Jólamatur

Á vef Viðskiptablaðsins í gær var nafnlaus bloggfærsla sem sagði að “Pírötum er þröngur stakkur sniðinn í vali á jólamat,” með tilvísan til könnunar MMR sem sýndi að stuðningsmenn Pírata eru öðrum líklegari til að vera frumlegir í matarvali sínu um hátiðarnar. Hélt bloggfærslan áfram og fullyrti að úrvalið á jólamat takmarkaðist “örugglega við það sem hægt er að panta á netinu,” því Píratar séu svo rafrænir, og að það þurfi þá að vera “Fair Trade” vottað og hægt að greiða með Bitcoin.

Verandi frekar húmorslaus þá skildi ég ekki alveg hvað var átt við með greininni. Ég fór því á stúfana í leit að hamborgarhryggjum á netinu. Þeir sem þekkja mig vel vita að það er fátt sem mér finnst jafn gott og hamborgarhryggur, en ég veit einmitt um frábæran stað í Hamborg til að fá slíkan hrygg ódýran og góðan.

Í fljótheitum fann ég fín tilboð frá Miðskersbúinu á 1760 kr/kg, og vistvænt svínakjöt frá Bjarteyjarsandi á 2400 kr/kg. Einnig rakst ég á þessa grein í Mogganum sem segir að það hafi aldrei verið jafn mikil eftirspurn í vörur beint frá býli. Það er gleðiefni! Stytting boðleiða milli framleiðenda og neytenda þýðir betri gæði, betra verð, og að framleiðandinn fær meiri tekjur. Milligöngumennirnir þurfa að vísu kannski að herða beltið.

Hvað “Fair Trade” varðar veit ég frekar lítið. En til að reyna að finna eitthvað sem uppfyllir þær kröfur skoðaði ég vefsíðuna nattura.is þar sem ég fann tvö bú sem eru með svinakjöt í heimaslátrun, Miðskersbúið og Holtselsbuið. Það eru örugglega einhverjar aðrar kröfur til “Fair Trade” svínakjöts, en ég veit ekki hverjar þær eru. Snýst “Fair Trade” ekki annars bara um sanngjörn viðskipti þar sem bændurnir fá vel borgað fyrir sína vöru?

Verandi sjálfur í Serbíu núna um jólin þá lá ljóst fyrir, áður en ég lagði í þennan leiðangur um hið skrýtna Internet sem Viðskiptablaðsmenn virðast svo hræddir við, að ég yrði að sætta mig við eitthvað annað en hamborgarhrygg, þannig að ég mun fá mér pečenica ásamt brúnuðum kartöflum, sósu og með því í kvöld með nokkrum vinum. Pečenica er einmitt reyktur hryggur af svíni sem er svo soðinn… svakalega útlenskt og framandi eitthvað!

Pečenica

Ég sá ekki neitt býli sem tók við Bitcoins, en það er fínt, þar sem ég er að spara, enda fjölmargir barir og veitingarstaðir í Berlín, þar sem ég verð um áramótin, sem taka við greiðslum í Bitcoins. Hver veit nema maður fái sér einn áramótaöl á Room 77 (ætti að kosta c.a. 0.004 Bitcoin á núgengi!).

Það eru margar fjölskyldur á Íslandi sem kjósa kannski að borða eitthvað annað en það hefðbundna á jólunum, eða fara í villibráðina svo sem gæsir, rjúpur, endur eða hreindýr. En það eru líka aðrar fjölskyldur sem hreinlega hafa ekki efni á því að leggja út fyrir hamborgarhrygg – sé fjölskyldan stór getur kjötið eitt og sér farið upp fyrir fimm þúsund krónur áður en farið er að kaupa meðlæti eða nokkuð annað. Hvort stuðningsmenn Pírata séu í meiri fjárhagserfiðleikum en aðrir veit ég ekki, enda lá meira á hjá MMR að gera könnun um jólamat en efnahagsaðstæður fólks. Vonandi er stakkurinn ekki allt of þröngt sniðinn hjá fólki!

Fólk með jafn mikinn skilning á viðskiptum og Viðskiptablaðsmenn ætti að vita að fólk velur hvað það kaupir út frá þeim forsendum sem það hefur, og það er fátt jafn slæmt og einsleitur markaður. Fátækt er alvarlegt vandamál á Íslandi og víðar í heiminum, og það verður varla upprætt með því að beita fólki félagslegum þrýstingi til að borða tiltekna tegund matar á tilteknum degi ársins – né neinum öðrum af þeim aðgerðum sem virðast falla í kramið hjá Framsóknarmönnum.

En að öllu gríni slepptu, þá vona ég að allir fái gott að borða núna á jólunum, sem og alla aðra daga! Gleðileg jól!

Posted in Uncategorized

Mikilvægi Pírata

Þegar rætt er um málefni Pírata þá virðist oft vera skortur á skilningi á því af hverju við teljum Internetið svona mikilvægt. Oft beinist gagnrýnin að því að glíma verður við mikilvægari málefni sem eiga sér stað utan internetsins eins og t.d. skuldamál, gjaldeyrishöft og fleira. Pírötum er ánægja að segja fra því að þingmönnum Pírata hefur tekist að koma fyrsta kosningaloforði okkar í gegnum þingið – og það tengdist internetinu lítið sem ekkert. Lög um frestun á nauðungarsölu heimila hafa verið samþykkt, og það er stórsigur fyrir þá sem hafa orðið hvað verst fyrir afleiðingum hrunsins 2008. Píratar eru meira en netnördar, við erum flokkur með heildstæða og mannúðlega hugmyndafræði, og málefni eins og skuldamálið og fleiri mál frá þingmönnum okkar sýna að flokkurinn hefur sterkan grunn og er kominn til að vera.

Svo virðist sem að almennt séum við Íslendingar einstaklega duglegir að hunsa málefni sem hafa ekki snert okkur með beinum hætti, þar til eitthvað kemur upp á, og þá verða allir vitlausir og heimta skýringar. “Af hverju var ekki gert neitt í þessu máli fyrr?”. Gott dæmi um þetta er Vodafone lekinn sem kom upp fyrr i mánuðinum. Persónulegar upplýsingar fólks voru allt í einu opinberar og hver sem er gat sótt sér sms skilaboð og símanúmer fólks þar á meðal númer sem ég hætti að nota fyrir 3 árum síðan ásamt númerum fjölda fólk sem ég þekki.

Vodafone lekinn varð sem betur fer til þess að nú eru hugmyndir eins og gagnageymd, dulkóðun og öryggi persónuupplýsinga varð hluti af daglegri umræðu íslendinga. Öll þessi málefni komu fram í kosningabaráttu Pírata en fengu þó misgóð viðbrögð hjá almenningi. Það er ákveðið áhyggjuefni hvað það þarf oft svakalega öfgakennd dæmi til þess að almenningur bregðist við og krefjist réttar síns.

Ef tekin eru nokkur stefnumál Pírata sem dæmi þá er greinilegt að nokkrir mjög ljótir atburðir þurfa að eiga sér stað til að fólk átti sig á alvarleika þess sem Píratar berjast fyrir. Það þyrfti greinilega stórtækt ofbeldisfullt uppgjör í undirheimunum þar sem saklausir borgarar yrðu fórnarlömb til þess að almenningur áttaði sig á því að stríðið gegn fíkniefnum er tapað. Það þyrfti algjört hrun menntakerfisins til þess að almenningur áttaði sig á því að það þarf að gera róttæka endurskoðun á því hvernig menntun á Íslandi er háttað. Það þyrfti að senda nokkra á bakvið lás og slá fyrir helgispjöll til þess að almenningur áttaði sig á mikilvægi tjáningafrelsis. Það þarf líka greinilega annað banka- eða gjaldreyis-hrun til að almenningur átti sig á brenglaðri peningastefnu landsins. Píratar vilja grípa inn í þessi mál áður en þau magnast og verða að enn stærri vandamálum.

Ég vil ekki bíða slíkra hörmunga því nú þegar er ljóst hverju við þurfum að breyta. Ég vona, kæri lesandi, að þú getir verið sammála. Veldu Pírata í sveitarstjórnarkosningunum nú i vor. Við lofum að kjósendur munu ekki sjá eftir því.

Posted in Uncategorized

Kjarasamningar og prósentumistökin

Það er ágætis reikningsdæmi hjá vísi: http://www.visir.is/-misskipting-sem-eg-tholi-ekki-/article/2013131229750 … pínulítið gallað þar sem borin eru saman mánaðarhækkun og árshækkun, og þeir gleyma að reikna inn skattprósentu sem er mismunandi hjá þessum tveimur einstaklingum sem þeir taka dæmi um. Einnig gleyma þeir að reikna inn prósentuhækkunina fyrir þann launalægri.

Allavega, byrjun. En reiknum dæmið til enda (ég hefði valið annað dæmi en höldum áfram með þetta bara)

Einföldu tölurnar sem fylgdu undirritun kjarasamninga voru: “Samkvæmt honum hækka laun um 2,8 prósent. Lægstu laun hækka þar að auki um 9.750 krónur á mánuði og laun hærri en 230.000 krónur hækka um 8.000 krónur” (http://www.ruv.is/frett/kjarasamningar-undirritadir)

Það vantar því í ofangreint dæmi að bæta við prósentutöluhækkuninni (2,8%) sem þýðir að sá sem er með 246 þ. hækkar um 14.888 fyrir skatt — það þýðir líka að sá sem er með milljón hækkar um 36 þ.

Nú eru skattþrep þannig að sá sem er með hærri laun borgar meiri skatt, bæði í krónutölu og hlutfallslega. Skattprósentan miðað við þessa samninga er þá nú: 22,8% hjá þeim sem er með undir 290 þ. en 31,8% hjá þeim sem er með milljón á mánuði (http://www.rsk.is/media/baeklingar/rsk_1202_2013.is.pdf).

Báðir eru yfir skattleysismörgum og borga því fullan skatt af launahækkuninni:
14.888 kr. * 0.772 = 11.493 kr. í launahækkun
36.000 kr. * 0.682 = 24.552 kr. í launahækkun

Munurinn er semsagt tvöfaldur. Laun þess með milljón á mánuði hækka tvöfalt meira í krónutölum talið.  Niðurstaðan er dæmigerð misskipting þegar það er prósentuhækkun launa en ekki eingöngu föst krónutöluhækkun.

Til þess að hafa það alveg á hreinu, þegar það er hlutfallsleg hækkun launa þá helst hlutfallslega sama dreifing … en ekki sama krónutöludreifing. 10% hækkun á 100.000 = 10.000 … 10% hækkun á milljón = 100.000.  Það er sami hlutfallslegi munur á launum fyrir og eftir en allt annar krónutölumunur.

Þetta þýðir að ef það á að nálgast jöfnuð, en ekki auka á ójöfnuð … þá verða launahækkanir að vera í fastri krónutölu. Ef hækkunin er í krónutölum þá minnkar munur launa hlutfallslega. Það eru ekki til rök sem styðja aukinn ójöfnuð – það eru hins vegar til fullt af rökum fyrir því að viðhalda jöfnuði, til að mynda:

Jólagjöfin í ár er semsagt misskipting. Frá lægri auðlindagjaldi og eignaskatti til skuldaniðurfellinga og kjarasamninga … þá hlakka ég til áramótaskaupsins. Kannski verður þetta fyndið þar.

Baráttan um breytingar á höfundarétti eru rétt að byrja.

2014 verður mjög áhugavert ár með tilliti til þeirra áhrifa sem höfundaréttur hefur á samfélag manna. Á árinu 2014 renna úr gildi nokkur einkaleyfi (http://qz.com/106483/3d-printing-will-explode-in-2014-thanks-to-the-expiration-of-key-patents/) sem gerir hárnákvæma þrívíddarprentara mikið ódýrari.

Sjón er sögu ríkari:

Nokkur einkaleyfi hafa þegar fallið úr gildi, þegar leyfi fyrir FDM tegund af 3D prentara rann út lækkaði verðið úr nokkur þúsund dollurum í um 300. Munurinn á gæðum vörunnar sem kemur úr FDM prenturum og þeim sem verða aðgengilegir fyrir eðlilegra verð er gríðarlegur (sjá til dæmis Cube3D hér að ofan).

Möguleikarnir eru gríðarlegir. Leikföng fyrir krakka til dæmis? Prenta lego kubba? Fleiri lestarteinar eða lestir? Bílar? Playmo? Týndist kubbur úr einhverju spili? Húsgögn í dúkkúhúsið? Dúkkuhúsið sjálft … með eigin viðbættri hönnun? Bættu við hæð eða stækkaðu stofuna.

Gömlu leikföngin sem taka of mikið pláss? Skelltu því bara í endurvinnsluvélina (http://gigaom.com/2013/10/08/its-about-to-get-easier-to-3d-print-with-recycled-plastic/) og búðu til nýtt.

Ef stafræn afrit af tónlist, kvikmyndum, forritum og bókum er höfundaréttarvandamál í dag – þá verður 2014 upphafið af einhverju virkilega spennandi.

Samspil Rauða krossins við ríkið

Fyrir tæpri öld síðan tíðkaðist að skilgreina fasisma sem fullkomið samband fyrirtækja og ríkisins. Sú var hugmyndin, að ríkið myndi veita ákveðnum og sérútvöldum fyrirtækjum fríðindi og fyrirtækin myndu styðja við ríkið í gegnum súrt og sætt. Þetta er mjög algengt á Íslandi og reyndar víðast hvar í heiminum í dag. Þótt flestir tengi fasisma e.t.v. við fjöldamorð eða álíka verður að muna að fasismi er fyrst og fremst eitt form stjórnkerfis, þar sem ríki og fyrirtæki eru álitin mikilvægari en fólk.

Fríðindin koma í ýmsum stærðum og gerðum, t.d. einkaleyfi, nýtingarréttur á auðlindum, höfundarréttur, styrkir, innkaupasamningar, og fleira. Sum fríðindin eru ekki jafn augljós og bein, til dæmis að utanríkisþjónustan eða forsetinn tali fyrir hönd fyrirtækja erlendis. Eða einfaldlega að fyrirtæki hafi greiðan aðgang að stjórnmálamönnum eða stjórnsýslunni til að leysa úr vandamálum þess.

Ekkert af þessu hefur hlotið viðurnefnið ‘spilling’ í daglegu tali. Þetta þykir svo sjálfsagt að mikið af þessu er bundið í landslög eða alþjóðalög og varið sem sjálfsögð mannréttindi. Til að mynda má nefna að á Íslandi eru Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins með lögskipuð fríðindi. Á alþjóðavísu má nefna Parísarsáttmálann um einkaleyfi, Bernarsáttmálann og TRIPS samninginn um höfundarrétt, og jafnvel sjálfan Genfarsáttmálann.

Ha, Genfarsáttmálann?

Jú, sjáiði til. Það eru ekki öll fyrirtæki byggð upp sem fyrirtæki – Betra orð vantar til að lýsa hópi einstaklinga með sameiginleg markmið, sem beita sér sem ein heild. Stofnun, félag, hreyfing, bla bla bla. Fyrirtæki dugar. Eitt slíkt fyrirtæki hefur áunnið sér sess í alþjóðasamfélaginu fyrir mikilvæg og góð störf í þágu mannkyns í um 150 ár, en ólíkt öllum öðrum slíkum fyrirtækjum hafa verið skrifaðir ýmsir viðaukar við Genfarsáttmálann og önnur alþjóðalög til að treysta og tryggja tilverurétt þess.

Fyrir vikið er samband Rauða krossins við ríki heimsins mjög sterkt. Það verður að vera það, því þeirra staða reiðir sig beinlínis á áframhaldandi stuðning þjóðríkja við sig. Á heimsvísu fer þetta fram í gegnum ICRC, en innan einstakra ríkja – t.d. á Íslandi – er sambandinu viðhaldið í gegnum stjórnsýsluna og stjórnkerfið, í gegnum mikilvæga vinnu Rauða krossins í ýmsum málaflokkum. Þar má nefna málefni fíkla, heimilislausra, hælisleitenda, ásamt þróunaraðstoð erlendis og neyðaraðstoð þegar náttúruhamfarir, stríð og fleira eiga sér stað.

Athugið að ég er ekki að gagnrýna þá vinnu sem Rauði krossinn vinnur. Þar er mikið, merkilegt og oft þakkarlaust starf unnið og væri heimurinn verri ef sú vinna væri ekki unnin.

Það sem ég er að gagnrýna er að eðli sambandsins við ríkið þýðir að það er oft sem Rauði krossinn þarf að fara mjög varlega í alla gagnrýni. Hún þarf að gerast bak við luktar dyr og án þess að almenningur viti af. Ekkert má gera sem ógnar sambandi fyrirtækisins við ríkið.

Þetta er ekki bara vegna Genfarsáttmálans, auðvitað. Á Íslandi er Rauði krossinn með ýmiskonar ábyrgðarhlutverk, sem oft eru sett fram í formi samninga við ríki eða sveitarfélög. Traust, trúverðugleiki og trúnaður verður að ríkja til þess að þetta gangi upp. Þótt Rauði krossinn sé alls ekki stór vildarþegi ríkisfríðinda miðað við sum fyrirtæki – til dæmis vopnaiðnaðurinn, námuðinaðurinn og á Íslandi, fiskiðnaðurinn og áliðnaðurinn – þá er hann samt hluti af þessu spillingarmynstri sem undirbyggir samfélagið. Samtrygging veldur gríðarlegri meðvirkni og hefur kælingaráhrif á gagnrýni.

Trúnaðinn viðheldur Rauði krossinn til að mynda með sinni opinberu stefnu á heimsvísu, að gefa aldrei út skýrslur. Þetta er sérstaklega slæmt í ljósi þess að oft er Rauði krossinn að gera úttektir á útbúnaði fólks, til að mynda heimilislausra, hælisleitenda, flóttamanna og annarra, sem móttakendur innan ríkja geta þá hundsað í sinni fullvissu um að þær skýrslur muni aldrei koma fyrir almannasjónir.

Í stuttu máli gerir samstarf Rauða krossins við ríkið Rauða krossinum ókleift að gagnrýna ríkið. Sama gildir um ýmis önnur fyrirtæki – það er trúnaðarsambandið sem undirstrikar það form spillingar sem hefur verið kallað róttæk einokun. Það sem er sérkennilegt er að þetta heldur áfram að vera satt, jafnvel þegar ríkið ásakar Rauða krossinn um mannréttindabrot, sem eru einu sakirnar sem Rauði krossinn hefur alls ekki efni á því að láta bera á sig.

Það sem gerðist á síðustu sólarhringum var sérkennilegt. Innanríkisráðherra Íslands ýjaði að því að Rauði krossinn kunni alveg eins að hafa lekið persónulegum gögnum um Tony Omos í fjölmiðla, sem er mannréttindabrot, hreint og klárt. En samkvæmt fréttum hafði þá þegar komið fram að aðrar stofnanir sem hún hafði bent á hafi ekki haft umrætt minnisblað í sínum skjölum. Hanna Birna bauð ekki upp á neinar sannanir fyrir þessu, á hvorn veginn sem er, né hefur hún nokkuð gert til að sætta þetta mál.

Rauði krossinn getur ekkert sagt við þessu. Einhverjir hafa sagt að það sé vegna þess að þau vinna eftir strangri hlutleysisstefnu, en sú skýring er ekki alveg fullnægjandi í þessu tilfelli. Annars vegar vegna þess að verið er að ásaka Rauða krossinn um mannréttindabrot og jafnvel innan marka hlutleysisins hlýtur að vera til svigrúm til að verjast ásökunum af því tagi, og hinsvegar vegna þess að Rauði krossinn bregst við “óheppilegum” (en fullkomnlega réttmætum) athugasemdum starfsmanns síns með því að gagnrýna fjölmiðilinn sem birtir þau. Varla getur það talist mjög hlutlaust.

Ég öfunda Rauða krossinn ekki af þessari stöðu. Hér eru þau fórnarlamb þess að innanríkisráðherra gengur gegn þeim, vitandi að þau geti ekki svarað fyrir sig, í stað þess að gera það sem eðlilegt væri. Hvernig fer fyrir hjálparstofnun sem má ekki hjálpa sér sjálf?

Hvað væri eðlilegt?

Jú, þegar gögn sem eiga uppruna sinn að rekja til ráðuneytis leka í fjölmiðla, þá er eðlilegt að ráðherra meti hvort brotið sé á réttindum einstaklinga, og ef svo er, láti þá rannsaka með opinberum hætti hvaðan lekinn er uppruninn. Ef það kemur í ljós að hann er uppruninn úr ráðuneytinu, þá er það á ábyrgð ráðherrans sbr. stjórnarskrá og lög um ráðherraábyrgð. Ef lekinn kom úr stofnun sem heyrir undir ráðuneytið er það líka á ábyrgð ráðherrans. Ef hann kemur úr stofnunum sem er í samvinnu við ráðuneytið, þá ber að endurskoða þá samvinnu. Alveg sama hvernig fer, þá á opinberlega að koma fram skýrsla sem skýrir hvað átti sér stað, viðeigandi aðilar eiga að taka ábyrgð á sínum gjörðum, og það ber að taka mál þeirra einstaklinga sem urðu fyrir barðinu á alvarlegum leka persónuupplýsinga úr ráðuneytinu aftur upp til að tryggja hlutlausa og réttláta málsmeðferð þeirra.

Ráðherra á ekki að dylgja að hjálparstofnunum og Rauði krossinn á ekki að sætta sig við slíkar dylgjur. Að láta hið fullkomna samband ríkis og fyrirtækja standa í vegi fyrir réttlæti er eitt höfuðeinkenni fasísks stjórnkerfis.

Posted in Uncategorized

Hégómi fimmta valdsins

Ef ekki hefði verið fyrir inngrip Birgittu Jónsdóttur inn í gerð kvikmyndarinnar The Fifth Estate, þá hefði myndin fjallað að hluta um íranskan kjarneðlisfræðing sem væri í hættu staddur vegna uppljóstrana Wikileaks á því að hann hefði séð bandaríkjastjórn fyrir upplýsingum um kjarnorkuvopn Írana. Í myndinni hefði verið sena þar sem aðalsögupersónur sætu í heitum potti á Íslandi og ræddu kæruleysislega um það sem átti eftir að verða stærsta sönnun á stórfelldum stríðsglæpum síðan í lok seinni heimstyrjaldar.

Þegar handritið að þessari kvikmynd lak út hafði Birgitta samband við Josh Singer, handritshöfund, og lýsti gremju sinni yfir þeirri þvælu sem var í myndinni. Í kjölfarið fékk hún nýja útgáfu af handritinu, og við sátum á kaffihúsi langan eftirmiðdag og lásum í gegnum vitleysuna – undirstikuðum helsta ruglið og svo voru leiðréttingar sendar. Þetta leiddi til þess að úr varð mynd sem varpaði ekki á nokkurn hátt neikvæðu ljósi á Wikileaks samtökin, né nokkurn þar innan.

Það var aldrei nokkur leið til að stöðva framleiðslu myndarinnar. Það hefði hugsanlega verið best, en það var ekki hægt. Þeim teningum var kastað. Það eina sem var hægt að gera var að reyna að færa söguna nær raunveruleikanum – þótt hún væri þar fjarri – og rétta hlut þeirra sem voru persónugerðar.

Mér var boðið á forsýningu breska dagblaðsins The Guardian á myndinni í London. Ég átti von á því versta. Þrátt fyrir allt, þegar upp er staðið, þá er það leikstjórinn og leikararnir sem ráða því með hvaða hætti spilast úr svona myndum. Niðurstaðan kom mér á óvart: atburðir myndarinnar voru í kolrangri tímaröð, margt fólk sem var á staðnum í raunveruleikanum var ekki á staðnum í myndinni, og sömuleiðis var margt fólk á staðnum í myndinni sem var ekki á staðnum í raunveruleikanum. Ýmsir atburðir myndarinnar voru hreinn uppspuni. En mér fannst myndin þrátt fyrir allt góð. Hún náði að fanga bæði hugsjónirnar og andann sem ríkti, sýndi allar persónur í mjög sanngjörnu ljósi. Benedict Cumberbatch lék sitt hlutverk mjög vel – eina sem ég hafði út á að setja var síðasta setning myndarinnar, sem var frekar klén.

B-plottið, með íranska kjarneðlisfræðinginn, var fjarlægt. Í stað þess var öllu raunverulegri frásögn af manni sem þurfti að komast burt úr Líbíu. Sú saga var líka uppspuni, en hafði einkum tvennt fram yfir upprunalega B-plottið. Annars vegar voru mjög margir sem þurftu að flýja hin ýmsu lönd í tengslum við arabíska vorið – ég þekki suma þeirra sjálfur – þannig að þessi saga er ekki alskostar ótrúverðug. Hinsvegar gaf þessi frásögn hvergi í skyn að Íran hefði kjarnorkuvopn, sem er sú tegund af hættulegum uppspuna sem getur sveigt almenningsálit, sem nú þegar er ekki jákvætt gagnvart Íran, og orðið til þess að auka líkurnar á innrás Bandaríkjanna inn í Íran.

Ef Julian Assange og Kristinn Hrafnsson myndu losa um hégómann og reiðina í smá stund og hugsa málið myndu þeir sennilega fatta það að þeir eiga að vera að þakka Birgittu fyrir, en ekki gagnrýna hana. Það er nákvæmlega ekkert gagnlegt við þessar árásir. Þær bæta varla hina löskuðu ímynd Wikileaks, sem myndin nær þó að fegra þó nokkuð.

Kristinn Hrafnsson gerði nokkuð sérkennilega athugasemd varðandi þá hugmynd að Pírati væri að aðstoða Hollywood kvikmyndaver, þar sem við Píratar værum á móti höfundarrétti. Þetta sýnir algjöran vanskilning á stefnu okkar: við erum ekki á móti höfundarrétti, við erum á móti úreldum, ónýtum, heimskulegum höfundarrétti sem samræmist ekki nútímanum. Það að aðstoða kvikmyndaver með nokkrum símtölum og tölvupóstum er því engu meiri hræsni en að gefa út bók eða skrifa bloggfærslu.

Það er löngu kominn tími til að þetta væl í Wikileaks mönnum hætti. Þessi samtök voru eitt sinn merkileg, og gerðu stórkostlega hluti. Þau breyttu heiminum til hins betra. Ég er stoltur af minni þátttöku í þeim samtökum, þrátt fyrir að viðskilin hafi ekki verið með besta móti. Hugmyndafræðilegur ágreiningur – með mjög raunverulegar afleiðingar – gerði mér og ýmsum öðrum ókleift að halda áfram að starfa með þeim. Það er ástæðulaust að telja það til sérstaklega, enda löngu liðið og ekki gagnlegt neinum nema þeim sem vilja takmarka getu fimmta valdsins til að starfa.

Það sem skiptir máli er að það er mikil þörf á samtök á borð við Wikileaks í dag, heiðvirðum og stöðugum samtökum sem allir geta treyst. En samtökin munu aldrei ná slíkum hæðum á ný fyrr en þessi biturð verður lögð til hvíldar.

Posted in Uncategorized

Vodafone lekinn: Ábyrgð, skyldur og sök

Við erum ekki örugg og nýjasti lekinn frá Vodafone sýnir það glögglega. Þarna var gögnum 70,000 manns lekið og það án neins yfirlýsts tilgangs frá þeim sem lak. Við eigum það til að kenna innbrotsþjófnum um þegar svona lagað kemst upp, en við þurfum hinsvegar að skoða heildarmyndina. Já, innbrotsþjófurinn, eða hakkarinn, átti aldrei að byrja á því að brjótast inn en með því að brjótast inn sýndi hann að hann þurfti rétt svo að brjóta glugga til þess að aflæsa hurðinni og stela dýrum gersemum.

Það sem lak voru annarsvegar yfirlit um skilaboð og hinsvegar lykilorð notenda.

Hver sendi hverjum hvað? Ekki nóg með að við vitum að Jón og Gunna voru að tala saman, við vitum hvað þau voru að tala um. Það eru heilmiklar upplýsingar fólgnar í því að skoða hverjir tala saman þótt við vitum ekki hvað samtalið snýst um, svo þegar verið erum komin með upplýsingar um innihald samtalsins þá erum við komin á allt annað stig

Ekki nóg með að samskipti fólks eru nú aðgengileg öllum heldur einnig lykilorð.

Lykilorðin að “mínum svæðum” á Vodafone síðunni voru geymd ódulkóðuð á einum stað. Það er eins og að setja alla peningana í eitt bankahólf og læsa með hjólalás þar sem þarf bara þrjár tölur til þess aflæsa. Lykilorð eru dýrmæt, því fólk á það til að nota sömu lykilorðin fyrir allt. Þetta er hluti af mannlegu hliðinni þegar það kemur að tölvuöryggi: Við getum gert tæknina eins örugga og hægt er, en ef fólk notar sama lykilorðið allstaðar þá eru allar dyr opnar, komist lykilorðið í hendur óprúttina aðila. Þetta þarf ekki að vera hakkari, þetta getur líka verið vinur eða fjölskyldumeðlimur sem vill hnýsast.

Ábyrgðin liggur ekki bara á fólki um að vita hvernig það eigi að haga lykilorðamálum. Það er ekki innbrotsþjófinum að kenna að hann þurfti bara að brjóta einn glugga til þess að stela þessum verðmætum. Vodafone átti aldrei að geyma mikið af þessum gögnum til þess að byrja með. Ekki nóg með það, heldur áttu þessi gögn ekki að vera ódulkóðuð, á einum stað.

Við skulum ekki vera svo bjartsýn að ætlast til þess að við getum búið til kerfi sem ekki er hægt að brjótast inn í. Það á jafnt við um hús sem tölvur. Það eina sem við getum gert er að búa til veggi sem er erfitt að komast framhjá. Kerfin okkarf þurfa að vera þannig að ekki allt gullið sé geymt á sama stað og aðeins einn lykil þurfi til þess að nálgast allt saman. Með því að dulkóða lykilorðin þá þarf lykil fyrir hvert lykilorð, sem þýðir að innbrotsþjófurinn þarf að eyða tíuþúsund sinnum meiri tíma í það að brjótast inn. Hann þarf tíuþúsund sinnum sterkari tölvur til þess að keyra öflugari forrit en ef hann þarf bara að komast í gegnum eina dulkóðun eða einn vegg.

Það er ábyrgð Vodafone að reisa múra í kringum okkar viðkvæmustu upplýsingar, að geyma ekki öll verðmætin á sama stað og sjá til þess að það sé erfitt og tímafrekt að brjótast inn. Löggjafinn á ekki að setja gagnageymslulög sem líti gagn er af. Ef ástæða er til setningu slíkra laga þarf að vera gulltryggti að þeim sé framfylgt þannig að friðhelgi einkalífsins sé í hávegum haft. Við þurfum að vera fullviss um að slík gögn séu bara geymd eins lengi og þörf sé á og eins lítið af upplýsingum og mögulegt er geymd.

Ef ekki er hægt að tryggja friðhelgi einkalífsins, ef ekki er hægt að sanna að gögnum sé eytt á fullnægjandi hátt og geymd á eins öruggum stað og kostur er á, þá á ekki að safna þessum upplýsingum saman til þess að byrja með.

Mannlega hliðin verður alltaf sú sama. Við getum prédikað að fólk eigi ekki að nota sama lykilorðið allstaðar. Þrátt fyrir það, þá eiga lykilorðin að vera geymd á öruggum stað — þetta er ekki fólkinu að kenna.

Það að innbrotsþjófurinn gat komist svona léttilega í gegn er fyrst og fremst Vodafone að kenna. Já, hann átti aldrei að brjótast inn í fyrsta lagi, en þá hefði kannski verið gott að læsa aðeins betur á eftir sér. Hafa tvo lása í stað eins og ekki búa til hurðir þar sem einungis þarf að brjóta þunnt gler til þess að smeygja hendinni inn og aflæsa.

Sökudólgurinn hérna er ekki bara innbrotsþjófurinn, heldur líka Vodafone fyrir að tryggja ekki öryggi viðskiptavina sinna betur og ríkið sem krefst þess að gögn séu geymd að óþörfu án fullnægjandi fyrirmæla.

Posted in Uncategorized