Píratar og portúgalska leiðin – Fíkn er ekki glæpur

Fíkniefnastefna Pírata hefur ekki fengið næga umfjöllun nú í síðari hluta kosningabaráttunnar og þar af leiðandi hef ég orðið var við að margir eru að misskilja hana. Stefnan okkar snýst ekki um að lögleiða öll fíkniefni og vonast til að vandinn hverfi eins og sumir vilja halda. Sá sem talar um að Píratar vilji lögleiða fíkniefni hefur að öllum líkindum ekki kynnt sér málin nægilega vel.

Fíklar eiga gjarnan engin spil á hendi og eru oftar en ekki óvinnufærir sökum fíknarinnar. Þeir leiðast út í smáglæpi til þess að fjármagna næsta skammt og loka sig inni í ömurlegum vítahring þar sem enga undankomuleið virðist vera að finna.

Píratar hafa alltaf talað fyrir mannúðlegri nálgun á fíkniefnavandann og vilja að þeir sem hafa ánetjast fíkniefnum séu teknir inn í heilbrigðiskerfið. Þar sé þeim hjálpað að losna við fíknina og að verða aftur heilbrigðir einstaklingar sem geta tekið virkan þátt í samfélaginu. Með því að afglæpavæða neysluna myndu til dæmis þeir unglingar sem hafa ánetjast fíkniefnum ekki þurfa að óttast að vera dæmdir og gætu þar af leiðandi óhræddir leitað sér aðstoðar. Þessi leið hefur gefið góða raun í Portúgal og er gjarnan kölluð „Portúgalska leiðin“.

Stríðið gegn fíkniefnum hefur staðið yfir í áratugi og hlaupa yfirvöld um allan heim eins og hamstrar í hlaupahjóli og átta sig ekki á því að gamla leiðin er engan vegin að virka. Gamla leiðin sem er glæpavæðingin og stríðið gegn þeim sem hafa stigið feilspor í lífinu. Píratar eru ekki að tala um lögleiðingu á innflutningi, sölu og dreifingu fíkniefna. Píratar vilja að hætt sé að refsa þeim sem þurfa á hjálpa að halda. Vegna þess að fíkn er heilbrigðisvandamál, fíkn er ekki glæpur.


Fíkniefnastefna Pírata á piratar.is
Á kosningakerfinu okkar má lesa ályktanir Pírata í fíkniefnamálum ásamt vísunum í ítarefni.

ESB í höndum upplýstrar þjóðar.

(grein birtist í Fréttablaðinu 11.04. 2013)
Fólk spyr mig gjarnan hver afstaða Pírata sé gagnvart ESB. Það er skoðun mín, og margra annarra pírata, að stjórnmálaflokkar eigi ekki að vera með eiginlega afstöðu með eða á móti ESB. Sumir kunna að halda að þannig séum við að forðast þetta gríðarlega mikilvæga mál, en svo er ekki. Á meðal grunngilda pírata er gagnsæi og beint lýðræði.

Gagnsæi snertir málið á þann hátt að allt viðræðuferlið á að vera opið og á almenningur rétt á því að vera vel upplýstur um allt sem því við kemur svo hann geti tekið vel upplýsta ákvörðun. Við viljum veita upplýsingar hvort sem þær eru jákvæðar eða neikvæðar í garð sambandsins. Ef ég veiti þér eftirfarandi upplýsingar: „það er rigning úti og maður verður blautur í henni“ eða „það er sól úti og það er mjög heitt“ þá er ég ekki að segja þér hvort þú eigir að vera inni eða úti heldur er ég einfaldlega að veita þér upplýsingar til þess að þú getir tekið þína eigin upplýstu ákvörðun.

Síðan tekur beina lýðræðið við. Þegar á hólminn er komið, búið að ganga úr skugga um að allar upplýsingar liggi fyrir og almenningi hefur verið gefinn tími til að móta sína skoðun þá er málið sett í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu.
Það er aftur á móti hlutverk stjórnmálaflokka að vera vel undirbúnir fyrir hvora niðurstöðuna sem er og vita hvað tekur við að þjóðaratkvæðagreiðslu lokinni hvort sem fólkið í landinu segir já eða nei. Þetta mál á fyrst og síðast heima í höndum vel upplýstrar þjóðar og ætla Píratar að sjá til þess að svo verði.