Píratar í Kópavogi

Ímyndum okkur samfélag þar sem maður getur tekið upp fartölvuna sína eða snjallsímann og fengið á skjáinn, á einfaldan hátt, stöðu sveitafélagsins í máli og myndum. Flett yfir bókhaldið, athugað stöðu verkefna, skoðað áætlanir, kostnað og fleirra sem tengist rekstri bæjarfélagsins. Sent inn hugmyndir, rætt um kosti og galla þeirra, mögulegar útfærslur og kosið um einstök málefni. Með öðrum orðum: Verið virkur þáttakandi í opnu og lýðræðislegu samfélagi. Ef þetta er eithvað sem þér lýst vel á, þá eru miklar líkur á að þú getir kallað þig Pírata.

Orðið Pírati er tiltölulega nýtt hugtak á Íslandi, en Píratar eru ekki bara stjórnmálaflokkur heldur samheiti yfir ákveðna hugmynd og afstöðu, til dæmis þá afstöðu að lýðræði er ekki eitthvað sem þú mátt iðka einu sinni til tvisvar á fjögurra ára fresti, heldur veruleiki sem fólk býr við. En til þess að breyta lýðræðinu þannig að það virki bara á fjögurra ára fresti yfir í raunverulegt lýðræði, þar sem allir geta tekið þátt, þá þurfum við að breyta pólitíkinni.

Staðreyndin er sú að við lifum við allt annan veruleika en við gerðum fyrir tíu til tuttugu árum síðan. Við lifum á tímum þar sem upplýsingar eru alls staðar, það er hægt að tala við nánast hvern sem er og lesa hvað sem er með tæki sem passar í buxnavasa. Við lifum á upplýsingaöld, á tímum þar sem fólk getur gert nánast hvað sem er ef viljinn er fyrir hendi, en það sem hefur vantað hingað er stjórnmálaafl sem endurspeglar þennan veruleika. Framtíðin er núna og það er kominn tími til þess að skila valdinu til fólksins. Það er kominn tími til þess að innheimta hið lýðræðislega lán sem valdhafar og embættismenn hafa tekið sér. Við erum þegar byrjuð á vettvangi Alþingis, en nú er komið að nærsamfélaginu, á sveitarstjórnarstiginu.

Það mun ekkert breytast með pólitík nema fólkið taki þátt og lykilinn að því eru lýðræðisumbætur, þær eru fyrsta skrefið. Lýðræðisumbætur geta þýtt algert gagnsæi í fjárhag sveitarfélagsins, aukið aðgengi fólks að ákvarðanatöku og forgangsröðun í málefnum þess. Lýðræðisumbætur fela það í sér að skipta út innantómum loforðum fyrir vel rökstuddan málflutning. Lýðræðisumbætur fela það í sér að treysta íbúum og koma fram við þá eins og fullorðið fólk. Með slíkum umbótum fylgir af sjálfsögðu ábyrgð, en ábyrgð er forsenda þess að við getum þroskast sem vel upplýst samfélag og gefur okkur verkfærin til að takast á við verkefni framtíðarinnar.

Posted in Uncategorized

Grátur og gnístran tanna í Reykjavík

Heimili: Reykjavík. Velferð: ?

Okkur skortir rannsóknir en vitum þó að margir borgarbúar eru hjálparþurfi.  Aldraðir, veikir, fatlaðir, efnalitlar fjölskyldur, námsmenn, fíklar, heimilislausir, útlendingar, atvinnuleitendur, fangar, skuldarar, börn og unglingar sem búa við erfiðar heimilisaðstæður eða kljást við vanlíðan af öðrum sökum … listinn er langur.

Borgin stendur sig ekki vel í að rétta hjálparhönd. Ástæður eru m.a.;

• peningaskortur,

• kerfisbákn og regluveldi sem þarf að taka til í,

• þekkingarskortur á aðstæðum borgarbúa,

• hugsunarleysi,

• vond lög og reglugerðir,

• forréttindi sem fast er haldið í,

• lélegt upplýsingakerfi og skertur aðgangur fólks að vitneskju um málefni sem það varðar.

• hræðsla við breytingar.

 

Kerfi ver alltaf sjálft sig, rétt eins og valdamiklir völdin sín og auðmenn peningana sína. Þess vegna þurfum við „counterstrike“; öflugt aðhald og sterka mannréttindagátt sem verkar eins og gagnárás ef stjórnkerfi borgarinnar fer að ganga á réttindi borgaranna og borgin hættir að rækja skyldur sínar.

Í Reykjavík er grátur og gnístran tanna daglegt brauð á mörgum heimilum. Þar með töldum elliheimilum, fangelsum, sjúkrahúsum, hjúkrunarheimilum, sambýlum o.fl. þar sem fólk heldur heimili, nauðugt eða sjálfviljugt. Fjöldi fólks glímir ekki bara við fjárhags,- skulda- og húsnæðisvandamál heldur líka áhyggjur af börnunum sínum, einmanaleika, næringarskort, áhrifaleysi og lamandi þreytu, uppgjöf og úrræðaleysi þess sem stendur andspænis ofurvaldi gamalgróins kerfis.

Því sem næst öll orka margra fer í að sækja rétt sinn til borgarinnar og/eða verjast ofurkröfum banka og lögfræðinga, í stað þess að byggja sig upp, gefa af sér, ná heilsu, vinna, mennta sig og vera með fjölskyldu sinni og fleira fólki.

Þið ykkar sem eruð í góðum málum, lokið augunum skamma stund og ímyndið ykkur hvernig það er að horfa í augun á svöngu barni og segja „því miður“ eða streituna sem fylgir öllum erfiðleikunum sem taldir eru upp hér að framan. Þeir eru raunveruleg viðfangsefni margra Reykvíkinga. Hvað er til ráða? Hér eru nokkrar tillögur. Borgin getur:

 1. Greitt öllum Reykvíkingum grunnframfærslu.
 2. Ljáð þeim húsrúm sem vantar samastað. Borgin á yfir 300 fasteignir og getur samið um að fá fleiri, t.d. frá Íbúðalánasjóði.
 3. Boðið borgurum upp á hollan morgunverð.
 4.  Gert leikskólann gjaldfrjálsan.
 5. Spurt borgarana sjálfa hverju þarf að breyta.
 6. Innleitt áætlun undirritaðrar um nýjar leiðir fyrir þá sem skulda Reykjavíkurborg. Sjá „Ég skil! Skuldaskil“ á blog.piratar.is/kristin
 7. Haldið alþjóðlega samkeppni í formi fjársjóðsleitar: „Leitin að nýjum tekjulindum fyrir Reykjavík“.
 8. Einfaldað stjórnun borgarinnar, aukið aðgengi að upplýsingum og skilgreint alla aðstoð við borgarbúa upp á nýtt með einfaldleika og gagnsæi í forgrunni.
 9. Komið því skýrt á framfæri hverjar skyldur borgarinnar og réttindi borgarbúa eru.
 10. Komið á alvöru þátttökulýðræði.
 11. Nýtt borgarbyggingar betur undir samveru borgarbúa, tómstundir, fræðslu, samhjálp og vinnuskipti. Húsnæði er vannýtt í t.d. kirkjum og félagsmiðstöðvar hafa breyst í „eitthvað sem er til úti á landi“ að miklu leyti.
 12.  Hér má hlaða inn öllu þessu góða sem við getum farið að hugsa um þegar við höfum þak yfir höfuðið, mat á borðið og erum ekki að sligast af áhyggjum út af skuldum og velferð barnanna okkar.

Það er léleg klisja að við getum engu breytt. Það hefur þvert á móti aldrei neitt breyst nema einmitt vegna þess að einstaklingar tóku sig saman og breyttu því, svo vitnað sé til orða mannfræðingsins Margaret Mead.

Við getum breytt borginni í betri samastað.

Kristín Elfa Guðnadóttir

Höfundur er Pírati.

 

Posted in Uncategorized

Furðufræði Ragnars Árnasonar

[Þessi grein birtist upphaflega á vefsíðu minni, hér]

Mér finnst alltaf pínlegt þegar fólk er á launum hjá ríkinu við að tala gegn tilvist þess hluta ríkisins sem hentar sér ekki. Ragnar Árnason, hagfræðingur, er einn þessara. Hann starfar hjá Háskóla Íslands, en jafnframt sem efnahagsráðgjafi fjármálaráðherra. Þannig mætti segja að ríkið greiði fyrir tilvist hans, að svo stöddu. En nóg um hræsnina. Skoðum heldur þær reiknikúnstir sem hann byggir sína ómanneskjulega afstöðu á.

Í grein sinni í Hjálmari gefur Ragnar sér að framboðið á heilbrigðisþjónustu sé afskaplega tregbreytileg (inelastic), en að eftirspurnin eftir heilbrigðisþjónustu sé mjög breytileg og háð verði. Leggur hann þá til að allratapið (deadweight loss) sé mikið vegna þessa. Allratap er það þegar bæði seljendur og kaupendur tapa vegna þess að einhver eiginlegur óefnahagur (specific diseconomy, svo maður noti hugtak frá Illich) er til staðar – algengasta dæmið er þegar einhver er með einokunarstöðu, eins og rétt er að ríkið hefur á Íslandi gagnvart heilbrigðisþjónustu (en einnig áfengis- og tóbakssölu, lagasetningu og fleira…). Einokunarstaðan veldur því að söluaðilinn getur verið ósveigjanlegur með verð svo framarlega sem það er einhver tregbreytileiki. Þetta veldur því að færri hafa getu til að kaupa en vilja.

Afgangurinn af röksemdafærslu hans gengur út frá því annars vegar að allratapið sé svo mikið að það sé verulegur skaði af fyrir samfélagið, og hins vegar að hægt sé að komast hjá þessu allratapi ef farið verður út í algjöra einkavæðingu heilbrigðiskerfisins.

Brjótum þetta niður ögn betur svo það fari ekki á milli mála hvað er verið að tala um. Hann fullyrðir að:

 • Framboð á heilbrigðisþjónustu (á Íslandi) sé tregbreytileg
 • Eftirspurnin eftir heilbrigðisþjónustu sé mjög breytileg

Og ályktar að:

 • Allratapið sé mikið, það er, að þetta er svo óhagkvæmt kerfi að allir tapi á tilvist þess
 • Einkavæðing myndi leiða af sér minna allratap

Þessar forsendur og ályktanir verða að teljast afskaplega hæpnar. Hér er Austurríska hagfræðin ráðandi, peningahyggjan. En svona nú til að hafa þetta sanngjarnt ætla ég ekki að benda of mikið á það að tilgangur heilbrigðistryggingakerfis sé ekki að vera hagfræðilega skilvirkt, heldur sé það að tryggja öllum einstaklingum aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Þessi trygging er álitin gagnleg samfélaginu sem og einstaklingunum sem þar búa, vegna þess að þannig hámörkum við bæði vinnufærni einstaklinga og lífsgæði þeirra, sem skilar sér svo margfalt til baka á öllum sviðum samfélagsins. En það væri afskaplega illa gert að núa peningahyggjumanni sem Ragnari um nasir með slíkar staðreyndir. Einblínum frekar á pínlegu mistökin sem hann gerir út frá peningahyggjuforsendum!

Hæpnar forsendur

Með því að gera framboðsfallið að “láréttri bugðu” er Ragnar að halda því fram að framboðið sé fasti vegna þess að það er alltaf til meira framboð – þ.e., að framboðið sé algjörlega óbreytileg, eða að minnsta kosti mjög tregbreytileg. En raunin er önnur. Framboðið er fall af fjölda starfsmanna heilbrigðiskerfisins, þeirra leguplássa sem eru til staðar þar, og þeirra tækja sem eru í boði. Þannig er raunar ýmislegt til í því að segja að það sé allratap af rekstri heilbrigðiskerfisins, enda erfitt að reka slíkt kerfi á sem allra hagkvæmastan hátt — ef einblínt er á peninga. Ef allir læknar vinna hjá ríkinu, ríkið er ekki tilbúið til að borga nema ákveðnar lágar upphæðir, þá verða margir læknar síður en svo sáttir og flytja til Svíþjóðar. Úr verður skortur á læknum. Þeir sem eftir verða þurfa að vinna meiri yfirvinnu, sem er dýrari. Þeir verða líka þreyttari, enda ofhlaðnir vinnu. Það dregur svo úr hagkvæmni starfseminnar. Þarna eru því margir þættir sem spila saman. Þannig að framboðsfallið gengur tiltölulega hægt upp á við, upp að ákveðnum punkti, þar sem það rýkur svo tiltölulega hratt út í hið óendanlega. Uppgangshraði fallsins stýrist af því hversu auðvelt er að lokka fólk aftur heim frá Svíþjóð.

Gerir Ragnar svo ráð fyrir því að punkturinn x* sé vinstra megin við x á grafi sínu (sjá fyrir neðan). Ef þessi fullyrðing stenst þá er allratapið eitthvað, en það er ekki víst að fullyrðingin standist. Það er einhversstaðar hámark á því hversu mikila heilbrigðisþjónustu samfélag af ákveðinni stærð getur þarfnast undir eðlilegum kringumstæðum. Það eru til að mynda ekki nema krabbameinssjúkir sem eru í krabbameinsmeðferð, og sömuleiðis undirgangast afskaplega fáir skurðaðgerðir sem ekki hafa tilefni til. Þannig verður eftirspurnarfallið ekki endilega bein lína, heldur bein að einhverjum punkti, og svo snarpt niðurávið þar eftir. Sniðugur hönnuður heilbrigðiskerfis myndi einmitt reyna að hagræða því með það fyrir augum að láta x = x*, með því að tryggja að framboðið skeri eftirspurnarfallið á sem heppilegustum punkti. Það er hægt að mæla hvort það hafi tekist, en við komum að því á eftir.

Stóra vandamálið við grein Ragnars er að hann snýr dæminu á hvolf. Þetta er algengt vandamál hjá hagfræðingum, enda verður að segjast að af öllum þeim greinum sem kenndar eru við HÍ á hagfræðin mest skylt við guðfræði hvað varðar vísindalegan grundvöll. Það verður nefnilega að taka með í reikninginn að ólíkt almennri einokun, þar sem einokunin fer fram á söluhliðinni, þá er heilbrigðistryggingakerfi einokun á kauphliðinni. Það er að segja að allir í samfélaginu taka sig saman um að vera sem einn kaupandi. Þetta breytir reglunum svolítið, því þetta setur seljendum þjónustunnar – þ.e. læknum og öðru heilbrigðisstarfsfólki – svolítið þrengri skorður. Þetta veldur því að rekstraraðili heilbrigðiskerfisins – þ.e. ríkið – ákveður hversu mikið læknar, hjúkrunarfræðingar og annað starfsfólk heilbrigðiskerfisins fá borgað, og ráða þau því hvernig framboðsfallið lítur út, upp að því marki þar sem starfsfólkið flýr til Svíþjóðar.

Skilvirknismæling

Nú er mæling á skilvirkni heilbrigðiskerfa ekki algjörlega óþekkt fyrirbæri. Ísland er aðili að OECD, sem gerir reglulegar úttektir á þessum efnum, og sömuleiðis hefur Eurostat ágætis tölfræði. OECD tölfræðin er þó gagnlegri, því innan OECD eru bæði lönd með opinberar heilbrigðistryggingar í ríkisreknu heilbrigðiskerfi (t.a.m. Ísland, Danmörk og Bretland) og lönd sem eru með takmarkaðar opinberar heilbrigðistryggingar og einkavætt heilbrigðiskerfi (Bandaríkin). Sé litið á kostnað hinna ýmsu heilbrigðiskerfa sést að það er verulegur munur á því hver sé meðalkostnaður á einstakling (PPP-jafnað). Tyrkland er lægst innan OECD með um $800, en Bandaríkin hæst með tæplega tífallt meira. En þetta segir okkur ekkert um skilvirknina. Til að meta skilvirknina þarf einhverskonar mælikvarða á árangur. Við getum ekki horft á hagkerfið og reiknað hvort það sé Pareto-skilvirkt, því miður. Þannig að við notum einhvern annan mælikvarða. Það sem OECD notar í skýrslu hagfræðideildar stofnunarinnar, “Health Care Systems: Getting More Value For Money”, er samhengið milli lífslíkna við fæðingu og reiknaðs meðalkostnaðar á einstakling á ári. Skemmst er frá því að segja að lönd með sterk opinber heilbrigðistryggingarkerfi koma áberandi best út.

Einhverjir myndu segja að þetta sé ekki endilega skilvirkni, og kannski er það rétt. Auðvitað eru ansi margir þættir sem spila inn í. En það sem skiptir máli er að hrein fræðileg úttekt út frá hæpnum forsendum hlýtur að þurfa að sæta endurskoðun sé henni beinlínis hnekkt á grundvelli raunveruleikans. Hagfræðinni er ekki alltaf mikið gefið fyrir raunveruleikann, en ef verið er að tala á hvaða hátt sem er um framtíð heilbrigðistrygginga á Íslandi – eins og ætla má að sé verið að gera – þá er algjör forsenda að raunveruleikinn sé tekinn með í reikninginn.

Skilvirkt samfélag?

Í stuttu máli er þessi grein Ragnars er óttalegt sorp. Hún er ekki háskólaprófessor sæmandi, hvað þá efnahagsráðgjafa ríkisstjórnarinnar. Það er líka áhugavert að hann vísar til velferðarsetningar Arrow og Hahn, en lætur sig að engu skipta afganginn af félagslegu valkenningu Arrows, sem snýr að því hvernig fólk í samfélagi metur möguleikanna sem það stendur frammi fyrir. Það er nefnilega svo að auðvelt er að gera sér í hugarlund velferðarfall sem er Pareto-skilvirkt hvað varðar félagslegt val, en er ekki skilvirkt út frá peningalegum gildum. Það er að segja: að fólk kjósi sér stundum hreinlega að eyða aðeins meiri peningum, þótt þau viti að það sé ekki endilega hagkvæmasta lausnin, ef það veldur því að önnur gildi sem eru metin hærri séu betur dekkuð. Mér finnst gott að geta farið til læknis þegar ég er veikur. Mér finnst mjög gott að þurfa ekki að hafa áhyggjur af því hvort ég hafi efni á því áður en ég fer. Þetta eru félagsleg gildi sem skipta máli.

Það er kannski réttast að ég taki fram að sem mutualískur anarkisti er ég ekki hrifinn af ríkisrekstri, en kapitalískur gróðahyggjurekstur er mér enn síður að skapi. Það eru til önnur og betri samvinnulíkön sem væri hægt að nota, en þau eru ekki til umræðu hér. Ég nefni þetta aðallega til að benda á að mér finnst það góð venja að taka staðreyndir með í reikninginn, óháð pólitískri afstöðu. Auðvitað ættu fræðimenn að temja sér sambærileg vinnubrögð.

Posted in Uncategorized

Leiðin upp lýðræðishallann

Nokkurs misskilnings hefur gætt í umræðunni undanfarin misseri á því hvernig Evrópusambandið virkar og margir standa í þeirri trú að vegna smæðar okkar munum við engin áhrif hafa þar inni. Jafnvel hafa heyrst raddir sem fullyrða að þar megi sjá lýðræðishalla. Mig langar þess vegna aðeins til að stikla á stóru varðandi það hvernig Evrópusambandið starfar og hvaða breytingar urðu á því með nýjustu lögunum um þau sem undirrituð voru í Lissabon árið 2009.

Lögin sem ESB starfar eftir kallast „Lissabon-sáttmálinn“, en hann er afrakstur gagngerrar endurskoðunar á Stjórnarskrársáttmálanum eftir að honum var hafnað í Frakklandi og Hollandi en hann inniheldur samt að miklu leyti það sama. Hann gekk í gildi 1. desember árið 2009. Þó eru ekki öll ákvæði sáttmálans gengin í gildi því sumt bíður þess að kjörtímabili stofnana ljúki, þann 1. nóvember í ár, og annað bíður enn lengur. Grunnástæða þess að Lissabon-sáttmálinn var gerður var að betrumbæta og nútímavæða ESB, ekki síst vegna þess hve mikið og hratt það hefur stækkað á undanförnum árum. Fram að þessu hefur það unnið samkvæmt reglum sem voru gerðar fyrir 15 ríki en ekki 28. Auk þess hefur ýmislegt breyst í heiminum á þessum tíma og ESB þarf að vinna meira að málum sem koma okkur öllum við, s.s. loftslagsbreytingum, orkuöryggi og aukinni alþjóðlegri hryðjuverkahættu.

En áður en ég kem að hlutverki æðstu stofnana ESB og hvernig þær starfa vil ég benda á tvennt sem Lissabon-sáttmálinn breytti til betri og lýðræðislegri vegar.

Þátttaka þjóðþinga
Þjóðþing aðildarríkja fá með Lissabon-sáttmálanum meiri möguleika á að eiga aðild að vinnu sambandsins. Þau geta nú skoðað drög að lagagerðum áður en Evrópuþingið og ráðið fjalla nánar um þau og hafa til þess 8 vikur. Ef þriðjungur þeirra er á móti lagagerð verður framkvæmdastjórnin að endurskoða hana. Ef meira en helmingur allra þjóðþinga er á móti lögum þurfa bæði Evrópuþingið og ráðið að ákveða hvort löggjafarferlinu verður haldið áfram. Þjóðþing geta líka farið með mál fyrir Evrópudómstól ef þau telja að lagagerð stríði gegn dreifræðisreglunni.

Borgaralegt frumkvæði
Lissabon-sáttmálinn kemur einnig á borgaralegu frumkvæði. Samkvæmt því getur ein milljón borgara frá tilskildum fjölda aðildarríkja haft frumkvæði að því að framkvæmdastjórnin taki fyrir tillögu um hvaða málefni sem er. Setning laga um tilskilda málsmeðferð og skilyrði er í höndum Evrópuþingsins og ráðsins.

Æðstu stofnanir ESB eru fjórar: Framkvæmdastjórnin, Evrópuþingið, leiðtogaráðið og ráðið. Athugið að Evrópuráðið er ekki hluti af ESB.

Framkvæmdastjórnin (European Commission)
Hlutverk framkvæmdastjórnar ESB er skilgreint í Lissabon-sáttmálanum. Hún er samkvæmt honum handhafi framkvæmdavalds, verndari sáttmála ESB, fulltrúi ESB gagnvart ríkjum utan þess og hún hefur frumkvæðisrétt við samningu löggjafar, sem þýðir að einungis má samþykkja lagagerðir að tillögu framkvæmdastjórnarinnar, nema kveðið sé á um annað í sáttmálunum. Hún er skipuð til fimm ára í senn og samkvæmt Lissabon-sáttmálanum á þar að sitja einn ríkisborgari frá hverju aðildarríki.

Evrópuþingið (European Parliament)
Evrópuþing fer með löggjafar- og fjárveitingarvald. Það sinnir pólitísku eftirliti og ráðgjöf og kýs forseta framkvæmdastjórnar. Það kýs sér líka forseta og forsætisnefnd úr hópi þingmanna. Fjöldi þingmanna hefur alltaf farið að einhverju leyti eftir fjölda íbúa í hverju ríki. Með Lissabon-sáttmálanum er ekki lengur kveðið á um fjölda þingmanna frá hverju landi heldur er farið eftir tillögu frá þinginu sjálfu sem leiðtogaráðið þarf að samþykkja einróma. Þó er kveðið á um hámarks- og lágmarksfjölda. Þessar breytingar ganga í gildi 1. nóvember næstkomandi, eða við lok yfirstandandi kjörtímabils.

Þingmönnum hefur fjölgað jafnt og þétt frá upphafi, nema milli áranna 2007 og 2009 þegar þeim fækkaði um nærri 50. Þingmenn eru nú 766 en 18 af þeim eru einungis áheyrnarfulltrúar. Þýskaland hefur flesta þingmenn, eða 99, en Malta fæsta, eða 5. Hámarksfjöldi þingmanna verður samkvæmt Lissabon 750 auk forseta þingsins og hvert aðildarríki getur haft að hámarki 96 þingmenn (Þýskaland) og að lágmarki 6 (Eistland, Kýpur, Lúxemborg og Malta). Þannig munu áhrif Þýskalands minnka en áhrif annarra ýmist standa í stað eða aukast.

Vægi þingsins í ákvarðanatöku almennt eykst til muna með Lissabon-sáttmálanum því það tekur sameiginlegar ákvarðanir með ráðinu á fleiri sviðum en áður og þetta samákvörðunartökukerfi er gert að almennri reglu. Þetta á við bæði um löggjafar- og fjárveitingarvaldið.

Á Evrópuþinginu vinnur fólk saman eftir stjórnmálaskoðunum, ekki löndum. Nú eru sjö stjórnmálaflokkar á þinginu og þarf 25 fulltrúa frá minnst fjórðungi aðildarríkja til að mynda flokk. Sumir þingmenn eru þó óháðir og tilheyra engum flokki. Tveir Píratar tilheyra Græningjum.

Leiðtogaráðið (European Council)
Leiðtogaráðið hefur ekki löggjafarvald en tekur ákvarðanir í mikilvægustu pólitísku málunum og málum þar sem samstaða hefur ekki náðst í ráðinu. Það er skipað leiðtogum ríkisstjórna eða þjóðhöfðingjum aðildarríkjanna. Með gildistöku Lissabon-sáttmálans var tveimur nýjum embættum komið á: Forseta leiðtogaráðsins og æðsta talsmanni stefnu ESB í utanríkis- og öryggismálum og skal sá síðarnefndi vera einn af varaforsetum framkvæmdastjórnarinnar.

Leiðtogaráðið skal taka ákvarðanir einróma nema sáttmálarnir segi til um annað. Með Lissabon-sáttmálanum var auk þess gert heimilt að breyta samningum ESB án þess að kalla til ríkjaráðstefnu. Þá getur leiðtogaráðið heimilað ráðinu, með einróma samþykki, að taka framvegis ákvörðun með auknum meirihluta þó að samningarnir kveði á um einróma samþykki. Þetta á þó ekki við um ákvarðanir sem tengjast hernaði eða varnarmálum.

Ráðið – áður ráðherraráðið (Council of the European Union)
Ráð Evrópusambandsins, sem hét áður ráðherraráðið, fer með löggjafar- og fjárveitingarvald ásamt Evrópuþinginu og samræmir stefnu og aðgerðir aðildarríkjanna í mörgum málaflokkum. Það er skipað einum ráðherra frá hverju ríki, óháð íbúafjölda, og fundar í ólíkum samsetningum, eins og það er kallað, sem fara eftir viðfangsefnum og skilgreindar eru í Lissabon-sáttmálanum.

Þó að hvert ríki hafi einn fulltrúa í ráðinu er vægi atkvæða fulltrúanna misjafnt og víkur töluvert frá beinu samhengi við íbúafjöldann. Þannig hafa fjögur stærstu ríkin 29 atkvæði á hvern fulltrúa en Malta 3. Það þýðir að Malta hefur mun færri íbúa á bak við hvert atkvæði en stærstu ríkin. Með Lissabon-sáttmálanum breytist þetta sem þýðir reyndar að bilið breikkar á milli Þýskalands og Möltu, því eins og staðan er nú eru 29 atkvæði 8,4% af heildinni en 3 atkvæði eru 0,9%. Eftir breytinguna á atkvæðavægi, sem tekur gildi 1. nóvember, endurspeglar það betur fólksfjöldann þannig að Þýskaland fær 16,41% atkvæða en Malta aðeins 0,08%. Fjöldi íbúa í hverju ríki fyrir sig verður reiknaður út árlega og fjöldi atkvæða út frá því.

Miklar breytingar verða á ákvörðunartöku í ráðinu með Lissabon-sáttmálanum. Með þessum breytingum er verið að reyna að gera hana lýðræðislegri og skilvirkari með því að innleiða aukinn meirihluta í stað einróma samþykkis. Með því að gera aukinn meirihluta að meginreglu er verið að auka skilvirkni við ákvarðanatöku. Núverandi kerfi er þannig að ákvarðanir eru teknar eftir þremur leiðum: Einföldum meirihluta, auknum meirihluta eða einróma samþykki, allt eftir því hvaða mál eru til umræðu. Ef hins vegar tillaga var upprunnin hjá framkvæmdastjórninni þurfti 67% atkvæða, eða 18 ríki, til að samþykkja hana. Í upphafi þurfti einróma ákvarðanir í nær öllum málum, enda voru aðildarríkin þá aðeins sex.

Í Lissabon-sáttmálanum er kveðið á um að alltaf skuli taka ákvarðanir með auknum meirihluta nema kveðið sé á um annað í sáttmálunum. Auk þess var þessi aukni meirihluti endurskilgreindur sem tvöfaldur aukinn meirihluti með að minnsta kosti 55% atkvæða, eða 15 ríkja, sem hafa hið minnsta 65% íbúafjölda sambandsins, frá og með 1. nóvember. Til þess að fella tillögu þarf þar af leiðandi atkvæði 13 ríkja í stað 14 áður, sem hafa á bak við sig minnst 35% íbúa. Samkvæmt sérákvæði næst aukinn meirihluti samt ekki ef minnihluti sem getur stöðvað framgang mála (blocking minority) samanstendur af að minnsta kosti 4 ríkjum sem hafa á bak við sig 65% íbúa. Áður gátu 3 ríki stöðvað mál en því var breytt vegna þess að 3 stærstu ríkin höfðu á bak við sig um 65% íbúa.

Annað sérákvæði kveður á um að frá því að þessi nýja skilgreining öðlast gildi og fram til 31. mars 2017 getur minnihluti krafist þess að mál sé tekið til umfjöllunar og fundin á því viðunandi lausn. Þessi minnihluti er þá skilgreindur sem þrír fjórðu af þeim 35% íbúa sem geta stöðvað mál (26,4%) eða þrír fjórðu af fjölda fulltrúa sem þarf til að stöðva mál, þ.e. 3 ríki, eins og áður. Það verður þó að hafa í huga að sterk hefð er fyrir því að ná samkomulagi í sem flestum málum svo reglur um atkvæðavægi eru fyrst og fremst einskonar öryggisnet.

Það lítur því út fyrir að Evrópusambandið hafi með Lissabon-sáttmálanum þokast upp lýðræðishallann.

Orðskýringar

Dreifræðisreglan (principle of subsidiarity)
Regla sem gildir um beitingu valdheimilda og er ætlað að draga úr miðstýringu. Sjá nánar hér.

Einfaldur meirihluti
51% atkvæða

Aukinn meirihluti
73,9% atkvæða

Einróma samþykki
100% atkvæða

Posted in Uncategorized