Ljóðin á 101

Nú varð ég sko aldeilis hlessa.

Vér 101 rotturnar könnumst sjálfsagt flestar við herramann sem stendur iðulega við gatnamót Austurstrætis og Pósthússtrætis með ljóðabækur og smásögur til sölu.

Nú gekk ég framhjá honum, enn og aftur, á leið minni á skrifstofuna, varpaði til hans kveðju eins og venjulega og hann spurði, eins og vanalega, hvort ég vildi kaupa ljóð eða smásögur. Kannski eru það áhrifin af því að glugga í ljóðabók frá Mazen Maarouf að ég hugsaði með mér; jú fjandakornið, ég splæsi á mig einni. Maður er nú ekki alvöru 101 rotta ef maður hefur aldrei keypt ljóðabók af manni á víðavangi.

Nema hvað, ég versla mér þessa líka ágætu ljóðabók sem heitir “TÍMARÁKIR” og er árituð af sjálfum meistaranum, Bjarna Bernharði. Ég opna bókina og sé “copyleft” merkið, en það ku vera “copyright” merkið á hvolfi og fyrir neðan stendur:

“Hugtakið Copyleft á rætur sínar að rekja til forritunar á opnum kóða, þar sem hver sá sem notfærir sér kóða eftir annan skuldbindur sig til að gefa út sína eigin útfærslu (endurgjaldslaust) sem opinn kóða, þ.e.a.s. gerir nýja kóðann aðgengilegan fyrir aðra (á netinu).

Hafir þú eignast þessa bók með löglegum hætti er þér frjálst að vitna í texta bókarinnar rafrænt, dreifa á netinu eða prenta til eigin nota, svo lengi sem tilvitnanirnar notist ekki í ábataskyni. Ef þú prentar, þá taka samningar Fjölís um endurgjald fyrir ljósritun tafarlaust gildi. Vitnir þú í bókina, og beitir sköpun, þá skuldbindur þú þig til þess að gefa út eigin verk frjáls til tilvitnunar, samkvæmt skilmálum Copyleft.”

Eftir það kemur síðan dæmi um texta sem maður gæti notað við birtingu eigin efnis.

Það er mér því sérstök ánægja að endurbirta hér (rafrænt) eitt af ljóðum þessa áhugaverða manns og vil ég hvetja fólk til að gefa honum gaum, næst þegar gengið er hjá.

Bjarni Berðharður tekur við.

= Ástin =

Ástin
sem býr í helli sínum
æðrast ekki

þótt skammdegismyrkrið
hellist yfir

tendrar ljósastiku hjartans
og bíður vorsins.

Posted in Uncategorized

Hvers virði er list ef enginn má sjá né heyra?

Það hefur valdið mörgum hugarangri hver staða Pírata er gagnvart höfundarétti og listamönnum. Það er rétt, að Pírata hreyfingin var stofnuð á sama tíma og allt írafárið var í kringum The Pirate Bay árið 2006 en til þess að gera langa sögu stutta, þá voru stofnendur the Pirate Bay sakfelldir fyrir að stela verkum að andvirði tugi milljóna dollara og sæta fangelsisvistar fyrir það að auðvelda fólki að deila skrám sín á milli. Maður spyr sig hvar réttlætið liggi í þessu máli, en það er önnur saga sem verður látið liggja milli hluta hér.

Hinsvegar, þá er þetta bara dæmi um mun stærra vandmál, um samskipti stórra fyrirtækja sem einoka markaðinn þegar það kemur að afþreyingarefni, efnahagsleg hugmyndirnar um “copyright” – er stafrænt afrit af efni jafn mikils virði og eintak á geisladisk? Hver á að græða og hvernig? Á höfundurinn ævarandi réttindi til þess að græða á verkum sínum, eða eru það risastór plötufyrirtæki eins og Universal studios sem bera þessi réttindi? Af hverju er verið að gera ömmur og afa, unglinga og hinn meðal-Jón að glæpamönnum fyrir það eitt að nálgast afþreyingarefni?

Eru Píratar að styðja það að sjá til þess að arðræna listamenn lífsviðurværi sínu með því að stuðla að því að allir fái aðgang að ókeypis efni, þegar þeim sýnist, hvernig sem þeim sýnist?Þetta eru góðar spurningar, en til þess að skilja svörin við þessum spurningum, þá þarf að athuga heildarmyndina. Heildarmyndin inniheldur sögu höfundaréttar, afritunarréttar og eignarréttar og heimspekinnar sem liggur þar að baki, en til þess að gera þetta allt sem læsilegast þá mun ég ekki fara út í smáatriði hér.

Finnst okkur í lagi að dreifa efni og sækja efni í óþökk höfundar? Í sjálfu sér þá finnst okkur það ekki í lagi. Við teljum að höfundur eigi að hafa stjórn á verkum sínum, hvernig þau eru gefin út og hvenær. Hinsvegar, þá er pottur brotinn í núverandi höfunarréttarkerfi. Hverjir eru það sem hafa völdin á því hvort að efni sé gefið út eða ekki? Útgáfufyrirtækin. Réttur höfundarins eru lítil þegar hann hefur skrifað undir útgáfusamning. Þetta hefur mikil áhrif á til dæmis útbreiðslu fræðigreina, en fræðimenn sem skrifa í lærð rit þurfa oft að afsala sér ýmsum réttindum, en til að mynda þá hafa þeir ekki rétt á því að dreifa eintökum af greininni sinni til nemenda sinna, þýða greinarnar yfir á önnur tunugmál eða breyta, án þess að þeir séu að brjóta höfundarréttarlög.

Píratar eru ekki ókeypisflokkur. Við viljum færa völdin frá stórum útgáfufyrirtækjum sem hafa sveltandi listamenn og fræðimen í sínum klóm og bjóða upp á fjölbreyttari höfundarréttarleyfi. Creative commons er dæmi um það, en það er annar valkostur sem höfundar geta nýtt sér við útgáfu, annað en hinn hefðbundni höfundaréttur sem til að mynda áskilar einkaleyfi til innheimtu gjalds á útgefnu efni til collective rights mannagement companies.

Viljum við að höfundar geti dreift verkum sínum eins og þeim lystir? Já. Það þýðir líka að við styðjum þann valkost að höfundar geti takmarkað dreifingu á efninu, en það er þá á þeirra ábyrgð. Að sama skapi, þá er það kannski svo að höfundar vilji deila verkum sínum með fleira fólki, en vegna útgáfusamningsins sem skrifaður var undir, þá er það bannað. Við viljum að listamaðurinn fái að velja sér það útgáfuleyfi sem honum hentar hverju sinni, og stundum já, þá mun það þýða að hægt verði að hlaða niður verkum ókeypis.

Við þurfum að spurja okkur þeirra spurninga, til hvers er list? Er hún til þess að stórfyrirtæki nái að græða? Er það til þess að halda samtökum myndrétthafa gangandi? Er það til þess að sjá til þess að allir þessir lögmenn fái vinnu við það að lögsækja saklausa einstaklinga fyrir það að hlaða niður einhverri b-mynd?

List sem enginn má sjá, fræði sem enginn má læra og tónlist sem enginn má heyra – er það einhvers virði?

 

Posted in Uncategorized