Af réttindum og dópi

Varðandi frétt:
Lögreglan gagnrýnd fyrir líkamsleit – „Leitir lögreglu eru byggðar á grun“

Það gleður mig að leitir lögreglunnar á blásaklausu fólki fái almennilega fréttaumfjöllun. Þessi mál eru ekki í lagi á Íslandi.

Ef ég skildi Stefán Eiríksson rétt á opnum fundi okkar á sínum tíma, þá eru leitirnar samt ekki beinlínis byggðar á grun heldur virkar þetta svona:

* Lögregla má einungis leita á manneskju með samþykki þess sem hún ætlar að leita á, eða dómsúrskurði. Hljómar vel! Rosa siðmenntað og frjálslynt, lýðræðislegt og gott.

* Lögregla má hinsvegar hefja rannsókn, þ.á.m. með handtöku með því einu að hafa svokallaðan “grun”, en það er líklega með veikari hugtökum þeirrar lögfræði sem þetta varðar. Athugið að það þarf ekki að vera “rökstuddur grunur”, sem er annað fyrirbæri, heldur eingöngu “grunur”, án rökstuðnings. Lögreglan þarf ekki að geta útskýrt með orðum hvers vegna hana grunar eitthvað. Lögreglumanni þarf einvörðungu að detta það í hug að maður hafi brotið eitthvað af sér til að “hefja rannsókn”, sem í þessum tilfellum hefst með handtöku. Þannig að ef einstaklingur þekkir réttindi sín og neitar leit, þá einfaldlega grunar lögreglan hann um að hafa eitthvað að fela, og handtekur. Þá er væntanlega farið niður á stöð og fenginn dómsúrskurður og krakkaskrattanum kennt að vera ekki með “einhverja vitleysu” eins og viðlíka stjórnarskrárvarin mannréttindi eru jafnan kölluð ef þau ganga svo langt að þvælast fyrir yfirvöldum, sem er reyndar einmitt tilgangur þeirra, ef út í það er farið.

Ef fólk er öðru fólki ógn, þá er rökrétt að lögreglan hafi heimild til að handtaka það, en í fyrsta lagi er það ekki það sem hér er gagnrýnt og í öðru lagi eru slíkar heimildir óháðar því hvort fólk sé með vímuefni á sér eða ekki. Stjórnarskráin heimilar sérstaklega takmörkun á friðhelgi einkalífsins “ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra”. Líkamsleitir lögreglunnar byggja hinsvegar ekki á réttindum annarra, heldur á þeim grátlega galla í framkvæmd laganna, að ef einstaklingur nýtir stjórnarskrárvarin réttindi sín, þá er það eitt og sér nóg til þess að heimila handtöku vegna þess að þá hlýtur hann nú aldeilis að hafa eitthvað að fela.

Samhengi aðstæðnanna er einnig mikilvægt. Þegar löggan ætlar að leita á einhverjum á svona tónleikum, jafnvel ef það er bara af handahófi, eða vegna þess að viðkomandi tilheyrir hópi sem löggan telur líklegri en aðra til að vera með ólögleg vímu- eða fíkniefni, þá er val fórnarlambsins þetta: eyðileggja tónleikana sem er búið að borga fyrir og jafnvel hlakka heilmikið til, eða heimila leit lögreglunnar án raunverulegs samþykkis og án dómsúrskurðar. Þetta atriði á síðan alveg jafn mikið við á öðrum vettvangi; fólk er almennt með aðra og merkilegri hluti á dagskránni en að hangsa á lögreglustöð án þess að hafa hugmynd um hvenær það fái að fara í friði.

Af þessu leiðir að þótt að samkvæmt kenningunni megi lögreglan alls, alls ekki leita á fólki af handahófi eftir geðþótta (af því að það væri svo fasískt, athugið), þá er reyndin sú að hún má það bara víst og gerir nákvæmlega það.

Og það er bara fjandakornið alls ekkert í lagi!

Posted in Uncategorized

Að láta það, sem skiptir ekki máli, eiga sig.

Nú hef ég engan áhuga á því að vanvirða íslenska fánann. Mér finnst hann fallegur og ég fyllist þessari sömu frumstæðu þjóðernistilfinningu og hver annar þegar ég sé hann stríða við regnið með vindinn að vopni. Mitt innra nörd hefur meira að segja lúmskt gaman af öllum þessum kjánalegu reglum í kringum hann, eins og hvernig eigi að brjóta hann saman, að maður verði að gera eitt og megi alls ekki gera annað.

En ég get ekki að því gert að finnast slíkar hefðir kjánalegar í landslögum. Ef þessi eða hin meðhöndlun fánans er svona ægilega mikilvæg, þá finnur fólk sig væntanlega sjálft knúið til þess að meðhöndla hann svona eða hinsegin. Að öðrum kosti hljótum við að komast að þeirri niðurstöðu að þessar hefðir hreinlega skipti ekki jafn miklu máli og menn vilja meina.

Ég skil alveg stolt, sko. Því miður er ég sjálfur þjáður af þeim mikla kvilla enda jafn breiskur og restin af liðinu sem byggir þetta land. En ég skil ekki hvaðan fólk fær þessa hjátrúarfullu flugu í höfuðið að stoltið sé tilfinning sem beri að vernda með landslögum. Af stolti höfum við meir en góðu hófi gegnir. Kannski hafa Íslendingar bara gott af því að stoltið sé sært af og til, og hvað særir frumstætt stoltið betur en að setja táknmyndir eins og þjóðfánann í samhengi við raunveruleikann, svosem með því að nýta hann í nærbrækur, nú, eða tusku?

Ekkert mál, ég skil að þetta móðgi.

Það sem ég skil hinsvegar ekki, er hvernig mönnum getur raunverulega, í alvörunni, fundist það “alvarlegt”. Kannski þarf bara einhver að benda á nakta keisarann í þessum efnum, en sannleikurinn er sá, sætur eða sár, að það skiptir nákvæmlega engu máli þótt fáninn sé vanvirtur. Það dregur okkur hvorki nær Danakonungi né fjær íslenskri tungu. Það hefur engin áhrif á nokkurn skapaðan hlut, fyrir utan það fólk sem hefur fyrirfram ákveðið að verði fáninn vanvirtur, þá verði það móðgað. Jæja, þá má fólk bara fjandakornið vera móðgað. Það má grenja sér stórfljót ef það endilega vill, en þannig hegðun breytir ekki tittlingaskít í eitthvað sem skiptir máli.

Þjóðfáninn er ekki “heilagur”. Það er ekki “alvarlegt” að hann sé vanvirtur og ekki “mikilvægt” að til staðar séu lög sem segja til um hvar og hvenær megi nota hann. Næstum því allt sem nokkur manneskja gerir í sínu lífi er mikilvægara og merkilegra en það hvernig fólk fer með íslenska fánann. Keisarinn er nakinn. Þetta er hjátrú. Þetta skiptir ekki máli.

(Þessi viðurstyggilega skoðun var í boði 73. gr. laga nr. 33/1944.)

Posted in Uncategorized

Að daðra við fordóma

Óttinn við hið óþekkta er góður eiginleiki hjá hinum ýmsu dýrategundum. Dýrategundir sem hafa ekki heilbrigðan skammt af vantrausti gagnvart mögulegri ógn lifa ekki mjög lengi í breytilegu umhverfi. Dódó fuglinn dó út mjög fljótlega eftir að maðurinn varð hans var. Margar dýrategundir í Ameríku eru taldar hafa dáið út af því að þær kunnu ekki að varast manninn á meðan dýrategundir í Afríku sem þróuðust með manninum lifðu af. Vantraust, óttinn við hið óþekkta, hefur líka annað nafn; fordómar. Í tilviki Dódó fuglsins og ýmissa annara dýrategunda þá hefðu aðeins meiri fordómar mögulega komið í veg fyrir að þær hefðu dáið út.

Af ofangreindum ástæðum dreg ég þá ályktun að fordómar geti bara verið mjög góðir.

En rétt eins og of litlir fordómar geta verið slæmir fyrir afkomu dýrategunda, þá geta of miklir fordómar verið álíka lamandi. Seinni heimsstyrjöldin er eitt nýlegasta dæmi þess hvernig fordómar geta farið með mannleg samfélög. Lög gegn samkynhneigðum í ýmsum löndum eru nýlegri dæmi. WWII og samkynheigð eru auðveld dæmi um fordóma, aðeins flóknara fordómadæmi er til dæmis einelti. Í einhverjum tilfellum er ástæða eineltis sú að gerendum er að einhverju leyti ‘ógnað’ af fórnarlömbunum – en út af sterkri félagslegri stöðu þá geta gerendur einangrað fórnarlömbin sín með andlegu eða jafnvel líkamlegu ofbeldi. Óttinn við að glata félagslegri stöðu, óttinn við að glata áliti, óttinn sem er knúinn af hinu óþekkta – skilningsleysi, fordómum.

Í nýliðnum kosningum í Evrópu (Ísland er í Evrópu ef einhverjir eru búnir að gleyma því) þá fékk ákveðinn stjórnmálaarmur byr undir báða. Stjórnmál sem eru kennd við ‘öfga-hægri’. Í skilningi ‘hægri’ sem markaðshyggju þá held ég að þetta sér gríðarlegt rangnefni því rétt eins og ‘öfga-vinstri’ þjóðernishyggja eins og hún varð með kommúnisma þá eiga öfgarnar ekkert skylt við hvorki markaðshyggju né kommúnisma. Öfgarnar réttara sagt skemmdu kommúnista hugmyndafræðina – það sama getur mögulega gerst með markaðshyggjuhugmyndafræðina. Öfgarnar, þrátt fyrir að eiga ekkert skylt með ‘hægri’, koma til með að koma óorði á þá hugmyndafræði. Þetta gerist út af rökvillu sem kallast: sök vegna tengsla (e. guild by association).

Í nýliðnum sveitastjórnarkosningum döðruðu Framsóknarmenn við fordóma. Áður en allt fer í háaloft þá ætla ég að taka það sérstaklega skýrt fram að ég geri ráð fyrir því að það hafi verið gert í hinu mesta sakleysi með góðum tilgangi. Engar ásakanir um að tilgangur skilaboðanna hafi verið að ala á fordómum – vandamálið er hins vegar að einhverjir skildu skilaboðin þannig. Það gerist bara mjög oft í mannlegum samskiptum að ætluð skilaboð komast ekki rétt á leiðarenda. Hver sem hefur leikið sér í ‘hvísla í hring’ leiknum sem krakki ætti að kannast við hvernig upprunalegu skilaboðin komast aldrei rétt til skila. Ég ætla því að gefa mér að tilgangur Framsóknarmanna rétt fyrir kosningar hafi ekki verið að ala á fordómum heldur hafi verið raunverulegar, uppbyggilegar, áhyggjur. Það getur verð rétt eða rangt hjá mér, hvort sem það er – þá er það ekki aðalatriðið. Rökvillurnar eru aðalatriðið og mögulegar afleiðingar þeirra.

Ég hef þegar lýst ‘sök vegna tengsla’. Önnur rökvilla sem er í hjarta þessa máls eru ógnarrökin (hræðslurök, snjóboltavilla, e. appeal to fear). Jafnvel þó að tilgangur skilaboðanna sé góður þá getur efni þeirra innihaldið atriði sem einhverjir eru fordómafullir gagnvart. Atriði sem einhverjir skilja ekki, tilvísun í menningu sem er framandi, eitthvað óþekkt sem er vert að huga að með varkárni – eitthvað sem við skiljum ekki og erum því ekki dómbær um. Þegar við skiljum ekki eitthvað þá dæmum við það án þekkingar. Við dæmum það fyrirfram … fordæmum.

Aftur, fordómar eru ekki endilega slæmir. Við búum hinsvegar í samfélagi manna og ýmis konar ‘tjáning’ á fordómum okkar getur verið mjög … mismunandi. Þess vegna eru ákvæði um mannréttindi  í stjórnarskrá (65. grein), til þess að minna okkur á. Út af ofangreindum rökvillum (og nokkrum öðrum) þá getur verið mjög erfitt að fjalla um þessi málefni án þess að misskiljast. Að ala á ótta er að biðla til vanþekkingar. Það er ekki til þess gert að ná upplýstri umræðu. Nákvæmlega þess vegna er slíkur málflutningur rökvilla. Umræða þar sem lausnir byggjast á ótta og fordómum endar aldrei í sameiginlegum skilningi á aðstæðunum og lausn sem allir eru sáttir við.  Því langar mér aðeins að fjalla um mögulega atburðarrás.

Gefum okkur að skilaboð Framsóknar fyrir kosningar hafi verið send í hinu mesta sakleysi. Staðreyndin er sú að skilaboðin komust ekki þannig til skila. Ábyrgðin á því liggur jafnt hjá þeim sem tók við skilaboðunum, og þeim sem sendi þau frá sér (að leiðrétta ekki). Ástæðurnar fyrir því að skilaboðin voru ekki leiðrétt geta líka verið fullkomlega saklausar en vegna þess, þá myndast hérna möguleiki á sök vegna tenglsa. Ekki hvað Framsókn varðar, heldur þá sem misskildu skilaboðin. Þar finna þeir hljómgrunn fyrir fordómafullar túlkanir á annars (mögulega) ágætri ábendingu. Ef ásetningur Framsóknar er saklaus, þá væntanlega komast ekki túlkanir viðkomandi hóps manna ekki í framkvæmd – en vegna þess að Framsókn er þá orðinn sameiginlegur vettvangur fyrir þessar ranghugmyndir (sök vegna tengsla) þá verður það þangað sem slíkar hugmyndir verða áfram sóttar. Eina leiðin til þess að koma svo þessum málum í framkvæmd verður að finna frambjóðendur sem standa fastar á þessum málum … hversu auðvelt verður það fyrir þá sem standa að fylgi Framsóknar að standa saman í að styðja frambjóðendur sem hafa það að markmiði að koma misskilningnum í framkvæmd?

Sama hvað, ef við bregðumst ekki við ótta og fordómum á uppbyggilegan og fræðandi máta – þá endum við sem fórnarlamb óttans. Ef tilgangur Framsóknar var í sakleysi sínu að vekja athygli á réttmætu vandamáli, þá misskildist það tvímælalaust og núverandi flokkur getur glatast í einfaldri yfirtöku. Ef tilgangur Framsóknar var að fiska atkvæði – þá getur núverandi flokkur glatast í einfaldri yfirtöku. Ef tilgangur Framsóknar var óttaáróður og ætlunin er að framfylgja því sem var sagt – þá er yfirtakan hafin. Hvað segja framsóknarfólk í sveitastjórnum út um allt land um það? Er samvinnufélagshugmyndin alveg horfin? Samræmist það gildum xb um mannréttindi og stjórnmál?

Við berjumst fyrir mannréttindum, virðingu fyrir einstaklingnum og fjölskyldunni. Við höfnum hvers konar mismunun sem gerir greinarmun á fólki t.d. eftir kynþætti, kynferði, tungu, trú, þjóðerni, kynhneigð, búsetu eða stjórnmálaskoðunum. Við munum ávallt verja skoðana- og tjáningarfrelsi, trúfrelsi og friðhelgi einkalífs.

Við byggjum á frjálslyndri hugmyndafræði og teljum því farsælast að ná fram niðurstöðu með samvinnu ólíkra afla og hagsmuna sem byggð er á hófsemi og heiðarleika.

Ég vil taka það sérstaklega fram að það er engin ‘árás’ fólgin í þessari grein. Ég hef í alvöru áhyggjur af því að fordómar hasli sér völl í íslenskum stjórnmálum. Tilgangur greinarinnar er að útskýra hvernig það getur gerst í kjölfar nýliðinna sveitastjórnakosninga – ef ekki er hætt að ala á ótta í umræðu um mjög alvarleg og mikilvæg mál. Það er mjög erfitt að útskýra rökvillur og hversu hættulegar þær eru. Ef það væri auðvelt þá væru þær ekki rökvillur. Ákveðnir aðilar _verða_ að vera sérfræðingar í þeim og beita sér sérstaklega fyrir því að forðast þær. Rökvillur eiga ekki heima í stjórnmálum og fjölmiðlum. Ábyrgð þeirra sem notar rökvillur vísvitandi er mikil.

Morðhótanir tilheyra ekki tjáningarfrelsi

Varðandi frétt: Salman Tamimi kærir hatursfull ummæli

Tjáningarfrelsið er sérstaklega hugsað til þess að vernda skoðanir sem þjóðfélagið er á móti og telur viðbjóðslegar, svosem trúleysi í kristnu samfélagi, Islam í trúlausu samfélagi og kristni i í islömsku samfélagi. Fólk hefur EKKI rétt á því að vera ekki móðgað eða tilfinningalega sært. Það hefur engan rétt til að hafa “skoðanir sínar í friði” fyrir öðrum skoðunum og engan rétt til þess að þagga niður í þeim skoðunum sem þeir eru ósáttir við, sama hversu heimskulegar og ljótar þær eru.

Það er vegna þess að við höfum ekki réttinn til að vera ekki móðguð eða særð.

En við höfum rétt til friðhelgi einkalífs. Við höfum einnig rétt á sanngjörnum réttarhöldum og við höfum rétt til öryggis.

Þess vegna hef ég t.d. ekki viljað lögleiða dreifingu á persónugögnum um aðra. Né hef ég viljað afnema heimild dómstóla til að krefjast lögbanns til þess að vernda rannsóknarhagsmuni. Né hef ég viljað lögleiða morðhótanir.

Þetta sem Salmann Tamimi gengur í gegnum núna er ekki bara móðgun. Að móðga spámann hans er gott og blessað. Að kalla hann, mig og alla aðra fífl og fávita er líka hið besta mál sem og að hæðast að honum, og mér, fyrir okkar trúarskoðanir og lífsviðhorf.

En hér tölum við um líf mannsins. Salmann Tamimi situr undir morðhótunum. Það er gróft brot á rétti hans til persónulegs öryggis. Þetta er ekki sambærilegt við bann gegn guðlasti eða öðrum heimskulegum bönnum gegn því að særa tilfinningar fólks. Þetta er ekki sambærilegt við að kalla homma kynvillinga, múslima villimenn eða trúleysingja sið- og samviskulausa. Þetta eru morðhótanir.

Mér finnst mikilvægt að við talsmenn tjáningarfrelsis sínum afdráttarlausan skilning á þessu.

Posted in Uncategorized