Sýrland: Afskiptalaust og samskiptalaust

Ég er nýkominn frá Túnis, þar sem upplýsingaöryggisfólk víða að hittist til að ræða um ritskoðun og rafrænt eftirlit, þróa lausnir, og þjálfa fólk í notkun þeirra lausna sem eru til. Meðal gesta var stór hópur af Sýrlendingum sem höfðu smyglað sér út úr landinu og farið krókaleiðir til að komast á okkar fund.

Það er í sjálfu sér löng og ekkert sérstaklega skemmtileg saga hvernig þessi vika fór, en afleiðingarnar eru orðnar ljósar. Eftir að hafa kvatt nokkra úr Sýrlenska hópnum í París með loforðum um að halda bandi flaug ég af stað til Íslands. Þegar ég lenti byrja skilaboðin að hellast inn: Assad er búinn að klippa á netið í Sýrlandi.

Á vissan hátt þýðir þetta að megnið af vikunni hafi farið í súginn. Það er ekki hægt að sneiða hjá ritskoðun ef ritskoðunin fer fram með víratöng. Á vissan hátt gagnast sumt áfram. Eitt það sem við eyddum hve mestum tíma í var að sýna tæknilegar aðferðir sem fólk getur notað til að komast hjá því að gefa upp viðkvæmar upplýsingar – á borð við lykilorð inn á tölvupóstsaðgang – sé það numið brott og pyntað. Slík þekking nýtist ennþá, því miður.

Sýrlenska borgarastyrjöldin, þ.e., styrjöld borgaranna við ríkið, meðan ríkið stundar fjöldamorð í massavís, er komið að vendipunkti. Nú þegar netið er fallið er sterkasta vígi andspyrnunnar farið með því. Geta alþjóðlegra upplýsingaaktivista til að hjálpa til er að engu orðin. Ég vona bara að Sýrlendingarnir sem voru með okkur ákveði að fara ekki til Sýrlands í bili, því það er nokkuð öruggt að öryggi þeirra er farið. Það er út af fyrir sig ástæðan fyrir því að ég get skrifað þessa grein – ég get ekki gert illt verra eins og staðan er.

Nú situr eftir spurningin: Mun þessi vendipunktur þýða hratt fall Assads á sama hátt og varð um Mubarek þegar hann klippti á netið í Egyptalandi? Eða mun þetta eingöngu þýða að geta uppreisnarmanna til að bjarga sér snarminnkar og Assad nær yfirhöndinni? Eða jú, gæti hugsast að nú fari vesturlönd að hætta þessum hentisemisafskiptum og grípa inn í til að stöðva fleiri fjöldamorð?

Ég veit ekki, en það veit ég að Sýrlenska ríkisstjórnin er með þessari netlokun að skipta um taktík í annað skiptið á nokkrum mánuðum. Í ágúst í fyrra var klippt á netið tímabundið í borginni Homs, en meðan fólk leitaði skýringa keyrði skriðdrekasveit inn í borgina og hóf skothríð. Frá janúar fram í júní á þessu ári var hún virk í þróun og dreifingu vírusa og annarra hugbúnaðartóla til að njósna um fólk. Eftir júní lagðist það mestmegnis af, en þá tók fólk að hverfa í meira mæli en áður. Nú þetta. Það er ólíklegt að þessi netlokun sé eins og í Homs, því varla er hægt að vera með samtímis skothríð um allt landið. Eitthvað nýtt er á seiði.

Ég er ekki frá því að Assad sé orðinn svolítið örvæntingarfullur. Sennilega eru peningarnir í ríkiskassanum að klárast, og þeim fækkar sem hann getur treyst.

Þetta er líklega upphafið að endinum. Spurningin er bara, fyrir hvern? Meðan þúsundir takast á á Mezzah stræti í Damaskus, berjast og deyja, höfum við val um hvort við sitjum hjá. Kannski gæti ríkisstjórn Íslands, sem stóð sig vel í stuðningi við Palestínu nýlega, lagt sig eitthvað fram í þágu Sýrlendinga?

Posted in Uncategorized

Hvenær er réttlætanlegt að beita ritskoðun?

Hvað er átt við með ritskoðun? Ritskoðun getur átt við hvort sem gripið er inn í einkasamskipti eða birtingu efnis á almennum vettvangi.

Í hvaða tilgangi gæti verið réttlætanlegt að grípa inn í einkasamskipti? Í dag höfum við sett línuna hér á landi við úrskurð dómara í málum þar sem rökstuddur grunur liggur fyrir glæp. Núverandi stjórnvöld vilja getað hlerað einkasamskipt án rökstudds grun um glæp. Þetta kemur greinilega fram í nýju frumvarpi um framvirkar rannsóknar heimildir.

Hvað með að safna upplýsingum ef enginn rannsakar upplýsingarnar fyrr en heimild hefur verið fenginn? Í fyrrnefndu frumvarpi eru fjarskiptafyrirtæki skylduð til að geyma samskipti í tiltekinn tíma. Ég er nokkuð viss um að fyrir ekki löngu hefði almenningur ekki verið hress með að póstur hefði verið opnaður, afritaður og geymdur. Þó þetta sé í dag tæknilega auðveldara, þýðir það ekki að það sé rétt. Kannski er ástæðan fyrir því að fólk er ekki með áhyggjur af þessu vegna þess að þetta er að gerast í tækniheimi. Þetta er þó ekki svo flókið.

Það eru tvær spurningar allavega sem við þurfum að svara í tengslum við þessa upplýsingasöfnun. Sú fyrri er hver á að bera kostnaðinn. Þetta mun nefnilega bera talsverðan kostnað með sér þó framkvæmanlegt sé. Ekki verður þetta fjármagnað með skattpeningum. Ekki munu fjarskipta fyrirtækin taka kostnaðinn á sig. Er ekki frekar ljóst að kostnaður á fjarskiptum muni hækka? Önnur spurning er hvernig tryggja á að samskiptin verði ekki skoðuð í heimildar leysi. Ljóst er að einhverjir starfsmenn fjarskiptafyrirtækjanna munu hafa aðgengi. Hvað svo með óprúttna þrjóta sem gætu brotið sér leið inn. Margir telja það bara spurningu um hvenær en ekki hvort. Er ekki ljóst að slík upplýsinga söfnun á aldrei að eiga sér stað?

Höfundur þessarar greinar hefur fengið tækifæri til að ræða þessar áhyggjur við Stefán Eiríksson lögreglustjóra. Sagðist Stefán ekki telja kostnaðinn vera verulegan og vísaði mikið í því samtali í meistara ritgerð Benedikt Smári Skúlasonar. Þegar haft var samband við Benedikt um að fá lesa umrædda ritgerð vildi hann einungis selja okkur eintak og réttlætti kostnaðinn með prentkostnaði. Þegar Benedikt var spurður hvort ekki væri hægt að fá ritgerðina á rafrænu sniðmáti sagðist hann vera búinn að selja hana Innanríkisráðuneytinu og fleirum.

Hægt væri að skrifa frekar um hvort gögn sem stefnumyndun hins opinbera byggir á ætti ekki að vera opin en það er efni í aðra grein.

Komum að ritskoðun á efni til almennings. Óheimilt er auðvitað að dreifa höfundarréttarvörðu efni. En ættum við að gera milliliði ábyrga fyrir efni sem dreift er í gegnum þá? Ástæðan sem oft er gefin upp fyrir því er til að vernda séreignar rétt efnis. En afleiðingarnar yrðu mun víðtækari. Vefir eins og Wikipedia, YouTube, Facebook og svo mætti lengi telgja gætu ekki lengur haldið út gjaldfrjálsri þjónustu. Kostnaðurinn við að hafa allt það fólk sem þyrfti til að skoða allt það efni sem notendur settu inn og ákveða hvort ætti að leyfa það eða ekki yrði stjarnfræðilega hár. Við erum rétt farinn að sjá möguleikana í „crowdsourcing“, það er þegar hópur fólks kemur saman að því að skapa efni sem nýtist svo fjöldanum. Dæmi um slíkt eru að skjóta kollinum upp víðsvegar í dag. Framtíðar möguleikar mannkynsins að njóta góðs að slíku væru nánast alfarið úti.

Í fyrrnefndu samtali við Stefán lögreglustjóra tjáði hann okkur að við værum að herja vonlausa baráttu við allt of sterkan þrýsting frá aðilum að utan. Hvernig viljum við sjá framtíðina í þessum málum hér á landi? Við getum sett fordæmi.

Við þetta má bæta þann ótrúlega vilja sem stórfyrirtækin eru farin að sýna til geta ritskoðað okkur. Microsoft hefur nú fylgt í kjölfarið á Apple með Windows 8. Nú þarf samþykki frá þeim til að setja hugbúnað í nýju ræsivalmyndina sem þeir kalla „tiles“. Amazon er með bakdyr í kindle lesbókunum til að fjarlægja út efni. Það kom einmitt í ljós þegar þeir fjarlægðu 1984 eftir George Orwell (í alvöru). Út hjá notendum. Það eru fjölda dæmi um aukinn vilja til að ritskoða okkur og þeim er að fjölga.

Við verðum að standa betur vörð um það frelsi sem við höfum hingað til talið sjálfsagt.

Posted in Uncategorized

Kynslóðabil upplýsingarétts

Einu sinni kom það almenningi andskotanum ekkert við hvað ríkið gerði. Svo kom lýðræði.

Að lokum var ákveðið að það væri lýðræðislegt að almenningur gæti séð gögnin sem ríkið átti til. Upplýsingalög voru búin til, og samkvæmt þeim mátti almenningur óska eftir að fá að sjá gögn. Þetta var fyrsta kynslóð upplýsingalaga.

Þetta var samt mæta gagnslaust, þar sem almenningur vissi ekki hvaða skjöl voru til. Hvernig getur maður beðið um eitthvað sem maður veit ekki hvað er?

Í annari kynslóð upplýsingalaga var gert ráð fyrir því að ríki myndi búa til lista yfir öll þau gögn sem eru til og birta á netinu. Þetta er til dæmis gert í Evrópusambandinu (reglugerð 1049/2001/EC) og í Noregi. En ekki á Íslandi.

Fólk fór að átta sig fljótt á því að þetta var ergjandi. Þegar fólk vissi hvað var til af gögnum vildi fólk fá þau. Það var auðvitað margt til á tölvutæku formi, en annað bara til á prenti.

Þá ákváðu sumir, t.d. Evrópusambandið og Noregur, að birta bara þau gögn sem þau ættu til á tölvutæku formi á netinu, og leyfa fólki að óska eftir restinni með hefðbundinni aðferð.

Í kjölfarið varð til þriðja kynslóð upplýsingalaga, þar sem ákveðið var að birta öll skjöl á netinu, sjálfvirkt, nema það sem þyrfti að halda aftur af vegna friðhelgis einkalífsins, öryggis ríkisins, gagna tengt eftirlitsstarfsemi, og vinnuskjala.

Svo ríkir bara skilningur um það að það muni taka nokkur ár að koma öllu gamla draslinu í tölvutækt form.

Í 15. greininni í tillögum stjórnlagaráðs var gert ráð fyrir að hér á landi myndum við taka upp þriðju kynslóðar upplýsingarétt – að gögn í fórum ríkisins ættu að komast í hendur almennings að jafnaði án þess að það þyrfti sérstaklega að biðja um þau. Þau væru bara aðgengileg, til staðar.

Í nýrri útgáfu af frumvarpinu sem “sérfræðingahópur” lögfræðinga vann er búið að breyta 15. grein verulega. Í henni er ekki lengur gert ráð fyrir þriðju-kynslóðar upplýsingarétt, heldur annarar kynslóðar.

Það virðist sem sérfræðingahópurinn hafi haldið að öll gögn séu í rauninni bara til á pappír og ekki sé hægt að fá þau öðruvísi en að sækja um þau. En gögn eru ekki lengur pappírsbunkar í lokuðum skjalaskápum þar sem enginn á að komast með sína kámugu putta. Þau eru rafræn, fyrst og fremst. Menning okkar verður að endurspegla þann veruleika, og stjórnarskráin okkar líka.

Það væri farsælt að varpa 15. grein frumvarpsins aftur í það horf sem það var í áður en að sérfræðingahópurinn komst með sína kámugu putta í það.

(Nöldur: Sama mætti segja um 14. og 16. greinar frumvarpsins, enda henti sérfræðingahópurinn nokkrum mikilvægum eiginleikum úr þeim báðum. Orðalagið er að einhverju leyti bætt, en það var á kostnað nethlutleysis og afhjúpendaverndar. Æji.)

Það er fáranlegt að sætta sig við gamla drepleiðinlega 2G upplýsingaréttinn þegar við getum verið með 3G háhraðaupplýsingarétt. Þó svo að gamaldags kynslóð “sérfræðinga” kunni ekki á alla takkanna ætti ekki að stöðva útbreiðsluna á nýrri lýðræðistækni!

Posted in Uncategorized

Hin dimma draumsýn SUS

Ég hef í nokkra daga verið að reyna að átta mig á því hvernig samfélag okkar yrði ef tillögur Sambands ungra sjálfstæðismanna yrðu að veruleika. Líkt og með allar hugmyndir um “röksemdaútópíur” virðast tillögurnar ganga út á að troða heiminum með öllum sínum flækjum inn í þann þrönga skilning sem meðlimir SUS hafa á honum, óháð því hverjar afleiðingarnar verða. Útópíska hugsjónin – sem fyrir mér hljómar agalega dystópísk – er sú að ríkið sé minnkað og umfang þess skert þangað til ekkert er eftir nema valdbeitingartól sem tryggir að ekki sé gengið á eignarréttinn. Þeir sem hugsa á þessum forsendum telja að allar þjónustur verði óhjákvæmilega að vera einkaframtak og fjármagnað með viðskiptum, á þann hátt að þeir sem hafa ekki efnahagslega burði til að taka þátt séu ýmist útundan eða upp á ölmusu komnir.

Samhengislaus niðurskurður

SUS leggur til að veðurstofan verði aflögð í núverandi mynd. Þeir segja það ekki þannig, enda eru þeir ekki að leggja til að gengið verði á sértekjur stofnunarinnar – sem koma til af ýmissi þjónustu sem veðurstofan veitir á borð við veðurþjónustu fyrir millilandaflug – heldur eingöngu þau 42.8% rekstursins sem er fjármagnaður af skattféi.

Hér má áætla að verið sé að tala um getu veðurstofunnar til að reikna og birta daglegar veðurspár og veðurhorfur gjaldfrjálst á vefsíðu sinni, að geta birt tilkynningar um jarðskjálfta, eldvirkni og annan óróa, og að öðru leyti stundað vísindi, hvað þá að þau sinni almannavarnahlutverki sínu. Nei, í þessari útópíu SUS mun veðurstofan sko ekki birta neinar veðurspár fríkeypis, og ef þú villt fá að vita af því hvort það sé að fara að falla snjóflóð á húsið þitt, eða gjósa undir stofunni þinni, er eins gott að þú tryggðir þér gulláskrift að þjónustu veðurstofunnar.

En þetta var of auðvelt. Lítum víðar. Raunar, áður en við hverfum frá umhverfisráðuneytinu, þá finnst mér pínu fyndið að SUS vilji leggja niður umhverfisvöktun og ýmir náttúruverndaratriði hér á landi, en hafi ekki áhuga á því að leggja niður framlög til alþjóðastofnanna eða sameiginlegs reksturs skrifstofa á borð við PAME og CAFF, sem stuðla að vernd dýraríkis og gróðurs og norðlægum slóðum og sinna vörnum gegn vörnum norðurheimskautsins. Ojæja, þá það.

Skoðum iðnað aðeins. Nú segir Davíð Þorláksson, formaður SUS, í pistli í morgunblaðinu 30. október sl., að Sjálfstæðisflokkurinn sé atvinnulífsflokkur. Í ljósi þess er erfitt að skilja hvers vegna SUS vill afnema framlög til Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Tækniþróunarsjóðs og styrki til nýsköpunarfyrirtækja. Það er jú þannig að lítil og meðalstór fyrirtæki eru að jafnaði um 70% af hagkerfi hvers lands – sú tala flöktir svolítið frá einu landi til annars – en það hefur lengi verið sterkt fylgi milli þess að auðveldara sé að stofna og reka lítil og meðalstór fyrirtæki, og þess að hagkerfið þoli markaðsflökt.

Flestir þeirra sem eru að reyna að feta sig í atvinnulífinu, sér í lagi eftir að atvinnuleysi rauk upp í 9% í 2009, eru óreyndir í viðskiptarekstri og þrátt fyrir að hafa góðar hugmyndir hafa ekki endilega aðgang að mörkuðum, skilning á skattkerfinu og bókhaldsvinnu, og reynslu í mannaráðningum og öðru sem fylgir rekstri. Tilgangur þessarra stofnanna sem SUS vill leggja niður er fyrst og fremst að veita fólki sem hefur góðar hugmyndir sem geta skilað verulegum tekjum inn í hagkerfið þá aðstoð og það svigrúm sem þau þurfa til að verða til, fyrir það fyrsta, og svo vaxa og dafna. Væri enginn slíkur stuðningur til staðar myndi nýsköpun á Íslandi minnka: snjallt fólk sem hefur verðmætar hugmyndir en kannski getur ekki lagt allt undir hverfur frá og sækir frekar í öruggari vinnu þótt hún gefi minna af sér, bæði til hans sjálf og til samfélagsins.

Atvinnulífsflokkur myndi aldrei gera slíkt.

Það er eiginlega réttara að líta á ríkisstyrkta nýsköpunarkerfið sem áframhald af menntakerfinu en sem beinlínis viðskiptaapparat. Hlutverk fyrirbæra á borð við Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Ferðamálastofu, Tækniþróunarsjóðs og Orkusjóðs er ekki bara, eins og SUS myndu sennilega segja, að spila einhvern kommúnískan leik með tekjur Íslendinga, heldur öllu heldur að vera stökkpallur fyrir framþróun samfélagsins. Hvort þau sinni því hlutverki nægilega vel er allt önnur og miklu áhugaverðari spurning, en hana ætla ég ekki út í hér.

Draumsýn SUS

SUS á sér draum. Draumurinn er þessi:

Hafnargjöld sjávarútvegsfyrirtækja rjúka upp úr öllu valdi. Auðlindagjaldið var sem dropi í hafið í samanburði, enda þurfa skip eða þau fyrirtæki sem vilja fá fisk í land að greiða sjálf fyrir hafnargerð að öllu leyti. Miði aðra leið í Landeyjahöfn með Herjólfi hefur verið hækkaður í 10.000 krónur, enda þurfa rekstararaðilar skipsins núna að tæma höfnina sandi úr eigin vasa. Siglingar til Þorlákshafnar eru hættar, enda of dýrt að viðhalda þremur höfnum. Grímseyjarferjunni var aflagt, en ekki er vitað um afdrif Grímseyinga. Rútuferð frá Reykjavík til Akureyrar er ekki á færi nema örfárra Íslendinga.

Þar sem ekki lengur eytt peningum í samgöngumannvirki er búið að loka öllum flugvöllum sem standa ekki undir kostnaði, svo sem á Akureyri, í Reykjavík, á Ísafirði og í Vestmannaeyjum. Flugvallarskattar á alla farþega sem koma til landsins í gegnum Leifsstöð hækka umtalsvert, og ferðamannaiðnaðurinn er svo gott sem þurkaður út – enginn hefur efni á því að koma til Íslands lengur.

Flest sveitarfélög landsins eru orðin gjaldþrota, þar sem þjónusta til íbúa sveitarfélaganna kostar þau mismikið eftir fjarlægð þeirra frá Reykjavík. Stærri sveitarfélög standa eftir með herkjum. Þar sem slysavarnarskóli sjómanna hefur verið aflagður, og flest sjávarútvegsfyrirtæki of lítil til að kosta heildstæða slysavarnarþjálfun, hefur slysum sjómanna fjölgað, með tilheyrandi aukningu á álagi á örorkubótakerfið.

Þar sem sá hluti landlæknisembættisins sem var áður lýðheilsustöð hefur verið lagður niður er vægum smitsjúkdómum, sem og kynsjúkdómum, að fjölga. Æ fleiri börn greinast með lífsstílssjúkdóma á borð við offitu og næringarskort, sem áður var gripið inní. Mæðraskoðun hefur minnkað, en samhliða því hefur tilfellum ungbarnadauða fjölgað, og Ísland er nú með álíka tíðan ungbarnadauða og Bandaríkin (úr 2.07 af þúsundi í 6.81 af þúsundi).

Eftir að hætt var allri niðurgreiðslu á húshitunarkostnaði fór það að vera algengara að fólk kynti með gasi. Hlutfallsleg aukning á tjóni vegna heimilisbruna var þó ekki það mikið í samanburði við aukningu á dauðsföllum vegna ofkælingar. Eftir að Samkeppnisráðuneytið var lagt niður jókst verð á bensíni og matvælum stórlega. Þau fyrirtæki sem höfðu stundað verðsamráð áður höfðu ekki lengur aðhald og nýttu sér því eftirlitsleysið til að stórgræða á neytendum. Neytendastofa hefði kvartað, en hún er ekki lengur til. Neytendasamtökin urðu að segja upp öllu starfsfólki sínu vegna niðurskurðar, og eru sjálfboðaliðar samtakanna ekki að ná að anna eftirspurn.

Áratuga framþróun í jafnréttismálum hefur verið hætt. Konur verða að sætta sig við það sem þær fá. Hvorki jafnréttisstofa né ríkissáttasemjari geta komið að málum, enda eru þau ekki til. Eftir að mæðra- og feðralaunakerfið var lagt niður fjölgaði sjálfsvígum ungra einstæðra mæðra sem áttu enga möguleika á afkomu.

Og til að bæta ofan á þetta allt hefur LÍN verið lagt niður. Þessi ergilega stofnun sem lánaði stórfé til fátækra námsmanna eftir skrýtnum og ósanngjörnum reglum um árabil hefur nú hætt alfarið, og orðið til þess að veruleg fækkun hefur orðið á nemendum í öllum háskólum. Stéttaskipting eykst því tengt, en aðeins tiltölulega ríkt fólk getur komist af án námsláns, og námslánin sem bankarnir bjóða upp á eru á þannig vöxtum að stór hluti landsmanna getur ekki leyft sér að stunda nám.

Þetta er sýnin, en ekki öll sýnin. Af nógu er að taka í draumsýn SUS.

Heimsmynd Randistans

Ég get ekki fyrir mitt litla líf skilið hvernig fólk getur verið svona grimmilegt.

Það er satt að það er víða sóað féi í ríkiskerfinu og mætti algjörlega taka til þar. Það ætti að sjálfsögðu að stuðla að einkaframtaki og minnka ríkisvernd á ákveðnum fyrirtækjum og starfsgreinum, en sú hugsunarlausa röksemdaútópía sem SUS hefur lagt fram hér er ekki til þess fallin að bæta samfélagið, heldur eingöngu að færa það nær þeirri mynd sem fylgismenn Ayn Rand hafa séð sem ákjósanlegan.

Það er auðvelt að heillast að hugsjón Rands. Hennar hugmyndafræði var að hver einstaklingur ætti að vera sér nægur og rísa upp yfir alla erfiðleika, að vera sjálfum sér til framdráttar og ánægju, og láta það gerast sem væri líklegast til að tryggja sér þá gleði maður ætti rétt á.

En Rand, hvers heimspeki var nokkurskonar spegilmynd þess öfgakennda alræðissamfélags sem spratt upp í Rússlandi undir stjórn Leníns, var ekki lífsglöð kona. Hún sá samfélagið sem einhverskonar sníkil á einstaklingnum, og sá ríkið sem birtingarmynd þess sníkjuháttar sem henni óhugnaðist svo.

Í Bandaríkjunum, þar sem hennar fylgi er mest, er löng og að mörgu leyti góð hefð fyrir því að treysta ekki ríkisvaldinu. Sú hefð mótast af því að í Bandaríkjunum hefur ríkisvaldið alltaf verið notað gegn fólkinu – nokkuð sem ég sjálfur hef upplifað á frekar óhugnanlegan hátt.

En Íslenskt samfélag er ekki byggt upp þannig að ríkið sé óvinurinn. Ríkið er ekki fjarlægt alræðisbákn sem aðeins hátt settir geta átt samskipti við. Ríkið, það erum við – við, almenningur, höfum mikið með það að gera hvernig ríkið virkar. Þetta mætti batna, og hefur það batnað á undanförnum þremur árum, en allt of lítið.

Aðkoma almennings að stjórnskipulagi samfélagsins er ofsalega fátæklegt, ennþá. Að hluta til er það vegna þess að í áratugi ef ekki árhundruð hefur almúgamanninum verið sagt að þegja og halda sig til hlés, svo ekki sé minnst á almúgakonuna sem hefur þurft að þola svo margt misrétti að það nær engri átt.

Þegar fólk sem hefur verið svipt getu sinni með kerfisbundnum hætti í margar aldir til að vera sér nægt og rísa upp yfir alla erfiðleika, að vera sjálfu sér til framdráttar og ánægju, og láta það gerast sem væri líklegast til að tryggja sér þá gleði sem hvert mannsbarn á rétt á, þá tekur það langan tíma að öðlast þá getu á ný. Það hjálpar ekki þegar einhverjir útópískir Randistar leggja í sinni freku grimmd til að fótunum verði kippt undan þeim á ný.

Sögufölsun

Á fjórðu blaðsíðu þessa dásamlega útópíuplaggs SUS kemur fram allt sem segja þarf um þá veruleikafirringu sem stjórn SUS þjáist af. Segir þar: “Allt stefnir í að samanlagður halli á rekstri ríkissjóðs á árunum 2008 – 2013 verður tæpir 600 milljarðar króna. Stærsti hluti þess halla, eða um 380 milljarðar króna, hefur myndast í tíð núverandi ríkisstjórnar. Reikningurinn verður sendur framtíðarskattgreiðendum sem munu þurfa að taka á sig óábyrgan rekstur vinstri manna á fjármálum ríkisins.”

Þetta er eingöngu gild söguskoðun ef maður hundsar allar staðreyndir. Það vantar inn í þetta að frjálshyggjustefnan sem tröllreið íslenskri pólitík á áratugnum fram að 2008, undir dyggri stjórn Sjálfstæðisflokksins, skapaði aðstæður þar sem eftirlit með starfsemi fjármálastofnanna var svo til ekkert, geta ríkisvaldsins – eða nokkurs – til að koma í veg fyrir fjárhagslegt stórslys var eyðilagt, og nýríkir vitleysingar dútlandi í útópískri fjármáladellu græddu á daginn og grilluðu á kvöldin, á kostnað getu okkar til að hrynja ekki.

Svo mætti raunar líka benda á að ef 380 milljarðar mynduðust á fjögurra ára stjórnartíð núverandi ríkisstjórnar eins og fullyrt er þarna, frá 2009-2013, þá myndaðist afgangurinn, um 220 milljarðar, á þessu eina ári 2008 – þar sem sjálfstæðismenn í stjórn þar til þeir hrökkluðust burt með skömm. 36.6% af upphæðinni að myndaðist á því ári. Restin kom til við að laga skemmdirnar.

Það má segja margt slæmt um núverandi ríkisstjórn, og margt gott, en það skal ekki reyna að skrifa mesta fjármálahrun sem sögur fara af á neina aðra en Sjálfstæðisflokkinn. Hallinn á ríkisrekstri á stjórnartíð “vinstri manna” er alfarið tilkominn af hruninu og björgunaraðgerðunum sem komu þar á eftir.

Ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekki hopað úr stjórn (sem þeir sem betur fer gerðu!) væri einhvernveginn ennþá í stjórn gæti ástandið hugsanlega verið skárra, eða það gæti verið verra. Það getum við ekki vitað. Það sem við vitum er hver skapaði aðstæðurnar. Hver lagði gildruna. Ekki reyna að koma því yfir á aðra eins og lítil börn.

Staðreyndirnar eru nokkrar: árshallinn hefur minnkað niður í nánast ekki neitt, og verður 2014 sennilega ár í plús ef þetta heldur svona áfram. Ríkið hefur minnkað á stjórnartíð vinstriflokkanna, með um 10% fækkun á starfsfólki og verulegum niðurskurði og endurskipulagningu.

McKinsey skýrslan sýnir að Ísland fór frá því að vera í neikvæðum viðskiptajöfnuði fyrir hrun yfir í að vera með jákvæðan viðskiptajöfnuð á síðustu árum, og að útflutningstekjur hafi vaxið því samhliða. Þetta auki þá á skatttekjur, sem hjálpar til við að leiðrétta hallann sem varð til við hrunið.

Þar sem við erum sammála

Ég er ekki ósammála SUS að öllu leyti. Það eru snertifletir þar sem við sammælumst. SUS leggur til að minnka aðkomu ríkisins að trúmálum, svo sem sóknargjöld og í Kristnisjóð, sem er gott. Ólíkt SUS myndi ég ekki vilja gera það á einni nóttu, heldur frekar að gera það í skrefum yfir lengra tímabil. Almennt mætti alveg minnka umfang ríkisins eitthvað, en það gerist ekki nema að samhliða því séu byggð upp samfélagsleg verkfæri til að ná fram sömu áhrifum og kerfin sem hverfa á móti. Það er einfeldingsleg afstaða að telja að ríkisstofnanir og útgjaldaliðir í fjárlögum séu búin til af því bara. Fyrir öllu er einhver ástæða, þótt gildi manna geti verið misjöfn.

Ef við viljum hreinsa upp ríkið, gera það minna, skilvirkara, og lýðræðislegara, þá verðum við að gera það smám saman og á upplýstan hátt. Fyrsta skrefið þar er að auka á gagnsæið, svo allir skilji hvað er í gangi og hvar hagsmunirnir liggja. Þaðan höldum við áfram.

Posted in Uncategorized