Fjölmiðlar og Ríkisstjórnin

Maímánuð 2010 var ég í Ungverjalandi. Þar vann ég með fulltrúum Sameinuðu þjóðanna, Evrópusambandsins, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, háskólum, fjölmiðlum, frjálsum félagasamtökum og öðrum stofnunum að því að þrýsta á ungversk stjórnvöld að falla frá hugmyndum sínum um nýja fjölmiðlalöggjöf. Löggjöfin myndi gefa hinni nýju ríkisstjórn Viktors Orbán gríðarlegt vald til að beita fjölmiðla sektum og krefja þá um ákveðnar tegundir umfjöllunar, sem við óttuðumst að myndu verða notaðar til ritskoðunar og takmörkunar á tjáningarfrelsi almennt. Eftir marga langa fundi og endalausar viðræður var það auðséð að ríkisstjórnin ætlaði ekki að falla frá þessum fyrirætlunum.

Nú fjórum árum síðar – á kosningaári þar í landi – er orðið ljóst hversu alvarlegur ósigur okkar var. Fjölmiðlafrelsi í Ungverjalandi hefur minnkað allverulega. Samkvæmt Freedom House var Ungverjaland í 40. sæti (“free”) yfir þau lönd heims sem höfðu mest fjölmiðlafrelsi árið 2010, en árið 2013 var það komið niður í 74. sæti (“partly free”). Á kaffihúsi í Brussel stuttu síðar heyrðist hlakka í nokkuð þekktum pólskum íhaldsmanni, sem sá fyrir sér “Orbáníseringu Evrópu”. Með því átti hann væntanlega við takmarkanir á fjölmiðlafrelsi, hagræðingar á stjórnskipan, og innmúrun sinna áhrifa.

Á Íslandi myndi aldrei neitt slíkt gerast, er það?

Það lá fyrir nánast frá fyrsta degi að núverandi ríkisstjórn Íslands yrði ríkisstjórn eiginhagsmuna, hagsmuna vina sinna, og engum öðrum yrði greiði gerður. Ég á enn eftir að sjá nokkra einustu ákvörðun tekna sem gagnast almenningi, að nokkurt einasta loforð hafi staðist, að nokkur einasta fullyrðing væri annað en lauf í vindi. Ég hef eingöngu séð hegðun siðlausra lygara og valdníðinga.

Undir stjórn þessa fólks hefur Ísland byrjað að undirgangast “Orbáníseringu”. Endurskipan í stjórn RÚV í gær var ekki fyrsta merki þess, en það var sterkasta merkið hingað til: ríkisfjölmiðillinn skyldi vera undir ægiafli stjórnvalda. RÚV verður þar með hallt undir þá fjölmiðlun sem ríkisstjórninni þóknast. En RÚV er ekki eini fjölmiðill Íslands. Einnig er til Morgunblaðið, sem sjálfritskoðaði sig á dögunum eftir að hafa birt “fyrir mistök” grein sem hentaði ríkisstjórninni illa, og Vísir/Fréttablaðið, sem breyttu fyrirsögn í sannleikshagræðingarskyni. Það dylst engum sem skoðar hegðun Árvakurs og 365 Miðla hvar þeirra hollusta liggur.

Hvað er þá eftir? Það er einna helst “slúðursnepillinn” DV, sem þrátt fyrir arfaslakan orðstír hefur verið eini fjölmiðillinn á Íslandi í nokkur ár sem stundar rannsóknarblaðamennsku af einhverju viti – ef RÚV er stöku sinnum frátalið. Nýtt á vígvellinum er Kjarninn, sem er að gera nokkuð góða hluti með nýstarlegum hætti. Grapevine er yfirleitt nokkuð beitt, en útgefið á ensku, með litla dreifingu utan 101 og dulbúið sem túristatímarit, nær það lítið að hafa áhrif á umræðuna á landsvísu. Svo eru ýmsir aðrir smámiðlar sem tekur varla að telja til.

En þessum fjölmiðlum er öllum ákveðin hætta búin. Þegar ný fjölmiðlalög voru að ganga í gegn á Íslandi 2011, varaði ég við því að ýmislegt í lögunum gæti hugsanlega verið hættulegt ef fasistastjórn kæmist til valda á Íslandi. Lítið var gefið fyrir slíkar dómsdagsspár, enda Ísland gjörólíkt Ungverjalandi. Er það ekki?

Til að lýðræði virki þarf almenningur að hafa tvennt: Greiðan aðgang að réttum og nákvæmum upplýsingum, og getu til að hafa áhrif á ákvarðatöku. Ríkisstjórn Íslands er langt komin með að koma í veg fyrir lýðræði.

Posted in Uncategorized

Frelsi til að velja

Fyrir síðustu alþingiskosningar fengu frambjóðendur könnun frá kosningavitanum. Spurningunum var ætlað að staðsetja frambjóðendur, og þar af leiðandi flokk, á hnitakerfi frjálslyndis-/forræðishyggju og félags-/markaðshyggju. Niðurstöðurnar voru birtar í myndinni hér fyrir neðan og kjósendum boðið að taka sömu könnun til þess að komast að því hvaða flokkum þeir komust næst í skoðunum.

 

kosningavitinn

Eins og kemur skýrt fram á myndinni þá má teikna línu frá vinstri til hægri, þar sem flestir flokkar eru félags-/forsjárhyggjusinnaðir eða frjáls-/markaðssinnaðir.  Það er mikilvægt að átta sig á því að hver spurning býður upp á val milli félags- og markaðshyggju annars vegar og svo frjálslyndis og forsjár hins vegar. Ef flokkar falla mitt á milli þá þýðir það ekki endilega að allir frambjóðendur séu sammála um þá staðsetningu _flokksins_. Það er alveg jafn líklegt að dreifingin falli jafnt í sitt hvora áttina og meðaltalið geri flokkinn að ‘miðjuflokki’ í á þeim ás. Miðjan er einfaldlega engin skoðun í neina átt eða sitt hvor skoðunin í sína áttina.

Píratar, til dæmis, eru tiltölulega nálægt miðju hvað varðar félags- og frjálshyggju ásinn. Enda er okkur nokk sama um hvaða hugmyndafræði er notuð til þess að leysa vandamál ef aðferðin til þess að velja lausnina er góð og vel rökstudd með gögnum. Píratar eru hins vegar ekki nálægt miðju á frjálslyndis-/forsjárhyggju ásnum. Einir flokka standa Píratar vel út úr þessari mynd sem skýr valkostur frjálslyndis. Hvað þýðir það samt? Frjálslyndi (e. liberty) er skilgreint á mismundandi vegu, eins og svo margt annað. Ein skilgreiningin er frelsi frá kúgun valdhafa á lífsstíl, hegðun eða skoðanir. Önnur skilgreining segir “frelsi til þess að gera það sem manni sýnist”. Sitt sýnist hverjum auðvitað en flestir bæta yfirleitt við seinni skilgreininguna … ” á meðan það skaðar engan annan”.

Skilgreiningin á ágætlega við Pírata en er samt ekki mjög nákvæm þegar kemur að málefnum eða almennri stefnu. Það er betur útskýrt í grunnstefnu Pírata. Frelsið sem Píratar standa fyrir fjallar um borgararéttindi og upplýsingu, samkvæmt grunnstefnu (afsakið hástafina – copy/paste):

  1. GAGNRÝNIN HUGSUN OG UPPLÝST STEFNA
  2. BORGARARÉTTINDI
  3. FRIÐHELGI EINKALÍFSINS
  4. GEGNSÆI OG ÁBYRGÐ
  5. UPPLÝSINGA- OG TJÁNINGARFRELSI
  6. BEINT LÝÐRÆÐI OG SJÁLFSÁKVÖRÐUNARRÉTTUR

= Frelsi til þess að velja um bestu valkostina á lýðræðislegan hátt með áherslu á “Fyrri ákvarðanir Pírata þurfa alltaf að geta sætt endurskoðun.”

Hvers vegna? Af því að heimurinn er breytilegur. Ef heimurinn breytist þá breytast vandamálin, ef vandamálin breytast þá þurfa lausnirnar að breytast líka. Einnig, þó vandamálin breytist ekki neitt þá erum við stöðugt að læra meira – og búum til betri lausnir. Píratar hafa engan áhuga á því að skella því fram að einhver félags- eða markaðsleg hugmyndafræði sé alltaf með bestu lausnina í öllum aðstæðum. Píratar hafa heldur engan áhuga á því að segja samfélaginu hvað sé besta lausnin, Píratar vilja leyfa fólki að velja lausnirnar sjálft. Pírataaðferðin er að bjóða upp á góðar lausnir – lausnir studdar með rannsóknum, reynslu og/eða gögnum. Lausnir sem krefjast þess ekki að samfélagið þurfi að aðlagast aðferðinni nema lýðræðislegur vilji sé til staðar.

Við einfaldlega höldum því fram að samfélagið viti, lýðræðislega, hvað samfélagið vill. Þar er upplýsing grunnskilyrði og opin gagnrýni velkomin vegna þess að forsendur ákvarðanna liggja fyrir.

Friðhelgi einkalífs á netinu er mannréttindi.

Sameinuðu þjóðirnar ályktuðu einróma þann 20. nóvember 2013 að persónuvernd á netinu væru mannréttindi.

Þessi ályktun kemur í kjölfar yfirgripsmikilla njósna af hálfu hins opinbera í mörgum löndum. Ég minnist þess ekki að hafa séð íslenska fjölmiðla fjalla neitt um þessa ályktun, enda ekki eins spennandi og njósnir. Hvað er annars svona merkilegt við þetta? Jú, það eru nokkur atriði. Fyrst og fremst snýst þetta um fordóma, misskilning og þroska. Á meðan mannveran elur með sér fordóma, sem eru í eðli sínu ekkert slæmir – þeir eru bara varkárni í garð hins óþekkta, þá er friðhelgi einkalífsins mikilvæg. Við höfum kannski ekkert að fela í samskiptum okkar á netinu, í símanum eða í hversdagslegum samtölum. Máttur mannsins til þess að fordæma, á slæman hátt, það sem hann misskilur er hins vegar gríðarlegur. Fólk bregst harkalega við meinlausum athugasemdum, fólk mismælir sig eða segir lélegan brandara. Ógáfulegar hugmyndir löngu liðinna tíma eru dregnar upp á yfirborðið.

Það er ekki svo langt síðan sem minni manna var það eina sem eftir lifði af atburðum liðinna tíma. Við erum enn að læra hvernig upplýsingasamfélagið virkar. Hvernig brigðult manna minni er ekki eina leiðin til þess að misskilja heldur eru líka texti, hljóðupptökur, myndir, myndbönd, gagnvirkar vefsíður, snapchat, spjall rúlletta, smáskilaboð, dulnefni, athugasemdakerfi veffréttablaða, … fullt af gögnum frá fullt af fólki, um fullt af fólki. Af öllu þessu getur ein saklaus athugasemd orðið að gríðarlegu vandamáli (sjá ágætis útskýringu frá lögfræðing og lögregluþjón: https://www.youtube.com/watch?v=6wXkI4t7nuc).

En aftur að ályktun SÞ.

“Leggjum áherslu á að ólögleg og almennt eftirlit og/eða hlerun á samskiptum, sem og ólögleg eða almenn söfnun á persónugögnum eru verulega uppáþrengjandi og brjóta í bága við friðhelgi einkalífsins, tjáningafrelsi og stríða gegn þeim grunni sem lýðræðislegt samfélag byggir á.” (e. “Emphasizing that unlawful or arbitrary surveillance and/or interception of  communications, as well as unlawful or arbitrary collection of personal data, as highly intrusive acts, violate the rights to privacy and freedom of expression and may contradict the tenets of a democratic society”.)

“Staðfestum að réttindi sem fólk hefur utan samskiptamiðla verða að vera verndaðir innan samskiptamiðla, þar á meðal rétturinn til friðhelgi einkalífsins.”  (e. “Affirms that the same rights that people have offline must also be protected online, including the right to privacy;“)

Í kjölfar þessara ályktanna eru ríki heimsins beðin um að yfirfara löggjöf og ferla til þess að rétturinn til friðhelgi einkalífs sé virtur – LÍKA með tilliti til stafrænna samskipta. Það er ekki bara verið að bæta við skilgreininguna á mannréttindum, það er verið að ítra hversu mikilvæg friðhelgi einkalífsins er – innan og utan stafrænna miðla.

 

Höfundarréttur og þrívíddarprentun

Umtalsverður misskilningur virðist ríkja um höfundarréttarstefnu Pírata, en þegar Píratar kalla eftir endurskoðun á höfundarrétti, þá óska þeir eftir styttum dreifirétti —og frjálsri dreifingu á efni, sé dreifingin ekki í ágóðaskyni. Það eru ekki mörg samfélög sem hafa dafnað þar sem er í lagi að stela og Píratar vilja alls ekki stuðla að slíku.

Þegar Píratar tala um endurskoðun á höfundarrétt er tilhneiging hjá mörgum að bregðast nokkuð harkalega við og segja gjarnan “finnst þér þá bara í lagi að stela?”. Það eru ekki mörg samfélög sem hafa dafnað þar sem er í lagi að stela og ekki vilja Píratar stuðla að slíku. Svo það sé alveg hreint og tært þá er stefna Pírata í höfundarréttarmálum svohljóðandi:

Með tilvísun til eftirfarandi grunngilda Pírata

1.1 Píratar leggja áherslu á gagnrýna hugsun og vel upplýstar ákvarðanir.

2.1 Píratar beita sér fyrir eflingu og verndun borgararéttinda.

4.3 Upplýsingar eiga að vera aðgengilegar almenningi.

5.1 Takmörkun á frelsi fólks til að safna og miðla upplýsingum er óásættanleg, nema til verndar borgararéttindum einstaklinga.

og með hliðsjón af norsku skýrslunni; ítarlegri rannsókn á áhrifum stafrænnar væðingar á tónlistar iðnaðinnum í Noregi frá 1999 til 2009 – http://www.scribd.com/doc/37406039/Thesis-Bjerkoe-Sorbo
og Hargrave review, skýrslu sem breska ríkisstjórnin lét taka saman http://www.ipo.gov.uk/ipreview-finalreport.pdf

álykta Píratar að eftirfarandi breytingar á höfundarréttarmálum sé nauðsynlegar:

Endurskoðun á sæmdarrétti.
Frjáls dreifing á efni sem er ekki í ágóðaskyni.
20 ár á efni sem er í ágóðaskyni.
Skráning eftir 5 ár til að nýta 20 ára rétt í ágoðaskyni að fullu.
Betri skilgreining á sanngjarnri notkun efnis.
Leyfa aflæsingu á afritunarvörn. Greinilegt skal vera fyrir kaupanda að vara sé læst með afritunarvörn og tálmanir á notkun fyrir löglega kaupendur afnumdar
Ríkisvaldið skuli ekki hafa höfundarrétt á sínu efni.

Höfundarréttur hefur ekki fylgt þeirri tækniþróun sem hefur átt sér stað undanfarin ár og hefur það haft mjög heftandi áhrif á þróun internetsins sérstaklega. Stóra áskorunin sem internetið mun þurfa að glíma við árið 2014 er þrívíddarprentun. 3D prentun er ekki lengur bundin við litla og krúttlega plasthluti (sjá dæmi fyrir neðan, meðal annars bíla, hljóðfæri, hús, líkamsparta og jafnvel hluti í herþotur). Hefðbundin höfundarréttur gerði engan veginn ráð fyrir því að hægt væri að prenta nýjustu hönnun sem var að koma í búðirnar. Þessi tækni bíður upp á margvíslega möguleika hvað varðar framleiðslu á vörum. Því væri synd að leyfa einhverju á borð við úrelta mynd af höfundarrétt að hefta þá þróun.

Þrívíddarprentun bíður upp á það stórar breytingar í framleiðslu á vörum að horfa verður aftur til iðnbyltingarinnar til þess að finna jafn áhrifamiklar breytingar í framleiðslu. Það er rétt hægt að ímynda sér hvað það munar miklu að þurfa ekki lengur að flytja heilu vörurnar milli landa og þess í stað flytja aðeins hráefnin sem notuð eru í vöruna og svo skjal í tölvu um hvernig skal prenta vöruna út. Sparnaðurinn sem þessi tækni mun skila sér er rosalegur. Minni þörf verður fyrir flutningi á vörum milli landa sem mun spara gríðarlega mikla orku.

Ég bíð því spenntur eftir að sjá hvernig þróunin í þessari tækni verður og hvað verður svo Spotify eða Amazon þrívíddar prentunar.

3D prentaður bíll

http://www.popularmechanics.com/cars/news/industry/urbee-2-the-3d-printed-car-that-will-drive-across-the-country-16119485

3D prentaður gítar

http://cubify.com/products/guitars/index.aspx?tb_shop_guitars

3D prentað hús

http://www.ibtimes.com/3d-printers-build-entire-houses-contour-craftings-aims-print-2500-square-foot-homes-20-hours-video

3D prentaður kjálki

http://www.3dprinterworld.com/article/first-3d-printed-titanium-jaw-implant-sucessful”

3D prentaðir herþotu partar

http://rt.com/news/uk-raf-planes-3d-229/

Posted in Uncategorized

Höfundarréttur og þungarokk

Ég hef síðan að ég var unglingur verið mikill þungarokksaðdáandi og get kallað mig sannan málmhaus. Það hefur verið mjög spennandi að fylgjast með þróun tónlistarinnar víðsvegar um heim. Þetta er tónlist sem heyrist ekki oft í útvarpinu og finnst sumum hún vera hin mestu óhljóð. Ég uppgötvaði þessa tegund tónlistar á svipuðum tíma og umræðan um ólöglegt niðurhal fór af stað. Ég rakst á Metallica rétt áður en þeir fóru í mál við Napster. Á þeim tíma var Napster aðalstaðurinn til þess að ná sér í tónlist á netinu. Ég gat skilið hlið listamannsins, og hefði glaður borgað smá pening fyrir lögin sem ég var að ná mér í en gallinn var að á þessum tíma voru engar slíkar leiðir til staðar. Í plötubúðum var takmarkað úrval af uppáhalds tónlistinni minni. Ég þurfti að panta sérstaklega og stundum var það ekki einu sinni hægt.

Aðstæður eru hins vegar allt aðrar í dag. Ég er með aðgang að Spotify og get pantað mér plötur á Amazon. Ég get meira að segja styrkt hljómsveitir beint með að kaupa lög í mp3 formi, boli og sérstakar útgáfur af plötunni beint frá hljómsveitinni. Allt án hefðbundinna milliliða sem stjórna hvaða vörum ég hef úr að velja. Ég er búinn að kynnast hljómsveitum frá Færeyjum, Brasilíu, Ísrael, Indlandi, Japan og Kína svo nokkur dæmi séu nefnd. Það er nóg af listamönnum sem hafa grætt á því að ég heyrði tónlistina þeirra frítt á netinu. Ég er þó nokkuð lánsamur miðað við marga þungarokksaðdáendur erlendis. Aðdáendur í Iran, Saudi Arabíu og fleiri einræðisríkjum fá einungis aðgang að þungarokki í gegnum ólöglegt niðurhal og smygli á plötum.

Höfundarréttur er í dag ein helsta ástæðan fyrir því að það virðist vera í lagi að brjóta á borgararéttindum fólks í hinum vestræna heimi. Ritskoðun á netinu virðist aðalega eiga sér stað gegn síðum á borð við thepiratebay.org. Það fer ekki á milli mála að ólögleg dreifing á sér stað í gegnum Pirate Bay en þar er svo sannarlega líka heilmikið af fullkomlega löglegu efni. Maður verður því að velta því fyrir sér hvort það sé í lagi að ritskoða allar þær síður þar sem ólöglegt niðurhal á sér stað. En þá er einnig hægt að færa rök fyrir því að það ætti að ritskoða Google og Dropbox enda bjóða þau fyrirtæki upp á dreifingu á höfundarréttarvörðu efni. Ekki þarf annað en að slá inn orðið torrent með nafn á kvikmynd hjá Google til þess að finna síðu sem bíður upp á ólöglega dreifingu höfundarvarins efnis.

Afleiðingin er sú að hlutleysi internetsins eins og við þekkjum það er í hættu. Stór hluti af umferðinni á netinu í dag er orðin svokölluð ,,peer to peer” umferð, sem er ein aðal leið fólks til að deila skrám sín á milli. Þar með talið er höfundarréttar varið efni. Umferðin í gegnum slíkar þjónustur er það mikil að sumir vilja leyfa þjónustuaðilum að ákveða hversu mikil bandvídd má fara í t.d. Pirate Bay eða Youtube. Ef hlutleysi netsins verður ekki virt myndi það gera að verkum að Síminn, Vodafone, 365 og fleiri ákveða fyrir þig í hvað þú mátt nota bandvíddina hvort það sé VOD eða Youtube.

Það sem þetta þýðir er að internetið mun líkjast útvarpi og sjónvarpi töluvert meira. Öll sú nýsköpun sem a sér stað á internetinu hverfur hægt og rólega og í staðinn munu fyrirtæki geta keypt sér meiri umferð á síðurnar sínar með því að bjóða upp á meiri bandvídd. Ég hef ekki séð né heyrt mikið þungarokki í útvarpi og sjónvarpi undanfarið og vil þess vegna fá að njóta þess að hafa þann fjölbreytileika sem internetið bíður upp á.
Posted in Uncategorized