Tyrfum yfir bílastæðin í Reykjavík, bílar til útláns við borgarmörkin í sunnudagsbíltúrana

Við þurfum enga bíla í Reykjavík nema farþegaflutningabíla, vöru- og búslóðaflutningabíla og öryggisbíla. Þ.e. almenningsvagna (strætó eða sporvagna), lögreglu,- sjúkra- og slökkvibíla, flutningabíla og bíla fyrir fatlaða. Þetta myndi nánast þurrka út þörfina fyrir bílastæði. Í fljótu bragði sýnist mér að stefna okkar í bílastæðamálum sé ívið nær stefnu Bandaríkjanna en Evrópu, en ég hef þó ekkert haldbært fyrir mér í þessu annað en þessa heimild (sem sýnir ástandið í BNA) og að hafa búið í Evrópu.

Ef við tyrfum yfir megnið af bílastæðum borgarinnar breytist margt til betri vegar. Byggð þéttist, mengun minnkar, það dregur úr streitu og slysum, kostnaður heimila við samgöngur dregst verulega saman, viðhaldskostnaður vega snarminnkar, að ekki sé minnst á kostnað við bílastæðamannvirki sem nánast hverfur. Þess í stað verður hægt að stórbæta almenningssamgöngur og styrkja hjólreiðasamgöngur, samgöngur gangandi fólks og jafnvel líka hestasamgöngur, en hestamenn hafa lengi kallað eftir auknum stuðningi til gerðar hestavega.

Heimspekikennarinn hann mágur minn fékk frábæra hugmynd um daginn. Hún er svona: Tyrfum yfir bílastæðin og komum á einkabílum í almenningseigu sem eru staðsettir við borgarmörkin. Fólk kaupir sér bílakort, sambærilegt við sundkort, menningarkort og bókasafnskort. Þegar það ætlar út á land og rúturnar henta ekki fer það á einn af nokkrum stöðum í borgarjaðrinum þar sem bilar bíða eftir þeim sem vilja skreppa út á land. Þetta fyrirkomulag skapar þó nokkuð mörg störf um stjórnun, eftirlit, viðhald, bílainnkaup og þjónustu.

Enginn verður auðvitað píndur í að nota þessa þjónustu og leggja einkabílnum, að öðru leyti hugsanlega en því að fleiri götum yrði lokað fyrir umferð einkabíla en nú er, til dæmis öllum miðbænum. En þegar stæðin vantar og hin þjónustan stendur til boða er það öflug hvatning til að að nýta sér hana. Svo myndi þetta fyrirkomulag vera vel kynnt og lagt í atkvæðagreiðslu borgarbúa. Aðrir byggðakjarnar fengju þá tækifæri til að kynna sér þetta fyrirkomulag og sjá hvort það hentaði í þeirra byggðalagi, en til þess fengjust ríkisstyrkir.

Í lokin: Við verðum líka að hugsa um framtíðina. Það er gott og nauðsynlegt að geta lifað í núinu með tilliti til þess að njóta lífsins og hafa ekki áhyggjur af eigin komandi þrengingum og andláti. En með tilliti til þess að skapa góðan heim er afspyrnu vitlaust að lifa í núinu. Dóttir mín byrjaði að tala og vinna gegn einkabílisma þegar hún var átta ára ánss að hafa fengið neina hvatningu til þess á heimilinu, þar sem einkabíllinn var í hávegum hafður. Ætlum við virkilega að sitja og gera ekki neitt á meðan krakkarnir skjóta okkur ref fyrir (síbreikkandi) rass? .

Posted in Uncategorized

Skipasinfónía í annað sinn á ævinni

Ég er svo heppin. Árið 1993 hlustaði ég á skipasinfóníu í höfninni í Amsterdam. Nú stendur til sams konar viðburður í Reykjavík og ég hvet fólk sem er statt í borginni eða nágrenni hennar að fara niður á miðbakka og hlusta (og horfa) klukkan 17:45 í dag. Ef það tekst eitthvað í líkingu við jafnvel og í Amsturdammi í denn þá verður þetta nokkuð sem gleymist ekki svo glatt, sérstaklega í svona fallegu veðri – og ef fjöldi fólks kemur saman glatt í sinni.

Posted in Uncategorized

Kosningakerfislegur meirihluti og miðstýring hugmynda.

Í fréttum um stjórnarmyndunarviðræður undanfarið er að finna nokkrar áhugaverðar tilvitnanir.

 • Við ætlum að nota vikuna vel til þess að máta hugmyndir hvors annars að þeirri stöðu sem er uppi
 • Vel hafi gengið að flétta áherslur flokkanna saman
 • meta stöðuna hvor í sínum ranni
 • samstarf tveggja flokka sem að hafa ríflegan (þingmanna, ekki atkvæða – innskot mitt) meirihluta á þingi
 • útfæra nánar hugmyndir um í hverju stjórnarsáttmálinn felst efnislega
 • koma við ýmsa efnisþætti í því og setja niður á blað
 • ná saman um skuldamálin

Það er vert að benda á nokkur atriði. Varðandi meirihlutann þá voru 188.995 gild atkvæði greidd, B og D fengu 46.173 + 50.455 = 51,13% … í heildina voru hins vegar 193.822 atkvæði (gild og ógild) sem gerir 49,85% atkvæða til B og D. Það er meira bak við söguna um þennan ‘ríflega meirihluta’. Ef fjöldi þingmanna er skipt á öll atkvæði ( 100/63) þá fæst út að hver þingmaður þarf að hafa 1,587% atkvæða til þess að teljast kjörinn. Ef prósentunni sem B og D fengu samanlagt væri deilt með þessari tölu (51,13 / 1,1587) þá ættu þessir flokkar réttilega að hafa meirihluta í 32 þingmönnum. Minn skilningur á ‘ríflegum meirihluta’ er greinilega einhver annar en þeirra.

Jú, svona er kosningakerfið. 51,13% gildra atkvæða þýða víst 38 þingsæti (60,32% þingsæta) í þetta skiptið. Ég skal alveg viðurkenna að ég myndi kalla 60% ríflegan meirihluta.

Hinar tilvitnanirnar eru líka mjög áhugaverðar. Í kosningabaráttunni sem er nú nýlokið var mikið gert úr ýmsum loforðum hinna og þessara flokka. Þeir sem hafa gengið í gegnum það áður vita alveg að kosningaloforð verða sjaldnast að nákvæmri stefnu eftir kosningar. Stjórnarsáttmálinn sér til þess að flokkar geta samið sig út úr þeim loforðum sem þeir gerðu í kosningabaráttunni. Eftir stendur eitthvað plagg með einhverri bræðslu kosningaloforða sem kannski enginn kaus. Kannski ná heil loforð inn í skjalið, kannski ekki. Kannski nær einhver útfærsla af loforði inn í sáttmálann, kannski ekki. Ég veit allavega að í þau þrjú skipti sem ég hef kosið flokk sem endaði í stjórn þá varð lítið eftir af þeim loforðum sem ég kaus út af. Í fyrra skiptið varð ég frekar svekktur, í annað skiptið kom stjórnarmyndunin mér á óvart og í síðasta skiptið var mér sama því ég bjóst við því að grunnstefna flokksins myndi halda. Þess vegna varð ég Pírati, vegna þess að loforðin koma ekki frá flokknum, vegna þess að stjórnarmyndun er gamaldags þynning á lýðræðinu og vegna þess að kjósendur framfylgja grunnstefnunni.

Í dag horfi ég upp á söguna frá 1995 endurtaka sig (http://www.stjornarrad.is/Stefnuyfirlysing/nr/69) þar sem er meðal annars að finna gullmola eins og:

 • Stuðlað verður að því að einstaklingar sem eiga í alvarlegum greiðsluerfiðleikum hafi möguleika á því að ná tökum á fjármálum sínum.
 • Að endurskoða kosningalöggjöfina með það fyrir augum að hún verði einfaldari og tryggi jafnara vægi atkvæða milli kjördæma.
 • Að setja reglur er tryggi aðgang borgaranna að upplýsingum hjá stjórnvöldum
 • Að móta heildarstefnu í samvinnu við fulltrúa atvinnulífsins um upplýsingatækni og miðlun er miði að því að auka framleiðni og samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja.

Tengillinn á stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar frá 1999 er bilaður (http://www.stjornarrad.is/Rikisstjornartal/nr/30) og engar frekar stefnuyfirlýsingar finnast.

Semsagt; laga greiðsluerfiðleika, laga kosningalöggjöfina, aðgengi að upplýsingum og kenna íslenskum fyrirtækjum á internetið. Væri ekki frábært ef þeim hefði tekist þetta?

Vinsamlega ritið athugasemdir hér: https://www.facebook.com/BjornLeviGunnarsson/posts/193173547500354

Alþjóðlegur baráttudagur gegn DRM aðgangsstýringu

Stop the Hollyweb! No DRM in HTML5.Í dag 3. maí 2013 er baráttudagur gegn DRM en með DRM (Digital Right management er átt við hvers konar  aðgangsstýringu á stafrænu efni. Við þekkjum öll dæmi um DRM, það eru t.d. læsingar á rafbókum og forritum og tónlistarefni sem koma í veg fyrir að við getum afritað efni eða blandað því saman við annað efni og unnið með það eins og við viljum.  Tilgangur með DRM er sagður að hindra að efni sé afritað eða notað á einhvern hátt sem höfundarrétthafar og söluaðilar  vilja ekki, með þessu er reynt að  stýra hvernig efni er notað eftir að sala hefur átt sér stað. DRM er hvers konar tækni sem hindrar notanda í að nota stafrænt efni á hátt sem framleiðandi telur óæskilega eða hefur ekki gert ráð fyrir. Stórfyrirtæki eins og Amazon, AT&T, AOL, Apple Inc., Google, BBC, Microsoft, Electronic Arts og Sony nota DRM. Árið 1998 voru lög sem kallast Digital Millennium Copyright Act (DMCA) samþykkt í Bandaríkjum Norður-Ameríku en þau lög gerðu það saknæmt ef aðrir veittu aðgang að tækni sem hefði þann tilgang að brjóta afritunarvarnir.

DRM er umdeild og telja sumir slíka tækni nauðsynlega til að gæta hagsmuna höfundarrétthafa og listamanna og tryggja tekjur af sölu stafrænna verka en aðrir mótmæla því og segja að það sé ósannað að DRM hjálpi höfundarrétthöfum en valdi hins vegar ómældum óþægindum hjá löglegum kaupendum efnis og DRM sé tæki stórfyrirtækja til að hindra samkeppni og nýsköpun og hætta sé á að afritunarvarið efni verði að eilífu óaðgengilegt ef þjónustuaðili hættir. DRM-læsing geti einnig hindrað notendur í að gefa fullkomlega löglega hluti eins og að taka afrit af geisladiskum, lána efni og fá efni að láni í bókasöfnum og fá aðgang að efni sem ekki er höfundarréttur á.

Frjálsa hugbúnaðarstofnunin Free Software Foundation (FSF) hefur barist gegn slíkri aðgangsstýringu í baráttuherferðinni Defective by Design campaign og heldur því fram að það sé rangt að nota orð eins og réttindi um það sem er meira takmörkun á notkun og DRM standi fremur fyrir “digital restrictions management” og höfundarrétthafar séu að takmarka notkun á efni á vegu sem falla ekki undir núgildandi höfundarréttarlög og ættu ekki að vera í framtíðarlagasetningu. Stofnanirnar The Electronic Frontier Foundation (EFF) og FSF telja að notkun á DRM kerfum sé liður í að hindra samkeppni.

Tveir miklir baráttumenn fyrir netfrelsi hafa komið til Íslands og flutt hér fyrirlestra sem hafa haft áhrif á mín viðhorf og skilning á hvað mikið er í húfi að koma í veg fyrir að framleiðendur geti sett alls konar óumbeðnar viðbætur inn í stafrænt efni og tól sem við notum,  annar er Benjamin Mako  og hinn er Richard Stallman.  Mako flutti hér erindi um Antifeatures og núna er staðan þannig að í sjálfan kjarna Internetsins, forritunarstaðalinn HTML5 eru uppi hugmyndir um að setja inn DRM til að þóknast höfundarrétthöfum og öðrum sem vilja ráða hvernig við notum efni.

Í tilefni dagsins byrjaði ég á grein um DRM á íslensku wikipedia.

Posted in Uncategorized

„…enda titlaður öryrki, þó ekki vegna þess hve hratt ég yrki…“

Titillinn er fenginn að láni frá Einari Má Guðmundssyni og kemur úr bókinni Englar alheimsins sem vill svo til að er uppáhalds bókin mín. Hún er í uppáhaldi hjá mér því hún fer mjúkum höndum um ofboðslega erfiðan sjúkdóm og lýsir honum á manneskjulegan hátt. Ég tel það vera ástæðuna fyrir því að bókin hefur orðið jafn vinsæl og raun ber vitni því ef sannleikurinn yrði settur fram ósnyrtur og snurfusaður myndu fáir hafa úthald í að lesa um kjör og aðstæður þeirra sem slást við erfiða geðsjúkdóma eins og Páll í Englunum.

Ég velti því fyrir mér hvers vegna við erum hrædd við sannleikann og viljum síður fá hann framan í okkur óritskoðaðan. Kannski er það vegna þess að öryrkjar búa í okkar nútíma 2013 þjóðfélagi við mjög slæm kjör, kjör sem við viljum helst ekki horfast í augu við að viðgangist? Kannski er það vegna þess að marga öryrkja langar til að byrja að vinna aftur en þora því ekki þar sem þeir vita ekki hvort þeir hafa úthaldið sem til þarf, en ef þeir fara aftur á vinnumarkaðinn og verða að hætta aftur þá geta þeir orðið fyrir mikilli skerðingu og okkur þykja þær aðstæður ómanneskjulegar? Kannski er það vegna þess að okkur þykir betra að stinga öllu saman bara undir kodda eða á bak við hurð og horfast ekki í augu við blákaldan veruleikann og raunverulegar aðstæður fólks?

Ég hef kíkt undir koddann og á bak við hurðina og ég verð því miður að segja að sannleikurinn er ekki frýnilegur. Að tala við fólk sem lepur dauðann úr skel en hefur mikinn vilja til að standa sig og vera þátttakendur í þjóðfélaginu  og getur það ekki sökum lélegs kerfis getur verið mjög erfitt. Að vita til þess að það er fólk sem á ekki fyrir mat er mjög dapurlegt. Að reyna að horfast í augu við að mjög stór hluti af þjóðfélaginu hefur sama sem gleymst í allri umræðu er átakanlegt.

Málefni öryrkja, málefni eldri borgara, Tryggingastofnun og heilbrigðiskerfið í heild sinni eru mín mál. Ég kalla þau mín mál því ég hef brennandi áhuga á þeim. Svo brennandi áhuga að ég er ekki hætt þótt ég hafi ekki farið inn á þing í þetta skiptið. Ég ætla mér að leita að upplýsingum, safna saman gögnum og finna leið til að koma þessum málum í betra horf.

Fyrsta skref er að finna leiðir til að breyta tekjutengingunni. Ég trúi að virkir einstaklingar séu ánægðari einstaklingur og það sé til hagsbóta fyrir alla að hjálpa fólki af stað aftur. Ég skil ekki hvers vegna ráðamenn trúa ekki því sama og ég í þessum efnum en ég vona að þið hjálpið mér að sannfæra þá. Ég bið því alla öryrkja og eldri borgara, sem hafa tækifæri til þess, að senda mér söguna sína og ég ætla að taka þetta saman. Netfangið er hildur@piratar.is

Stöndum saman, berjumst saman!

Posted in Uncategorized