Uppgjör

Ja hérna hér. 

Þetta var ótrúlega skemmtilegt. Ég hefði aldrei átt von á því að það gæti verið gaman að vera í framboði, en það var ótrúlega skemmtilegt að eiga allskonar samtöl við fólk með allskonar skoðanir og allskonar drauma og væntingar. Það var ótrúlega skemmtilegt að taka þátt í samtölum á opinberum vettvangi með forystufólki hinna framboðanna, og ég vona að þeim gangi öllum mjög vel í framhaldinu. En umfram allt var gaman að vera hluti af nýju alþjóðlegu stjórnmálaafli sem kom inn í umræðuna sem, að margra mati, hálfgerður brandari, og sanna að við værum miklu meira en það.

Píratar náðu fínum árangri í þessum kosningum. Þrjú þingsæti kunna að virðast lítið, en þegar litið er á það hvað annað við gerðum í þessum kosningum er margt áhugavert. 

Fyrst: hvað fór úrskeiðis? Við vorum með 6.3% nokkuð áreiðanlega í öllum skoðanakönnunum síðstu vikuna, og risum alveg upp í 9% á tímabili. Það sem klikkaði var helst tvennt, held ég. Í fyrsta lagi voru nákvæmlega tveir í okkar flokki sem höfðu reynslu af stjórnmálum, og ákveðnar náttúrulegar takmarkanir á því hversu mikið þau gátu ausið úr sínum viskubrunnum. Við þurftum því að gera nokkur byrjendamistök hér og þar, því við erum alveg óttalega mannleg. Í öðru lagi urðum við kosningahegðun að bráð: ungt fólk myndaði kjarnann okkar, og þótt margir hafi mætt og kosið þá virðist kjörsókn ungra hafa verið minni en æskilegt hefði verið. Þá er það líka þannig að fólk hefur tilhneygingu til að verða íhaldssamara þegar það kemur í kjörklefann, og velja þá frekar það sem þau völdu síðast. Allt af þessu var fyrirsjáanlegt, og ekkert af þessu er neitt til að skammast sín fyrir. Svona gerist þetta.

Þetta tvennt var þó nauðaómerkilegt í samanburði kosningakerfið. Þessar kosningar voru sem skólabókardæmi á alla helstu galla kosningakerfisins: 5% mörkin, engin forgangskosning heldur bara einföld X eins og við værum á 14. öld, engir möguleikar á persónukjöri, og svo framvegis. Svo var svo margt í ólagi með framkvæmd kosningana að það mætti skrifa um það stutta bók. Það verður reyndar gert – Píratar eru að útbúa samantekt núna.

En það er merkilegt að við keyrðum kosningabaráttu nær algjörlega án auglýsinga í hefðbundnum fjölmiðlum – aðeins nokkrar, þá aðallega í héraðsfjölmiðlum á lokametrunum. Fyrir mestan part nýttum við okkur bara víðtækt net stuðningsmanna til að magna upp náttúrulega umræðu. Þetta geta ekki allir flokkar gert. Eins og Doc Searls og David Weinberger bentu á eru markaðir samtöl, og fólk tekur ekki þátt í samtölum ef því finnst vera talað niður til sín. Hefðbundin stjórnmál þurfa að læra að tala eins og mannverur. Sumir, til dæmis Katrín Jakobsdóttir, sem er klárlega einn af mínum uppáhalds íslenskum stjórnmálamönnum, kunna það – en mér finnst agalegt hvað það eru mörg vélmenni í sumum flokkum. Í kosningabaráttunni þegar fulltrúar framboðanna hittust voru langsamlega flestir mjög vinalegir og skemmtilegir, en það voru fyrst og fremst tveir menn sem voru kaldir á manninn og óvinalegir. Þeir hafa sennilega ekki einusinni áttað sig á því sjálfir. Við eigum eftir að taka saman heildarkostnað við kosningabaráttuna, en mér skilst að hún skagi rétt upp fyrir þrjár milljónir, með starfsmannakostnaði.

Við erum líka fyrsti flokkur Pírata til að ná fólki inn á þjóðþing. Undanfarna tvo daga hafa rignt yfir okkur hamingjuóskir að utan, og það hefur verið fjallað mjög mikið um þennan sigur Pírata í alþjóðlegum fjölmiðlum. Þetta þýðir að nú eru Píratar með kjörna fulltrúa í 7 löndum, og stefna hraðbyr á fleiri sigra um alla Evrópu og víðar á komandi árum.

Píratar náðu auk þess að breyta umræðunni verulega. Á tímabili gat helst enginn opnað á sér munninn í umræðunni án þess að minnast á einhvern hátt á málefnin sem Píratar lögðu áherslu á: gagnsæi, þátttökulýðræði, og sveigjanlega smáiðju. Alveg sama hvað gerist í framhaldinu verða þessi umræðuefni inní þjóðmálaumræðunni – að minnsta kosti meðan Píratar eru á Alþingi.

Ég læt það ógert að lýsa minni skoðun á niðurstöðum kosninganna að öðru leyti þar til búið er að mynda ríkisstjórn, nema hvað ég skal segja þetta: Þetta valdi fólk, þetta var lýðræðisleg niðurstaða, óháð kostum og göllum kosningakerfisins. Ef einhver verður á einhverjum tímapunkti á komandi kjörtímabili ósátt við niðurstöðu kosninganna er nákvæmlega tvennt í boði: að kvarta og kveina eins og vanalega yfir því hvað stjórnvöld eru hrikaleg og láta eins og þetta sé eitthvað sem kom fyrir án þess að þau hafi haft neitt um það að segja, eða að taka þetta til sín og hugsa sinn gang.

 

Nú smá persónulegt:

Á undanförnum dögum hafa rosalega margir, úr öllum flokkum, sagt við mig að þeir vildu gjarnan að ég hefði komist inn á þing, og margir hafa spurt mig hvað ég mun gera næst. 

Meðan ég þakka það traust sem mér er sýnt, þá er ég alveg sáttur við niðurstöðuna fyrir mitt leyti. Ég hef ekki mikla þörf fyrir að fara á Alþingi persónulega, og var framboð mitt ekkert annað en tilraun til að láta gott af mér leiða á þessum innlenda vettvangi. Það að vera ekki fastur á Alþingi næstu fjögur ár þýðir bara að ég hef meiri sveigjanleika og frelsi til að halda áfram að gera áhugaverða hluti á alþjóðlegum vettvangi – þar sem ég uni mér best.

Ég er með fulla dagskrá næstu vikur. Strax á morgun fer ég til London og verð með erindi í Royal Society um framtíð tækniþróunar og valds. Næsta dag fer ég til Kostaríka á World Press Freedom Day hátíðarhöldin sem UNESCO standa fyrir, en þar mun ég kenna rannsóknarblaðamönnum að verja öryggi sitt. Því næst til Ungverjalands, þar sem ég mun vera með fyrirlestra um þátttökulýðræði og reyna að hjálpa aðeins til varðandi þeirra ógurlega lýðræðishalla. Þegar því öllu er lokið verður væntanlega komin mynd á hvernig hlutirnir verða heima á Íslandi og ég get tekið frekari ákvarðanir um framhaldið.

Ljóst er að stofnunin sem ég hef rekið undanfarin ár – IMMI – er farin að sakna þess að hafa framkvæmdarstjórann sinn í vinnu. Nú eru vonandi nýjir styrkir að koma þar inn og mikil uppbyggingarvinna framundan. IMMI hefur veitt ýmsum ríkisstjórnum aðhald, haft áhrif á þróun mála á Íslandi og í Evrópusambandinu, og verið virkur þátttakandi í ýmsum mikilvægum umræðum sem hafa verið að eiga sér stað á heimsvísu. Okkur vantar nú að tryggja stofnuninni aukið fjármagn, fjölga starfsfólki, og spýta í lófana, því upplýsinga- og tjáningarfrelsi á undir högg að sækja sem aldrei fyrr. En IMMI er ekki pólitískt háð stofnun, og ég þarf að gera ýmislegt til að tryggja að þátttaka mín í Pírötum hafi ekki neikvæð áhrif á stofnunina.

Ég hef líka áhuga á að sinna skrifum betur á næstunni: nú er ég kominn í ráðgjafarráð tímaritsins Arc, sem ég hef verið að skrifa fyrir, en þar er ég í hópi með helstu vísindaskáldsögurithöfundum okkar tíma – bókstaflega fólkið sem mótaði mína hugsun á uppvaxtarárunum. Það verður gaman að skrifa meira þar, og líka fyrir önnur tímarit. Það er líka ágætis slatti af fræðigreinum sem mig langar að klára á næstu mánuðum, meðal annars um öryggisskilyrði fyrir rafrænt lýðræði, um þróun fjarskiptalöggjafar, og um valddreifingu. Þetta verður helskemmtilegt!

Þátttaka mín í Pírötum mun samt halda áfram, en hugsanlega með aðeins breyttu sniði. Það eru flokkar Pírata um allan heim sem eru að skipuleggja sig og reyna að koma sér á framfæri. Samhliða því að vinna í innra starfi íslenskra Pírata og aðstoða þingflokk Pírata eins mikið og ég get hér á Íslandi gæti verið að ég leggi svolitla vinnu í að styðja og styrkja flokka Pírata víðsvegar í Evrópu, sem ætla sér í sameiginlegt framboð til Evrópuþings á næsta ári. Ekkert er svosem ákveðið í þessu ennþá, en það eru ýmsir möguleikar í boði.

Hvað annað gerist veit ég ekki. Það er af nógu að taka. Mér leiðist aldrei.

Posted in Uncategorized

Lýðræðið er gulls ígildi – nýtum réttinn!

Jæja, þá er fyrstu kosningabaráttunni minni lokið. Á síðustu þremur vikum hef ég keyrt 5000 kílómetra, talað við marga mismunandi einstaklinga, hlegið, fellt tár og fundið hvað neyðin er hræðileg í þjóðfélaginu.

Ég býð mig fram til að fá tækifæri til að breyta stöðu eldriborgara, öryrkja og taka til í heilbrigðiskerfinu ásamt því að hjálpa Pírötum í þeim málum sem oddivitarnir berjast fyrir að hverju sinni, því við höfum öll okkar sérstöðu. Ef mér tekst ætlunarverk mitt og ég get breytt lífi einhverra þá er þessi slagur þess virði og ég ætla mér ekki að gefast upp.

Ég hvet alla til að mæta á kjörstað. Þeir sem treysta okkur Pírötum bið ég að setja X við Þ, aðra hvet ég til að mæta engu að síður því lýðræðislegur réttur okkar er gulls ígildi og hann má ekki vanvirða.

Mín kosningaloforð eru kannski ekki jafn mikilfengleg og stóru flokkana en ég ætla mér að standa við þau: Ég lofa því að berjast fyrir réttindum eldri borgara og öryrkja, ég lofa því að reyna að taka til í heilbrigðiskerfinu og bæta þjónustuna, þar ég lofa því að hlusta á fleiri en bara sérfræðinga þegar ég leita mér upplýsinga og ég lofa að gefast ekki upp.

Komist ég á þing þá verður mitt fyrsta verk að setja upp svæði á vefnum þar sem fólk getur fylgst með störfum mínum, þeim gögnum sem ég hef aflað og öðrum upplýsingum sem þjóðina varðar.

Takk fyrir allt saman!

Hildur Sif Thorarensen oddviti Pírata í NV

Posted in Uncategorized

Framsóknarflokkurinn og afstaða Pírata til skuldamála heimilanna

Það er auðvelt að hrauna yfir aðra og það sem þeir standa yfir, sérstaklega ef maður er oft ósammála þeim. Það er hins vegar erfiðara en gagnlegra að fara yfir það sem er gott í þeirra fari. Þetta er síðasti hlutinn af pistlaröð af því sem mér þykir jákvætt hjá hinum flokkunum og hvað að hvaða leiti þeir og Pírata geta náð saman. Í þetta skipti er það Framsókn.

Framsóknarflokkurinn er einn seigasti flokkur sem til er á landinu. Hann er eldri en erfðasyndin og hefur trekk í trekk náð að aðlaga sig nýjum aðstæðum. Upprunalega var flokkurinn stofnaður sem einhverskonar bændaflokkur og flokkur landsbyggðarinnar og naut lengi hins gríðarlega munar á atkvæðavægi sem ríkti á milli sveitar og borgar áður en kerfið var uppstokkað (jafnvel þótt það virðist stefna í það í þessum kosningum að þær aðstæður geti komið aftur upp).

Eftir árin í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum var fylgi hans nánast búin að þurrkast út. Samfélagið hafði breyst og flokkurinn hafði yfirbragð sveitamennsku og spillingar, hann virtist yfirleitt vera tilbúinn að lofa öllu sem því hann hélt að þú vildir heyra en svo sinnti hann sjaldnast neinu öðru en beinum sérhagsmunum þegar á hólminn var komið.

Þvílík endurnýjun lífdaga sem útlit er fyrir að Framsóknarflokkurin muni ganga í gegnum í þessum kosningum! Stór hluti kjósenda virðast ætla að gefa Framsókn annað tækifæri. Eftir að hafa rætt við fólk sýnist mér það vera aðallega tvennt sem heillar við Framsóknarflokkinn.

Á fyrsta lagi var Framsókn eini flokkurinn af fjórflokknum sem algerlega skipti um fólk eftir hrun. Í öðru lagi lofar flokkurinn almennri skuldaniðurfærslu fyrir heimilin í landinu, eitthvað sem hann ætlar að ná fram með því að semja við erlenda kröfuhafa um skuldaniðurfærslu.

Hvort sem þessi áætlun er raunhæf eða ekki þá má Framsóknarflokkurinn eiga það að hann gerir að aðalmálefni sínu það sem virðist raunverulega vera meðal helstu vandamála fyrir íslensk heimili í dag. Auðvitað kann fólk að meta slíkt og við í Pírötum lítum ekki fram hjá því.

Við trúum ekki á töfralausnir en í sem allra stystu máli felst afstaða Pírata til skuldamála heimilanna að venjulegt fólk skal ekki gert gjaldþrota vegna bankahruns sem lánveitandi þeirra orsakaði.

Sjá nánar hér: http://www.piratar.is/stefnumal/skuldamal-heimilanna/

b
Posted in Uncategorized

Allt þetta mun fá sinn kafla í sögubókunum

Þegar fólk erlendis beinir athyglinni að íslenskum stjórnmálum læðist oft kjánahrollur um mann. Manni finnst eins og það hafi miklar ranghugmyndir um stöðuna og að erlendir fjölmiðlar keppist við að fegra ástandið. Maður er spurður að hlutum eins og hvort við höfum ekki verið að búa til “crowdsourced” stjórnarskrá og hvort það sé ekki rétt að Ísland haf fangelsað alla spillta bankamenn… og maður svarar að ástandið sé nú ekki svo einfalt.

Engu að síður; það er alveg ótrúlegt hversu árin eftir hrun hafa verið mikil umbreytingarár í íslensku lýðræði. En þegar við segjum að Íslendingar séu vitlausir og gleymi fljótt þá er það ekki alveg sanngjarnt.

Fólk hefur svo sannarlega reynt að koma breytingum í gegn innan þess ramma sem stjórnkerfi okkar býður upp á. Ísland hefur verið einhverskonar lýðræðisleg tilraunstofa seinustu ár og mikið um að hlutir sem verið er að gera í fyrsta skipti. Sumt gott. Sumt vont. Allt í fyrsta sinn. Ég ætla að nefna nokkur dæmi:

Fyrsta ríkisstjórnin fór frá völdum beinlínis vegna þrýstings frá almenningi
Fyrsta minnihlutastjórnin
Fyrsta hreina vinstristjórnin
Fyrsti kvenforsætisráðherra (og fyrsti samkynhneigði leiðtoginn)
Fyrsta skiptið sem fjórflokkurinn fær ALGERA útreið í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík
Fyrsti (hálf) anarkíski borgarstjórinn
Fyrsta skipti sótt um í ESB
Fyrsta skiptið sem Alþingi setur saman rannsóknarnefnd til að gera upp algert hrun.
Fyrstu tilraunirnar til að breyta stjórnkerfinu utan frá (mauraþúfan og þjóðfundirnir)
Fyrsta skiptið sem forseti vísar ákvörðun Alþingis til þjóðaratkvæðigreiðslu (tvisvar!)
Fyrsta skiptið sem landsdómur er kallaður saman.
Fyrsta skiptið sem fyrrverandi ráðherra er dæmdur á pólitískum forsendum.
Fyrsti forsetinn til að vera kosinn í fimmta skiptið.
Fyrsta persónukjörið á landsvísu (stjórnlagaþingskosningarnar)
Fyrsta stjórnlagaþingið/stjórnlagaráðið í sögu lýðveldisins

Allt þetta mun fá sinn kafla í sögubókunum.

Þetta er nýr ískaldur veruleiki í íslenskum stjórnmálum. Reynsla fjórflokkanna seinustu 60 ára er ekki jafn mikils virði. Sú pólitík sem þeir stunda er ekki sú pólitík sem er orðin að veruleika í dag, það er búið að sanna að allt getur gerst. Þetta er ekki búið. Næsta kjörtímabil verður jafn umrótasamt. Sama hver niðurstaðan verður eftir kosningar þá mun næsta kjörtímabil mótast af nýjum viðmiðum.

b
Posted in Uncategorized

Ég kvíði því að eldast

Ég var svo heppin að alast upp hjá ömmu minni. Amma er bóndakona af Hrauni á Skaga sem vann sem vinnukona um sveitirnar frá Skagafirði að Borgarnesi og seinna sem póstburðarkona í Reykjavík. Hún er harðdugleg, gefst aldrei upp þótt á móti blási og tekur lífinu með bros á vör. Amma er fyrirmyndin mín.

Ég kalla það heppni að hafa fengið tækifæri til að umgangast eldra fólk þegar ég var barn því í dag er það ekki sjálfgefið og sjaldgæfara en hitt. Viðhorfið gagnvart eldra fólki er neikvætt, svo neikvætt að stundum finnst mér eins og við bíðum eftir því að það fari yfir móðuna miklu því þangað til er það hreinlega fyrir okkur. Við heyrum talað illa um gamlan karl með hatt í umferðinni eða konu sem telur klinkið sitt á kassanum Bónus. Skilningurinn og umburðarlyndið er ekkert og þetta virðingarleysi hefur smitast út í stjórnsýsluna og kemur þar fram í bótaskerðingu og réttleysi.

Kjör eldri borgara versna ár frá ári og þjóðfélagið stuðlar að einangrun og útskúfun. Eldri borgarar hitta sjaldnast yngra fólk nema þá sem starfsmenn á dvalarheimilum eða náskylda ættingja. Öllum brögðum er beitt til að auka á óréttlætið, tekjutenging við bæturnar gerir það að verkum að fólk sem vill vinna getur ekki gert það með góðu móti og hættir því að sjást í þjóðfélaginu. Ríkisstarfsmönnum eftir 70 ára er bannað að vinna nema þeir séu alþingismenn, ráðherrar eða forsetinn því sá hópur er auðvitað öðrum æðri. Æskudýrkunin er orðin svo mikil að fólk eftir fimmtugt á í vandræðum með að fá vinnu aftur missi það hana. Ástandið er hræðilegt og fáir virðast láta það sig varða.

Árið 2005 skrifaði ég ritgerð sem ber nafnið Ofbeldi gegn öldruðum þar sem ég tala meðal annars um þjóðfélagslegt ofbeldi gegn eldri borgurum. Það eru 8 ár síðan og þá var engin kreppa, engar yfirgnæfandi þjóðarskuldir en samt voru kjör þessa hóps mjög slæm og margir lifðu við sára fátækt og höfðu ekki efni á að bíta og brenna. Við þurfum að fara að horfast í augu við að gengið hefur verið á eldri borgara mikið lengur en við viljum viðurkenna. Við þurfum að horfast í augu við að níðst hefur verið á þessu fólki því við komumst upp með það þar sem það kvartar ekki og sækir ekki rétt sinn. Við þurfum að hætta að eyðileggja framtíð okkar og nútíð fólksins sem lagði grunninn að þjóðfélaginu okkar. Þetta er ekki mannúðlegt, þetta er ekki réttlætanlegt og nú er nóg komið!

Það sorglegasta er að vandamálið hefur ekkert með skort á fjármagni að gera heldur skort á áhuga. Tekjutenging þeirra sem hafa það verst er kostnaðarsöm fyrir þjóðfélagið. Hún stuðlar að einangrun sem veldur veikindum og kostnaði fyrir heilbrigðis og félagslega kerfið. Hún kemur í veg fyrir að fólk sem langar að vinna vinni og skili tekjuskatti en ef það vinnur þá er eina leiðin að vinna svart.  Fátækt er rándýr fyrir þjóðfélagið. Króna á móti krónu segja þeir og telja það í lagi. Aldraðir hafa það ágætt segja þeir og hafa aldrei lifað við skort.

Ég get ekki lofað árangri en ég mun reyna. Ég get ekki lofað áhuga annarra en ég mun vera ákveðin og beita rökum. Ég get ekki lofað að ég mæti ekki mótspyrnu en ég mun ekki gefast upp. Þetta er mér hjartans mál og það hefur ekkert með þessar kosningar að gera. Ég vona að þessi hugleiðing mín veki upp reiði hjá fleira fólki en mér og við sjáum betri tíð á komandi árum.

Takk fyrir mig.

Posted in Uncategorized

Þegar lítill neisti glæðir líf

Það er erfitt að gera sér í hugarlund hversu átakanlegt og niðurrífandi það er að geta ekki eignast börn án hjálpar. Rannsóknir sýna að álagið við baráttuna jafnist á við álagið sem fylgir því að berjast við lífshættulega sjúkdóma. Það er því ekki skrítið að við sem höfum ekki upplifað þessa reynslu á eigin skinni eigum erfitt með að setja okkur í þessi erfiðu spor.

Þegar par stendur frammi fyrir því að þurfa að takast á við ófrjósemi þá tekur við langt og strangt ferli. Konan þarf að sprauta sig með hormónum og fara reglulega í kvennaskoðun svo ekki sé talað um alla vanlíðanina og áhyggjurnar sem ferlinu fylgir. Það er því enginn sem myndi leggja slíkt á sig nema nauðsynlega þurfa á því að halda.

Í dag kostar meðferðin 370-450 þúsund eftir því hvað þarf að gera og fyrsta meðferðin er ekkert niðurgreidd, auk þess bætist við ýmis annar kostnaður eins og lyfja og ferðakostnaður, sem getur hlaupið á tugum þúsunda. Það eru því margir sem ekki geta nýtt sér þessa lausn sökum efnahagslegra aðstæðna. Heildarkostnaður við tæknifrjóvganir á árinu 2011 voru rúmlega 145 milljónir en þar af greiddu sjúklingar um 83 milljónir sjálfir. Á öllum Norðurlöndunum tekur ríkið að jafnaði þátt í eða niðurgreiðir alveg þrjár frjósemismeðferðir á hvert par. Það er því merkilegt að stjórnvöld á Íslandi hafi sett það fyrir sig að borga 100 milljónir á ári fyrir svo mikilvæga þjónustu þegar til samanburðar má nefna að Þjóðleikhúsið kostar 700 milljónir árið 2013 og rekstur Ríkisútvarpsins 3,2 milljarða.

Það sem gleymist jafnan að nefna í þessu samhengi er að fjárhagsáhyggjur geta valdið streitu sem minnka líkur á þungun og eykur líkur á fósturláti. Árangurslausar meðferðir  og ítrekað fósturlát ásamt aukinni streitu auka líkur á andlegri vanlíðan með tilheyrandi kostnaði fyrir heilbrigðiskerfið. Þar að auki geta fjárhagsáhyggjur ofan í erfiðleika við getnað leitt til hjónaskilnaða og kostnaðar fyrir félagslega kerfið. Ofan á þetta erum við að tala um skattborgara framtíðarinnar svo þetta litla framlag ríkisins mun vera greitt mörgum sinnum til baka.

Ég á erfitt með að átta mig á því hvers vegna það hefur verið tregða í íslenska kerfinu varðandi niðurgreiðslu á frjósemisaðgerðum og tel raunar ástæðuna vera skort á upplýsingum. Við megum ekki detta í það far að horfa einvörðungu á kostnaðinn við eitthvað en gleyma ábatanum. Við megum ekki gleyma að hamingjusamt þjóðfélag er líklegra til að stuðla að auknum hagvexti en óhamingjusamt. Það er þess vegna sem við Píratar ætlum að beita okkur í þessu máli og koma því í gegn á komandi þingi að a.m.k. þrjár meðferðir, sem leiða til uppsetningar fósturvísis, verði fríar fyrir par eða einstæða konu óháð fyrri barneignum, óháð kynjasamsetningu parsins og óháð búsetu.

Posted in Uncategorized

Draumurinn um lýðræðið

Ein af mínum uppáhalds minningum er þegar ég horfði á sólarupprásina, borðandi banana á Immam square í Esfahan. Þetta var sumarið 2011, þegar ég fór í langferð um Tyrkland, Íran og Georgíu.

immam

Það var einhver undursamleg friðsæld á torginu. Ekki sálu að sjá, en eftir því sem sólin steig hærra á loft, komu konur og menn á stjá, til að stunda morgunleikfimi eða fá sér göngutúr við bakka gosbrunnsins. Borgin var að vakna, sólin hitaði þurrt eyðimerkurloftið eftir því sem leið á og lyktin af mengun og grasi barst fyrir vitum okkar.

Á þeim tíma hafði ég aðeins verið tvær nætur í Íran. Þetta var fyrsti dagurinn sem ég sá renna upp sem var eðlilegur. Fólk sem var að lifa lífinu og ræða um mál líðandi stundar. Það var einhvernveginn allt svo eðlilegt. Afslappað miðað við hasarinn á strætum Tehran.

Green RevolutionNúna, fyrir skömmu sendi vinur minn mér þessa mynd. Þetta er torgið þar sem ég sá Esfahan vakna árla morguns, þar sem sólin byrjaði hægt og rólega að kyssa vanga bæjarbúa þar sem þeir fóru í morgungönguna. Þessi mynd er tekin 2009, þegar græna byltingin svokallaða átti sér stað í kringum kosningarnar í Íran þar sem fólk flykktist út á götu og reyndi að breyta einhverju. Það reyndi að fá það lýðræði sem það á skilið, sem því var lofað með byltingunni 1979.

Fólk þarna átti drauma og átti von, eitthvað sem er erfitt að finna nú til dags í Íran. Þarna tóku milljónir manns sig saman um það að standa saman og flykkjast út á götu í nafni máttar lýðsins. Það var ekki nóg.

Sumarið 2011 var ég á ferðinni í Íran í fyrsta skiptið. Fólk spurði okkur hvað væri að frétta af ástandinu í Egyptalandi, hvernig málum væri háttað eftir Arabavorið. Það eygði að það væri ekki svo langt í land með að þau, líka, gætu orðið eins og Evrópa eða Ameríka, með lýðræðislega stjórn og ríkisstjórn sem þau þyrfti ekki að hræðast. Það var von.

Nú í sumar var stemningin önnur meðal Írana. Vonleysisleg depurð ríkti þegar heimsmálin voru rædd. Arabavorið hafði bara skilað af sér annarri ógnarstjórn á borð við Khomeini. Öfgar í nafni trúar voru stöðugleiki miðað við borgarastyrjöld.

Sættum okkur ekki við öfgar í nafni trúar til þess að fá ímyndaðan stöðugleika. Nýtum atkvæði okkar, það kerfi sem við búum við og sjáum til þess, í sameiningu, öll sem eitt að uppgjör hrunsins er ekki búið. Við þurfum breytingu. Við þurfum að nýta okkur lýðræðið, mæta á kjörstað, kjósa og ekki velja öfgar í nafni trúar um að töfralausnir séu mögulegar. Það eru ekki til neinar töfralausnir.

Ég ætlaði aldrei að taka þátt í stjórnmálum. Ég ætlaði aldrei að láta hafa mig út í þessa dellu, vitleysu og málefnaleysi sem stjórnmál eru, sér í lagi á Íslandi, að mér fannst. En ég hef skipt um skoðun.

Það eru forréttindi að búa í samfélagi eins og á Íslandi. Þegar við tölum um kúgun, mismunun eða ójafnrétti þá get ég ekki annað en hugsað um það hversu mikið vesen það var að passa að hárið værið hulið með hijab fyrstu dagana áður en það komst upp í vana. Það að missa sjálfstæðið vegna þess að ég var allt í einu kona, en ekki manneskja.

Það eru forréttindi að fá að búa í samfélag eins og á Íslandi. Það eru forréttindi að fá að hafa áhrif, fá að kjósa og fá kosningar sem eru heiðarlegar. Mér finnst vera heiður að fá að taka þátt í byggingu þess samfélags sem ég bý í.

Ég ætlaði aldrei að verða stjórnmálamaður. En hér er ég og ég mun gera mitt besta.

Posted in Uncategorized

Breyting á lyfjakostnaði

Breyting verður gerð á niðurgreiðslum ríkisins á lyfjum til einstaklinga þann fjórða maí næstkomandi. Þetta nýja fyrirkomulag mun reynast hagstætt fyrir marga sem þegar greiða háar fjárhæðir fyrir lyf. Þetta mun aftur á móti auka verulega kostnað hjá þeim sem borga minna fyrir lyf og mun þá fyrst og fremst byrjunarkostnaður aukast. Þetta hefur í för með sér að kostnaður lyfja við kvillum á borð við gláku, sykursýki og krabbameini eykst til muna. Mikilvægt er að fólk þurfi ekki að borga of mikið fyrir þessi lyf og veldur þessi kostnaðaraukning/niðurskurður þvi mörgum sjúklingum eðlilega áhyggjum.

Síðast þegar ég vissi var langt í frá ódýrt að fá krabbamein. Ég er meðlimur í Víkingafélaginu Einherjar og einn félagi okkar féll frá nýlega eftir langa, erfiða og kostnaðarsama meðferð við sjúkdómnum. Ekki eru allir sem lenda í slíkum veikindum það heppnir að hafa svo marga sem eru til í að styrkja þá og styðja í gegnum veikindin. Hvernig ætli öryrkjum og öldruðum gangi að bera aukinn lyfjakostnað? Fyrir þá sem minnst mega sín getur greiðsla upp á fimmþúsund krónur aukalega á mánuði verið munurinn á því að komast í gegnum mánuðinn og því að byrja að safna upp skuldum.

Heilbrigðiskerfið hefur átt undir högg að sækja vegna niðurskurðar undanfarin ár og ekki verður þetta til þess að bæta stöðu þess. Þessi niðurskurður gæti aukið enn frekar á kostnað samfélagsins eftir því sem sjúklingarnir hrannast upp. Aukinn kostnaður við að leita til læknis getur verið fráhrindandi fyrir þá sem hafa lítið á milli handanna. Þessir einstaklingar neyðast því oftar en ekki til að harka af sér alvarleg veikindi, yfirleitt með afar slæmum afleiðingum.

Talað er um að niðurskurðaraðgerðir ríksins séu komnar langt yfir þolmörk og að heilbrigðiskerfið sé í molum. Mjög brýnt er að snúa þessari þróun við. Hún er orðin hættuleg og gæti kostað okkur margfalt meira en það sem þegar hefur sparast í heilbrigðiskerfinu.

Posted in Uncategorized

Sjálfstæðisflokkurinn og atvinnustefna Pírata

Þetta er hluti af pistlaröð um það sem mér þykir jákvætt í fari annarra flokka og hvernig þeir ná saman með okkur í Pírötunum og nú er komið að Sjálfstæðisflokknum:)

Í mínum huga er sjálfstæðisflokkurinn fyrst og fremst flokkur atvinnulífsins… og það er frábært. Atvinnulífið er lífblóð þjóðfélags okkar og við þurfum að efla það á alla vegu. Þegar ég lít núna yfir kosningaloforð flokksins fyrir árið 2013 (2013.xd.is) þá mætti reyndar halda að þetta væri gleymt því að öll loforðin virðast vera einhverskonar speglun á lánalækkunarhugmyndum framsóknar. Það hvernig flokkurinn nálgast viðfangsefnið er þó mjög sjálfstæðisflokkslegt; hann vill skattalækkanir.

Minni samneyslu, meira einkaframtak. Að þessu leitinu til eru við Píratar ekki langt frá þeim. Píratar vilja frjálslyndi og sem minnst ríkisafskipti í líf fólks og við viljum öflugt atvinnulíf. Við erum e.t.v. ekki jafn hrifin af hugmyndinni um að risa stórar fyrirtækja samsteypur tröllríði efnahagskerfinu en við viljum að öflugt, rétthátt og blómlegt atvinnulíf sé hornsteinninn að hagvexti og nýsköpun í landinu. Við gerum okkur grein fyrir því að lang strærsti hlutinn af atvinnusköpun í landinu á sér stað hjá smáum og meðalstórum fyrirtækjum.

Stefnu okkar má í atvinnu og efnahagsmálum má sjá betur hér: http://www.piratar.is/stefnumal/atvinnu-og-efnahagsmal/

b
Posted in Uncategorized

Sjávarútvegur og byggðarstefna

Mér barst nýlega bréf frá nýstofnuðu Sambandi Sjávarútvegssveitafélaga (sem faðir minn skannaði inn og sendi mér til Kína:)). Í meginatriðum þá voru skilaboð bréfsins sú að hagræðing í sjávarútvegi hefur yfirleitt skilað sér í nettó hagnaði fyrir allt þjóðfélagið, en sá hagnaður hefur ekki verið jafnt dreifður, minni sjávarpláss hafa yfirleitt komið verr út fyrir vikið.

Auðvitað skapast við það ákveðin samfélagslegur vandi sem þarf að takast á við. Þessi samtök vilja að sjávarpláss fái hlut í veiðgjaldinu sem lagt var á nýlega. Mér finnst það ekki slæm hugmynd… upp að ákveðnu marki. Það þarf auðvitað fjármagn til að takast á við þann vanda sem blasir við um leið, en spurningin er hvert sé besta fyrirkomulagið til framtíðar.

Sum sveitafélög henta ákaflega vel fyrir sjávarútveg, og það gæti verið kostnaðarsamt að láta pólitískar ákvarðanir núna rústa byggð einhverstaðar þar sem ætti að vera augljóst að verður alltaf hagkvæmt að róa frá (stutt á mið, góðar hafnaraðstæður og svo framvegis).

Önnur sveitafélög eru í aðstöðu til að geta skipt um ham. Ég er Sandgerðingur og allur kvóti hvarf frá Sandgerði á tíunda áratuginum. Sandgerði var hins vega í ágætis aðstöðu til að gera ýmislegt annað: Höfnin liggur vel við og þjónustar báta allstaðar af landinu, mikið af fiskvinnslu er á svæðinu sem kaupir af bátum allstaðar af landinu, nálægðin við flugvöllinn hefur búið til nýja atvinnugrein sem er fiskvinnsla til að setja ferskan fisk beint í flug. Ásamt þessu er mikið af öðrum atvinnutækifærum, mikið er af iðnaðarstarfsemi sem þjónustar önnur sveitafélög á Suðurnesjum eða Reykjavík, en þéttleiki byggðar á Reykjanesi er kostur. Greiðar samgöngur (5-10 mínútur á milli byggðafélaga) hefur líka gert allt svæðið að einu atvinnusvæði. Auðvitað glímir Sandgerði við allskyns gríðarstór vandamál en fyrir svona Sveitafélög ætti að vera fullt af tækifærum til framtíðar, sérstaklega ef ríkið tekur þátt í því að auðvelda breytinguna.

Aftur á móti eru til þriðja tegundin af sveitafélögum; þau sveitafélög þar sem allar forsendur til byggðar eru brostnar. Þéttbýlismyndun á Íslandi er afskaplega ungt fyrirbrigði. Flest sveitafélög hafa aðeins verið til í nokkur ár (u.þ.b. eina eða tvær kynslóðir) af þeim þúsund sem byggð hefur verið í landinu. Við erum fædd á miklum breytingartímum og það ætti að vera ljóst að sumu leyti hefur byggðarmunstrið á 20. öld verið munstur umbreytinga. Þegar afi minn flutti til hins glænýja sveitafélags Sandgerðis og byggði þar hús þá yfirgaf hann heimabæ sinn fyrir Norðan. Kálfshamarsvík á Skaga. Ef maður kemur þar í dag blasir við tóftirnar af talsverðrir þyrpingu sveitabæja. Þarna var góð höfn og hafði myndast talsvert þéttbýli á þess tíma mælikvarða. Þarna ólst afi minn upp en um það leiti sem hann flutti til Sandgerðis þá var allt orðið tómt. Foreldrar hans fluttu á Akranes (annað nýtt sjávarpláss í uppsveiflu) og fljótlega voru engir eftir. Vissulega er sorglegt þegar heil byggð leggst í eyði. Þar fer forgörðum sögur og menning sem við munum ekki sjá aftur.

Á hinn bóginn, ef litið er á sögu Kálfshamarsvíkur sjáum við að byggðin þar var allsekki gömul. Byggð var að þéttast um það leiti sem afi var að fæðast og þarna var blómlegt mannlíf í u.þ.b. hálfan mannsaldur. Í stóra samhenginu hlýtur sú spurning að vakna hvort það hefði verið æskilegt að halda lífinu í þessari byggð. Halda henni á floti með styrkjum, einhverskonar frankenstein byggð. Hefði það verið gott fyrir mig að alast upp þar frekar en í Sandgerði? Er ekki í góðu lagi stundum að bera virðingu fyrir því sem tilheyrir fortíðinni, þykja vænt um það og varðveita það í minningunni en jafnframt leyfa framþróun og breytingum að eiga sér sinn gang? Þetta er allt hluti af þroskaferli þjóðfélags okkar.

b
Posted in Uncategorized