Author Archives: thorgnyr
Er hústökufólk í borgarstjórn?
Möglað um Mosku
Pírötum barst eitt sinn bréf þar sem borið var undir flokkinn að taka afstöðu gegn byggingu bænahúss múslíma í Reykjavík. Það skal tekið fram strax að Píratar munu ekki beita sér gegn byggingu bænahúss múslima, eða nokkurra annarra trúarbragða.
“[… ] að þessi trúarbrögð byggjast á mjög róttækri hugmyndafræði og eru mikil öfgaöfl, einnig standast þau engan veginn jafnréttislög á Íslandi”.
Það verður að teljast í meira lagi undarlegt að ætla abrahamískum trúarbrögðum samhljóm með jafnrétti eða þá öðrum grundvallarréttindum ef út í það er farið.
“Konan á að læra í kyrrþey, í allri undirgefni. Ekki leyfi ég konu að kenna eða taka sér vald yfir manninum, heldur á hún að vera kyrrlát. Því að Adam var fyrst myndaður, síðan Eva. Adam lét ekki tælast, heldur lét konan tælast og gjörðist brotleg. En hún mun hólpin verða, sakir barnburðarins, ef hún stendur stöðug í trú, kærleika og helgun, samfara hóglæti.” – Fyrra Tímóteusarbréf, 2:11-15 (Nýja testamenti).
Íslenskt samfélag hefur sem betur fer þroskast úr því að taka ríkistrúna of alvarlega, en sú þróun átti sér ekki stað með banni á kirkjum, bænahaldi, Biblíulestri eða trúboði. Ekki þarf boð eða bönn til að almenningur hætti að taka mark á Biblíunni. Árangursríkasta leiðin til að sporna við neikvæðri hugmyndafræði er efling borgararéttinda, ekki takmörkun þeirra.
Ef fólk hefur áhyggjur af hugmyndafræði íslams, eða þá annarra trúarbragða, þá er rétta leiðin sú að nýta þau borgararéttindi sem bjóðast, nefnilega trú-, skoðana- og tjáningarfrelsið til þess að gagnrýna þau efnislega. Svo mikið er víst að af nógu er að taka.
Trúfrelsi, rétt eins og tjáningarfrelsi, byggir nefnilega ekki á því að fólk fari eingöngu með sannar og fallegar staðhæfingar, heldur á því að næg sé samkeppnin á vettvangi hugmyndaskiptanna.
Ég kem af hökkurum!
Í hverri fjölskyldu er þúsundþjalasmiður af einhverjum toga. Pabbinn og mamman sem smíða, prjóna og elda eins og þau hafi ekkert annað gert, systkinið sem getur gert við allar vélar og jafnaldrinn sem sér til þess að allar tölvur séu í standi hjá öllum. Þetta er fólkið sem lætur ekki kenna sér hlutina, þetta er fólkið sem lærir hlutina.
Í dag eru nokkur tískuorð til yfir svona fólk enda hugtakið þúsundþjalasmiður vísast nokkuð úr sér gengið og ekki nægilega yfirgripsmikið. Á ensku hefur orðið “Maker” fengið nokkuð fylgi og sömuleiðis hugtakið “Hacker”, eða hakkari sem hefur þó fengið neikvæða hliðarmerkingu.
Þekkt er að hugtakið var í reynd notað meðal radíóamatöra á sjötta áratug síðustu aldar yfir þá sem nutu þess að skilja hvernig græjurnar virkuðu, gerðu sér það til leiks að “hakka” til þess að bæta tólin eða fundu nýjar og betri leiðir. Snillingarnir í Mythbusters þáttunum eru skólabókarhakkarar samkvæmt þessari skilgreiningu.
Píratar eru hakkarar því þeir beita sameiginlegum þekkingarþorsta sínum til að búa til nýjar leiðir til að vinna að verkefnum komandi kjörtímabils. Við erum tilbúin til að vinna með öllum sem nenna að hakka stjórnkerfið með okkur. Gerum þetta betra saman!
Ég er hakkari líka því að ég er mannlegur. Ég geri mistök. Ég vil bæta mig og ég vil bæta samfélagið mitt.
x.piratar.is er fyrsta hakkið af fjöldamörgum sem munu breyta Íslandi. Á þessu kerfi gefst öllum tækifæri til að taka þátt í stjórnkerfi landsins. Vertu með. Vertu hakkari!
Velkomin í fullorðinna manna tölu!
Af hverju þarf maður að vera 18 til að kjósa? Nú, augljóslega því nóttina fyrir átján ára afmælisdaginn kemur Jón Sigurðsson til þín í draumi og blessar þig með náðargáfu lýðræðislegrar hugsunar og getunni til að taka ávallt réttar ákvarðanir!
Við höfum það fyrir satt að þetta er ekki raunin. Einstaklingar verða ekki, án alls undirbúnings, skyndilega tilbúnir til þess að kjósa samkvæmt bestu vitund. Til þess að taka þátt í lýðræðislegum ferlum á skynsamlegan hátt þarf maður að geta kynnt sér valkostina, gert sér í hugarlund hugsanlegar afleiðingar atkvæðisins og haft í huga gróflega hvernig lýðræði/fulltrúalýðræði virkar. Svo hvernig eru börn undirbúin fyrir þennan mikilvæga dag þegar þau taka þátt í þjóðkosningu í fyrsta sinn?
Flestum er þeim bara sagt hvað þau eiga að kjósa. Af því bara.
Minn bakgrunnur er úr ýmiskonar tómstundastarfi. Ég hef unnið á leikskólum, frístundaheimilum og í félagsmiðstöðvum. Grunnþáttur í minni vinnu er að virkja börnin ykkar til þátttöku í nærumhverfi sínu. Innan þessa geira hefur því mikið verið rætt um hvort það sé hreinlega nokkur fyrirstaða fyrir því að lækka kosningaaldurinn niður í 16 ár.
Ég tek heilshugar undir það. Ég tel að ungmenni séu jafn vel í stakk búin til að kjósa í þjóðkosningum og við hin. Enn fremur legg ég til að gerð verði áætlun sem miðar að því að þrepaskipta lýðræðisþátttöku barna samhliða námi, þannig að hún byrji í nærumhverfi þeirra strax í upphafi skólaferilsins og börnin fái sífellt aukin tækifæri til þátttöku þar til þau fá kosningarétt.
Urðum bara til á netinu?
Í vikunni varð á vegi mínum einstaklingur sem skaut Pírata niður með rökum sem ég kýs að kalla „bara“ rök. Tómstundaheimili barna eru mitt sérsvið, sem gerir mig að mestu ónæman fyrir slíkum rökum. Blessunarlega.
Til útskýringar þá voru andrökin við (betra orðalag: rökin gegn) Pírötum á þá leið að þetta væri „bara netflokkur“ sem „varð til á netinu“. Staðhæfingarnar einar og sér eru á vissan hátt sannar en það var þetta algera skilningsleysi og viljaleysi til að kynna sér málið, jafnvel hlusta á útskýringar mínar, sem ergði mig meira en orð fá lýst.
Meðal þess sem bar á góma í þessu samtali okkar var það hvernig Píratar ætluðu sér að eyðileggja lýðræðið á Íslandi með því að útiloka tölvu- og nethefta einstaklinga frá lýðræðislegri þátttöku. Ég fékk auðvitað ekki að leiðrétta þennan misskilning með því að benda á að Píratar ætluðu sér öðru fremur að auka framboð á lýðræði frekar en hitt. „Nei, það er ekki rétt hjá þér“ var svarið sem ég fékk. Blessunarlega (annað sinn sem þú notar “blessunarlega”, er frekar áberandi orð, er þetta með ráðum gert?) er slík þvermóðska ekki gegnumgangandi eiginleiki á Íslandi.
Píratar eru vissulega stjórnmálaafl internetsins. Við vinnum dreift, án miðlægrar flokks- eða kosningaskrifstofu, myndum okkur skoðun með því að nýta okkur kosti netsins til upplýsingar og skeggræðum útfærslur og stefnumál á okkar eigin lýðræðishugbúnaði sem við hönnuðum á vefsíðu okkar, x.piratar.is. Þess konar vinnubrögð kallast einu (töku)orði „Crowdsourcing“, sem má kannski yfirfæra sem „sam-viska“. Þar er átt við ferli sem minnir um margt á vinnubrögð á þjóðfundinum um árið. Munurinn er helst sá að þessi vinnubrögð bara virka svo miklu betur á netinu.
Ókosturinn er þó óneitanlega sá að við erum ekki mjög sýnileg utan netsins. Til að bæta úr því munu Píratar standa fyrir svokölluðum, pop-up kosningaskrifstofum. Nú þegar eru tvær slíkar afstaðnar með mikilli prýði og þegar á líður munu síðan helstu frambjóðendur Pírata bjóða heim í kaffi og spjall.
Með vinsemd og virðingu,
Þórgnýr Thoroddsen, Pírati.