Ég er ekki öfgamaður lengur

Það getur ekki talist annað en pínlegt þegar maður vaknar við þann vonda draum að vera farinn að teljast hófsamur og jafnvel íhaldssamur. Skoðanir mínar breyttust ekki, heldur breyttist pólitískt landslag á Íslandi. 

Einu sinni þótti ég öfgafullur að vera að halda því fram að það þyrfti að endurskoða meiðyrðalöggjöfina á Íslandi. Að það væri kannski eitthvað að því að blaðamenn gætu verið dæmdir til að borga bætur fyrir það eitt að vitna í sögulegar heimildir eða birta viðtöl við fólk. Nú hafa flestir sem fylgjast með fréttum komist að þeirri niðurstöðu að það sé mikilvægt að breyta þessari löggjöf sem allra fyrst, enda er hún misnotuð stöðugt.

Einu sinni þótti ég öfgafullur að vera að halda því fram að frjáls hugbúnaður væri æskilegur, að hann væri ódýrari og betri en séreignarhugbúnaður og við ættum helst ekki að vera að flytja milljónatugi úr landi til aðila sem hafa það að atvinnu að takmarka hvað við getum gert. Nú hafa ríkisstjórnir lagt stuðning við þetta viðhorf, Vinstri Grænir voru að álykta á þennan veg, og ekkert er sjálfsagðara í framhaldsskólum landsins en að notaðar séu frjálsar hugbúnaðarlausnir.

Einu sinni þótti ég öfgafullur að vera að halda því fram að gagnsæi í ríkisrekstri væri æskilegur. En nú eftir þriggja ára baráttu hefur Alþingi stórbætt upplýsingalöggjöfina þannig að almenningur á að geta nálgast gögn í fórum ríkisins með mjög auðveldum hætti, og fjármálaráðherra hefur skipað starfshóp um að opna bókhald ríkisins þannig að almenningur geti rýnt í ríkisbókhaldið. Þó berast mér að vísu fréttir úr Alþingi að þingið þori ekki að halda gagnsæisákvæðinu inní nýju stjórnarskránni.

Sumir tala mikið um normalizeringu: að ef fólk talar um hluti nógu lengi þá fara þeir að lokum að teljast eðlilegir. Oftar en ekki er hugtakið normalizering notað í neikvæðum skilningi: ef fólk horfir á klám finnst fólki klám vera kynlíf (er það satt?). Ef fólk spilar ofbeldisfulla tölvuleiki finnst fólki ofbeldi vera lífið (er það satt?). Ef fólk umgengst vímuefni finnst fólki víma vera raunveruleikinn (er það satt?).

Heimurinn virðist þó hafa normalizerast á hátt sem mér finnst jákvæður: það virðist vera að verða algengara að fólki finnist ég hafa rétt fyrir mér. Nú væri afskaplega auðvelt að detta ofan í hrokafullar fullyrðingar um eigið ágæti, en skoðum frekar stóra samhengið:

Bæði Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri Grænir eru orðnir öfgaflokkar. 

Sjálfstæðisflokkurinn náði naumlega núna um helgina að forða sér í orði frá því að vera kristinn öfgaflokkur, í ætt við bandarísku teboðshreyfinguna. Lýsti einn liðsmanna þeirra því yfir í ræðu á landsfundinum að ef lög væru ekki sett eftir kristnum gildum væri möguleiki á því að Sharia lög væru handan við hornið. Ef þetta væri bara spurning um vanskilning á eðli Sharia lagahefðarinnar, en ekki hreinir og beinir fordómar, væri þetta ef til vill skoplegt. En svo ég vitni óbeint í sjónvarpsþættina The Newsroom: Ísland er í jafn mikilli hættu á að falla undir Sharia lög og að falla undir reglur Fight Club.

Öfgakennda ruglið á landsfundi Sjálfstæðismanna var þó ekki bara trúarlegs eðlis. Á alla mögulega vegu hliðraðist þessi gamli íhaldsflokkur svo langt frá allri íhaldssemi og út í hið snargalna að það hálfa væri nóg. Svo það sé á hreinu: það er ekkert íhaldssamt við að vilja eyðileggja velferðarkerfið, sér í lagi í þágu þess að þjónusta hagsmunum auðmanna.

En Vinstri Grænir voru líka duglegir að rugla um helgina. Eitt dæmið um yfirgengilegt rugl kom undir liðnum “kvenfrelsi og fiskveiðar”, sem ég get ekki fyrir mitt litla líf skilið hvernig endaði saman á fyrirsögn. Þar var rætt um það að banna konum að gera það við sinn líkama sem þær vildu í nafni kvenfrelsis. Það er að segja, Vinstri Grænir ákváðu að skerða frelsi fólks á þeirri forsendu að það myndi auka frelsi fólks. Þær öfgar sem komu fram á landsfundi Vinstri Grænna eru sjálfstætt framhald öfgavæðingar sem hefur farið fram þar undanfarin ár, þar sem tilfinningalega mögnuð siðferðisvá er látin ganga rökum framar.

Meðan þessir landsfundir voru í gangi og bulldælurnar látnar ganga bæði hjá hægriöfgamönnum og vinstriöfgamönnum, þá sat ég í litlu húsnæði á Brautarholti ásamt fyrrum MI5 njósnara og hollenskum upplýsingaöryggissérfræðingi, þar sem við ræddum við húsfylli af fólki um þær ógnir sem standa að almenningi í dag vegna aðgerða ríkisstjórna og stórfyrirtækja. Við kenndum fólki að nota sambærilegar dulkóðunaraðferðir við þær sem eru notaðar í hernaði, að fela spor sín á netinu á hátt sem er ekki mögulegt að ritskoða, og tryggja sig gegn ýmsum brotum á friðhelgi einkalífsins sem eru að verða sífellt algengari.

Það er rosalega skrýtið að geta sagt þetta öruggur í þeirri trú að ég sé ekki öfgamaður. Það var kannski sú tíð sem það þótti öfgakennt að reyna að verjast ágang ríkisstjórna og stórfyrirtækja, en sú tíð er liðin. 

Ég er ekki öfgamaður lengur.

Posted in Uncategorized

Ræfilsháttur Alþingis

Nú þegar ár er í sjötugsafmæli íslenska lýðveldisins hafa íslensk stjórnvöld ákveðið að lýðræði hafi ekkert hlutverk í okkar samfélagi. 

Af ótta við málþóf og ómálefnalegri framgöngu veiks meirihluta hefur stjórnin, sem nú heldur minnihluta á Alþingi, ákveðið að setja það ferli á hilluna sem þúsundir íslendinga hafa komið að í gengum árin eftir hrun, sem er eiginlegt ígildi þess að sturta vonum og væntingum heillar kynslóðar niður.

Það er ómögulegt að lýsa á fullnægjandi hátt með orðum þeirri fyrirlitningu sem ég hef á þessum hryðjuverknaði. Um er að ræða eitt skýrasta dæmið á síðari árum um það að pólitíska yfirstétt Íslands er svo veikgeðja að jafnvel í þeim tilfellum þar sem íslandi er ekki stýrt af frændhyglum gróteskukapítalistum með beinum hætti eru óbeinu áhrif þeirra svo yfirgripsmikil að það mætti eins sleppa því að mæta þeim andstöðu.

Stjórnarskrárferlið hefur verið ljós í myrkrinu bæði fyrir Íslendinga sem vilja fá lýðræðislegra og mannúðlegra samfélag í miskabætur fyrir það tjón sem þjóðin beið af hruninu og fyrir fólk um allan heim sem hefur fylgst með okkur af eftirvæntingu í von um að sjá hvað lýðræði 21. aldarinnar hefur upp á að bjóða. 

Búið er að skapa, í gegnum þátttökulýðræðisferli sem nýtur heimsathygli, eina bestu tillögu að stjórnarskrá sem hefur sést í sögu mannkyns. Þetta ekki fullkomin stjórnarskrá, en hún er sú besta sem hefur sést hingað til. Kæmist hún í gegnum þingið myndi hún breyta eðli mannlegra samfélaga um allan heim til hins betra. 

Ef hún bara kæmist í gegnum þingið.

Það var ekkert óskýrt við þjóðaratkvæðagreiðsluna í haust. Það að ætla sér að túlka niðurstöðurnar á annan hátt en þann sem augljósastur er ber vott af veruleikafælni og óheiðarleika. Krafa þjóðfundarins eftir hrunið var heiðarleiki. Nú skulum við vera heiðarleg.

Er heiðarlegt af stjórnarflokkunum að draga íslenskt samfélag í gegnum margra ára ferli og slútta því á síðustu stundu? Nei, það er óheiðarlegt.

Er heiðarlegt af stjórnarandstöðunni að nota stjórnarskrármálið sem pólitískt barefli og láta sem það ríki um það ósætti? Nei, það er óheiðarlegt.

Er heiðarlegt af íslendingum að sitja undir þessari tegund af sirkúspólítik og láta svo sem það sé ekki annað hægt? Nei, það er óheiðarlegt.

Krafan er einföld og augljós. 

Mörg mál mega niður falla fyrir kosningar. Mörg mega bíða betri tíma. Mörg mál mega verða að pólítískum bitbeinum, munnræpuvaldandi þrætueplum og þreytandi þvaðri. Mörg mál mega koma upp sem lækka enn frekar traust almennings til Alþingis, fá fleira fólk til að telja að pólítík sé viðbjóður, og sannfæra fleiri um að það séu bara spilltir asnar sem stjórna landinu.

En ekki þetta mál. Þetta mál verður að fá heiðarlega afgreiðslu. Allt annað er ræfilsháttur. Það er nóg komið af ræfilshætti. Nú eigum við nýja stjórnarskrá skilið.

Posted in Uncategorized

Staðvær smáiðjustefna

Einhver gæti séð Internetið sem mestu stóriðju allra tíma. Alþjóðlegt samofið kerfi tækja sem sitja og reikna og gefa af sér hita, með fólk gjarnan púlandi fyrir framan sig, færandi punkta til á skjá eða rúllandi í gegnum einhverskonar talnarunu.

En Internetið er ekki stóriðja. Internetið er næringaræð fyrir smáiðju. Í stað þess að vera ein risavaxin verksmiðja með yfirboðurum sem segja öllum hvað skuli framleiða og hvernig, og hirða svo stærstan hluta gróðans, er Internetið staður þar sem hundruðir milljóna manna koma saman til að stunda viðskipti með sínar vörur, sem það framleiðir ýmist sjálft eða í slagtogi við aðra, hvort sem það er heima hjá sér, í sameiginlegri vinnustofu, eða í einhverri verksmiðju.

Í dag er netið talið vera um ellefu þúsund milljarða dollara hagkerfi árlega, með vöxt í kringum tuttugu prósent ár frá ári. Þetta er um það bil jafn ör vöxtur og samdrátturinn er í flestum iðnríkjum vesturheims í dag.

Af þessum ellefu þúsund milljörðum dollara eru Íslendingar áskrifendur að nánast engu. Hagkerfi Íslands er enn að miklu leyti byggt á stóriðjuhugsjónum sjöunda áratugsins og afleiðingum þess á íslenskt samfélag – tilhneyginguna til að stökkva á togaravæðingu, álvæðingu eða bankavæðingu af algjörri blindni við þann mikilvæga eiginleika náttúrunnar að hafa fjölbreytileika.

Þessi stóriðjutilhneyging varð samt ekki til í tómarúmi. Þeir stjórnmálaflokkar sem hafa farið með stjórn landsins síðan landið öðlaðist sjálfstæði hafa skipst á að hafa enga sérstaka hugmynd um hvað sé vert að gera til að byggja upp sterkt hagkerfi á Íslandi. Þá sjaldan að einhver fær góða hugmynd, eða að aðstæður bjóða upp á eitthvað nýtt, hlaupa allir til og vilja sneið af nýju gullgæsinni.

Píratar eru stjórnmálaflokkur sem varð til í fjölbreytileika Internetsins. Það er í gegnum frjálslynda alþjóðahyggju samofið við fjölbreytta staðværa smáiðjustefnu sem mestir möguleikar eru á því að Íslendingar geti notið góðs af þessu ellefu þúsund milljarða dollara hagkerfi Internetsins. 

Píratar vilja því fyrst og fremst opna á möguleika einstaklinga til að stunda nýsköpun og fylgja sinum draumum, opna á viðskiptamöguleika við önnur lönd, og reyna að stuðla að góðu starfsumhverfi fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. 

70-90% af hagkerfum allra vestrænna samfélaga byggist á litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Píratar eru eina stjórnmálaaflið á Íslandi sem hefur engan áhuga á stóriðju, en vill frekar nýta fjölbreytileika samfélagsins til betrunar fyrir alla.

(Fyrst birt í Tîmanum 31. janúar 2013)

Posted in Uncategorized