tíma í þokkabót.

10. desember – Hérna dregur til tíðinda og lygarnar hefjast fyrir alvöru.

 • Í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd segir HBK nefndarmönnum að skjalið sé ekki úr innanríkisráðuneytinu. Líklega vegna setningarinnar sem var bætt við skjalið. 

16. desember

 • Aftur í fyrirspurnartíma (sem reynt var að koma í veg fyrir), nú segir HBK að skalið hafi líka farið til rauða krossins. Þetta sama skjal sem var ekki úr innanríkisráðuneytinu … nú er þetta farið að verða ruglingslegt.

18. desember

 • Starfsmaður rauða krossins gagnrýnir HBK fyrir að bendla samtökin við lekann. Rauði krossinn biður ráðherra afsökunar seinna um daginn (? hræddir um að missa styrki samkvæmt starfsmanni RK ?)

12. janúar

 • Innanríkisráðuneyti staðfestir að skjalið hafi einungis farið þangað sem það átti að fara, lögum samkvæmt. Þetta er væntanlega skjalið sem var ekki úr innanríkisráðuneytinu samkvæmt orðum frá 10. des.

17. janúar

 • Þórey: „raunverulega búið að taka fyrir það að þessi gögn hafi farið, eða einhver gögn er varða þessa hælis­leitendur hafi farið úr gögnum ráðuneytisins.“ — Þetta er mjög athyglisvert. Það er búið að taka fram að skjalið hafi einungis verið sent á ‘rétta aðila’ en hérna er sérstaklega tekið fyrir að lekinn hafi komið úr ráðuneytinu.

27. janúar

 • HBK ítrekar á alþingi að engir aðrir en ‘réttir aðilar’ hafi fengið gögn frá ráðuneytinu, ennfremur að efni fjölmiðla sé „ekki sambærilegt við nein gögn í ráðuneytinu“. Þetta er enn athyglisvert miðað við orð HBK frá 10. des og 16. des; orð ráðuneytis þann 12. jan; og orð Þóreyjar þann 17. jan. 

7. febrúar

 • HBK ætlar ekki að víkja úr starfi þrátt fyrir rannsókn. 

13. febrúar

 • BB og HBK neita bæði að ráðuneytis sæti sakamálarannsókn úr pontu alþingis. Það reyndist vera ósatt hjá þeim.

25. febrúar

 • DV greinir frá að aðeins örfáir hafi haft aðgang að skjalinu og nefnir í fyrsta sinn að setningu virðist hafa verið bætt við skjalið. Þetta er sérstaklega athyglisvert vegna þess að fram að þessu ætti fólk bara hafa vitað af einni útgáfu af skjalinu, þeirri sem ráðuneytið bjó upphaflega til. Ef HBK vísaði ávallt í breytta skjalið sem rök fyrir því að það kæmi ekki úr ráðuneytinu, hvernig vissi hún af breytingunum?

2. maí

 • Úrskurðir hæstaréttar og héraðsdóms birtir þar sem kemur fram að ráðherra og aðstoðarmenn hafi fullyrt gegn betri vitund að skjalið hafi ekki komið úr ráðuneyti þeirra.

6. maí

 • HBK segir á alþingi að hún hafi aldrei logið að þingheimi. Hún gerði það 3. des úr pontu alþingis (gögnum ekki lekið úr ráðuneyti), 10. des fyrir þingnefnd (skjalið ekki úr innanríkisráðuneytinu), 27. janúar (ekki sambærilegt við gögn úr ráðuneytinu) úr pontu á alþingi og 13. febrúar (ásamb BB, um rannsókn) – að minnsta kosti. Óbreytt skjal ráðuneytisins er nákvæmlega eins og skjalið sem var lekið ef frá er tekin ein setning. Skjalið er því að megninu til úr innanríkisráðuneytinu og mjög sambærilegt. Einnig staðfesti HBK sjálf að skjalið hefði bara farið til réttra aðila – utanaðkomandi leki er því samkvæmt henni sjálfri, ómögulegur.

3. ágúst

 • HBK fullyrðir að skjalið hafi ekki fundist fyrr en á seinni stigum málsins. Áður hefur komið fram að skjalið var sent HBK, aðstoðarmönnum hennar og ráðuneytisstjóra. Þetta eru ‘réttu aðilarnir’ samkvæmt HBK sjálfri. Gísli opnaði skjalið þann 19. nóv, daginn áður en frétt birtist.

Inn í þessa atburðarrás blandast ráðningar or brottrekstrar, afskipti af störfum fréttamanna og skammir um fyrirspurnir á alþingi.

Það athyglisverðasta í þessu ferli er:

 • Það er staðfest að skjalið sé til og hafi verið lesið af aðstoðarmanni HBK strax í upphafi.
 • HBK vísar mögulega í breytt skjal en það kemur ekki fram fyrr en nokkru seinna að skjalinu sem var lekið hafi verið breytt.
 • Einungis ‘réttir aðilar’ fengu skjalið samkvæmt HBK og ráðuneyti – þrátt fyrir það var rauða krossinum bætt í málið og vísað í opið aðgengi. Það bendir ekki til þess að einungis réttir aðilar hafi verið með aðgang.

Þessar staðreyndir stangast á við orð HBK í þingnefnd og úr pontu alþingis. Það er ómögulegt að segja hver vissi hvað hvenær út frá þessum gögnum en allar líkur eru á því að HBK hafi ekki sagt þingnefnd né alþingi allt sem hún vissi um málið. Réttara sagt er líklegt að hún hafi leynt upplýsingum með því að neita að upplýsingarnar hafi verið til. Sé svo, þá er það lygi.

Lykillinn hérna eru ummæli Gísla þann 21. nóvember. Þar nefnir hann að skjalinu hafi mögulega verið lekið af óbreyttum starfsmanni. Innanríkisráðuneyti og ráðherra staðhæfa svo seinna að einungis ‘réttir aðilar’ hafi fengið skjalið … en annarsstaðar að skjalið hafi verið á opnu drifi. HBK vissi því augljóslega af skjalinu fyrir 3. des og örugglega innihald þess fyrir 27. jan. Miðað við ummælin frá 21. nóvember er líklegt að ‘réttir aðilar’ hafi vitað allt um málið síðan þá. Misbrestirnir í málflutningnum eru augljósir og því augljóst að ekki var öll sagan sögð í þingnefnd og á alþingi.

 

Baul bullukollanna

Það er ekki algengt í íslenskri stjórnmálaumræðu að hlutir séu sagðir með skýrum og afgerandi hætti svo ekki verði um villst. Því verður að teljast óþolandi þegar fullorðið fólk leikur sér að því að snúa út úr, þegar það er gert. Vandinn er að erfitt er að sanna að menn eins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Björn Bjarnason séu að snúa út úr, en séu ekki bara svona heimskir. Ýmislegt styður hvora tilgátuna.

Svo þetta sé gert alveg skýrt, enn og aftur:

Friðhelgi einkalífsins snýst um vernd hinna valdaminni frá misbeitingu hinna valdameiri.

Gagnsæi snýst um að opna hina valdameiri gagnvart eftirliti hinna valdaminni.

Upplýsingafrelsi snýst ekki um að allar upplýsingar séu opnar öllum alltaf, heldur að flestar upplýsingar séu opnar flestum alltaf, en sumar upplýsingar séu verndaðar, alltaf. Línan er dregin á skýrum stað: ef upplýsingar eiga erindi við almenning og það þjónar almannahagsmunum að þær séu opinberar, þá skulu þær vera opinberar. Ef upplýsingar eru persónulegar og koma engum við, þá skulu þær vera friðhelgar.

Það er ekki flókið að skilja þetta. Að forsætisráðherra landsins skuli eiga erfitt með að skilja einföld grunnatriði er grafalvarlegt. Neyðist maður til að spyrja sig hvaða önnur grunnatriði hann eigi í vandræðum með. Sem betur fer er Björn Bjarnason hættur að geta valdið skaða í íslensku samfélagi, nema með bauli sínu.

Posted in Uncategorized

Næsta ár Pírata

Kæru Píratar.

Eitt ár á þingi. Nýkomin í ráðhús.

Við erum komin af stað en það er löng leið eftir. Við erum enn að læra og þurfum að halda áfram að kenna hvað það er að vera Pírati. Markmiðið er lýðræðislegra samfélag – og við erum bara að stíga fyrstu skrefin.

Það má alveg færa fyrir því rök að lýðræðisleg vinnubrögð eru miklu tímafrekari og umfangsmeiri en miðstýrð vinnubrögð. Fljótlega leiðin er miðstýring. Skilvirka leiðin er miðstýring. En með miðstýringu kemur líka spilling. Þess vegna eru Píratar með framkvæmdaráð en ekki miðstjórn. Hóp fólks sem tryggir Pírötum aðgengi að aðstöðu til þess að stunda málefnastarf án þess að þurfa að pæla í öðru skipulagi en málefnalegu. Hóp fólks sem skipuleggur atburði sem kenna, miðla og efla samstarf Pírata, hvort sem þeir eru innan eða utan flokks.

Eitt af markmiðum framkvæmdaráðs síðastliðið ár var að koma upp betra samskiptakerfi fyrir Pírata. Upplýsinga- og miðlunarkerfi fyrir málefnahópa og vinnuhópa. Framan af skoðuðum við ýmis kerfi sem virtust standast kröfur okkar. Síðan biðum við eftir að fá netþjóna til þess að geta prófað kerfin, en þegar upp var staðið var ekkert af þeim nægilega gott. Ég tel það því vera eitt af mikilvægari málum næsta framkvæmdaráðs að halda áfram með þetta verkefni.

Annað mikilvægt verkefni er gæðahandbókarverkefnið. Það er mikilvægur liður í því að koma aðferðum og ferlum niður á blað. Hvernig á að boða fundi, hvernig á að skrá fundi, hvernig á að skila niðurstöðum funda áfram, hvernig vinnu- og verkefnahópar starfa, hvernig málefnahópar starfa … og svo mætti lengi telja.

Verkefni framkvæmdaráðs eru margvísleg og flókin, vegna þess að við erum enn að læra hvernig stuðning þarf utan um það lýðræðislega stjórnkerfi sem við viljum fá. Píratar eru félagasamtök sem hafa það að markmiði að breyta því hvernig við stundum stjórnmál. Það þýðir ekki endilega að við kunnum það öll sjálf. Þegar einhver skráir sig í Pírata þá þýðir það ekki að viðkomandi hafi hugmynd um hvernig við störfum eða hvernig hægt sé að taka þátt.

Mikilvægasta verkefni Pírata, að mínu mati, er að halda áfram að læra og kenna. Lýðræðið byrjar hjá einstaklingnum. Hugmynd þarf að komast á framfæri, fá lýðræðislega umfjöllun, það þarf að safna gögnum og reynslu og koma niðurstöðunum að lokum til framkvæmda. Lýðræðið byrjar líka í stjórnsýslunni. Þar koma upp ýmis vandamál sem þurfa líka lýðræðislega meðferð. Málefnastarf Pírata á að vera líkan sem allir nota. Nú þegar það eru Píratar í stjórnsýslunni þá þarf málefnastarfið að styðja vinnuna þar.

Vandamálið sem við glímum við er þreföld; samskiptafjarlægðin á milli einstaklinga í lýðræðislegri umræðu, fjarlægðin á milli einstaklinga og framkvæmdaraðila og að lokum fjarlægð á milli framkvæmdaraðila innan stjórnsýslu. Við þurfum vettvang til lýðræðislegs málefnastarfs; vettvang þar sem málefnum er komið áfram til kjörinna fulltrúa og frá fulltrúum aftur inn í málefnastarfið.

Pírötum vantar líka vettvang þar sem kjörnir fulltrúar geta samstillt aðgerðir. Hingað til höfum við haft málefnahópa sem halda málefnafundi. Við höfum haldið framfarafundi þar sem kjörnir fulltrúar kynna málefni sem þau eru að vinna. Nú þurfum við að bæta við samráðsfundum fulltrúa. Þar geta kjörnir fulltrúar skipulagt málefni næstu mánaða; tekið við nýjum málum úr málefnastarfi; og sent mál aftur, með athugasemdum, í málefnahópa. Hér á framkvæmdaráð að bera ábyrgð á því að öll skilaboð komist á rétta staði og ef það er ekki málefnahópur tilbúinn til þess að taka við nýjum málum, koma þeim af stað.

Framkvæmdaráð fæst við skipulagningu. Fyrir utan að bera ábyrgð á því að sinna því sem stjórnmálaflokkur þarf að skila af sér lögum samkvæmt – þá er skipulagning félagsstarfsins mikilvægasta starf framkvæmdaráðs. Nú erum við komin með styrk til framkvæmda, kosningum nýlokið og framundan eru mikilvæg ár þar sem þarf að sinna félagsstarfi mjög vel.

Hvað höfum við lært undanfarið ár í framkvæmdaráði? Það er erfitt að gera nokkuð án þess að hafa húsnæði til málefnafunda. Það er erfitt að gera nokkuð án þess að hafa pening til að skipuleggja atburði og skyldufundi. Það er erfitt að fá sjálfboðaliða til þess að skipuleggja starfið og það er aldrei hægt að gera ráð fyrir því að eitthvað gerist sjálfkrafa á réttan hátt. Það er erfitt að finna sjálfboðaliða í verkefni og erfitt að fylgja verkefninu eftir.

Almennt varðandi samskipti, þá er ekki hægt að komast hjá því að fólk skiptist ekki jafnt á skoðunum. Ég hef sagt það nokkrum sinnum áður, í bestu hjónaböndum þá verða árekstrar – því er barnaskapur að halda því fram að í stjórnmálasamtökum verði engir árekstrar. Við þurfum að iðka lýðræði í skoðanaskiptum okkar – heyra sjónarmið annara áður en við lokum okkur inni í tómu herbergi og dáumst að bergmálinu.

Kosningar hafa verið aðaldrifkraftur í félags- og málefnastarfi Pírata fram að þessu. Í kosningabaráttunni hefur okkur tekist að vekja athygli á þeim málefnum sem okkur mest varða, fengið í lið með okkur mjög öflugt fólk og síðast en ekki síst stuðning kjósenda. Nú þurfum við að læra að halda áfram að vekja athygli á málefnunum okkar, utan kosningabaráttu. Vekja áhuga fólks á virku lýðræði og halda áfram að finna öflugt fólk sem berst fyrir beinna lýðræði, gagnsæi í stjórnsýslu og borgararéttindum. Fólk sem er tilbúið til þess að takast á við stjórnmál í lýðræðisumhverfi á upplýsingaöld.