Birgitta

Ég er fædd í Reykjavík þann 17. apríl 1967. Ég hef búið víðsvegar um landið en lengsta viðvera mín var í Þorlákshöfn, þar bjó ég í átta ár þegar ég var krakki. Ég hef unnið allskonar störf, fékk fyrstu vinnuna mína þegar ég var átta ára og hef unnið við allt á milli himins og jarðar.Pabbi minn Jón Ólafsson var elskaður og virtur skipstjóri og meira að segja aflakóngur áður en hann lést 1987. Mamma mín Bergþóra Árnadóttir var fyrsta trúbatrixa Íslands sem ruddi veginn fyrir aðrar konur í tónlistarbransanum. Ég hef sennilega alltaf verið nörd, vaknaði alltaf klukkan fimm á morgnana til að lesa eina bók áður en ég fór í skólann, þegar ég var í barnaskóla og var alltaf tveimur númerum of stór miðað við aldur að sögn mömmu.

Ég ákvað að stefna að því að verða Skáld þegar ég yrði stór og fyrsta ljóðabókin mín kom út hjá AB þegar ég var rétt skriðin yfir tvítugt, ég var líka yngsta skáldið í skólaljóðum hinum nýrri. Ég málaði líka á þessum árum og hélt fullt af einkasýningum og þótti líka góð leikkona.

Ég er kannski alltaf nokkrum árum á undan samtíma mínum því ég var líka fyrsta íslenska konan til að fara út í það að spinna vefi á alnetið árið 1995, fékk meira að segja eina bikarinn minn fyrir besta persónulega vefinn árið 1996. Þá stóð ég fyrir fyrstu beinu mynd- og hljóðútsendingunni á Internetinu árið 1996 með verkefninu Drápa. En nóg af fyrst að gera eitthvað, það sem skiptir höfuðmáli er að ég hef alltaf látið samfélag mitt mig varða og gert mitt besta til að hafa áhrif á það. Fékk þá flugu í hausinn þegar ég var ung að árum að eina leiðin til að fá að upplifa draumasamfélagið mitt væri að taka þátt í að þróa það og taka þátt. Það hef ég ekki gert í gegnum stjórnmálaflokka heldur með því að vera aðgerðarsinni.

Ég er sérvitur og þoli illa að eyða tíma mínum í að gera eitthvað sem mér finnst gagnlítið að læra. Því varð það úr að ég hætti í menntaskóla og ákvað að sjálfmennta mig í nákvæmlega því sem mér fannst gagnlegt. Að sjálfmennta sig krefst mikils sjálfsaga og hugsjónar gagnvart þeirri leið sem valin er í lífinu. Ég ætlaði bara að verða Skáld en hef eiginlega engan tíma til að sinna skáldagyðjunni eftir að ég datt óvænt inn á þing árið 2009.

Ég hef alltaf verið mannlegt tilraunadýr á kerfisgöllum og það hefur nýst mér mjög vel á Alþingi. Ég hef gert allt sem í mínu valdi stendur til að byggja nýjar undirstöður undir samfélagið mitt eftir hrun, og þegar ég lít yfir þessi fjögur ár þá er ljóst að ég hef áorkað töluvert miklu þrátt fyrir að hafa tilheyrt minnsta flokknum á þingi. Ég er einna stoltust að því að hafa náð í gegn breyttum vinnubrögðum og hefðum á löggjafarþinginu sem kristallast einna helst í því að ná í gegnum þingið einróma þingsályktun um að Ísland myndaði sér afgerandi lagalega 21 aldar sérstöðu á sviði, upplýsinga-, tjáningar- og málfrelsi. Sjá nánar á vef Menntamálaráðuneytisins.

Aðkoma mín að stofnun og mótun (Borgara)Hreyfingarinnar var mjög lærdómsrík og mig langar að miðla reynslu minni á Alþingi til annarra Pírata og gaf þess vegna kost á mér í eitt kjörtímabil lengur. Það er engum hollt að sitja lengur samfellt á Alþingi en tvö kjörtímabil.

Ég sit í allskonar stjórnum og hef verið virk í allskonar félagasamtökum, þar ber helst að nefna: WikiLeaks, InPat, Vinir Tíbets á Ísland, Saving Iceland og IMMI.

Ég hef mikla ástríðu gagnvart því að skapa betra samfélag og það er bara hægt ef réttar forsendur byggðar á réttum upplýsingum eru til staðar. Mér finnst mikilvægt að taka þátt í því að koma til móts við 21 aldar veruleika lýðræðisþróunar og eins og stendur þá eru Píratar eina stjórnmálaaflið sem er með leið til þess að byggja alvöru brú á milli þjóðþings og þjóðar. Ég vil taka þátt í að búa til stjórnmálaafl sem hefur getu, hugrekki og dug til að hugsa til framtíðar og langt út fyrir hin hefðbundnu box stjórnmála.

Yfirlit yfir þingstörf Birgittu

birgitta.is

birgittaj@althingi.is