Sýrland: Afskiptalaust og samskiptalaust

Ég er nýkominn frá Túnis, þar sem upplýsingaöryggisfólk víða að hittist til að ræða um ritskoðun og rafrænt eftirlit, þróa lausnir, og þjálfa fólk í notkun þeirra lausna sem eru til. Meðal gesta var stór hópur af Sýrlendingum sem höfðu smyglað sér út úr landinu og farið krókaleiðir til að komast á okkar fund.

Það er í sjálfu sér löng og ekkert sérstaklega skemmtileg saga hvernig þessi vika fór, en afleiðingarnar eru orðnar ljósar. Eftir að hafa kvatt nokkra úr Sýrlenska hópnum í París með loforðum um að halda bandi flaug ég af stað til Íslands. Þegar ég lenti byrja skilaboðin að hellast inn: Assad er búinn að klippa á netið í Sýrlandi.

Á vissan hátt þýðir þetta að megnið af vikunni hafi farið í súginn. Það er ekki hægt að sneiða hjá ritskoðun ef ritskoðunin fer fram með víratöng. Á vissan hátt gagnast sumt áfram. Eitt það sem við eyddum hve mestum tíma í var að sýna tæknilegar aðferðir sem fólk getur notað til að komast hjá því að gefa upp viðkvæmar upplýsingar – á borð við lykilorð inn á tölvupóstsaðgang – sé það numið brott og pyntað. Slík þekking nýtist ennþá, því miður.

Sýrlenska borgarastyrjöldin, þ.e., styrjöld borgaranna við ríkið, meðan ríkið stundar fjöldamorð í massavís, er komið að vendipunkti. Nú þegar netið er fallið er sterkasta vígi andspyrnunnar farið með því. Geta alþjóðlegra upplýsingaaktivista til að hjálpa til er að engu orðin. Ég vona bara að Sýrlendingarnir sem voru með okkur ákveði að fara ekki til Sýrlands í bili, því það er nokkuð öruggt að öryggi þeirra er farið. Það er út af fyrir sig ástæðan fyrir því að ég get skrifað þessa grein – ég get ekki gert illt verra eins og staðan er.

Nú situr eftir spurningin: Mun þessi vendipunktur þýða hratt fall Assads á sama hátt og varð um Mubarek þegar hann klippti á netið í Egyptalandi? Eða mun þetta eingöngu þýða að geta uppreisnarmanna til að bjarga sér snarminnkar og Assad nær yfirhöndinni? Eða jú, gæti hugsast að nú fari vesturlönd að hætta þessum hentisemisafskiptum og grípa inn í til að stöðva fleiri fjöldamorð?

Ég veit ekki, en það veit ég að Sýrlenska ríkisstjórnin er með þessari netlokun að skipta um taktík í annað skiptið á nokkrum mánuðum. Í ágúst í fyrra var klippt á netið tímabundið í borginni Homs, en meðan fólk leitaði skýringa keyrði skriðdrekasveit inn í borgina og hóf skothríð. Frá janúar fram í júní á þessu ári var hún virk í þróun og dreifingu vírusa og annarra hugbúnaðartóla til að njósna um fólk. Eftir júní lagðist það mestmegnis af, en þá tók fólk að hverfa í meira mæli en áður. Nú þetta. Það er ólíklegt að þessi netlokun sé eins og í Homs, því varla er hægt að vera með samtímis skothríð um allt landið. Eitthvað nýtt er á seiði.

Ég er ekki frá því að Assad sé orðinn svolítið örvæntingarfullur. Sennilega eru peningarnir í ríkiskassanum að klárast, og þeim fækkar sem hann getur treyst.

Þetta er líklega upphafið að endinum. Spurningin er bara, fyrir hvern? Meðan þúsundir takast á á Mezzah stræti í Damaskus, berjast og deyja, höfum við val um hvort við sitjum hjá. Kannski gæti ríkisstjórn Íslands, sem stóð sig vel í stuðningi við Palestínu nýlega, lagt sig eitthvað fram í þágu Sýrlendinga?