,,Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.”

Helgi Hrafn hélt sína síðustu ræðu á Alþingi á föstudaginn 7. október sl. en hann er nú á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York. Í ræðu sinni sagði Helgi Hrafn að hann myndi áfram fylgjast með gangi mála á þinginu þegar hann hverfur frá þeim vettvangi, en ítrekaði tillögu sína sem hann hefur margoft borið fram á þinginu: ,,Þá er í rauninni bara eitt sem mig mun vanta, það er aðgangur að nefndafundum, ekki að samtölum þingmanna sín á milli heldur samtölum þeirra við gesti.”

Lauk hann ræðu sinni á eftirfarandi orðum: ,,Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.”

Virðulegi forseti. Á sunnudaginn flýg ég til Bandaríkjanna á allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna. Þetta er því minn síðasti þingfundur á kjörtímabilinu. Þar sem ég er ekki í framboði í komandi kosningum langar mig til að nýta þetta tækifæri til að kveðja og þakka fyrir mig.

Af stórum breytingum í lífinu hef ég lært að hið eftirtektarverða, hið áhugaverða og hið mikilvæga í hverri lífsreynslu sést ekki endilega fyrr en að einhverjum tíma liðnum. Á þessum tímapunkti veit ég því ekki nákvæmlega hvað ég mun hafa lært um lífið og veröldina af tíma mínum hér. En ég get þó sagt strax að ég hlakka til þess að líta til baka því að reynslan hér hefur verið óhemjudýrmæt og reyndar ómetanleg. Það sé ég nú þegar. Hitt er að ég mun sakna þess fólks sem ég hef starfað með hér á Alþingi en sömuleiðis þess fólks sem ég hef ekki beinlínis starfað með en hef haft þann heiður að kynnast. Kannski finnst sumum það skrýtið, en eitt af því sem mér hefur þótt með því skemmtilegra við þingstörfin er að lesa þingmál og innsendar umsagnir. Ég efast um að margt fólk átti sig á því hvers konar hafsjór fróðleiks fyrirfinnst í þingskjölum Alþingis og sérstaklega innsendum erindum. Það hefur því gerst alloft þegar ég hef átt að vera í meintu fríi að ég kíki inn á alþingisvefinn mér til dægradvalar. Þótt ég hyggist heldur betur njóta þess að vera ekki þingmaður á næsta kjörtímabili þykir mér fyrirséð að ég eigi eftir að taka uphelgi-articlep á þessu jafnvel bara til að þjálfa flokksmenn mína í að finna veg sinn í frumskóginum sem birtist manni ef maður ratar ekki um þingskjölin.

Þá er í rauninni bara eitt sem mig mun vanta, það er aðgangur að nefndafundum, ekki að samtölum þingmanna sín á milli heldur samtölum þeirra við gesti. Með þingreynslu í farteskinu get ég fullyrt að ég er nokkuð vel í stakk búinn til að kynna sér langflest mál á þinginu, þó fyrir utan þetta eina atriði.

Ég hef nú stungið upp á því einu sinni eða tvisvar að þessir fundir verði að jafnaði opnir, en nú þegar ég sé fram á að verða óbreyttur borgari eftir að hafa verið þingmaður sé ég betur en nokkru sinni fyrr hversu miklu það mundi muna fyrir getu borgarans til að komast inn í málin sem hér eru til umfjöllunar. Við lögðum reyndar fram frumvarp þess efnis á yfirstandandi þingi á þskj. 882. Ég vona, og býst reyndar við því, að aðrir þingmenn muni halda því máli á lofti á næsta kjörtímabili.

Virðulegi forseti. Kæru þingmenn og kæra starfsfólk Alþingis. Mig langar til að þakka ykkur öllum fyrir þennan tíma, fyrir samstarfið og samveruna á þessu kjörtímabili. Virðulegum forseta vil ég þakka sérstaklega og óska velfarnaðar.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)