Er hústökufólk í borgarstjórn?

Flugvallarmálið hefur verið mikið í deiglunni undanfarin misseri. Þessari grein er ekki ætlað að vera innlegg í þá umræðu heldur er hún um þá stöðu sem komin er upp í Fluggörðum Reykjavíkurflugvallar.
Á síðasta ári fékk sala á flugskýli til einkaafnota ekki þinglýsingu á þeim forsendum að það vantaði skilyrði í samningnum um að tilvonandi eigandi þyrfti að rífa skýlið fyrir árslok 2015 á eigin kostnað. Þetta var það fyrsta sem eigendur skýlanna heyrðu um að til stæði að rífa skýlin.
Fulltrúar félags eigenda í Fluggörðum sendu þá fulltrúa á fund borgarstjóra til að spyrja út í málið. Þar fengu þeir fengu skýr skilaboð um að umræða væri ekki í boði. Í kjölfarið sáu Fluggarðamenn sér engan sinn kost vænna en að leita álits lögmannsstofunnar Lex. Í áliti lögmanns á stofunni segir að á meðan ágreiningslaust sé að engir lóðasamningar hafi verið gerðir þá hafi 14 af 17 flugskýlum staðið í fullan hefðartíma, sbr. 2. gr. hefðarlaga 46/1905.
Álitinu lýkur svo á þessum orðum: „Af hálfu Reykjavíkurborgar liggja fyrir skipulagsáætlanir sem miða að því að breyta Fluggarðasvæðinu í ibúabyggð. Virðist því stefnt að eignaupptöku á mannvirkjum í þeim mæli að það á sér fáar hliðstæður hér á landi. Í því ljósi hlýtur að vekja stórkostlega furðu að Reykjavíkurborg hefur lítið sem ekkert samráð haft við þinglýsta eigendur mannvirkja í Fluggörðum.“
Í grunnstefnu Pírata segir að að allir eigi að hafa rétt til að koma að ákvarðanatöku um málefni sem varða þá. Þar segir einnig að Píratar beita sér fyrir eflingu og verndun borgararéttinda. Pírötum er því einfaldlega ekki stætt á öðru en að benda á þá stöðu sem þarna er komin upp. Að valtað sé yfir fólk án samráðs og án tillits til þeirra réttinda er nokkuð sem við Píratar í Reykjavík getum ekki horft upp á þegjandi og hljóðalaust.
Undirritaðir telja að hægt sé að finna ásættanlegar lausnir á mörgum erfiðum málum. Grunnforsendur þess eru þó þær sömu og grunnforsendur raunverulegs lýðræðis: samskipti og upplýsingar. Án samráðs við þá sem hagsmuna hafa að gæta af ákvarðanatöku er aldrei hægt að halda því fram að ákvörðunin hafi verið tekin með sanngjörnum hætti, algjörlega óháð því hversu góð eða slæm hún er í sjálfu sér.
Samningsstaða Fluggarðamanna er skert verulega sökum þess með hvaða hætti Reykjavíkurborg gengur fram. Þó er líklegt að ef af eignarupptöku verður sé borgin hugsanlega búin að baka sér heilmikla skaðabótaskyldu sem gæti orðið mun dýrkeyptari en sú leið að ganga heiðarlega að málinu.
Halldór Auðar Svansson skipar 1. sætið á lista Pírata í Reykjavík.
Þórgnýr Thoroddsen skipar 2. sætið á lista Pírata í Reykjavík.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *