,,Umhverfi okkar er að breytast og við verðum að vera óhrædd við að breytast líka”

Halldóra Mogensen, varaþingmaður, hefur tekið sæti á Alþingi í fjarveru Helga Hrafns, sem situr 71. þing Sameinuðu þjóðanna í New York. Halldóra kvaddi sér hljóðs í störfum þingsins í gær og ræddi stefnu Pírata og framtíðarsýn.

 

Herra forseti. Við Píratar stefnum að róttækum breytingum í samfélaginu, raunverulegum kerfisbreytingum. Við erum hugsjónafólk sem er annt um lýðræði og frelsi og viljum nýta tækifærin sem þessi öld upplýsinga og tækniframfara býður upp á til að skapa hér frjálsara og öflugra þátttökusamfélag. Við sækjumst ekki eftir valdi heldur eftir leiðum til að dreifa valdinu og þannig vinna gegn sérhagsmunum og spillingu. Nú eru að koma kosningar og ég er ótrúlega spennt fyrir þeim verkefnum sem Píratar vilja vinna að, að koma á nýrri stjórnarskrá, að efla beint lýðræði, að styrkja upplýsinga- og tjáningarfrelsi, að auka gagnsæi í stjórnsýslu, opna öll kerfin, gera þau aðgengileg og endurskoða frá grunni á heildrænan hátt með samráði við þjóðina.

Ég vona svo innilega að við verðum nægilega mörg á þessum vinnustað sem deilum þessum hugsjónum, hvort sem það eru Píratar eða ekki, það skiptir ekki öllu máli. Umhverfi okkar er að breytast og við verðum að vera óhrædd við að breytast líka. Breytingar eru eðlilegar og góðar. Þær eru forsendaHalldóra Mogensen þróunar og án breytinga verður stöðnun. Eins og staðan er núna hafa sérhagsmunir allt of mikil ítök og verða því allar breytingar óverulegar og í raun hálfgerður sýndarleikur. Það er nákvæmlega það sem við sjáum með þau stóru frumvörp sem er verið að hraða í gegn á lokametrum þingsins.

Við þurfum að fara af þessari braut ef við viljum blómstra sem samfélag og vinna að sameiginlegum markmiðum með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Við Píratar munum koma til með að setja hjarta okkar og sál í þau mikilvægu verkefni sem eru fram undan og við vonum svo innilega að sem flestir verði með okkur og taki þátt í þessu ferðalagi.