Urðum bara til á netinu?

Í vikunni varð á vegi mínum einstaklingur sem skaut Pírata niður með rökum sem ég kýs að kalla „bara“ rök. Tómstundaheimili barna eru mitt sérsvið, sem gerir mig að mestu ónæman fyrir slíkum rökum. Blessunarlega.

Til útskýringar þá voru andrökin við (betra orðalag: rökin gegn) Pírötum á þá leið að þetta væri „bara netflokkur“ sem „varð til á netinu“. Staðhæfingarnar einar og sér eru á vissan hátt sannar en það var þetta algera skilningsleysi og viljaleysi til að kynna sér málið, jafnvel hlusta á útskýringar mínar, sem ergði mig meira en orð fá lýst.

Meðal þess sem bar á góma í þessu samtali okkar var það hvernig Píratar ætluðu sér að eyðileggja lýðræðið á Íslandi með því að útiloka tölvu- og nethefta einstaklinga frá lýðræðislegri þátttöku. Ég fékk auðvitað ekki að leiðrétta þennan misskilning með því að benda á að Píratar ætluðu sér öðru fremur að auka framboð á lýðræði frekar en hitt. „Nei, það er ekki rétt hjá þér“ var svarið sem ég fékk. Blessunarlega (annað sinn sem þú notar “blessunarlega”, er frekar áberandi orð, er þetta með ráðum gert?) er slík þvermóðska ekki gegnumgangandi eiginleiki á Íslandi.

Píratar eru vissulega stjórnmálaafl internetsins. Við vinnum dreift, án miðlægrar flokks- eða kosningaskrifstofu, myndum okkur skoðun með því að nýta okkur kosti netsins til upplýsingar og skeggræðum útfærslur og stefnumál á okkar eigin lýðræðishugbúnaði sem við hönnuðum á vefsíðu okkar, x.piratar.is. Þess konar vinnubrögð kallast einu (töku)orði „Crowdsourcing“, sem má kannski yfirfæra sem „sam-viska“. Þar er átt við ferli sem minnir um margt á vinnubrögð á þjóðfundinum um árið. Munurinn er helst sá að þessi vinnubrögð bara virka svo miklu betur á netinu.

Ókosturinn er þó óneitanlega sá að við erum ekki mjög sýnileg utan netsins. Til að bæta úr því munu Píratar standa fyrir svokölluðum, pop-up kosningaskrifstofum. Nú þegar eru tvær slíkar afstaðnar með mikilli prýði og þegar á líður munu síðan helstu frambjóðendur Pírata bjóða heim í kaffi og spjall.

Með vinsemd og virðingu,

Þórgnýr Thoroddsen, Pírati.