Trúarhávaði

Eitt af því mörgu sem andstæðingar moskubygginga bera stundum fyrir sig er sú truflun sem hlýst af bænaturnum, enda heyrist úr þeim hávært garg fimm sinnum á dag. Þetta garg, eða öllu heldur þessi söngur, er misjafnlega fluttur. Sumir hafa bara ekki mjög góða rödd fyrir þennan sið, sem kallaður er Adhan. Aðrir leggja sig ekki mikið fram, en Muezzininn – sá sem er ábyrgur fyrir bænakallinu – er yfirleitt valinn í hlutverkið vegna stundvísis og sönghæfileika. Það sem er sungið er misjafnt milli trúarafbrigða, en byrjar yfirleitt á einhverju á borð við: “Guð er bestur. Ég ber þess vitni að enginn annar en Guð er verðugur tilbeiðslu,” og svo framvegis – eitthvað sem Kristið fólk ætti alveg að geta sætt sig við (þótt það sem komi næst á eftir falli þeim hugsanlega minna í geð).

Þegar þetta er skrifað heyi ég kirkjuklukkur óma fyrir utan gluggann minn. Nokkrar kirkjur eru að sammælast um það að nú sé klukkan níu um morgun, og því beri mér að hlusta hamaganginn í þeim. Vandinn er sá að klukkan er ekki níu um morguninn lengur, heldur átján mínútur yfir, og hávaðinn hefur staðið yfir í tæpan hálftíma. Flestar kirkjurnar í hverfinu þar sem ég er í augnablikinu eru með margar litlar og hĺjómfagrar bjöllur sem taka sig saman um að framkalla einhverskonar ljúft en óskiljanlegt lag. Kirkjan sem er næst rúminu sem ég var að reyna að sofa í er hinsvegar bara með tvær stórar hvellar bjöllur sem eru slegnar á rétt tæplega sekúndufresti, nú í rúmlega tíu mínútur.

Misjafn er trúarhávaðinn. Á ýmsum stöðum á Balkanskaganum hleypa kirkjur af háværum flugeldum í byrjun hvers dags – það er meira pirrandi en bjöllurnar, ekki síst þegar maður hefur ekki kynnst þeim sið áður og fer að spyrja sig hvurn andskotann er í gangi. Í Kostaríka var gjarnan hleypt af einu fallbyssuskoti klukkan sjö hvern morgun, nægilega nálægt staðnum þar sem ég gisti til að ég vaknaði með fælum þegar byggingin tók að hristast og ég taldi mig vera fórnarlamb hryðjuverka. Ekki bætti úr skák að Barack Obama var í öðru hóteli aðeins ofar í götunni fyrsta sinn sem ég vaknaði við þetta, og hélt ég í dágóða stund að nú yrðu ferðaplönin mín eitthvað flóknari.

Sumsstaðar virðast bjöllurnar og það allt hafa þann tilgang að gera fólk meðvitað um gang tímans eða láta vita af því að trúarsamkoma er að fara að hefjast, en annarsstaðar virðast þær eingöngu ætla að tryggja að enginn geti sofið út.

Hafandi vaknað við trúarhávaða ansi víða ætla ég að fá að fullyrða aðeins: Það er enginn trúarhávaði sem ég hef kynnst skárri en vel sunginn Adhan. Þegar ég vann í Afganistan var moska handan götunnar frá dvalarstað mínum, og ég vaknaði klukkan fimm hvern morgunn við söng – hann byrjaði rólega og tónaði sig upp, “Allah-hu akhbar!” Svo byrjaði hann aftur lágt og tónaði dásamlega: “Ash-hadu an-la ilaha illa llah”. Sunni múslimar eru þó ekki alveg lausir við húmorinn, því eitt af því sem er sungið í fyrsta bænakalli dagsins er “bænir eru betri en svefn”. Ég hlustaði alltaf á þessi spekingslegu orð, flutt á Arabísku af manni sem kunni orðin utanbókar en hafði jafn lítinn skilning á þeim og ég, og snéri mér svo á hina hliðina og sofnaði aftur. Það er brjálæðislega þægilegt að vakna við bænaköll.

Trúarhávaði er fylgifiskur margra trúarbragða. Sem trúlaus maður hef ég enga sérstaka löngun til að heyra hindurvitnin boðuð með bjöllum, fallbyssum, sprengingum og gargi, en sem íbúi í samfélagi þar sem fólk er misjafnt og fjölbreytt finnst mér mikilvægt að allir fái að boða þau hindurvitni sem þeim langar til. Og sem gaur sem finnst gott að sofa út á morgnanna – þó það sé ekki lengur en til níu – þá vil ég miklu frekar mínaretur og fallega syngjandi Muezzina en klingjandi klukkur.

Nú er klukkan orðin tíu hér. Bjöllurnar eru ekki enn hættar. Ég fæ víst ekkert að sofa út í dag.

Posted in Uncategorized

Hagsmunafrat og heigulsháttur

(Þessi grein birtist upprunalega sem kjallaragrein í DV föstudaginn 19. júlí 2013)

Fyrir nokkrum vikum lagði einn maður líf sitt að veði til að upplýsa þig, lesandi góður, um að þú sért í hópi um tveggja milljarða manna sem ríkisstjórn Bandaríkjanna fylgist með. Í kjölfarið hefur komið í ljós að fjölmörg önnur ríki, þar á meðal Bretland, hafa stundað sömu iðju. Þetta stórfellda eftirlit með almenningi, fólki eins og þér sem hefur enga glæpi framið, er rökstutt með því að verið sé að verja lýðræðið fyrir hryðjuverkamönnum.

Á þessum vikum hefur umræðan í fjölmiðlum farið að snúast um allt annað en þessi alvarlegu mannréttindabrot. Það þykir til dæmis miklu áhugaverðara að segja daglegar fréttir af því að Edward Snowden sé enn fastur á flugvelli í Moskvu. Það að kærastan hans dansi súludans er orðið almennari vitneskja en að NSA sé með dragnót á persónuupplýsingum okkar.

Tiltölulega lítið er fjallað um í fjölmiðlum vestanhafs sem og í Evrópu, að flugvél Bólivíuforseta hafi verið neydd til að lenda í Vínarborg og sæta leit, í trassi við Vínarsáttmálann, vegna gruns um að Snowden væri þar um borð. Lítið er talað um að hann sé fastur á flugvellinum að hluta til vegna þess að hann fær ekki ferðafrelsis síns notið – hann er svo gott sem í stofufangelsi, meðan Evrópulönd taka þátt í farsanum.

Evrópa já! Evrópuþingið kom sér saman um að gera heimtingar á rannsókn á eftirliti Bandaríkjamanna á stofnunum Evrópusambandsins, og að setja tímabundið stopp á að bandarísk fyrirtæki versli frjálslega með persónuupplýsingar Evrópubúa meðan rannsókn á eðli og umfangi eftirlitsins stæði. En nei, ríkisstjórnir Svíþjóðar og Bretlands beittu neitunarvaldi sínu til að koma í veg fyrir að rannsókn væri gerð.

Það verður að teljast svolítið sérstakt þegar tvær ríkisstjórnir – sem vitað er til að deili mikið af hernaðarupplýsingum með Bandaríjunum – ganga að því er virðist gegn eigin hagsmunum. Þetta, og það að Frakkland, Ítalía, Portúgal og Austurríki hafi tekið höndum saman um að brjóta Vínarsáttmálann, ætti að vera forsíðufréttin á öllum fjölmiðlum alla daga þar til að Edward Snowden er kominn í var. Já, þetta er flókið. Já, þetta er minna krassandi en hvað Sigmundur Davíð át í morgunmat. En persónufriðhelgi þriðjungs mannkynsins er að veði!

Ráðamenn allsstaðar eiga að vera þráspurðir: Hvers vegna brutuð þið Vínarsáttmálann? Hvers vegna komuð þið í veg fyrir rannsókn? Hvers vegna hafa Bandaríkin ekki verið beitt viðskiptaþvingunum? Hvers vegna hefur ekki verið kallaður saman neyðarfundur NATÓ þingsins? Hvað um Sameinuðu Þjóðirnar, með sína aðalritarastrengjabrúðu? Hvers vegna neituðuð þið að leyfa umræður um ríkisborgararétt fyrir Snowden á Alþingi? Hvers vegna eruð þið svona miklir andskotans aumingjar?

Það er eins og stjórnvöld í Evópu – þar með talið á Íslandi – hafi fyrst og fremst hagsmuni af því að ganga erinda Bandaríkjastjórnar. Þessi heigulsháttur kemur niður á okkur almennu borgurunum.

Hann er frekar rosalegur, kjánahrollurinn sem gengur um mann þegar maður les fréttir af viðbrögðum ráðamanna í þessu máli öllu. En nú er það þitt, lesandi góður, að gera það sem fjölmiðlar út um allan heim hafa svikist undan. Það er nefnilega þannig að í lok dags er ekki hægt að kvarta bara yfir heigulhætti stjórnvalda og sinnuleysi fjölmiðla. Valdið liggur hjá almenningi, og það er almenningur sem verður að taka það á sig að fylla pósthólf stjórnarráðsins af fyrirspurnum, láta skiptiborð framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins bráðna undan álagi, láta faxtækið í bandaríska sendiráðinu tísta og garga, og neyða með einum eða öðrum hætti allar forsetaflugvélar til að nauðlenda í Vínarborg til að sæta leit.

Það er okkar, almennings, að sjá til þess að jafnvel hinir mestu heiglar viti fyrir hverja þeir eru að vinna, og að við munum ekki líða það að verið sé að ganga gegn hagsmunum okkar í þágu stórveldis.

Posted in Uncategorized

Íbúðarlánasjóður og illa unnin rannsóknarskýrsla

Út er komið mikið plagg um íslenska húsnæðislánakerfið, rannsóknarskýrsla um hvað varð um peninga sem settir voru í húsnæðislán. Það kemur okkur öllum við því ef rosalegt tap er á húsnæðislánakerfinu þá lendir það tap á okkur, almenningi á Íslandi. Það er nefnilega þannig að þó að Íbúðalánasjóður fái ekki beint peninga frá ríkissjóði heldur sæki sér peninga sem hann endurlánar til húsnæðiskaupenda og byggenda þá  eru skuldabréf Íbúðarlánasjóðs  með ríkisábyrgð. Það er margt gott í þessari miklu skýrslu og það er farið vel ofan í ýmsa hluti t.d. hvernig Íbúðalánasjóður breyttist úr að vera félagslegt íbúðarlánakerfi sem gerði almenningi kleift að eignast húsnæði yfir að spila með í tjúlluðum dansi fjármálagjörninga.

Hvernig Íbúðalánasjóður varð á tímabili að einhvers konar fjármálastofnun sem yfirfylltist af fé vegna uppgreiðslu húsnæðislána af því að bankarnir sem óðu í lánsfé byrjuðu að yfirtrompa Íbúðarlánasjóð og fólk skuldbreytti,  greiddi upp húsnæðislánið hjá Íls og tók bankalán í staðinn. Það sem er magnaðast er að Íbúðarlánasjóður sem var yfirfullur af peningum vegna þessara uppgreiðslna hélt áfram að taka peninga að láni hjá erlendum fjárfestum og það sem er grjótmagnað er að á tímabili þá lánaði Íbúðarlánasjóður bönkunum peningahrúgurnar sínar svo bankarnir gætu boðið ennþá poppaðri húsnæðislán.  Þannig gerðist það að Íbúðarlánasjóður varð að vogunarsjóði og starfsemi hans og orka fór mikið í að gambla með peninga sem hann tók að láni og við almenningur á Íslandi erum ábyrg fyrir. Það fór illa fyrir Íbúðarlánasjóði en það fór ennþá verr fyrir bönkunum sem hann var að lána fé,  bönkunum sem reyndust froðumaskínur sem blésu  eingöngu sýndarverðmætum sem glampaði og glitraði á þegar þau svifu upp en urðu að engu þegar froðan hjaðnaði.

Saga Fjármálahrunsins hérna á Íslandi eða í hinum vestræna heimi kringum okkur verður ekki sögð nema með því að skoða íbúðalán. Það eru einmitt íbúðarlánin, undirmálslánin bandarísku sem eru af mörgum talin orsakavaldur Hrunsins, að spunnin hafi verið upp mikil fjármálaflækja því fjármálastofnanir lifa og hrærast í því að búa til peninga úr skuldum. Þetta er svo sem allt í lagi meðan þú getur búið til meiri og meiri skuldir en ef einhvern tíma kemur að skuldadögum og þegar það rennur upp fyrir öllum  að skuldarar geta ekki borgað og lánin hljóta að fara í vanskil  eins og gerðist á ameríska undirmálalánamarkaðinum þá hjaðnar froðan með leifturhraða þegar skuldabréfavafningarnir verða að engu,  Atburðarásinni er lýst í Wikipedía greininni:

“Bandarísk undirmálslán setti af stað atburði sem leiddu til fjármálakreppunnar og síðar samdráttar sem hófst árið 2008. Það einkenndist af auknum vanskilum og svipting veðþola á rétti til eignar sinnar vegna vanefnda á veðskuld, það að ganga að veði. Það síðar leiddi til falls á hlutabréfamörkuðum og lánalínur lokuðust. Nokkur helstu fjármálafyrirtæki voru að hruni komin í september 2008, með verulega röskun á streymi af lánsfé til fyrirtækja og neytenda og upphafs á alvarlegum alþjóðlegum samdrætti. Það voru þó margar ástæður fyrir kreppunni sem myndaðist í kjölfarið. Sérfræðingar hafa deilt sökinni milli lánastofnana, eftirlitsstofnana, matsfyrirtækja, ríkisstjórnar og neytenda, meðal annarra. Meðal annars var ein orsök, hækkun á undirmálslánum. Erlend fjármálaleg skilyrði versnuðu til muna vegna umhleypinga á erlendum fjármála- og peningamörkuðum. Óróinn sem einkenndi alþjóðafjármálamarkaði um þær mundir átti sér að nokkru leyti rætur í vaxandi vanskilum á bandarískum húsnæðislánamarkaði, þótt upphaf vandans eigi sér dýpri rætur í efnahagsstefnu helstu ríkja heims og ójafnvægi í heimsbúskapnum. Um mitt ár 2005 tók að gæta aukinna vanskila í Bandaríkjunum sem í fyrstu voru einskorðuð við ákveðinn flokk húsnæðislána, þessi umtöluðu undirmálslán, sem veitt voru húsnæðiskaup endum með rýrt lánshæfi. Lækkun húsnæðisverðs og hækkandi greiðslu byrði lántakenda, einkum vegna endurskoðunarákvæða á vaxtaálagi sem voru algeng á þessum tegundum lána, leiddi til þess að vandinn stigmagnaðist. Stigvaxandi vanskil leiddu til þess að markaðsverð skuldabréfavafninga sem tengdust undirmálslánum tók að falla og dró úr seljanleika þeirra” Sjá hérna Wikipepia grein um undirmálslán  (enska Subprime lending)

Ég tel reyndar að það sé ekki rétt að undirmálslánin hafi verið orsakavaldur að fjármálakreppunni og hugsa að þegar tímar líða fram þá munum við sjá að panik vegna undirmálslána var frekar birtingarmynd hennar og þetta var kerfi sem fyrr eða síðar hlaut að kafna í eigin spýju, það bara einfaldlega gekk ekki upp.

Það þarf því engan að undra að eitthvað hafi gengið á hér á landi varðandi húsnæðislánin. Ég reyndi að lesa hinn mikla doðrant Rannsóknarnefndarinnar og skrifaði úrdrátt úr 2. kafla skýrslunnar í wikipedia grein þar sem ég reyndi að segja á eins skýran og einfaldan og ópólitískan hátt og mér var unnt frá niðurstöðum skýrslunnar, sjá þennan úrdrátt hérna:

Wikipedia greinin um skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð

En það er mikið að þessari skýrslu. Það er ekki allt að og ágætt að tínd hafi verið til þessi gögn og gerð þessi úttekt. En þetta er þröngsýn og illa unnin skýrsla með bjöguðu markaðshyggjusjónarhorni. Skýrslan er þröngsýn vegna þess að ég merki enga tilraun hjá skýrsluhöfundum að setja Íbúðarlánasjóð í tengingu við umheiminn og hvað þar var að gerast og hvað var að gerast í íslensku samfélagi á þessum tíma. Skýrsluhöfundar virðast einbeittir í þröngri flokkspólitískri sýn, í sinni leit að sukki og spillingu. Þetta er kannski of hart orðað hjá mér og endurspeglar frekar það sem er velt upp í fjölmiðlum sem vissulega eru bara að leita að spillingu og sjokkfréttum en ekki að reyna að skilja, ég hef ekki haft tök á að lesa nema fyrstu kaflana ennþá og reiði mig  í mörgum atriðum á endursögn fjölmiðla um efni skýrslunnar

Skýrslan er með verulegri markaðshyggjubjögun og Ögmundur Jónasson bendir á hve mikil markaðsslagsíða er á skýrslunni og hve ógagnrýnin hún er á fjármálakerfið á þeim tíma sem til skoðunar eru. Hann segir;

Það sem ég hef hins vegar gagnrýnt í starfi rannsóknarnefndarinnar er hve ógagnrýnin hún virðist vera á fjármálakerfið á þeim tíma sem rannsóknin tekur til og hve ákaft hún tekur undir gamalkunnar kröfur um einkavæðingu húsnæðiskerfisins: „Rannsóknarnefndin skoðaði 21 úttekt sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) og Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) gerðu á íslensku efnahagslífi á árunum 1999–2012 og þær athugasemdir sem þar koma fram  um húsnæðisstefnu stjórnvalda. Íbúðalánasjóður hefur verið að meira eða minna leyti í brennidepli í þessum úttektum stóran hluta tímabilsins. OECD hefur hvatt til einkavæðingar húsnæðislánveitinga ríkisins síðan á dögum Húsnæðisstofnunar.“

Rannsóknarnefndin tekur undir með einkavæðingarkröfu þessara aðila – sem eru ekki nýjar af nálinni, hvorki gagnvart húsnæðiskerfinu né heilbrigðisþjónustunni – og varar jafnframt  við „afskiptum stjórnmálamanna“ af húsnæðismálum. Hneykslast er á því að félagslegt kerfi sem lýtur stjórn lýðræðislega kjörinna aðila, skuli „veita almenna lánafyrirgreiðslu á niðurgreiddum kjörum í samkeppni við einkarekna aðila.“ Grundvallartónninn í röksemdarfærslu rannsóknarnefndarinnar er sá að Íbúðalánasjóður hefði ekki átt að vera atkvæðamikill á íbúðalánamarkaði eftir að ljóst varð að  „einkaaðilar höfðu getu og vilja“ til að sinna því verkefni. Í þessu samhengi er Íbúðalánasjóður sakaður um óeðlilega „markaðssókn“ gegn bönkunum. „Raunar er ekki að sjá nein rök fyrir aðkomu hins opinbera að almennum lánveitingum á húsnæðismarkaði eftir að vaxtafrelsi var komið á, nútímavæðingu fjármagnsmarkaða lauk og ríkisbankarnir seldir.“

Það sem vantar í rann­sóknar­skýrsluna Pistill Ögmundar Jónassonar 5. júlí

Hér bendi fólki á að lesa bloggpistil Ögmundar, hann orðar vel þá tilfinningu sem ég fékk við að lesa skýrsluna. Ögmundur hefur manna bestu yfirsýn yfir húsnæðishrun á Íslandi, hann tilheyrði Sigtúnshópnum svokallaða og byrjaði raunar sín stjórnmálaafskipti þar að ég best veit, það var einmitt tími sem líkist nútímanum, þar var snögglega í hamslausri óðaverðbólgu  kippt fótunum undan öllu ungu fólki á Íslandi sem reyndi að koma sér upp húsnæði, lánin vísitölutryggðu stökkbeyttust. Verðbólgan hjaðnaði á Íslandi á sama tíma og það fólk frystist í klakaböndum íbúðarskulda en það er í fullri samhljóman við það sem hagfræðingar eins og Milton Friedman höfðu spáð  – að niðurlög verðbólgu næðist þá fyrst þegar nógu margir hefðu hag af því að það væri engin verðbólga. Gengi myntar byggist á væntingum og á tímum óðaverðbólgunnar var það ekki ríkisstjórnin sem felldi gengið, gengið var löngu fallið þegar fallið var innsiglað í opinberri gegnisskráningu. En stjórnmálamenn hafa barið sér á brjóst og þóst hafa búið til fyrirbrigði sem þeir kalla “Þjóðarsátt” og með þeirra tilstuðlan hafi verðbólgan hamist. Ögmundur lítur yfir sviðið frá sjónarhóli almennings, þess sem tekur húsnæðislán. Það gerir rannsóknarskýrslan ekki. Hún er skrifuð eins og hún hafi verið skrifuð af “Greiningardeild bankanna” þessu sama apparati og fóðraði okkur á þessum árum á öllu sem við vissum um þennan undarlega fjármálamarkað.

En það er ekki nóg með að skýrslan sé þröngsýn  og bjöguð og lítt greinandi fyrir sinn samtíma og sjái ekki stóru línurnar, hún er líka með nokkrum áberandi villum að mér virðist gerðum í því augnamiði að styðja við hið pólitíska sjónarhorn skýrslunnar. Ein villan er t.d. að halda því fram að Hallur Magnússon hafi verið ráðinn án auglýsingar í eitthvað fínt embætti. Það hafa margir gúglað og fundið út á einfaldan hátt að þetta stemmir alls ekki, staðan sem Hallur fékk var auglýst. Það er nú reyndar lenskan í íslenskum stofnunum að margir eru pólitísk ráðnir og búnar til stöður sem eru auglýstar á þann hátt og á þeim tíma að það er hægt að lesa nafn þess sem fá mun stöðuna milli línanna. Þetta er vissulega mein á Íslandi en ekki mein Íbúðarlánasjóðs fremur en annarra ríkisstofnanna. Það er líka mein á Íslandi hvernig kosningakerfið er og hvo oft fámennar stjórnmálahreyfingar eða stjórnmálamenn sem eru í þjónustu og gæta hagsmuna eignaaðals og stórfyrirtækja geta komist í oddaaðstöðu og ráðið miklu m.a. mannaráðningum þrátt fyrir lítinn samhljóm hjá almenningi.

Það eru sum atriði í skýrslunni sem mér finnst beinlínis hlægileg. Eitt er atriðið um litla menntun þeirra sem voru að vasast í húsnæðismálakerfinu með sína Samvinnuskólamenntun eða hvað það var. Þetta var auðvitað skrýtið á þeim tíma þegar Íbúðarlánasjóður fór í þetta fjármálagambl og fór að taka lán og lána bönkum. Það þarf meiri menntun en Samvinnuskólapróf til að skilja afleiðusamningaundirmálsvafningaflétturnar.  En þá fór ég að hugsa um alla íslensku bankanna sem allir voru stútfullir af gríðarlega menntuðu fólki í alls konar fjárglæringafræðum. Hvað hjálpaði öll þessi menntun okkur til að fá faglega og góða banka?  Stóðu bankastjórnir föllnu bankanna sig betur eftir því hve mikla menntun bankaráðsmennirnir höfðu? Ég vil taka fram að ég til að þetta sé góð ábending um menntunarskort en menntun ein og sér er engin trygging fyrir árangri hvorki í opinberra stofnana né stjórnmálum. En ég vildi óska þess að það væri framsýnt og víðsýnt og heiðarlegt fólk, réttsýnt, menntað og með nægilega þekkingu sem velst til slíkra starfa. Ég hugsa að það sé borin von, það er þannig í stjórnmálum í dag að þau hygla lýðskrumurum og svindlurum, þeim sem lofa öllu fögru og vinna fyrir þann sem best borgar. Það fer of mikið af tíma stjórnmálamanna í lýðskrum, tíma sem væri betur varið í að afla sér þekkingar og reyna að sjá inn í framtíðina.

Svo er afar. afar ankannalegt í skýrslunni að þar sé mikil gagnrýni á lán Íbúðarlánasjóðs til fyrirtækja eins og Búmanna. Þetta er vel sett fram og vel rökstytt. Svona var unnið og svona er ennþá unnið. Það eru fyrirtæki í íbúðarlánaútgerð, byggingaraðilar sem byggja ekki af því það sé nein eftirspurn eftir íbúðum og neinir möguleikar til að selja íbúðir. Byggja bara til að “hafa eitthvað að gera fyrir menn og vélar” og taka lán í nafni einhvers félags. Félags sem allir vita að hefur engan rekstrargrundvöll. Það þarf bara að slá inn einni excel formúlu til að sjá það. Þannig er byggt brjálæðislega í dag, íbúðir fyrir námsmenn, íbúðir fyrir aldraða etc, etc. Íbúðir byggðar af félögum sem vitað er að fari í þrot, svo kaupir annað félag (gjarnan tengt sömu aðilum) þrotabúseignirnar á miklu lægra verði. Þorp á Íslandi eru full af verkamannabústaðarblokkum sem voru byggðar fyrir auðfengið lánsfé og eru núna tómar, illseljanlegar eða orðnar sumarbústaðaíbúðir. Þetta er ekkert nýtt og gott að það sé tekið á þessu, þessu sem við sjáum gerast líka í dag. En það er afleitt í rannsóknarskýrslunni að taka  félagið Búmenn sem dæmi. Það var vissulega svona dæmi en málið var bara að Búmenn fékk ekki lán. Það strandaði á einhverju. Það er reyndar áhugavert að vita á hverju strandaði og hvort það var einhver með meiri glóru en aðrir hjá Íbúðarlánasjóði eða hvort þetta var bara heppni. En það er illa valið dæmi að taka sem dæmi um slæma breytni lán sem ekki var veitt.

Uppfært:
Svo hefur komið fram í fréttum að 90% lán Íbúðarlánasjóðs voru sárafá, ekki nema örfá árið 2005. Það var væntanlega vegna þess að bankarnir yfirtrompuðu og það verður að skoða banka sem fullir voru af erlendu lánsfé út af því að erlendar greiningarstofnanir höfðu gefið þeim háa einkunn og gengisskráning var há og fljótandi peninga alþjóðlegra fjárfesta flutu hingað og ráku að landi og fylltu hér allar víkur og voga. Það er alls, alls ekki nógu góð og fagleg vinna í þessari skýrslu ef það er látið í veðri vaka að það hafi verið 90% frá Íbúðarlánasjóði sem spenntu upp verð á húsnæði ef það voru lán sem aldrei voru veitt. Það virðist af öllu hafa skipt verulegu máli innkoma bankanna á húsnæðismarkaðinn og að fólk gat skuldbreytt lánum sínum, fært þau annað án kostnaðar.

Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð

Skýrsla starfshóps um framtíðarhorfur og hlutverk íbúðarlánasjóðs apríl 2013

Posted in Uncategorized

Staðfesting á breytingarákvæði stjórnarskrárinnar … og eina raunhæfa lausnin.

… er ekki mjög góð hugmynd.

Það væri kannski ágætt að útskýra af hverju. Ástæðurnar fyrir því að staðfesta breytingarnar eru nokkrar en ástæðurnar til þess að hafna þeim eru fleiri. Aðalástæðan fyrir breytingarákvæðinu er að gefa þingi tækifæri á að breyta stjórnarskránni án þess að það þurfi að rjúfa þing. Það út af fyrir sig er mjög góð ástæða en lausnin sem boðið er upp á (40% já) gerir það að verkum að þangað til það er 80% kosningaþátttaka þá er hver sá sem situr heima að segja ‘nei’. Það eitt og sér brýtur kosningaleynd því það eru yfirgnæfandi líkur á því að hver sem mætir á kjörstað sé þar til þess að segja ‘já’.

Þetta ‘vandamál’ er lagað með því að tilgreina að ef stjórnarskrárkosning fer fram meðfram öðrum kosningum, svo sem sveitastjórna- eða forsetakosningum, þá ‘felur’ sú kosning hvað sem fólk væri að kjósa um í stjórnarskrárkosningunni. Það er alveg rétt, en vandamálið er samt 40% ákvæðið. Ef kosningaþátttaka er á milli 40 – 80% þá er hlutfall þeirra sem þurfa að samþykkja frá 100 – 50% þeirra sem taka þátt. Semsagt, það fer eftir þátttöku hversu mikill stuðningur þarf að vera til þess að breytingarnar nái í gegn. Af því að við getum ekki vitað þátttöku fyrr en eftir að kosningu er lokið þá á ‘situr heima’ vandamálið enn við.

Næsta vandamál breytingarákvæðisins er að 2/3 þingmanna þurfa að samþykkja hvaða breytingar sem á að gera á stjórnarskrá. Miðað við núverandi ástand á þingi þá eru tveir flokkar nokkurn vegin með neitunarvald. Engin tillaga sem þeir eru ekki sammála fer í gegn. Miðað við ýmsar tillögur sem flugu manna á milli í lok síðasta kjörtímabils voru ekki beint vænlegar, hví ætti fólk því að trúa að 2/3 þings geti sammælst um góðar tillögur?

Þingmenn kvarta undan því að allar stjórnarskrárbreytingar eru afgreiddar í flýti í lok kjörtímabils og því þurfi að gefa færi á því að breyta stjórnarskrá án þess að rjúfa þing. Þessi tillaga hins vegar býður upp á tvær nýjar dagsetningar (deadline) sem þingmenn þurfa að huga að. Hvers vegna ætti þingið að geta lokið stjórnarskrárvinnu fyrir aðra tilbúna dagsetningu en þinglok?

Ef tillagan fer í gegn og á einhvern ótrúlegan hátt það tekst að breyta stjórnarskránni til hins betra þá er það ekki ákvæðinu að þakka heldur vinnunni sem fer í breytingarnar á stjórnarskránni. Þing getur hvernær sem er (með núverandi ákvæðum) ákveðið að breyta stjórnarskránni og halda þjóðaratkvæðagreiðslu, eða halda bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu og nota núverandi ákvæði eftirá til þess að breyta stjórnarskránni.

Það er ákveðið fordæmisgildi í því að setja lágmarks samþykkisþröskuld. Ég get ekki ímyndað mér meiri móðgun við lýðræðið ef tillögur eru samþykktar (jafnvel með miklum meirihluta) en þátttaka væri of lág til staðfestingar. Segjum sem svo að 39% samþykkja og 30% segja nei. 69% kosningaþátttaka er tiltölulega hærri en í nokkrum undanförnum svipuðum kosningum á undanförnum áratugum (http://data.is/16OTXAs).

Vandamálið er að slæm lausn (skítamix) knýr engann til þess að laga vinnuferlið. Þessi breyting býður bara upp á að sama ferlið, oftar. ‘Frábært’. Eina lausnin er í raun að gefa beinu lýðræði aðgang að forgangsröðun mála á alþingi. Ef allir fá að ráða því hvort og hvenær ýmis mál eru rædd, til dæmis væri hægt að biðja um ákveðna breytingu sem fær stuðning til framgangs. Síðan væri hægt að biðja um að það mál fái forgang. Segjum sem svo að þetta sé stjórnarskrárbreyting … þá er engin ‘í lok kjörtímabils’ redding ástæða.

Varðandi stjórnarskrárbreytingar almennt, af hverju ætti alþingi að fá að semja eigin vinnureglur yfirleitt? Var það ekki tilgangur stjórnlagaþingsins? Ég hefði ekkert á móti því að breytingarákvæði stjórnarskrárinnar sé endurskoðað, finnst það einmitt sérstaklega lélegt að kjósendur taki ekki afstöðu til breytinganna í kosningunum á milli þinga. Ferlið má alveg vera langt og það má alveg vera erfitt að breyta stjórnarskránni. Það má hins vegar ekki móðga lýðræðið á þennan hátt … að það sé möguleiki á því að þeir sem kjósa að taka ekki þátt hafi áhrif. Ákvörðun þeirra á að vera hlutleysi, traust til þeirra sem ákveða að taka þátt. Lýðræði er þátttaka í samfélaginu, ekki andstæðan.

Þegar meirihlutinn kúgar meirihlutann

“Ókostir beins lýðræðis eru verulegir”, segir Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði.

Sjá frétt: http://www.visir.is/-okostir-beins-lydraedis-eru-verulegir-/article/2013130709964

Hér heldur Gunnar Helgi uppi þeim röngu rökum sem andstæðingar lýðræðis nota mjög gjarnan, en það er sú hugmynd að með auknu lýðræði sé hætt við að meirihlutinn kúgi minnihlutann. Hæstvirtur forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, lét þetta einnig út úr sér í sambandi við þjóðaratkvæðagreiðslur, að því er virðist því hann mundi ekki eftir neinum öðrum rökum.

Þessi röksemdafærsla kemur reyndar úr mjög göfugri átt, þeirri að fólk hafi réttindi sem eru óháð skoðun meirihlutans. Tjáningarfrelsi, friðhelgi einkalífs, réttur til sanngjarnrar málsmeðferðar og kosningaréttur, sem nokkur dæmi, sem ekki eru háð samþykki meirihlutans, heldur þvert á móti sérstaklega til þess að vernda einstaklinga og minnihluta gegn meirihlutanum.

En til þess eru borgararéttindi. Þetta þýðir að hvorki Alþingi né forseti geta löglega skert þessi réttindi fólks eftir geðþótta. Hvernig storkar þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave eða fiskveiðigjald þeim réttindum? – Hefur 10% þjóðarinnar nokkurn tíma mótmælt lagasetningu með þeim afleiðingum að borgararéttindi myndu skerðast í kjölfarið? Það hlýtur hver manneskja að sjá að þessi rök einfaldlega standast ekki.

Mun meiri áhyggjur ætti fólk að hafa af því að Alþingi samþykki lög sem skerða borgararéttindi heldur en að þau mál sem alþýðan hefur viljað kjósa um í gegnum tíðina, lendi í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þessi rök varða nefnilega ekki einu sinni lýðræðið til að byrja með, heldur varða þau réttarríkið. Hér eru rök með borgararéttindum notuð sem rök gegn lýðræði. Áhyggjur af kúgun meirihlutans yfir minnihlutanum eru fullkomlega réttmætar og algerlega nauðsynlegar, en þær varða einfaldlega ekki spurninguna um lýðræði, heldur varða takmarkanir valdsviðs, óháð því hvort konungur, þing eða þjóð gefi “já” eða “nei”. Stjórnarskráin myndi ekki af einhverjum undraverðum ástæðum hætta að gilda af þeim sökum einum að talin séu 237.957 atkvæði í stað sextíu og þriggja og mér er fyrirmunað að skilja hvaðan sú röksemd kemur.

En þetta er allt saman fyrir utan hina stóru spurninguna, sem er þegar minnihlutinn kúgar meirihlutann. Ekki virðast andstæðingar lýðræðis hafa miklar áhyggjur af því. Valdið gufar ekki upp við það eitt að takmarka lýðræðið. Valdið er ennþá á einhvers höndum, í þessu tilfelli Alþingis sem telur 63 manns eða 0,026% þjóðarinnar.

Þannig eru það 0,026% þjóðarinnar sem að vísu hafa verið valin af kjósendum til þess að fara með 100% valdsins. Þessi 0,026% hafa síðan tilhneigingu til þess að brjóta í bága við vilja meirihlutans og mál er varða eignarétt hans, þvert á við umboð sitt, og jafnvel að skerða borgararéttindi í leiðinni án þess að meirihlutinn fái neitt við því sagt.

Stóra kaldhæðnin í þessu öllu saman er að það er naumur meirihluti kjósenda sem kaus meirihluta þessarra 0,026%. Þannig kusu 50,1% inn á þing 60% þingmanna sem fara með 100% valdsins, en því er nú beitt í andstöðu við vilja 70% þjóðarinnar. Það má því líta svo á að hér kúgi naumur meirihlutinn yfirþyrmandi meirihlutann, en reyndar einungis með þeim fyrirvara að lýðræðisfyrirkomulagið á Íslandi býður ekki upp á að draga til ábyrgðar kjósendur fyrir gjörðir fulltrúa sinna. Til þess hafa kjósendur einfaldlega of lítið að segja, eða sumsé einn bókstaf á fjögurra ára fresti til að segja allt sem segja þarf um öll málefni kjörtímabilsins.

Nóg um “verulega ókosti beins lýðræðis”. Ræðum frekar verulega ókosti lýðræðishallans og skorts á efldum borgararéttindum.

Það eru fáir flokkar sem hafa meiri áhyggjur en Píratar af yfirburðum meirihlutans yfir minnihlutanum þegar kemur að réttindum einstaklinga og minnihlutahópa. En þess vegna berjumst við fyrir verndun borgararéttinda og aukningu þeirra, ekki geldu lýðræði.

Posted in Uncategorized