Píratar í Kópavogi

Ímyndum okkur samfélag þar sem maður getur tekið upp fartölvuna sína eða snjallsímann og fengið á skjáinn, á einfaldan hátt, stöðu sveitafélagsins í máli og myndum. Flett yfir bókhaldið, athugað stöðu verkefna, skoðað áætlanir, kostnað og fleirra sem tengist rekstri bæjarfélagsins. Sent inn hugmyndir, rætt um kosti og galla þeirra, mögulegar útfærslur og kosið um einstök málefni. Með öðrum orðum: Verið virkur þáttakandi í opnu og lýðræðislegu samfélagi. Ef þetta er eithvað sem þér lýst vel á, þá eru miklar líkur á að þú getir kallað þig Pírata.

Orðið Pírati er tiltölulega nýtt hugtak á Íslandi, en Píratar eru ekki bara stjórnmálaflokkur heldur samheiti yfir ákveðna hugmynd og afstöðu, til dæmis þá afstöðu að lýðræði er ekki eitthvað sem þú mátt iðka einu sinni til tvisvar á fjögurra ára fresti, heldur veruleiki sem fólk býr við. En til þess að breyta lýðræðinu þannig að það virki bara á fjögurra ára fresti yfir í raunverulegt lýðræði, þar sem allir geta tekið þátt, þá þurfum við að breyta pólitíkinni.

Staðreyndin er sú að við lifum við allt annan veruleika en við gerðum fyrir tíu til tuttugu árum síðan. Við lifum á tímum þar sem upplýsingar eru alls staðar, það er hægt að tala við nánast hvern sem er og lesa hvað sem er með tæki sem passar í buxnavasa. Við lifum á upplýsingaöld, á tímum þar sem fólk getur gert nánast hvað sem er ef viljinn er fyrir hendi, en það sem hefur vantað hingað er stjórnmálaafl sem endurspeglar þennan veruleika. Framtíðin er núna og það er kominn tími til þess að skila valdinu til fólksins. Það er kominn tími til þess að innheimta hið lýðræðislega lán sem valdhafar og embættismenn hafa tekið sér. Við erum þegar byrjuð á vettvangi Alþingis, en nú er komið að nærsamfélaginu, á sveitarstjórnarstiginu.

Það mun ekkert breytast með pólitík nema fólkið taki þátt og lykilinn að því eru lýðræðisumbætur, þær eru fyrsta skrefið. Lýðræðisumbætur geta þýtt algert gagnsæi í fjárhag sveitarfélagsins, aukið aðgengi fólks að ákvarðanatöku og forgangsröðun í málefnum þess. Lýðræðisumbætur fela það í sér að skipta út innantómum loforðum fyrir vel rökstuddan málflutning. Lýðræðisumbætur fela það í sér að treysta íbúum og koma fram við þá eins og fullorðið fólk. Með slíkum umbótum fylgir af sjálfsögðu ábyrgð, en ábyrgð er forsenda þess að við getum þroskast sem vel upplýst samfélag og gefur okkur verkfærin til að takast á við verkefni framtíðarinnar.