Opið svar til Bubba Morthens

Eftirfarandi er svar við pistli Bubba Morthens á Vísi.

Sæll, háttvirtur Bubbi Morthens. Ég er einn af þessum þingmönnum sem þú nefnir, en mig langar til þess að útskýra aðeins betur.

Ég er sjálfur tónlistarmaður og forritari þótt ég hafi reyndar alltaf verið aðeins of feiminn til að gefa út tónlistina mína. En ég hef ekki haft lifibrauð af neinu öðru en forritun og kerfisstjórnun seinustu 14 ár. Ég kann ekkert nema iðngreinar sem varða höfundarrétt. Faðir minn er hljóðmaður sem þú kannast reyndar eflaust við og reyndar höfum við hist, ég og þú, fyrir mörgum árum niðri í Stúdíói Sýrlandi þegar ég var þó nokkuð mikið yngri, ætli það hafi ekki verið í kringum 13-14 ára aldurinn.

Treystu því, herra minn, að ég ber fulla virðingu fyrir vinnunni, tilkostnaðinum og listinni sem það er að búa til tónlist. Treystu því líka að ég vil hafa lifibrauð af forritun áfram þegar ég lýk þingsetu.

Ég skil vel gremju þína en langar að útskýra aðeins betur hvað málstaður okkar Pírata snýst um. Þú skrifar: “Nú er fólk komið á þing sem telur þetta eðlilegt og vill einfaldlega að ég aðlagi mig og komi til móts við þjófana.”

Þetta er kannski ekki endilega eðlilegt (því hvað er eðlilegt?) en það er hinsvegar óhjákvæmilegt. Vandamálið er eftirfarandi. Internetið býður ekki upp á sömu takmarkanir og raunheimar gerðu þegar kassettu-, plötu- og diskasala var burðarás iðnaðarins.

Það er ekki siðferðislegt álitamál heldur tæknilegur, óumflýjanlegur raunveruleiki. Það er eins með höfundarrétt og margar ágætar, klassískar hugmyndir, að hann var útfærður án tillits til þeirrar tækniframþróunar sem hefur átt sér stað síðasta einn og hálfa áratuginn eða svo.

Þegar vatnsleiðslur komu til sögunnar, þá misstu allir vatnsberar vinnuna. Það er ekki endilega sanngjarnt, eða þá endilega “eðlilegt”, en það var óhjákvæmilegt. En ekki hafa þeir horfið eða soltið í hel, nei, þeir hafa fundið sér aðra hluti að bera eða þá nýtt tæknina til þess að aðlagast nýjum tímum, þá annaðhvort með því að bera eða keyra aðrar vörur, eða tileinka sér pípusmíði… verða 20. aldar vatnsberar. Þannig breytist eðli iðnaða með tækniframförum en það sem gerir internetið kannski óþægilegra en aðrar byltingar er að hún hefur átt sér stað á gríðarlega skömmum tíma. Allt of skömmum tíma til að stjórnvöld og markaður nái að halda í við. Þá fara öll gömlu viðskiptamódelin í klessu vegna þess að þau eru bara ekki samhæf við frjálst og opið internet. – Ég get komið með hugmyndir að því hvernig þú getur eflt tekjurnar, en fyrst þurfum við að vera á sömu blaðsíðu þegar kemur að því að breytinga er þörf.

Nú, aðeins um frjálst og opið internet, því ég tel mig vita hvað þér detti í hug; að það mætti allavega loka t.d. Deildu.net og ThePirateBay.se eða álíka. Ég skal hlífa þér við þeim fjölmörgu alvarlegu vandamálum við tæknilega útfærslu og halda mig utan tæknimáls. Þá spyr ég, hvað með öll hin þúsundin af slíkum vefsetrum, fyrir utan þau sem munu koma í stað Deildu.net og ThePirateBay.se? – Nú, væntanlega þarf að loka þeim líka.

Og hvernig á að fylgjast með þessu? Jú, með því að gera ýmist netþjónustur eða hýsingaraðila eða (í versta falli) ríkið, ábyrga fyrir því að fylgjast með höfundaréttarbrotum. En nú langar mig að biðja þig um sérstaka athygli, því hér komum við að ástæðunni fyrir því að slíkt fyrirkomulag er ósamhæft við frjálst, opið og lýðræðislegt internet.

Það kostar peninga og vinnu að fylgjast með efni sem fólk setur inn. Facebook, YouTube, Google og Microsoft hafa burði til þess að standa undir slíkum kostnaði, en ekki til dæmis Diaspora eða Wikipedia eða þá ég sjálfur. Frjáls framtök, þar sem kannski örfáir aðilar standa að vefsíðu sem hundruðir milljóna manns hafa aðgang að, hafa enga burði til þess að framfylgja höfundarrétti. Fari fólk að demba inn höfundarréttarvörðu efni inn á síðuna mína, SMÁÍS verður brjálað og heimtar að ég loki hinum og þessum undirsíðum eða aðgöngum, þá hreinlega get ég ekki staðfest lögmæti hverrar lokunar. Við erum ekki bara að tala um Deildu.net og ThePirateBay.se heldur hundruði milljóna manns á hundruðum milljóna vefsíðna. Vonandi fer að skýrast hversu róttækar aðferðir þarf til þess að hefðbundin höfundarréttarvernd geti gengið meðfram þessu fyrirbæri, internetinu.

Athugaðu að þetta er fyrir utan tæknilegu vandamálin við netsíun, sem eru óyfirstíganleg NEMA með því að yfirvöld hreinlega taki yfir internetið, en það hefur sömu samfélagslegu afleiðingar og að yfirvöld taki yfir öll mannleg samskipti.

Þar stendur hnífurinn í kúnni, Bubbi minn. Internetið er ekkert nema samskipti með nútímatækni. Það verður ekki komið böndum á internetið nema með því að koma böndum á mannleg samskipti og það er þróun sem er í algerri andstæðu við meira eða minna öll lýðræðisleg og borgaraleg gildi.

Og ef valið stendur milli fjárhagslegra hagsmuna ákveðins iðnaðar eða frjálsra samskipta, þá veljum við Píratar frjáls samskipti. Það er meira í húfi hér en “rétturinn til að stela”.

Þetta er síðan fyrir utan reiðikastið sem ég gæti tekið gagnvart hefðbundnum dreifingaraðilum, en listamenn virðast vera orðnir svo vanir því að láta taka sig ósmurt í afturendann af nú úreldum og gagnslausum milliliðum að listamenn eru farnir að verja sömu hagsmuni og hafa alltaf tekið bróðurpartinn af vinnu þeirra. En það er önnur umræða.

Að lokum langar mig að þakka þér, Bubbi, fyrir að höfða fyrst og fremst til samvisku fólks. Ég sá þig hvergi minnast á lokanir á netinu sem gleður mig, því við Píratar erum ekki á móti höfundarrétti, við erum bara svo miklu, miklu hlynntari frjálsu, opnu og lýðræðislegu interneti.

Gangi þér vel, félagi.

Posted in Uncategorized

Ég elska netið

Í kosningabaráttu Pírata varð til myndband sem fékk mig til að hlæja meira en nokkuð annað kosningatengt myndband hefur nokkurn tíman gert. Þórgnýr Thoroddsen birtist þar með úfið hár og tár í augum, hljóðlátur og með nokkur spjöld í höndunum. Drungaleg tónlist heyrðist og hann lét hvert spjaldið á fætur öðru detta á gólfið. Á spjöldunum stóð „til eru öfl sem vilja fragga netið/ég elska netið/ Píratar/ XÞ”. Þetta kann að virka sem furðulegur talsmáti fyrir suma. En þetta myndband talar beint til þeirra sem lifa og hrærast á internetinu, en það geri ég einmitt svo sannarlega.

Internetið er í dag orðið ein algengasta aðferð landsmanna til að eiga samskipti sín á milli. Það er varla þáttur til í lífi okkar sem internetið snertir ekki. En svo virðist sem að margir hverjir skilji ekki internetið. Það er kannski ósköp eðlilegt miðað við hversu risastórt fyrirbæri það er orðið. Fólk reynir að benda á líkingar á borð við að tilkoma internetsins sé álíka mikil bylting fyrir samfélagið eins og tilkoma ritmálsins eða tilkoma prentunar. Ég held að netið sé hins vegar stærri og mikilvægari uppfinning en ritmálið og prentun samanlagt.

Ég fékk fyrst að kynnast internetinu þegar fjölskyldan mín fékk fyrstu tölvuna árið 1995. Það var svakalega nýtískulegt að sjá texta og jafnvel ljósmyndir hlaðast inn á heimili okkar hægt og rólega í gegnum háværa 33.6 kbit/s módemið okkar. Síðan þá hefur netið gjörbreytt heiminum. Við sendum öll tölvupóst í staðinn fyrir bréfpóst. Tónlistariðnaðurinn er varla þekkjanlegur í samanburð við það þegar risastór plötufyrirtæki voru allsráðandi og við höfum aldrei haft jafn greiðan aðgang að fjölbreyttri og góðri tónlist. Það sama má í raun segja um kvikmyndaiðnaðinn og brátt um bókaiðnaðinn.

Framtíð netsins

Nú er ég ekki sá eini sem heldur því fram að við séum rétt búin að sjá toppinn af hinum risastóra ísjaka sem internetið á eftir að verða í náinni framtíð. Ég finn mig þar af leiðandi knúinn til þess að benda á nokkra hluti sem eiga eftir að gjörbreytast, rétt eins og skemmtanaiðnaðurinn, á svo svakalegan hátt að þessi fyrirbæri verða gjörsamlega óþekkjanleg eftir nokkur ár.

Ég hef oft talað um það að menntunarstofnanir eins og við þekkjum þær séu bráðum að deyja út. Hlutir eins og bekkir, grunnskólar, framhaldsskólar og jafnvel háskólar verða varla til í orðaforða okkar. Þetta er þegar byrjað með tilkomu vendikennslu, net- og spjaldtölvuvæðingu skólanna og svokallaðra Massive Open Online Courses.

Oft hef ég tekið þátt í rökræðum um það hvaða gjaldeyri sé sniðugast að nota; krónuna, evru eða kanadadollarann. Með tilkomu rafræna gjaldmiðla á borð við Bitcoin og Litecoin verður allt tal um hefbundna miðstýrða gjaldmiðla tilgangslaus enda munu rafrænir gjaldmiðlar bregðast við þörfum fólks í rauntíma í stað svokallaðra sérfræðinga seðlabanka.

Ég gat varla hamið mig af gleði þegar ég einn dag síðasta vetur rataði inn á síðu um Pírata og hvernig þeir ætluðu að vinna út frá rafrænu lýðræði. Rafrænt lýðræði mun breyta því hvernig stjórnmálamenn vinna og bregðast við kröfum fólks. Í stað þess að fólk fái einungis að hafa áhrif í gegnum kosningar á fjögurra ára fresti og stökum undirskrifasöfnunum mun netið tengja fólk beint inn í stjórnsýsluna.

Það er mikilvægt að skilja netið

Við erum þegar farin að sjá byrjunarstigin af þessum breytingum í dag, spurningin er bara hvenær við munum sjá Youtube og Twitter þessara fyrirbæra. Það veldur mér verulegum áhyggjum að fólk sem skilur ekki netið skuli geta búið til og fylgt eftir lögum um það. Ég var t.d. á málþingi um daginn um dómsmál gegn Pirate Bay, þar sem ég hlustaði á mjög þurran og leiðinlegan fyrirlestur og mér leið eins og ég væri allt í einu kominn inn í dómssal. Talað var um hversu mikilvægt það væri að stöðva brot á höfundarréttarlögum líkt og eru stunduð á Pirate Bay. Ég spurði lögfræðinginn hvort honum þætti ekki óeðlilegt að bæði dómari og saksóknari í þessu máli hefðu verið tengdir hópum sem vinna að því að sporna gegn brotum á höfundarréttarlögum. Spurningunni var illa svarað og svo virtist sem að hann skildi mig ekki.

Mér er illa við tal um að setja lögbann á heimasíður og að loka þeim. Pirate Bay málið ætti að vera búið að sýna það að slíkt er ekki hægt. Ég er nú ekki jafn mikill nörd og margir Píratar en ég kemst auðveldlega framhjá slíkum lokunum, ég ferðast bara á netinu til Bandaríkjanna þar sem síðurnar eru allavega eins og stendur ennþá opnar. Hvort sem fólki líkar það betur eða verr þá eru síður á borð við Pirate Bay og deildu.net samskiptatól. Ef við ætlum að setja lögbann á allar síður þar sem hægt er að deila höfundarréttarvörðu efni sín á milli þá ætla ég að biðja SMÁÍS að setja lögbann á Google, enda er engin síða í heiminum sem hjálpar fólki jafn vel að stunda slík brot.

Ef þú skilur ekki netið, hættu þá að fragga netið!

Posted in Uncategorized

Hver tilbiður í raun Mammon?

Í sumar skapaðist þó nokkur umræða um könnun sem WIN-Gallup gerði í 57 löndum þar sem Ísland er í níunda sæti yfir trúlausustu þjóðir heims. Viðbrögð Agnesar M. Sigurðardóttur Biskups við könnuninni í viðtali við RÚV voru svohljóðandi:

„Kannski gleymum við Guði, við förum að tilbiðja Mammon, það kann að vera að það sé ein skýringin. Og svo er hin skýringin sú að fátæktin er ekki sjálfvalin. Hún er vegna aðstæðna í þessum löndum þar sem þetta fólk býr. Og þá leitar það að betra lífi og finnur betra líf í trúnni.“.

Biskup vísar hér til þess að Mammon er goðleg birtingarmynd auðs og græðgi í Nýja Testamentinu. Svo virðist sem biskup telji að því trúlausari sem þú ert, því ríkari og gráðugri ert þú. Flestir trúleysingjar sem ég rekst á eru reyndar bláfátækir námsmenn með takmarkaðan metnað í að verða auðkýfingar. Í ljósi birtingar fjárlagafrumvarps núverandi ríkisstjórnar í fyrradag fór ég að velta fyrir mér ýmsu í þessu samhengi.

Fjárlagafrumvarp næsta árs var birt klukkan 16:00 í fyrradag. Síðan þá hef ég verið að glugga í það við hvert tækifæri sem mér gefst, þ.e.a.s. þegar ég er ekki að læra fyrir skólann. Það er ýmislegt í þessu frumvarpi sem er neikvætt og ég gæti skrifað um það út í hið óendanlega, en í þessum pistli ætla ég að einbeita mér sérstaklega að lið sem nefnist ‚Kirkjumál‘ og má finna á blaðsíðu 361.

Ólíkt því sem birt hefur verið í fjölmiðlum, svo sem á vefmiðli Morgunblaðsins, þá eru framlög til þjóðkirkjunnar ekki takmörkuð við 1.474 milljónir króna, en í frumvarpinu er framlögum til þjóðkirkjunnar skipt niður í eftirfarandi flokka; þjóðkirkju, kirkjumálasjóð, kristnisjóð, kirkjugarða, sóknargjöld og jöfnunarsjóð sókna. Ef gert er ráð fyrir því að allir þessir liðir fari í að fjármagna starfsemi þjóðkirkjunnar og umsýslu eigna hennar, þá mun sú starfsemi kosta ríkiskassann 5.182,9 milljónir króna næsta árið.

Laun biskups árið 2012 voru 1,109 milljónir króna samkvæmt tekjublaði Frjálsar verslunar. Grunnlaun presta eru samkvæmt kjararáði 473.551 krónur. Það má leiða hugann að því hvort kirkjan þyrfti að fara í söfnunarátök fyrir tækjakaupum Landspítalans ef þessar sláandi tölur yrðu lækkaðar. Svo má velta því fyrir sér, kæri biskup, hver er það nú sem raunverulega tilbiður Mammon?

Þjóðkirkjan fær þessi auknu framlög þrátt fyrir að hlutfall Íslendinga sem eru skráðir meðlimir þjóðkirkjunnar hafi lækkað stöðugt undanfarin ár og sífellt færri nýta sér þjónustu kirkjunnar. Þó undantekningar séu vissulega til staðar sækja fæstir Íslendingar kirkju nema þegar um skírnir, brúðkaup eða jarðarfarir er að ræða.

Hinn almenni borgari getur sem betur fer gert eitthvað í þessum málum. Skrái fólk sig úr þjóðkirkjunni fara um 9.000 kr. á mann á ári beint í ríkiskassann. Þar með eflir það fólk mikilvægari verkefni ríksins. Hins vegar greiðir hver Íslendingur þjóðkirkjunni samt sem áður um 11.500 kr. á næsta ári algjörlega óháð sóknargjöldum. Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna gerði athugasemd við það að íslenska ríkið „setji kirkjuskatt á borgara, óháð því hvort þeir séu meðlimir í trúfélögum eða ekki.“.

Árið er 2013 og það er löngu kominn tími til þess að við setjum heilbrigði og menntun hærra á forgangslista en trúarstofnun sem einungis hluti af þjóðinni tilheyrir. Hvernig getur það mögulega verið réttlætanlegt að það þurfi að hækka framlög til þjóðkirkjunnar til að leiðrétta niðurskurð fyrri ára þegar heilbrigðis- og menntunarkerfin horfa upp á enn frekari niðurskurð?

Sjáið sóma ykkar, frú biskup og aðrir starfsmenn þjóðkirkjunnar, í að afþakka þessa hækkun. Látum peningana renna þangað sem þeirra er raunverulega þörf.

Posted in Uncategorized

80% allrar raforku á Íslandi fer í álver

http://eyjan.pressan.is/frettir/2013/09/30/rikisstjornin-aetlar-ad-gera-allt-sem-i-hennar-valdi-stendur-til-ad-reisa-alver-i-helguvik/

“””Skýr vilji er meðal allra hlutaðeigandi aðila til að ljúka framkvæmdum við álver í Helguvík og ætlar ríkisstjórnin að „gera allt sem í hennar valdi stendur“ svo að verkefnið verði að veruleika.””” — Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðarráðherra

Fyrirgefið, en ertu ALVEG viss um að allir hlutaðeigandi – eins og íslensk þjóð – séu tilbúnir til þess að reka annað álver. Nú þegar nota álver næstum 80% af allri raforku sem Ísland framleiðir (samkvæmt áliðnaðinum sjálfum: http://www.samal.is/media/almennt/Alidnadurinn-spurningar-og-svor.pdf).

ÁTTATÍU PRÓSENT! allrar raforku á Íslandi fer í ál.

Mér er algerlega (afsakið orðbragðið) skítsama hvort ‘allir hlutaðeigandi’ vilji endilega þetta álver. Það er slæm hugmynd sama hvað að auka hlutfallslega raforkunotkun áliðnaðar á Íslandi. Það eitt ætti að vera ástæða fyrir því að segja nei – og af nægum öðrum ástæðum er að taka, til dæmis spurning um hvort hægt sé að fá orku fyrir þetta álver.

Hlutaðeigandi, þið eruð klikkuð. Vinsamlega hættið því.