Helgi Hrafn: Beinni aðkoma almennings til eflingar lýðræðis

Helgi Hrafn kvaddi sér hljóðs í þinginu undir liðnum störf þingsins til að ræða minnkandi kosningaþátttöku og hvernig hægt sé að snúa þeirri þróun við til eflingar lýðræðisins. Hvatti Helgi til þess að nútímatækni yðri nýtt til þess að efla þátttöku almennings í ákvarðanatöku.

Virðulegi forseti. Minnkandi kosningaþátttaka er áhyggjuefni sem hefur orðið alvarlegra núna í dágóðan tíma. Ýmsar tilgátur og kenningar eru um hvers vegna það sé. Í stuttu máli er algengasta skýringin sem ég heyri einfaldlega áhugaleysi á stjórnmálum. Ekki að það sé of erfitt eða flókið að mæta á kjörstað, það er bara einlægt áhugaleysi. Svo er mér sagt í það minnsta af fólki sem á að þekkja til.

Nú er sjálfsagt hægt að fara í langa og mikla umræðu um hvað sé hægt að gera í því. En ég tel að eitt af því sem gerir að verkum að fólk missir trúna á stjórnmálunum og að hluta til á lýðræðinu í kjölfarið sé að það upplifi að skoðanir þess skipti ekki máli, að það skipti ekki máli hvað það kjósi því að í raun ráði stórar öldur ferðinni fremur en eitt og eitt atkvæði.helgi-article

Því mundi ég telja að leiðin fram á við til að öðlast trú á stjórnmálunum og lýðræðinu sjálfu væri að við einbeittum okkur að því í framtíðinni að gefa kjósandanum betri tækifæri til að hafa áhrif, beinlínis, á gang mála, ekki bara hvaða fólk situr hér inni eða í ríkisstjórn heldur líka til að þróa hugmyndir eins og um það hvernig almenningur gæti forgangsraðað fjármagni. Í stað þess að við séum hér að rífast um hina eða þessa skoðanakönnunina eða hvernig við lítum á forgangsröðunina þá eru til leiðir með nútímatækni til að setja fram gögn og staðreyndir á gagnlegan hátt. Það er til tækni í dag til þess að leyfa fólki að hafa einhver áhrif á þetta, ekki öll áhrif, ég er ekki að leggja til að fjárlög verði í höndum almennings, ég er bara að segja að það eru leiðir til að efla þátttöku almennings í ákvarðanatöku í dag. Við höfum aldrei haft betri og fleiri tækifæri til þess. Við eigum að nýta þau tækifæri frekar en að leyfa þessari vondu þróun að halda áfram mikið lengur.