Tómir kofar

Ég á þann vafasama heiður að vera ríkisborgari í tveimur löndum þar sem hagkerfið hefur hrunið. Síðustu helgi var ég með fjölskyldunni minni á Írlandi, en keyrði svo yfir á vesturhlutann til að eiga fund með fólki úr írska píratapartýinu.

Það var sama hvort ég var í norðri eða suðri, austri eða vestri, það blasti það sama við allsstaðar: tómir húsgrunnar, fokheld hús, tóm hús, fullbyggð hús í óuppgerðum hverfum, og heilu fullbúnu hverfin af tómum húsum. Vinur minn, Arthur, fór með mig í smá bíltúr um smábæ í Leitrim þar sem aðeins um 60% húsanna höfðu verið seld, þar af um helmingur til efnafólks sem hugðist nota þau sem sumarhús.

Fólk sem ég hitti sagði mér að hús eru að seljast fyrir um 15% af upplögðu verði, en bankarnir eru að gera allt sem þeir geta til að neita að fjármagna slík kaup, því þeir óttast að hrun í fasteignaverði geti keyrt bankana í þrot á ný. Því eru hús til sölu á fimm til sexfalt því verði sem fólk væri reiðubúið til að kaupa, þrátt fyrir að þau hafi mörg hver verið lækkuð um helming nú þegar.

Það sem gerir þetta allt voðalega skrýtið er að byggingafyrirtækin eru þrátt fyrir allt að setja talsverða vinnu og peninga í að klára að byggja – ekki bara að klára fokheld hús, heldur að ganga frá hverfum, og jafnvel setja teppi, parket og eldhúsinnréttingar inn í heilu hverfin. Það væri svosem vit í því að klára að gera upp eitt eða tvö hús í hverfi til að sýna þau, en hér er bara verið að bulla.

Um milljón ónotuð svefnherbergi eru á Írlandi sem stendur, þegar talin eru fullbyggðu húsin. Það er alveg sama hvernig maður snýr þessu dæmi, þetta gengur bara ekki upp. Hvernig tókst fólki að byggja óvart milljón fleiri svefnherbergi en er þörf á? Er fólk svona rosalega staurblindað af trausti sínu til ósýnilegu handarinnar að það gerir bara ráð fyrir endalausum vexti?

Eftir að ég hafði heyrt allar þessar sögur fór ég í innkaupaferð með vini mínum. Það þurfti eina evru til að losa innkaupakerru úr lest, en við vorum hvorugir með slíkt á okkur. Ég prófaði að troða íslenskum tíkalli í raufina, og það gekk. Þegar vinur minn ætlaði svo að skila tíkallinum afþakkaði ég. Ég sagði í gríni að honum veitti ekki af alvöru gjaldmiðli.

Nú er ég hvorki fylgjandi krónu né á móti henni, og sama má segja um evruna. Það er barnalegt að stilla þeim upp á móti hvor annarri, því þær eru bara ætlaðar til mjög ólíkra hluta. Evran er hugsuð sem stór viðskiptagjaldmiðill fyrir heila heimsálfu, en krónan sem innanríkisgjaldmiðill fyrir lítið land. Evran var aldrei ætluð sem einn gjaldmiðill til að gnæfa yfir þeim öllum – hönnuðir hennar vildu alltaf hafa fjölbreytta flóru gjaldmiðla með evruna sem bakbein. Það voru pólitíkusar sem eyðilögðu þá hugmynd.

Írland er í rauninni alveg ótrúlega gott dæmi um það hvað hefði getað komið fyrir á Íslandi, hefðum við haft aðeins minna sjálfstæði. Á leiðinni út hafði ég með mér Fréttablaðið frá því fyrir rúmri viku, þar sem grein Oddnýjar Harðardóttir hafði graf sem sýndi halla ríkissjóðs árin 2009-2013 (síðasta sem áætlun). Sýnandi Írum grafið sögðust þeir margir hverjir fullir öfundar.

Eðlilega.

Posted in Uncategorized

Ritskoðunarfárið

Undanfarna daga hef ég verið að berjast við báðar hliðar á sérkennilegu vandamáli. Grapevine flutti fréttir af því í vikunni að Vodafone og Síminn, sem auk þess að vera stærstu símafélögin og netveiturnar á Íslandi eru nær einráðir um rekstur fjarskiptainnviða, ætluðu að fara að stunda ritskoðun á klám- og fjárhættuspilasíðum, undir því yfirskini að það myndi bæta öryggi notanda. Hér var um töluverða oftúlkun að ræða hjá blaðamanni Grapevine, sem þó brást við þeim ónákvæmu upplýsingum um fyrirætlanir símafyrirtækjanna á nákvæmlega sama hátt og ég gerði sjálfur: með mikilli reiði.

Rangur misskilningur

Hafandi tekið þátt í umræðuþræði með Hrannarri Péturssyni á Smettiskinnu (Facebook) skil ég nú hvað vakir fyrir Símanum, og Vodafone skýrðu sína afstöðu í grein í Grapevine í gær. Þó vissulega sé verið að ræða um að búa til ritskoðunarkerfi, þá er það virkjað fyrir hverja heimatengingu fyrir sig en ekki almennt á öllum tengingum, og notendur hafa þann kost að slökkva á ritskoðunarkerfinu, sem mun tilkynna notendum þegar ritskoðun hefur átt sér stað. Þá er hugmyndin að hafa kerfið virkjað að sjálfgefnu.

Þetta er ekki jafn slæmt og við héldum í fyrstu. Það er mjög slæmt að ritskoðunarkerfið sé virkjað af sjálfgefnu, því margir notendur munu óttast afleiðingar þess að afnema ritskoðunina. Auk þess er það staðreynd, eins og Bjarni Rúnar Einarsson bendir á í frábærri grein sinni í Fréttablaðinu í dag, að það er ekki fræðilegur möguleiki að stunda ritskoðun á nettengingum án þess að hafa eftirlit með öllu því sem gerist á nettengingunni. Þó það eftirlit sé sjálfvirkt er um eftirlit að ræða – rafrænt eftirlit með öllu því sem netnotendur gera. Mistök Orwells í þessu sérkennilega máli voru að gera ráð fyrir að stóri bróðir væri ekki hlutafélag.

Gagnslaust og snargalið

Svo er þetta bara svo furðuleg hugmynd. Ritskoðun bætir ekki öryggi fólks neitt frekar en það að allir séu blindaðir dregur úr flensutilfellum. Hugmynd símafyrirtækjanna er sú að þar sem flestir spillikóðar (malware: vírusar, ormar, trojuhestar og ýmislegt annað) smitast inn í tölvur frá klám- og fjárhættuspilasíðum sé lausnin að ritskoða þær. Hér er gert ráð fyrir þrennu.

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að síðurnar sem heimsóttar eru skipti meira máli en sá hugbúnaður sem tölvurnar keyra. Í rauninni er besta leiðin til að koma í veg fyrir spillikóða að nota stýrikerfi sem er með skynsamt öryggislíkan og virkt öryggissamfélag. Í stað þess að verja fjármunum í ritskoðun ættu símafyrirtækin að gefa viðskiptavinum sínum ný stýrikerfi, til dæmis Ubuntu Live CD. Í það allra minnsta ættu þau að mæla eindregið gegn notkun á Internet Explorer vafranum, sem er hálfgerð ryksuga á spillikóða. Góður hugbúnaður er gæddur ágætis sjálfsvarnarhæfileikum.

Í öðru lagi er gengið út frá því að sían muni ekki hafa heilan helling af “false negatives”, sem myndu gera síuna svo til gagnslausa í reynd. Besta ritskoðunarkerfi í heimi mun aldrei ná að ritskoða allt efni rétt, og margt sem “ætti” að ritskoðast mun sleppa í gegn án áreitis.

Í þriðja lagi er gengið út frá því að sían muni ekki hafa heilan helling af “false positives”, sem myndu vinna verulegan skaða á tjáningarfrelsi fólks, og gæti skaðað viðskiptahagsmuni fyrirtækja. Besta ritskoðunarkerfi í heimi mun aldrei geta greint á milli vefs þar sem fjallað er um klám og vefs sem inniheldur klám. Stykkorðaskimun og Bayesískar síur eru fallvaltar aðferðir.

Sem sagt, þessi hugmynd mun ekki virka, og það eru til betri lausnir (sem munu reyndar heldur ekki virka fullkomnlega – ekkert er 100% öruggt!)

Ímyndarlegt stórslys

En þó baráttan síðustu daga hefur að hluta til snúist um að útskýra algert gagnsleysi ritskoðunar sem öryggisráðstöfun, þá hefur mun stærri hluti snúist um að bjarga hagsmunum Íslands á erlendum vettvangi. Hluti af mínu starfi er að markaðssetja Ísland sem einn af bestu stöðum heims til að reka gagnaver, hýsa gögn svo sem vefsíður, og að stunda fjölmiðlun. Þó svo að það sé langt í land með að Ísland geti talist vera með framúrskarandi löggjöf sem verndar upplýsingamiðlun, þá er ríkisstjórnin að vinna hörðum höndum að því verkefni að marka Íslandi afgerandi lagalega sérstöðu á sviði upplýsinga- og tjáningarfrelsis, í samræmi við ályktun Alþingis frá því 2010. Ég á von á því að lögð verði fram þó nokkur ný frumvörp á nýhöfnu þingi sem munu stuðla að því að bæta lagaumhverfið hér, og komist þаu öll í gegn verður Ísland komið í fyrsta sætið á heimsvísu, í stað þess að vera rétt á hælunum á Þýskalandi og Eistlandi eins og í dag.

Þetta mikilvæga verkefni – sem snýst ekki síst um að bæta upplýsingaflæði í landi sem þoldi mikið hrun meðal annars vegna skorts á gagnsæi – hefur vakið mjög mikla athygli erlendis, og það líður ekki sá dagur sem ég fæ ekki fyrirspurnir frá erlendum fjölmiðlum, sem og fyrirtækjum, hjálparstofnunum, pólitískum hreyfingum og aðgerðarsinnum um hvernig verkefninu miðar.

Þegar að fréttin birtist á Grapevine fangaði hún strax athygli erlendis, enda þótti mörgum hér vera mikill viðsnúningur frá yfirlýstum markmiðum. Netfjölmiðlar á borð við Mashable fluttu frekar misvísandi fréttir af hinni nýju ritskoðunaráráttu Íslendinga, og var sumstaðar gengið svo langt að væna ríkisstjórn Íslands um að beita fjarskiptafyrirtækjum þrýsting.

Í stuttu máli var þetta ímyndarlegt stórslys fyrir Ísland, og ljóst er að ég og samstarfsmenn mínir munu eyða næstu mánuðum í að reyna að laga þennan skaða. Sem dæmi um skaðann sem orðið hefur bendir Guðjón Már Guðjónsson á að samtöl innan netrisans Google bendi til þess að þeir hafi ákveðið að leggja hugmyndir um að hefja starfsemi á Íslandi á hilluna í bili.

Gerum rétt

Í dag eru sífellt fleiri lönd að stunda ritskoðun og eftirlit með Internetinu. Allir sem eiga hagsmuni að gæta af tilvist Internetsins eru í dag að leita að griðarstað þar sem frelsi netsins verður ekki ógnað. Ísland getur orðið sá griðarstaður, en við verðum að fara mjög varlega með orðspor okkar – að hluta til með því að samþykkja aldrei eftirlitssamfélag eða ritskoðun af neinu tagi, alveg sama í hvaða tilgangi. Þó svo að umræða þurfi að sjálfsögðu að fara fram um þessi mál, þá verður sú umræða að vera vönduð og skynsöm.

 

Posted in Uncategorized

Brennuvargarnir

Yfirleitt nenni ég ekki að tala beinlínis gegn tilteknum flokki, en nú finn ég mig knúinn til að breyta því. Mér finnst niðurstöður nýrrar könnunar frá Gallup stórfurðulegar og stórhættulegar.

Ef brennuvargar kveiktu í húsi þætti fólki væntanlega skrýtið að kenna slökkviliðinu um eldsvoðann. Það teldist væntanlega enn skrýtnara að brennuvargarnir væru kallaðir til og þeir beðnir um að slökkva eldinn.

Vissulega gæti einhver kvartað yfir því að slökkviliðið sé ekki að slökkva eldinn nógu hratt, og vissulega mætti hvetja þá til dáða eða reyna að hjálpa þeim. Jafnvel mætti íhuga hvort það ætti að reka ýmsa úr slökkviliðinu og fá hæfara fólk í staðinn. En jafnvel þótt slökkviliðið megi alveg við gagnrýni og uppstokkun, þá er samt stórfurðuleg hugmynd að ætla sér að kenna þeim um brunann, eða refsa þeim fyrir að hann hafi átt sér stað.

Þó er þetta það sem virðist vera að gerast í íslenskri pólitík.

Fólk virðist vera haldið einhverskonar pólitísku Stokkhólmsheilkenni gagnvart Sjálfstæðisflokknum. Það virðist halda að ef það styður flokkinn í nógu blindri trú þá muni allt fara vel að lokum. Og raunar er það rétt – það mun allt fara vel, fyrir einhverja örfáa. Aðrir þurfa að sætta sig við hina óhrekjanlegu lógík sem felst í “trickle-down economics”.

Eins og staðan er í dag gæti Sjálfstæðisflokkurinn komist til valda í næstu kosningum. Ef svo fer er nokkuð ljóst hvernig fer. Ég er enginn sérstakur stuðningsmaður núverandi ríkisstjórnar – né heldur hef ég neitt sérstakt á móti henni. Sumir standa sig vel, aðrir standa sig illa. Mín afstaða er fullkomnlega praktísk. Það er rosalega ópraktískt að láta valdasjúka eiginhagsmunaseggi komast til valda, sérstaklega á þeim gjörsamlega óraunverulegu forsendum að þeir séu einhverjir stuðningsmenn frjálsra markaða og persónufrelsis. Sagan sýnir annað.

Posted in Uncategorized

Hlerunaráráttan heldur áfram

Í fjölmiðlum í síðustu viku mátti greina sterkan stuðning blaðamanna við þá kröfu lögreglunnar að þeir fái heimild til að fá lista yfir alla þá einstaklinga sem voru að nota síma í Herjólfsdal á tilteknu tímabili. Fjölmiðlarnir gerðu enga tilraun til að vera gagnrýnir í umfjöllun sinni, og veltu til dæmis ekki fyrir sér að hugsanlega voru mörg hundruð manns að nota síma á tímanum sem um ræðir, og að einhverjir þeirra kunna að hafa verið að nota óskráð frelsiskort.

Þá er gengið er út frá því að afhending slíkra gagna yrði gagnlegt rannsókninni. Þó er líklegra að gögnin geri meira ógagn en gagn. Hópur grunaðra minnkar ekki, heldur stækkar hann verulega. Sá sem sást á umræddu myndbandi kann að hafa verið að nota síma einhvers annars, eða hafi verið að þykjast tala í símann, eða hafi reynt að hringja en ekki náð í gegn.

Svo kemur fram lögregla og spyr að því hvort öðruvísi væri farið að ef um væri að ræða Anders Breivik. Hér er greinilega verið að reyna að afvegaleiða umræðuna. Í stað þess að halda sig innan ramma raunveruleikans er brugið á það ráð að vísa í óljósa hryðjuverkaógn.

Hér er lögregla að reyna að réttlæta stórfellt brot á friðhelgi einkalífsins. Hér er ekki verið að tala um að brjóta mannréttindi eins manns, heldur allra sem voru í Herjólfsdal á þessum tiltekna tíma sem voru einhverra hluta vegna að nota síma. Þetta er algjörlega óásættanlegt.

Ákvörðun hæstaréttar í þessu máli var með þeim skynsamari sem ég hef séð frá þeim um nokkra hríð, og það sannast best á því að lögreglan hafi ákveðið að reyna að réttlæta þetta með tilvísun í Anders Breivik. Reglurnar eru til staðar einmitt til að koma í veg fyrir misnotkun af því tagi sem um ræðir.

Það má gagnrýna marga í þessu máli. Fjölmiðlar ættu að hafa gripið þetta endæmis bull á lofti og tætt það í sig, en ekki herma ógagnrýnið eftir lögreglunni og mála fjarskiptafyrirtækin, sem hér voru að verja mannréttindi, sem þrjóta. Sömuleiðis ætti Lögreglan ekki undir nokkrum kringumstæðum að láta sér detta til hugar að brjóta á mannréttindum, hvort sem það er vegna Breiviks eða nokkurs annars – nauðsyn brýtur ekki lög.

Raunar mætti jafnframt spyrja: Hvers vegna í ósköpunum hafa símafyrirtækin upplýsingar til reiðu um hvaða farsímanotendur voru að nota tiltekinn farsímaturn á tilteknum tíma? Það er ekki eins og þær upplýsingar skipti máli upp á bókhald – eina sem skiptir máli er hversu lengi hringt var, ekki hvaðan. Nei, staðreyndin hér er sú að þessi gögn eru geymd í sex mánuði samkvæmt lögum sem sett voru með hraði í valdatíð Sturlu Böðvarssonar, að beiðni ríkislögreglustjóra. Sambærileg lög eru til í fjölmörgum Evrópulöndum, þrátt fyrir að það hafi verið margsannað að þessi geymsla á gögnum gagnast ekki hið minnsta og gangi algjörlega gegn alþjóðlegum viðmiðum um meðalhóf. Þessi lög ætti að afnema, hið snarasta.

Posted in Uncategorized