Einn lítill, tveir litlir, milljón Píratar

Hefurðu kynnt þér Pírata? Við erum hópur fólks sem vill gerbreyta því hvernig stjórnmál eru iðkuð á Íslandi – og alls staðar í heiminum því við erum alþjóðahreyfing. Við viljum að almenningur ráði því hvernig landinu er stjórnað og taki sjálfur ákvarðanir um það, eftir að hafa fengið vönduðustu fáanlegar upplýsingar. Við höfum búið til frumgerð á netinu að því hvernig svona lárétt lýðræði getur litið út. Mannréttindi og borgararéttindi eru mænan í okkar starfsemi. Gamla flokkspólitíkin  sem hingað til hefur alltaf þróast í sérhagsmunagæslu og klíkuskap er ekki eitthvað sem við getum sætt okkur við. Þingmenn eru í þjónustu þjóðarinnar, hvorki meira né minna. Píratar vinna með öllum þeim sem hafa góðar hugmyndir í þágu samfélagsins, studdar vönduðum upplýsingum, og  sem hafa viljann til að fylgja þeim eftir, hvort sem þær njóta dægurvinsælda í fjölmiðlum og á Alþingi eða ekki. Við viljum gott, sanngjarnt samfélag þar sem allir geta látið rödd sína heyrast. Við lofum aldrei upp í ermina á okkur en við lofum að fara vel með atkvæðið þitt. Lestu grunnstefnuna okkar á piratar.is og taktu þátt í að móta stefnu í ýmsum málum á x.piratar.is. Allir 16 ára og eldri geta skráð sig til þátttöku í Pírötum, þótt þeir séu í öðrum flokkum. Og hvert einasta atkvæði skiptir máli. Jafnvel þótt við komum bara einni manneskju að þá er hún á við tíu vegna baklandsins út um allan heim. En auðvitað viljum við koma sem flestum af okkar fólki að, því margar hendur vinna þarft verk. Vonandi verður þú með okkur í þessu. Mjór er mikils vísir en við viljum gjarnan fitna rækilega og fá fullt af atkvæðum því þannig aukast líkurnar verulega á því að við getum útbreitt og aflað fylgis stefnu okkar um gott samfélag sem við berum sameiginlega ábyrgð á..

Posted in Uncategorized

Hvað er ég að gera í Norðvestur kjördæmi

backandwhite

Ég hef svolítið orðið vör við að fólki finnist undarlegt að frambjóðandi í 3ja sæti í Norðvestur kjördæmi fyrir Pírata sé búsett í Reykjavík. Mig langar að svara þessu með nokkrum orðum, þó að ég búi á höfuðborgarsvæðinu eins og er þá hef ég eytt stórum hluta af mínu lífi á landsbyggðinni.
 
Þess vegna þekki ég vel hvernig er að búa úti á landi, hvernig er að þurfa að skrönglast yfir illfæra vegi eftir  nauðsynjum, til að leita læknishjálpar og annars þess sem maður þarf nauðsynlega á að halda.
 
Ég veit hvernig það er að eignast og ala upp börn úti á landi, það er ekki alltaf einfalt. Eitt af því sem margir standa frammi fyrir er að senda börnin sín að heiman 16 ára gömul til að þau geti haldið áfram að mennta sig. Margir gera sér ekki grein fyrir þeim gífurlega kostnaði sem fylgir þessu og hvað þetta er erfitt fyrir margar fjölskyldur.
 
Ég veit líka hvernig er að eiga hús úti á landi sem er varla seljanlegt, svona ef manni dytti í huga að flytja sig um set, þó ekki væri nema yfir í næsta bæ, og hvernig er að horfa uppá að vera atvinnulaus af því að það er enga vinnu að hafa í mínu bæjarfélagi.
 
Ég get ekki vitað nákvæmlega hvernig er að búa á hverjum stað fyrir sig í mínu kjördæmi, það getur enginn nema þeir sem búa á þeim stöðum. Þess vegna vil ég ekki koma fram og segja þessu frábæra fólki sem býr í þorpum og sveitum kjördæmissins hvernig ég vil leysa þeirra vandamál.
 
Það er komið nóg af því að sérfræðingar að sunnan, komi og tali fjálglega um hlutina og segi fólkinu sem býr úti á landi hvernig best er að lifa lífinu og hvað því sé fyrir bestu.
 
Ég vil hlusta ekki tala, ég vil fá að vita hvað fólkið í kjördæminu er að hugsa, hvaða vandamál eru stærst og hvernig þau sjá fyrir sér að best sé að leysa þau. Mig langar líka að fá að vita hvaða hugmyndir heimamenn sjá í atvinnumálum og hvað þarf til að koma nýjum fyrirtækjum af stað. Það er nefnilega þannig að heimafólk þekkir sitt heimasvæði best og veit oftast hvar tækifærin liggja og hvað þarfa gera svo hægt sé að hefjast handa.
 

Með þær upplýsingar að vopni get ég einbeitt mér að því að vinna að lausnum í samvinnu við heimamenn. Ég er langt í frá sérfræðingur í öllu, en ég hef vilja og getu til að gera vel og afla mér þeirra upplýsingar sem þarf til vinna þessa vinnu.

Með beinu lýðræði gefst fólki kostur á að taka þátt, í að móta stefnuna og að láta sína rödd heyrast sama hvar það býr, það er lykilatriði þess að við mótum samfélag þar sem allir sitja við sama borð. Bara það eitt og sér er góð ástæða til að vera Pírati.

 

Posted in Uncategorized

Pírata blogg

Hér undir muna framjóðendum Pírata gefast kostur á að vera með vef blogg ef þeir eru ekki með slíkt fyrir

Eftirfarandi Píratar eru komnir með blogg hér.:

Merkingarbærni

Þegar kosningar fara fram eru tveir valkostir í boði: að taka þátt, eða að taka ekki þátt. Þátttaka felst í því að mæta á kjörstað og gefa upp afstöðu sína, en þátttökuleysi felur í sér að sitja heima eða að mæta á kjörstað og skila auðu. Nú eru stjórnarflokkarnir og andstæðingar nýrrar stjórnarskrár að ræða um að svipta almenningi rétt til þátttökuleysis í þjóðaratkvæðagreiðslum um stjórnarskrárbreytingar.

Þetta er gert með því að láta það að taka ekki þátt öðlast sömu merkingu og að hafa tekið þátt og sagt nei. Afleiðingin af því er að ógreidd atkvæði munu standa gegn greiddum já-atkvæðum með sama mætti og önnur nei-atkvæði.

Það verður nánast ómögulegt að ná fram breytingum undir þessu fyrirkomulagi. Það er það sem sumir vilja, þrátt fyrir skýra afstöðu þeirra 70% kosningabærra manna sem nýttu sér sinn þátttökurétt í þjóðaratkvæðagreiðslunni núna í haust.

Svona fyrirkomulag er ekkert annað en árás á lýðræðið. Þetta eru frekar stór orð, en það hlýtur hver að sjá að það er ekkert lýðræðislegt við það að það sé mun erfiðara að segja “já” en “nei”.

Ímyndum okkur að þetta væru forsetakosningar með tveimur frambjóðendum, og búið væri að setja lög um það að það þyrfti 40% kosningabærra manna að styðja annan þeirra til að hann gæti orðið forseti, en annars myndi hinn vinna. Það væri nóg fyrir nei-gaurinn að skapa aðstæður þannig að fólk viti ekki almennt af því að það sé kjördagur (t.d. með því að minnka fjölmiðlaathygli á málinu) eða sannfæra fólk um að vera heima út af einhverju öðru (kannski heimsmeistaramót í einhverri íþrótt?) til að hinn gæti ekki unnið.

Þótt við séu ekki að tala um val milli fólks erum við að tala um val milli valkosta. Það að gera mismunandi kröfur fyrir samþykki mismunandi valkosta er ekki lýðræðislegt.

En þetta vilja formennirnir á Alþingi núna. Svei.

Posted in Uncategorized

Pólitísk snilligáfa

Ég hef nokkrum sinnum heyrt fólk kvarta yfir því að stefna Pírata sé of flókin fyrir almenning. Við notum víst of stór orð, eins og “gegnsæi” og “sjálfsákvörðunarréttur”. Mér finnst ekkert að því að hafa smá trú á leshæfileika almennings. Hinsvegar lenti ég sjálfur í smá lesörðugleikum í gær.

Þegar ég hafði lesið grein Heiðu Kristínar Helgadóttur í Fréttablaðinu á föstudaginn, sem bar yfirskriftina “Má bjóða þér Bjarta framtíð?” lagði ég frá mér blaðið í smá stund og reyndi að átta mig á skilaboðunum. Svo las ég hana aftur.

Svo í þriðja skiptið, og það fjórða, áður en ég komst að þeirri niðurstöðu að annaðhvort hlyti mér að hafa áskotnast bráðalesblinda á alvarlegu stigi, eða þá að þessi 665 orð hafi verið að mestu leyti merkingarlaus. Jújú, það var svo sem eitt og annað í þessu: smá æskuminning, smá sjálfshól fyrir að hafa náð að stofna tvo stjórnmálaflokka, og einhverskonar þjóðrembingsleg sjálfhverfa í lokin… en það getur varla verið að þetta hafi verið allt og sumt, er það? Greinar sem birtast í dagblöðum fjalla að jafnaði um eitthvað.

En þegar ég hugsa málið betur er þetta álíka merkingarbær grein og allt annað sem ég hef séð frá Bjartri framtíð. Heiða, sem hefur lýst sér sem “pólitísku undrabarni” virðist hafa áttað sig á því að það sé hægt að ná góðri kosningu án þess að leggja fram neinar staðfastar hugmyndir, svo lengi sem orðræðan er nægilega vel aðlöguð að sínum þörfum.

Orðræðuverkfræði er í mikilli uppsveiflu þessa dagana. Til dæmis hefur það farið í taugarnar á mér að talað er um Guðmund Steingrímsson og Róbert Marshall í flestum fjölmiðlum sem “þingmenn Bjartrar framtíðar”. Þetta er hreinlega ekki satt. Það er rétt að þeir eru báðir þingmenn, og það er rétt að þeir eru báðir meðlimir í Bjartri framtíð, en það gerir þá ekki að þingmönnum Bjartrar framtíðar neitt frekar en að það að vera meðlimur í Kiwanisklúbbi geri þingmann að þingmanni Kiwanis.

Á Alþingi eru þingflokkar sem eru búnir til samkvæmt þingskaparlögum og þingmenn sem tilheyra þingflokki eru þingmenn þess þingflokks. Guðmundur og Róbert eru þingmenn utan flokka þar til þessu kjörtímabili lýkur, nema þeir gangi til liðs við annan þingflokk eða stofni nýjan.

En þetta virkar. Þrátt fyrir að liðsmenn þessa ágæta flokks hafi ekki lagt fram neinar áþreifanlegar hugmyndir um hvernig eigi að gera hlutina eða hvað megi betur fara hafa þeir fengið til sín gríðarlegt fylgi. Stefnuskrá þeirra er álíka innantóm og grein Heiðu, þó svo að það sé mikil yfirborðsfegurð og góð stílfæring í gangi. Fjölmiðlarnir éta þetta upp gagnrýnislaust og endurvarpa eins og þeir fái borgað fyrir það – sem ég vona að sé ekki tilfellið.

Þetta er ekki bara Björt framtíð og alls ekki ætlun mín að gera bara árás á þann flokk – hann kom bara þessari hugsun af stað hjá mér. Allir flokkar hafa gerst sekir um það að reyna að smætta alla umræðu niður í einfeldingsleg slagorð og óljósar lausnir. Þetta er gert vegna þess að ráðamenn landsins hafa áratugum saman gengið út frá því að almenningur sé illa upplýstur og hegði sér helst eftir óupplýstu hjarðeðli og að það eigi barasta að vera þannig áfram.

Er þetta allt sem þarf til að ná kjöri á Íslandi? Leyfum við mælskum stjórnmálamönnum enn að slá ryki í augun á okkur með ofureinfaldaðri fortuggðri orðræðu? Er ekki kominn tími til að við kynnum okkur málið, lesum á milli línanna og afskrifum þá sem hafa ekkert fram að færa? Til að bæta samfélagið þurfum við djúpa samfélagsumræðu og fólk sem ætlar sér að gera eitthvað annað en líta vel út og segja snyrtilega hluti í pontu á Alþingi.

Við þurfum raunveruleika á mannamáli ekki pólítíska drauma um töfralausnir. Því miður er ekki hægt að koma slíkum raunveruleika að án þess að nota flóknu orðin líka.

Posted in Uncategorized

Lýðræðisfælni

Ég er í Króatíu, þar sem ég sit ráðstefnu á vegum samtakana GONG um kosningafræði. Ég var með fyrsta fyrirlestur ráðstefnunnar og var svo í pallborðsumræðum með Arsen Bauk, stjórnsýsluráðherra Króatíu, og Peđa Grbin, formann stjórnarskrárnefndar króatíska þingsins.

Umræðuefnið sem okkur var fengið var beint lýðræði og þátttökulýðræði. Bæði Bauk og Grbin gagnrýndu mig harðlega fyrir að vera hlynntur beinu lýðræði, og vísu í það sér til stuðnings að konur hafi mjög seint fengið kosningarétt í Sviss vegna þess að karlar vildu ekki leyfa það.

Ég lét það ógert að benda á hversu gölluð þessi söguskoðun er,  en benti heldur á það hversu kaldhæðnislegt það væri að karlar í valdastöðum væru að bera það fyrir sig að karlar hafi ekki viljað afsala sér völdum til að réttlæta hvers vegna þeir vildu ekki afsala sér völdum til almennings.

Þegar umræðunni var lokið og við andstæðingarnir búnir að takast í hendur, þá áttaði ég mig á því að þetta var nákvæmlega sama deila og er að gerast inn á Alþingi núna.

Það eru í grunninn tvær ástæður fyrir því að enn er ekki búið að ganga frá nýrri stjórnarskrá: ný gagnsæis- og lýðræðisákvæði, og auðlindaákvæðin.

Auðlindaákvæðið er í sjálfu sér tilefni til langrar umræðu – sem hefur nú fyrir löngu farið fram á Alþingi – en þar er hreinlega verið að þræta um áframhaldandi einokun auðlinda í þágu sérhagsmuna, eða skilgreining þeirra sem almenningur þannig að allir hafi jafnan aðgang að auðlindum (þótt aðgangurinn geti síðan verið takmarkaður og hagrætt með ýmsum hætti)

Gagnrýnin á gagnsæis- og lýðræðisákvæðin er hinsvegar nákvæmlega sama og Bauk og Grbin gagnrýndu við þátttökulýðræði: “Ó nei! Almenningur mun vita hvað við erum að gera og geta gripið inn í ef þeim finnst við vera að klúðra! Svei!”

Alþingi er í þeirri stöðu að vera að setja sjálfu sér reglur. Þetta heitir hagsmunaárekstur.

Það vill þannig til að aðeins Alþingi getur stjórnarskráarlega tekið ákvörðun um þetta mál eins og er, þannig að þeir verða að klára þetta. Hinsvegar má má uppræta þennan hagsmunaárekstur með einföldum hætti: þingið gengur til kosninga um stjórnarskrármálið strax, og lýtur ákvörðunina sem kom fram í þjóðaratkvæðagreiðslunni.

Alþingi þarf að láta af lýðræðisfælni sinni.

Ef þetta gerist ekki, og þessi fáræðisfásinna nær að fella stjórnarskráarfrumvarpið út af þingi með froðu, fávitaskap og þófi nú rétt í lokin, þá verður stjórnarskrárfrumvarpið lagt fram óbreytt strax í upphafi næsta þings, nái Píratar sætum*. Ekki vegna þess að okkur langi sérstaklega að ílengja þetta rugl, heldur vegna þess að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar var skýr – alveg sama hvort maður sé með eða á móti – og því ber Alþingi að hlýða henni.

* Já, þetta var hugsanlega mitt fyrsta kosningaloforð, í samræmi við stefnu Pírata um stjórnskipunarlög. Látið mig nú standa við það.

Posted in Uncategorized

Taut og fruss

Mér finnst alltaf skemmtilegt þegar fólk frábiður sér að skilja hluti. Þegar fólk frussar og tautar, hristir hausinn og ályktar að þetta sé bara alltsaman fáranlegt.

Styrmir Gunnarsson er maður sem frussar ekki oft, og tautar sjaldan, en þegar hann gerir það gerir hann það af miklum eldmóði. Hann skrifaði á Evrópuvaktina: “Sjálfsagt hafa ekki margir haft mikla trú á þeim stjórnmálaflokki, sem nefnist Píratar enda erfitt að festa hendur á því hvers konar flokkur það er. Þess vegna vekur athygli sú staðreynd að um 11% kjósenda undir þrítugu ætli að kjósa þann flokk skv. greiningu RÚV á síðustu Gallup-könnun.” Síðar talar hann um “óskilgreinda áherslu” okkar á netið.

Nema hvað hann ritar með z.

Á bloggsíðu.

Sko.

Áhersla okkar á netið er ekki illa skilgreind. Píratar átta sig á því að framtíðarmöguleikar Íslands á velferð munu byggjast að miklu leyti á tækniþekkingu og þátttöku okkar í alþjóðlegum mörkuðum. Netið er í dag 11 trilljón dollara hagkerfi á heimsvísu, og vex á c.a. þeim hraða sem sum vestræn hagkerfi eru að dragast saman. Næsta kjörtímabil Alþingis snýst um að ákveða hversu stóra hlutdeild í því hagkerfi Ísland vill eiga.

Netið er líka mikilvægasta fjarskiptatól allra tíma. Það brýtur einokun, það eyðileggur alræðisvald, það upprætir spillingu. Netið hefur sínar dimmar hliðar, leysir ekki öll vandamál og skapar jafnvel ný, en það ætti ekki neinn að vanmeta þær breytingar sem munu eiga sér stað á samfélaginu okkar á næstu árum vegna netsins. 

Þegar Styrmir segir að erfitt sé að festa hendur á því hvers konar flokkur Píratar er, þá grunar mig að það sé vegna þess að hann – eins og margir aðrir, sé að velta því fyrir sér hvort Píratar séu hægri- eða vinstriflokkur. Það er auðvitað frekar skiljanlegt að fólk eigi pínu erfitt með að átta sig á því að við erum að ganga gegn hægri-vinstri hugmyndafræðinni bæði í orði og verki.

Við höfum hreinlega engan áhuga á úreldum iðnbyltingarhugmyndum um vald og baráttunna milli einstaklinga og hópa. Það er gamalt og leiðinlegt. Netið hefur kennt okkur að án einstaklinga er ekkert samfélag, og án samfélags er einstaklingurinn merkingarlaus. Einstaklingshyggja og félagshyggja eru ekki andstæður – þessar stefnur eru órjúfanlegur hluti hvor af annari.

Spurningin sem við spyrjum er einfaldari: Hvort viltu að valdið yfir samfélaginu og einstaklingunum sé í höndum einstaklingana og samfélagsins, eða að allt vald sé í höndum lítils elítukjarna? Verður framtíðin miðstýrð eða dreifstýrð? Verður Ísland framtíðarinnar eins og Kína, eða eins og Internetið?

Er erfitt að festa hendur á þetta? Það held ég ekki.

Posted in Uncategorized