Umsögn um stóra hagstofumálið

Allsherjar- og menntamálanefnd

Reykjavík, 25. júní 2013

Kallað hefur verið eftir umsögnum um frumvarp forsætisráðherra um breytingar á lögum nr. 163/2007 um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð. Ætlun ráðherra virðist vera að fá breytingarnar samþykktar strax á skammvinnu sumarþingi sem sést best á því að allsherjarnefnd ætlaði umsagnaraðilum heila tvo daga til þess að veita umsagnir um málið. Hér er þó ekki um einfalt eða óumdeilt mál að ræða og því ekki ráðlegt að ætla því þá flýtimeðferð sem virðist stefna í.

Vankantar þessa frumvarps falla að mínu mati í þrjá flokka sem hver um sig veitir nægjanlega ástæðu til þess að hafna frumvarpinu í þeim búningi sem það er nú. Þeir eru eftirtaldir:

A) Verulegt órökstutt inngrip í friðhelgi einkalífs.

Fyrirhuguð söfnun fjarhagsupplýsinga um alla Íslendinga í miðlægan grunn er í eðli sínu verulegt inngrip í friðhelgi einkalífs sem nýtur verndar samkvæmt ákvæði 71. gr. stjórnarskrár Íslands og efnislega hliðstæðum ákvæðum alþjóðlegra mannréttindasáttmála og yfirlýsinga sem Ísland er aðili að. Slíkt inngrip verður aðeins réttlætt með því að verulegir aðrir hagsmunir vegi þyngra. Í frumvarpi forsætisráðherra er það órökstutt með öllu að markmiðið með lagabreytingunum réttlæti inngripið.

B) Illa afmarkaðar og varanlegar heimildir Hagstofu Íslands til upplýsingasöfnunar.

Heimildir Hagstofu Íslands til upplýsingasöfnunar eru illa afmarkaðar varðandi þær upplýsingar sem sækja á. Taldir eru til nokkrir flokkar fjárhagsupplýsinga en sú talning er ekki tæmandi og í raun er það háð mati Hagstofu á hverjum tíma hvaða gagna stofnunin mun afla. Heimildirnar virðast jafnframt vera ótímabundnar þrátt fyrir að yfirlýst markmið frumvarpsins sé að afla gagna fyrir hagskýrslugerð til að varpa ljósi á umfang núverandi skuldavanda einstaklinga. T.a.m. felur frumvarpið í sér breytingar á þeim greinum Hagstofulaganna sem skilgreina hlutverk stofnunarinnar, slíkri breytingu er augljóslega ætlað að standa varanlega.

C) Öryggi gagnanna er ekki tryggt.

Tæknileg útfærsla á söfnun og geymslu upplýsinganna er alfarið á forræði þeirrar stofnunar sem mun afla gagnanna, varðveita þau og vinna með þau. Frumvarpið felur ekki í sér nein fyrirmæli um hvernig öryggi gagnanna skuli tryggt við öflun þeirra, varðveislu og úrvinnslu en í greinargerð er væntanlegu verklagi Hagstofu lýst á mjög almennum nótum. Kjarni málsins er þó sá að þrátt fyrir góðan ásetning allra sem að málinu koma þá mun ekki verða mögulegt að tryggja öryggi upplýsinganna. Fyrirhuguð er samkeyrsla víðtækra upplýsinga úr mörgum áttum sem tengdar verða við einkvæm persónueinkenni. Ljóst má vera að í fámennu samfélagi verður með lítilli fyrirhöfn unnt að tengja gögn við tilgreinda einstaklinga hvað sem allri dulkóðun persónueinkenna líður.

Niðurlag

Það væri óskandi að meiri tími gæfist til umsagna um frumvarp þetta þar sem það snertir gríðarlega stóra hagsmuni sem fá merkilega litla umfjöllun í samfélaginu. Rétturinn til friðhelgi einkalífs er ekki léttvægur og það hefur aldrei verið mikilvægara að standa vörð um þann rétt en nú á tímum nýrrar upplýsingatækni sem hefur auðveldað verulega söfnun upplýsinga og samkeyrslu þeirra. Hér verður að staldra við og meta það hvaða hættur fylgja tilvist gagnagrunns af því tagi sem frumvarpið heimilar og þá ekki síður hvers konar fordæmi er gefið til framtíðar með því að feta þessa braut.

Virðingarfyllst,

Bjarki Sigursveinsson hdl.

 

Posted in Uncategorized

Femínismi vs. jafnrétti

Ég er femínisti. Það þýðir samt ekki að ég hati karlmenn. Það þýðir heldur ekki að ég hugsi ekki um jafnrétti á víðari grundvelli.

Orðið “femínismi” vísar til kvenkyns vegna þess að það er kynið sem á hallar. Áður fyrr var talað um “kvenréttindi”. Vissulega eru til svið þar sem hallar á karlmenn og það er ranglæti sem nauðsynlegt er að berjast gegn. En það vísar ekki til þess að konur vilji meiri réttindi en karlar, eins og sumir virðast halda fram. Femínisti er manneskja, karl eða kona, sem gerir sér grein fyrir því að jafnrétti kynjanna er ekki náð og vill að eitthvað sé gert í því. Svo einfalt er það.

Dálítið hefur borið á því að femínistar séu gagnrýndir fyrir að berjast sérstaklega fyrir jafnrétti kynjanna í stað þess að berjast fyrir jafnrétti allra. Það er óréttmæt gagnrýni af eftirtöldum ástæðum:

1. Það að berjast fyrir rétti ákveðins hóps samfélagsins útilokar ekki áhuga á rétti annars hóps samfélagsins. Sá eða sú sem berst fyrir réttindum fatlaðra er ekki sjálfkrafa á móti samkynhneigðum eða baráttu þeirra, svo dæmi sé tekið.

2. Að ná fram jafnrétti kynjanna er mjög mikilvægur þáttur í almennri jafnréttisbaráttu vegna þess að allir sem tilheyra minnihlutahópi eru af einhverju kyni. Um það bil helmingur mannkyns er kvenkyns og á meðal þeirra eru fatlaðar, samkynhneigðar og geðveikar konur af öllum kynþáttum, stéttum og trúarbrögðum. Þær hafa líka þörf fyrir femínisma.

Fjölmargar vísbendingar eru um að jafnrétti kynjanna sé ekki náð á Íslandi: Kynbundið ofbeldi er enn til. Óútskýrður launamunur kynjanna er enn til. Konur eru enn í miklum minnihluta í stjórnum fyrirtækja og stofnana. Ný ríkisstjórn skipaði mun færri konur en karla í nefndir og setti nánast eingöngu karla í fjárlaganefnd en konur í velferðarnefnd. Þetta síðasta styrkir staðalmyndir kynjanna, sem alls ekki allir finna sig í og eiga þá jafnvel erfitt með að fóta sig í lífinu.

Það er nefnilega meiri munur milli einstaklinga en kynjanna. Ég persónulega hef til dæmis ekki umönnunargenið sem konum er eignað. Ekki hef ég tilfinningu fyrir skreytingum og léti ekki sjá mig grátandi á almannafæri þótt mér væri borgað fyrir það. Ég þekki líka marga karlmenn sem eru opnari um tilfinningar sínar en ég. Er ég þá ekki alvöru kona?

Kynjahlutverk eru úrelt. Kyn á ekki að skipta máli. En á meðan það gerir það verðum við að berjast fyrir jafnrétti kynja allra hópa samfélagsins.

Posted in Uncategorized

Rökvillublæti Brynjars

Ég hef undanfarið leitast við að sinna þeirri hlið vinnu minnar sem á sér stað utan landsteinanna, og fyrir vikið verið lítið virkur í íslenskri pólitískri umræðu. Hluti af ástæðunni fyrir því er að mig langaði til að fá smá tilfinningu fyrir því hvernig nýtt þing myndi líta út og hvernig nýja ríkisstjórnin myndi hegða sér, áður en ég færi að gera einhverskonar veður.

Veðrið sem ég finn mig knúinn til að gera núna snýr að Brynjari Nielssyni, sem hefur unnið sér það til frægðar fram yfir öllum öðrum þingmönnum þessa þings að vera algjörlega ófær um að fullyrða nokkuð án þess að það felist í því rökvilla.

Ef við tökum til að mynda nýjustu grein hans á Pressunni, “Af hverju ekki allan hagnaðinn?”, þá leggur hann upp með það afbrigði ad hominem rökfærslu að eigna Jóni Steinnsyni þann smættunareiginleika að vera ungur – þetta er lúmsk leið Brynjars til að gefa til kynna að ekki sé mark takandi á Jóni, sem er greinilega of ungur til að vita nokkuð þrátt fyrir að vera dósent við Columbíuháskóla. Minnst er á Ameríku í einhverskonar níðtilgangi, án þess að undirritaður skilji hvernig það á að virka.

Hafandi svo veikt andstæðing sinn gengur hann fram með þá einfaldlega röngu fullyrðingu að veiðigjaldið gangi út á að taka “næstum allan” hagnað útgerðarinnar inn í ríkissjóð. Þetta er ekki rökvilla, heldur vitfirring: Brynjar slengir fram svona fullyrðingum án tilvísana í neinar staðreyndir, að hluta til vegna þess að staðreyndirnar vinna gegn honum. Aðrir hafa gert því góð skil með hvaða hætti veiðigjaldið tekur af hreinum hagnaði útgerðanna, en þó ekki “næstum allan” hagnaðinn. Spyrja mætti hvað orðið “næstum” merkir í þessu samhengi.

Því næst byrjar Brynjar á skemmtilegu rökvillunum. Hann reynir að búa til rökfærslu sem kölluð er reductio ad absurdum, en mistekst herfilega – enda er sú rökfærslutækni einkar vandmeðfarin. Í stað þess að sannfæra lesandann um að það að taka “næstum allan” hagnaðinn sé jafngilt því að taka “allan” hagnaðinn, nær hann helst að sannfæra lesandann um að hann sé öfgafullur vitleysingur sem telur svart og hvítt einu möguleikana. Þá tekur hann hálu brekkuna fyrir af kostgæfni, og leggur til að allur hagnaður annarra fyrirtækja sé tekinn upp líka. Svo hristir hann hausinn yfir þessu öllu saman og slengir fram þeirri skemmtilegu rökvillu að halda að þar sem hann skilur ekki rök andstæðingsins þá séu rökin ekki til staðar.

Þarna hefur Brynjar á þremur stuttum efnisgreinum náð að gera svo margar rökvillur að það mætti leggja greiningu greinarinnar fyrir sem heimaverkefni í rökfræðinámskeiði á framhaldsskólastigi. 

Vandamálið hér er ekki að Brynjar sé órökvís, því ætla má að hann sé það ekki. Reynsla hans og árangur af störfum í sem lögmaður í hæstarétti eru sterk vísbending um að hann geti betur, því ef hann komst í gegnum langt starf sem hæstaréttarlögmaður með svona rökfærslutækni er það áfellisdómur yfir Hæstarétti.

Ég ætla að gefa mér það að hann hljóti að geta betur, hreinlega því mér finnst hinn möguleikinn of hrikalegur til að leggja hugsun við í augnablikinu. Þá neyðist maður til að spyrja, hvers vegna í ósköpunum er hann þá að þessu? 

Ef álpappírskollhúfum væri dreift um salinn gæti einhver mögulega lagt það til að Brynjar sé í raun útsendari Katrínar Jakobsdóttur, og hafi þann tilgang að draga úr trúverðugleika hægrimanna, en þeim möguleika ætla ég að hafna.

Þá stendur eftir tvennt: annað hvort heldur hann að fólk trúi þessari vitleysu, eða hann er að reyna að gera sitt besta til að verja óverjandi málstað.

Ég get ekki í fljótu bragði útilokað þann möguleika að Brynjar Nielsson sé slíkur hrokagikkur að hann haldi almenning vera svo fávísan að lepja upp rökleysurnar sínar af einskærri trúgirni, en seinni valkosturinn hljómar líklegari. 

Það er nefnilega oft þannig með fólk sem er vant því að sigra á röksemdum að þegar það kemst í aðstæður þar sem það getur ýmist stutt sig við röksemdir eða sigrað, en ekki hvort tveggja, þá kýs það frekar sigurinn. Flokkshollusta, hugmyndafræði, og hreinir hagsmunir spila sennilega sinn þátt líka.

Bak við rökleysuna má þó sjá glitta í það sem Brynjar er að reyna að halda fram. Hann er, eins og margir íhaldsmenn þessa daganna, búinn að kynna sér svokallaða Laffer kúrvu, sem sýnir að það er einhver punktur þar sem skattar eru orðnir það háir að þeir letja fólk frá þátttöku í hagkerfinu. Tilvist þessarar kúrvu er ekki mjög umdeild, en lögun hennar og hátindur eru bæði umdeild og óþekkt. Það er líka algengt að fólk haldi lögunina vera óháða öllu öðru, en flest bendir til þess að ýmsir aðrir eiginleikar hagkerfisins, samfélagsins, og stjórnkerfisins hafi heilmargt með lögunina að gera – það er ekki bara til ein Laffer kúrva, heldur ógrynni af kúrvum sem falla að kenningu Laffers, sem hver um sig getur komið upp eftir því sem aðstæður breytast.

Það sem Brynjar virðist ekki átta sig á er að röksemdafærslan hans – jafnvel að öllum augljósum rökvillum slepptum – er röng. Hann er að leggja það til að eigendur útgerðanna muni hreinlega hætta að nenna þessu ef þeir geta ekki fengið margra milljarða króna hagnað á hverju ári út úr nýtingu auðlindanna úr hafinu umhverfis Ísland, því enginn vilji starfa án hagnaðar. Þetta er rangt því það er ekki verið að tala um að uppræta hagnað, heldur að uppræta rentur: það er ákveðinn hluti hagnaðarins sem er ekki talinn til “hreins hagnaðar” fyrirtækisins sem deilist niður á starfsmennina í útgerðinni – þú veist, þessa sem vinna raunverulegu vinnuna. Það er ekki verið að tala um að taka af þeim hagnaði. Sá hagnaður sem er verið að tala um að taka af er það sem fer umfram það. Sá hagnaður verður til að hluta til vegna skorts á auðlindinni, og að hluta til vegna þeirrar einokunarstöðu sem eigendur kvóta hafa á markaðnum. Það er hreinlega ekki hægt að kaupa fisk úti í búð eða á fiskmarkaði öðruvísi en að fá hann frá handhafa kvóta. Það eru einmitt þeir sem ráða verðlagi fisksins. Þeir geta pumpað verðið upp töluvert mikið – en rétt eins og með Laffer kúrvuna kemur vissulega punktur þar sem verðið er orðið svo hátt að fólk hættir að vilja kaupa.

Í raunveruleikanum, þessum sem við búum í, munu aðstæður vissulega breytast eftir því sem hinar ýmsu Laffer kúrvur breytast í lögun sinni. Hvort sem það er okurkúrva útgerðarinnar eða skattkúrva stjórnvalda þá er það þannig að meðan ofurgróði er til staðar mun einhver hirða hann. Brynjar vill að útgerðarmennirnir fái tugir milljarða á ári í verðlaun fyrir það eitt að eiga kvóta, og færir þau rök að án tugmilljarða krónu verðlaun muni útgerðarmenn ekki sjá sér neinn hag í rekstrinum. Þeir sem eru hlynntir veiðigjaldinu vilja að útgerðarmenn fái ágætis hagnað, en að meginþorri þeirrar upphæðar sem ávinnst hreinlega vegna einokunarstöðu útgerðanna sé greiddur til samfélagsins sem ákvað að leyfa útgerðarmönnunum að fá þessa einokunarstöðu til að byrja með.

Orðað öðruvísi: þetta snýst ekki um skatt eða ekki skatt, heldur bara hvort útgerðirnar einar fái að njóta góðs af því að útgerðirnar skattleggi neytendur.

Þetta er einmitt ekki þannig að ríkið er að heimta eitthvað fyrir ekkert. Ef einokunarrétturinn sem felst í kvótanum væri einskis virði værum við ekki að eiga þetta samtal.

Mögulega þjáist Brynjar Nielsson af hreinu rökvillublæti, en ég held að það sé af þessu öllu hægt að draga þá ályktun að hann sé ekki svo rosalega vitlaus. Hann vill bara ekki horfast í augu við raunveruleikann.

Posted in Uncategorized

Slæm staða ríkissjóðs

Samkvæmt fjármálaráðherra er staða ríkissjóðs mun verri en gert hafi verið ráð fyrir (sjá: https://www.youtube.com/watch?feature=player_embedded&v=LqzpMZ1FwBQ). Til þess að koma til móts við minni tekjur þá þarf að fara í ýmsar hagræðingaraðgerðir, til dæmis: http://www.dv.is/frettir/2013/6/12/boda-milljarda-laekkun-veidigjoldum-og-aetla-ad-endurskoda-tannlaekningar-barna/

Það má vel vera að stærðfræðikunnáttu minni hafi eitthvað farið aftur frá því að ég var að kenna stærðfræði í grunnskóla fyrir nokkrum árum en einhvern vegin hljómar það undarlega að lækka tekjur …

Eina sem mér dettur í hug er að þessar aðgerðir séu til þess að gera sjávarútvegsfyrirtækjum betra svigrúm til þess að greiða niður gríðarlega skuldsetningu sína, sjá: http://www.althingi.is/altext/142/s/0015.html, þar sem segir meðal annars að skuldir sjávarútvegsfyrirtækja hafa lækkað um 80 milljarða á fjórum árum. Hversu mikið af því ætli séu skuldaniðurfellingar? Óháð því þá hefur skuldastaðan batnað.

Í kosningabaráttunni heyrði ég talsmenn fyrri stjórnar sífellt segja eitthvað á þessa leið: “við getum ekki lækkað skatta, við höfum ekki efni á því”. Nú staðfestir ný stjórn í raun og veru það sem fyrri stjórn sagði um stöðu ríkissjóðs … en samt hefur hún efni á að lækka tekjur á sama tíma og hún getur farið í hagræðingaraðgerðir.

… ég skil þetta ekki.

PRISM njósnir, Edward Snowden og griðastaðurinn Ísland

Síminn var hleraður í síðasta torfbænum í Reykjavík á Kaldastríðsárunum  en þá voru einu rafrænu samskiptatæki okkar símar og þeir voru hleraðir af stjórnvöldum ef þurfta þótti. Eina ástæðan fyrir hlerun í torfbænum  var að þar bjó verkalýðsleiðtogi og það eitt nægði til að vera grunsamlegur á þeim árum að berjast fyrir bættum kjörum alþýðu. Síminn var líka hleraður hjá fjölskyldunni sem bjó á hæðinni fyrir neðan mig  þar sem ég ólst upp á Laugarnesvegi  því þar bjó einnig verkalýðsforingi (sjá hérna Hlerunin á Laugarnesvegi 100 ) og síminn var líka hleraður hjá föður æskuvinar föður míns honum Haraldi tollverði. Hann hafði ekkert gert af sér hann Haraldur, hins vegar var einn af sonum hans róttækur vinstri maður og hafði verið í slagnum fræga á Austurvelli þegar því var mótmælt að hér yrði herstöð og þess vegna voru öll símtöl hans Haraldar hleruð.

En nú er öldin önnur og nú eru samskiptatækin meiri og betri en bara símar og það eru ekki bara hin vesælu íslensku stjórnvöld sem hlera það sem grunsamlegir Íslendingar gera og ákveða hver er grunsamlegur. Bandarískar njósnastofnanir hlera nethegðun Íslendinga sem og annarra og skilgreina hverjir eru grunsamlegir og þannig í sjónlínu þeirra sem vakta og við vitum ekkert af þessari vöktun og hvers vegna hún stafar.

Uppljóstrað var í síðustu viku að Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna NSA  og Alríkislögreglan FBI hafa  um langt skeið safnað  og samkeyrt upplýsingar um fólk  bæði frá  símafyrirtækjum  og hafa einnig  leynilega  áætlun sem kölluð er PRISM en samkvæmt þeirri  áætlun þá hlera þessar stofnanir NSA og FBI netheima og safnað upplýsingum frá mörgum algengum netveitum eins og Microsoft, Yahoo, Google, Facebook, PalTalk, AOL, Skype, YouTube og Apple. Hér er á glæru  yfirlit yfir hvaða gögnum er safnað. Eins og sjá má eru það símtöl, myndir, loggskrár, tölvupóstur og margt fleira.

prism-slide-4

Hér er svo glæra sem sýnir hvenær hleranir á hverri netveitu hófust. Þannig virðast gögn frá Facebook og Google hafa verið safnað alveg frá árinu 2009. Bandarísk stjórnvöld reyna núna að sannfæra þegna sína um að þessar hleranir og gagnasöfnun sé eingöngu á erlendum aðilum og þá væntanlega aðilum sem bandarísk stjórnvöld tortryggja og telja hugsanlega hryðjuverkamenn. Sem á sennilega við um okkur flest sem eitthvað tökum þátt í andófi netheima gagnvart því lögreglu- og eftirlitskerfi sem umlykur okkur en hefur ekki náð inn í alla kima  Internets.

prism-slide-5

Glærurnar eru frá þessari slóð NSA slides explain the PRISM data-collection program

Uppljóstrarinn Edward Snowden

edward-snowden

Það var uppljóstrarinn Edward Snowden  sem lak upplýsingum um þessar njósnir á  grunlausu fólki en hann sem vann hjá einu af fyrirtækjunum sem aðstoðaði NSA og FBI í PRISM áætluninni. Það er ljóst að það vakti ekki fyrir Edward Snowden að koma höggi á Bandaríkin eða grafa undan öryggiskerfi ríkisins þar heldur að vekja athygli á gríðarlega alvarlegu máli, hvernig ferðir saklauss fólks eru vaktaðar og kerfisbundið skráðar, fólks sem ekkert gert af sér. Það getur verið að fylgst sé með þér bara ef einhver telur að þú sért grunsamlegur, þú þarft ekki að hafa gert annað en hringt í skakkt númer einhvern tíma til að komast í þann hóp. Við sem höfum verið í baráttu og andófi í netheimum erum alveg örugglega fólk sem þannig er grunsamlegt, fólk sem tengist baráttu fyrir netfrelsi og frjálsu flæði þekkingar, fólk sem styður og tekur þátt í Píratahreyfingunni og finnst margt sem Wikileaks gerir vera hið besta mál. Það getur verið að einhver sé að fylgjast með þér og safna gögnum og loggskrám um nethegðun þína þó þú hafir ekkert gert af þér og það getur verið að þessar bandarísku stofnanir séu að safna upplýsingum um ákveðna Íslendinga í gegnum PRISM áætlanir sínar því mikið af netumferð og þeim netveitum og samskiptamiðlum sem við notum tengjast og fara um Bandaríkin. Það er áhugavert að Google biður okkur núna að tengja Google reikninga við farsíma og Youtube endalaust pestar notendur til að tengja youtube persónu sína við aðra netmiðla – Eru þetta upplýsingar sem fara beint inn í einhverja gagnagrunna fyrir PRISM áætlunina. Eru kannski myndirnar sem maður póstar á facebook komnar þar inn og einhverjir sjálfvirkir rekjarar rekja tengslin milli mín og einhverra grunsamlegra og ef ég tengist einhverjum grunsamlegum, er ég þá sjálfkrafa komin í radarinn hjá PRISM áætluninni.

Uppljóstrarinn Daniel Ellsberg

Daniel Ellsberg sem sjálfur er frægur uppljóstrari (sjá Pentagon Papers ) ritar þessa grein  Edward Snowden: saving us from the United Stasi of America í Guardian 10. júí 2013 og honum er umhugað um hvernig vernda eigi borgara fyrir njósnum og hlerunum stjórnvalda í einkalíf. Hann varar við að þó Bandaríkin séu ekki lögregluríki þá hafi sé bæði tæknilega og lagalega framkvæmanleg slík rafræn vöktun og það sé ekki réttlætanlegt að búa til leyndarkerfi til að leyna viðfangsefnum sem eru í andstöðu við stjórnarskrá og bjóði upp á valdníðslu og hættu á misnotkun.

Edward Snowden vill griðastað á Íslandi

Uppljóstrarinn Edward Snowden fer núna huldu höfði og hann á ekki von á að hann eigi afturkvæmt til ættlands síns Bandaríkjanna nema hann verði handtekinn og framseldur þangað. Hann er núna landlaus flóttamaður og hann hefur lýst yfir áhuga á að koma til Íslands vegna þess að Ísland hefur skapað sér það orðspor að vera í fararbroddi fyrir netfrelsi og í gegnum viðfangsefni eins og IMMI  og tengingu við Wikileaks verið áberandi varðandi netfrelsi og andóf gegn leyndarhyggju valdamikilla miðstýrða kerfa. Hér er umfjöllun um málið:

Á ýmsum netmiðlum er  einnig spáð og skeggrætt um tengingu Edward Snowden við Ísland t.d. þessum:

Vonandi fær Snowden hæli á Íslandi sem pólitískur flóttamaður og vonandi verður Ísland griðastaður fyrir alla sem reyna að benda á þá hættu sem felst í hvernig valdamiklir aðilar geta notað stafræna miðla til að vakta og njósna um fólk með leynd. Hér á landi er ennþá ekki mikill skilningur á hversu mikilvægt þetta er, margir eru afar jákvæðir fyrir hlutum eins og forvirkum rannsóknarheimildum þ.e. að vakta og fylgjast með aðilum sem liggja undir grun um að geta hugsanlega framið einhverja glæpi. En það er mikilvægt að ríkisvaldið líti ekki sjálfkrafa strax á borgarana sem óvini sína og gefi þeim svigrúm og einkarými þar sem þeir eru ekki undir rafauga stórabróðurssamfélags. Þess vegna þurfum við tæki og tól sem við skiljum og höfum vald yfir, við þurfum opinn hugbúnað og opinn vélbúnað og samfélag opinna lausna og leyfi til að ferðast óáreitt og án vöktunar í netheimum og reyndar raunheimum líka. Við verðum sífellt fyrir meira áreiti lögregluríkis sem dæmi um það er hvernig hver einasti flugfarþegi er meðhöndlaður núna eins og grunaður hryðjuverkamaður amk í vissum ríkjum.

 

Fleiri tenglar

 

 

Posted in Uncategorized

Finnska barnaboxið

barnabox
Í Finnlandi hefur tíðkast í 70 ár að öll nýfædd börn frá gjöf frá samfélaginu, það er box sem inniheldur allt það helsta sem nýburinn þarf fyrstu mánuðina, útigalla, vetlinga og húfur, barnaföt og ábreiðu. Svo er þar líka dýna og kassann sjálfan má nota til að láta barnið sofa í. Finnskir hönnuðir hanna falleg og notadrjúg föt og hönnunin breytist á hverju ári og líka efnisvalið. Á tímabili voru pappírsbleyjur en núna eru þar taubleyjur af því það er umhverfisvænna.

Hér er grein sem birtist nýlega á BBC vefnum um finnska barnaboxið:
http://www.bbc.co.uk/news/magazine-22751415

Hér er listi yfir innihald í finnska barnaboxinu 2012-2013
http://www.kela.fi/web/en/maternitypackage

barnabox13877.13
barnabox13877.22
barnabox13877.29
barnabox13877.30
barnabox13877.18
barnabox13877.04
barnabox13877.03
barnabox
barnabox13877.28

Finnska barnaboxið er meiriháttar. Ég vissi ekki að umbúðirnar þ.e. boxið sjálft væri notað sem vagga en ég veit að innihaldið er kærkomin gjöf. Ég held að allir Finnar séu mjög ánægðir með þessi box og þetta er líka táknrænt, hver nýr þjóðfélagsþegn er boðinn velkominn með gjöf sem inniheldur það helsta sem hann þarf af fötum fyrstu mánuðina. Svo er boxið og fötin hönnuð af frábærum finnskum hönnuðum . Ég hef lengi reynt að fá þetta tekið upp á Íslandi, mig minnir að ég hafi einu sinni fengið samþykkta ályktun hjá Landssambandi Framsóknarkvenna að sambandið skyldi vinna að því íslensk stjórnvöld taki upp svona fatapakkagjafir til nýbura. Fólk setur fyrir sig kostnaðinn og vissulega er þetta ekki ódýrt, vinsældir finnsku pakkana er ekki síst að innihaldið er gæðavara, finnsk hönnun fyrir nýbura gerð af alúð úr bestu efnum sem hæfa litlum krílum. En þetta er hvort eð er kostnaður sem lendir á einhverjum og það sparar umstang og fyrirhöfn og peninga fyrir nýbakaða foreldra að þetta sé í svona pakka og þetta er þetta er ekki bara styrkur til nýbakaðra foreldra heldur líka merki um jöfnuð í samfélaginu og að það sé tekið vel á móti öllum og börnin skipti máli. Fínt að fá þessa grein með myndum af hvað er í pakkanum, það hafa svo fáir hérna á Íslandi vitað af þessari mjög svo skemmtilegu hefð í Finnlandi, hefð sem aðrar þjóðir ættu að tileinka sér.

Það er nú allt í lagi að hver nýburi fái einn pakka af nýjum baðmullarfötum, dýnu og og teppi og einn útigalla, það er ekki mikið bruðl miðað við þetta venjulega ungbarnastúss þar sem allir gefa föt á pínkulítil og foreldrar hafa ekki við að klæða hvítvoðunginn í krúttlega gjafamúdderingar. Ef krakkar fengju svona pakka þá er það líka vinsamleg ábending til allra annarra að gefa eitthvað fatakyns til barnsins EFTIR að það vex upp úr fæðingarpakkagöllunum. Og það er ekki alltaf gott að nýta gamalt, það fylgir dýna með pakkanum og kassi sem má nota sem rúm ef fólk vill og þarf. Ein kenning um vöggudauða er að hann geti stafað af ónýtum og margnotuðum dýnum. Það er allt í lagi að börn fái vandaða designgalla, það er líka hönnun að hanna úr góðum efnun sem fara vel með börn og hanna hagkvæm og falleg föt. Með því að framleiða svo marga pakka og þurfa engu að eyða í auglýsingar næst hagkvæmni þannig að ég trúi ekki að þessir fallegu og vel hönnuðu ungbarnaföt séu dýr í framleiðslu – ekki nema að því leyti að þau eru úr vönduðum efnum. Það er lífsgæði allra nýbura og nýrra foreldra að barnið eigi falleg og hagkvæm og vönduð föt sem þola vel þvotta. Ríkir geta náttúrulega keypt sér svona pakka en það er einmitt svo mikið segjandi í þessu að allir fá það sama, enginn mannamunur. Ég geri líka ráð fyrir að hugað sé að því að innihald þessa pakka sé framleitt við góðar og vistvænar aðstæður, ekki í hræðilegum 3. heims vinnufangabúðum eins og margt af ódýru stöffi sem fæst í búðum. Það getur vel verið að þetta séu föt sem eru alfarið framleidd í Finnlandi og þetta er þá líka statement um finnska framleiðslu versus innfluttar vörur.

Ég heyrði á Bylgjunni í vikunni umræðu um fæðingarpakka Finna og vona að umræðan haldi áfram. Það má alveg byrja smátt hér á Íslandi og það þarf ekki að vera neitt eins og á Finnlandi, bara lítil vertu velkomin gjöf til hvers barns sem hér fæðist. Það mætti líka vera eitthvað sérstakt sem tengist íslenskum aðstæðum t.d. húfa eða skjólföt. Eyrnarbólga er t.d. eitthvað sem mörg íslensk börn þjást af og ég held að meðvitund um það hjá nýjum foreldrum geti skilað hraustari og ánægðari börnum. Ég átti yngri dóttur mína á spítala í USA og þar fékk ég alls konar dót með heim, margt voru gjafir frá fyrirtækjum t.d. papírsbleyjur en margt var frá spítalanum t.d. húfa og hitamælir og svona emergency kit sem ég man nú ekki hvað var. Svo alls konar fræðsluefni, margar bækur. En finnski pakkinn og hönnun hans er líka fyrstu kynni barnsins af sinni menningu, menningu sem leggur áherslu á hönnun, gæði, list og jöfnuð og tengsl við umhverfi, við skóginn. Nægjusemin og allir deili kjörum og pakkinn kemur úr Karelia menningunni þegar allir Finnar þjöppuðu sér saman til að taka á móti gríðarlega mörgum sem þurftu að yfirgefa heimkynni sín í Rússlandi vegna stríðssamninga. Það voru einir mestu þjóðflutningar síðari tíma í Evrópu og er stór partur af finnskri menningu – menningu sem hver nýburi fær í gegnum fæðingarpakkann sinn.

Posted in Uncategorized

Lögvarðir hagsmunir upplýsinga — svör óskast.

Titillinn á greininni er með öllu óskiljanlegur. Það er allt í lagi því að ég ætla einmitt að fjalla um nokkur óskiljanleg mál.

Til að byrja með er með öllu óskiljanlegt af hverju eigendur gömlu bankanna (íslenska ríkið — og þar af leiðandi íslenska þjóðin) fær ekki að vita hverjir eru kröfuhafar þeirra. Ég tel mig eiga ágætan rétt á því að vita hverjum ég er að borga. Ég nefni þetta bara út af því sem ég las hérna: http://www.pressan.is/pressupennar/LesaOlafArnarson/thetta-eru-eigendur-bankanna—listi þar sem segir meðl annars:

… aðeins þeir sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta aðgang að skjölum þrotabús …

Ástæðan fyrir því er að ég hef heyrt að hluti kröfuhafa gömlu bankanna séu í raun íslenskir aðilar. Mér var ekki sagt hverjir nákvæmlega en orðið ‘víkingar’ var notað til þess að lýsa þeim. Hvort þetta eru nákvæmlega sömu menn og átu bankakerfið innan frá og í gegnum núverandi ferli þá ætli þeir sér að éta bankana utan frá get ég ekki sagt með fullri vissu. Ég get bara leitt að því rök hvaða Íslendingar eiga mikinn pening erlendis til þess að geta keypt upp kröfur gömlu bankanna … og látið þar við sitja.

Þess vegna finnst mér mjög eðlileg spurning að spyrja, við hverja er ég að semja? Hverjir koma til með að fá pening frá mér? Af hverju? Mér finnst einmitt með öllu óskiljanlegt að það sé ekki hægt að svara þessum spurningum.