Sérstakar umræður um áhrif málshraða við lagasetningu

Á morgun klukkan 11:00 verða sérstakar umræður um áhrif málshraða við lagasetningu. Málshefjandi er Birgitta Jónsdóttir og til andsvara verður forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson.BJ 5

Í kjölfar skýrslu Umboðsmanns Alþingis kom Umboðsmaður á opinn fund Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis til að fara yfir efni skýrslunnar. Í nefndaráliti Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í framhaldi fundarins segir meðal annars:

Umboðsmaður Alþingis vakti jafnframt athygli nefndarinnar á því að til hans hefðu leitað forstöðumenn opinberra stofnana hér á landi og kvartað yfir því að lítið færi fyrir samráði milli ráðuneytis og stofnana sem þeir standa fyrir, m.a. varðandi undirbúning löggjafar á því sviði sem viðkomandi stofnun starfar á, fyrirkomulag starfsemi stofnunar eða að erindum stofnana væri ekki sinnt hjá ráðuneytum.

Fyrir nefndinni var rætt um að áveðin fagleg þekking væri í kerfinu sem ætti að nýtast stjórnmálamönnum, bæði hjá sveitarfélögum og ríkinu, sem koma til starfa og vilja setja mark sitt á stefnumörkun á ákveðnu sviði. Sé ekki gætt að því að sækja hina faglegu þekk­ingu er hætta á að réttarörygginu sem kerfinu er ætlað að þjóna sé fyrir bí.

Jafnframt var rætt um undirbúning og gæði lagasetningar með hliðsjón af umræðu um fagþekkingu innan stjórnsýslunnar. Fram komu sjónarmið um að undirbúningur nýrrar löggjafar væri oft of hraður í íslenskri stjórnsýslu en að nauðsynlegt væri að fagþekkingin innan stjórnsýslunnar skilaði sér til þingsins í formi lagafrumvarpa. Fram komu sjónarmið um að íslensk stjórnsýsla gæti almennt, og einnig í þessum efnum, litið til fyrirmynda í nor­rænni stjórnsýslu og verklags þar. Umboðsmaður Alþingis vakti hins vegar athygli nefndar­innar á að í íslenskri stjórnsýslu hefur dregið úr slíkum tengslum.

Munu umræðurnar taka til undirbúnings löggjafar í íslenskri stjórnsýslu; pólitísks þrýstings á málshraða við þinglok; ráðgjafaskyldu og fagþekkingar innan stjórnsýslunnar; samskipta stjórnmálamanna og embættismanna; og eflingar norræns samstarfs.