Utanríkisráðherra sér ekkert athugavert við sniðgöngu þings og þjóðar

Birgitta spurði utanríkisráðherra út í ræðu ráðherra á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og kallaði hún eftir skoðun ráðherra á þeim gjörningi fyrrverandi utanríkisráðherra að slíta viðræðum við Evrópusambandið án aðkomu þings og þjóðar. Benti hún á í þessu samhengi að núverandi utanríkisráðherra hefði í ræðu sinni lagt áherslu á mikilvægi réttarríkisins, stöðugleika og góðra stjórnarhátta sem Ísland hefði í hávegum. En Birgitta spurði ráðherra hvað henni ,,finnst um þann gjörning þegar fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra sniðgekk ekki bara sín eigin loforð gagnvart þjóðinni heldur líka þingið þegar var farið til Brussel og stöðvaðar aðildarviðræður Íslands við Evrópusambandið. Er það stöðugleiki og virðing fyrir réttarríkinu?”

Ráðherra sagði að fólk ætti ekki að hræðast þjóðaratkvæðagreiðslur en virtist ekki telja gjörning forvera hennar alvarlegan vegna þess að stjórnarflokkarnir höfðu ekki áform um aðild að Evrópusambandinu.

Vert er að benda á í þessu samhengi ítrekaðar yfirlýsingar núverandi stjórnarflokka um þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir kosningar 2013.

Birgitta spurði þá ráðherra hvort henni finndist ,,ekki vegið að grundvallarstoðum réttarríkisins þegar tekinn er einn gjörningur sem á lagaformlega að fara í gegnum Alþingi en ekki vera duttlungum ráðherra háður”?

Ráðherra svaraði aftur á sömu leið, eins og sjá má hér að neðan.

Birgitta Jónsdóttir:

Forseti. Hæstv. utanríkisráðherra Lilja Alfreðsdóttir gerði menntun og baráttu fyrir bættu stjórnarfari og virðingu fyrir réttarríkinu að meginefni ræðu sinnar á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York 24. þessa mánaðar. Þetta var prýðileg ræða en mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um það hvernig hún hyggst beita sér fyrir því að slík virðing gagnvart réttarríkinu og stjórnarfari eigi sér stað hérlendis.

Í þessu samhengi vék utanríkisráðherra m.a. að átökum í Sýrlandi og framlagi Íslands til flóttamannavandans en það er auðvitað alþekkt að þrátt fyrir að við tökum vel á móti kvótaflóttamönnum er ekki sama sagan gagnvart þeim sem sækja um hæli á Íslandi. Okkar saga í því samhengi er því miður ekki falleg. Það er bara þannig. Því fannst mér hæstv. ráðherra aðeins segja hálfa söguna þegar hún talaði um hvað Ísland væri frábært í þessu samhengi í ræðu sinni hjá Sameinuðu þjóðunum.

Utanríkisráðherra vék að mannréttindum og réttarríkinu og sagði að ef lög byggðu ekki á mannréttindum mundu þau aldrei njóta stuðnings almennings til langframa heldur sá fræi misréttis og grafa undan samfélagsgildum. Þannig gætu slæmir stjórnarhættir ógnað öryggi þjóða og valdið óstöðugleika. Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvað ráðherranum finnst um þann gjörning þegar fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra sniðgekk ekki bara sín eigin loforð gagnvart þjóðinni heldur líka þingið þegar var farið til Brussel og stöðvaðar aðildarviðræður Íslands við Evrópusambandið. Er það stöðugleiki og virðing fyrir réttarríkinu?

Utanríkisráðherra:

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir prýðisgóða yfirferð á ræðu minni hjá allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna síðastliðinn laugardag. Hún fór mjög vel yfir þá áherslupunkta sem ég var með í þeirri ræðu. Hún spyr hvernig við eigum að auka virðingu og bæta stjórnarfar og annað slíkt og ég held að þetta séu mjög góðar spurningar og gott að þær komi fram á Alþingi. Ég held til að mynda að góðar umræður hér og svona fyrirspurnatími sé af hinu góða og geti hjálpað okkur í þeim efnum. Auk þess spyr hv. þingmaður hvað mér finnist um gjörðir fyrirrennara míns er hann fór til Brussel og dró aðildarumsóknina til baka. Ég held að öllum eigi að vera ljóst að báðir stjórnarflokkarnir höfðu ekki í hyggju að halda þeim aðildarviðræðum áfram. Sjálfri finnst mér mjög mikilvægt að ef einhverju slíku verður haldið áfram þá fari hreinlega fram þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort við ætlum að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ég held að það sé mjög brýnt.

Það sem við eigum að gera líka, og ég hef sterka sannfæringu fyrir því — við eigum ekki að vera hrædd við að setja fleiri mál í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Birgitta Jónsdóttir:

Forseti. Það hefði verið ákaflega gagnlegt ef þeir sem voru í framboði fyrir síðustu kosningar fyrir Framsóknarflokkinn hefðu hreinlega látið kjósendur vita af því að það stæði ekki til að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu á þessu kjörtímabili og þeir sem mundu verða fulltrúar fyrir þennan flokk á þingi sæju ekkert athugavert við það að hunsa þingsályktun sem hefði verið samþykkt á Alþingi. Allir alþjóðasáttmálar okkar, allar alþjóðaskuldbindingar okkar eru í formi þingsályktana þannig að með BJ 5þessum gjörningi var verið að grafa undan réttarríkinu.

Ég spyr hæstv. ráðherrann í fullri einlægni hvort henni finnst ekki vegið að grundvallarstoðum réttarríkisins þegar tekinn er einn gjörningur sem á lagaformlega að fara í gegnum Alþingi en ekki vera duttlungum ráðherra háður, rétt eins og þegar ráðherrar ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar ákváðu að taka þátt í stríði (Forseti hringir.) án þess að eiga samráð við þingið.

Utanríkisráðherra:

Virðulegur forseti. Eins og ég segi var sú stefna sem báðir stjórnarflokkar framfylgdu í málinu í samræmi við grundvallarskoðun þeirra á þessu máli. Báðir þessir flokkar hafa ekki í hyggju að ganga í Evrópusambandið og stefnumótun þeirra á þeim tíma miðaðist við það. Ég held að það eigi ekki að koma hv. þingmanni neitt verulega á óvart.

(BirgJ: … einnar spurningar.) — Já, ég er að svara henni og takk kærlega fyrir spurninguna. Ég held að mjög gagnlegt sé að við eigum þessar umræður hér, það hjálpar réttarríkinu svo sannarlega. En eins og ég segi þá var þessi stefna í samræmi við stefnu stjórnarflokkanna og ætti svo sem ekki að koma verulega á óvart.