Litlu stóru málin

Píratar eru best þekktir sem angi alþjóðahreyfingar sem hefur borgararéttindi, gagnsæi stjórnsýslu, upplýsingafrelsi og beint lýðræði á oddinum. Þetta eru stóru málin og grunnstefna Pírata endurspeglar þann verueika, en hún er hornsteinn stefnu móðurfélagsins og allra aðildarfélaga Pírata.
En Píratar hafa mikla breidd, í okkar röðum er fólk með andstæðar skoðanir, ólík áhugamál og fagþekking einstaklinganna í flokknum er af öllum toga. Fyrir vikið eru á stefnuskrá hjá okkur fjölmörg mál sem mætti segja að séu minniháttar.
Nýverið fékk einn frambjóðandi okkar til borgarstjórnar Reykjavíkur símtal vegna eins þessara litlu mála. Á línunni var sannfærður kjósandi sem að vildi þakka Pírötum fyrir að hafa á stefnuskrá sinni að aðgangur barna og unglinga að samskiptum við dýr innan borgarmarka yrði efldur og að kannaðar verði leiðir til að gera börnum kleift að umgangast hesta og leggja stund á útreiðar. Þessi sami kjósandi sagði frambjóðanda okkar enn fremur að hann teldi rétt að láta alla sína vini vita, sem vafalaust yrðu jafn hrifnir.
Píratar í Reykjavík hafa fengið nóg af spurningum um þessa stefnu. Hví hesta? Raunin er sú að á meðan það er ekki skortur á hestaleigum á höfuðborgarsvæðinu þá er kostnaður við hestaleigur hár og fæstir borgarbúar leggja stund á útreiðar. Það má vel vera að lausnin sé ekki flóknari en svo en að gera hestaleigunum kleift að bjóða upp á aðgang að hestum á grænu svæðunum sem finnast innan borgarmarkanna.
Þetta er gott dæmi um lítið stórt stefnumál.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *