Vitsmunalegur óheiðarleiki

Ég á að vera orðinn nógu reyndur netverji til að láta það ekki fara í taugarnar á mér að einhver hafi rangt fyrir sér á netinu. En þó hef ég staðið mig nokkrum sinnum að því undanfarna daga að þurfa að svara fáranlegum rökum um niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar síðustu helgi, og mig langar bara til að gera það einu sinni fyrir fullt og allt hér.

Það eru einhverjir sem vilja meina að 70% þjóðarinnar hafi ekki sagt já við tillögum stjórnlagaráðs. Þar er verið að taka þau 33.6% þeirra sem sögðu nei og leggja saman við þau 51.1% sem ekki mættu á kjörstað, til að fá 67.53% út – og svo er rúnað upp í 70% til að láta það líta enn betur út.

Hér er verið að gera fólkinu sem ekki tók þátt upp skoðun. Um þetta hefur verið rifist síðustu daga, og Birgir Ármannsson hefur verið í fararbroddi fyrir þeirri stórkostlega fávitalegu rangtúlkun.

Vandinn hér er að samkvæmt nákvæmlega sömu rökum má segja að 83.5% hafi ekki sagt nei við tillögum stjórnlagaráðs. Þetta jafn röng aðferðafræði sem gefur af sér algjörlega sambærilega niðurstöðu.

Það er vitsmunalega óheiðarlegt að slengja fram annarri túlkuninni en láta hina ekki fylgja með.

Það að segja að “ef einhver vildi samþykkja tillögunar var honum velkomið að mæta á kjörstað og segja já” er algjörlega núllað út með því að segja “ef einhver vildi hafna tillögunum var honum velkomið að mæta á kjörstað og segja nei”.

Nú þætti mér vænt um það að fólk hætti þessi bulli. Þeir sem ekki mættu tóku ekki þátt. Niðurstaðan er sú sem niðurstaðan er.

Vilji Birgir Ármansson eða nokkur annar rengja þessar niðurstöður skal gera það með því að láta gera skoðanakönnun eftir vísindalegri aðferð með áreiðanlegri aðferðafræði, og birta niðurstöðurnar opinberlega. Að vísu væri slík könnun óáreiðanleg af aðferðafræðilegum ástæðum: rannsókn gerð eftir að niðurstöður fyrri rannsóknar (tja, kosninga) eru kynntar fyrir úrtakinu mælir mun betur afstöðu úrtaksins til fyrri rannsóknar en afstöður til rannsóknarefnisins. Hinsvegar, ef einhver hefði gert skoðanakönnun fyrir kosningar væri þetta alveg rétti tíminn til að birta niðurstöðurnar.

Posted in Uncategorized

Stjórnarskráin og Orramálið

Þegar upp komst um það sem er án nokkurs vafa eitt stærsta spillingarmál íslandssögunnar fyrir hálfum mánuði síðan leiddi ég nánást um leið hugann að tillögum stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá.

Í Orramálinu kom í ljós að bókhaldskerfi ríkisins kostaði margfallt það sem lagt var upp með, var skilað frá framleiðanda í mjög ófullkomnu ástandi, með mjög verulega öryggisgalla sem gera það að verkum að draga verður allan ríkisfjárhag síðasta áratugs í efa. Úttekt á þessu hafði verið leynt frá Alþingi í næstum áratug, að því er virðist til að vernda hagsmuni ríkisendurskoðanda og fjölskyldu hans.

Það má segja að þetta mál er merkilegt fyrir þær sakir að það undirstrikar þörfina á auknu gagnsæi, ábyrgð, og tryggingar fyrir frjálsu flæði upplýsinga.

Í 15. grein frumvarps stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár er upplýsingafrelsi skilgreint. Þar er sagt að allir megi afla og miðla upplýsingum, og gert er grein fyrir því hvernig upplýsingamiðlun að hálfu ríkisins eigi að fara fram. Nánar er kveðið á um upplýsingaskyldu embættismanna í seinni köflum frumvarpsins. Í 16. greininni er svo sagt að fjölmiðlar, heimildarmenn og afhjúpendur eigi að njóta verndar.

Ýmsar aðrar greinar fjalla á ýmsa vegu um gagnsæi og ábyrgð. Almennt eru tillögur stjórnlagaráðs mjög vilhallar opnara samfélagi, sem mér finnst gott.

Núgildandi stjórnarskrá setur engan ramma fyrir upplýsingaskyldu stjórnvalda, né heldur er gerð sérstök tilraun til að vernda þá sem miðla upplýsingum í samfélaginu. Auðvitað má tryggja vernd afhjúpenda og heimildarmanna með lögum, og það eru bæði upplýsingalög og lög um skyldur opinberra starfsmanna í gildi. Hinsvegar er staðreynd að stjórnarskráarleg vernd hefur mun sterkara gildi og tryggir á vissan hátt að lög séu gerð um þessi málefni og ekki gildisfelld.

Hvort Orramálið hafi getað komið upp, hefðu tillögur stjórnlagaráðs tekið gildi fyrir rúmum áratug, mun enginn geta spáð fyrir. Hinsvegar er það ljóst að gagnsæiskröfurnar eru skýrari þar, og í slíku lagaumhverfi hefðu fyrstu viðbrögð ríkisendurskoðanda tæplega orðið þau að kalla til lögreglu til að rannsaka uppruna lekans, sem átti fullkomnlega rétt á sér.

Þetta er út af fyrir sig ástæða til að svara já við fyrstu spurningunni 20. október.

Posted in Uncategorized

Til hvers þurfum við nýja stjórnarskrá?

Bólivíubúar vita sennilega betur en flestir hvað stjórnarskrá er. Síðan landið varð sjálfstætt hefur það tekið upp nýja stjórnarskrá að meðaltali á ellefu ára fresti. Bólivískt samfélag er miklu flóknara en Íslenskt – þar eru margir ættbálkar, margar samfélagsgerðir, og verulegur munur er milli ríkra og fátækra, svo eitthvað sé nefnt. Íslendingar eru svo til einn ættbálkur, eitt samfélag, fyrir mestan part einsleitt samanborið við flest lönd. 

Helsti munurinn á núgildandi bólivísku stjórnarskránni og núgildandi íslensku stjórnarskránni er þó það að bólivíska stjórnarskráin var samin af bólivísku fólki með bólivískar aðstæður í huga. Þó svo að hún muni sennilega ekki endast nema í nokkur ár í viðbót, þá á hún þó það að hún tekur mið af bólivískum raunveruleika.

Stjórnarskrá Íslands hefur vissulega verið uppfærð nokkrum sinnum, en hún er upprunalega skrifuð af dönskum embættismönnum sem regluverk fyrir Íslendinga á tíma þar sem íslenskur raunveruleiki skipti ekki nokkru máli fyrir ráðamenn. Íslenska stjórnarskráin er fullkomin fyrir aðstæður danskra embættismanna í byrjun 20. aldar, með svo smá mannréttindamauki og kjördæmapoti skellt ofan á.

Kosningarnar 20. október snúast ekki um hvort Íslandi þurfi nýja stjórnarskrá. Það var krafa fólks eftir hrunið að ný stjórnarskrá yrði samin, og flestir stjórnmálaflokkar gengu inn í Alþingiskosningar síðast með einhverskonar fyrirætlanir um að ný stjórnarskrá yrði skrifuð. Tiltölulega fáir stjórnmálamenn trúa því að núgildandi stjórnarskrá uppfylli þarfir okkar. Það má alveg draga í efa heiðarleika þeirra sem halda því fram að þetta aldargamla plagg sé viðunandi. Viðunandi fyrir hvern?

Í rauninni er núgildandi stjórnarskrá svo ónýt að almenningur er ekki spurður álits á stjórnarskrárbreytingum. Valdið liggur hjá Alþingi, sem þarf að samþykkja breytingar og boða svo til Alþingiskosninga, en þegar nýtt Alþingi kemur saman eru breytingarnar staðfestar. Kosningarnar sem slíkar snúast ekki um stjórnarskránna, heldur bara hvaða stjórnmálamenn fá að ákveða okkar örlög næstu fjögur ár.

Þess vegna eru kosningarnar 20. október svona mikilvægar. Þetta er tækifærið okkar til að útskýra fyrir Alþingi hvaða eiginleika við viljum að ný stjórnarskrá hafi. Við fáum að segja álit okkar á tillögum stjórnlagaráðs, á persónukjöri og kjördæmafyrirkomulagi. Við fáum að leggja dóm á það hvort stjórnarskrá eigi að innihalda ákvæði um þjóðkirkju og náttúruauðlindir, og hvort það eigi að auka möguleika almennings á lýðræðislegu inngripi inn í aðgerðir Alþingis.

Í rauninni er þetta skoðanakönnun – það er það sem óbindandi þjóðaratkvæðagreiðsla er – en þetta er mjög mikilvæg skoðanakönnun sem allir ættu að taka þátt í. Það hefði auðvitað mátt gera ýmislegt öðruvísi í ferlinu, en það verður að skoða hverjar ástæðurnar eru fyrir því að ferlið hefur verið jafn ófullkomið og það í raun er. 

Ég vona svo sannarlega að fólk muni það í næstu Alþingiskosningum hverjir það voru á Alþingi sem neituðu að leyfa ferlinu að eiga sér stað á eðlilegastan og lýðræðislegastan hátt, og lögðu upp í málþóf í hvert skipti sem þau fengu ekki það sem þau vildu í gegnum frekju í nefndarstörfunum.

En þrátt fyrir þennan ólíðanlega barnaskap sjálfstæðismanna verður að segjast að úr hefur orðið stórmerkilegt ferli sem við eigum að hrósa okkur fyrir. Aldrei hafa bólivíumenn verið spurðir álits á því hvað eigi að standa í þeirra stjórnarskrá – þrátt fyrir allar þessar tilraunir til að byggja réttlátara samfélag þar hefur þeim aldrei dottið í hug að halda þjóðfund, eða hafa lýðræðislega kjörið stjórnlagaráð. 

Þetta ferli þarf nú stuðning okkar allra á lokametrunum til að tryggja okkur nýja stjórnarskrá sem hentar á nýrri öld, sem hentar íslenskum raunveruleika. Kjósum öll 20. október!

Posted in Uncategorized

Að sitja við borðið

Open Government Partnership (OGP) er samvinnuverkefni fjölmargra ríkisstjórna um að bæta opna stjórnsýslu. Meðal aðildarríkja eru Moldóva, Tanzanía, Filippseyjar, Danmörk og Bandaríkin. Þetta er ört vaxandi hópur sem setur staðla um opin gögn, opin fjárhag, áreiðanleika, rekjanleika og fleira.

Það má segja að OGP hafi mismunandi tilgang eftir því hvaða land er verið að vinna með. Í sumum löndum, eins og Azerbaijan, er þátttaka landsins frá ríkisstjórnarinnar sjónarhóli ætlaður til að hvítþvo landið, en hefur í rauninni þau áhrif að gefa samtökum í landinu sterkari rödd sem heyrist langt út fyrir landamærin. Í öðrum löndum, til dæmis Brazilíu, er verkefnið að hjálpa ríkinu að læra af öðrum ríkjum meðan það sýnir sína ótrúlegu velgengni.

Þegar þetta er skrifað sit ég á evrópusamráðsfundi Open Government Partnership í Dubrovnik í Króatíu. Hér eru um hundrað þátttakendur frá “civil society organizations” (CSO) – þar á meðal ég, sem er hér á vegum IMMI – og svo annar eins fjöldi frá ríkisstjórnum hinna ýmsu landa. Bretar, Hollendingar, Ungverjar, Eistar, Svíar, og svo framvegis. Það er meiraðsegja einn Norðmaður á svæðinu.

Það er enginn fulltrúi ríkis á fundinum frá Íslandi. Ísland er ekki einusinni aðili að Open Government Partnership. Við erum því ekki að njóta góðs af þekkingu og reynslu ríkja og samtaka út um allt sem eru að kanna gagnsæi lögreglu, eftirfylgni í spillingarmálum, staðla um vernd heimildarmanna, og svo framvegis.

Það væri kannski ekki óeðlilegt að Ísland væri ekki með fulltrúa hér, nema hvað eftir að mér var boðið á þennan fund átti ég nokkur samtöl við ráðuneytin og svo við Króatíska utanríkisráðuneytið. Króatarnir tóku sig til og sendu formlegt boð til Íslenskra stjórnvalda með ósk um að við myndum senda fulltrúa á fundinn sem lið í því að fá Ísland inn í verkefnið. Mér skilst meira að segja að Króatar hafi boðist til að borga, en get ekki staðfest það.

Síðan hrunið varð hefur Íslenska ríkisstjórnin og stjórnarráðið minnkað verulega viðveru sína á allskyns alþjóðlegum fundum. Ég veit um dæmi þess að sérfræðingar í ráðuneytum með stóra og flókna málaflokka sem krefjast mikillar alþjóðlegrar samvinnu á sínum borðum komist ekki nema á einn til tvo samráðsfundi á ári. Þetta er vissulega sparnaður í ríkisrekstri, en þetta þýðir það hreinlega að okkar góða fólk getur ekki verið jafn vel upplýst um sína málaflokka og það ætti að vera.

En það er annað verra: Við erum ekki með fulltrúa við borðið.

Heimspólitíkin er að verða skrýtnari og skrýtnari með hverjum deginum. Í gær, á fundi WIPO (alþjóðahugverkaréttarsamtökunum), var alþjóðasamtökum Pírata (Pirate Parties International) hafnað áheyrnaraðild að samtökunum, á þeim grundvelli að þátttökuríkin óttuðust að Píratar myndu gagnrýna ákvarðanir ríkisstjórnanna í þeirra heimalöndum. Á sama fundi – um klukkutíma síðar – var ákveðið að taka frá heilan dag til að leyfa forstjórum stórra hugverkaréttarfyrirtækja að kynna sín hugðarefni, án þess að sambærilegir dagar væru teknir frá fyrir neytendaverndarsamtök eða annarskyns CSO. 

Ísland er fyrir mestan part land byggt af skynsömu fólki, en þrátt fyrir að vera eiginlegt eyland erum við alls ekki eyland í alþjóðlegu samhengi. Ákvarðanir fólks í fyrirbærum eins og WIPO, IGF, OGP, og svo framvegis hafa áhrif á okkur. Það kostar einhvern pening að taka þátt, en mun minna en það kostar okkur að taka ekki þátt.

Ef við eigum ekki sæti við borðið erum við fórnarlömb ákvarðanna annarra. Og ef við tökum okkur ekki sæti við borðið þegar okkur er boðið að taka þátt, þá erum við að henda skynsemi okkar og hugsanlega framtíð okkar út um gluggann.

Posted in Uncategorized