Aðstöðumun í þinginu misbeitt

Birgitta Jónsdóttir tók til máls í þinginu til að ræða starfsáætlun þingsins og þann aðstöðumun sem fyrir liggur, þar sem minnihlutinn verður að standa vaktina í þinginu og rækja sitt aðhalds- og eftirlitshlutverk á meðan að stjórnarflokkarnir geta nýtt sér aðstöðumuninn í krafti síns þingmeirihluta og mætingin á þingið eftir því. Þá er einnig aðstöðumunur þegar kemur að fjármunum og kallaði Birgitta eftir því að fjárútlát ríkisins til stjórnmálaflokka yrðu endurskoðuð á komandi kjörtímabili þar sem aldrei hafa komið greinargóðar útskýringar á því hvers vegna stjórnmálaflokkur þurfi til að mynda 80 milljónir króna á ári til að reka sig. Það sé í raun og veru óeðlilegt þar sem fjárframlög geti breyst mikið og skyndilega og flokkar því komið sér í miklar skuldir.

Forseti. Mér finnst mjög mikilvægt að þingmenn átti sig á að við erum komin fram yfir starfsáætlun. Ekki fyrstu starfsáætlun heldur þá síðari. Tíminn er í raun á þrotum. Það kom í ljós í gær að ekki voru nægilega margir þingmenn meiri hlutans í húsi svo hægt væri að halda atkvæðagreiðslu. Auðvitað er það svo að þingmenn þurfa allir sem einn, sem ætla sér að gefa kost á sér fyrir þessar kosningar, að fá tækifæri til að fara út í kjördæmi sín og tala við kjósendur, tala við almenning og útskýra á ítarlegan hátt hvað þeir ætla að gera eftir kosningar. En það er ekki jafnræði þegar hinn mikli meiri hluti, sem hefur margfalt fleiri þingmenn en minni hlutinn, nýtir sér aðstöðumuninn og er ekki hér þegar þingmenn minni hlutans þurfa að standa vaktina. Það er ekki bara aðstöðumunur varðandi mætingu heldur líka varðanBJ 5di fjármuni. Nú hef ég margoft gagnrýnt hversu mikla peninga stjórnmálaflokkar veita sér út frá stærð. Ég vona svo sannarlega að þessi mikli fjárstuðningur ríkisins við stjórnmálaflokka verði endurskoðaður á næsta kjörtímabili. Það er ljóst að ekki hefur verið greint almennilega af hverju stærstu flokkarnir þurfa til dæmis 80 millj. kr. á ári til að reka sig. Það er bara ekki alveg ljóst. Það þýðir að þegar fylgi breytist stofna þeir oft til gríðarlega mikilla skulda, sem er ekki gott fordæmi ef við ætlum að vera hér í forsvari fyrir (Forseti hringir.) þjóðina. Við ættum frekar að koma með aðra tegund fordæmis.