Velkomin í fullorðinna manna tölu!

Af hverju þarf maður að vera 18 til að kjósa? Nú, augljóslega því nóttina fyrir átján ára afmælisdaginn kemur Jón Sigurðsson til þín í draumi og blessar þig með náðargáfu lýðræðislegrar hugsunar og getunni til að taka ávallt réttar ákvarðanir!

Við höfum það fyrir satt að þetta er ekki raunin. Einstaklingar verða ekki, án alls undirbúnings, skyndilega tilbúnir til þess að kjósa samkvæmt bestu vitund. Til þess að taka þátt í lýðræðislegum ferlum á skynsamlegan hátt þarf maður að geta kynnt sér valkostina, gert sér í hugarlund hugsanlegar afleiðingar atkvæðisins og haft í huga gróflega hvernig lýðræði/fulltrúalýðræði virkar. Svo hvernig eru börn undirbúin fyrir þennan mikilvæga dag þegar þau taka þátt í þjóðkosningu í fyrsta sinn?

Flestum er þeim bara sagt hvað þau eiga að kjósa. Af því bara.

Minn bakgrunnur er úr ýmiskonar tómstundastarfi. Ég hef unnið á leikskólum, frístundaheimilum og í félagsmiðstöðvum. Grunnþáttur í minni vinnu er að virkja börnin ykkar til þátttöku í nærumhverfi sínu. Innan þessa geira hefur því mikið verið rætt um hvort það sé hreinlega nokkur fyrirstaða fyrir því að lækka kosningaaldurinn niður í 16 ár.

Ég tek heilshugar undir það. Ég tel að ungmenni séu jafn vel í stakk búin til að kjósa í þjóðkosningum og við hin. Enn fremur legg ég til að gerð verði áætlun sem miðar að því að þrepaskipta lýðræðisþátttöku barna samhliða námi, þannig að hún byrji í nærumhverfi þeirra strax í upphafi skólaferilsins og börnin fái sífellt aukin tækifæri til þátttöku þar til þau fá kosningarétt.