Áburður á stjórnarflokkanna

Undanfarnar tvær vikur hef ég setið í gamalli áburðarverksmiðju á Indlandi og fylgst með þróun atburða í íslenskri pólitík. Þetta er stór bygging, alls tíu hæðir, hátt til lofts, enda þurfti mikið pláss í byggingunni fyrir hinar ýmsu vélar og allt starfsfólk verksmiðjunnar, en þessi bygging hefur í um fjörtíu ár staðið sem mikilvægur hluti af hagkerfi þessarar borgar.

Sitjandi hér í þessari gömlu áburðarverksmiðju vakna margar spurningar um það sem er að gerast á Íslandi. Í stjórnarflokkunum á Íslandi er fólk sem vill líta á sig sem frjálslynt, sjálfstætt, opið og framsækið. Á tyllidögum talar það um alþjóðamarkaði og uppbyggingu atvinnulífsins, það talar þjálglega um mikilvægi vel launaðra starfa og menntaðs vinnuafls.

Því skýtur það skökku við að efst á baugi hjá stjórnarflokkunum er að draga Ísland út úr umræðum um útvíkkun á því alþjóðasamstarfi sem efnahagur Íslands reiðir sig á, og bjóða þess í stað áburðarverksmiðju. Talað er af miklum krafti um nauðsyn þess að slíta samningaviðræðum við Evrópusambandið, en þegar spurt er “nú hvað þá?” er eina tillagan frá stjórnarflokkunum gervisaur.

Mörglega er búið að kaffæra þjóðina í svo mikilli mykju undanfarnar vikur að skítalyktin sé farin að angra þau. Það gæti verið að þeim hugnist að skipta úr skít í niturdrullu og amínósýruslor, en einhver myndi heldur hætta að moka.

Á Indlandi er mikil fátækt, ríkisstjórnin hefur oft verið síður en svo farsæl, enda fjöldinn allur af ólíkum menningum, tungumálum, trúarbrögðum og öðru sem þarf að samþætta í öllu. En þó hefur verið hér gríðarlegur uppgangur undanfarin ár, með um 6% hagvöxt árlega. Sá árangur hefur náðst með því að minnka spillingu og frændhygli í stjórnkerfinu, auka alþjóðasamstarf, opna sig gagnvart erlendum mörkuðum og vera framsækin í menntun og atvinnuuppbyggingu. Sem sagt, allt það sem ríkisstjórn Íslands er að forðast.

Gamla áburðarverksmiðjan sem ég sit í er ekki áburðarverksmiðja lengur. Í þessari byggingu starfa nú 2000 manns í tæknigeiranum: hér er hugbúnaður þróaður fyrir mörg af stærstu fyrirtækjum heims. Verðmætin sem vella út úr þessari gömlu áburðarverksmiðju eru sennilega einhver prósenta af þeim 158 milljörðum bandaríkjadollara sem heimsmarkaðurinn fyrir áburð nemur.

Íslensk pólitík er óttaleg drulla. Það er furðulegt hvernig, í hvert skipti sem óeining ríkiri um eitthvað mál, þá fara valdhafar strax í að finna leiðir til að þröngva fram sinni uppáhaldsniðurstöðu. Það einhvernvegin kemur aldrei til tals að leita ráða hjá almenningi. Það er ekki forgangsatriði að minnka spillingu, að draga úr frændhygli. Alþjóðasamstarf er álitið prump, erlendir markaðir eitthvað ofan á brauð, og eina framsóknin er sú Framsókn sem heldur aftur af þjóðinni.

Ef það er eitthvað sem Íslandi vantaði ekki, þá var það önnur ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Á þau þarf engan áburð, þau bera á sig alla sök sjálf.

Horfandi á ástandið á Íslandi hugsa ég óhjákvæmilega til þess þegar ég var í þessum heimshluta í upphafi árs 2009. Þá sat ég ekki í gamalli áburðarverksmiðju, heldur í gömlu gistihúsi í Afganistan, og horfði á ríkisstjórn Íslands falla. Ég vildi gjarnan óska þess að ég væri að horfa upp á það sama núna.

Posted in Uncategorized

Sögunni er ekki eytt svona auðveldlega

Það hefur verið nokkuð áhugavert að fylgjast með ríkisstjórninni ræða um samningaviðræður Íslands við Evrópusambandið undanfarna daga. Sigmundur Davíð sakaði Samfylkinguna um að beita mælskubrögðum í anda Morfís í ræðu á Alþingi nýlega sem vakti upp hlátur nokkurra þingmanna. Vigdís Hauksdóttir hélt til að mynda því fram að Malta væri ekki sjálfstætt ríki. Það sem vakti mestu athygli var þó kannski sú staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn fjarlægði loforð um þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi viðræður við ESB á heimasíðu sjálfstæðisflokksins. Þetta minnti óþægilega mikið á svipað atvik sem átti sér stað í júní á síðasta ári. Það  varð að nokkuð stórri frétt þegar loforð um aukna vernd fyrir uppljóstrara hvarf af einni kosningasíðu Barrack Obama Bandaríkjaforseta. Barrack Obama og Sjálfstæðisflokkurinn virðast hafa þá hugmynd að þeir geti breytt sögunni með því að eyða loforðum af kosingasíðum sínum. Það væri hægðarleikur að kalla þetta „ritskoðun á sögunni“ rétt eins og í skáldsögum á borð við 1984 en þökk sé internetinu er slíkt ekki hægt. Þetta er afritað víðsvegar um netið og fólk er ekkert að fara að gleyma slíkum kosningasvikum auðveldlega.

Óháð allri umræðu um inngöngu Íslands í Evrópusambandið gæti þetta haft alvarlegar afleiðingar fyrir alþjóðasamskipti Íslands. Hvernig lítur það út þegar við reynum að semja við önnur lönd eða önnur alþjóðasamtök ef að Ísland getur verið líklegt til að hætta skyndilega við í miðju samningaferli? Það er ekki of stórt stökk að álykta að það verði litið á Ísland með ákveðinni tortryggni þegar við reynum að fara í alþjóðasamninga aftur, hvað þá samninga sem krefjast þess að Ísland eða erlendir aðilar eyði tíma og fjármagni í að gera þá að veruleika. Svo það sé alveg á hreinu hef ég lengi haft mínar efasemdir um Evrópusambandið en það er þegar búið að ausa milljöðrum í verkefnið og það væri fáránlegt að henda því fjármagni í ruslið án þess að fá fullunninn samning í hendurnar svo að hægt sé að taka upplýsta ákvörðun með eða á móti honum.

Posted in Uncategorized

Prófkjörspistill nr. 3 – Samgöngumálin

Árið 1931 stofnuðu bræðurnir Ólafur og Pétur Þorgrímssynir hlutafélagið Strætisvagna Reykjavíkur. Tilkoma vagnanna breytti högum fólks í úthverfunum verulega til batnaðar, þó að kostnaðurinn við fargjöldin hafi reynst þeim verst settu ofviða. Það endaði með því að fargjöld skólabarna voru lækkuð, enda engin sanngirni í öðru. Í kjölfarið fylgdi svo krafa kennara um að fá ókeypis í vagnana, því þeir voru orðnir þreyttir á að ganga eða hjóla daglega alla þessa leið. Þess má geta að „úthverfin“ voru í þá daga hverfi á borð við Sogamýri og Laugarnes.

Árið 1944 tók Reykjavíkurkaupstaður síðan við rekstrinum og um tveimur áratugum síðar var tekin sú örlagaríka ákvörðun að miða skipulag bæjarins við þarfir einkabílsins. Það má segja að síðan þá hafi mun meiri áhersla verið lögð á að breikka vegi, byggja brýr og malbika bílastæði en að byggja upp einhvers konar samgöngukerfi í þágu almennings. Afleiðing þeirrar stefnu í borgum almennt er sú að þær þenjast út, sem er einmitt það sem hefur gerst í Reykjavík og nú er verið að berjast við að þétta þar byggðina á ný. Forsendan fyrir þéttingu byggðar hlýtur að vera minni notkun einkabíla og meiri notkun annarra samgöngumáta.

Töluverð framför hefur orðið hvað varðar aðbúnað hjólreiðafólks í borginni undanfarin ár, sem er virðingarvert því hjólreiðar verða sífellt vinsælli ferðamáti. Viðhorfið til hjólreiðamanna hefur vissulega breyst hjá borgaryfirvöldum og nú er meiri áhersla en áður lögð á að leggja hjólreiðastíga sem miðast við að hjólreiðar séu samgöngumáti, á sama hátt og einkabíllinn, en ekki aðeins tómstundaiðkun, eins og viðhorfið var fyrir nokkrum árum. En betur má ef duga skal og nú væri til dæmis gott að fá hjólreiðastíga meðfram stórum umferðargötum eins og Miklubrautinni, svo menn þurfi ekki að leggja sig í lífshættu á leið til og frá vinnu.

En ekki geta allir hugsað sér að hjóla allra sinna ferða allt árið og margir geta það einfaldlega ekki af líkamlegum ástæðum eða treysta sér ekki til að hjóla í snjó og hálku. Því þarf að hlúa vel að almenningssamgöngukerfinu sem þarf að þjóna öllu höfuðborgarsvæðinu, sama hvort notendur þess búa í miðbænum eða útjaðri ysta úthverfisins. Nú eru að verða miklar breytingar á leiðarkerfinu, ekki síst vegna þess að búið er að kaupa BSÍ og ekkert að vanbúnaði að flytja þangað aðalskiptistöð bæjarins. Það verður vissulega mikil bót að því að hafa eina alhliða samgöngumiðstöð nálægt miðbænum, þar sem ekki verða eingöngu strætisvagnar heldur líka leigubílar og bíla- og hjólaleigur og endastöð fyrir samgöngur við Leifsstöð og aðra hluta landsins verður þar áfram.

Það sem ég hef örlitlar áhyggjur af er leiðakerfið sjálft. Mun það þjóna öllum íbúum höfuðborgarsvæðisins eða verða áfram gloppur í netinu þar sem sumir þurfa að ganga langar leiðir til að komast í hentugan vagn? Verða sumar leiðirnar innan hverfa áfram svo langar að það er fljótlegra að ganga? Verður tíðni allra leiða aukin? Verða fargjöldin lækkuð, a.m.k. fyrir skólabörn og aðra sem hafa ekki mikið á milli handanna? Fyrir nokkrum árum fengu námsmenn frítt í strætó, síðan kostaði lítið að kaupa fyrir heila önn eða heilan vetur, en nú er svo komið að eina tilboðið fyrir námsmenn er tólf mánaða kort fyrir 42.500 krónur. Það er ekki á allra færi að punga út með slíka fjárhæð á einu bretti, sérstaklega ekki þegar fólk er nýbúið að borga 75.000 krónur í innritunargjöld.

Það er alveg ljóst að það er ódýrara að nota strætó en að eiga bíl en farþegarnir þurfa samt alltaf að hafa á tilfinningunni að strætó sé þægilegasti og ódýrasti kosturinn. Þegar stakt fargjald er dýrara en bensínkostnaðurinn á sömu leið finna menn ekki fyrir þeirri tilfinningu.

Það verða kosingar í vor, eins og allir vita, og von á nýjum meirihluta. Það verður að fylgja strætómálinu eftir svo að það verði örugglega leitt til lykta en dagi ekki uppi vegna áhugaleysis yfirvalda. Svo verðum við að fá að vita bráðlega hvenær von er á að breytingarnar verði innleiddar. Ég er að minnsta kosti orðin langeyg eftir bættum almenningssamgöngum.

Posted in Uncategorized

Prófkjörspistill nr. 2 – Velferðarmálin

„Hverjum manni er skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára.“

Svo hljóðar 2. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Sá sem ekki getur uppfyllt þessa skyldu þarf augljóslega aðstoð við það og sá aðili sem best er til þess fallinn er hið opinbera. Enda segir í 1. gr. sömu reglna: „Skylt er að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar…“ Því miður uppfyllir hið opinbera ekki alltaf þá skyldu, sem sést best á nauðsyn þess að ýmis góðgerðarsamtök séu starfandi, eins og Rauði krossinn, Hjálparstofnun kirkjunnar, Mæðrastyrksnefnd og Fjölskylduhjálp Íslands, svo eitthvað sé nefnt. Þessi samtök, og fleiri, starfa við að gefa mat, föt og þess háttar þeim sem á því þurfa að halda hér á landi. Og full þörf er á þeirri þjónustu, þrátt fyrir að við séum í hópi ríkustu þjóða heims.

En hvað kemur í veg fyrir að Reykjavíkurborg sjái um þegna sína eins og henni er skylt samkvæmt lögum? Erfitt er að fullyrða nokkuð um það án þess að skoða öll lög og reglur nákvæmlega og sjálfsagt er hvert mál sérstakt og ólíkar ástæður að baki. En svo virðist sem skilyrðin sem sett eru fyrir fjárhagsaðstoð séu oft á tíðum íþyngjandi fyrir borgarana og stundum er eina leiðin að fá framfærslulán í banka. Það getur því verið ansi flókið að krefjast réttar síns.

Tökum dæmi. Námsmaður í lánshæfu námi veikist alvarlega á miðri haustönn. Vegna veikindanna tekst honum ekki að ljúka tilskildum einingafjölda á önninni og fær því ekki námslánið sem hann treysti á, sér til framfærslu. Hann nær sér þó fyrir jólin og ákveður að halda áfram námi. En þá eru góð ráð dýr. Þar sem hann fékk ekki námslán fyrir haustönnina er hann í skuld við bankann sinn, sem hann getur augljóslega ekki borgað. Og þar sem hann ákveður að halda áfram lánshæfu námi fær hann ekki framfærslustyrk frá sveitarfélaginu. Hann á heldur ekki rétt á vaxtalausu láni sem sveitarfélagið býður upp á vegna óteljandi skilyrða, m.a. þess að „umsækjandi hafi fengið fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglum þessum undanfarna sex mánuði eða lengur“ (24. gr.). Hann verður með öðrum orðum að hafa fengið fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu í a.m.k. sex mánuði á undan til að eiga rétt á láni. Eina leiðin fyrir hann til að halda áfram námi er að fá meira lán á okurvöxtum frá bankanum (12,1-12,8% hjá Landsbankanum). Nú ef hann ákveður að hann hafi ekki efni á áframhaldandi námi getur vel verið að hann fái einhverja aðstoð. Nema auðvitað ef hann á tvær íbúðir eða tvo bíla því hann má bara eiga eitt af hvoru. Eins og alþjóð veit getur það tekið marga mánuði að selja íbúð og á hverju á hann að lifa á meðan?

Þetta er bara eitt dæmi um hve flókið það getur verið að fá fjárhagsaðstoð, þrátt fyrir að sveitarfélaginu sé skylt að veita hana þeim sem þurfa á henni að halda. Það virðist vera spurning um að borgarinn þurfi alltaf að sanna, svo ekki verði um villst, að hann þurfi sannarlega á henni að halda. Og það er ekki nóg að sanna að maður geti ekki séð sér farborða, heldur er viðtekin venja í velferðarkerfinu almennt að skoða fjárhagsstöðu fólks í fortíðinni líka, allt upp í tvö ár aftur í tímann. Sem segir auðvitað ekki endilega neitt um fjárhagsstöðu fólks í nútíðinni.

Undanfarið hefur verið nokkur umræða um svindl á kerfinu. Er einhver hissa á því að fólk skuli láta sér detta það í hug þegar svo erfitt er að uppfylla öll skilyrði? Ég er ekki að mæla því bót, mér finnst bara eðlilegt að fólk skuli reyna að bjarga sér þegar það á erfitt með að láta enda ná saman án aðstoðar frá hinu opinbera.

Posted in Uncategorized

Prófkjörspistill nr. 1 – Menntamálin

Á þessari stundu eru kennarar að berjast fyrir því að fá mannsæmandi laun fyrir starf sitt. Samt eru það þeir sem bera hvað mesta ábyrgð í samfélaginu, ekki bankastjórar eða forstjórar einhverra stórfyrirtækja. Það er jú mikið ábyrgðarhlutverk að mennta æskuna, ég held að við getum öll verið sammála um það, og að margra mati mun mikilvægara en að passa peninga. Auk þess er kennarastarfið flókið og álagið mikið, hvað sem öllum sögusögnum um langt sumarfrí líður. Fyrsta skrefið í átt að því að lagfæra menntakerfið, sem er fyrir löngu orðið úrelt, er að leiðrétta laun kennara, þannig að þeir fái sömu laun og aðrir háskólamenntaðir starfsmenn hins opinbera, og minnka álagið. Það er ekki nema sanngjarnt.

Þegar það er í höfn getum við farið að lagfæra kerfið sjálft. Skoðum aðeins hvað er að menntakerfinu okkar. Það er reyndar einfalt: Það er gamaldags og úrelt að setja börnin niður við borð fyrir framan kennarann og segja þeim að sitja kyrr og hlusta, gera síðan verkefni sem fæstum þeirra þykir áhugavert og sitja kyrr og þegja að mestu á meðan. Kerfið sem flestir skólar fylgja enn þann dag í dag er byggt á aldagömlu fyrirkomulagi, sem hefur sjálfsagt virkað ágætlega þegar kennarinn var sá eini sem bjó yfir upplýsingum. Nú til dags verðum að sætta okkur við að við búum í gjörbreyttu samfélagi þar sem upplýsingar eru aðgengilegri en nokkru sinni fyrr. Börnin notfæra sér það heima, af hverju notfærir skólinn sér það ekki? Af því að tölvur eru dýrar, kann einhver að segja. Því er ekki að neita að það er dýrt að endurnýja tölvukostinn reglulega. En stundum þarf maður að setja upp framtíðargleraugun og hugsa lengra en næsta kjörtímabil. Má ekki líta á góðan tölvukost í skólum sem viturlega fjárfestingu til framtíðar? Svo ég vitni í blogg kennarans Ingva Hrannars Ómarssonar: „Það að flytja heilan bekk í skólastofu með úreltum tölvunum, sem taka oft 15 mínútur að ræsa sig, einu sinni í viku til þess að vinna verkefni í ritvinnslu og flytja svo börnin í röð aftur inn í skólastofu 40 mínútum seinna er úrelt. Upplýsingatækni á ekki að vera sér námsgrein heldur eiga tölvur og tækni að vera eðlilegur hluti af námi og kennslu rétt eins og blýanturinn.“ Sjá hér.

Þegar ég var barn naut ég þeirra forréttinda að fá að prófa ýmsa skóla. Í sex ára bekk, sem þá var forskóli, var ég í Æfingadeild Kennaraháskólans. Þá voru fimm, sex og sjö ára börn saman í tveimur skólastofum og ég man ekki eftir að hafa nokkurn tímann þurft að sitja kyrr og góna á kennarann eða að hann læsi yfir okkur. Þetta var dásamlegur tími. Strax í fyrsta bekk flutti ég í annað sveitarfélag og skipti um skóla. Það var afskaplega hefðbundinn skóli. Ég man sérstaklega eftir því hvað mér leiddist. Ég var fluglæs og látin læra stafina aftur. Þarna var ég í tvö ár en þá fluttum við aftur til Reykjavíkur og ég fór í Vesturbæjarskóla. Á þeim tíma var hann mjög óhefðbundinn og auk þessara venjulegu greina lærðum við sjálfstæði og ábyrgð á eigin námi. Mér skilst að þessi skóli sé orðinn hefðbundinn aftur, og sama má segja um fyrrum Æfingaskólann.

Hvers vegna skyldu allar þessar frábæru tilraunir í skólastarfi hafa liðið undir lok og skólarnir runnið aftur í sama, gamla farveginn? Þrátt fyrir að upplýsingatæknin sé mikilvægur þáttur af lífi okkar í nútímanum er ljóst að hún er ekki forsenda fyrir óhefðbundu skólastarfi. Vissulega væri fullkomið að nýta tölvur og tækni við alla kennslu en það þarf auðvitað meira til. Það að láta börn sitja lengi kyrr á sama stað er óeðlilegt. Það að segja börnum að þegja og hlusta og einbeita sér eftir kröfum hinna fullorðnu er óeðlilegt. Hver er undirrót tregðunnar til að stokka upp kerfið og laga það að þörfum nemenda, í stað þess að laga ætíð nemendur að þörfum kerfisins?

Byrjum á því að gefa kennurum mannsæmandi laun og minnka álagið á þá. Þá fyrst geta þeir kannski farið að huga að því að breyta kennsluháttum. Skólastjórnendur þurfa síðan að hlusta á hugmyndir kennaranna og móta stefnu í kennsluháttum fyrir sinn skóla. Stefnan þarf ekki að vera sú sama í öllum skólum, því börn hafa ólíkar þarfir og ættu að geta valið sér skóla ef hverfisskólinn hentar þeim ekki. Þannig tryggjum við upplýsinga- og tjáningarfrelsi barnanna og réttinn til gagnrýnnar hugsunar og vel upplýstra ákvarðana, því þau hafa rétt á því líka.

Posted in Uncategorized