Litlu stóru málin

Píratar eru best þekktir sem angi alþjóðahreyfingar sem hefur borgararéttindi, gagnsæi stjórnsýslu, upplýsingafrelsi og beint lýðræði á oddinum. Þetta eru stóru málin og grunnstefna Pírata endurspeglar þann verueika, en hún er hornsteinn stefnu móðurfélagsins og allra aðildarfélaga Pírata.
En Píratar hafa mikla breidd, í okkar röðum er fólk með andstæðar skoðanir, ólík áhugamál og fagþekking einstaklinganna í flokknum er af öllum toga. Fyrir vikið eru á stefnuskrá hjá okkur fjölmörg mál sem mætti segja að séu minniháttar.
Nýverið fékk einn frambjóðandi okkar til borgarstjórnar Reykjavíkur símtal vegna eins þessara litlu mála. Á línunni var sannfærður kjósandi sem að vildi þakka Pírötum fyrir að hafa á stefnuskrá sinni að aðgangur barna og unglinga að samskiptum við dýr innan borgarmarka yrði efldur og að kannaðar verði leiðir til að gera börnum kleift að umgangast hesta og leggja stund á útreiðar. Þessi sami kjósandi sagði frambjóðanda okkar enn fremur að hann teldi rétt að láta alla sína vini vita, sem vafalaust yrðu jafn hrifnir.
Píratar í Reykjavík hafa fengið nóg af spurningum um þessa stefnu. Hví hesta? Raunin er sú að á meðan það er ekki skortur á hestaleigum á höfuðborgarsvæðinu þá er kostnaður við hestaleigur hár og fæstir borgarbúar leggja stund á útreiðar. Það má vel vera að lausnin sé ekki flóknari en svo en að gera hestaleigunum kleift að bjóða upp á aðgang að hestum á grænu svæðunum sem finnast innan borgarmarkanna.
Þetta er gott dæmi um lítið stórt stefnumál.
Posted in Uncategorized

Er hústökufólk í borgarstjórn?

Flugvallarmálið hefur verið mikið í deiglunni undanfarin misseri. Þessari grein er ekki ætlað að vera innlegg í þá umræðu heldur er hún um þá stöðu sem komin er upp í Fluggörðum Reykjavíkurflugvallar.
Á síðasta ári fékk sala á flugskýli til einkaafnota ekki þinglýsingu á þeim forsendum að það vantaði skilyrði í samningnum um að tilvonandi eigandi þyrfti að rífa skýlið fyrir árslok 2015 á eigin kostnað. Þetta var það fyrsta sem eigendur skýlanna heyrðu um að til stæði að rífa skýlin.
Fulltrúar félags eigenda í Fluggörðum sendu þá fulltrúa á fund borgarstjóra til að spyrja út í málið. Þar fengu þeir fengu skýr skilaboð um að umræða væri ekki í boði. Í kjölfarið sáu Fluggarðamenn sér engan sinn kost vænna en að leita álits lögmannsstofunnar Lex. Í áliti lögmanns á stofunni segir að á meðan ágreiningslaust sé að engir lóðasamningar hafi verið gerðir þá hafi 14 af 17 flugskýlum staðið í fullan hefðartíma, sbr. 2. gr. hefðarlaga 46/1905.
Álitinu lýkur svo á þessum orðum: „Af hálfu Reykjavíkurborgar liggja fyrir skipulagsáætlanir sem miða að því að breyta Fluggarðasvæðinu í ibúabyggð. Virðist því stefnt að eignaupptöku á mannvirkjum í þeim mæli að það á sér fáar hliðstæður hér á landi. Í því ljósi hlýtur að vekja stórkostlega furðu að Reykjavíkurborg hefur lítið sem ekkert samráð haft við þinglýsta eigendur mannvirkja í Fluggörðum.“
Í grunnstefnu Pírata segir að að allir eigi að hafa rétt til að koma að ákvarðanatöku um málefni sem varða þá. Þar segir einnig að Píratar beita sér fyrir eflingu og verndun borgararéttinda. Pírötum er því einfaldlega ekki stætt á öðru en að benda á þá stöðu sem þarna er komin upp. Að valtað sé yfir fólk án samráðs og án tillits til þeirra réttinda er nokkuð sem við Píratar í Reykjavík getum ekki horft upp á þegjandi og hljóðalaust.
Undirritaðir telja að hægt sé að finna ásættanlegar lausnir á mörgum erfiðum málum. Grunnforsendur þess eru þó þær sömu og grunnforsendur raunverulegs lýðræðis: samskipti og upplýsingar. Án samráðs við þá sem hagsmuna hafa að gæta af ákvarðanatöku er aldrei hægt að halda því fram að ákvörðunin hafi verið tekin með sanngjörnum hætti, algjörlega óháð því hversu góð eða slæm hún er í sjálfu sér.
Samningsstaða Fluggarðamanna er skert verulega sökum þess með hvaða hætti Reykjavíkurborg gengur fram. Þó er líklegt að ef af eignarupptöku verður sé borgin hugsanlega búin að baka sér heilmikla skaðabótaskyldu sem gæti orðið mun dýrkeyptari en sú leið að ganga heiðarlega að málinu.
Halldór Auðar Svansson skipar 1. sætið á lista Pírata í Reykjavík.
Þórgnýr Thoroddsen skipar 2. sætið á lista Pírata í Reykjavík.
Posted in Uncategorized

Möglað um Mosku

Pírötum barst eitt sinn bréf þar sem borið var undir flokkinn að taka afstöðu gegn byggingu bænahúss múslíma í Reykjavík. Það skal tekið fram strax að Píratar munu ekki beita sér gegn byggingu bænahúss múslima, eða nokkurra annarra trúarbragða.

Einu áþreifanlegu rökin sem færð voru fyrir því að moska skyldi ekki rísa í Reykjavík voru þau
“[……] að þessi trúarbrögð byggjast á mjög róttækri hugmyndafræði og eru mikil öfgaöfl, einnig standast þau engan veginn jafnréttislög á Íslandi”.

 

Það verður að teljast í meira lagi undarlegt að ætla abrahamískum trúarbrögðum samhljóm með jafnrétti eða þá öðrum grundvallarréttindum ef út í það er farið.

“Konan á að læra í kyrrþey, í allri undirgefni. Ekki leyfi ég konu að kenna eða taka sér vald yfir manninum, heldur á hún að vera kyrrlát. Því að Adam var fyrst myndaður, síðan Eva. Adam lét ekki tælast, heldur lét konan tælast og gjörðist brotleg. En hún mun hólpin verða, sakir barnburðarins, ef hún stendur stöðug í trú, kærleika og helgun, samfara hóglæti.” – Fyrra Tímóteusarbréf, 2:11-15 (Nýja testamenti).

Íslenskt samfélag hefur sem betur fer þroskast úr því að taka ríkistrúna of alvarlega, en sú þróun átti sér ekki stað með banni á kirkjum, bænahaldi, Biblíulestri eða trúboði. Ekki þarf boð eða bönn til að almenningur hætti að taka mark á Biblíunni. Árangursríkasta leiðin til að sporna við neikvæðri hugmyndafræði er efling borgararéttinda, ekki takmörkun þeirra.

Ef fólk hefur áhyggjur af hugmyndafræði íslams, eða þá annarra trúarbragða, þá er rétta leiðin sú að nýta þau borgararéttindi sem bjóðast, nefnilega trú-, skoðana- og tjáningarfrelsið til þess að gagnrýna þau efnislega. Svo mikið er víst að af nógu er að taka.

Trúfrelsi, rétt eins og tjáningarfrelsi, byggir nefnilega ekki á því að fólk fari eingöngu með sannar og fallegar staðhæfingar, heldur á því að næg sé samkeppnin á vettvangi hugmyndaskiptanna.

Posted in Uncategorized

Loforðalýðræði á fjögurra ára fresti

Í nýlegri grein eftir Guðrúnu Bryndísi er áhugaverð tilvitnun:

Hann kenndi mér lausnina á því hvernig mætti ná manni inn – galdurinn væri að vera með einsmálsstefnu sem væri FLUGVÖLLURINN!

Í sjálfu sér er ekkert að kosningabaráttu sem snýst bara um eitt mál en þegar kjörtímabilið er fjögur ár þá þarf slíkt mál að vera ansi viðamikið og flókið til þess að vera full vinna í fjögur ár að klára. Þetta er eitt af vandamálum núverandi lýðræðiskerfis, við erum bara lýðræði á fjögurra ára fresti. Núverandi ríkisstjórn er til dæmis með 49,86% atkvæða, 60,3% þingsæta og 100% valds í fjögur ár – út af niðurstöðum einna kosninga.

Dæmið um flugvöllinn gæti valdið annari áhugaverðri niðurstöðu fyrir lýðræðið. Eitt mál sem skilar einhverjum fulltrúum. Segjum að það yrði strax drifið í kosningu um málið og niðurstaða fengin, hvað ætti þetta fólk að gera árin sem eru eftir? Segjum sem svo að það væri ekki farið í kosningu um málið fyrr en að loknu næsta kjörtímabili, hvað var þetta fólk þá að gera allan tímann?

Er ekki réttast að hvert og eitt mál fari bara í sinn farveg og klárist á eigin tíma – og þau sem keyra það mál áfram klári bara á sama tíma. Af hverju þurfum við að sitja uppi með fólk sem er kosið út á loforð allt kjörtímabilið þegar það er búið að klára loforðamálin? Hvað er það fólk að skipta sér að öðrum málum en þeim sem þau notuðu til þess að kaupa sér atkvæði til valda?

Hvað er þá rétt að gera? Kjörnir fulltrúar eiga að vera í þjónustu við lýðræðið. Eftirlit með því að lýðræðislegar niðurstöður komist í framkvæmd og skil á verkefnum séu eftir kröfum. Að vinna að lýðræðislegu samfélagi er stöðug vinna, það er aðalverkefni Pírata í þessum sveitastjórnarkosningum. Til þess þarf ýmislegt að breytast. Til þess að við getum tekið sameiginlegar ákvarðanir um forgangsröðun verkefna þá þurfum við að sjá hvernig bókhaldið er = opið bókhald. Með fullu aðgengi að öllum upplýsingum sem þarf til þess að geta tekið upplýstar ákvarðanir þá verður lýðræðið fyrir alla, ekki bara á fjögurra ára fresti.

xthlydraedi

 

Maya og óttinn

Í gær dó Maya Angelou, 86 ára gömul. Hún var kona sem barðist alla ævi sinni gegn mismunun. Vegna ótta annarra á hinu óþekkta fæddist hún, sem blökkukona í suðurríkjum Bandaríkjanna, inn í samfélag þar sem sumir máttu en aðrir ekki. Þessi aðgreining, sem var til komin vegna mannvonsku og fáfræði, ýtti undir fátækt, sem svo leiddi af sér glæpi.

Þegar hún var sjö ára gömul var henni nauðgað af kærasta móður sinnar. Hún sagði frá ódæðinu, sem varð til þess að æstur skríll drap nauðgarann. Hún öðlaðist við þetta sinn eiginn ótta – ótta við að orð hennar gætu haft alvarleg áhrif – og þagði hún því í sex ár þar á eftir.

Það er til fólk í öllum samfélögum sem nærist á ótta, eigin ótta eða ótta annarra. Þessi ótti er lamandi, hann tætir burt alla skynsemi og hamlar framförum.

Þessi ótti hefur ahrif á hegðun fólks. Hann veldur þröngsýni og fátækt í hugsun. Hann lætur fólk hverfa ofan í þjóðerni sitt, litarhaft eða trú. Lætur fólk reiðast þeim sem eru sér ólíkir, og spyrna gegn þeim. Í einhverjum tilfellum veldur það flóttahneigð: fólk skapar sér ímyndaðan heim þar sem það verður ekki vart við taugaveiklun sína gagnvart hinu óþekkta. Það var einmitt vegna þannig ótta sem Martin Heidegger kallaði eftir “rótfestu í hefðum sem tengjast stað og umhverfi sem eina öryggið sem býðst í pólitískum eða félagslegum aðgerðum í hættulegum heimi.”[1]

Aðgreining leyfir fáfræði um mismunandi félagslegar aðstæður og menningar að dafna, sem ýtir undir gróusögur, sögusagnir, og kolrangar staðalímyndir.

Popúlismi getur af sér popúlisma

Þegar fólk nærist á ótta annarra og hagnast á fordómum þess, þá kallast það popúlismi. Popúlistinn reynir að finna veikan blett, einhverja bólu í hugarfari náungans, og þrýsta á hann. Stundum kemur eitthvað slímugt út.

Popúlistinn er oft ekki að því vísvitandi: þeir eru sjaldan svo snjallir. Þeir athafna sig eftir sínum eigin ótta. Stundum er þessi ótti við fólk eins og Mayu Angelou, sem er öðruvísi á litinn en hinir hræddu. Stundum er þessi ótti við fólk eins og Harvey Milk, sem hefur aðra kynhneigð en hinir hræddu. Stundum er óttinn við fólk sem trúir á aðra guði, eða jafnvel sama guð undir öðru nafni. Eða fólk sem bara klæðir sig öðruvísi, eða talar annað tungumál.

En popúlistinn veit að hann getur ekki hagnast á sömu fordómum endalaust. Því þarf popúlistinn alltaf að víkka út. Bæði með því að víkka út eigin fordóma, en líka með því að skapa meiri ótta. Gera samfélagið beinlínis verra.

Þetta er gert með hólfun og skipulagningu. Allt á að vera á sínum stað, allt á að hegða sér rétt. Allt á að lúta stjórn. Eins og Vidler komst að orði eru nútímaborgir orðnar að “ímynd Taylorískrar framleiðslu”[2]. Edward T Relph sagði þessa hugmynd hafa leitt af sér samfélag sem var “afturhaldssamt, ljótt, sterílt, andfélagslegt, og almennt illa séð.”[3]

Popúlistinn hræðist það sem hann skilur ekki. Því gefur hann sér það hvernig allt virkar, og reynir að umraða heiminum í það líkan. Allt sem ekki passar er ýmist þröngvað inn í það, eða því er tortímt.

Einn daginn eru múslimar slæmir, og næsta dag eru það allir sem ekki eru kristnir. Næsta þar á eftir eru það einhverjir aðrir.

Frægt er ljóð Martins Niemöller: “first they came for the Socialists, but I did not speak out – because I was not a Socialist.”[4] Muniði hvernig það endar?

Popúlistinn byrjar alltaf á einhverju einföldu, einhverju – eða einhverjum – sem öllum er sama um.

Það var enginn eftir til að tala fyrir þig

Það krefst hugrekkis að sigrast á ótta. Það krefst enn meiri hugrekkis að hafna popúlisma. Maya Angelou gerði hvort tveggja, og á langri ævi sinni sá hún heiminn breytast á ýmsa vegu, stundum til hins betra, stundum til hins verra.

Á þeirri tæpu öld sem hún lifði tók óttinn á sig margar birtingarmyndir. Maya Angelou byrjaði að tala á ný meðan seinni heimstyrjöld geisaði, á tíma þar sem milljónir létust vegna ótta. Stríðið kom til ekki síst vegna þess að fólk sem nærðist á ótta annarra náði yfirhöndinni yfir rökhyggju. Þetta er auðvitað einföldun, en skrefin voru þrjú:

  1.  Hrun í fjármálakerfinu sem hafði alvarlegar afleiðingar fyrir afkomuöryggi fólks
  2. Vaxandi þjóðernishyggja, einangrunnarhyggja og annarskyns óttadrifin pólitík
  3. Heimsstyrjöld þegar það sauð upp úr milli nágrannaþjóða og þjóðarbrota

Við erum einu skrefi frá því að þurfa að horfa upp á annað blóðbað. Á vissan hátt er það þegar hafið: í Sýrlandi, í Úkraínu, í Tælandi. Eins í kosningunum í Evrópu um síðustu helgi, og kosningunum sem eru framundan á Íslandi, þá var óttadrifni popúlisminn aðal umræðuefnið. Það kemst ekkert að, nákvæmlega ekki neitt, nema hræðsluáróður, fordómar og viðbjóður.

Það kvarnast fljótt úr hugrekkinu þegar óttinn er allstaðar. En það er óskynsamt að óttast hið óþekkta, þegar hið þekkta er miklu verra: ef þessi óttadrifna alda popúlismans fær að halda áfram með sama hætti, þá er raunveruleg hætta á því að næsti umgangur verði ofbeldisfullur. Að samfélög sem höfðu öll heimsins tækifæri til að læra hvor af öðru og bæta sig taki sig í staðinn til og heyji stríð.

Það þarf ekki að gerast. Francis Fukuyama hafði rangt fyrir sér: sagan er ekki búin. Maya Angelou sigraðist á sínum ótta og varð ásamt Martin Luther King, Malcolm X og Nelson Mandela einn af risum mannréttindabaráttunnar. Þannig getur sagan okkar orðið. Hugrekkið getur tórað enn.

 

 

 [1]: Vitnað: Harvey, The Postmodern Condition, bls. 35.

 [2]: Anthony Vidler, The Third Typology.

 [3]: Edward T. Relph, The Modern Urban Landscape

 [4]: http://veni.com/articles/firsttheycameforme.html

Posted in Uncategorized

Siðprýði kemur pólska laginu ekkert við

Varðandi: http://www.visir.is/sidprudir-domarar-urdu-polverjunum-ad-falli/article/2014140519827

Mér er persónulega alveg sama hvort þetta sé siðprútt atriði eða ekki. Sömuleiðis er mér alveg sama þótt það sé kynferðislegt og meira að segja sama þótt boðskapurinn sé yfirborðskenndur og gerður í þeim eina tilgangi að vekja athygli á kynþokka flutningsmanna.

Það sem mér er hinsvegar ekki jafn sama um, er sá boðskapur að það sé beinlínis það sem skilgreini slavneskar stelpur, sé kynþokki. Kynþokki er fínn, allt í lagi líka að vera með svæsið, kynferðislegt atriði sem sjokkerar púrítanistana og allt það. Það er bara hollt. En ef kynþokki er ekkert minna en það sem skilgreinir slavneskar konur, þá er augljóslega gert lítið úr öllu öðru sem þær geta og gera. Það finnst mér ekki kúl.

Sem dæmi; segjum sem svo að Sóley Tómasdóttir spyrji mig hvað að því hvað sé það besta sem ég viti um Brynjar Níelsson, og ég svara því að hann sé myndarlegur.

Væri ég bara að segja að hann sé myndarlegur? Nei, ég væri líka að segja að allir hinir mannkostir hans séu síðri en sá. Með því væri ekki sagt að það sé neitt athugunarvert við þá staðreynd að hann sé vissulega fjallmyndarlegur. En ég væri óneitanlega að gera lítið úr honum. Það er punkturinn.

Það er bara mjög fínt framtak að vera djarfur á sviði og fara hæfilega í taugarnar á púrítanistunum. Þetta snýst ekki um siðprýði. Siðprýði er hundleiðinleg. En þetta er meira; þetta eru skilaboð sem gera lítið úr öðrum hæfileikum slavneskra kvenna en þeim eina að vera geðveikt sexí.

En síðan er auðvitað annar vinkill á þessu, sem gæti jafnvel verið stærri og merkilegri þótt fólk geti sjálfsagt rifist um það, en það er að leggja svo ríka áherslu á eitt, tiltekið einkenni heils þjóðflokks til að byrja með. – Óháð því hvort það sé jákvætt eða neikvætt einkenni. – Setjum okkur í spor slavneskrar konu sem er bara ekkert sérstaklega sexí og veit það. Er hún ekki lengur nógu góð fyrir slavneska menningu? – Jafnvel ef hún er hæfileikarík eða bara góðhjörtuð? – Samkvæmt þessu lagi, nei, þá er hún það eiginlega ekki. Þau skilaboð eru mjög alvarlega ókúl. Anti-kúl, jafnvel.

Svo er hitt að þetta er bara frekar lélegt lag! – Nema klassíski kafllinn, hann er bara nokkuð góður.

Ef þetta atriði móðgaði einhverja púrítanista, þá er það allavega bót í máli, en það sem ég hef að athuga við þetta lag eru skilaboðin, ekki svæsnin.

En að lokum þessum lestri vil ég bara aftur fagna því að Evrópa hafi ekki látið útlit og meint, yfirvofandi menningarhrun Evrópu aftra sér í því að kjósa Conchitu Wurst.

Posted in Uncategorized